Hæstiréttur íslands

Mál nr. 426/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Mánudaginn 26. ágúst 2013.

Nr. 426/2013.

Drómi hf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Ívari Ómari Atlasyni og

(sjálfur)

Þórarni Arnari Sævarssyni

(sjálfur)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

D hf. krafði Í og Þ um greiðslu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum sem Í og Þ höfðu gengist í sjálfskuldarábyrgð á. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna í Hæstarétti, sagði m.a. að í stefnu málsins væri ekki að neinu leyti vikið að því hvernig D hf. hefði öðlast umræddar fjárkröfur sem upphaflega höfðu verið í eigu S. Þá uppfyllti stefnan að auki ekki kröfur um glögga málavaxtalýsingu. Var málatilbúnaður D hf. því í andstöðu við e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var málinu vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Drómi hf., greiði varnaraðilum, Ívari Ómari Atlasyni og Þórarni Arnari Sævarssyni, hvorum um sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2013.

I.

Kröfur aðila

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 7. maí sl., er höfðað 18. desember 2012 af Dróma hf., kt. 710309-1670, Lágmúla 6, Reykjavík á hendur Ívari Ómari Atlasyni, Kleifarvegi 15, Reykjavík og Þórarni Arnari Sævarssyni, Rafstöðvarvegi 25, Reykjavík.

Dómkröfur stefndu, eru þær aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Dómkröfur stefnanda eru þær að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og málskostnaður látinn bíða efnisdóms.

Dómkröfur stefnanda í efnishlið málsins eru þessar:

1. Aðallega að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda 48.422.114 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2009 til greiðsludags.

Til vara, verði komist að þeirri niðurstöðu að lánið sé ólögmætt gengistryggt lán, þá er þess krafist að stefndu verði gert að greiða samtals 20.000.000 króna með vöxtum skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. júní 2008 til 1. júní 2009 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 2. júní 2008 að fjárhæð 1.742.887 krónur.

2. Aðallega að stefnda Þórarni Arnari Sævarssyni verði gert að greiða stefnanda 7.510.125 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. desember 2008 til greiðsludags.

Til vara, verði komist að þeirri niðurstöðu að lánið sé ólögmætt gengistryggt lán, er þess krafist að stefnda verði gert að greiða samtals 4.000.000 króna auk vaxta skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. desember 2008 og dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

3. Aðallega að stefnda Ívari Ómari Atlasyni verði gert að greiða stefnanda 7.510.125 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. desember 2008 til greiðsludags.

Til vara, verði komist að þeirri niðurstöðu að lánið sé ólögmætt gengistryggt lán, er þess krafist að stefnda verði gert að greiða samtals 4.000.000 króna auk vaxta skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. desember 2008 og dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi  málskostnaðar að skaðlausu.

Dómkröfur stefndu í efnishlið málsins eru þær að að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara krefjast stefndu sýknu að svo stöddu. Til þrautaþrautavara er krafist verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.

Þann 7. maí sl., fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefndu í samræmi við 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II.

Málsatvik

Mál þetta snýst um innheimtu skulda samkvæmt tveimur lánssamningum í erlendum myntum á milli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Brautarholts 20 ehf. (nú þrotabú).

Þann 20. júní 2007, var gerður lánssamningur í erlendum myntum er fékk lánsnúmerið 10310 á milli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis kt. 610269-5089, og Brautarholts 20. ehf. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lántaka samkvæmt samningnum undirgengust stefndu óskipta sjálfsskuldarábyrgð. Samkvæmt samningnum lofaði lántaki að taka að láni og sparisjóðurinn að lána jafnvirði 20.000.000 króna sem samsett voru úr einum gjaldmiðli, CHF 399.361, 02. Vextir voru ákveðnir LIBOR vextir auk 3,3% vaxtaálags. Skyldi lánið greiðast með eingreiðslu þann 1. júní 2008 auk áfallinna vaxta. Gjaldfellingarákvæði var í samningnum með heimild til fyrirvaralausrar gjaldfellingar 15 dögum frá gjalddaga. Þann 12. júní 2008 var skilmálum lánssamningsins breytt þannig að reiknaður var nýr höfuðstóll lánsins CHF 423.381,25 er skyldi greiðast á nýjum gjalddaga 1. júní 2009, auk vaxta frá 2. júní 2006. Voru áfallnir vextir á gjalddaga CHF 38.199 og vaxtaálag hækkaði í 5,8%. Var skilmálabreytingin samþykkt af stefndu.

