Hæstiréttur íslands

Mál nr. 272/2003


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Fjöleignarhús
  • Tómlæti
  • Dagsektir


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. febrúar 2004.

Nr. 272/2003.

Húsfélagið Vesturbergi 144-148

(Erlendur Gíslason hrl.)

gegn

Fili ehf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Verksamningur. Fjöleignarhús. Tómlæti. Dagsektir.

F tók að sér fyrir H að klæða utan fjöleignarhús. Talið var að F ætti rétt á umkröfðum viðbótargreiðslum frá H þar sem við framkvæmd verksins hafi, að beiðni H, verið farið yfir í flóknari lausn en þá sem miðað hafi verið við í upphafi og hafi verulega skort á að nægileg hönnunargögn hafi legið fyrir.  Fallist var á að F hefði ekki mátt verða þetta ljóst fyrr en langt var liðið á verktímann og taldist hann því ekki hafa misst kröfu sína fyrir tómlæti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2003 og krefst sýknu af öllum kröfum stefnda. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir gerðu aðilar með sér verksamning 25. janúar 1999 þar sem stefndi tók að sér ,,að framkvæma viðhaldsverk og endurbætur utanhúss að Vesturbergi 144-148 Reykjavík, fyrir verkkaupa, samkvæmt meðfylgjandi útboðsgögnum, uppdráttum og þeim gögnum, sem nefnd eru og vísað til.“ Húsið er fjöleignarhús með 36 íbúðum. Í verksamningnum, sem átti sér talsverðan aðdraganda með útboði og tilboðum sem öllum var hafnað, var ákvæði um að verkinu skyldi lokið 1. júlí sama ár, og var ákvæði um tafabætur í meðfylgjandi gögnum. Fyrsti verkfundur var haldinn 9. apríl 1999 og var þá bókað að verkið væri á áætlun og engar verktafir hafi orðið. Verkfundir voru síðan boðaðir og bókaðir reglulega fram í júní.

Með bréfi 15. júní 1999 fór stefndi fram á framlengingu verktíma til 31. júlí. Hann lýsti því meðal annars að panelklæðning hússins hefði reynst tafsamari í vinnu en áætlanir gerðu ráð fyrir og þurft hafi að leysa mörg erfið vandamál í sambandi við útfærslur og útlit á verkstað, tafir hafi orðið vegna þess að brjóta hafi þurft kanta frá öllum gluggum til þess að koma álklæðningu að, auk þess sem leggja hafi þurft óvenju mikla vinnu í afréttingar vegna þess að húsið hafi illa staðist mál. Bréfið var tekið fyrir á sjötta verkfundi 21. júní og þar bókað að beiðnin yrði lögð fyrir stjórnarfund og verktaka svarað á næsta verkfundi, sem ákveðinn var 2. júlí. Sjöundi verkfundur var síðan haldinn 6. júlí. Þar var bókað undir lið 4:

,,Verkkaupi tilkynnti verktaka að samþykkt hafi verið á stjórnarfundi húsfélagsins 5. júlí að veita verktaka umbeðinn frest á verklokum til 31. júlí 1999. Fram kom að nokkur urgur er í íbúðareigendum vegna tafa á verklokum. Stjórn húsfélagsins veitir umbeðinn frest í trausti þess að ný verkáætlun verktaka standist. Ekki verður um frekari frestun á verklokum að ræða frá hendi verkkaupa.“

Næsti verkfundur var ákveðinn og haldinn 16. júlí. Þá var bókað undir lið 4 að verktaki lýsti yfir óánægju með að bókað skyldi í síðustu fundargerð að ekki yrði um frekari frestun á verklokum að ræða af hálfu verkkaupa. Kvaðst verktaki ,,munu fá sér til aðstoðar lögfræðing og samningamann, komi til þess að tafabótum verði beitt.“ Undir lið 5 var síðan gerð svofelld bókun:

,,Framkvæmdir hafa gengið fremur hægt að undanförnu, mun hægar en verktaki hafði reiknað með. Ástæður þess hve hægt verkið hefur gengið eru að sögn verktaka þær helstar, að tafist hefur að fá efni frá blikksmiðju m.a. vegna sumarfría starfsmanna þar og vegna þess að vesturhliðin almennt hefur reynst tafsamari en hann reiknaði með. Tveir til fjórir smiðir hafa verið við vinnu á verkstað flesta dagana. Fyrirséð er að sögn verktaka að einhver frágangsvinna verður eftir á jarðhæð hússins, að loknum umsömdum verktíma.“

Ákveðið var að boða til næsta verkfundar í byrjun ágúst. Samkvæmt gögnum málsins var það ekki gert, en með bréfi 16. ágúst lýsti stefndi breyttum forsendum vegna álklæðningar hússins og gerði kröfu um hækkun á einingaverði álklæðningar á bak- og framhlið hússins, samtals 3.372.550 krónur, svo og kröfu vegna hönnunarvinnu, 1.401.120 krónur. Hann gerði og kröfu um framlengingu á verktíma í samræmi við aukið umfang verksins.

Næsti verkfundur var haldinn 20. ágúst og þar var bókað um viðbrögð verkkaupa við kröfubréfi stefnda. Í þeirri bókun, sem er löng og ítarleg, segir frá sjónarmiðum málsaðila. Kröfubréfið var tekið fyrir á fundi húsfélagsins 11. október 1999 og samþykkt að hafna kröfunni. Með bréfi 15. sama mánaðar var stefnda jafnframt tjáð að verkkaupi myndi innheimta tafabætur fyrir 40 daga og skuldajafna þeim við lokagreiðslu samkvæmt verksamningi.

II.

Málsaðilar deila um það hvort verkið, sem þeir sömdu um, hafi reynst stefnda flóknara og erfiðara en vænta mátti, og hvort stefndi hafi dregið um of að gera viðvart um það. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi borið fram þá málsástæðu að jafnvel þótt talið væri að breytingarnar sem urðu á verkinu væru auka- eða viðbótarverk utan samnings aðila hefði stefndi fyrirgert rétti til greiðslu fyrir þau með tómlæti. Hann hafi ekki lagt fram kröfu um viðbótargreiðslu vegna aukaverka fyrr en 16. ágúst 1999, einum og hálfum mánuði eftir upphaflegan skiladag. Jafnframt hafi tómlætið falist í því að gera áfrýjanda ekki viðvart á verktímanum jafnskjótt og hann taldi vinnu sína við verkið vera meiri en samningurinn gerði ráð fyrir, enda liggi fyrir að hann hafi unnið verkið nánast til loka án þess að bera því við að forsendur væru brostnar þótt hann hafi sjálfur gert sér það ljóst. Með þessu hafi stefndi komið í veg fyrir að áfrýjandi hefði þegar á frumstigi tækifæri til að taka afstöðu til athugasemda stefnda og væntanlegs kostnaðarauka, sem hugsanlega hefði leitt til þess að áfrýjandi hefði ákveðið að fara aðrar leiðir. Því hafi stefndi sýnt af sér stórkostlegt tómlæti og fyrirgert rétti sínum til viðbótargreiðslna umfram samningsgreiðslu.

Stefndi hefur mótmælt þessari málsástæðu um tómlæti sem rangri og of seint fram kominni, þar sem henni hafi ekki verið haldið fram í héraði.

Í málinu reisir stefndi kröfu sína á matsgerð dómkvadds manns, sem taldi stefnda hafa þurft að bera viðbótarkostnað vegna ónógra upplýsinga og gagna við samningsgerð. Matinu hefur ekki verið hnekkt með yfirmati. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, féllst á þá niðurstöðu matsmannsins að stefnda hafi ekki mátt vera ljóst fyrr en langt var liðið á verkið hve mikil breyting hafði orðið á því frá útboðsgögnum og þeim forsendum, sem þá voru lagðar til grundvallar. Verður að skilja þessar forsendur héraðsdóms svo að þar hafi tómlæti verið haldið fram af áfrýjanda en því hafnað af héraðsdómi. Telst þessi málsástæða því ekki of seint fram komin fyrir Hæstarétti.

