Hæstiréttur íslands

Mál nr. 76/2006


Lykilorð

  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Óvígð sambúð
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. september 2006.

Nr. 76/2006.

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

M

(Björn Jóhannesson hdl.)

 

Frávísun frá héraðsdómi. Óvígð sambúð. Sératkvæði.

M og K höfðu búið um nokkurt skeið í óskráðri sambúð. K stefndi M í almennu skuldamáli til endurgreiðslu tiltekinna fjárhæða, sem hún taldi sig hafa innt af hendi í hans þágu og til greiðslu áætlaðra launa vegna vinnuframlags hennar í þágu atvinnurekstrar M. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að K hefði kosið máli sínu þann farveg að um almennt skuldamál væri að ræða, en hefði þó ekki farið þá leið að færa sönnur fyrir kröfum sínum eftir þeim hefðbundnu leiðum, sem í slíkum málum væru færar. Hefði K rökstutt kröfur sínar að verulegu leyti með vísan til sjónarmiða um sameiginlegt framlag til eignamyndunar á sambúðartíma hennar og M. Var þetta talið fela í sér þverstæðu í málsgrundvelli, sem ekki væri unnt að bæta úr, og var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2006. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skuld að fjárhæð 1.709.979 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, af 100.000 krónum frá 14. september 2001 til 18. mars 2002, af 300.000 krónum frá þeim degi til 8. maí sama ár, af 343.779 krónum frá þeim degi til 17. júlí sama ár, af 593.779 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 809.979 krónum frá þeim degi til dómsuppsögudags en af 1.709.979 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi bjuggu málsaðilar í óskráðri sambúð um að minnsta kosti þriggja ára skeið. Þau eru sammála um að ekki hafi myndast með þeim fjárhagsleg samstaða á sambúðartímanum. Í máli þessu, sem höfðað er sem almennt skuldamál, krefur áfrýjandi stefnda annars vegar um endurgreiðslu nánar tilgreinds kostnaðar, sem hún kveðst hafa greitt í þágu hans, en hins vegar um greiðslu vegna vinnuframlags í hans þágu um nánar tilgreint tímabil. Meginröksemdir hennar lúta að því að um framlög til sameiginlegs heimilis þeirra hafi átt að vera að ræða og við sambúðarslit hafi brostið veruleg forsenda fyrir slíkum framlögum og því beri stefnda að endurgreiða henni þau. Þá beri henni einnig, að því er virðist á svipuðum forsendum, greiðsla fyrir vinnu sína í þágu atvinnurekstrar stefnda. Áfrýjandi hefur samkvæmt framansögðu kosið máli sínu þann farveg að um almennt skuldamál sé að ræða. Hún hefur hins vegar ekki farið þá leið að færa sönnur fyrir kröfum sínum eftir þeim hefðbundnu leiðum sem í slíkum málum eru færar, en rökstutt kröfur sínar að verulegu leyti með vísan til sjónarmiða um sameiginlegt framlag til eignamyndunar á sambúðartíma þeirra. Felur þetta í sér þverstæðu í málsgrundvelli, sem ekki þykir unnt að bæta úr og er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Ég er sammála meirihluta dómara um að málatilbúnaður áfrýjanda sé haldinn slíkum annmörkum að vísa beri málinu frá héraðsdómi. Af þeim sökum, og með vísan til 2. mgr. 130. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, tel ég skylt að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað vegna reksturs málsins á báðum dómstigum, samtals 400.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2005.

Mál þetta var þingfest 26. maí 2004 og dómtekið 13. október 2005. Málið er höfðað fyrir héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri 19. maí 2004. Stefnandi er K, [heimilisfang]. Stefndi er M, [heimilisfang].

I.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

Að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skuld að fjárhæð kr. 809.979 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 100.000 frá 14. september 2001 til 18. mars 2002, af kr. 300.000 frá 18. mars til 8. maí 2002, af kr. 343.779 frá 8. maí 2002 til 17. júlí 2002, af kr. 593.779 frá 17. júlí 2002 til 1. september 2002, af kr. 809.979 frá 1. september 2002 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 900.000 ásamt dráttarvöxtum frá dómsuppsögu.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts.

II.

Málavextir eru þeir helstir að aðilar málsins voru í óskráðri sambúð. Aðilar eru ekki á eitt sáttir um hvenær sambúðin hófst. Ljóst er þó að hún hefur verið hafin síðla sumars 1999 en stefndi flutti lögheimili sitt til stefnanda þann 1. september 1999, í íbúð sem hún þá átti.

