Hæstiréttur íslands

Mál nr. 430/2011


Lykilorð

  • Fasteignakaup
  • Greiðsludráttur
  • Dráttarvextir


                                     

Fimmtudaginn 23. febrúar 2012.

Nr. 430/2011.

Vegagerðin

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Ístaki hf.

(Othar Örn Petersen hrl.)

og gagnsök

Fasteignakaup. Greiðsludráttur. Dráttarvextir.

Aðila greindi á um uppgjör vegna dráttar V á að greiða Í hf. kaupverð lands. Með því að ekkert var fram komið í málinu sem studdi þá staðhæfingu V að hann hefði ekki átt að reiða fram hina umsömdu greiðslu í samræmi við afdráttarlaust orðalag kaupsamnings var fallist á að V bæri að greiða Í hf. dráttarvexti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara lækkunar á þeim. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 21. september 2011. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi greiði sér 54.001.080 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 37.388.264 krónum frá 19. desember 2007 til 25. júlí 2008, af 51.826.514 krónum frá þeim degi til 10. desember 2008 og af 54.001.080 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 29. desember 2008 að fjárhæð 54.001.080 krónur sem dragist frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Til vara krefst hann þess að aðaláfrýjandi greiði sér 14.454.618 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. desember 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort gagnáfrýjandi eigi rétt til vaxta eða verðbóta úr hendi aðaláfrýjanda vegna dráttar aðaláfrýjanda á að greiða á réttum tíma kaupverð lands þess er hann keypti af gagnáfrýjanda. Umrædd landakaup voru tvíþætt. Upphaflega keypti aðaláfrýjandi 21.166 m² undir vegstæði með samningi 19. desember 2007 og var hlutdeild gagnáfrýjanda í þeirri landstærð 19.784 m². Síðar var aukið við landstærðina eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi.  

Í samningi aðila 19. desember 2007 var skýrlega kveðið á um gagnkvæmar skyldur þeirra sem fólust í afhendingu lands gegn greiðslu kaupverðs er inna skyldi af hendi við undirskrift samningsins. Samkvæmt samningnum og í samræmi við almennar reglur færðist eignarréttur að landinu þá yfir til aðaláfrýjanda. Með því að ekkert er fram komið í málinu sem styður þá staðhæfingu aðaláfrýjanda að hann hafi ekki átt að reiða fram hina umsömdu greiðslu í samræmi við afdráttarlaust orðalag 2. mgr. 5. gr. samningsins ber gagnáfrýjanda réttur til þeirra dráttarvaxta sem dæmdir voru með hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. 

Eftir þessum úrslitum og í samræmi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Vegagerðin, greiði gagnáfrýjanda, Ístaki hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2011.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 16. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ístaki hf., Engjateigi 7, Reykjavík, gegn Vegagerðinni, Borgartúni 5-7, Reykjavík, með stefnu birtri 5. október 2010.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 54.001.080 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af  37.388.264 krónum frá 19. desember 2007 til 25. júlí 2008, af 51.826.514 krónum frá þeim degi til 10. desember 2008, af 54.001.080 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun hinn 29. desember 2008 að fjárhæð 54.001.080 krónur sem dragast skal frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 14.454.618 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. desember 2008 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfurnar verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi þess að honum verði í báðum tilvikum tildæmdur málskostnaður.

II

Málavextir

Stefnandi og félagið Leirvogstunga ehf. áttu hvor sitt landið að Leirvogstungu og Tungumelum í Mosfellsbæ, en lönd þessi eru skipulögð sem íbúða- og atvinnusvæði. Höfðu félögin hug á því að tengja svæðin og þá atvinnu- og íbúðabyggð sem þar var að rísa við Hringveg (Vesturlandsveg), sem liggur í gegnum lönd félaganna, með byggingu mislægra gatnamóta og breytingu á vegstæðinu en til þess þurfti samþykki stefnda. Til hafði staðið af hálfu stefnda að fara í bráðabirgðaframkvæmdir við vegstæði Hringvegar innan lands stefnanda og Leirvogstungu ehf. um nokkurn tíma og gerðu áætlanir stefnda ráð fyrir að hluti af landi stefnanda og Leirvogstungu ehf. færi undir framkvæmdirnar. Því komu stefnandi og Leirvogstunga ehf. á framfæri nýjum tillögum sem fólu í sér breytingar á vegstæði Hringvegar og að minna land yrði notað undir hið nýja vegstæði en gert var ráð fyrir í áætlunum stefnda. Þá var gert ráð fyrir að stefnandi og Leirvogstunga ehf. myndu kosta framkvæmdirnar að hluta, en að stefndi legði til þá fjármuni sem eyrnamerktir hefðu verið verkefninu fyrir aðkomu stefnanda og Leirvogstungu ehf.

