Hæstiréttur íslands

Mál nr. 409/2005


Lykilorð

  • Ómerking héraðsdóms
  • Dómur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. febrúar 2006.

Nr. 409/2005.

Djúpavogshreppur

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Ómerking héraðsdóms. Dómur.

Ágreiningur aðila stóð um hvort lagaheimild væri fyrir því að D greiddi til B-deildar L vegna sveitarstjóra D. Við úrlausn á þeim ágreiningi þurfti að skýra tiltekin ákvæði laga nr. 1/1997 um L, að teknu tilliti til eldri laga um sama efni. Til þessa ágreiningsefnis tók héraðsdómari afstöðu án þess að rökstyðja þá niðurstöðu með nokkrum hætti. Voru því ekki uppfyllt fyrirmæli f. liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Óhjákvæmilegt var að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 2005. Hann krefst þess að viðurkennd verði heimild sín til að greiða iðgjald til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna Björns Hafþórs Guðmundssonar, sveitarstjóra áfrýjanda, í samræmi við ákvæði 4. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningur aðila stendur um hvort lagaheimild sé fyrir því að áfrýjandi greiði til B-deildar stefnda vegna Björns Hafþórs Guðmundssonar, sveitarstjóra áfrýjanda. Við úrlausn á þeim ágreiningi þarf einkum að skýra 5. mgr. 4. gr. laga nr. 1/1997 og tengsl þeirrar málsgreinar við 3. mgr. sömu greinar að teknu tilliti til ákvæða eldri laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Til þessa ágreiningsefnis tók héraðsdómari  afstöðu án þess að rökstyðja þá niðurstöðu með nokkrum hætti. Eru því ekki uppfyllt fyrirmæli f. liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna þessa annmarka á hinum áfrýjaða dómi er óhjákvæmilegt að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur. Málinu er vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005.

             Mál þetta, sem dómtekið var 27. maí 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Djúpavogshreppi, kt. 570992-2799, Bakka 1, Djúpavogi gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins B-deild, kt. 430269-6669, Bankastræti 7, Reykjavík, með því að sótt var þing af hálfu stefnda við þingfestingu málsins 29. júní 2004.

Dómkröfur stefnanda eru að viðurkennd verði heimild hans til að greiða iðgjald til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna Björns Hafþórs Guðmundssonar, sveitarstjóra stefnanda, í samræmi við ákvæði 4. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru að sjóðurinn verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Helstu málavextir eru að stefnandi réð Björn Hafþór Guðmundsson sem sveitarstjóra Djúpavogshreppsins á árinu 2002.  Björn hafði áður starfað sem grunnskólakennari á Stöðvarfirði á árunum 1968 til 1982, sveitarstjóri Stöðvarhrepps á árunum 1982 til 1991, framkvæmdastjóri sambands sveitarfélaga á Austurlandi 1991 til 1998 og bæjarstjóri Austur-Héraðs 1998 til 2002.  Af hálfu stefnanda segir að Björn Hafþór hafi átt aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild, til febrúarloka 2003.

             Í bréfi Björns Hafþórs til stefnda 20. desember 2002, dskj. nr. 10, er vísað til þess að sveitarstjórn Djúpavogshrepps hafi samþykkt aðild sveitarfélagsins að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna lífeyrisgreiðslna hans, enda hafi það verið í samræmi við samkomulag, er gert hefði verið vegna ráðningar hans.  Og í bréfinu segir m.a.:

Undirritaður átti símtal við Arnfríði, starfsmann LSR í gær.

Í ljós hefur komið að LSR telur sig ekki geta tekið á móti lífeyrisgreiðslum v/undirritaðs í B-deild LSR vegna þess að Djúpavogshreppur mun ekki eiga almenna aðild að LSR, heldur eingöngu v/kennara, sem hófu að greiða í sjóðinn fyrir skipulagsbreytingu á kerfinu undir lok síðustu aldar. ...

Með vísun til þess að fram til þessa hefur undirritaður greitt allan starfsferill sinn (og þar af lengstan samfelldan starfstíma í 14 ár sem kennari á Stöðvarfirði), er þess eindregið óskað að LSR samþykki aðild hins aldna kennara að sjóðnum og þar með aðild Djúpavogshrepps að B-deildinni hvað einstaklinginn BJ. Hafþór Guðmundsson varðar. ...

Þann 20. janúar 2003 sendi stefndi stefnanda bréf, dskj. nr. 5.  Þar segir:

Vísa til erindis þíns til stjórnar LSR, dags. 5. janúar sl. þar sem farið er fram á að greiða áfram til B-deildar sjóðsins af starfi sveitastjóra á Djúpavogi.  Erindið var á dagskrá fundar stjórnar LSR þann 15. janúar sl.  Stjórnin hafnaði erindinu þar sem ekki er fyrir að fara lagaheimild til að verða við því.

Stefnandi byggir á því að hafa, bæði fyrir og eftir gildistöku laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997, haft heimild til að greiða iðgjöld til stefnda og vísar þar til 5. mgr. 4. gr. laganna.  Stefnandi hafi uppfyllt öll ákvæði laga nr. 29/1963 til að greiða iðgjöld vegna starfsmanna til stefnda.  Ákvæði 1. gr. laga nr. 98/1996 um breytingu á lögum nr. 29/1963 hafi öðlast gildi 1. ágúst 1996.  Samkvæmt því hafi stefnanda verið veitt formleg heimild til að greiða stefnda iðgjöld vegna starfsmanna sinna eins og mælt sé fyrir um í ákvæði 5. mgr. 4. gr. laga nr. 1/1997.  Ekki eigi sér stoð í lögum nr. 1/1997 að aðgreina skuli launagreiðendur á þann hátt að tiltekinn launagreiðandi geti haft heimild til að greiða vegna einhverra starfsmanna og um leið notið viðurkenningar sem slíkur en ekki vegna annarra starfsmanna.

             Þá er byggt á því að Björn Hafþór hafi átt aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild, um áratuga skeið.  Stefndi hafi enga hagsmuni af að hafna kröfu stefnanda.

Stefndi byggir á því að ekki sé heimilt að verða við kröfu stefnanda.  Aðild að B-deild sjóðsins hafi lokið við árslok 1996.  Stefnandi hafi ekki fyrir árslok 1996 fengið heimild til að greiða fyrir starfsmenn sína í sjóðinn, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 1/1997.  Heimild stefnanda til að greiða til B-deildar sé takmörkuð við kennara og skólastjórnendur.  Heimild til að greiða iðgjöld starfsmanna til B-deildar hafi verið fyrir hendi fyrir þau sveitarfélög sem sótt hefðu um það og fengið samþykki stjórnar sjóðsins á grundvelli 4. gr. laga nr. 29/1963.  Um hafi verið að ræða heimild fyrir stjórn sjóðsins, en stefnandi hafi ekki sótt um samþykki stjórnar sjóðsins, og hafi stefnandi því ekki haft aðild að sjóðnum í árslok 1996 nema fyrir kennara og skólastjórnendur.

Ályktunarorð:  Fallist verður á með stefnda að ekki sé lagaheimild fyrir því að stefnandi, Djúpavogshreppur, fái greitt iðgjald til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna Björns Hafþórs Guðmundssonar, sveitarstjóra stefnanda.  Stefndi verður því sýknaður af kröfum stefnanda, en rétt þykir að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

             Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

             Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins B-deild, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Djúpavogshrepps.

             Málskostnaður fellur niður.