Engin fjárhagsleg samstaða myndaðist með aðilum málsins á sambúðartímanum sem var tiltölulega stuttur. Störfuðu þau bæði utan heimilis, stefnandi sem starfsmaður í raftækjaverslun en stefndi sendiferðabílstjóri.

Við upphaf sambúðarinnar átti stefndi íbúð að A í Reykjavík en stefndi leigði þá íbúð út þegar sambúð aðila hófst. Stefndi festi kaup á fasteigninni B, Mosfellsbæ, á árinu 2000 og stóð hann alfarið einn að kaupunum, en seldi jafnframt íbúð sína að A. Húsið var keypt fokhelt og gerðu málsaðilar það íbúðarhæft saman, að nokkru með aðstoð bræðra stefnanda og vinar stefnda sem komu allir fyrir dóminn sem vitni og staðfestu það. Þann 15. september 2001 flutti stefnandi lögheimili sitt að B, en stefndi þann 11. október 2001. Eftir að málsaðilar fluttu að B setti stefnandi íbúð sína á leigu og seldi hana. Sambúð aðila lauk í september 2002 þegar stefndi gekk út. Gaf hann stefnanda svigrúm til að flytja út, sem hún tók sér og flutti lögheimili sitt þaðan 1. október 2002.

III.

Með bréfi lögmanns stefnanda 10. mars 2004 var stefndi krafinn um greiðslu 987.774 króna ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, vegna millifærslna, ferðakostnaðar og rafmagnstækja. Undir meðferð málsins lækkaði stefnandi fyrri kröfu sína um 177.798 krónur, þ.e. niður í 809.976 krónur eins og nánar er vikið að síðar í dómnum.

Endurgreiðslukrafa stefnanda varðar m.a. millifærslur hennar til stefnda. Eru umræddar millifærslur þessar:

Þann 14.9.2001 kr. 100.000

Þann 18.3.2002 kr. 200.000

Þann 17.7.2002 kr. 250.000

Er óumdeilt að meðan á sambúðartímanum stóð greiddi stefnandi umkrafðar fjárhæðir inn á bankareikning stefnda en deilt er um af hvaða tilefni þessar greiðslur voru inntar af hendi.

Hluti fyrri kröfu stefnanda varðar einnig greiðslu á rafmagnstækjum sem óumdeilt er að stefnandi sá heimilinu fyrir og greiddi fyrir þau með vinnu sinni. Aðilar eru hins vegar ekki sammála um hvort og að hve miklu leyti stefndi greiddi í þessum tækjum. Óumdeilt er hins vegar að stefnandi hafði á braut með sér, þegar hún flutti frá B, þvottavél, þurrkara og ísskáp, en einnig helluborð og ofn. Hins vegar skilaði hún helluborði og ofni aftur til stefnda og óumdeilt er að vinur stefnanda tók við greiðslu fyrir hennar hönd að 100.000 krónum þegar umræddum rafmagnstækjum var skilað. Er umdeilt hvort þessi greiðsla hafi átt að koma fyrir rafmagnstækin.

Fyrri krafa stefnanda varðar að lokum kröfu um hlutdeild stefnda í greiðslu sameiginlegrar utanlandsferðar aðila sumarið 2002 sem kostaði alls 157.758 krónur. Stefnandi greiddi 87.758 krónur vegna utanlandsferðarinnar með Visa raðgreiðslum og krefst nú endurgreiðslu helmings þeirrar fjárhæðar, eða 43.779 króna. Stefndi heldur því hins vegar fram að hann hafi greitt um 70.000 krónur í reiðufé vegna ferðarinnar og að samkomulag hafi verið milli aðila um að stefnandi greiddi þær 87.758 krónur sem eftir stóðu.

Síðari krafa stefnanda varðar meint vinnuframlag hennar í þágu stefnda á sambúðartímanum. Óumdeilt er að stefnandi aðstoðaði stefnda að einhverju leyti við uppgjör reikninga vegna akstur hans. Hins vegar eru aðilar ósammála um hve mikil sú aðstoð var.

IV.

Stefnandi hefur haldið því fram að málsaðilar hafi hafið sambúð í október eða nóvember 1998. Hafi stefndi þá flutt inn til stefnanda í íbúð hennar að C í Hafnarfirði.

