Hæstiréttur íslands
Mál nr. 465/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
- Opinber skipti
- Skiptakostnaður
|
|
Þriðjudaginn 22. október 2002. |
|
Nr. 465/2002. |
Lára Halla Snæfells Elínbergsdóttir(Þuríður Halldórsdóttir hdl.) gegn Þorsteini Stefáni Eiríkssyni (enginn) |
Kærumál. Fjárslit milli hjóna. Opinber skipti. Skiptakostnaður.
Hæstiréttur hafnaði kröfu Þ um að L yrði gert að setja tryggingu fyrir skiptakostnaði í tilefni af kröfu L um opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Í dómi réttarins segir að samkvæmt skattframtali aðilanna hafi þau, skömmu áður en L hafi leitað skilnaðar að borði og sæng, annað hvort eða í sameiningu, átt frekari eignir en fasteign, sem Þ hafi krafist að yrði haldið utan skipta. Væri því engin ástæða til að ætla annað en að þær eignir gætu nægt til greiðslu skiptakostnaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. september 2002, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila vegna hjónaskilnaðar, en sóknaraðila jafnframt gert að setja tryggingu fyrir greiðslu skiptakostnaðar að fjárhæð 150.000 krónur. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fellt verði úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar um skyldu hennar til að setja tryggingu fyrir skiptakostnaði. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins gengu aðilarnir í hjúskap 8. ágúst 1999. Sóknaraðili kveður þau áður hafa verið í óvígðri sambúð um fjögurra ára skeið. Sóknaraðili leitaði skilnaðar að borði og sæng við varnaraðila fyrir sýslumanninum í Reykjavík 16. febrúar 2001. Með því að samkomulag tókst ekki um fjárskipti leitaði sóknaraðili opinberra skipta til fjárslita við varnaraðila með kröfu til Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. júní 2002. Gegn mótmælum varnaraðila féllst héraðsdómari á kröfu sóknaraðila um opinber skipti, en gerði henni sem áður segir að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu skiptakostnaðar. Eins og ráðið verður af áðursögðu lýtur kæra sóknaraðila eingöngu að því hvort henni beri að setja þá tryggingu, en ekki er í málinu leitað endurskoðunar á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að opinber skipti skuli fara fram.
Í áðurnefndri kröfu sóknaraðila um opinber skipti var um eignir og skuldir aðilanna vísað til skattframtals þeirra 2001. Í því framtali er getið fasteignar að Stórholti 6a á Akureyri, að fasteignamatsverði 5.376.000 krónur, og tveggja bifreiða að samanlögðu verðmæti 2.465.000 krónur, auk innstæðu á tveimur bankareikningum, alls 105.955 krónur. Þá er greint frá fimm skuldum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, alls að eftirstöðvum 4.175.160 krónur, svo og samtölu annarra skulda, 4.215.748 krónur, en sundurliðun þeirra á framhaldsblaði með framtali er ekki meðal gagna málsins. Svo sem fram kemur í úrskurði héraðsdómara lýtur málatilbúnaður varnaraðila að því að hann hafi eignast fyrrnefnda fasteign á árinu 1992 og eigi hann rétt á að henni verði haldið utan skipta á grundvelli ákvæðis 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hver, sem niðurstaðan kynni að verða um slíkt tilkall hans, fær það því ekki breytt að samkvæmt áðurnefndu skattframtali, sem varnaraðili hefur í engu vefengt, hafa aðilarnir, annað hvort þeirra eða þau í sameiningu, átt frekari eignir en umrædda fasteign skömmu áður en sóknaraðili leitaði skilnaðar að borði og sæng. Er engin ástæða til að ætla annað en að þær eignir geti nægt til greiðslu skiptakostnaðar. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila á þann hátt, sem nánar greinir í dómsorði.
Dæma verður varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði segir.
Það athugast að samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 20/1991 verður krafa um opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar því aðeins tekin til greina að fram sé komið að eignir muni nægja fyrir skiptakostnaði eða sá, sem leitar skipta, setji tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar af þeim. Af þessum sökum gat héraðsdómari ekki að réttu lagi kveðið á um að opinber skipti færu fram, en sóknaraðila bæri eftir það allt að einu að setja tryggingu fyrir skiptakostnaði.
