Hæstiréttur íslands
Mál nr. 59/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Lögreglurannsókn
- Gagnaöflun
- Banki
- Þagnarskylda
- Upplýsingaskylda
- Sératkvæði
|
|
Miðvikudaginn 15. febrúar 2006. |
|
Nr. 59/2006. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn Landsbanka Íslands hf. (Reinhold Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Lögreglurannsókn. Gagnaöflun. Bankar. Þagnarskylda. Upplýsingarskylda. Sératkvæði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms sem gerði bankastofnuninni L skylt að afhenda R afrit nánar tilgreindra skjala varðandi tilteknar færslur á bankareikningum í eigu tveggja nafngreindra manna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2006, þar sem varnaraðila var gert að afhenda sóknaraðila nánar tilteknar upplýsingar og ljósrit gagna. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með hinum kærða úrskurði var varnaraðila gert skylt að afhenda sóknaraðila nánar tilgreindar upplýsingar er vörðuðu greiðslur af tilteknum reikningum á nafni A og B hjá varnaraðila. Kröfu þessari beindi sóknaraðili að varnaraðila einum en ekki hinum ætluðu eigendum bankareikninganna. Áður mun A við skýrslutöku hjá lögreglu hafa neitað að svara spurningum um reikninginn, sem var á hans nafni hjá varnaraðila, en B mun ekki hafa kannast við að eiga þann reikning, sem hann var skráður fyrir.
Í lögum nr. 19/1991 er gert ráð fyrir því sem meginreglu að sakborningur eigi þess kost að sækja dómþing í eigin máli eftir að ákæra er gefin út, sbr. til dæmis 4. mgr. 129. gr. laganna. Í lögum nr. 19/1991 er hins vegar, að því leyti sem ekki er mælt sérstaklega fyrir á annan veg, almennt ekki gert ráð fyrir að grunuðum manni eða þeim sem á þá hagsmuni sem rannsókn beinist að sé gefinn kostur á að láta mál til sín taka meðan það er til rannsóknar. Regla þess efnis verður hvorki leidd af 70. gr. stjórnarskrár né 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Er það ekki á valdsviði dómstóla að leiða slíka reglu í lög.
Í greinargerð til Hæstaréttar heldur varnaraðili því fram að hafna beri beiðni sóknaraðila þar sem hún sé ekki nógu skýr og að ekki sé ljóst hvernig upplýsingar þær sem hún lýtur að tengist yfirstandandi rannsókn. Ekki verður á þetta fallist. Beiðni sóknaraðila lýtur að því að varnaraðili gefi nákvæmlega tilgreindar upplýsingar er tengjast færslum af framangreindum tveimur reikningum. Þá er ljóst af greinargerð sóknaraðila að beiðnin tengist rannsókn á ætluðum refsiverðum viðskiptum með stofnbréf Sparisjóðs Hafnarfjarðar og verður ekki á grundvelli fyrirliggjandi gagna fullyrt að umbeðnar upplýsingar geti ekki haft þýðingu við rannsókn málsins.
Þá heldur varnaraðili því fram í greinargerð sinni til Hæstaréttar að hafna beri beiðninni vegna þess að hana megi að hluta rekja til upplýsinga sem fengust á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2005. Þar hafi varnaraðila verið gert skylt að láta Fjármálaeftirlitinu í té tilteknar upplýsingar um hreyfingar á bankareikningum Lögmanna í Laugardal ehf., en lögmannsstofa þessi hafi nú lagt fram kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur um að Fjármálaeftirlitinu og eftir atvikum sóknaraðila verði óheimilt að nota þær upplýsingar er fengust á grundvelli úrskurðarins. Varnaraðili kærði ekki þann úrskurð til Hæstaréttar og lauk málinu með því að hann afhenti þau gögn sem úrskurðurinn laut að. Ágreiningur, sem varnaraðili kveður vera um réttmæti úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2005, getur ekki haft áhrif á heimildir sóknaraðila til frekari rannsóknar á ætluðum brotum er tengjast kunna sölu á stofnfé í Sparisjóð Hafnarfjarðar. Geta þeir, sem telja rétti sínum hallað með öflun þessara upplýsinga, fengið leyst úr atriðum er henni tengjast í opinberu máli sem kann að verða höfðað um sakarefnið eða með því að höfða einkamál til heimtu skaðabóta, eftir atvikum á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Í máli þessu gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðila verði með dómsúrskurði gert skylt að láta honum í té upplýsingar og ljósrit varðandi innlánsreikninga tveggja nafngreindra manna. Liggur fyrir að rannsókn lögreglu beinist að hagsmunum þessara manna og gæti meðal annars lotið að því hvort þeir hafi framið refsiverð brot.
Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir dómi. Hið sama kemur fram í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þessi ákvæði fela í sér staðfestingu á meginreglu sem ótvírætt gildir á Íslandi um þetta efni. Til hennar heyrir, að eigandi þeirra réttinda og hagsmuna, sem fjallað er um fyrir dómi, eigi þess kost að gæta þeirra við meðferð máls, eftir atvikum með því að andmæla kröfum sem að honum beinast. Gildir reglan að mínum dómi einnig þegar leitað er atbeina dómstóla við rannsókn opinberra mála, nema sérstakar ástæður mæli samkvæmt eðli málsins gegn því, svo sem ef það er talið geta hamlað rannsókn að gefa viðkomandi aðila kost á að gæta réttinda sinna eða ekki er vissa um hver eigi þá hagsmuni sem rannsókn beinist að. Regla þessi kemur til dæmis fram í 2. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar sem gert er ráð fyrir að verjandi grunaðs manns skuli eiga þess kost að vera viðstaddur skýrslutöku fyrir dómi meðan á rannsókn stendur.
Í því máli sem hér er til úrlausnar felst í beiðni sóknaraðila ósk um að gefnar verði upplýsingar af innlánsreikningum fyrrgreindra manna þrátt fyrir þagnarskyldu starfsmanna varnaraðila samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ljóst er að umrætt lagaákvæði um þagnarskyldu miðar framar öðru að því að vernda hagsmuni eigenda bankareikninga fyrir að veittar verði upplýsingar um einkahagi þeirra á sviði fjármála. Ekki verður séð að neinir hagsmunir sem tengjast hinni opinberu rannsókn mæli því gegn, að þessir menn fái sjálfir að gæta réttar síns, þegar tekin er afstaða til þess fyrir dómi hvort veita beri sóknaraðila umbeðinn aðgang að bankareikningunum. Ekki verður talið að fyrrgreindrar meginreglu teljist nægilega gætt með rétti eigenda innlánsreikninganna til andmæla og málsvarnar í opinberu máli, sem síðar kann að verða höfðað á hendur þeim á grundvelli rannsóknar lögreglunnar, enda verða nefndir hagsmunir þeirra þegar í stað skertir ef orðið verður við kröfu sóknaraðila í þessu máli. Með því að eigendum innlánsreikninganna hefur ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna í málinu og um er að ræða atriði sem dómstólum ber að gæta af sjálfsdáðum er að mínum dómi óhjákvæmilegt þegar af þessari ástæðu að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2006.
Héraðsdómi Reykjavíkur hefur borist krafa ríkislögreglustjóra um að Landsbanka Íslands hf. verði, með vísan til 74. gr., sbr. 1. mgr. 66. gr., 67. gr. og 68. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála og 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, gert skylt að láta efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans í té eftirtaldar upplýsingar og ljósrit:
1) Ljósrit, hafi bankinn það undir höndum, af tékka að fjárhæð kr. 50.529.126, sem keyptur var með greiðslu af reikningi B nr. [...], þann 30. desember s.l. og, hafi tékkinn verið seldur, upplýsingar um hvert og í þágu hvers söluandvirði tékkans var ráðstafað.
