Hæstiréttur íslands

Mál nr. 165/2007


Lykilorð

  • Hjón
  • Skilnaðarsamningur
  • Ógilding
  • Gjafsókn


         

Fimmtudaginn 6. mars 2008.

Nr. 165/2007.

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Hjón. Skilnaðarsamningur. Ógilding. Gjafsókn.

M og K gerðu með sér samning um fjárskipti vegna skilnaðar að borði og sæng sem staðfestur var hjá sýslumanni í september 2004. Með samningnum var vikið frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993. K krafðist ógildingar samningsins þar sem hann hefði verið bersýnilega ósanngjarn. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna, var tekið fram að fulltrúi sýslumanns hefði leiðbeint K um helmingaskiptaregluna en honum virst sem hún vildi ganga frá fjárskiptum á þann veg sem samningurinn kvað á um. Í ljósi yfirlýsingar aðila, sem dagsett var 1. september 2002, um vilja þeirra til að hlutdeild í nánar tilgreindri jörð yrði haldið utan skipta ef til skilnaðar kæmi, var talið að með fjárskiptasamningnum hefðu þau einungis verið að staðfesta það sem þegar hafði verið ákveðið um ráðstöfun þeirrar eignar. Í þessu ljósi og að teknu tilliti til efnis samningsins að öðru leyti um ráðstöfun eigna og skulda var ekki fallist á að samningurinn hefði verið bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma sem hann var gerður, sbr. 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga. Þá var ekki fallist á að víkja bæri samningnum til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. M var því sýknaður af kröfu K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. mars 2007. Hún krefst þess að samningur málsaðila um skilnaðarkjör vegna skilnaðar að borði og sæng, sem undirritaður var í viðurvist fulltrúa sýslumannsins í Borgarnesi [...] 2004, verði felldur úr gildi að öllu leyti. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 128. gr. og 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, K, greiði 420.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti er renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans 420.000 krónur.

         

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2007.

Mál þetta var höfðað 13. maí 2005 og dómtekið 12. desember 2006. Stefnandi er K, [...] í Reykjavík, en stefndi er M, [...] í Borgarnesi.

             Stefnandi gerir þá kröfu að samningur um fjárskipti málsaðila vegna skilnaðar að borði og sæng frá [...] 2004 verði felldur úr gildi að öllu leyti. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

             Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda og að henni verði gert að greiða málskostnað eins og mál þetta sé ekki gjafsóknarmál.

I.

             Málsaðilar hófu sambúð á árinu 1980 og gengu í hjúskap árið 1996. Aðilar eignuðust þrjú börn og eru tvö þeirra upp komin en það yngsta er á nítjánda ári. Stefnandi flutti af sameiginlegu heimili hjónanna í júlí 2004.

             Hinn [...] 2004 gaf sýslumaðurinn í Borgarnesi út leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng á milli hjónanna. Í leyfisbréfinu var tekið fram að samkomulag væri um fjárskipti vegna skilnaðarins samkvæmt samningi sama dag. Sá samningur er svohljóðandi um fjárskiptin:

Eignir búsins eru eftirtaldar:

1.         Parhúsið að V, Borgarnesi.

2.         Sumarbústaður Þ, Borgarbyggð.

3.             Eignarhluti (16,6666%) í jörðinni X, Borgarbyggð, (hluti í landi, ræktun, hlunnindum og útihúsum).

4.         Eignarhluti (20%) í íbúðarhúsi í Y, Borgarbyggð.

5.         Bifreiðin Æ, [...].

6.         Innbú og heimilistæki.

7.         Hlutafé í Bifreiða-/járnsmiðju Ragnars ehf., 500.000 kr.

Samkomulag er um að eignum og skuldum verði skipt þannig:

Í hlut M komi eftirtaldar eignir:

1.         Parhúsið að V, Borgarnesi.

         M tekur að sér að greiða áhvílandi veðskuldir sem eru þessar:

                Íbúðarlánasjóður, tvö lán hvort að höfuðstól 12.000 kr., eftirstöðvar um 45.000 kr.