Svo sem rakið er í reifun bókana af verkfundum hér að framan er ljóst að stefnda hefur í júní 1999 þótt verkið orðið tafsamara og erfiðara en hann hafði gert ráð fyrir, en þá var komið að framkvæmdum við vestari langhlið hússins, sem erfiðust var. Hann fór fram á framlengingu á verktíma með bréfi 15. júní. Á verkfundi 21. júní var beiðni stefnda lögð fram og bókað að hún yrði borin undir stjórnarfund og honum svarað á næsta verkfundi. Það var svo ekki fyrr en 6. júlí sem stefnda var tilkynnt að stjórnarfundur áfrýjanda hefði samþykkt að veita honum umbeðinn frest á verklokum til 31. júlí og jafnframt, að ekki yrði um frekari frestun að ræða.

Samkvæmt samningi aðila bar áfrýjanda að leggja stefnda til fullnægjandi hönnunargögn. Ljóst er að eftir framangreind viðbrögð áfrýjanda við beiðni stefnda um framlengingu á verktíma urðu samskipti þeirra erfiðari og enduðu í þessu ágreiningsmáli. Þegar virtar eru ástæður stefnda fyrir beiðni sinni 15. júní til viðbótar því sem rakið er í héraðsdómi eru ekki efni til að hnekkja því mati dómsins að við framkvæmd verksins hafi að beiðni áfrýjanda verið farið yfir í flóknari lausn en verulega skort á að nægileg hönnunargögn lægju fyrir. Einnig er fallist á að stefnda hafi ekki mátt vera þetta ljóst fyrr en langt var liðið á verkið. Telst stefndi því ekki hafa misst kröfu sína fyrir tómlæti.

Vegna þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Húsfélagið Vesturbergi 144-148, greiði stefnda, Fili ehf., samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2003.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 10. apríl 2003, að loknum munnlegum málflutningi, var áður flutt hinn 14. janúar sl., en endurupptekið 10. apríl sl. og flutt að nýju þann dag.  Málið var höfðað fyrir dómþinginu af Fjöli ehf., kt. 420796-2429, Hraunbergi 17, Reykjavík, á hendur húsfélaginu Vesturbergi 144-148, Reykjavík, kt. 451098-2419, Vesturbergi 146, Reykjavík, með stefnu birtri 25. maí 2001.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 6.494.560 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 2.002.750 krónum frá 22. október 1999 til 14. júní 2001, en af 6.494.560 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

                Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Stefndi krefst og málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

II

                Málavextir eru þeir, að í nóvember 1998 auglýsti stefndi, með almennu útboði, eftir tilboðum í viðhaldsverk á húseigninni Vesturbergi 144-148, en í því fólst m.a. viðgerðir og klæðning utan húss, lokun svala o.fl.  Tíu tilboðum var skilað inn, en þau reyndust öll hærri en kostnaðaráætlun Gísla Guðfinnssonar, ráðgjafa stefnda.  Stefnandi gerði og frávikstilboð í verkið, en því var einnig hafnað. 

                Umsjónar- og eftirlitsaðili verksins f.h. stefnda, Gísli Guðfinnsson, hafði samband við stefnanda og fór fram á samningaviðræður um verkið milli aðila.  Í þeim viðræðum var leitast við að lækka kostnað við verkið og ákveðið að panelklæða húsið.  Samningur um verkið var undirritaður hinn 25. janúar 1999.  Í þeim samningi er vitnað í fyrri útboðsgögn en í engu getið um fyrirætlan aðila um breytingu á klæðningu hússins.    Viðræður aðila beindust að því, að klæða austur- og vesturhlið hússins með panel í stað pönnuklæðningar, eins og gert hafði verið ráð fyrir í útboði, en göflum yrði haldið óbreyttum, eins og gert hafði verið ráð fyrir í aðalútboði, eða pönnuklæðningu.  Samkvæmt samningnum skyldi verkið hefjast strax og ljúka eigi síðar en 1. júlí 1999.  Samningsfjárhæð verksins var 33.721.833 krónur og tafabætur voru ákveðnar 30.000 krónur fyrir hvern almanaksdag, sem verklok drægjust.

                Stefnandi hefur haldið því fram, að eftir að vinna við verkið hafi hafist, hafi komið í ljós, að ómögulegt hafi verið að framkvæma það eins og gert hafði verið ráð fyrir í samningi aðila.  Í fyrsta lagi hafi ekki verið unnt að styðjast við útboðsgögn við hönnun framkvæmda, þar sem uppdeiling á klæðningunni hafi ekki verið í samræmi við útlit hússins.  Deili hafi ekki gengið upp við glugga og ómögulegt hafi reynst að vinna verkið í standandi panel frá öðrum enda húshliðarinnar til hins, vegna frágangs við glugga og hæðarskil.  Vinnuteikningar og önnur verkgögn, sem Gísli Guðfinnsson hafi afhent við upphaf framkvæmda, hafi verið þau sömu og útboðsgögnin, en vegna þess, að breytt hafði verið um tegund klæðningar, hafi þau reynst ónothæf, hvað þennan verkþátt varðaði.  Útboðsteikningar, útboðslýsingar og verklýsingar hafi reynst villandi, þar sem í þeim hafi ekki verið gerð grein fyrir því, hversu flókin byggingin í raun er og hafi lýsingarnar einungis verið einfölduð mynd af verkframkvæmdinni.  Öll tæknileg vandkvæði, sem skapast hafi vegna hinnar nýju klæðningar, hafi stefnandi þurft að leysa sjálfur og á eigin kostnað.  Þá hafi reynst ómögulegt að klæða langhliðar hússins með standandi panelklæðningu og halda jafnframt útliti hússins.  Gert hafði verið ráð fyrir í útboðslýsingu, að litbreytingar á klæðningu væru nægjanlegar til að útlit hússins héldist, en sú hafi ekki verið reyndin.  Að kröfu stefnda, húsfélagsins, sbr. fundargerð fyrsta verkfundar, hafi því verið ákveðið, að klæðningin yrði á tveimur flötum og annar inndreginn um 30 mm. Þessar breytingar á verkinu hafi alfarið verið unnar að kröfu húsfélagsins.

                Heldur stefnandi því fram, að engar teikningar né verklýsingar hafi verið gerðar af hinni nýju útfærslu verksins.  Ekki hafi verið tekið fram í samningi aðila, að stefnandi bæri ábyrgð á breytingum frá útboðslýsingu, sem hugsanlega þyrftu að koma til vegna hinnar nýju klæðningar, enda ekki um frávikstilboð að ræða, heldur nýjan samning aðila, þar sem tillaga um breytta útfærslu verksins stafaði frá verkkaupa og ráðgjöfum hans. 

                Stefndi hefur mótmælt þessu sem röngu.  Stefnandi hafi verið með í útfærslu á deililausn strax á samningsstigi og verið fullkunnugt um hina breyttu útfærslu, og hafi tilboð hans byggst á því.  Breytingarnar hafi m.a. verið gerðar að tillögu stefnanda og verið hagræðing til einföldunar á verkinu.  Stefndi kveður endanlegan frágang á deiliteikningum hafa legið fyrir hinn 17. febrúar 1999, löngu áður en framkvæmdir hafi hafist.

                Hins vegar kveður stefndi verklýsingu í útboðsgögnum fyrir klæðningu hússins hafa verið staðlaða lýsingu fyrir loftræsta álklæðningu eins og notuð sé í útboðum sem þessum.  Lýsingin sé almenn og hafi stefnanda átt að vera það fullljóst.  Þegar þessar breytingar hafi verið til umræðu hafi stefnandi gert stefnda tilboð í breytta útfærslu.  Um hafi verið að ræða ný einingarverð á fermetra loftræstrar panelklæðningar í tilboðsliðum 01.508 í samræmi við framangreindar, umsamdar breytingar.