Dómsorð:
Ákvæði hins kærða úrskurðar um að opinber skipti fari fram til fjárslita vegna hjónaskilnaðar milli sóknaraðila, Láru Höllu Snæfells Elínbergsdóttur, og varnaraðila, Þorsteins Stefáns Eiríkssonar, er staðfest.
Kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu skiptakostnaðar er hafnað.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 125.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. september 2002.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í gær, er tilkomið vegna kröfu Þuríðar Halldórsdóttur hdl., f.h. Láru Höllu Snæfells Elínbergsdóttur, kt. 141149-4319, Goðatúni 11, Garðabæ, sem með kröfu dagsettri 11. júní 2002 og þingfestri 27. s.m., krefst þess að tekið verði til opinberra skipta til fjárslita milli hennar og varnaraðilja Þorsteins Stefáns Eiríkssonar, kt. 060955-5229, Stórholti 6 A, Akureyri, vegna hjónaskilnaðar, með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 31, 1993, sbr. 1. mgr. 98. gr. laga nr. 20, 1991.
Sóknaraðilji krafðist skilnaðar að borði og sæng þann 16. febrúar 2001 á grundvelli 34. gr. laga nr. 31, 1993, við varnaraðilja, en ekki hafi tekist að ná sáttum um fjárskipti og kveðst sóknaraðilji því ekki hafa aðra leið færa en að bera fram kröfu um opinber skipti til fjárslita.
Samkvæmt endurriti úr hjónaskilnaðarbók Reykjavíkur, staðfestri 16. febrúar 2001, gengu aðiljar í hjónaband 8. ágúst 1999 og síðasta sameiginlegt heimilisfang var að Stórholti 6 A, Akureyri.
Sóknaraðilji styður kröfu sína um opinber fjárskipti þeim rökum að eignaskipti hafi ekki farið fram og sé henni því einn nauðugur kostur að krefjast opinberra fjárskipta til að ná rétti sínum, þar sem ekki liggi fyrir samkomulag um eignaskiptin. Hún telur þarflaust að setja tryggingu vegna skiptakostnaðar vegna þess að eignarhluti hennar í fasteigninni Stórholti 6 A, Akureyri, sé nægjanleg trygging. Þessu mótmælir varnaraðilji, telur hann fjárskiptum sé lokið og því engar hjúskapareignir fyrir hendi. Sóknaraðilji hafi ekkert lagt til heimilisins nema skuldir einar og aðiljar hafi skipt með sér er leiðir skyldu og varnaraðilji átt fasteignina áður en til hjúskapar var stofnað.
Samkvæmt 101. gr. laga nr. 20, 1991 skuli aðeins taka kröfu um opinber skipti til greina ef telja megi einsýnt að eignir muni nægja fyrir skiptakostnaði eða sá sem skiptanna krefjist setji tryggingu.
Þar sem sóknaraðilji hafi enga tryggingu sett og engar eignir séu til skipta telur varnaraðilji að hafna beri kröfunni um opinber skipti.
Álit dómsins:
Telja verður sannað að aðiljar hafi verið í hjónabandi og með vísan til krafna varnaraðilja til kröfu sóknaraðilja um skipti til fjárslita milli þeirra þá eru einu réttarúrræði sóknaraðilja þau að krefjast opinberra skipta, sbr. 92. og 96. gr. laga nr. 31, 1993, sbr. 1. mgr. 98. gr. laga nr. 20, 1991 og er því krafan um opinber skipti milli aðilja tekin til greina.
Með vísan til 3. mgr. 101. gr. laga nr. 20, 1991, fellst dómurinn á þá kröfu varnaraðilja að sóknaraðilji setji tryggingu vegna skiptakostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðin kr. 150.000 og er þá sérstaklega haft í huga yfirlýsing lögmanns varnaraðilja um að ágreiningi um hugsanlegan eignarhlut sóknaraðilja í fasteigninni Stórholti 6 A, Akureyri, verði skotið til héraðsdóms.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Tekin er til greina krafa um opinber skipti til fjárslita milli Láru Höllu Snæfells Elínbergsdóttur, kt. 141149-4319, Goðatúni 11, Garðabæ, og Þorsteins Stefáns Eiríkssonar, kt. 060955-5229, Stórholti 6 A, Akureyri, síðast með sameiginlegt lögheimili að Stórholti 6 A, Akureyri.
Sóknaraðilji Lára Halla Snæfells Elínbergsdóttir setji krónur 150.000 til tryggingar fyrir skiptakostnaði.
Málskostnaður fellur niður.