Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-134
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sveitarfélög
- Lóðarleigusamningur
- Endurgreiðslukrafa
- Gjaldtaka
- Stjórnarskrá
- Gatnagerðargjald
- Fasteignagjöld
- Byggingarleyfi
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 10. nóvember 2022 leitar Móabyggð ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. október sama ár í máli nr. 301/2021: Móabyggð ehf. gegn Snæfellsbæ og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til kaupa leyfisbeiðanda á fasteign, innlausn lóðarréttinda og niðurrifs mannvirkja á lóðinni. Í kjölfarið höfðaði leyfisbeiðandi mál þetta og krafðist endurgreiðslu fjárhæðar er hann hafði greitt gagnaðila í samræmi við samning, meðal annars á grunni þess að með honum hefði gagnaðili áskilið sér gjald fyrir útgáfu byggingarleyfis án lagaheimildar. Jafnframt var krafist greiðslu vegna lóðarréttinda auk endurgreiðslu á gatnagerðargjöldum og fasteignagjöldum.
4. Í héraðsdómi var fallist á fjárkröfu leyfisbeiðanda að hluta en Landsréttur sýknaði gagnaðila af öllum kröfum. Í dómi Landsréttar kom fram að samningur aðila hefði verið einkaréttarlegs eðlis og gjaldi því sem leyfisbeiðanda var gert að greiða yrði ekki jafnað til skatts eða þjónustugjalds. Heimta gjaldsins hefði hvorki farið í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar né ákvæði stjórnarskrár. Þá hefðu málefnaleg sjónarmið legið að baki gerð samkomulagsins auk þess sem gjaldið hefði verið hóflegt og ekki farið í bága við jafnræðisreglu. Varðandi kröfu um endurgreiðslu gatnagerðargjalds taldi Landsréttur að leyfisbeiðandi hefði hvorki sýnt fram á lagagrundvöll fyrir kröfunni né skýrt hvers vegna endurgreiða ætti honum gjöld sem fyrri lóðarhafi greiddi. Loks hafnaði Landsréttur kröfu leyfisbeiðanda um endurgjald fyrir lóðarréttindi auk kröfu um endurgreiðslu fasteignagjalda á tilgreindu tímabili.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um það meðal annars hvort stjórnvaldi sé heimilt að beita opinberu valdi til að ná fram einkaréttarlegum markmiðum. Jafnframt hvort unnt sé að skylda aðila til að láta af hendi stjórnarskrárvarða eign án endurgjalds eða knýja fram riftun samnings án þess að greiðslur aðila gangi til baka. Þá reisir leyfisbeiðandi beiðni sína á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, meðal annars þar sem rétturinn hafi ekki fjallað um tilgreindar málsástæður hans.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.