Hinn 19. desember 2007 gerðu stefndi annars vegar og Leirvogstunga ehf. og stefnandi hins vegar, með sér skriflegan samning um breytingu á legu Hringvegar. Ber hann yfirskriftina „um breytingu á legu Hringvegar og tengingu íbúða- og atvinnuhverfis í landi Leirvogstungu og Tungumela með mislægum gatnamótum ásamt afhendingu lands til Vegagerðarinnar“. Í fyrstu grein var kveðið á um að samningurinn fjallaði um heimild landeigenda til að tengja íbúða- og atvinnuhverfi í landi Leirvogstungu og Tungumela við Hringveg með byggingu mislægs hringtorgs og breytingu á veglínu Hringvegar (Vesturlandsvegar) í samræmi við breytingar á skipulagi Mosfellsbæjar og kostnaðarþátttöku stefnda í þeim framkvæmdum, sbr. 1. gr. samningsins. Samkvæmt 2. gr. samningsins samþykkti stefndi óskir landeigenda um tilteknar breytingar á Hringvegi og tengingar við hann. Samkvæmt 3. gr. samningsins skyldu landeigendur sjá um og kosta alla þætti undirbúnings og framkvæmdir samkvæmt samningnum, þ.m.t. mat á umhverfisáhrifum gerðist þess þörf. Stefndi skyldi samþykkja verkhönnunargögn áður en eiginlegar framkvæmdir hefðust og hafa eftirlit á eigin kostnað með framkvæmdum landeigenda og vegsvæði Hringvegar. Samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi stefndi greiða 300 milljónir króna vegna framkvæmdanna, þ.e. 30.000.000 króna við undirritun samningsins gegn tryggingu 240.000.000 króna í fjórum jöfnum greiðslum eftir framvindu verksins og 30.000.000 króna í lok verks eftir lokaúttekt. Upphæðirnar skyldu verðbætast samkvæmt byggingarvísitölu. Landeigendur skyldu bera allan annan kostnað vegna framkvæmdanna, en þó var gert ráð fyrir því í 5. gr. samningsins að stefndi greiddi sérstaklega fyrir land sem landeigendur, þ.m.t. stefnandi, létu undir veginn. Í 2. mgr. 5. gr. samningsins var svohljóðandi ákvæði: „Landeigendur láta af hendi og afsala til Vegagerðarinnar við undirritun samningsins landi fyrir veghelgunarsvæði, eins og nánar greinir á meðfylgjandi mynd, fskj. 04. Greiðsla fyrir land er ekki innifalin í framangreindum fjárhæðum í 4. grein. Umsamin greiðsla fyrir landið er innt af hendi við undirskrift samnings þessa, sbr. þó meðfylgjandi bókanir, sbr. fskj. 05 og fskj. 06.“ Í 1. mgr. 7. gr. samningsins kom fram að landeigendur gerðu þann fyrirvara við samninginn að skipulagsyfirvöld féllust á að breyta núverandi veghelgunarákvæðum og heimiluðu skipulagningu byggðar- og/eða athafnasvæða á því landi sem ella hefði farið undir veg samkvæmt núgildandi áætlunum. Í 2. mgr. 7. gr. var kveðið á um að samningurinn félli niður ef ekki fengist framkvæmdaleyfi hjá sveitarstjórn innan níu mánaða eða fyrirsjáanlegar yrðu verulegar tafir á framkvæmd verksins vegna athafna eða athafnaleysis sveitarfélagsins eða annarra opinberra aðila.

Í samningnum kom ekki fram hverja fjárhæð stefndi skyldi greiða stefnanda og Leirvogstungu ehf. fyrir það land sem færi undir vegamannvirkin, en ágreiningslaust er að umsamið verð var 40.000.000 króna fyrir samtals 21.166 m2 lands. Skyldi greiðslan skiptast á milli stefnanda og Leirvogstungu í réttu hlutfalli við stærð þess lands sem var í eigu hvors um sig sem færi undir vegamannvirkin. Við undirskrift samnings var gert ráð fyrir að samtals 19.784 m2 af landi í eigu stefnanda og 1.382 m2 af landi í eigu Leirvogstungu ehf. færu undir vegamannvirkin þannig að 37.388.264 krónur skyldu koma í hlut stefnanda en 2.611.736 krónur í hlut Leirvogstungu ehf. Umræddar greiðslur, ásamt viðbótargreiðslu vegna frekari landkaupa stefnda af landeigendum, voru inntar af hendi 29. desember 2008. Telur stefnandi það brot á 2. mgr. 5. gr. samningsins.

