Hæstiréttur íslands
Mál nr. 11/2008
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Áfrýjunarkostnaður
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2008. |
|
Nr. 11/2008. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn Hans Ögmundi Stephensen (Gylfi Thorlacius hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Áfrýjunarkostnaður. Vitni.
H var sakfelldur fyrir að hafa slegið A nokkur hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann hlaut m.a. varanlega tvísýni. Áverkar A voru taldir svo verulegir að rétt hafi verið að heimfæra brot ákærða undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ekki fallist á það með héraðsdómi að árásin hefði verið af tilefnislausu og án fyrirvara. Var m.a. litið til 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Einnig var litið til þess að ákærði, sem ekki hafði áður gerst sekur um refsivert brot, játaði verknaðinn bæði hjá lögreglu og fyrir dómi og tilkynnti lögreglu strax um brot sitt. Var refsing hans hæfilega ákveðin skilorðsbundið fangelsi í fjóra mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. desember 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og refsiþyngingar.
Ákærði krefst nú mildunar refsingar og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin.
Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás, sem heimfærð er undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa að morgni laugardagsins 18. febrúar 2006 á götuhorni í miðbæ Reykjavíkur slegið A nokkur hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, hlaut glóðarauga og sár undir vinstra auga og brot í vinstri augnbotn, sem leiddi til langvarandi sjónskerðingar og varanlegrar tvísýni á vinstra auga.
Með játningu ákærða, sem styðst við annað sem fram er komið í málinu, er fallist á með héraðsdómi að sannað sé að ákærði hafi slegið A fjögur hnefahögg í andlitið. Áverkavottorð Óskars Jónssonar augnlæknis er rakið í hinum áfrýjaða dómi svo og framburður hans fyrir dómi. Í héraðsdómi er haft eftir lækninum að bæði tvísýni og innfallið auga „væri varanleg sjónskerðing“ og sá skaði gæti „virkilega háð viðkomandi einstaklingi.“ Svör læknisins voru almenns eðlis en hann neitaði því að varanleg sjónskerðing hefði hlotist af árásinni. Í ljósi fyrirliggjandi gagna verður því aðeins talið að hnefahögg ákærða hafi valdið A varanlegri tvísýni, tímabundinni sjónskerðingu auk annarra tímabundinna áverka sem nefndir eru í ákæru. Þessar afleiðingar verða taldar svo verulegar að rétt er að heimfæra brot ákærða undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Í héraðsdómi var líkamsárás ákærða talin tilefnislaus og án fyrirvara. Til stuðnings þeirri ályktun eru raktar skýrslur vitnisins B fyrir dómi og A hjá lögreglu. Ekki mun vera vitað um dvalarstað A og gaf hann ekki skýrslu fyrir dómi. Í héraðsdómi er því litið til kæruskýrslu hans hjá lögreglu með vísan til 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og niðurstaða reist á frásögn hans hjá lögreglu. Tiltekið er um aðdraganda árásarinnar að litið sé til samhljóða framburðar þessara tveggja vitna um að A hafi ekki gefið ákærða tilefni til árásarinnar. Í kjölfarið er sú ályktun dregin að ákærði hafi tilefnislaust og að fyrra bragði ráðist á A og veitt honum þá áverka sem í ákæru greinir.