Þann 13. desember 2006, var gerður lánssamningur í erlendum myntum er fékk lánsnúmerið 9988 á milli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis kt. 610269-5089, og Brautarholts 20. ehf. Samkvæmt samningnum lofaði lántaki að taka að láni og sparisjóðurinn lofaði að lána jafnvirði 32.000.000 króna sem samsettar voru úr tveimur gjaldmiðlum, CHF 50% og YEN 50%. Stefndu gengust hvor um sig undir skipta sjálfskuldarábyrgð fyrir 12,5 % fjárhæðarinnar. Skyldi lánið endurgreiðast á 24 gjalddögum og var lokadagur lánsins ákveðinn 8. desember 2012.

Í forsendum að samningi, dags. 28. nóvember 2008 á milli Dróma hf. og skiptastjóra þrotabús Brautarholts 20 ehf., kemur m.a. fram að tilteknar skuldir þrotabúsins sem hafi upphaflega verið gagnvart Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), en á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., hafi allar eignir Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og jafnframt öll tryggingaréttindi, þ.m.t. öll veðréttindi, ábyrgðir og önnur sambærileg réttindi sem tengdust kröfum félagsins verið framseld stefnanda. Samkvæmt 1. og 2. gr. samkomulagsins ráðstafaði þrotabúið til stefnanda tilgreindum fasteignum, sem taldar eru upp í 2. gr. samkomulagsins gegn lækkun/efndum á kröfum stefnanda í þrotabúið bæði nú og síðar í samræmi við fyrirliggjandi og væntanleg möt á verðmætum eignanna. Samkvæmt 3. gr. samkomulagsins skyldi stefnandi ábyrgjast skaðleysi þrotabúsins vegna skulda sem njóta lögveðsréttar í fasteignunum, bæði áföllnum og áfallandi, og skuldbatt hann sig til að endurgreiða þrotabúinu allan útlagðan kostnað vegna greiðslu slíkra krafna, vaxta og alls kostnaðar sem af þeim kynni að leiða. Samkvæmt 4. gr. samkomulagsins skyldi stefnandi bera allan kostnað af rekstri eignanna og auk þess hirða arð af þeim frá úrskurðardegi. Þá sagði í sömu grein að gengju fyrirhuguð samningsáform ekki eftir, skyldi fara fram uppgjör þar sem miðað yrði við að rástöfun fasteignanna hefði aldrei farið fram. Stefnandi myndi þá leggja fram uppgjör vegna móttekinna leigugreiðslna og annarra tekna auk yfirlits um allan nauðsynlegan útlagðan kostnað vegna umráða og umsýslu með eignirnar á viðkomandi tímabili. 

Fram kemur í auglýsingu umboðsmanns skuldara, dags. 11. maí 2011, að þann 10. maí 2011 hafi umboðsmaður skuldara móttekið umsókn frá stefnda Þórarni Arnari Sævarssyni um greiðsluaðlögun skv. lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga. Segir í tilkynningunni að frá þeim tíma hefjist tímabundin frestun greiðslna samkvæmt lögum nr. 128/2010 um breyting á lögum nr. 101/2010.

III.

Málsástæður aðila

1.Helstu málsástæður stefnanda varðandi efnishlið málsins

Stefnandi byggir kröfu sína á ofangreindum lánasamningum sem og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um ábyrgð manna á skuldbindingum sínum, III. kafla laga nr. 38/2001, einkum 6. gr. og 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og lögum nr. 50/1988. 