Stefndi tók að sér að útbúa skjöl vegna þess lands sem landeigendur afhentu undir veginn. Hinn 23. janúar 2008 sendi Teitur Gústafsson, innkaupastjóri stefnanda Stefáni Erlendssyni, forstöðumanni lögfræðideildar stefnda, tölvupóst þar sem Stefán var inntur frétta af umræddri greiðslu. Með tölvupósti þennan sama dag svaraði Stefán á eftirfarandi hátt: „Sæll. Eðlilegast og venju samkvæmt væri að ganga frá undirritun nauðsynlegra skjala til þinglýsingar samhliða greiðslu. Skjalagerðin hefur dregist hjá okkur meira en ég reiknaði með. Það kom í ljós að gera þarf stofnskjöl fyrir báðar jarðir með tilheyrandi hnitsettum uppdráttum. Þess vegna [svo] hefur þetta dregist og gott væri ef þið sýnduð biðlund á meðan við erum að afgreiða þetta frá okkur. Ég skal reka á eftir þessu eins og ég get, vonandi bara spurning um nokkra daga að koma skjölunum til ykkar. Með kveðju. Stefán.“

Við skjalagerðina kom í ljós að misskilningur var á milli aðila um landstærðir. Jafnframt kom í ljós að hluti af landi Leirvogstungu hafði verið tekið eignarnámi vegna vegagerðar á áttunda áratug síðustu aldar, en á þeim tíma hafi ekki tíðkast að þinglýsa eignarheimildum fyrir land sem tekið hafði verið eignarnámi. Enn fremur kom í ljós að land stefnda var ekki 30 metra frá miðlínu vegar eins og aðilar hafi reiknað með, heldur 20 metra frá miðlínu. Er málsaðilar unnu að lausn þessara mála sömdu þeir um, að auk þess lands sem gert var ráð fyrir að stefndi keypti samkvæmt samningnum frá 19. desember 2007, myndi stefndi enn fremur kaupa land af stefnendum á því svæði sem gert var ráð fyrir að vegurinn lægi í framtíðinni. Þurfti því að vinna samninga og stofnskjöl á grundvelli nýrra forsendna. Í málinu liggja fyrir gögn um samskipti stefnanda og stefnda er þessu tengjast, m.a. vegna kröfu um greiðslu verðbóta/dráttavaxta.

Hinn 23. desember 2008 gengu aðilar frá kaupum stefnda á landi stefnanda og Leirvogstungu ehf. Undirrituðu aðilar afsöl vegna kaupanna og stofnskjöl. Í afsölum var kveðið á um að fullnaðarbætur fyrir ofangreinda spildu skyldu greiðast samkvæmt samningi aðila þar um. Í uppgjöri sem lá fyrir um kaupin var ekki tekið tillit til krafna stefnanda um verðbætur eða dráttarvexti eins og hann hafði krafist og því gaf hann út yfirlýsingu sama dag um fyrirvara um frekari kröfur vegna verðbóta eða dráttarvaxta. Stefndi mótmælti fyrirvara þessum með sérstakri yfirlýsingu. Í samræmi við uppgjörið greiddi stefndi stefnanda 54.001.080 krónur 29. desember 2008 en það var greiðsla fyrir landið sem gert var ráð fyrir að stefndi keypti með samningum frá 19. desember 2007 og viðbótarland það sem stefndi keypti af stefnanda.