                Sparisjóður Mýrasýslu, höfuðstóll 1.700.000 kr. eftirstöðvar 516.092 kr.

                KB banki hf., Borgarnesi, höfuðstóll 3.900.000 kr., eftirstöðvar 6.299.267 kr.

2.         Bifreiðin Æ, [...].

3.         Hluti innbús og heimilistækja samkvæmt samkomulagi.

4         Hlutafé í Bifreiða-/járnsmiðju Ragnars ehf.

Í hlut K koma eftirtaldar eignir:

1.         Hluti innbús og heimilistækja samkvæmt samkomulagi.

Meðan á hjúskap stóð höfðu undirrituð gert samkomulag um að kæmi til skilnaðar myndi sumarbústaður í Þ og eignarhluti í jörðinni X ekki koma til skipta heldur alfarið tilheyra M. Með samningi þessum er þetta staðfest og því er í raun ekki verið að skipta þessum hluta hjúskapareigna okkar.

Önnur atriði:

A.            M greiði K með peningum kr. 1.000.000 þann 1. október 2004.

B.            Ekki verður um greiðslu framfærslueyris né lífeyris að ræða meðan á skilnaði að borði og sæng stendur, né þegar til lögskilnaðar kemur.

C.            M greiði skuld við Bifreiða-/járnsmiðju Ragnars ehf. að eftirstöðvum um kr. 5.000.000 (var að eftirstöðvum um kr. 2.700.000 í árslok 2002) M og K eru í sjálfskuldarábyrgðum vegna skulda Bifreiða-/járnsmiðju Ragnars ehf. hjá Sparisjóði Mýrasýslu kr. 1.984.830 vegna skuldabréfs og vegna yfirdráttar að fjárhæð kr. 1.200.000 (yfirdrátturinn er nú um kr. 2.510.000 en K er í ábyrgðum samkvæmt víxli að fjárhæð kr. 1.200.000). M tekur þessar ábyrgðir alfarið á sig svo og aðrar ábyrgðir sem kunna að vera til staðar í þágu fyrrgreinds einkahlutafélags og verða þær K því óviðkomandi.

D.            M greiði yfirdrátt hjá KB banka hf., Borgarnesi, um kr. 200.000

E.             Opinber gjöld sem verða lögð á aðila eftir undirritun samnings þessa greiðir hvor aðili fyrir sig.

F.             Hvort hjóna ber ábyrgð á öðrum fjárskuldbindingum sem þau hafa stofnað til hvort um sig, þ.e. fjárskuldbindingar sem kunna að vera til staðar en hafa ekki verið tíundaðar í samningi þessum.

G.            Hvor aðili um sig heldur áunnum lífeyrisréttindum.

             Samningurinn var undirritaður af báðum málsaðilum. Auk þess var samningurinn áritaður af fulltrúa sýslumannsins í Borgarnesi um að aðilar hefðu í viðurvist fulltrúans undirritað samninginn. Einnig var tekið fram í árituninni að aðilar hefðu staðfest að samningurinn hefði að geyma vilja þeirra.

             Á grundvelli fjárskiptasamningsins undirrituðu málsaðilar skiptayfirlýsingu sama dag til að eignum yrði þinglýst á nafn stefnda. Fyrir skilnaðinn var stefnandi þinglýstur eigandi fasteignarinnar að V í Borgarnesi og jafnframt var hún að hálfu leyti á móti stefnda þinglýstur eigandi að sumarhúsi í landi X, auk tilheyrandi lóðarréttinda.

II.

