Hæstiréttur íslands
Mál nr. 466/2014
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 12. mars 2015 |
|
Nr. 466/2014.
|
Norðureyri ehf. (Eva B. Helgadóttir hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Málsástæða.
N ehf. höfðaði mál gegn Í hf. og krafðist viðurkenningar á því að tveir lánssamningar aðilanna væru bundnir ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í héraðsdómi var meðal annars vísað til ákvæða lánssamninganna um heimild N ehf. til myntbreytinga, þess að N ehf. hefði samkvæmt samningunum borið að senda Í hf. sérstaka tilkynningu um í hvaða myntum það hygðist taka lánið og að N ehf. hefði fengið greiddar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga félagsins í samræmi við óskir þess sjálfs. Samkvæmt þessu var ekki talið að um hefði verið að ræða lán í íslenskum krónum og var Í hf. því sýknaður af kröfum N ehf. Í dómi Hæstaréttar var sú niðurstaða staðfest. Þá kom fram að N ehf. hefði fyrir réttinum haft uppi nýja málsástæðu þess efnis að félagið hefði að langmestu leyti efnt greiðsluskyldu sína á öðru láninu í íslenskum krónum og að öllu leyti á hinu. Samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kæmi þessi nýja málsástæða ekki til álita.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2014. Hann krefst þess að viðurkennt verði að tveir lánssamningar aðila, annars vegar samningur auðkenndur með númerunum 690448, 690449 og 690450 að fjárhæð 170.000.000 krónur, og hins vegar samningur auðkenndur með númerunum 690533 og 690534 að fjárhæð 190.000.000 krónur, séu bundnir ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í greinargerð sinni til Hæstaréttar og við munnlegan flutning málsins hefur áfrýjandi teflt fram þeirri nýju málsástæðu að hann hafi að langmestu leyti efnt greiðsluskyldu sína á fyrrnefnda láninu í íslenskum krónum og að öllu leyti á hinu síðarnefnda. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þessi málsástæða hafi verið höfð uppi undir rekstri málsins í héraði. Fær hún því fær ekki komist að fyrir Hæstarétti, enda standa ekki til þess skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Norðureyri ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 7. apríl 2014.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 14. júní 2013 og dómtekið 25. mars sl. Stefnandi er Norðureyri ehf., Freyjugötu 2, Suðureyri. Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að tveir lánssamningar milli stefnanda og stefnda, annars vegar samningur að fjárhæð 170.000.000 króna, auðkenndur með númerunum 690448, 690449 og 690450, og hins vegar samningur að fjárhæð 190.000.000 króna, auðkenndur með númerunum 690533 og 690534, séu bundnir ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.
Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga.
Málsatvik
Atvik málsins eru óumdeild, en lagalegur ágreiningur aðila er afmarkaður við það hvort þau lán sem vísað er til í kröfugerð stefnanda séu erlend lán eða lán í íslenskum krónum bundin ólögmætri gengistryggingu.
Samkvæmt stefnu er stefnandi frumvinnslufyrirtæki á sviði sjávarútvegs sem sérhæfir sig í rekstri útgerðar, eign og leigu aflaheimilda og báta, en stefndi er viðskiptabanki stefnanda. Ekki er um það deilt að stefndi, sem beri sama heiti og upphaflegur lánveitandi, þ.e. Íslandsbanki hf., fari nú með réttindi og skyldur sem slíkur samkvæmt þeim samningum sem síðar greinir.
Með lánsumsókn 31. október 2005 sótti stefnandi um lán í útibúi Íslandsbanka hf. á Ísafirði. Í reit auðkenndum „upphæð í íslenskum krónum“ kom fram fjárhæðin 170 milljónir króna. Að neðan var í þremur línudálkum vísað til þriggja erlendra gjaldmiðla, svissneskra franka, japanskra jena og evra í hlutföllunum 30%, 50% og 20%. Var við hvern gjaldmiðil tilgreind fjárhæð í viðkomandi mynt, LIBOR-vextir, samtals vextir (þ.e. LIBOR-vextir að viðbættum kjörvöxtum). Þá kom fram fjárhæð hvers og eins gjaldmiðils í íslenskum krónum ásamt reikningsnúmeri stefnanda fyrir hvern og einn reikning. Liggur fyrir að hver og einn reikningur var bankareikningur í hlutaðeigandi gjaldmiðli.