Stefnandi tekur fram að stefndu hafi sótt um greiðsluaðlögun í maí til júní 2011. Samkvæmt ákvæðum II til bráðabirgða við lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. lög nr. 128/2010, hafi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. laganna hafist við móttöku umsókna stefndu. Af þessu leiði að stefnandi hafi ekki getað haldið áfram innheimtutilraunum sínum gagnvart stefndu og án tillits til þess að umsóknir stefndu hafi ekki verið afgreiddar af umboðsmanni skuldara. Í greindri 11. gr. komi fram að á meðan frestun greiðslna standi sé lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum. Telur stefnandi að ákvæði þessi komi ekki í veg fyrir að hann fái aðfararhæfan dóm um kröfu sína og gildi um þetta sömu reglur og við greiðslustöðvun skv. III. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, enda verði að skýra lög um greiðsluaðlögun einstaklinga til samræmis við lög um gjaldþrotaskipti. Verði ekki á þetta fallist byggir stefnandi á 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manns til að leita til dómstóla. Ákvæðið komi í veg fyrir að menn þurfi að þola bann við málsókn þannig að valdi réttarspjöllum. Er á því byggt að skýra verði almenn lög til samræmis við stjórnarskrá og 6. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Stefnandi tekur fram að gjalddagi kröfunnar sem stefnt er út af sé næstum fjórum árum fyrir útgáfu stefnu. Verði ekki fallist á sjónarmið hans sé á því vakin athygli að stefndu hafa notið greiðsluskjóls í u.þ.b. 18 mánuði. Verði lögin ekki túlkuð á þann veg að málsóknarbann gildi ef mál tefst svo lengi, hvort sem er af völdum stefnanda sjálfs eða óviðunandi stjórnsýslu. 

2. Helstu málsástæður stefndu varðandi efnishlið málsins

Stefndi byggir á því að um aðildarskort sé að ræða af hálfu stefnanda. Kröfur samkvæmt lánasamningum nr. 10310 og nr. 9988 séu ekki í eigu stefnanda. Er á því byggt að kröfurnar hafi verið framseldar til Hildu hf. samkvæmt umboði, dags. 7. febrúar 2012. Hafi þær ekki verið framseldar Hildu hf. hafi þær verið framseldar Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf.

Þá er á því byggt að aðalskuldari, þ.e. þrotabú Brautarholts ehf., hafi þegar greitt kröfur samkvæmt greindum lánssamningum. Byggja stefndu á því að óháð orðalagi tryggingabréfa þá sé umsamið í lánssamningum aðalskuldara og lánveitanda hvaða eignir tryggi hvaða lán. Stefndu hafi tekist á hendur ábyrgð á tilteknum lánum og mátu áhættu sína út frá texta lánssamninganna og þeirra veðréttinda sem samningarnir tilgreindu. Séu kröfurnar ekki greiddar samkvæmt framangreindu þá eigi stefndu rétt á því að fá tryggingaréttindi samkvæmt lánssamningunum í eignum aðalskuldara framseld til sín verði þeir dæmdir til þess að greiða kröfurnar eða hluta þeirra. Er þess krafist af hálfu stefndu að réttindi stefnanda gagnvart aðalskuldara Brautarholti ehf. verði framseld til þeirra gegn greiðslu.