                Stefndi heldur því og fram, að stefnandi hafi ekki á verktímanum gert athugasemdir eða kröfur vegna verksins, önnur en um þau aukaverk, sem beðið hafi verið um og samþykkt hafi verið.  Aukning á verkinu hafi ekki numið nema 0,45%.  Stefndi kveður stefnanda fyrst hafa gert kröfu um breytt einingarverð á klæðningu á hliðum hússins og vegna hönnunarvinnu að samningsbundnum verktíma loknum.

                Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, að stefndi hafi, strax á fyrsta verkfundi, gert þá kröfu, að klæðningin yrði á tveimur flötum og annar 30 mm inndreginn.  Kveður stefndi, að innfellingar og litbreytingar í flötum hafi strax legið fyrir við útboðið.  Ekkert komi fram í útboðsgögnum um, að litbreytingar hafi átt að nægja til að halda útliti hússins.  Það sé einnig rangt, að breytingar á verkinu hafi verið unnar að kröfu stefnda.

                Stefndi heldur því fram, að fyrst með bréfi stefnanda, dagsettu 15. júní 1999 og á 6. verkfundi aðila, sem haldinn hafi verið 21. júní 1999, eða 10-15 dögum fyrir verklok,  hafi komið fram, að ómögulegt hafi verið að vinna verkið, eins og gert hafi verið ráð fyrir í upphafi, þar sem útboðsteikningar, útboðslýsing og verklýsing hafi reynst villandi, þar sem í þessum gögnum hafi ekki verið gerð grein fyrir, hversu byggingin hafi í raun verið flókin.  Mótmælir stefndi því, að verklýsing hafi verið með öðrum hætti en tíðkist í svona verkum.  Þá hafi stefnandi getað séð, við skoðun á eigninni, hvernig hún var.

                Eftir að greinargerð hafði verið skilað í málinu, fór stefnandi fram á dómkvaðningu matsmanns, og var Helgi S. Gunnarsson, byggingaverkfræðingur, kvaddur til starfans.  Er matsgerð hans dagsett 15. maí 2002.  Komst hann að þeirri niðurstöðu, að útboðs- og hönnunargögn, sem legið hafi fyrir á útboðs- og samningsstigi og í upphafi verks, hafi verið ófullnægjandi, þegar hliðsjón sé höfð af þeim kröfum, sem síðar hafi verið settar fram af verkkaupa og ráðið hafi endanlegri útfærslu klæðningarverksins.  Þá taldi hann vinnu, sem verktaki hafi lagt í við að leysa, útfæra og hanna þætti, sem óleystir voru, vera auka- og viðbótarverk.  Matsmaður lagði mat á viðbótarkostnað stefnanda vegna þessara atriða.  Í niðurstöðu matsgerðar vegna þessa, segir svo: „Það er mat undirritaðs að sanngjörn þóknun til verktaka vegna þeirra atriða sem að framan hafa verið talin sé skv. eftirfarandi:

                Vinna verktaka við fullnaðarútfærslu á klæðningu.                   850.800 kr. m.vsk.

                                                                                                                         (683.373 kr. án vsk.)

                Sjá frekari rökstuðning í matslið b hér á undan.

                Ekki var hægt að nota standandi panellausn sem verktaki bauð á langhliðar v. forsendubreytinga frá verkkaupa.  Við það er eðlilegast að „kasettu” einingaverð gildi um þennan þátt:

                (15,050 – 12,500) X 941 m2 =  2,399,550 kr.m.vsk. (1,927,349 kr.án vsk.)

                Rökstuðningurinn er sá að vinna við langhliðar m.v. valda lausn sé nær því að teljast „kasettu” lausn en einföld panill lausn.

                Til að meta hvaða áhrif það hefur haft á vinnu o.þ.l. kostnað verktaka að hann skuli ekki hafa haft undir höndum rétt og fullunnin hönnunargögn við verðlagningu verksins og upphaf þess hefur verið valið að beita eftirfarandi nálgun.

                Metið er í hvaða liðum breyttar kröfur hafa megin áhrif.  Notaðar eru reynslutölur til að finna hlutfallslegan mismun á kostnaði við klæðningu sbr. kröfur gagna og skv. nýjum kröfum verkkaupa.  Þar sem mismunakostnaður er það sem verið er að leita eftir þá er þessi aðferð talin nægjanlega nákvæm.  Til að nálga þennan mismun og til að einfalda útreikninga eru eftirfarandi forsendur gefnar í þessu sambandi:

                Efni og vinna við einangrun sé óbreytt að umfangi.

                Reiknað er með sama efniskostnaði við upphengikerfið.  Þetta er gert til einföldunar þó að ljóst sé að fjöldi t.d. festinga við vegg s.s. vinklar og múrboltar sé nokkuð meira m.v. kerfi í mismunandi fleti.

                Reiknað er með sama efniskostnaði í klæðningu.

                Gert er ráð fyrir að vinna við festikerfi sé um 18% meiri að umfangi að jafnaði við kerfi sem er í mismunandi flötum.

                Reiknað er með að vinna við klæðninguna sé að jafnaði um 10% meiri að umfangi við kerfi sem er í mismunandi flötum.

                Eðlilegt er að verðleggja þetta aukna umfang miðað við áðurnefndar forsendur út frá einingaverðum verktaka.  Til þess að það sé hægt hefur einingarverð verktaka verið brotið upp.  Einingaverð skv. verkþætti 01.580 „Loftræst útveggjaklæðning, pönnuklæðning” er kr. 15,050 kr/m2.  Áætla má að einingaverð verktaka (vinnuliður) skiptist milli festikerfis og klæðningar samkvæmt hlutfallinu 40/60.  Miðað við þær forsendur verður áætlaður viðbótarkostnaður s.k.v. eftirfarandi:

                Viðbótarkostnaður v. festikerfis.

                40% x 7,500 kr/m2 (tilboð verktaka í vinnu) x 18% = 540 kr/m2

                Viðbótakostnaður v. klæðningar.

                60% x 7,500 kr/m2 (tilboð verktaka í vinnu ) x 10% = 450 kr/m2

                Samtals gerir þetta viðbótarkostnað upp á:

                (540 kr/m2 + 450 kr/m2 = 1,241,460 kr.m.vsk. (997,157 kr.án vsk.)

                Framangreindur viðbótarkostnaður tekur til alls kostnaðar beins og óbeins.  Ekki er eðlilegt að innreikna áætlaðan tapaðan hagnað af öðrum hugsanlegum verkefnum.  Framangreindar reynslutölur innihalda allar eðlilegt hlutfall hagnaðar sem og annarrar álagningar sem venja er að innreikna í tilfellum sem þessum.

                Það er því niðurstaða matsmanns að verktaki hafi þurft að bera eftirfarandi viðbótarkostnað v. ónógrar upplýsinga og gagna við upphaflega verðlagningu verksins:

-Vinna við fullnaðarútfærslu á klæðningu                                                               850,800 kr.m.vsk.(683,373 kr.án vsk.)

-Nota þurfti „kassettur” á allt:                2,399,550 kr.m.vsk.(1,927,349 kr.án)

–Viðbótarvinna v.inndreginna flata:       1,241,460   kr.m.vsk.(997,157 kr.án)

               Samtals viðbótarkostnaður              4,491,810 kr.m.vsk.(3,607,880 kr.án)

  Allar tölur utan sviga innihalda fullan vsk.  Eingöngu er um vinnuliði að ræða.  Verðlag miðast allt við verðlag samnings þ.e. janúar 1999.”