             Hinn 4. desember 1998 var stefnda afsalað 1/6 hluta jarðarinnar X í Borgarbyggð, ásamt öllu sem tilheyrði jarðarhlutanum, þar með talið sama hlutfall allra eyja og skerja, sem og öll réttindi önnur. Undanskilið var íbúðarhús í eyjunni [...], en útihús féllu undir afsalið. Afsalsgjafar voru systkinin A, B, C og D. Í afsalinu var tekið fram að stefnda væri ekki heimilt að veðsetja eignarhluta sinn nema með samþykki seljenda og ekki selja hann nema bjóða seljendum forkaupsrétt. Einnig var tekið fram í afsalinu að sumarbústaður stefnda á eigninni félli ekki undir sameign að jörðinni.

             Málsaðilar undirrituðu yfirlýsingu, dagsetta 1. september 2002, um að þau hefðu ákveðið, kæmi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar, að hlutdeild í fasteigninni Y kæmi ekki til skipta heldur tilheyrði að öllu leyti stefnda. Þetta tæki einnig til sumarbústaðar ásamt tilheyrandi lóð, sem væri þinglýst eign beggja aðila, svo og hlutdeildar í jörðinni og annars sem kynni að vera í eigu þeirra á jörðinni. Í yfirlýsingunni var tekið fram að hún væri óafturkallanleg nema með samþykki beggja. Yfirlýsingin var vottuð af E og F um undirritun, rétta dagsetningu og fjárræði. Hinn [...] 2004 var yfirlýsingunni þinglýst á jörðina.

             Stefnandi heldur því fram að dagsetning umræddrar yfirlýsingar hafi misritast, en hún hafi ekki verið gerð árið 2002 heldur í september 2004, nokkru áður en gengið var frá samningi um fjárskipti og leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng var gefið út 16. þess mánaðar. Af hálfu stefnda er því andmælt að ársetning yfirlýsingarinnar hafi misritast og því haldið fram að yfirlýsingin hafi verið gerð þann dag sem skjalið greinir.

III.

             Samkvæmt fjárskiptasamningi málsaðila vegna skilnaðar að borði og sæng frá [...] 2004 kom hlutafé í Bifreiða-/járnsmiðju Ragnars ehf. að nafnverði 500.000 krónur í hlut stefnda. Þetta félag var stofnað um rekstur verkstæðis sem upphaflega var í eigu föður stefnda en stefndi tók síðan við. Starfaði stefnandi einnig hjá fyrirtækinu við bókhald þar til rekstrinum var hætt árið 2004 vegna veikinda stefnda.

             Helsta eign sem tilheyrði rekstrinum var iðnaðarhúsnæði að Ý í Borgarnesi. Með samþykktu kauptilboði [...] 2004 var fasteignin seld Sparisjóði Mýrasýslu og var kaupverðið 15.500.000 krónur. Þar af voru 6.921.553 krónur greiddar með yfirtöku á láni frá KB banka hf., en samtals 6.276.148 krónum af kaupverðinu var ráðstafað til greiðslu skulda hjá Sparisjóðnum. Eftirstöðvar kaupverðsins að fjárhæð 2.302.299 krónur voru síðan greiddar í reiðufé þegar gengið var frá kaupsamningi nokkru síðar.

             Í málinu liggur fyrir að verulegur hluti af kaupverði iðnaðarhúsnæðisins, sem ráðstafað var til greiðslu skulda við Sparisjóðinn, var vegna lána stefnda. Samkvæmt hreyfingarlista úr bókhaldi Bifreiða-/járnsmiðju Ragnars ehf. nam skuld stefnda við félagið 15. ágúst 2004 vegna úttekta á því ári 3.574.954 krónum. Þá kom fram í vætti E, starfsmanns Z., sem annaðist reikningshald fyrir félagið, að stefndi hafi yfirtekið 2,4 milljónir króna af skuldum þess í árslok 2003 vegna fjárúttekta úr fyrirtækinu. Svo sem komið hefur fram var skuld við félagið áætluð 5 milljónir króna í fjárskiptasamningi málsaðila.

             Eins og fram kemur í fjárskiptasamningnum voru aðilar í ábyrgðum fyrir Bifreiða-/járnsmiðju Ragnars ehf. Fyrir liggur að stefnandi hefur verið leyst undan þeim ábyrgðum í samræmi við samninginn.   