Stefndu telja að höfuðstóls- og vaxtakrafa samkvæmt lánssamningi nr. 10310 sé fyrnd með vísan til þágildandi laga nr. 14/1905. Samkvæmt 5. gr. laganna teljist fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa stefnanda varð gjaldkræf. Krafa stefnda hafi verið gjaldkræf 1. júní 2008 og hafi farið þann dag í vanskil. Tólf dögum síðar hafi verið samið um nýjan gjalddaga, þann 1. júní 2009. Sé litið til 2. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, reiknist fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi þegar kröfuhafi hafi fyrst getað átt rétt til efnda og samkvæmt 3. mgr. sömu greinar reiknist fyrningarfrestur frá þeim gjalddaga sem upphaflega hafi verið ákveðinn þegar svo hátti til að kröfuhafi beiti ekki riftun eða gjaldfellingarúrræðum. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. sömu laga sé samningur um að krafa fyrnist ekki ógildur. Lánveitandi hafi hvorki beitt gjaldfellingarúrræði né riftun í tilefni af vanefndum á gjalddaga lánsins þann 1. júní 2008. Því beri að túlka 5. gr. laga nr. 14/1905 þannig að fyrningarfrestur teljist frá þeim degi er krafa varð fyrst gjaldkræf enda hafi ekki verið samið um annan gjalddaga þegar lánið féll í gjalddaga. Kröfueigandi hafi fyrst getað átt rétt til efnda samkvæmt upphaflegum samningi þann 1. júní 2008. Fyrningarfrestur hafi þá byrjað að líða og krafan því fyrnd gagnvart stefndu í síðasta lagi 1. júní 2012. Mál þetta hafi verið höfðað þann 7. desember 2012 eða rúmlega fimm mánuðum eftir fyrningu kröfunnar.

Þá telur stefndi Þórarinn sig eiga kröfur til skuldajöfnunar á móti lánveitanda vegna mistaka við innheimtu víxils.

Á því er byggt til þrautavara, að komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi sé réttur eigandi krafnanna, þær séu ógreiddar og ófyrndar beri að sýkna stefndu að svo stöddu þar sem umsamin ábyrgð þeirra hafi verið einföld en ekki sjálfskuldarábyrgð. Á milli lánveitanda og stefndi hafi á sínum tíma verið samið munnlega um einfalda sjálfskuldarábyrgð. Ábyrgð þeirra á samningunum hafi aðeins verið til þess að tryggja skuldbindingu þeirra við verkefnin að Brautarholti 8 og Brautarholti 16-20 en ekki til þess að krefja þá um greiðslu í stað aðalskuldara enda hafi verið um að ræða eignir sem hafi verið margfalt verðmætari en umrædd lán. Engin þörf hafi verið á sjálfskuldarábyrgð, samið hafi verið um einfalda ábyrgð en stöðluðum texta lánssamninga um sjálfskuldarábyrgð hafi ekki verið breytt þar sem fyrirséð var að aldrei myndi reyna á ábyrgðirnar vegna stöðu lánsins á veðrétti eignarinnar. Skiptum á þrotabúi aðalskuldara sé ekki lokið og því ekki ljóst fyrr en þeim skiptum sé lokið hvort einhverja og þá hve háa kröfu kröfueigandi eigi á hendur stefndu vegna lánssamninganna.

Þrautaþrautavarakröfu um lækkun byggja stefndu á því að útreikningur á dómkröfum sé í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Báðir lánssamningarnir séu gengistryggðir. Stefndi Þórarinn hafi óskað eftir því að lán frá lánveitanda yrði greitt út í þeirri erlendu mynt sem miðað hefði verið við í lánssamningi. Þeirri beiðni hafi verið hafnað. Lánveitandi hafi aldrei lánað aðalskuldara erlenda mynt og eigi það einnig við um þá lánssamninga sem stefnandi hafi lagt fram í máli þessu. Íslenskar krónur hafi verið greiddar út og því verði stefndu sem ábyrgðarmönnum ekki gert að greiða aðra mynt en íslenskar krónur tilbaka án tillits til gengisbreytinga yfir lánstímabilið. Því hafi verið um að ræða íslenskt gengistryggt lán.

