Hæstiréttur íslands
Mál nr. 775/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 18. nóvember 2015. |
|
Nr. 775/2015.
|
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra (Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (Jón Stefán Hjaltalín hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. nóvember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. desember 2015 klukkan 11. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. nóvember 2015.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra krefst þess að sakborningur, X, [...], [...], verði úrskurðaður í gæsluvarðhald í fjórar vikur, eða til fimmtudagsins 10. desember nk. Um lagaheimild er vísað til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Sakborningur krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Þann 24. júlí sl. gisti A, fædd [...], ein í tjaldi á tjaldstæði í [...]. Hún greindi lögreglu frá því daginn eftir að hún hefði sofnað um miðnætti, en vaknað um nóttina við að karlmaður hefði verið kominn inn í tjaldið til hennar. Samkvæmt frásögn hennar beitti hann hana valdi, hótaði henni, reyndi að hafa við hana samfarir og varð sáðfall, tvívegis að hún taldi.
Kærði var handtekinn 25. júlí á heimili sínu. Þar fann lögregla fatnað sem samrýmdist lýsingu brotaþola. Á hendi eða fingri sakbornings var áverki sem lögregla telur að geti samsvarað því að hann hafi verið bitinn. Brotaþoli hafði lýst því fyrir lögreglu að hún hefði náð að bíta manninn í aðra höndina.
Þann 26. júlí sl. var sakborningur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. s.m. á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Erfðafræðileg rannsókn (DNA) var gerð á sæði sem fannst á eða í svefnpoka brotaþola. Nú liggur fyrir niðurstaða rannsóknarinnar sem er, að þrjú sýni sem send voru og tekin höfðu verið úr innanverðum svefnpoka brotaþola reyndust vera úr sakborningi. Að fenginni þessari niðurstöðu kveðst lögreglustjóri telja að kominn sé sterkur grunur um að sakborningur hafi framið það brot sem hann sé sakaður um, gegn gegn 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem geti varðað 16 ára fangelsi. Standi almannahagsmunir til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi.
Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tillit til almannahagsmuna. Fallist verður á það með lögreglustjóra að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Þá telur dómurinn að hið ætlaða brot feli í sér grófa árás á persónu brotaþola og frelsi til líkama síns. Þegar svo stendur á sem í máli þessu og þegar litið er til eðlis hins ætlaða brots þykja ríkir almannahagsmunir standa til þess að maður sem sterklega er grunaður um svo alvarlegt brot gangi ekki laus. Með vísan til þessa verður fallist á kröfu lögreglustjóra.
Erlingur Sigtryggsson kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til 10. desember nk. kl. 11:00.