Í 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 segir: „Nú hefur vitni ekki komið fyrir dóm og þess er ekki kostur við meðferð málsins, en skýrsla hefur verið gefin fyrir lögreglu eða öðrum rannsóknaraðila, og metur dómari þá hvort slík skýrsla hafi sönnunargildi og þá hvert gildi hennar sé.“ Við mat á sönnunargildi umræddrar lögregluskýrslu verður að líta til þess að frásögn A er gefin í kæruskýrslu og af því sem fram er komið í málinu og rakið hefur verið var nauðsynlegt að gefa ákærða kost á að spyrja hann fyrir dómi um aðdraganda árásarinnar. Þá verður í þessu samhengi að líta til þess að einungis vitnið B gaf skýrslu fyrir dómi um málsatvik, en samkvæmt frumskýrslu lögreglu var þetta vitni ekki viðræðuhæft vegna ölvunar er lögregla kom á vettvang. Fram kom hjá B að hún hafi verið á gangi með fleira fólki, meðal annars vinkonu sinni, og ekki fylgst vel með aðdraganda þess að ákærði sló A, en margir hefðu verið á vettvangi. Hún neitaði þó, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að gefa upp hver væri vinkonan sem með henni hefði verið og var ekkert frekar eftir því gengið við skýrslugjöfina svo sem unnt hefði verið, sbr. 3. mgr. 58. gr. laga nr. 19/1991. Þá er þess að gæta að ákærði hefur við frá upphafi lýst því að A hafi veist að sér að fyrra bragði og slegið sig hnefahögg í andlitið. Fær sá framburður ákærða stuðning í frumskýrslu lögreglu og læknisvottorði um komu hans á slysa- og bráðadeild Landspítala snemma morguns 18. febrúar 2006. Ekki verður fallist á með héraðsdómi að frásagnir B og A séu samhljóða um tildrög árásarinnar að öðru leyti en því að bæði sögðu þau að ákærði hefði áreitt eða ónáðað A þar sem hann var á gangi ásamt B og fleira fólki. Þannig kvaðst A hafa ýtt ákærða frá sér og sparkað í hönd hans áður en ákærði réðist að sér, en B kvaðst ekki hafa séð neitt slíkt. Samkvæmt fyrrgreindu vottorði læknis á Landspítala mun ákærði hafa verið með blóðnasir og með yfirborðsáverka á hægri hönd og í andliti við komu á spítalann. Af öllu framanrituðu verður framburður ákærða lagður til grundvallar um að A hafi fyrst slegið ákærða hnefahögg í kjölfar munnlegra samskipta þeirra.
Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar verður samkvæmt framansögðu litið til 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Þá verður litið þess að ákærði, sem ekki hefur áður gerst sekur um refsivert brot, játaði verknaðinn bæði hjá lögreglu og fyrir dómi og tilkynnti hann lögreglu strax um brot sitt. Refsing hans er ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, sem bundin verður skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Með tilliti til þess að ákærði er dæmdur fyrir þá háttsemi sem hann játaði í héraði verður áfrýjunarkostnaði málsins, þar með talin málsvarnarlaunum skipaðs verjenda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, skipt þannig að ákærði greiði einn þriðja hluta hans en tveir þriðju hlutar greiðist úr ríkissjóði, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Hans Ögmundur Stephensen, sæti fangelsi í fjóra mánuði. Fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Gylfa Thorlacius hæstaréttarlögmanns, ákveðast 311.250 krónur. Þau og annan áfrýjunarkostnað, samtals 324.033 krónur, skal ákærði greiða að einum þriðja hluta, en hinir hlutar áfrýjunarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 14. maí 2007 á hendur Hans Ögmundi Stephensen, kt. 300974-3769, Tröllavegi 1, Neskaupstað, fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa, að morgni laugardagsins 18. febrúar 2006, á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis, slegið A, [kt.], nokkur hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, hlaut glóðarauga og sár undir vinstra auga og brot í vinstri augnbotn, sem leiddi til langvarandi sjónskerðingar og varanlegrar tvísýni á vinstra auga.
Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981 og lög nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá kl. 07.12 aðfaranótt laugardagsins 18. febrúar 2006 fékk lögregla á þeim tíma boð um að fara að mótum Pósthússtrætis og Austurstrætis í Reykjavík þar sem maður hafi verið kýldur niður. Er lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi maður legið í blóði sínum á tröppum við veitingastaðinn Apótekið. Á móti lögreglu hafi komið maður að nafni Hans Ögmundur Stephensen, ákærði í máli þessu. Formálalaust hafi ákærði sagt við lögreglumenn að hann hafi lamið viðkomandi einstakling. Hafi ákærði lýst yfir að hann viðurkenndi að hafa slegið manninn og að hann vissi engin deili á honum. Manninn hafi ákærði slegið fjórum sinnum í andlitið. Ákærði hafi sagt að hann hafi verið að spjalla við manninn á veitingastað. Hafi þeir gengið út og haldið áfram að ræða saman. Er þeir hafi verið staddir á mótum Pósthússtrætis og Austurstrætis hafi A farið að æsa sig. Samkvæmt lögregluskýrslu kom í ljós að hinn slasaði héti A. Í frumskýrslu kemur fram að með ákærða og A hafi verið kona að nafni B. Ákærði hafi verið blóðugur í framan og sennilega bólginn á nefi. Þá hafi hann verið blóðugur á báðum höndum. Hann hafi greinilega verið undir áhrifum áfengis. Ákærði hafi lýst atburðum svo að er hann hafi verið að ræða við A hafi A farið að æsa sig. Síðan hafi hann tekið út úr sér falskar tennur og sett þær í vasa sinn. Í framhaldi hafi A lamið ákærða eitt hnefahögg og höggið komið í andlit ákærða á nefið. Blætt hafi úr. Hafi ákærða grunað að hann væri nefbrotinn, en mikið hafi blætt úr nefinu. Við það hafi ákærði orðið reiður og lamið A fjórum sinnum í andlitið. Er ákærði hafi lamið A hafi A fallið í götuna. Í framhaldi hafi ákærði hringt í lögreglu. Í því hafi vinur A komið að og reynt að koma í veg fyrir að ákærði hringdi í lögreglu. Fram kemur að ákærða hafi verið ekið á slysadeild. B hafi lýst því yfir að hún hafi verið vitni að líkamsárásinni. B hafi greinilega verið undir áhrifum áfengis og hafi ekki reynst unnt að fá upplýsingar frá henni. Reynt hafi verið að ræða við A. Það hafi ekki gengið þar sem A hafi ,,ruglað eitthvað”. Sjúkraflutningamenn hafi sagt að A væri með mikið bólgið vinstra auga og skurð fyrir neðan augað. Einnig hafi hann verð bólginn á nefi. A hafi verið ekið á slysadeild.
Föstudaginn 17. mars 2006 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Við það tilefni greindi hann svo frá atvikum að hann hafi verið á ferð í miðbæ Reykjavíkur að morgni laugardagsins 18. febrúar 2006. Hafi A ekki verið undir áhrifum áfengis. Hann hafi verið að koma frá vini sínum og leið legið heim til A þar sem hann hafi ætlað að skipta um föt þar sem hann væri að fara til vinnu. Í miðbænum hafi A hitt par þar sem a.m.k. karlmaðurinn hafi verið frá Portúgal. Hafi A verið að ræða við fólkið og þau öll gengið saman um 100 metra í átt að Pósthússtræti. Er þangað kom hafi ákærði komið að þeim. Ákærði hafi sennilega verið undir áhrifum áfengis, en hann hafi haldið á bjórglasi og gert sig líklegan til að slá A. Engin tjáskipti, hvorki munnleg eða öðruvísi, hafi farið fram á milli A og ákærða, sem hann hafi ekki þekkt. Kvaðst A hafa ýtt ákærða frá sér með báðum höndum og sparkað til hans. Hafi spark A líklega komið í hægri hendi ákærða en með þeirri hendi hafi ákærði haldið á bjórglasinu. Hafi A ætlað að ganga burt frá þessu en þá hafi ákærði hrint A inn á pall við inngang að veitingastaðnum Apótekinu. Hafi A fallið á bakið. Þar hafi ákærði kýlt A nokkrum sinnum í andlitið og hugsanlega sparkað í hann. Kvaðst A ,,dottið út” og kvaðst hann ekki minnast þess að hafa náð að svara fyrir sig nema í upphafi er hann hafi ýtt ákærða frá sér. Hafi A legið á vettvangi þar til lögregla og sjúkraflutningamenn hafi komið á staðinn. Í framhaldi hafi A farið með sjúkrabifreið á slysadeild. Teknar hafi verið röntgenmyndir af A og sári undir vinstra auga verið lokað með saumi. Við endurkomu á slysadeild hafi A verið lagður inn en kinnbein undir vinstra auga hafi verið styrkt.