IV.

             Hinn 24. október 2004 fór stefnandi þess á leit að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta til söluverðs eignarhluta stefnda í jörðinni X, sumarhús á jörðinni og fasteignina að V í Borgarnesi. Var þess óskað að eignir yrðu metnar miðað við verðlag í september 2004. Til að taka saman matsgerðina var G, löggiltur fasteignasali, dómkvaddur 24. nóvember sama ár.

             Matsmaður skilaði matsgerðinni 27. apríl 2006 og er þar að finna lýsingu á eignunum án þess að efni séu til að rekja það nánar. Niðurstaða matsmannsins um verðmæti eigna var eftirfarandi:

1.        Eignarhluti í jörðinni X              kr.              7.000.000

2.        Sumarhús í Þ              kr.              4.000.000

3.        V                          kr.              12.000.000

Í matsgerðinni er tekið fram að eignir séu metnar í samræmi við matsbeiðni miðað við verðlag í september 2004.

V.

             Stefnandi reisir kröfu sína um ógildingu fjárskiptasamnings málsaðila vegna skilnaðar að borði og sæng frá [...] 2004 á því að samningurinn hafi bersýnilega verið ósanngjarn, sbr. 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Til stuðnings þessu bendir stefnandi á að nánast allar eignir þeirra hjóna hafi komið í hlut stefnda. Einnig bendir stefnandi á að töluvert af skuldum hafi stafað af fyrirtækjarekstri stefnda og því ekki átt að teljast hluti af fjárskiptum málsaðila.

             Stefnandi heldur því fram að allar eignir hafi ekki verið taldar fram við fjárskiptin. Þannig hafi til að mynda verið skráður á nafn stefnda hraðbátur, sem keyptur var í Bandaríkjunum meðan á hjónabandinu stóð. Einnig telur stefnandi hugsanlegt að fleiri eignir hafi verið fyrir hendi sem hún hafi ekki vitað um. Í því sambandi bendir stefnandi á að hún hafi ekki haft aðgang að fyrrum heimili málsaðila til að afla upplýsinga þar að lútandi.

             Stefnandi telur að yfirlýsing milli málsaðila um að hlutdeild í jörðinni X og sumarbústaður í landi jarðarinnar skyldi koma óskipt í hlut stefnda við skilnað hafi ekkert gildi. Hér sé ekki um kaupmála að ræða þar sem verðmæti hafi verið gerð að séreign stefnda og því hafi ekki átt að leggja yfirlýsinguna til grundvallar í fjárskiptasamningi aðila. Einnig heldur stefnandi því fram að í aðdraganda skilnaðarins hafi hún þurft að þola hótanir í sinn garð frá stefnda, en það hafi meðal annars valdið því að hún hafi verið í miklu andlegu ójafnvægi þegar gengið var frá yfirlýsingunni í [..] 2004. Það sama eigi einnig við um ástand hennar 16. sama mánaðar þegar hún samþykkti skilnaðarkjör með fjárskiptasamningi aðila og leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng var gefið út. Hafi hún í raun ekki gert sér neina grein fyrir að hún var að semja af sér með því að víkja verulega frá meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti.

             Loks heldur stefnandi því fram að forsendur fyrir fjárskiptasamningi aðila hafi brostið vegna eftirfarandi aðgerða stefnda sem falist hafi í því að hann neitaði stefnanda um að sækja persónulegar eigur sínar og muni úr innbúi sem henni hafi borið samkvæmt samkomulagi aðila. Telur stefnandi að þetta hafi breytt grundvelli samningsins þannig að hann teljist ósanngjarn vegna atvika sem síðar komu til, sbr. 36. gr. samningalaga.

VI.

             Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1991, sé ekki fullnægt, enda hafi með engu móti verið leitt í ljós að fjárskiptasamningur aðila vegna skilnaðar að borði og sæng hafi bersýnilega verið ósanngjarn á þeim tíma sem til hans var stofnað. Þvert á móti hafi samningurinn verið tekinn saman af lögmanni í þágu beggja málsaðila og í samræmi við fyrirmæli þeirra. Við samningsgerðina hafi stefnandi virt fyrri skuldbindingu sína frá 1. september 2002 um að eign stefnda í X og Þ yrði haldið utan skipta. Hafi þetta helgast af því að stefndi fékk þessa eign frá skyldmennum sínum gegn því að jarðarhlutinn yrði í eigu stefnda og skyldmenna hans.

             Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi gengist undir skiptin vitandi að ekki væri um helmingaskipti að ræða og því geti hún ekki borið fyrir sig nú að samningurinn hafi af þeim sökum verið bersýnilega ósanngjarn þegar til hans var stofnað. Strangar kröfur séu gerðar til að krafa þess efnis verði tekin til greina og hvíli sönnunarbyrði á stefnanda um þau atriði sem valdið geta því að samningurinn teljist ósanngjarn.

             Stefndi mótmælir fullyrðingum í þá vera að skuldir, sem hann yfirtók við fjárskiptin, hafi verið stefnanda óviðkomandi. Þvert á móti hafi verið um að ræða sameiginlegar skuldir málsaðila, sem þeir hafi verið einhuga um að kæmu undir skiptin og hefðu áhrif á þann búshluta sem kæmi í hlut hvors um sig. Þá bendir stefndi á að fram hafi komið í málinu að skuldirnar, sem féllu á hann, hafi í raun verið hærri en lagt hafi verið til grundvallar í fjárskiptasamningi aðila og því hafi hann komið verr út úr skiptunum sem því nemur.

             Stefndi andmælir því að forsendur samningsins um fjárskiptin hafi brostið og kannast ekkert við að hafa neitað stefnanda um aðgang að heimili sínu til að sækja innbú og heimilistæki. Þvert á móti hafi hún sótt allnokkurt magn muna, auk þess sem stefndi hafi boðið henni að koma og sækja það sem hún teldi sig þurfa. Hafi stefnandi á hinn bóginn ekki lengur áhuga á búslóðinni sé það hennar mál og geti með engu móti haggað gildi samningsins þannig að 36. gr. samningalaga geti átt við í málinu.

             Stefndi vísar því á bug að um frekari eignir hafi verið að ræða, sem falla hefðu átt undir skiptin. Í því sambandi bendir stefndi á að bátur, sem stefnandi hafi nefnt, tilheyri X, enda sé nauðsynlegt að hafa bát til að komast að eigninni, sem er fjöldi eyja út frá [...]. Samkvæmt þessu falli báturinn undir yfirlýsingu aðila frá 1. september 2002 um eignarhald stefnda á X og því sem fylgi landinu. Þar fyrir utan tekur stefndi fram að báturinn sé verðlaus. Aðrar eignir hafi stefnandi ekki nefnt og því telur stefndi að ekki verði frekar fjallað um þennan þátt málsins. 

VII.

             Hinn [...] 2004 gerðu aðilar með sér samning um fjárskipti vegna skilnaðar að borði og sæng. Sama dag var samningurinn staðfestur af sýslumanninum í Borgarnesi og leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng gefið út. Með málsókninni freistar stefnandi þess að fá samninginn felldan úr gildi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, og var málið höfðað innan málshöfðunarfrests í sömu lagagrein. Einnig reisir stefnandi málatilbúnað sinn á 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógildi löggerninga, nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.

             Samkvæmt fjárskiptasamningnum komu allar eignir í hlut stefnda gegn því að hann yfirtæki allar skuldir og greiddi stefnanda 1.000.000 króna. Þegar samningurinn er virtur í heild sinni í ljósi matsgerðar um verðmæti helstu eigna, sem samningurinn tekur til, fer ekki milli mála að hann felur í sér verulegt frávik frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga. Hér gildir hins vegar reglan um samningsfrelsið og því er hjónum heimilt að ráðstafa hagsmunum sínum við fjárslit vegna skilnaðar eins og þau sjálf kjósa. Þessu frelsi eru þó takmörk sett ef samningur er bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma þegar til hans var stofnað, sbr. 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga, auk þess sem ógildingarreglur samningaréttar geta átt við.