Krafa stefnanda var upphaflega í stefnu um greiðslu skuldar að fjárhæð 987.774 krónur. Varðar hún fjármuni sem stefnandi heldur fram að hún hafi látið af hendi rakna til stefnda vegna húsbyggingarinnar að B, en einnig vegna rafmagnstækja og utanlandsferðar. Byggir stefnandi á því að forsenda fyrir greiðslu þessara fjármuna hafi brostið þegar sambúð aðila málsins lauk. Undir rekstri málsins var stefnufjárhæð lækkuð sem nam 177.795 krónum sem er verðmæti þeirra tækja sem fyrir liggur að stefnandi flutti með sér frá B, þ.e. þvottavél, þurrkara og ísskáp.

Stefnandi hafði hug á því að eignast hlut í fasteigninni að B og heldur því fram að í þeim tilgangi hafi hún aðstoðað stefnda við að gera húsnæðið íbúðarhæft, sem og lagt fram fjármuni sem hún taldi að renna myndu til húsnæðiskaupanna. Þau hafi bæði unnið við að gera B íbúðarhæfan sumarið 2001, m.a. með aðstoð bræðra hennar, og flutt þangað inn í september s.á. Stefnandi hafi búið heimilið rafmagnstækjum sem hún hafi greitt fyrir með vinnu sinni. Hún hafi lagt fé til heimilishaldsins og aðstoðað stefnda við ummönnum barns hans.

Stefndi hafi ekki viljað skrá þau í sambúð og hafi boðið henni 2-3% eignarhlut í fasteigninni að B, sem stefnandi hafi ekki talið ásættanlegt.

Hvað varðar kröfu sína um endurgreiðslu á 100.000 krónum, sem hún millifærði á reikning stefnda 14. september 2001, byggir stefnandi á því að þarna hafi hún verið að greiða stefnda hluta af leigugreiðslu sem hún fékk vegna útleigu íbúðar sinnar að C, sem námu alls 260.000 krónum. Stefnandi fullyrti einnig að öll umrædd greiðsla hefði runnið til stefnda en að hún gæti þó ekki sýnt fram á það.

Þann 18. mars 2002 millifærði stefnandi 200.000 krónur á reikning stefnda og aftur þann 17. júlí s.á. 250.000 krónur. Byggir stefnandi á því að þarna hafi hún verið að greiða stefnda fjármuni sem hún hafi fengið út úr sölu fasteignar sinnar að C.

 Þá telur stefnandi telur sig eiga kröfu á stefnda um greiðslu 216.200 króna sem sé verðmæti þeirra tækja sem skilin voru eftir í íbúðinni að B. Kröfuna byggi hún á því verði sem hún greiddi fyrir tækin með vinnu sinni.

Hvað varðar utanlandsferð aðila byggir stefnandi á því að hún hafi greitt í peningum þær 70.000 krónur sem greiddar voru inn á inn á ferðina og jafnframt greitt eftirstöðvar ferðarinnar með Visa raðgreiðslum. Krefjist hún helmings þeirra fjármuna sem hún greiddi með Visa raðgreiðslum, eða 43.779 króna.

Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu 900.000 króna á því að hún hafi innt af hendi vinnu í þágu stefnda við gerð virðisaukaskattskýrslna, reikningsgerð og innheimtu reikninga í tengslum við starf hans sem sendibílstjóra. Hafi hún hafið þá vinnu að ósk stefnda fljótlega eftir að þau hófu sambúð. Er krafan byggð á því að henni sé rétt endurgjald eða skaðabætur fyrir þá vinnu 25.000 krónur á mánuði eða samtals 900.000 krónur. Hafi hún með þessu létt undir stefnda með því að hann hafi þar af leiðandi ekki þurft að kaupa þá vinnu annars staðar frá.

Stefnandi byggir á meginreglum kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, skaðabætur og vexti vegna vanefnda þeirra. Í þessu sambandi vísar hún til 45.-49. gr., 51.-53. gr., 57. gr. og X. kafla laga nr. 38/2001 um lausafjárkaup nr. 50/2000. Stefnandi styður kröfu sína um dráttarvexti og vaxtavexti við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt af málskostnaði byggir stefnandi á lögum nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.

IV.