Í framhaldi af umsókn stefnanda var sama dag var undirritaður lánssamningur sem bar fyrirsögnina „Lánssamningur lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum óverðtryggt milli Norðureyrar ehf. sem lántaka og Íslandsbanka hf. sem lánveitanda“. Í upphafsorðum samningsins segir að málsaðilar geri með sér „lánssamning til 5 ára að fjárhæð jafnvirði ISK 170.000.000 eitthundraðsogsjötíumilljónir 00/100 Íslenskar krónur í íslenskum krónum og erlendum myntum með þeim skilmálum sem greinir í samningi þessum“. Í 3. mgr. 1. gr. samningsins sagði eftirfarandi: „Lántaki skal senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn er sá reikningur sem leggja skal lánið eða lánshlutann inn á. Form að útborgunarbeiðni er fest við samning þennan. Í því skal lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða myntum hann hyggst taka lánið og í hvaða hlutföllum; þó að lágmarki 5% fyrir einstakan gjaldmiðil. Fjárhæð hvers einstaks gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki verða fjárhæðirnar endanlegar og munu ekki breytast innbyrðist þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kunni að breytast á lánstímanum. Lánið verður þá eftirleiðis tilgreint með með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum og íslenskum krónum samkvæmt heimildum samningsins.“ Í lokamálslið greinarinnar kom fram að ráðstafa skyldi láninu til að endurfjármagna skuldir stefnanda.
Í 2. gr. samningsins var fjallað um endurgreiðslu lánsins. Kom þar fram að lánið skyldi greiðast með 20 afborgunum á þriggja mánaða fresti. Í 3. mgr. greinarinnar sagði eftirfarandi: „Lánið ber að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af. Sú greiðsla sem lántaka ber að inna af hendi á gjalddaga í erlendum myntum verður umreiknuð í íslenskar krónur tveimur virkum bankadögum fyrir gjalddagann.“ Í 3. gr. samningsins var fjallað um vexti, vaxtabreytingar og greiðslu vaxta. Var þar kveðið á um að lánshlutar í erlendum myntum skyldu bera LIBOR-vexti að viðbættu 1,8% álagi, þó þannig að lánshluti í evrum skyldi bera EURIBOR-vexti með sama álagi. Lánshluti í íslenskum krónum skyldi bera REIBOR-vexti með sama álagi. Í 4. gr. samningsins var fjallað um heimild lántaka til myntbreytinga „þannig að eftirstöðvar lánsins miðist við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, eina eða fleiri [...]“. Ekki er ástæða til að rekja önnur ákvæði samningsins.
Með útborgunarbeiðni sama dag óskaði stefnandi eftir því að lánið yrði greitt út 1. nóvember 2005. Kom fram í beiðninni að andvirði lánsins yrði nýtt til greiðslu lána stefnanda við Sparisjóð Bolungarvíkur. Vegna útborgunar lánsins voru útbúnir þrír greiðsluseðlar, einn fyrir hvern gjaldeyri. Kemur á greiðsluseðlinum fram að fjárhæð viðkomandi lánshluta í erlendri mynt, að frádreginni þóknun, hafi verið lögð inn á hlutaðeigandi reikning stefnanda.
Hinn 2. nóvember 2006 lögðu forsvarsmenn stefnanda inn aðra lánsumsókn hjá stefnda og var þar sótt um lán í svissneskum frönkum og japönskum jenum í nánar tilgreindum hlutföllum. Efni þess lánssamnings og atvik við útborgun lánsins voru sambærileg við það sem áður er lýst um lánið 31. október 2005 um allt það sem máli skiptir fyrir sakarefni máls þessa. Meðal annars var í lánsumsókn vísað til bankareikninga stefnanda í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Þá liggur fyrir að lánshlutar í þessum gjaldmiðlum voru lagðir inn á hlutaðeigandi gjaldeyrisreikninga stefnanda.