                Þá var matsmaður beðinn um að veita hæfilega aukningu á verktíma miðað við aukið umfang verks, þegar höfð er hliðsjón af þeim breytingum, sem urðu á verkinu á meðan á framkvæmdum stóð samkvæmt framangreindu.  Niðurstaða matsmannsins var eftirfarandi: „Það er mat undirritaðs að verktími hafi verið eðlilegur (m.v. verklok 1. júlí 1999) hefði verk verið fullhannað og hæft til framkvæmda eins og aðilar gerðu ráð fyrir þegar framkvæmdir hófust.  Það veldur í öllum tilfellum miklum töfum og vandkvæðum þegar að mál eins og þessi koma upp á miðjum framkvæmdatíma.  Yfirleitt er ekki mögulegt að stöðva verk og endurskipuleggja sökum mikils fórnarkostnaðar, ennfremur eru vandamálin yfirleitt ekki að fullu ljós fyrr en verkið er yfirstaðið að fullu.  Það er mat undirritaðs eftir lestur málskjala þ.m.t. fundargerða og úttekta að verktaki hafi staðið eðlilega að framvindu verksins.  Það er því niðurstaða að eðlilegur framkvæmdatími o.þ.a.l. eðlileg aukning á verktíma hafi verið fram í aðra viku september 1999.”         

                Stefnandi fór fram á framlengingu verktíma með bréfi, dagsettu 15. júní 1999.  Stefndi féllst á að framlengja verktímann um 30 daga.  Með bréfi, dagsettu 16. ágúst s.á., fór stefnandi enn fram á lengingu verktíma, en með bréfum stefnda, dagsettum 15. og 18. október s.á., var þeirri framlengingu hafnað og tilkynnt, að tafabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur yrðu dregnar frá greiðslum til stefnanda.

III

                Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á samningi aðila um verkið, almennum reglum kröfu- og samningaréttar, sem og ákvæðum ÍST-30 staðalsins frá árinu 1997.  Gerir stefnandi kröfu á hendur stefnda um greiðslu verklauna, kostnaðar vegna vinnu við gerð teikninga, sem og greiðslu fyrir aukaverk.

                Stefnandi kveður meginástæðu fyrir málshöfðun vera þá, að á meðan á umræddu verki hafi staðið, hafi stefndi krafist þess af stefnanda, að hann tæki að sér að vinna verk, sem í samningi aðila, hafi verið útfærð og framkvæmd á annan hátt.  Jafnframt hafi lýsingar í fylgigögnum samnings aðila að sumu leyti verið svo ónákvæmar og einfaldaðar, að ómögulegt hafi verið að vinna verk eftir þeim.  Hafi og sum verk reynst dýrari í framkvæmd en gera hafi mátt ráð fyrir.  Hafa verði í huga, að samningur aðila hafi ekki verið byggður á frávikstilboði stefnanda, enda hafi stefndi, húsfélagið, hafnað því tilboði ásamt öðrum tilboðum, sem borist hafi í verkið, eftir almennt útboð.  Um samning aðila gildi því ekki reglur um frávikstilboð.

                Stefnandi kveður það hafa verið ákvörðun stefnda að breyta framkvæmd verksins varðandi klæðningu hússins frá því, sem gert hafi verið ráð fyrir í útboðsgögnum, í því augnamiði að minnka kostnað við verkið.  Þessi breyting hafi haft þau áhrif, að eðlismunur hafi verið á þeirri klæðningu, sem fyrirhuguð hafi verið í upphafi, og þeirri, sem síðar hafi verið samið um.  Samkvæmt þeirri fyrri hafi útlit hússins átt að halda sér, en með þeirri síðari hafi sú ráðagerð að mestu verið lögð til hliðar.  Hins vegar hafi stefndi, þegar til átti að taka, gert kröfu um, að framkvæmd verksins skyldi miða að því að halda fyrra útliti hússins.  Stefnda hafi því mátt vera fullljóst, að með því að velja ódýrari klæðningu við samningsgerðina, yrði að fórna útliti hússins, að mestu.  Sú afstaða hafi hins vegar breyst, þegar verkframkvæmdin hafi hafist.  Þessi afstaða stefnda komi skýrt fram í fundargerð fyrsta verkfundar aðila þann 9. apríl 1999, en þar segi orðrétt:  „Rætt var um skrautkassa við enda á svalahandriðum og lausnir til að halda útliti sem næst því sem það var fyrir klæðningu.  Ítrekað var við verktaka að reynt væri að halda einkennum hússins, þrátt fyrir klæðningu.”  Stefnandi kveður þessa afstöðu verkkaupa hafa verið hafða í fyrirrúmi við allt verkið, og fyrir vikið hafi það orðið mun dýrara en ráð hafi verið gert fyrir í fyrstu, og í raun hafi verkið breyst þannig, að útfærsla þess hafi nánast orðið sú sama og í frávikstilboði stefnanda.

                Þó svo að ekki liggi fyrir skriflegur samningur um þau aukaverk, sem unnin hafi verið, sé ljóst, að það megi jafna þeim skýru og ótvíræðu fyrirmælum stefnda, að útliti hússins skyldi halda, við samning milli aðila um útfærslu þessara verka.  Á annan hátt sé ekki hægt að skilja skýrar kröfur stefnda um breytta framkvæmd hinna ýmsu þátta verksins.

                Útboðsgögnum, sem hafi verið hluti af samningi aðila, hafi í engu verið breytt, þó svo að framkvæmd verksins hafi verið breytt með samningi aðila.  Þá hafi útboðsgögnin að miklu leyti verið það ónákvæm, að ógerningur hafi verið að vinna eftir þeim, en t.d. hafi húsið staðist illa mál og svokölluð deili hafi verið sárafá og ófullnægjandi.  Vegna þessa hafi stefnandi orðið að framkvæma mörg verk, sem ekki hafi komið fram í verklýsingu vegna ónákvæmni hennar.

                Stefnandi sundurliðar verk þessi með eftirfarandi hætti:

i)                    Á báðum göflum hússins sé klæðningin inndregin á gráu flötunum, sbr. ljósmyndir á dskj. nr. 24.  Það hafi verið gert að kröfu stefnda, eins og fram komi í fundargerð frá 9. apríl 1999, en þar segi: „Ítrekað var við verktaka, að reynt væri að halda einkennum hússins, þrátt fyrir klæðningu” Þessi skil séu unnin í samræmi við deili 18, á teikningu 402.  Augljóst sé við skoðun á húsinu, að þessi breyting á hönnuninni geri verkið í heild miklu flóknara en annars hefði verið og þurfi að taka tillit til þess við mat á þeim aukakostnaði, sem stefnandi hafi orðið fyrir.  Stefnandi metur aukakostnað við lengdarmetra á þessum skilum vera, sem samsvari ½ fm af klæðningu á einingarverði samnings, sem sé 15.050, og geri því kröfu um að fá greiddar 7.525 fyrir metrann.  Á suðurgafli séu skilin um 44m löng og á norðurgafli um 38m löng eða samtals um 82m löng.  Krafa stefnanda fyrir þennan þátt sé því 82 x 7.525 kr., eða 617.050 krónur.

ii)                   Á þakbrúninni á göflunum myndist mjög flókið deili, þar sem þakbrúnin og hinir mislægu fletir komi saman.  Hinir mislægu fletir séu bein afleiðing af fyrrgreindri breytingu á skilunum.  Eðlilegt verð fyrir slíkan skurðpunkt telur stefnandi vera 30.000 krónur á hvern skurðpunkt, en þeir séu fjórir.  Þar sem þeir séu ekki reiknaðir inn í tilboði stefnanda og hafi verið óumflýjanlegir við framkvæmd verksins gerir stefnandi kröfu vegna þessa liðar að fjárhæð 120.000 krónur.

iii)                 Stefnandi kveður litaskil koma inn í áfellur á gluggum á göflunum, alls 24 gluggum.  Telur stefnandi aukakostnað vegna þeirra vera 5.000 krónur fyrir hver skil.  Þessi litaskil séu ekki tilgreind eða þeim lýst í verkgögnum, en þeirra hafi verið krafist af stefnda á verktímanum.  Krefur stefnandi stefnda um 70.000 krónur fyrir þennan lið.

