Hæstiréttur íslands

Mál nr. 52/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 23. janúar 2012.

Nr. 52/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Halldór Björnsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að [X] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2012 kl. 16:00. 

Í greinargerð lögreglustjóra segir að aðfaranótt 22. desember sl. hafi lögregla fengið tilkynningu um að fara að [...], í Hafnarfirði vegna slagsmála. Fram hafi komið í tilkynningunni að einn aðili væri meðvitundarlaus. Þegar lögregla hafi farið inn í íbúðina hafi hún séð [Z] liggja meðvitundarlausa á gólfinu við sjónvarpsrýmið. Þegar lögregla hafi athugað lífsmörk hafi Berglind komið til meðvitundar en ekki getað svarað áreiti. Hafi hún verið flutt með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar. Töluvert blóð hafi verið í íbúðinni ásamt hárlokkum úr [Z]. Lögregla hafi rætt við vitnið [T] á vettvangi og hann greint frá því að hann hefði verið í heimsókn hjá [Z]þegar tveir menn og ein kona hefðu ráðist inn í íbúðina. [T] hefði sagt að honum hefði verið ýtt út úr íbúðinni og hann læstur úti. Hann hefði verið fyrir utan í smátíma þegar hann hefði séð árásaraðilana yfirgefa íbúðina og læsa á eftir sér. Hann hefði svo bankað á hurðina og [Z] komið skríðandi alblóðug og opnað fyrir honum. Hafi hann í kjölfarið farið og fengið að hringja í neyðarlínuna hjá nágrönnum þar sem árásaraðilarnir hefðu tekið síma hans. Þá hefði hann skýrt frá því að annar karlmannanna hefði verið lítill, hálf sköllóttur með rauðbirkið hár, en konan með sítt dökkt hár og heiti [Y]. Hann hafi ekki getað lýst þriðja aðilanum þar sem hann hefði verið með eitthvað fyrir andlitinu. Jafnframt hafi hann sagt að fólkið hefði flúið af vettvangi á rauðri bifreið af gerðinni Toyota Corolla Station. Lögregla hefði í kjölfarið farið að [...] í Reykjavík þar sem kærða [Y] sé skráð með lögheimili. Þar hefði verið rauð Toyota Corolla Station bifreið sem kærði [X] sé skráður fyrir. [Y] og [X] hefðu verið handtekin þar.

Þá segir í greinargerð lögreglustjóra að samkvæmt skýrslum sem teknar hafi verið af brotaþola hafi hún verið í íbúð sinni þegar þrír aðilar hefðu ruðst inn í íbúðina. Hafi það verið [Y] og [X]. Þá hafi verið með þeim annar karlmaður sem brotaþoli viti ekki hver sé þar sem hann hafi verið með hulið andlit. Brotaþoli hafi sagt að fólkið hefði ýtt félaga hennar [T] út úr íbúðinni og síðan hefðu þau öll þrjú ráðist á hana. Brotaþoli lýsir atvikum svo að sparkað hafi verið í hana liggjandi, bæði í höfuð og líkama, og hún tekin kverkataki. Hún hafi um stund misst meðvitund vegna barsmíða. Þau hafi lamið hana með plastkylfu, reynt hafi verið að klippa af henni fingurinn með klippum auk þess sem hníf hafi verið beitt og hann m.a. settur að hálsi hennar. Hún hafi einnig verið dregin á hárinu um íbúðina og hár verið rifið af höfði hennar. Þá hafi hún verið beitt grófu kynferðisofbeldi þar sem fingrum hafi verið stungið upp í endaþarm hennar og leggöng og klipið á milli. Enn fremur hafi því verið hótað að skera á milli legganga hennar og endaþarms og hún verið látin borða fíkniefni.

Í læknisvottorði sem liggi fyrir komi fram að „brotaþoli sé lurkum lamin um allan líkamann, bæði á höfði, brjóstkassa, kvið og baki. Hún sé með sjáanlega áverka á andliti og höfði. Hún sé með einhverja skallabletti á þessu svæði. Hún sé aum alls staðar í andliti og upp á höfuðleður. Hún sé með eymsli niður á hálsinn beggja vegna við þreifingu. Yfirborðsmar sé á hægra kjálkabarði og á hálsinum hægra megin. Hún sé með eymsli víðs vegar um líkamann. Hægra megin á baki séu áverkar sem gætu samrýmst því að vera bitfar. Þá sé hún með 2 cm alldjúpan skurð á hægri vísifingri sem samrýmist því að vera eftir klippur“.

Í vottorði neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota komi fram að áverkar á endaþarmi og leggöngum samrýmist því að brotaþoli hafi verið beitt því kynferðisofbeldi sem hún hafi lýst.

Kærði hafi játað að hafa verið á staðnum umrætt sinn en neitað að tjá sig að öðru leyti.

Eftir árásina hafi lögregla leitað þriðja árásaraðilans, en hinn 30. desember sl. hafi [U] verið handtekinn og játað að vera þriðji árásaraðilinn. Þess beri að geta að sakborningar í málinu tengist allir samtökunum [...] eða svokölluðum stuðningsklúbbum.

Telur lögregla ljóst að kærði og aðrir sakborningar í málinu hafi átt jafna aðild að málinu og stigskipta. Skýr fordæmi séu í dómaframkvæmd um að dómstólar geri ekki greinarmun á brotamönnum sem saman standa að broti, þar sem tilviljun ein virðist ráða hlutverkaskiptingu eða þar sem hver hefur þá stöðu eða vald á eða í hópunum að geta gefið fyrirmæli um sjálfa framkvæmdina eins og hátti til í þessu tilviki.  Megi í þessu sambandi vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 49/2009, frá 4. júní 2009, í svokölluðu Keilufellsmáli.

Rannsókn málsins sé [...].

Kærði sé því undir sterkum grun um að hafa í félagi við aðra sakborninga sem í gæsluvarðhaldi sitja framið brot gegn 194. gr., 2. mgr. 218. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varði brot gegn 194. gr. og 2. mgr. 218. gr. allt að 16 ára fangelsi. Um sé að ræða mjög fólskulega atlögu þar sem ruðst hafi verið inn á heimili brotaþola og ráðist á hana með sérstaklega hættulegri aðferð, en bareflum, garðklippum og hnífi hafi verið beitt og sparkað í höfuð hennar þar sem hún hafi legið, auk þess sem hún hafi verið beitt grófu kynferðisofbeldi. Sú aðferð sem notuð hafi verið þyki sérlega vítaverð og mildi að ekki hafi farið verr. Þá sé óhætt að segja að árás sem þessi sé til þess fallin að hafa veruleg áhrif á sálarheill manna. Telur lögreglustjóri brot þar sem hér um ræðir vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leikur á að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum er gefið að sök. Þykir brotið vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings að kærði gangi laus meðan mál hans er til meðferðar.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er sakaður um, teljist uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, enda geti brotið varðað að lögum 10 ára fangelsi og sé þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi.

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. um meðferð sakamála nr. 88/2008, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Rannsókn málsins er á lokastigi, en beðið er gagna erlendis frá. Samkvæmt rannsóknargögnum sem þegar liggja fyrir er kærði undir sterkum grun um aðild að hrottalegri líkamsárás. Meint brot getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Verður því að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, [X], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2012 kl. 16:00.