Skýrslur fyrir dómi gáfu Guðmundur Teitur Gústafsson, Jón Valgeir Sveinsson, Stefán Erlendsson, Guðni Eiríksson og Júlíus Þór Júlíusson.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að hann eigi rétt á dráttarvöxtum frá 19. desember 2007 af þeirri greiðslu sem stefnda hafi borið að inna af hendi fyrir land stefnanda að Leirvogstungu og Tungumelum í Mosfellsbæ undir nýtt vegstæði Hringvegar og tengd vegamannvirki. Af skýru orðalagi 2. mgr. 5. gr. samnings aðila megi ráða að stefnandi skyldi láta af hendi tiltekið land og stefndi skyldi inna af hendi tiltekna greiðslu fyrir landið þegar við undirskrift samnings aðila. Stefnandi hafi látið landið af hendi á umsömdum tíma, en stefndi greiddi hins vegar ekki fyrir landið fyrr en ríflega ári síðar, eða hinn 29. desember 2008. Stefnandi eigi því rétt á dráttarvöxtum vegna greiðsludráttar stefnda frá gjalddaga 19. desember 2007 og þar til krafa stefnanda hafi verið gerð upp að fullu, sbr. e-lið 1. mgr. 49., gr. sbr. 61. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 og sbr. 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Stefnandi hafnar þeim málatilbúnaði stefnda að stefnandi eigi ekki rétt á dráttarvöxtum þar sem greiðsla stefnda hafi átt að fara fram samhliða því að stefnandi léti af hendi og afsalaði til stefnda umræddu landi skv. orðalagi 2. mgr. 5. gr. samnings aðila. Þar sem afsalsgerð hefði dregist af ýmsum ástæðum sem ekki væru á ábyrgð stefnanda hefði greiðsla ekki farið fram. Orðalag 2. mgr. 5. gr. verði ekki skilið svo að greiðsla hafi verið skilyrt við það að samhliða yrði gengið frá formlegu afsali fyrir landið. Þá hafi það ekki verið við stefnanda að sakast að ekki hafi verið gengið frá afsali landsins þegar við undirskrift samnings.

Stefnandi útskýrir dráttavaxtakröfu sína þannig að hann geri kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga af 37.388.264 krónum frá undirskriftardegi samnings 19. desember 2007, en umrædd fjárhæð sé hluti stefnanda í þeirri 40.000.000 króna greiðslu sem samið var um að greiðast skyldi við undirskrift. Skömmu eftir undirritun hafi hins vegar komið í ljós að stefnandi þurfti að láta af hendi mun meira land undir vegmannvirkin en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Með bréfi dags. 25. júlí 2008, hafi stefnandi krafið stefnda um greiðslu í samræmi við stærð þess lands sem þá skyldi fara undir vegamannvirkin, eða 51.826.514 krónur auk verðbóta. Því sé krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 25. júlí 2008 til 10. desember 2008, en síðarnefnda daginn hafi stefndi sent stefnanda uppgjör sem greiðslur til hans byggðust endanlega á. Þar komi fram sú fjárhæð sem stefndi bauð sem greiðslu fyrir land stefnanda, 54.001.080 krónur án nokkurra verðbóta eða vaxta, í samræmi við endanlega stærð þess lands sem skyldi fara undir vegamannvirkin. Því sé krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 10. desember 2008 til þess tíma er stefndi hafi endanlega gert upp við stefnanda. Til frádráttar kröfu stefnanda komi sú greiðsla sem hann hafi móttekið fyrir landið, 54.001.080 krónur, en greiðsla þessi hafi verið innt af hendi 29. desember 2008.

Varakröfu sína um verðbætur byggir stefnandi á því að sanngjarnt sé og eðlilegt, m.a. með hliðsjón af ákvæðum 31. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, og meginreglum samningaréttarins um rangar eða brostnar forsendur, sem og meginreglum kröfuréttar um óréttmæta auðgun, að hann fái greiðsludrátt stefnda bættan með verðbótum, ef ekki dráttarvöxtum. Í þessu samhengi verði að horfa til þess að sá dráttur sem hafi orðið á greiðslu kaupverðsins verði að engu leyti rakin til stefnanda, heldur eingöngu seinagangs stefnda sjálfs við skjalagerð. Jafnframt vísar stefnandi til þess að að skv. 4. gr. samnings aðila skyldu greiðslur skv. þeirri grein, sem ekki skyldu inntar af hendi þegar við undirritun samningsins, taka breytingum í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu.   

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og um óréttmæta auðgun. Þá vísar hann til laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, einkum ákvæði 11., 9., 50. og 61. gr. þeirra laga. Enn fremur til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. Jafnframt til 31. og 36. gr. laga nr. 7/1936 og meginreglna samninga- og kröfuréttar um rangar og brostnar forsendur. Krafa stefnanda um málskostnað byggir á XXI. kafla l. nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er hvað varðar aðalkröfu um sýknu vísað til þess að skýra verði 2. mgr. 5. gr. samnings aðila frá 17. desember 2007 þannig að samhengi sé á milli afsals og afhendingar stefnanda á landi undir veg og greiðslu frá stefnda fyrir landið. Sú niðurstaða sé í samræmi við grunnreglur 1. og  2. mgr. 11. gr. fasteignakaupalaga nr. 40/2002.