iv)                 Langhliðar hússins séu gjörbreyttar frá því sem útboðs- og samningsteikningar sýni.  Til þess að halda umkröfðum einkennum hússins hafi orðið að vinna verkið á þennan máta, og augljóst sé, að vel hafi tekist til við að halda húsinu með því verðlaunaútliti, sem það hafi haft áður en það hafi verið klætt.  Stefnandi kveðst krefja stefnda um sanngjarna þóknun fyrir það verk, sem hann hafi unnið og telja eðlilegt, að hann fái greiðslur fyrir plan-/litaskilin, sem séu á langhliðunum, og séu beinlínis gerð að fyrirmælum stefnda.  Stefnandi kveður meginforsenduna fyrir umsömdu verði fyrir panelklæðninguna á langhliðum hússins hafa verið þá, að hægt yrði að vinna hliðarnar á nokkurs konar færibandi frá öðrum enda hússins til hins.  Vegna planskilanna og mjög mikillar mæliskekkju í húsinu hafi það ekki verið gerlegt og hafi í raun þurft að vera með alla hliðina undir í einu.  Plan-/litaskilin séu unnin í samræmi við deili nr. 18 á teikningu nr. 401 og kveðst stefnandi meta viðbótavinnu á lengdarmetra í skilum sem ½ fm af klæðningu á einingarverði samnings, sem sé 12.500 krónur, eða 6.250 krónur fyrir metrann.  Plan-litaskilin á austurhlið séu um 360 m löng og á vesturhlið um 250 m löng, eða samtals 610 m löng.  Krafa stefnanda sé því 610 x 6.250 krónur, eða 3.812.500 krónur.

v)                  Stefnandi kveður endalokanir á standandi panel á báðum langhliðum og á húshornum vera um 440 talsins og eðlilegt verð fyrir endalokun telur stefnandi vera 500 krónur fyrir hverja lokun, eða 200.000 krónur.

vi)                 Stefnandi krefur og stefnda um greiðslu aukaverksreikning vegna skrautkassa á veggjum við svalir og aukningu á klæðningu við bakinnganga.  Skrautkassarnir séu ekki sýndir á verkteikningum og aldrei hafi komið til tals við gerð samnings að slíkir skrautkassar skyldu gerðir eða þessar umræddu klæðningar við bakinngangana.  Umræddur frágangur við bakinngangana hafi ekki verið til umræðu fyrr en undir verklok, þegar formaður húsfélagsins hafi farið fram á, að hann yrði gerður.  Reikningurinn sé að fjárhæð 802.750 krónur.

                Stefnandi kveðst hafa gert grein fyrir þeirri afstöðu sinni, að greiða bæri fyrir þau aukaverk, sem ekki kæmu fram í samningi aðila, sbr. bréf stefnanda, dagsett 16. ágúst 1999, og níunda verkfund aðila þann 20. ágúst 1999, en stefndi hafi neitað með öllu slíkum greiðslum og talið stefnanda hafa mátt sjá fyrir öll slík aukaverk.  Jafnframt hafi stefndi neitað að verða við ósk stefnanda um greiðslu fyrir þá vinnu, sem innt hafi verið af hendi vegna ónákvæmrar verklýsingar stefnda, og stefndi hafi ekki orðið við kröfu stefnanda um að draga ekki tafabætur frá greiðslum til sín.

                Um fjárhæð verklauna fyrir ofangreinda liði vísar stefnandi til meginreglu 5. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922, sem beitt verði með lögjöfnun varðandi verksamninga.  Verði fallist á, að framangreindir verkliðir séu aukaverk, beri að leggja umkrafðar fjárhæðir til grundvallar.  Undir rekstri málsins fékk stefnandi dómkvaddan matsmann til þess að meta fjárhæð ofangreinds verks og byggir hann endanlega kröfu sína á því mati.

                Stefnandi byggir og á því, að stefnda beri að greiða fyrir vinnu við útboðsgögn og verklýsingar.  Stefnandi kveðst hafa neyðst til þess að leggja út í mikla vinnu við endurgerð útboðsgagna, bæði vegna ónákvæmni þeirra og einnig vegna þess, að hvergi hafi verið gert ráð fyrir þeirri breyttu útfærslu klæðningar hússins, sem samningur aðila hafi gengið út á.  Það hafi verið ótvíræð skylda verkkaupa að útvega verktaka nefnd gögn, og skyldu þau vera þannig úr garði gerð, að vandalaust yrði að vinna verkið út frá þeim.  Þetta komi m.a. fram í greinum 14.1. og 14.4. í ÍST30, sem sé hluti samnings aðila, sem og langri venju á sviði verktakaréttar á Íslandi.  Stefnandi kveðst hafa þurft að láta vinna teikningar og verklýsingar upp á nýtt á sinn kostnað til þess að tryggja framgang verksins.  Stefnandi kveðst hafa valið þann kost að klára verkið, þrátt fyrir að honum hafi verið heimilt að stöðva framkvæmdir sökum þess, að hönnun hafi ekki legið fyrir.  Krafa stefnanda vegna þessa þáttar sé eðlileg lágmarksþóknun fyrir þá vinnu, sem hann hafi innt af hendi til þess að leysa þetta flókna verkefni.  Erfitt sé að áætla nákvæmlega þann viðbótarkostnað og tafir, sem af því hafi hlotist, að hanna hafi orðið stóran hluta verksins.  Verktíminn hafi verið sjö mánuðir og telur stefnandi a.m.k. helmingur af starfstíma tæknimenntaðs verkstjóra hafi farið í að teikna og útfæra lausnir, sem átt hafi að liggja fyrir.  Krefst stefnandi þess, að sá kostnaður verði bættur af stefnda.

                Stefnandi kveður stefnda ekki hafa verið heimilt að draga tafabætur frá greiðslum, þar sem hann hafi ekki átt rétt á bótum.  Alla seinkun á framkvæmd verksins megi rekja til aðgerða eða aðgerðarleysis stefnda.  Annars vegar hafi stefndi ekki látið stefnanda í té verklýsingar og teikningar, sem unnt hafi verið að vinna eftir með fullnægjandi hætti, og hins vegar hafi stefndi farið fram á breytingar á verkinu, sem torveldað hafi til muna framkvæmd þess og seinkað því verulega.  Þessar ástæður réttlæti framlengingu verktíma, sbr. ÍST-30, og því hafi skuldajöfnun stefnda að fjárhæð 1.200.000 krónur, vegna tafabóta, verið ólögmæt.

                Stefnandi kveður og dómvenju vera fyrir því að gera verði strangar kröfur til þess, að tafarlaust sé tilkynnt um beitingu tafabóta og að enginn vafi megi vera um heimildina.  Þá verði ekki séð, að tjón hafi orðið fyrir stefnda vegna dráttar á verklokum.  Fullnusta tafabóta eftirá leiði því til óréttmætrar auðgunar verkkaupa á kostnað verktakans.

                Vaxtakröfu sína byggir stefnandi á verksamningi aðila frá 25. janúar 1999 og vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989, sbr. og lög nr. 38/2000.  Krafist sé dráttarvaxta á grundvelli 3. gr. verksamnings aðila af 2.002.750 krónum frá 22. október 1999, þ.e. 14. degi eftir að eftirlitsmaður hafi fengið reikninga nr. 264 og 267 í hendur, en af stefnufjárhæðinni í heild sinni frá þingfestingardegi til greiðsludags.

                Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Sýknukröfu sína byggir stefndi á því, að uppgjör hafi þegar farið fram á verksamningi aðila og stefndi hafi þegar greitt stefnanda það, sem honum beri, á grundvelli þess samnings.             

                Stefndi byggir kröfu sína á hendur stefnanda um sýknu vegna kröfu um greiðslu fyrir aukaverk á því, að bæði teikningar og verklýsingar hafi verið gerðar af nýrri útfærslu verksins.  Stefnandi hafi verið með í að útfæra deililausnir strax á samningsstiginu og verið fullkunnugt um breytta útfærslu.  Hafi tilboð stefnanda byggst á þessari breyttu útfærslu.