             Hvort samningur hjóna um fjárskipti vegna skilnaðar telst bersýnilega ósanngjarn verður ekki eingöngu metið eftir hlutlægum mælikvarða um verðmæti þess búshluta sem hvort hjóna ber úr býtum við skiptin. Verður jafnframt að virða samninginn með hliðsjón af aðdraganda að gerð hans, stöðu aðila og annarra atvika máls.

             Stefnandi heldur því fram að í aðdraganda skilnaðarins hafi stefndi haft í hótunum við sig og beitt miklum þrýstingi til að hún samþykkti að gengið yrði frá skiptunum á þann veg sem gert var í fjárskiptasamningi aðila. Þetta hafi valdið miklu andlegu ójafnvægi hjá stefnanda og haft áhrif á hana þegar samningurinn var gerður. Hafi stefnandi ekki séð sér annað fært á þessum tíma en að ganga að þessum afarkjörum, auk þess sem stefnandi hafi í raun ekki gert sér grein fyrir að hún væri að semja af sér.

Í málinu liggur fyrir að H, héraðsdómslögmaður í Borgarnesi, ritaði samninginn. Fyrir dómi lýsti lögmaðurinn því að hann hefði eingöngu tekið að sér að setja upp samninginn í samræmi við fyrirmæli aðila. Þannig hefði lögmaðurinn ekki ætlað að neinu leyti að hafa áhrif á efni samningsins og var á honum að skilja að hann hefði ekki tekið að sér að gæta hagsmuna annars hvors aðila við skilnaðinn. Þá sagðist H ekki vita til að stefnandi hafi verið undir óeðlilegum þrýstingi af hálfu stefnda á þessum tíma. Hjá sýslumanninum í Borgarnesi fór I, löglærður fulltrúi sýslumanns, með skilnaðarmál aðila. Í vitnisburði fulltrúans fyrir dómi kom fram að stefnandi hefði við skilnaðinn verið æst og greinilega undir álagi, eins og algengt væri hjá fólki við þessar aðstæður. Hins vegar taldi fulltrúinn að ekkert hefði komið fram sem benti til að stefndi hefði reynt að hafa óeðlileg áhrif á stefnanda. Þá sagðist fulltrúinn hafa rætt við stefnanda um að á hana hallaði í samningnum og leiðbeint henni um helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Taldi fulltrúinn að stefnandi hefði gert sér fulla grein fyrir þessu og sagt að þannig vildi hún ganga frá fjárskiptum við skilnaðinn.    

             Að því virtu sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að stefndi hafi haft í hótunum við hana eða á einn eða annan veg beitt stefnanda óeðlilegum þrýstingi til að fallast á fjárskiptasamning aðila. Þá hefur löglærður fulltrúi sýslumanns lýst því fyrir dómi að rækilega hafi verið gætt leiðbeiningarskyldu gagnvart stefnanda þegar samningurinn var staðfestur hjá sýslumanni, en þar fyrir utan hafði stefnandi aðgang að þeim lögmanni sem tók saman samninginn og var í lófa lagið að leita sér ráðgjafar annars staðar, ef hún taldi þess þörf. Verður heldur ekki hjá því litið að stefnandi hefur áralanga reynslu af störfum við fjármál og mátti vera fyllilega ljóst hvað fólst í þeim samningi sem hún gekkst undir.