2) Upplýsingar um hver fyrirskipaði og/eða framkvæmdi millifærslu að fjárhæð kr. 51.586.125 af reikningi A, nr. [...], á reikning í Landsbanka Íslands í Luxemborg, þann 22. nóvember s.l.
Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að þann 16. desember s.l. hafi ríkislögreglustjóra borist tilkynning frá fjármálaeftirlitinu, skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Eigi tilkynningin rætur sínar að rekja til athugunar þess á málefnum Sparisjóðs Hafnarfjarðar sem hafi staðið um nokkurra mánaða skeið og sé enn ólokið. Hafi eftirlitið haft til skoðunar hvort virkur eignarhlutur hafi myndast í sjóðnum í andstöðu við 40. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002. Þá sé til skoðunar hvort tilteknir aðilar hafi veitt eftirlitinu rangar upplýsingar, sem sé refsivert skv. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálfyrirtæki.
Í 40. gr. laga um fjármálafyrirtæki komi fram að aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki skuli leita samþykkis fjármálaeftirlitsins fyrir fram. Samþykkis þess skuli enn fremur aflað þegar einstaklingur eða lögaðili eykur svo við eignarhlut sinn að bein eða óbein hlutdeild hans í eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti fer yfir 20, 33 eða 50% eða nemur svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfyrirtæki hans. Þá kemur fram í 2. mgr. að með virkum eignarhlut sé átt við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki sem nemi 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða aðra hlutdeild sem geri kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis. Grunsemdir séu uppi um að ekki hafi verið farið eftir umræddu ákvæði í viðskiptum með stofnbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar.
Ríkislögreglustjóri hefur hafið rannsókn á grundvelli umræddrar tilkynningar. Upphafsaðgerð rannsóknarinnar var að taka samtímis skýrslur af C, D, E, A, B og F. Eigi þessir aðilar það sameiginlegt að hafa fengið greiddar á framangreinda reikninga í eigu sinni 50 milljónir króna af reikningi Lögmanna í Laugardal ehf., sem virðast hafa haft milligöngu um sölu stofnbréfa í sjóðnum, en þrátt fyrir það hafa svarað fyrirspurnum fjármálaeftirlitsins um það hvort þeir hefðu selt hluti sína eða fengið tilboð í þá neitandi. Ef um ranga skýrslugjöf til fjármálaeftirlitsins sé að ræða sé hún refsiverð, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Upplýsingar um að umræddar fjárhæðir hafi verið greiddar inn á reikninga umræddra aðila fékk fjármálaeftirlitið eftir að það fékk 4 dómsúrskurði um að Landsbanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf., Íslandsbanka hf. og SPRON væri skylt að láta eftirlitinu í té upplýsingar og ljósrit af öllum gögnum í vörslu þeirra varðandi hreyfingar á bankareikningum Lögmanna Laugardal ehf., að fjárhæð 5 milljónir króna eða hærri frá 1. apríl 2005 til dagsetningar úrskurðarbeiðni. Ástæða þess að krafist var umrædds úrskurðar var sú að Lögmenn Laugardal ehf. höfðu við rannsókn eftirlitsins ítrekað verið nefndir sem milligöngumenn í viðskiptum með stofnfé sjóðsins og virtist sem lögmenn þeirrar lögmannstofu hefðu gegnt lykilhlutverki í viðskiptum með stofnfé í sparisjóðnum.