                Stefndi mótmælir því og, að önnur gögn, sem verið hafi hluti af samningi aðila, hafi verið það ófullkomin, að margs konar verkefni, sem ekki hafi komið fram í verklýsingunni, hafi þurft að vinna fyrir stefnda.

                Stefndi heldur því fram, að fyrir hafi legið á samningsstiginu, að innfellingar og litaskil yrðu á húsinu og það hafi verið sýnt á teikningum.  Alltaf hafi legið fyrir, að útlit hússins yrði látið halda sér, eins og komi skýrt fram í fyrstu fundargerð, þar sem það sé ítrekað.  Fundargerðin staðfesti því, að útlit hússins hafi verið til umræðu áður.  Stefnandi hafi því gert tilboð sitt á þessum forsendum, og hafi allar forsendur legið fyrir, þegar stefnandi hafi boðið í þá útfærslu, sem samið hafi verið um.

                Stefndi heldur því og fram, að ekki hafi þurft að breyta gögnum að því undanskildu að útbúa þurfti nýjar deilimyndir vegna panelklæðningar, og hafi það verið útfært á samningstímanum.  Deiliteikningar hafi verið samþykktar hjá byggingarfulltrúa og stimplaðar 13. mars 1999, áður en stefnandi hafi hafið framkvæmdir, og hafi stefnandi framkvæmt verkið eftir þessum teikningum án nokkurra athugasemda.  Þá hafi stefnandi fengið tölvulitmyndir, sem hann hafi tekið mið af við litaval.

                Stefndi hefur hefur gert athugasemdir við einstaka kröfuliði stefnanda, eins og stefnandi hefur sett þá fram.

i)                    Krafa stefnanda um greiðslu fyrir inndregna klæðningu á göflum.  Stefnandi hafi óskað eftir því við stefnda, að sú breyting yrði gerð á göflum hússins, að fletir við glugga, sem séu í uppsteypu hússins, inndregnir, yrðu klæddir með panelklæðningu í stað pönnuklæðningar, eins og gert hafi verið ráð fyrir í samningi aðila.  Þetta hafi stefndi samþykkt, og hafi verið ákveðið, að stefnandi fengi greitt fyrir alla klæðningu á göflum á einingarverði pönnuklæðningar, sem þó hafi verið dýrari en panelklæðning.  Fletir þessir hafi alltaf átt að vera inndregnir í samræmi við byggingu hússins og engu hafi verið breytt í því efni.  Teikning hafi legið fyrir, áður en verkið hafi hafist, og hafi stefnandi unnið verkið án nokkurra athugasemda.  Krafa um greiðslu kostnaðar vegna þessa hafi aldrei komið fram á verktíma.

ii)                   Flókin deili á þakbrúnum á göflum.  Eins og að ofan greinir hafi ætíð átt að vera innfelling flata eins og fyrir hafi verið á húsinu.  Krafa stefnanda sé því um greiðslu fyrir verk, sem í raun hafi verið einfaldara í útfærslu en gert hafi verið ráð fyrir í útboðsgögnum.

iii)                 Litaskil í áfellum að gluggum á göflum.  Þessi verkþáttur sé í samræmi við litdeilingu hússins, sem stefnandi hafi haft allar upplýsingar um og gert tilboð sitt á þeim grundvelli.  Verkið hafi verið unnið án þess að nokkur krafa kæmi fram um sérstaka aukagreiðslu.

iv)                 Langhliðar hússins.  Frágangur panelklæðningar á langhliðum hússins hafi verið hugsaður í þaula af báðum aðilum á samningsstiginu og rissaður upp.  Deililausnir og teikningar hafi legið fyrir áður en verkið hafi hafist.  Verkið hafi verið unnið án nokkurra athugasemda.

v)                  Endalokanir á standandi panel.  Hér sé um að ræða kröfu fyrir verk, sem sé í raun sjálfsagður og eðlilegur frágangur.  Í samningsgögnum sé í skýringum á magntölum tilgreint, að innifalið sé í einingarverði allur frágangur og músalokun.  Á deiliteikningu, samþykktri 13. mars 1999, deili 16, og á útboðsteikningu 401, deili 11, sé sýnd lokun í láréttum plötuskilum.  Þess beri að geta, að fallist hafi verið á það með stefnanda að framkvæma þetta með ódýrari lausn en átt hafi að gera, og gengið yrði frá lokun með límingu í stað beygju.

vi)                 Aukareikningur nr. 267.  Varðandi þennan kröfulið stefnanda vísar stefndi til rökstuðnings eftirlitsmanns stefnda á afgreiðslu kröfunnar.  Frágangur þessi hafi verið á myndum og teikningum og hafi stefnanda verið um það kunnugt, auk þess, sem þetta hafi verið rætt á verkfundi 9. apríl 1999 og verkið unnið til samræmis við það, án athugasemda frá stefnanda.  Reikningur vegna þessara verka hafi hins vegar ekki borist fyrr en 8. október 1999, eða sex mánuðum síðar.

                Stefndi kveðst mótmæla kröfum stefnanda bæði efnislega og tölulega.  Stefndi kveðst aldrei hafa óskað eftir þessum aukaverkum.  Þau aukaverk, sem unnin hafi verið, hafi verið umbeðin af stefnda og fyrir þau greitt, eins og samningur aðila geri ráð fyrir.  Einnig mótmælir stefndi kröfum stefnanda, sem of seint fram komnum, en samkvæmt ÍST 30 séu ákveðin tímamörk á því að setja fram kröfur sem þessar.

                Stefndi kveður stefnanda hafa reikningsfært verkið á tveggja vikna fresti allan verktímann á einingarverði samnings, án nokkurra athugasemda.  Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en eftir verklok og í raun ekki fyrr en með birtingu stefnu, sem stefnandi hafi kunngert kröfur sínar.  Stefnandi hafi hvorki á verktíma né síðar gert reikninga fyrir meint aukaverk sín, að undanskildum reikningi nr. 267 frá 8. október 1999.

                Stefndi heldur því fram, að það sé bæði rangt og ósannað, að stefnandi hafi þurft að láta vinna útboðsgögn og verklýsingar upp á nýtt á sinn kostnað.  Mótmælir stefndi fjárhæð kröfu vegna þessa þáttar bæði efnislega og tölulega.

                Stefndi mótmælir og kröfu stefnanda um, að honum verði endurgreiddar tafabætur, sem skuldajafnað var við uppgjör verksins.  Tafabæturnar hafi verið umsamdar bætur vegna dráttar á því, að verkinu yrði skilað á umsömdum tíma.  Verkið hafi hafist 2. febrúar 1999 og hafi því átt að ljúka 1. júlí sama ár.  Við lokaúttekt hinn 10. september 1999 hafi verkinu ekki að fullu verið lokið, en stefndi hafi litið svo á, að því væri lokið.  Verklok hafi því verið 10. september 1999.  Stefndi kveðst hafa veitt umbeðinn frest á að ljúka verkinu til 31. júlí 1999, en verkinu hafi lokið 40 dögum síðar, og séu tafabætur í samræmi við það, eða 30.000 krónur x 40 = 1.200.000 krónur, sem skuldajafnað hafi verið.  Umræddar tafir hafi ekki verið á ábyrgð stefnda.  Byggir stefndi á samningi aðila og vísar til 20. kafla í ÍST-30, 4. útgáfu 1997, sem verið hafi hluti samnings aðila.  Kveðst stefndi hafa gætt þess á verktímanum að gera stefnanda grein fyrir því, að hann yrði beittur tafabótum samkvæmt samningi.

                Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Einnig vísar stefndi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skyldu til að efna samninga og til greiðslu fjárskuldbindinga, sbr. lög nr. 7/1936 og lög nr. 39/1922, með eða án lögjöfnunar.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Við aðalmeðferð málsins gaf Sigurbjörn, framkvæmdastjóri stefnanda, skýrslu.  Kvað hann stefnanda hafa gert tilboð í verkið og einnig frávikstilboð, en báðum hafi verið hafnað í lok desember.  Eftir það hafi Gísli Guðfinnsson, eftirlitsmaður með verkinu, haft samband við sig í þeim tilgangi að koma á samningum um verkið.  Hafi samningur við stefnda verið gerður seinni partinn í janúar 1999.  Ætlunin hafi verið að pönnuklæða gafla hússins, en nota standandi panel á hliðarnar, en ekki pönnuklæða allt húsið, eins og gert hafi verið ráð fyrir í tilboði stefnanda.  Í upprunalegu tilboði stefnanda hafi verið boðið einingarverð, en með þessu móti hafi verið unnt að lækka aðaltilboðið.  Hann kvað ekkert hafa verið rætt um, hvort fyrra útlit hússins skyldi halda sér, aðeins að breyta skyldi frá pönnuklæðningu yfir í standandi panel.  Við hæðaskil hafi átt að nota hattprófíl.  Hann kvaðst aðspurður ekki hafa hugsað út í það, hvort breyta þyrfti útboðsgögnum vegna þessarar nýju útfærslu á verkinu, en litið hafi verið svo á, að verkkaupi sæi um hönnun verksins, enda hafi þessi breyting verið gerð að hans ósk.  Hins vegar hafi  það lent á stefnanda að hanna verkið, þar sem það hafi orðið frábrugðið því, sem vænta hafi mátt í upphafi.  Engar teikningar hafi t.d. verið til af standandi panelklæðningu.  Eftir að vinna hafi hafist við verkið hafi fljótlega komið í ljós, að stefndu hafi viljað halda í hitt og þetta, sem ekki hafi getað fallið undir panelklæðningu, svo sem innfellingu milli hæðaskila, sem verið höfðu.  Þar með hafi verkið allt breyst og eitt leitt af öðru.  Þá hafi ekki legið fyrir, hvernig festingakerfi skyldi nota.  Hann kvað ástæðu þess, að hann hefði ekki gert eftirlitsmanni grein fyrir kröfum sínum þær, að hann hafi verið svo upptekinn við að finna lausnir á vandamálum, sem upp hafi komið, og við að reyna að klára verkið, að hann hafi ekki hugsað út í það.  Hann hafi ekki áttað sig á því fyrr en í júní hvílík endaleysa þetta var og allt annað en upphaflega hafi verið ákveðið og samið um.  Hafi hann þá sett fram kröfur sínar.  Reikningur vegna aukaverks, sem sé tímavinna vegna svokallaðra skrautkassa og frágangs við bakdyr, sé vegna verka, sem ekki hafi verið inni í útboðsgögnum, og hafi hann því gert lítið úr því á verktíma, þar sem það hafi alltaf legið fyrir, að hans mati, og einnig kvað hann það hafa verið skilning eftirlitsmannsins.

                Formaður húsfélags stefnda, Kristján Helgason, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins.  Hann kvað aðdraganda að samningsgerðinni við stefnanda hafa verið þá, að þegar öllum tilboðum hefði verið hafnað, hafi verið gengið til samninga við stefnanda um pönnuklæðningu.  Hann kvaðst hafa komið að samningsgerðinni við stefnanda, en húsfélagið hafi fengið eftirlitsmann til að sjá um faglegar lausnir.  Hann kvað stefnda hafa gert þá kröfu, að haldið yrði einkennum hússins og halda skyldi innfellingum á göflum milli hæða.  Hann kvað samskipti við verktaka hafa verið eðlileg og verkfundir haldnir.  Hins vegar hafi ekki alltaf verið nægur mannskapur að störfum, og hafi verktaki gefið þá skýringu, að menn væru í sumarfríi og því væri þetta óviðráðanlegt.  Á verktímanum hafi verið samið við verktakann um aukakostnað og reikningar vegna hans greiddir, u.þ.b. 450.000 krónur.  Aðrar kröfur hafi ekki komið fram frá verktakanum fyrr en á verkfundi í ágústmánuði, en þá hafi verktaki gert kröfur vegna þess, að forsendur hefðu breyst og verkið orðið dýrara.  Óskir um tímaframlengingu hafi komið frá verktakanum í júnímánuði, og hafi honum verið veittur frestur á að skila verkinu.  Taldi Kristján, að ástæða þess, að stefnandi hafi þurft að fá verktímann framlengdan, hafa verið þá, að ekki hafi verið nægjanlega margir við verkið um sumarið.

                Þá gaf skýrslu Gísli Guðfinnsson, eftirlitsmaður með verkinu.  Hann kvað stjórn húsfélags stefnda hafa haft samband við sig haustið 1997 vegna væntanlegrar klæðningar hússins.  Kvað hann hönnunarforsendu stefnda hafa verið þá, að reynt yrði að halda útliti hússins sem mest, og hafi verið ákveðið að fá tilboð í að pönnuklæða húsið.  Verkið hafi verið boðið út haustið 1998, og hafi borist 10 tilboð í verkið, sem öll hafi verið hærri en kostnaðaráætlun hans hefði gert ráð fyrir.  Öllum tilboðum hafi því verið hafnað.  Hafi hann þá leitað til stefnanda um tilboð í einfaldari panelklæðningu á  langhliðum, en halda pönnuklæðningu á göflum.  Þegar liðið hafi á verktímann, hafi einnig verið gerð breyting á göflunum og farið út í panellausn á milli glugga vegna samræmis við hliðarnar og líka vegna þess, að það hafi verið einfaldara.  Hann kvað, að fyrir samningsgerð hafi oft verið rætt við stefnanda um deililausnir og innfellingar og rissaðar upp lausnir.  Verkið hafi hafist í byrjun janúar 1999 og hinn 17. febrúar sama ár, hafi hönnuður klæðningarinnar, Þorsteinn Friðþjófsson, komið með deiliteikningar, sem þá hafi verið breytt lítillega.  Á þeim tíma hafi ekki verið byrjað að klæða húsið.  Teikningar þessar hafi svo verið áritaðar og stimplaðar af byggingarfulltrúa 13. mars s.á.  Eftirlitsmaðurinn kvað verktakann hafa byrjað á að klæða gafla hússins, en síðan hafi austurhliðin verið klædd.  Hann kvað verktakann hafa haft teikningar undir höndum, er vinna við klæðningu hófst, en teikningar af göflum hússins hafi alltaf legið fyrir.  Vinna við verkið hafi gengið þokkalega, en í byrjun júní hafi legið fyrir, að verklok gætu ekki orðið í samræmi við samning aðila. Er líða hafi tekið að verklokum, hafi verktakinn farið að tala um, að verkið hefði reynst erfiðara en hann hefði gert sér grein fyrir.  Hins vegar hafi engar kröfur vegna klæðningarinnar borist frá verktaka fyrr en í ágústmánuði, bæði með bréfi verktakans og á verkfundi.  Vitnið kvað allar magntölur hafa verið festar við undirritun samningsins, en þá hafi húsið allt verið mælt upp aftur.  Hann kvað aðspurður, að breytt útfærsla á verkinu hefði ekki þurft að breyta skilmálum útboðsins.  Hann kvað og teikningum, sem skilað hafi verið inn af hönnun hússins í nóvember 1999, eftir að verktíma lauk, hafa að mestu verið í samræmi við teikningarnar, sem stimplaðar hafi verið 13. mars 1999, aðeins hafi verið um minniháttar útfærslubreytingar að ræða.

                Hinn dómkvaddi matsmaður gaf og skýrslu fyrir dóminum.  Kvað hann upphaflega hönnun hafa gert ráð fyrir einfaldara klæðningarverki en því sem framkvæmt var.  Kvað hann síðari teikningu að mestu leyti vera í samræmi við endanlegt verk.  Í samningi sé sagt, að verkkaupi skuli hanna verkið, og af því hafi verktaki mátt ætla, að verkið væri fullhannað og teikningar ættu að endurspegla verkið eins og ætti að vinna það.  Taldi hann umsjón með útboði og verksamningsgerð og eftirliti hafa verið ábótavant.