             Fyrir skilnað höfðu málsaðilar undirritað yfirlýsingu um að hlutdeild í jörðinni X og sumarbústað í landi jarðarinnar yrði haldið utan skipta og félli í hlut stefnda kæmi til skilnaðar. Þessi yfirlýsing gat vissulega ein og sér ekki haft þau réttaráhrif að farið yrði með þessar eignir sem séreign stefnda, líkt og kaupmáli hefði verið gerður í samræmi við ákvæði XII. kafla hjúskaparlaga. Með því að staðfesta yfirlýsinguna í fjárskiptasamningi aðila gekkst stefnandi á hinn bóginn með samningnum sjálfum undir þá skuldbindingu sem fólst í efni yfirlýsingarinnar. Yfirlýsingin er dagsett 1. september 2002 og er hún vottuð af tveimur vitundarvottum um undirritun aðila og rétta dagsetningu. Þetta hafa báðir vottarnir staðfest fyrir dómi. Að þessu gættu verður ekki talið að stefnandi hafi sannað að yfirlýsingin hafi verið gerð á öðrum tíma en skjalið sjálft greinir. Getur engu breytt í því tilliti þótt yfirlýsingunni hafi ekki verið þinglýst fyrr en liðlega tveimur árum eftir að hún var gerð. Samkvæmt þessu verður ekki miðað við að yfirlýsingin hafi verið gefin vegna yfirvofandi skilnaðar aðila og því verður lagt til grundvallar að hjónin hafi með samningi um fjárskiptin eingöngu verið að staðfesta það sem áður hafði verið ákveðið. Hefur þetta áhrif við mat á fjarskiptasamningi aðila.         

             Þegar samningur aðila um fjárskiptin er virtur verður heldur ekki hjá því litið að stefndi tók á sig allar skuldir. Var þar um að ræða lán að eftirstöðvum um 6,8 milljónir króna áhvílandi á fasteign, sem var þinglýst eign stefnanda, en af hennar hálfu hefur ekki verið vefengt að þar hafi verið um að ræða sameiginlegar skuldir. Einnig var um að ræða skuld við Bifreiða-/járnsmiðju Ragnars ehf., en fram kom í aðilaskýrslu stefnanda fyrir dómi að fjárúttektir úr fyrirtækinu hafi í einhverjum mæli runnið til heimilisins. Um þá skuld er þess jafnframt að gæta að hún virðist hafa verið varlega áætluð 5 milljónir króna í skilnaðarsamningnum, en nærri lætur að skuldin hafi verið 6 milljónir króna samkvæmt vætti E, starfsmanns Z., sem annaðist reikningshald fyrir félagið.

             Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á það með stefnanda að samningur aðila um fjárskipti vegna skilnaðar að borði og sæng hafi bersýnilega verið ósanngjarn á þeim tíma sem til hans var stofnað, sbr. 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga. Þá geta engu breytt í þessu tilliti fullyrðingar stefnanda um að stefndi hafi haldið eignum utan skipta, enda hefur stefnandi ekki varpað neinu ljósi á þetta eða andvirði þessara eigna sem eru ótilgreindar ef frá er talinn bátur til að komast út í eyjar sem tilheyra X. 

             Stefnandi hefur jafnframt reist málatilbúnað sinn á því að forsendur samningsins um fjárskiptin hafi brostið þar sem stefndi hafi neitað að afhenda stefnanda persónulegar eigur sínar og muni úr innbúi í samræmi við samkomulag aðila. Því beri að víkja samningnum til hliðar samkvæmt 36. gr. samningalaga. Þessu hefur stefndi neitað en þar fyrir utan hefur stefnandi með engu móti lýst því hvaða muni hér er um að ræða. Þessi málsástæða er því með öllu haldlaus.

             Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda um að samningur aðila um fjárskipti vegna skilnaðar að borði og sæng frá 16. september 2004 verði felldur úr gildi.

             Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

             Stefndi hefur gjafsókn í málinu og greiðist gjafsóknarkostnaður hans úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, sem þykir hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

             Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

             Stefndi, M, er sýknaður af kröfu stefnanda, K.

             Málskostnaður fellur niður.

             Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Valborgar Þ. Snævarr, hrl., 747.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.