Einar Thoroddsen sérfræðingur á háls-, nef- og eyrnalækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 18. apríl 2006 ritað læknisvottorð vegna A. Í vottorðinu kemur fram að A hafi fengið högg í andlitið 18. febrúar 2006 og þar af leiðandi stórt glóðarauga vinstra megin og stuttan grunnan skurð undir auganu, auk nefbrots með innkýlingu vinstra megin á nefi. Röntgenmynd sem tekin hafi verið 24. febrúar 2006 hafi sýnt talsvert stórt ,,blowout” brot á vinstri augnbotni. Ákveðið hafi verið að gera aðgerð þar sem smeygt hafi verið skífu undir augnbotninn þar sem A hafi haft tvísýni. Í aðgerðinni hafi skífu verið smeygt undir augnfituna og augnbotninum þannig lyft. Ekki hafi verið öruggt að skífan myndi halda og því hafi aðgerðin verið endurtekin viku síðar þar sem stærri skífa hafi verið sett. Við saumatöku hafi A verið með dálítinn bjúg um neðra augnlok, sem ekki hafi verið undarlegt vegna skurðarins sem hafi þurft að gera í aðgerðunum.
Ófeigur T. Þorgeirsson sérfræðingur í lyf- og heimilislækningum á Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur 12. desember 2006 ritað læknisvottorð vegna komu A á slysadeild að morgni laugardagsins 18. febrúar 2006. Í vottorðinu kemur m.a. fram að við skoðun hafi A verið með stórt glóðarauga á vinstra auga. Um 1 ½ til 2ja cm langt sár ekki mjög djúpt hafi verið undir auga. Nef hafi verið bólgið en ekki merki um önnur sár. Nokkrum dögum síðar hafi A komið á göngudeild háls-, nef- og eyrnalækninga. Hafi A þá verið kominn með sjóntruflanir og tvísýni. Tekin hafi verið sérstök mynd af andlitsbeinum sem sýndi allstórt brot á beinum augnhvelfingar vinstra megin og merki um að einn af ytri hreyfivöðvum augans hafi gengið niður í gegnum brotið. Þann 24. febrúar hafi verið gerð aðgerð á því þar sem þetta hafi verið lagað. Þá aðgerð hafi þurft að endurtaka.
Óskar Jónsson augnlæknir hefur 17. janúar 2007 ritað áverkavottorð vegna A. Í vottorðinu kemur fram að A sé almennt hraustur karlmaður sem hafi ekki átt við nein augnvandamál að stríða. Hann hafi orðið fyrir líkamsárás 18. febrúar 2006 og hlotið við það ,,blow out” brot á vinstri augntóft og brot í medial vegg vinstri augntóftar. Hafi honum verið sinnt af háls-, nef- og eyrnalæknum Landspítala háskólasjúkrahúss. Óskar hafi séð A fyrst 24. febrúar 2006. Hafi hann þá kvartað undan lélegri sjón á vinstra auga auk tvísýni. Hafi hann verið með minnkað skyn á neðra vinstra augnloki og vinstra auga innfallið. Við skoðun á augnhreyfingum hafi ,,elevation” á vinstra auga verið minnkuð en augnhreyfingar að öðru leyti eðlilegar. Á vinstra auga hafi verið blæðing undir slímhimnu og sjónhimnu. A hafi gengist undir tvær augntóftaðgerðir á háls-, nef- og eyrnalækningadeild. Við læknisskoðun sem gerð hafi verið á A 22. nóvember 2006 hafi komið fram að A væri stundum aumur undir vinstra auga. Í vottorðinu er tekið fram að vinstra auga A sé innfallið um 4 mm. Munur á hreyfingu augnloka hafi ekki sést. Hann hafi verið með skerta ,,elevation” á vinstra auga og tvísýni er hann horfi upp á við. Án glerja hafi hann neitað tvísýni þegar augu hafi verið í réttstöðu en með glerjum hafi hann 1 PD ,,vertical” tvísýni í réttstöðu. Líklegt sé að ástand A sé orðið stöðugt og mjög litlar líkur á því að sjón á vinstra auga eigi eftir að hraka í framtíðinni vegna áverkans.