Stefndi kveður sambúð aðila hafa hafist sumarið 1999 og lokið í júlí eða ágúst 2002. Mótmælir hann því að hann standi í nokkurri skuld við stefnanda, því að stefnandi hafi lánað honum pening á meðan á sambúðinni stóð og þá mótmælir hann því að stefnandi hafi lagt honum til fé til kaupa á B. Þvert á móti hefur stefndi haldið því fram að meðan á sambúð málsaðila stóð hafi stefnandi átt í verulegum fjárhagserfiðleikum og að oft hafi komið til þess að stefndi lánaði henni peninga, bæði með milligreiðslum í banka svo og með reiðufé sem renna áttu til heimilishaldsins og til að aðstoða stefnanda við greiðslu reikninga. Hefur hann máli sínu til stuðnings lagt fram greiðslukvittanir vegna millifærslna hans til stefnanda. Samtals hafi millifærslur hans til stefnanda numið á tímabilinu 26.5.2000 til 12.9.2001 220.000 krónum, frá 27.11.2001 til 8.2.2002 118.000 krónum, frá 12.4.2002 til 10.6.2002 214.000 krónum og frá 25.7.2002 til 8.10.2002 100.000 krónum. Þá hafi stefnandi innleyst ávísun gefna út af stefnda fyrir 50.000 krónum þann 1.12.2002, eftir að sambúðinni lauk. Hefur stefndi haldið því fram að þær millifærslur sem stefnandi krefst nú endurgreiðslu á, þ.e. 100.000 krónur þann 14.9.2001, 200.000 krónur þann 18.3.2002 og 250.000 krónur þann 17.7.2002, hafi verið endurgreiðslur hennar á lánum stefnda til stefnanda.

Hvað varðar kröfu stefnanda um endurgreiðslu hluta kostnaðar vegna utanlandsferðar málsaðila hefur stefndi haldið því fram að hann hafi greitt stefnanda um 70.000 krónur í reiðufé upp í kostnað vegna ferðarinnar og að samkomulag hafi verið með aðilum um að stefnandi tæki að sér að greiða eftirstöðvar ferðarinnar að fjárhæð 87.758 krónur og hafi hún gert það með Visa raðgreiðslum. Greiðslukvittunin vegna þessa sé stíluð á stefnanda og varði hana og son hennar. Stefndi hafi fyrst verið krafinn um endurgreiðslu þessa kostnaðar með innheimtubréfi lögmanns stefnanda í mars 2004.

Stefndi heldur því fram að samið hafi verið um það að hann greiddi helming framangreindra rafmagnstækja og að hann hafi látið stefnanda fá um 160.000 krónur í reiðufé og með millifærslum vegna þessa. Stefnandi hafi síðan fjarlægt öll tæki úr íbúðinni að B þegar hún flutti úr henni, nema háf. Hafi hún í framhaldi þessa skilað ofni og helluborði gegn greiðslu 100.000 króna í reiðufé. Stefndi mótmælir kröfunni einnig þar sem engin önnur gögn liggi fyrir um verð tækjanna en skriflegar upplýsingar stefnanda sjálfrar þar um.

Stefndi telur stefnanda bera sönnunarbyrði fyrir því að um lán hafi verið að ræða en hins vegar hafi ekkert verið lagt fram í málinu er sýni fram á að svo hafi verið. Aðeins sé um að ræða innborgunarkvittanir sem ekki sýni fram á í hvaða markmiði umræddar greiðslur voru millifærðar. Innborganir stefnda inn á bankareikning stefnanda séu umtalsvert hærri en þær 550.000 krónur sem stefnandi krefst endurgreiðslu á. Um sé að ræða mismun upp á 152.000 krónur að ótöldum þeim 100.000 krónum sem stefndi hafi greitt stefnanda um sama leyti og heimilistækin voru afhent honum. Sönnunarbyrði sé á stefnanda og gegn neitun stefnda sé ósannað að um hafi verið að ræða lán, hvorki til byggingarinnar, kaupa á rafmagnstækjum eða til utanlandsferðar.

Stefndi vekur athygli á því að síðari krafa stefnanda komi fyrst fram með stefnu í mars 2004. Hún komi ekki fram í innheimtubréfi lögmanns. Hvað varðar vinnu stefnanda í þágu stefnda viðurkennir hann að hún hafi hreinskrifað vinnuskýrslur og hringt nokkur símtöl. Hins vegar hafi þetta aðeins verið á nokkurra mánaða fresti og tekið um 2-3 tíma hvert sinn. Hafi stefnandi aldrei krafið stefnda um greiðslu vegna þessarar vinnu. Þá hafi engin gögn verið lögð fram um vinnuframlagið eða kröfuna að öðru leyti. Ennfremur hafi stefndi greitt fyrir bókhaldsþjónustu á þeim tíma sem sambúðin varðaði.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu, enda sé krafan fyrst sett fram 10. mars 2004 í stefnu.