Aðilar hafa í allmörg skipti gert viðauka við upphaflega lánssamninginn þar sem skilmálum hefur verið breytt. Í þessum viðaukum er lánunum lýst sem óverðtryggðum lánum til fimm ára að jafnvirði ákveðinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Þá er staða lánanna eingöngu tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum. Þá er fram komið að stefnandi gerði samkomulag við stefnda um skuldaaðlögun 20. júlí 2011 auk samnings um endurfjármögnun sem ekki þykir ástæða til að gera sérstaka grein fyrir. Samkvæmt því sem ráðið verður af stefnu og greinargerð mun stefnandi í framhaldi af þessu samkomulagi hafa óskað eftir frekari niðurfellingu með vísan til þess að lánin væru í reynd lán í íslenskum krónum sem bundin væru ólögmætri gengistryggingu.
Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að umrædd lán hafi verið lán í íslenskum krónum bundin gengistryggingu með ólögmætum hætti. Hann vísar til skilmála lánssamninga og þess að lánin séu tilgreind í íslenskum krónum. Ekki skipti máli þó tekið sé fram í samningunum að fjárhæðirnar séu að jafnvirði tiltekinna erlendra mynta. Öll framkvæmd lánveitinganna og greiðsla vaxta beri þess merki að lánin séu í íslenskum krónum enda hefði verið hægur vandi að tilgreina fjárhæð lánssamninganna í nánar tilgreindum myntum ef staðið hefði til að taka lán í þeim myntum. Það að lán sé veitt í íslenskum krónum en beiðni um útborgun sé um greiðslu í erlendri mynt, geri það ekki að verkum að lán verði talin í erlendum myntum. Ekki séu nauðsynleg tengsl milli þess að fá lán í einni mynt en kjósa síðar að fá lánið greitt út í annarri mynt. Það eitt geri lán ekki gilt erlent lán.
Heimild til að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum sé að finna í VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en þau ákvæði séu ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laganna. Þar sé tæmandi talið hvernig skuldir verði verðtryggðar og enga heimild sé að finna til að binda fjárhæðir í krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. ítrekuð fordæmi Hæstaréttar. Lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla með því að ákvæði 13. og 14. gr. laganna séu ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laganna, og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Af skýrum fordæmum Hæstaréttar megi ráða að megináhersla, hvað varðar lögmæti lánssamninga sem bundnir eru við gengi erlendra mynta, sé á efni lánaskjalanna sjálfra, einkum það atriði hvort lánsfjárhæð sé tilgreind í íslenskum krónum eða erlendri mynt.
Stefnandi byggir á því að ákvæði lánssamninganna séu samin einhliða af bankanum. Þau ákvæði lánssamninganna sem vísa til erlendra mynta séu til málamynda og tilgangur þeirra sé að klæða löggerninginn í þann búning að um erlent lán sé að ræða. Vextir samkvæmt báðum lánssamningunum séu tilgreindir sem LIBOR, EURIBOR eða REIBOR, en staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar að það hafi ekki áhrif á niðurstöðu um það hvort lánssamningar teljist gengistryggðir eða ekki hvernig vextir hafi verið ákvarðaðir í samningi.
Stefnandi vísar einnig til þess að þótt komið hafi fram í fyrirsögn samninganna að um væri að ræða „lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum, óverðtryggt“ hafi hvergi í þeim verið sagt til um hvort það kæmi til með að verða í einhverjum ákveðnum erlendum gjaldmiðlum fremur en íslenskum krónum, hvaða gjaldmiðlar það yrðu og hvaða fjárhæð eða í hvaða hlutfalli af fjárhæð í íslenskum krónum það yrði. Með því að eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint hafi verið tilgreind í lánssamningunum, hafi verið í íslenskum krónum geti engum vafa verið háð að hann hafi eingöngu tekið til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli. Ekki þurfi því að líta til þess hvernig stefnandi og stefndi efndu skuldbindingar sínar í raun, en þau atriði gætu að auki að engu leyti hnigið að annarri niðurstöðu.
Stefnandi vísar til þess að skuldaaðlögun og endurfjármögnun hafi verið gerð með þeim fyrirvara að kæmi til þess að lán stefnanda við stefnda myndu teljast ólögmæt skyldi tillit tekið til endurgreiðslna sem kynnu að koma til af þeim sökum.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi hafnar því alfarið að lán þau sem deilt er um í málinu teljist vera í íslenskum krónum og það þó að höfuðstóll þeirra sé tilgreindur sem jafnvirði fjárhæða í íslenskum krónum. Vísar hann til fordæma Hæstaréttar því til stuðnings að lán, þar sem höfuðstóll var tilgreindur sem fjárhæð í íslenskum krónum ásamt hlutföllum hinna erlendu mynta, hafi verið talin erlend lán. Þannig sé það ekki fortakslaust að önnur atriði en tilgreining höfuðstóls vegi þyngra á metunum þegar lögmæti lána í erlendri mynt er metið.