Stefndi byggir á því að ekki hafi verið samið um ákveðinn afhendingartíma á landinu. Líta verði til þess að stefnandi hafi ekki getað afsalað landinu til stefnda við undirskrift samnings þar sem ekki hafi verið búið að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu til þess. Stefnandi hafi sem eigandi landsins borið ábyrgð á því að koma gögnum um landið í það horf að unnt væri að afsala því til stefnda. Fyrr en það hafði verið gert og stefnandi hafi í raun getað afsalað landinu til stefnda, hafi hann ekki átt rétt á greiðslu fyrir það.

Þá byggir stefndi á því að þótt hann hafi af hjálpsemi og umfram skyldu tekið að sér að útbúa gögnin fyrir stefnanda, þýði það ekki að hann beri ábyrgð á þeim drætti sem hafi orðið á frágangi nauðsynlegra gagna. Stefnandi hefði, sem eigandi landsins, hvenær sem er getað látið útbúa gögnin á eigin kostnað.

Stefndi telur að skýra verði 2. mgr. 5. gr. samnings aðila með hliðsjón af fyrirvara 7. gr. samningsins, þ.e. um samþykki skipulagsyfirvalda.

Stefndi telur að engar forsendur séu fyrir varakröfu stefnanda um verðbætur á kaupverð. Krafan styðjist ekki við neina heimild og ekkert ákvæði sé í samningi aðila um verðbætur á kaupverð fyrir land. Þá mótmælir stefndi því að stefnandi eigi rétt á verðbótum á grundvelli sanngirnissjónarmiða sbr. 31. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. 

Varakröfu sína um lækkun stefnukrafna byggir stefndi á því, að fallist dómurinn á að stefndi hafi átt að greiða kaupverðið fyrir landið fyrr en raun varð á, beri í besta falli að reikna verðbætur á kaupverðið. Ekki sé hins vegar unnt að reikna verðbætur frá desember 2007 á fjárhæð sem að hluta verði til í júlí 2008 þegar stefnandi hafi gert kröfu um að stefndi greiddi sér fyrir stærra land en aðilar ráðgerðu við undirskrift samningsins. Stefndi telur að ef reikna eigi verðbætur á kaupverð beri að reikna þær í fyrsta lagi frá 25. júlí 2008 þegar stefnandi hafi mótað kröfugerð sína gagnvart stefnda með bréfi til hans. Verði ekki fallist á það geti stefnandi í besta falli krafist verðbóta frá 5. maí 2008 þegar athugasemdir hafi borist frá stefnanda við skjalagerð stefnda. Þá telur stefndi að frekar beri að nota vísitölu neysluverðs til verðtryggingar ef verðbæta eigi kaupverðið.

Stefndi byggir á því að telji dómurinn verðbætur á kaupverð ekki eiga við, beri að vísa dráttarvaxtakröfu frá dómi þar sem hún sé vanreifuð. Krafan geri ráð fyrir að dráttarvextir séu reiknaðir af 51.826.514 krónum frá 25. júlí 2008 til 10. desember sama ár þrátt fyrir að höfuðstóllinn sé 54.001.080 krónur. Þannig sé vaxtaberandi fjárhæð hærri en upphaflegur höfuðstóll hafi nokkurn tíma verið. Það gangi ekki upp og beri því að vísa kröfunni frá dómi. Telji dómurinn hins vegar að þrátt fyrir framangreinda annmarka beri að reikna dráttarvexti á kaupverðið, byggir stefndi á því að þá beri að reikna frá 25. júlí 2008 þegar stefnandi hafi mótað kröfugerð sína gagnvart stefnda með bréfi til hans, eða í besta falli frá 5. maí 2008 þegar athugasemdir hafi borist frá stefnanda við skjalagerð stefnda.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um að samninga skuli halda og forsendur og forsendubrest, til meginreglna samningalaga nr. 7/1936, til ákvæða fasteignakaupalaga nr. 40/2008, einkum 11. gr. og d-liðar 1. mgr. 30. gr. þ.l. og 3. mgr. 40. gr. vegalaga nr. 80/2007. Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þ.l.