Einar Hjaltason læknir á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur í september 2006 ritað læknisvottorð vegna komu ákærða á slysadeild að morgni laugardagsins 18. febrúar 2006. Í lýsingu á slysi er fært í vottorðið að ákærði hafi skýrt frá því að hann hafi verið í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann hafi séð Portúgala á ferð með dauðadrukkinni konu. Hafi hann talið rétt að hann skærist í leikinn og bjargaði konunni frá Portúgalanum. Við það hafi upphafist slagsmál og hafi ákærði verið sleginn í andlitið. Hafi hann slegið á móti í andlitið á Portúgalanum. Í vottorðinu kemur fram að ákærði hafi verið aðeins drukkinn. Hafi hann verið blóðugur á höndum. Svolítið blóð hafi verið í andliti og storkið blóð í vinstri nös. Nef virðist beint, en aðeins þrútið. Ekki hafi verið eymsli yfir beinum. Hafi ákærði verið með eymsli og bólgu í hægri hendi.
Ákærði kvaðst hafa verið einn á göngu í Pósthússtræti umrædda nótt þegar hann hafi veitt því athygli að tveir menn hafi verið að draga á eftir sér stúlku. Hafi ákærða fundist þetta óeðlilegt, kallað til stúlkunnar og spurt hvort ekki væri allt í lagi. Stúlkan hafi hlaupið í fangið á ákærða og þakkað honum fyrir. Þá hafi fokið í báða mennina sem hafi verið í för með stúlkunni. Kvaðst ákærði hafa bakkað og fyllilega gefið til kynna að hann vildi ekki slagsmál. Annar mannanna hafi hins vegar hlaupið fram, tekið út úr sér falskar tennur og gert sig líklegan til að ráðast á ákærða. Því næst hafi maðurinn slegið ákærða eitt hnefahögg og höggið komið í andlit ákærða neðan við annað augað. Þá hafi farið af stað ,,kýtingar” á milli þeirra. Kvaðst ákærði hafa fyllst hræðslu um hvað myndi gerast næst enda hafi virst sem árásarmaðurinn væri vanur átökum og hugsanlega vopnaður. Ákærði kvaðst ósjálfrátt hafa slegið árásarmanninn fjögur högg með krepptum hnefa. Hafi höggin komið í andlit árásarmannsins. Höggin hafi ákærði slegið í sjálfsvörn. Hafi ákærði ,,panikerað”. Kvaðst hann aðspurður eftir á að hyggja ef til vill hafa fengið of langt, en hann hafi verið hræddur. Árásarmaðurinn hafi náð að slá ákærða nokkrum sinnum til viðbótar en ekki vissi ákærði hvar þau högg hafi lent í líkamanum. Sá maður sem verið hafi með árásarmanninum hafi blandað sér í átökin með því að hlaupa ógnandi að ákærða. Hafi ákærði náð að snúa manninn niður án frekari átaka. Þegar ráðist hafi verið á ákærða hafi hann haldið á gsm síma sínum. Hafi hann fyrst náð að hringja í lögreglu eftir að átökum hafi lokið. Eftir að lögregla hafi verið komin á svæðið og ekið hafi verið með ákærða og árásarmanninn á slysadeild hafi ákærði sagt lögreglumönnum þeim er ekið hafi ákærða þangað að árásarmaðurinn hafi tekið út úr sér falskar tennur í átökunum. Hafi lögreglumennirnir sagt ákærða að tennur hafi fundist í vasa árásarmannsins á slysadeild. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þessa nótt. Það hafi þó ekki verið neitt að ráði. Ekki hafi verið margt fólk á ferli í miðbæ Reykjavíkur þessa nótt. Ekki kvaðst ákærði hafa séð að A hafi verið undir áhrifum áfengis. Kona sem komið hafi að hafi hins vegar verið mjög ölvuð.
