Hæstiréttur íslands
Mál nr. 24/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 30. janúar 2004. |
|
Nr. 24/2004. |
Katrín Halldórsdóttir (sjálf) gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis Margréti Jónsdóttur Evald Ægi Hansen og Magnúsi P. Skúlasyni (enginn) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Með vísan til 1. mgr. 24. gr. og d. og e. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var máli K vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. janúar 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila á þá leið að hún krefjist þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og honum gert að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2003.
Mál þetta var þingfest 23. september 2003 með framlagningu stefnu og sex fylgiskjala. Í stefnu eru hafðar uppi kröfur Katrínar Halldórsdóttur, kt. [...], Möðrufelli 3, Reykjavík, en hún gefur út stefnuna. Málinu virðist beint gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Þá eru nefndir til sögunnar nokkrir starfsmenn og lögmaður. Málið var dómtekið 28. október sl.
Við þingfestingu málsins var sótt þing af hálfu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og hinna nafngreindu starfsmanna hans. Þingsókn féll niður án þess að kröfur yrðu gerðar.
Í stefnunni er farið mörgum orðum um viðskipti stefnanda, Katrínar, við stefnda, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Er sú lýsing þó fjarri því að teljast skýr. Þá eru ekki gerðar afmarkaðar kröfur um niðurstöðu málsins, er koma má að í almennu einkamáli. Þá er tilgreining á hinum stefndu ekki fullnægjandi. Er ekki þörf frekari lýsingar á efni stefnunnar. Málinu verður vísað frá dómi samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og d- og e-liðum 1. mgr. 80. gr laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.