IV

Niðurstaða

 Í máli þessu deila aðilar um hvort stefnda beri að greiða stefnanda dráttarvexti eða verðbætur af kaupverði vegna kaupa stefnda á landspildu af stefnanda. Upphaflegur samningur um að stefndi keypti land af stefnanda og Leirvogstungu ehf. var gerður hinn 19. desember 2007. Í honum var ekki einungs samið um kaup á umræddu landi heldur snérist hann líka um vegagerð. Ákvæði 2. mgr. 5. gr. samningsins var svohljóðandi: „Landeigendur láta af hendi og afsala til Vegagerðarinnar við undirritun samningsins landi fyrir veghelgunarsvæði, eins og nánar greinir á meðfylgjandi mynd, fskj. 04. Greiðsla fyrir land er ekki innifalin í framangreindum fjárhæðum í 4. grein. Umsamin greiðsla fyrir landið er innt af hendi við undirskrift samnings þessa, sbr. þó meðfylgjandi bókanir, sbr. fskj. 05 og fskj. 06.“ Ekki kemur fram í samningum hvert kaupverð landsins sé en óumdeilt er að stefnandi átti að greiða stefnda og Leirvogstungu ehf. samtals 40.000.000 króna fyrir það og að hlutur stefnanda í greiðslunni hafi verið 37.388.264 krónur. Að mati dómsins er orðalag framangreinds samnings skýrt um það að stefnda bar að inna af hendi kaupverð landsins við undirskrift hans. Stefnda var ljóst að skriflegt afsal lá ekki fyrir við undirskriftina enda hafði hann tekið að sér gerð þess og annarra nauðsynlegra skjala. Hefði stefnda verið í lófa lagið að gera það að skilyrði fyrir greiðslu kaupverðs að fyrir lægi afsal tækt til þinglýsingar en fram hefur komið að stefndi, sem hefur sérfræðinga í skjalagerð á sínum snærum, átti þátt í gerð samningsins. Á sama hátt hefði stefndi getað gert það að skilyrði að fyrir lægi framkvæmdaleyfi skipulagsyfirvalda, sbr. fyrirvara í 7. gr. samningsins. Ber því að fallast á að stefnandi eigi rétt á að stefndi greiði honum dráttarvexti vegna greiðsludráttar af hans hluta kaupverðsins samkvæmt samningum, 37.388.264 krónum, sbr. e-lið 1. mgr. 49., sbr. 61. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002, sbr. 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá undirskrift samningsins hinn 19. desember 2007.

Upphaflega ætlaði stefndi sér að kaupa samtals 21.166 m² land af stefnanda og Leirvogstungu ehf. Síðar var ákveðið að stefndi keypti stærra landsvæði af þeim. Sömdu aðilar um að þeir myndu fá viðbótarlandið bætt á sama fermetraverði og gert hafði verið ráð fyrir í framangreindum samningi frá 19. desember 2007. Samkvæmt lokauppgjöri aðila, sem lá fyrir við útgáfu afsals um landið hinn 23. desember 2008, átti stefnandi að fá 54.001.080 krónur fyrir sinn hluta landsins, þar af nam greiðsla fyrir umrætt viðbótarland 16.612.816 krónum. Gerir stefnandi kröfu til þess að stefndi greiði honum enn fremur dráttarvexti vegna kaupa hans á viðbótarlandinu. Stefnandi reiknar þó upphaf dráttarvaxta af þeim hluta kröfunnar frá síðari tíma, þ.e. á grundvelli mismunandi uppgjörs frá 28. júlí og 10. desember 2008 en síðarnefnda uppgjörið var lagt til grundvallar við útgáfu afsals hinn 23. desember það ár. Þótt málsaðilar hafi sent hvor öðrum tillögur að uppgjöri getur það að mati dómsins ekki leitt til þess að líta megi svo á að kaupverð viðbótarlandsins hafi þar með verið fallið í gjalddaga og að stefnandi eigi því rétt á dráttarvöxtum, reiknuðum af þeirri fjárhæð, úr hendi stefnda. Ákvæði samningsins frá 19. desember 2007 um greiðslu kaupverðs við undirskrift samnings getur heldur ekki náð til greiðslu vegna þessa viðbótarlands. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda um dráttarvexti af kaupverði viðbótarlandsins.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 37.388.264 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2007 til greiðsludags, að frádreginni innborgun hinn 29. desember 2008 að fjárhæð 37.388.264 krónur sem dragast skal frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Með hliðsjón af ofangreindri niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Vegagerðin, greiði stefnanda, Ístaki hf., 37.388.264 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2007 til greiðsludags, að frádreginni innborgun hinn 29. desember 2008 að fjárhæð 37.388.264 krónur sem dragast skal frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.