V.

Í máli þessu er m.a. deilt um af hvaða tilefni greiðslur stefnanda inn á reikning stefnda hafi verið inntar af hendi. Þá er krafist endurgreiðslu á ferðakostnaði aðila og á andvirði rafmagnstækja sem stefnandi lagði heimilinu til. Að lokum er krafist endurgjalds eða bóta fyrir vinnu stefnanda í þágu stefnda á sambúðartímanum.

Lögmaður stefnda hefur réttilega bent á, hvað fyrri kröfu stefnanda varðar, að málið sé í raun höfðað sem skuldamál og að ekki sé krafið um eignamyndun stefnanda í fasteigninni að B. Hefur lögmaður stefnanda staðfest þetta í málflutningi fyrir dómi. Miðað við kröfugerð stefnanda hefur það því ekki þýðingu fyrir niðurstöðu máls þessa að könnuð sé staða málsaðila við upphaf og lok hinnar óskráðu sambúðar. Þrátt fyrir þetta eyddu lögmenn aðila nokkru púðri í það að leggja fram gögn um stöðu aðila fyrir og eftir sambúð og um sölu íbúða þeirra, bæði við skýrslutöku aðila og í málflutningi.

Innborganir stefnanda

Um er að ræða greiðslu á 100.000 krónum sem millifærðar voru þann 14. september 2001, 200.000 krónum sem millifærðar voru þann 18. mars 2002 og  250.000 krónum sem stefnandi millifærði til stefnda þann 17. júlí 2002. Þær millifærslur sem stefnandi krefst endurgreiðslu á nema samtals 550.000 krónum.

Hvað varðar millifærslur stefnanda til stefnda er ljóst að ýmsar lægri og hærri fjárhæðir voru færðar milli bankareikninga aðila á sambúðartímanum og virðist þar aðallega hafa verið um að ræða lægri fjárhæðir til sameiginlegs heimilishalds aðila.

Stefndi hefur haldið því fram að með þessum greiðslum hafi stefnandi verið að endurgreiða honum fjármuni sem hann hafði lánað henni með ýmsum smærri innborgunum á sambúðartímanum. Hvað varðar þessa málsástæðu stefnda byggir stefnandi á því að umræddar millifærslur frá stefnda megi allar rekja til þess að stefndi hafi verið að leggja henni fé til sameiginlegs heimilishalds aðilanna, enda hafi verið um lágar fjárhæðir að ræða.

Þeirri málsástæðu stefnanda að með framangreindum millifærslum hafi hún verið að leggja stefnda fé til fjárfestingar hans að B hefur eindregið verið mótmælt af stefnda. Hefur ekki verið sýnt fram á að það hafi verið sameiginlegur skilningur aðila að þarna hafi stefnandi verið að leggja stefnda til fé vegna fjárfestingar hans í fasteigninni að B. Aðilar sömdu ekki um að stefnandi skyldi eignast hlut í fasteign stefnda og virðist ekki hafa verið rætt um það þeirra í milli að öðru leyti en því að stefndi hafi boðið stefnanda munnlega um 2-3% eignarhlut í fasteigninni sem hún hafi ekki talið ásættanlegt. Að öllu virtu og með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á, gegn eindregnum mótmælum stefnda, að hún eigi rétt til endurgreiðslu framangreindra fjármuna sem hún greiddi inn á bankareikning stefnda.

Endurgreiðsla á ferðakostnaði

Hvað varðar greiðslu vegna utanlandsferðar aðila hefur ekki verið sýnt fram á hvor málsaðila hafi greitt þær 70.000 krónur sem greiddar voru upp í ferðina. Hafa báðir aðilar haldið því fram að hafa greitt umræddar 70.000 krónur en engin gögn liggja fyrir um hvernig greiðslu þessari var háttað. Með hliðsjón af því að greiðsla sú sem stefnandi krefst að hluta endurgreiðslu á nam rúmlega helmingi ferðakostnaðar í heild verður ekki talið, gegn mótmælum stefnda, að fullnægjandi sönnun sé komin fram um að stefndi hafi ekki greitt inn á ferðina 70.000 krónur og verður því ekki fallist á endurkröfurétt stefnanda hvað ferðakostnað aðila varðar.