B kvaðst hafa verið á göngu í Austurstræti umrædda nótt ásamt vinkonu sinni en B hafi veri að skemmta sér. Hafi maður af erlendu bergi brotinn slegist í för með þeim. Er þau þrjú hafi verið komin að inngangi veitingastaðarins Apótekið á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis hafi einhver ,,vitleysingur” komið að og farið að uppnefna manninn sem hafi verið með þeim í för. Hafi henni virst mennirnir ekki þekkjast neitt. Ákærði hafi síðan farið að stugga við manninum sem hafi verið með henni í för. Hafi ákærði m.a. togað í peysu hans. Því næst hafi ákærði slegið manninn hnefahögg í andlitið algerlega að tilefnislausu. Maðurinn hafi fallið í götuna við höggið. Eftir það hafi ákærði slegið manninn aftur hnefahögg í andlitið og hafi höggin í allt verið að minnsta kosti þrjú. Blætt hafi úr nefi mannsins og hann verið alblóðugur. Eftir að fólk hafi streymt að hafi ákærði hætt árásinni. Sjúkraflutningamenn og lögregla hafi komið að stuttu síðar. B kvað ákærða á engum tíma hafa þurft að verja sig gegn árás mannsins og að um enga sjálfsvörn af hans hálfu hafi verið að ræða. Hafi maðurinn ekki slegið ákærða. B kvaðst ekki hafa tekið eftir bjórglasi í hendi ákærða fyrir árásina. B kvað vinkonu sína sem verið hafi með henni í för nú búsetta erlendis. B kvaðst muna þessa atburði mjög vel. Hún hafi verið undir áhrifum áfengis en ekki verið ofurölvi.
Óskar Jónsson augnlæknir staðfesti áverkavottorð sitt frá 17. janúar 2007 og gerði grein fyrir einstökum atriðum í vottorðinu. Kvaðst Óskar hafa sinnt máli A sem augnlæknir á vakt er A hafi komið á slysadeild að morgni 18. febrúar 2006. A hafi síðar farið í aðgerðir, en þær hafi verið framkvæmdar af læknum á háls-, nef- og eyrnalækningadeild. Óskar kvaðst síðar hafa skoðað A. Hafi verið greinanlegt að vinstra augnlok hafi opnast hægar eftir þá áverka er A hafi fengið. Þá hafi A verið með tvísýni er hann hafi litið upp. Tvísýnin hafi verð mæld. Einnig hafi vinstra auga A verið innfallið um 4 mm. Innfallið augað hafi verið hluti af tvísýnisvanda A. Bæði tvísýnin og innfallið augað hafi verið afleiðingar af höggi er A hafi fengið í miðbæ Reykjavíkur. Innfallið auga væri dæmigerðar afleiðingar af höggi sem kæmi beint á augað. Bæði tvísýni og innfallið auga væri varanleg sjónskerðing. Gæti sá skaði virkilega háð viðkomandi einstaklingi. Tvísýni hefði áhrif á gæði sjónar og gæti valdið erfiðleikum bæði í leik og starfi. Tvísýni væri hins vegar unnt að leiðrétta með gleraugum.
Sigfús Rúnar Eiríksson, sem ritað hefur frumskýrslu lögreglu, staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins.
Niðurstaða:
Ákærði hefur viðurkennt að hafa slegið A fjögur hnefahögg í andlitið að morgni laugardagsins 18. febrúar 2006 á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis í Reykjavík. Um aðdraganda þess hefur ákærði reyndar orðið tvísaga að því leyti að samkvæmt frumskýrslu lögreglu hefur hann sagt við lögreglumenn að hann hafi orðið reiður við A eftir að A hafi lamið ákærða í andlitið. Þess vegna hafi ákærði lamið A. Fyrir dómi bar ákærði við sjálfsvörn, að hann hafi orðið hræddur við A, ,,panikerað” og lamið hann eftir að A hafi að fyrra bragði lamið ákærða í andlitið. Ákærði viðurkenndi fyrir dómi, að eftir á að hyggja, hafi hann ef til vill gengið of langt í atlögu sinni gagnvart A.