Stefndu byggja varakröfu um vexti á því að vextir sem hafi fallið til fyrir 12. desember 2008 séu fyrndir. Þeir verði því ekki dæmdir til greiðslu vaxta fyrr en í fyrsta lagi frá þeim degi. Þá er því mótmælt að stefndu verði gert að greiða aðra vexti en þá sem aðalskuldari og lánveitandi  sömdu um á sínum tíma, eins og byggt er á af hálfu stefnanda.

Stefndu hafna því að þeim beri að greiða vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 afturvirkt enda hafi lánveitandi tekið sér greiðslur frá aðalskuldara á umsömdum vöxtum með því að fjarlægja fjármuni aðalskuldara af bankareikningi hans hjá Arionbanka. Stefndi Þórarinn hafi óskað eftir upplýsingum um fjármunina frá Indriða Óskarssyni, starfsmanni slitastjórnar SPRON, með tölvubréfi, dags. 26. júní 2010, en engin svör hafi borist.

Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt.

3. Málsástæður aðila varðandi formhlið málsins

Frávísunarkrafa stefndu byggir í fyrsta lagi á því að hvergi í stefnu eða framlögðum gögnum sé gerð grein fyrir því að stefnandi hafi eignast kröfu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Vísar stefndi til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála máli sínu til stuðnings. Meðal þeirra atriða sem upplýsa þurfi samkvæmt ákvæðinu er aðild máls ef aðilaskipti hafa orðið að kröfu, en varnir stefndu geti meðal annars ráðist af atriðum sem að því lúta.

Þá er á því byggt að stefnanda sé óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á meintum kröfum á hendur stefndu á meðan stefndu leiti greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 11. gr. laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Stefndu byggja kröfu sína um frávísun einnig á því að málatilbúnaður stefnanda sé svo vanreifaður að það hafi veruleg áhrif á möguleika þeirra til varna. Þannig sé í stefnu ekki gerð grein fyrir fyrirsvarsmönnum stefnanda, stöðu þeirra og heimili. Stefna sé að þessu leyti í andstöðu við a-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Þá er á því byggt að í fjárkröfum sé ekki tilgreint að hvorum stefnda krafan beinist og hverjum eigi að greiða þá fjárhæð sem krafist er greiðslu á og verði dómur af þeim sökum ekki felldur á fjárkröfur stefnanda. Sé stefnan að þessu leyti í andstöðu við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Taka beri fram hverjum beri að greiða kröfurnar, enda sé því hvergi haldið fram að stefnandi eigi þær kröfur sem hann krefji stefndu um greiðslu á. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi framselt kröfusafn sitt í heild eða að hluta til Hildu hf., eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands. Þá vísi stefnandi í þrígang til niðurstöðu um lánið án þess að tilgreina um hvaða lán sé að ræða, en af framlögðum gögnum megi ráða að a.m.k. tvö lán komi til greina. Loks hafi stefnandi enga grein gert fyrir greiðslum aðalskuldara, Brautarholts 20 ehf. og því ferli sem kröfur væru í á hendur aðalskuldara, en kröfum vegna sömu lánasamninga hafi verið lýst í þrotabú aðalskuldara Brautarholts hf. og þær verið samþykktar þar sem veðkröfur. 

Stefndu taka fram að með samningi, dags. 28. nóvember 2011, við skiptastjóra aðalskuldara hafi stefnandi samþykkt að taka við eignum þrotabús Brautarholts 20 ehf. sem greiðslu á þeim lánum sem hann nú krefji stefndu um. Stefndu telja að skortur á upplýsingum í stefnu um samskipti við þrotabú aðalskuldara og greiðslu þess í heild eða hluta á þeim kröfum sem stefndu eru krafðir um greiðslu á, feli í sér vanreifun á atvikum sem þurfi að greina til þess að dómara og stefndu verði ljóst samhengi krafna, málsatvika og málsástæðna. Stefnan sé að þessu leyti í andstöðu við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, enda megi stefndu ekki vera ljóst af stefnu hver réttarstaða þeirra er að teknu tilliti til samnings, dags. 28. nóvember 2011, og atvika sem stefnandi getur upplýst um en gerir ekki. Þessi samningur og eignir aðalskuldara skipti verulegu máli í heildarskýringu á málavöxtum og réttmæti krafna stefnanda á hendur stefndu og sé málið vanreifað og óskýrt í stefnu þar sem þessa er ekki getið.