Endurgreiðsla á andvirði rafmagnstækja

Stefnandi hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa tekið með sér, er hún flutti út úr B, hluta þeirra rafmagnstækja sem hún hefur krafist endurgreiðslu á í máli þessu, þ.e. þvottavél, þurrkara og ísskáp. Eins og áður segir lækkaði stefnandi kröfu sína um 177.795 krónur vegna þessa, sem er andvirði þvottavélar, þurrkara og ísskáps. Krefst hún því greiðslu á 216.200 krónum vegna rafmagnstækjanna sem sé verðmæti þeirra tækja sem skilin voru eftir í íbúðinni. Er þar m.a. um að ræða uppþvottavél sem stefndi hefur mótmælt að skilin hafi verið eftir í íbúðinni.

Stefndi hefur haldið því fram að hann hafi greitt um helming andvirðis rafmagnstækja þeirra sem stefnandi lagði heimilinu til, þ.e. um 160.000 krónur með ýmsum smærri greiðslum. Stefnandi hefur mótmælt því. Stefnandi hefur viðurkennt að hafa móttekið 100.000 krónur á sama tíma og helluborði og ofni var skilað til stefnda, en hefur þó mótmælt því að um hafi verið að ræða greiðslu stefnda vegna tækjanna.

Stefnandi hefur ekki lagt fram önnur gögn um verð rafmagnstækjanna en skriflegar upplýsingar hennar sjálfrar þar um. Þá hafa engin gögn verið lögð fram um hve margar vinnustundir það tók fyrir stefnanda að greiða tækin.

Með hliðsjón af staðhæfingum stefnda um greiðslur vegna rafmagnstækjanna og mótmælum hans við kröfunni verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt nægilega fram á að stefndi hafi ekki greitt henni hluta umræddra rafmagnstækja í smærri fjárhæðum. Þá verður það heldur ekki talið sannað gegn mótmælum stefnda að umrædda greiðslu að fjárhæð 100.000 krónur hafi stefndi ekki ætlað sem endurgjald fyrir ofn og helluborð.

Krafa stefnanda um endurgjald fyrir bókhaldsvinnu

Eins og áður er rakið heldur stefnandi því fram að hún hafi eytt þó nokkrum tíma í það reglulega að aðstoða stefnda við gerð reikninga, virðisaukaskattsskýrslna og við úthringingar. Stefndi hefur viðurkennt að stefnandi hafi aðstoðað hann að einhverju leyti en heldur því fram að aðeins hafi verið um smávægilega aðstoð að ræða.

Kröfu um greiðslu 900.000 króna byggir stefnandi á því að henni sé rétt endurgjald eða bætur vegna vinnu þessarar, 25.000 krónur á mánuði í 36 mánuði. Fjárhæð kröfu stefnanda hefur í engu verið rökstudd eða gögn lögð fram henni til stuðnings. Stefnandi leiddi fyrir dóminn vitnið D, fyrrverandi eigandi E þar sem stefndi vann við útkeyrslu, sem bar að hann ræki minni til þess að stefnandi hefði hringt nokkur símtöl í hann þar sem gengið hefði verið á eftir greiðslu reikninga til stefnda og vegna uppsagnar E á samningi við stefnda. Ekki liggja önnur gögn fyrir sem styðja staðhæfingu stefnanda um vinnuframlag hennar en umrædd skýrsla vitnisins og staðhæfing stefnanda sjálfrar um að hún hafi eytt í það töluverðum tíma að aðstoða stefnda á framangreindan hátt.

Með hliðsjón af mótmælum stefnda er stefnandi ekki talin hafa sýnt fram á það á fullnægjandi hátt að hún hafi innt af hendi vinnu í þeim mæli sem hún hefur haldið fram, og þá hefur hún ekki lagt fram fullnægjandi gögn sem styðja kröfu hennar um að henni sé rétt endurgjald 25.000 krónur á mánuði í þrjú ár. Er stefnandi því ekki talin hafa sýnt fram á að hún hafi innt af hendi vinnu umfram þá aðstoð sem eðlilegt má telja að sambúðarfólk inni af hendi í þágu hvors annars, né að hún hafi talið á þeim tíma að eðlilegt eða sanngjarnt væri að hún fengi greiðslu fyrir aðstoðina.

Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að rétt sé að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda eins og að framan er rakið.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmd til að greiða stefnda málskostnað sbr. 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur með hliðsjón af umfangi málsins og rekstri þess í heild.

Sveinn Sigurkarlsson kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Stefndi, M, er sýkn af kröfum stefnanda, K.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.