Í 3. mgr. 1. gr. skilmála lánsins komi skýrt fram að lántaka beri að senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja bankadaga fyrirvara og tiltaka þar reikning þar sem leggja ber lánið inn og að þar eigi jafnframt að tiltaka í hvaða myntum lánið eigi að vera. Tveimur bankadögum fyrir útborgun lánsins hafi endanleg fjárhæð hvers erlends gjaldmiðils fyrir sig verið ákveðin og fjárhæðirnar breyst frá því þótt heimilt hafi verið að breyta hlutföllum á lánstímanum. Jafnframt hafi lánið framvegis verið tilgreint með fjárhæð hinna erlendu mynta. Þetta bendir eindregið til þess að lánið hafi verið lögmætt lán í erlendum myntum enda alger óþarfi að tiltaka að fjárhæðirnar yrðu endanlegar óháð hlutföllum að öðrum kosti. Þetta eigi sér jafnframt stoð í viðaukum við lánssamninga, en þar séu allar fjárhæðir tilgreindar með skýrum hætti í erlendum gjaldmiðlum í samræmi við óskir stefnanda. Jafnframt sé ljóst af gögnum málsins, og komi raunar fram með skýrum hætti í stefnu, að lánin hafi verið greidd út í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga þá sem stefnandi tilgreindi. Það sé því alrangt sem stefnandi haldi fram í stefnu að öll framkvæmd lánveitinganna beri þess merki að um sé að ræða lán í íslenskum krónum. Þvert á móti bendi framangreind atriði eindregið til þess að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum.
Stefndi vísar einnig til ýmissa annarra atriða í lánssamningum er benda skýrlega til þess að aðilar hafi samið um lán í erlendum myntum en ekki íslenskum krónum. Er fyrst bent á fyrirsögn samninganna og vísað til fordæma Hæstaréttar því til stuðnings að hún bendi til þess að um erlent lán sé að ræða. Einnig er bent á ákvæði lánssamninga um vexti og dráttarvexti sem stefndi telur að bendi til þess að um sé að ræða erlend lán. Aukinheldur vísar stefndi til ákvæðis 4. gr. lánssamninganna um myntbreytingarheimild lántaka og hvernig framkvæma skuli hana. Einkum er vísað til þess að þar sé kveðið á um að geti stefndi „ekki útvegað þann gjaldmiðil sem lántaki kann að vilja nota til myntbreytingar eða útvegun hans hefur í för með sér verulegan kostnað“ þá sé heimilt að nota Bandaríkjadal í stað viðkomandi gjaldmiðils. Hér sé ótvírætt vísað til þess að um er að ræða lán, sem er í erlendum myntum. Væri um að ræða lán sem væri í grunninn í íslenskum krónum gengistryggt við erlenda gjaldmiðla væri óþarft að tiltaka það að stefndi þyrfti að útvega þær myntir sem gengistrygging eigi að miðast við enda væri þá nægjanlegt að tengja lánið við gengi annarra erlendra mynta en áður.
Auk þess vísar stefndi til þess að í undirrituðum lánsumsóknum stefnanda séu hinar erlendu fjárhæðir lánsins sérstaklega tilgreindar en telja verði að lánsumsóknirnar séu óaðskiljanlegur hluti lánssamningsins. Þá bendir stefndi einnig á að í viðaukum við samningana hafi lánsfjárhæðin ávallt verið tilgreind í hinum erlendu myntum, sbr. 3. mgr. 1. gr. lánssamninganna. Telur stefndi að þó svo að vefengja mætti lögmæti skuldbindingarinnar í upphafi, hafi hún frá og með fyrsta viðauka verið í erlendum myntum samkvæmt skýrum ákvæðum viðkomandi skjals þar að lútandi. Er því til stuðnings vísað til fordæma Hæstaréttar. Þá eru í málatilbúnaði stefnda reifaðir dómar Hæstaréttar sem hann telur hafa fordæmisgildi fyrir úrlausn málsins og rökstutt að þeir dómar sem vísað sé til af hálfu stefnanda eigi ekki við um sakarefni málsins.