                Matsmaður kvaðst hafa skipt viðbótarkostnaði í þrjá hluta.  Fyrsti liður sé viðbótakostnaður vegna þess, að hönnun hafi ekki verið að fullu lokið og verktaki hafi þurft að hanna hluta af verkinu og leysa deililausnir í samráði við verkkaupa.  Eingöngu sé byggt á mismun á útboðsgögnum og síðan verkinu, sem unnið hafi verið.  Í útboðsgögnum sé beðið um verð í panelklæðningu, en hafi verið breytt yfir í pönnuklæðningu.  Forsendur matsins séu þær, að verkið hafi verið boðið út á grundvelli útboðsgagna, en síðan gengið til samninga við verktaka á grundvelli breyttrar tilhögunar og nýrrar tilboðsskrár.

                Einnig gaf skýrslu fyrir dóminum Þorsteinn Friðþjófsson, hönnuður hússins, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans hér.

                Við aðalmeðferðina fóru dómarar á vettvang og skoðuðu þar aðstæður.

                Eins og að framan greinir lýtur ágreiningur aðila að því, hvort stefnandi eigi rétt á greiðslu umfram það, sem aðilar sömdu um, vegna klæðningar á fjöleignarhúsinu Vesturbergi 144-148.  Eins og lýst hefur verið, þá hafði stefndi óskað eftir tilboðum í klæðningu fjöleignarhússins á grundvelli útboðsgagna, sem eftirlitsmaður stefnda, Gísli Guðfinnsson, annaðist gerð á.  Var þar óskað eftir tilboðum í pönnuklæðningu á húsinu.  Tilboðum, sem bárust í verkið, þ. á m. frá stefnanda, var öllum hafnað, þar sem þau voru hærri en útreikningur áðurnefnds Gísla gerði ráð fyrir.  Í framhaldi af því hófust samningaumræður milli stefnanda og Gísla Guðfinnssonar, f.h. stefnda.  Tókust með þeim samningar um klæðningu hússins.  Samningurinn var gerður á grundvelli hönnunar- og útboðsgagna, sem stefndi lét í té. Útboðsgögn þessi lýsa pönnuklæðningu.  Hins vegar er fram komið, að tegund klæðningar var breytt áður en samningurinn var gerður, án þess þó, að slíkt komi fram í samningnum sjálfum, og var þá gert ráð fyrir, að hliðar hússins yrðu klæddar með panel.  Átti þetta að vera til einföldunar verksins, en klæðning með standandi panel, sem er venjuleg klæðning, er byggð upp úr stöðluðum, formuðum einingum (panel) ólíkt pönnum eða kassettum, sem yfirleitt eru mótaðar í hverju tilfelli. 

                Eftir að verkið hófst, óskaði stefndi eftir því, að halda útliti hússins, svo sem með klæðningu í mismunandi fleti.  Útboðsgögnin gera ekki ráð fyrir, að ætlunin hafi verið að halda útlitslegum sérkennum hússins, t.d. með klæðningu í mismunandi fleti. Er ljóst, að þessi krafa stefnda um að halda útliti hússins varð ekki framkvæmd með þeirri útfærslu á panelklæðningu, sem fyrstu hönnunarteikningar, sem lagðar voru fram eftir breytingar á verkinu, gerðu ráð fyrir.  Var útfærslu á verkinu breytt, að ósk stefnda, eftir að verkið var hafið, er byrjað var að klæða hliðar hússins.  Var þetta gert án þess, að stefndi legði fram fullnægjandi hönnunargögn, sem honum hefði þó borið að gera samkvæmt samningi þeirra.  Samkvæmt framlögðum gögnum og skoðun dómara á húsinu og klæðningu þess, er ljóst, að einungis hluti af þeim sniðum og deilum, sem nauðsynleg voru við framkvæmd verksins eins og hún varð, lá fyrir við framkvæmd þess.  Með þessum sérlausnum varð verkið allt annað og flóknara en samið var um í upphafi milli aðila.  Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanns stefnanda og eftirlitsmanns með verkinu, f.h. stefnda, fyrir dómi, virðist sem aðilar  hafi verið sammála um að fara ekki eftir samningnum, enda fjallaði sá samningur í raun um upphaflega útboðsverkið sem aðilar voru sammála um að framkvæma ekki, og hvorugur aðila fór eftir þeim vinnureglum, sem gert er ráð fyrir að fylgt sé samkvæmt ÍST 30, sem vera átti hluti samningsins.  Verkinu var síðan breytt meðan á verkframkvæmdum stóð, án þess að gerður væri um það sérstakur samningur, en allar þessar breytingar á verkinu voru að ósk stefnda, og við þær varð ekki stuðst við þá hönnun, sem fyrir lá við undirskrift samnings.  Endanleg útfærsla á klæðningu hússins varð því allt önnur en um var samið í upphafi.  Verður og litið svo á, að stefnanda hafi ekki mátt vera ljóst, hve mikil breyting var orðin á verkinu fyrr en langt var liðið á verkið.  Að áliti dómkvadds matsmanns, sem og sérfróðra meðdómenda, lágu aldrei fyrir á verktímanum fullnægjandi hönnunargögn, sem lýstu nægilega endanlegu umfangi verksins.  Með vísan til alls framanritaðs verður því að líta svo á, að breytingar þessar hafi verið auka- og viðbótarverk, sem stefnda beri að greiða stefnanda fyrir.

                Stefnandi hefur fengið mat dómkvadds matsmanns á verðmæti vinnu sinnar, sem ekki getur talist hluti af samningi aðila, og eðlilegum verktíma, sem óhjákvæmilega lengdist vegna þeirra breytinga, sem urðu á verkinu að ósk stefnda.  Með því að matinu hefur ekki verið hnekkt, verður við það stuðst við ákvörðun þóknunar til handa stefnanda vegna vinnu hans fyrir stefnda umfram samning aðila.  Líta verður svo á, að mat dómkvadds matsmanns fjalli um alla þá þætti framkvæmdarinnar, sem er umfram það, sem lýst var í framlögðum hönnunargögnum í byrjun verks.  Verður því ekki fallist á kröfu stefnanda um greiðslu aukaverka umfram það, sem felst í matinu.  Þá er ekki fallist á, að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda fyrir sérstakan hönnunarkostnað, þar sem engin hönnunargögn hafa verið lögð fram af hans hálfu í málinu.  Verður því ekki fallist á þennan hluta matsins. 

                Í framlagðri matsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt, var einnig lagt mat á eðlilegan verktíma.  Er þar komist að þeirri niðurstöðu, að verktíminn teljist eðlilegur miðað við framlagt verk og endurspeglist lenging verktímans því í þeirri aukningu verkmagns, sem varð á verkinu frá undirritun samnings aðila til verkloka.  Með vísan til þess var því ekki rétt að verkkaupi héldi eftir tafabótum að fjárhæð 1.200.000 krónur.

                Með vísan til alls framanritaðs ber því að fallast á kröfu stefnanda á hendur stefnda, í samræmi við þann hluta matsins, sem snýr að viðbótum og aukningu verksins, að fjárhæð 3.641.010 krónur, auk endurgreiðslu tafabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur, eða samtals 4.841.010 krónur.

                Samkvæmt því verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda 4.841.010 krónur, ásamt dráttarvöxtum af tafabótum, að fjárhæð 1.200.000 krónur frá 22. október 1999, en af 4.841.010 krónum mánuði eftir framlagningu matsgerðar í málinu, eða hinn 16. júní 2002.        

                Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, og er þar með talinn útlagður kostnaður. 

                Dóminn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Frey Jóhannessyni, tæknifræðingi, og Ríkharði Kristjánssyni, verkfræðingi.

 

D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, húsfélagið Vesturbergi 144-148, greiði stefnanda, Fjöli ehf.,  4.841.010 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af  1.200.000 krónum frá 22. október 1999 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til 16. júní 2002, en af 4.841.010 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.