Í ljós hafi komið við skoðun á reikningum lögmannstofunnar að greiðslur til fjölmargra seljenda stofnfjár runnu af reikningum hennar, og námu þær í flestum tilvikum 50 milljónum króna. Athygli vakti hins vegar að ekki hafi verið að sjá greiðslur inn á reikninga frá kaupendum hlutanna. Bendi það til þess að þeir hafi hugsanlega komið að kaupunum fyrir hönd þriðja aðila. Þá hafi vakið athygli umræddar færslur til þeirra aðila sem hér um ræðir, sem tjáð höfðu fjármálaeftirlitinu að þeir hefðu ekki fengið nein tilboð í stofnfjárhluti sína eftir að greitt hafði verið inn á reikninga í þeirra eigu af reikningi lögmannstofunnar. Vöknuðu því spurningar um þessar greiðslur til þeirra.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi kærðu gefið mismunandi skýringar á ástæðum þess að 50 milljónir króna hafi verið lagðar á reikninga í þeirra eigu, af reikningi Lögmanna Laugardal ehf. Þeir aðilar sem hér um ræðir, B og A, kváðust við yfirheyrslu hjá lögreglu enn ekki hafa selt stofnfjárhluti sína. A neitaði að svara spurningum varðandi reikninginn í hans eigu sem greiddar höfðu verið 50 milljónir á, af reikningi Lögmanna Laugardal ehf., en B kvaðst hins vegar ekkert kannast við reikninginn sem þó var í hans nafni.
Vegna þessa krafði ríkislögreglustjóri Héraðsdóm Reykjavíkur um að úrskurðað yrði að honum væri heimilt að fá hjá Landsbanka Íslands hf. upplýsingar og gögn vegna m.a. umræddra reikninga. Fékkst úrskurður þess efnis þann 4. janúar sl. Samkvæmt þeim gögnum sem aflað var í kjölfarið hjá Landsbanka Íslands hf. vegna umræddra reikninga þá stofnuðu bæði A og B reikningana sjálfir en umræddar fjárhæðir höfðu hins vegar verið teknar út af reikningunum. Kr. 50.529.126 höfðu runnið af reikningi B til kaupa á tékka þann 30. desember sl., en 51.586.125 höfðu verið millifærðar af reikningi A þann 22. nóvember, inn á reikning í Landsbankanum í Luxemborg.
Þar sem umræddir aðilar hafa ekki kannast við þessa reikninga er nauðsynlegt vegna rannsóknar málsins, að fá umbeðnar upplýsingar og ljósrit til að unnt verði að sannreyna í hverra þágu umræddir fjármunir voru notaðir.
Samkvæmt 66. gr. og 67. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er rannsókn opinberra mála í höndum lögreglu nema á annan hátt sé mælt í lögum. Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Þau gögn og upplýsingar sem hér er krafist að veitt verði lögreglu eru að þessu leyti nauðsynleg fyrir rannsókn málsins.
Samkvæmt 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, hvílir þagnarskylda á stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja, framkvæmdastjórum, endurskoðendum, starfsmönnum og hverjum þeim sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins um allt sem varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Ákvæði þessu er þó ekki ætlað, frekar en öðrum sambærilegum ákvæðum, að ganga framar þeim ríku réttarhagsmunum sem lúta að því að unnt sé að rannsaka mál og afla sakargagna í samræmi við áðurgreind markmið rannsókna.
Dómarinn ákvað að Landsbanka Íslands hf. yrði gert viðvart um kröfu ríkislögreglustjóra. Hefur lögmaður bankans krafist þess að kröfunni verði hafnað.
Með vísun til þess, sem nú hefur verið rakið úr greinargerð ríkislögreglustjóra, og með því að engin sérstök mótmæli hafa verið höfð uppi gegn henni, verður fallist á það að fyrir hendi séu lagaskilyrði til þess að verða við kröfu hans og verður hún því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Landsbanka Íslands hf. er skylt að afhenda efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra eftirtaldar upplýsingar og ljósrit:
Ljósrit, hafi bankinn það undir höndum, af tékka að fjárhæð kr. 50.529.126, sem keyptur var með greiðslu af reikningi B nr. [...], þann 30. desember sl. og, hafi tékkinn verið seldur, upplýsingar um hvert og í þágu hvers söluandvirði tékkans var ráðstafað.
Upplýsingar um hver fyrirskipaði og/eða framkvæmdi millifærslu að fjárhæð kr. 51.586.125 af reikningi A, nr. [...], á reikning í Landsbanka Íslands í Luxemborg, þann 22. nóvember sl.