A gaf skýrslu hjá lögreglu er hann lagði fram kæru í málinu. Sækjandi upplýsti að A, sem er frá Portúgal, hafi hins vegar farið af landi brott fyrir einhverju síðan og væri ekki vitað um verustað hans í útlöndum. Af þessum ástæðum kom A ekki fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. Þar sem svo háttar til sem hér hefur verið rakið verður við mat á niðurstöðu málsins litið til framburðar A hjá lögreglu, sbr. 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Verulega ber í milli í frásögn ákærða og A um upphaf átaka þeirra á milli. Þá er ekki fullkomið innbyrðis samræmi í framburðum A og B um einstök atriði í aðdragandanum. Af framburðum þeirra verður þó ráðið að þau eru sammála um að þau hafi verið saman á ferð um Austurstræti allt þar til þau hafi komið að gatnamótum Austurstrætis og Pósthússtrætis við inngang að veitingastaðnum Apótekinu. A ber að ákærði hafi komið að með glas í hendi og farið að áreita A. A hafi þá ýtt ákærða frá sér og sparkað til hans þannig að sparkið hafi komið í hendi ákærða. Í framhaldi hafi ákærði ráðist að sér og slegið sig ítrekað hnefahögg í andlitið. B kvaðst ekki hafa séð ákærða með bjórglas í hendi, né A ýta honum frá sér eða sparka í hendi ákærða. Hún kveður ákærða hafa verið að angra A og toga í peysu hans. Síðan hafi hann skyndilega ráðist að A og slegið hann a.m.k. þrjú hnefahögg í andlitið. B hefur viðurkennt að hafa verið undir áhrifum áfengis þessa nótt en kveðst þrátt fyrir það muna atburðina vel. Ákærði hefur sömuleiðis viðurkennt að hafa verið undir áhrifum áfengis.
Þegar litið er til samhljóða framburða A og B um að A hafi ekki gefið ákærða tilefni til að ráðast á sig er það niðurstaða dómsins að leggja framburði þeirra tveggja til grundvallar um þetta atriði. Verður því talið að ákærði hafi að fyrra bragði ráðist á A og veitt honum þá áverka sem í ákæru greinir, en ákærði hefur viðurkennt að hafa slegið A fjögur högg í andlitið. A hlaut ýmsa alvarlega áverka umrætt sinn, en hann m.a. nefbrotnaði og hlaut brot í vinstri augnbotni. Samkvæmt læknisvottorði og vætti Óskars Jónssonar augnlæknis leiddi atlaga ákærða til þess að vinstra auga A er varanlega innfallið um 4 mm og að hann hefur varanlega tvísýni á vinstra auga. Hefur Óskar lýst yfir að hér sé um varanlega sjónskerðingu að ræða sem virkilega geti valdið erfiðleikum bæði í leik og starfi. Í ljósi þess að A hefur hlotið varanlegan skaða á sjón, en augu eru eitt viðkvæmasta og á sama tíma mikilvægasta skynfæri líkamans, verður talið að hér sé um stórfellt líkams- og heilsutjón að ræða. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í september 1974. Hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Árás ákærða á A var með öllu tilefnislaus. Var hún fyrirvaralaus og harkaleg. Leiddi hún til varanlegs sjónskaða fyrir A. Varð A að gangast undir endurteknar aðgerðir til að lagfæra tvísýnina og innfallið augað, sem þrátt fyrir það hefur ekki bætt skaða A að fullu. Á ákærði sér engar málsbætur. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Verður refsingin ekki bundin skilorði. Er um refsimat m.a. litið til refsimats Hæstaréttar Íslands í máli nr. 342/2007, en í því tilviki var um hættulegri aðferð að ræða en í því máli sem hér er til meðferðar en ekki nærri eins alvarlegir áverkar.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra. Þá greiði hann málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að viðbættum virðisaukaskatti, með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl I. Vilbergsson fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Hans Ögmundur Stephensen, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Ákærði greiði 219.868 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Guðmundar Ómars Hafsteinssonar héraðsdómslögmanns 207.168 krónur.