Í ljósi alls framanritaðs telur stefndi það ljóst að aðilar hafi samið um lán í erlendum myntum en ekki íslenskum krónum og að lánið hafi frá upphafi verið í erlendum myntum. Því eigi ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki við, líkt og staðfest hefur verið í fjölmörgum dómum Hæstaréttar. Hafi stefnandi talið eitthvað annað þá geti slíkt ekki verið á ábyrgð stefnda enda beri samningurinn það með sér. Auk þess sé það skýrt, að mati stefnda, hver samningsvilji aðila hafi verið og efndir hafi verið með þeim hætti að stefnanda hafi ekki getað dulist að verið var að semja um lán í erlendum myntum. Því til stuðnings vísar stefndi til skýrra ákvæða lánssamningsins sjálfs auk lánsumsóknar þeirrar sem stefnandi sjálfur fyllti út, ritaði undir og skilaði til stefnda.
Niðurstaða
Við mat á því hvort áðurlýstir samningar fólu í sér lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum, bundin gengi erlendrar myntar, verður fyrst og fremst að leggja til grundvallar form og efni þeirra gerninga sem liggja til grundvallar téðum skuldbindingum. Í samræmi við ítrekuð fordæmi Hæstaréttar verður einnig að líta til atriða við samningsgerðina, svo og framkvæmdar samnings, ef þessi gögn taka ekki af tvímæli um efnislegt inntak samnings að þessu leyti.
Samkvæmt fyrirsögn og meginmáli framangreindra samninga gátu lán hvort heldur verið í erlendum myntum eða íslenskum krónum. Væru lánin í íslenskum krónum miðuðust vextir við svonefnda REIBOR-vexti, án verð- eða gengistryggingar. Af þessum texta samninganna verður því tæplega ráðið að vilji aðila hafi staðið til þess að lán yrði í heild sinni í íslenskum krónum og þá bundið gengistryggingu. Í sömu átt hníga ákvæði lánssamninga um heimild lántaka til myntbreytinga. Þá bar lántaka að senda lánveitanda sérstaka tilkynningu um það í hvaða myntum hann hygðist taka lánið og í hvaða hlutföllum. Liggur jafnframt fyrir að stefnandi óskaði eftir því, fyrst í lánsumsókn en síðan beiðni um útborgun, að lánin yrðu í tilteknum erlendum myntum. Var því aldrei um það að ræða að verulegur hluti lánsins væri skráður í íslenskum krónum, svo sem átti við í því máli sem lauk með dómi Hæstaréttar 17. janúar 2013 í máli nr. 386/2012 og mjög er vísað til af hálfu stefnanda.
Á það verður fallist með stefnanda að það geti haft þýðingu að umræddir samningar höfðu ekki að geyma nánari tilgreiningu á erlendum gjaldmiðlum og að fjárhæð lánsins í lánssamningi kom þannig einungis fram í íslenskum krónum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011. Í ljósi ítrekaðra fordæma Hæstaréttar getur þetta atriði, eitt og sér, þó ekki ráðið úrslitum heldur verður einnig að líta til annarra atriða, einkum þess hvernig aðilar efndu meginskyldur sínar. Í því sambandi verður ekki fram hjá því litið að óumdeilt er að stefnanda voru í reynd greiddar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga hans til samræmis við það sem hann hafði sjálfur óskað eftir í beiðni um útborgun. Þá var hvergi í síðari viðaukum við lánssamningana vísað til fjárhæða í íslenskum krónum. Eru atvik að þessu leyti sambærileg atvikum í dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2013 í máli nr. 337/2013, svo og dómi réttarins 6. mars 2014 í máli nr. 602/2013, og ólík þeim sem fjallað var um í fyrrgreindum dómi réttarins 9. júní 2011.
Að öllu þessu virtu verður að hafna málsástæðum stefnanda á þá leið að í reynd hafi verið um að ræða lán í íslenskum krónum. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda.
Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 850.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Auður Ýr Helgadóttir hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Hafsteinn Viðar Hafsteinsson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Norðureyrar ehf.
Stefnandi greiði stefnda 850.000 krónur í málskostnað.
Skúli Magnússon