Að lokum hafi stefnandi ekki lagt fram neina viðauka sem gerðir voru við lánssamning nr. 9988. Stefndu hafi ekki afrit viðaukanna og geti því ekki metið hvaða áhrif ákvæði viðaukanna hafi á réttarstöðu þeirra. Þetta sé í andstöðu við g-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

Í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu var m.a. á því byggt af hálfu stefnanda að stefnandi hefði tekið við öllum eignum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Margir dómar hafi fallið þar sem það sé staðfest og að ekki þurfi að sanna staðreynd sem sé alkunn. Þá sé nánast aldrei getið fyrirsvarsmanna í stefnu. Auk þess sem það komi skýrt fram hverjir væru stefndu í málinu, sbr. fyrirkall í stefnu. Þá hafi því verið mótmælt að einhverjar greiðslur hafi komið inn á kröfur stefnanda gagnvart stefndu. Stefnandi hafi tekið fram að aðalatriði málsins væri að stefndu hefðu sótt um greiðsluskjól hjá umboðsmanni skuldara. Sú umsókn hefði ekki verið samþykkt auk sem hann teldi hæpið að stefndu ættu rétt á greiðsluaðlögun. Þó að skuldarar fengju greiðsluaðlögun væru kröfuhafar ekki sviptir eignum sínum með því að leyfa kröfum þeirra að fyrnast. Lögaðilar hafi stjórnarskrárvarinn rétt til aðgangs að dómstólunum og til að gæta hagsmuna sinna. Kjarni málsins væri hvort stjórnarskrá leyfði að fjármálafyrirtæki gætu ekki gengið að eignum sínum.

IV.

Niðurstaða

Samkvæmt stefnu til héraðsdóms er málið höfðað af Dróma hf. kt. 710309-1670, til heimtu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum á milli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, kt. 610269-5089, og Brautarholts ehf. Annars vegar lánssamningi nr. 10310 og hins vegar nr. 9988. Af gögnum málsins er ljóst að stefndu voru ábyrgðarmenn umræddra lánssamninga. Er gerð krafa á hendur þeim sameiginlega að því er fyrri lánssamning varðar en á hendur hvorum um sig varðandi síðari lánssamninginn.

Í stefnunni er ekki að neinu leyti að því vikið hvernig félagið hafi öðlast umræddar fjárkröfur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis á hendur stefndu og síðar hefur heldur ekki verið úr þessu bætt. Þar að auki skortir verulega á að í stefnu hafi verið gerð nægjanleg grein fyrir atvikum málsins. Er þar einkum til að taka að stefnandi hefur ekki gert grein fyrir því í stefnu hvort eða með hverjum hætti samningur milli stefnanda o.fl. og þrotabús Brautarholts ehf. frá 28. nóvember 2011 kunni að hafa áhrif á fjárhæð stefnukrafna en samkvæmt 1. og 2. gr. fyrrnefnds samnings virðast tilteknar fasteignir hafa gengið til greiðslu krafna stefnanda. Í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu kom ekki fram skýring á þessu atriði

Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Meðal þeirra atriða sem þarf að lýsa er aðild máls ef aðilaskipti hafa orðið að kröfu og glögg lýsing málavaxta. Stefna í máli þessu uppfyllir ekki þessar kröfur. Þar sem ekki hefur verið úr þessu bætt með viðhlítandi hætti undir rekstri málsins eru svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að vísa ber málinu frá dómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfum stefnanda á hendur stefndu er vísað frá dómi. Stefnandi, Drómi hf., greiði stefndu 300.000 krónur í málskostnað.