Hæstiréttur íslands

Mál nr. 710/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæra
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Þriðjudaginn 11. nóvember 2014.

Nr. 710/2014.

Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Ákæra. Frávísun frá héraðsdómi.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli ákæruvaldsins á hendur X, en með ákæru voru X gefin að sök brot aðallega gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara 247. gr. sömu laga, sökum þess að ákæra uppfyllti ekki áskilnað c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. október 2014 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Mál þetta var upphaflega höfðað á hendur varnaraðila með ákæru 13. nóvember 2013 þar sem honum voru gefin að sök umboðssvik, en til vara fjárdráttur, með því að hafa á nánar tilgreindu tímabili, er hann sat í óskiptu búi eftir eiginkonu sína, með ,,óhæfilegri fjárstjórn rýrt efni hins óskipta bús á grófan og óforsvaranlegan hátt, með þeim afleiðingum að allur arfshluti ... úr dánarbúinu reyndist glataður þegar opinber skipti á dánarbúinu fóru fram.“ Í ákærunni var meðal annars tekið fram til skýringar á sakargiftum að talið væri augljóst að „margvíslegar fjárhagslegar ráðstafanir“ varnaraðila hefðu leitt til þessa. Með dómi Hæstaréttar 14. janúar 2014 í máli nr. 796/2013 var úrskurður héraðsdóms frá 12. desember 2013, um frávísun málsins frá dómi, staðfestur sökum þess að ákæran hefði ekki uppfyllt áskilnað c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 þar sem fullt tilefni hefði verið til að greina í ákæru með nákvæmari hætti hvaða „margvíslegu fjárhagslegu ráðstafanir“ það væru sem sóknaraðili vísaði til. Í kjölfar dóms Hæstaréttar gaf sóknaraðili 24. mars 2014 út nýja ákæru í málinu. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var ákæru vísað á ný frá dómi á þeim grundvelli að í ákærunni væri lýst háttsemi sem gæti einvörðungu leitt til einkaréttarlegra viðbragða samerfingja varnaraðila í samræmi við ákvæði erfðalaga nr. 8/1962, en ekki til saksóknar af hálfu sóknaraðila.

II

Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal meðal annars greina í ákæru, svo glöggt sem verða má, hver sú háttsemi er, sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Af þessu leiðir að verknaðarlýsing í ákæru verður að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverð háttsemi honum er gefin að sök og hvaða lagaákvæði hann er talinn hafa brotið. Ekki mega vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að með réttu verði talið að ákærða sé torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Ákæra verður samkvæmt framangreindu að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði sé sakaður um og hvernig sú háttsemi verði talin refsiverð.

Varnaraðila eru í ákæru gefin að sök umboðssvik með því að hafa ,,með óhæfilegri fjárstjórn ... rýrt efni hins óskipta bús á grófan og óforsvaranlegan hátt“, annars vegar með tveimur millifærslum af eigin reikningi á tilgreinda bankareikninga og hins vegar með því að hafa móttekið bætur vegna tjóns á fasteign hins óskipta bús án þess að verja nema hluta þeirra til viðgerða á eigninni. Í ákæru er hvorki gerð grein fyrir því hvernig þessi háttsemi falli að því broti sem aðallega er ákært fyrir, umboðssvikum samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, né hvernig háttsemin falli að fjárdráttarbroti eftir 247. gr. sömu laga, sem ákært er fyrir til vara. Ákæran geymir því ekki skýra verknaðarlýsingu er svarar til þessara ákvæða almennra hegningarlaga. Af þessum sökum verður með réttu talið að varnaraðila sé gert erfitt um vik að taka afstöðu til sakarefnis og halda uppi vörnum í málinu. Fullnægir ákæran ekki framangreindum skilyrðum c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. 

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. október 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 25. apríl 2014, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 24. mars 2014 á hendur X, kt. [...], [...], [...].

„fyrir umboðssvik

með því að hafa á tímabilinu [...] til 24. ágúst 2011 er ákærði sat í óskiptu búi eftir eiginkonu sína A, kt. [...] er lést [...], með óhæfilegri fjárstjórn í neðangreind skipti rýrt efni hins óskipta bús á grófan og óforsvaranlegan hátt;

a.            með því að millifæra á tímabilinu 2. apríl 2009 til 2. júní 2009 samtals kr. 6.603.949,- inn á reikninga tveggja óþekktra kvenna í Ghana.

b.            með því að hafa 20. júní 2008 og 13. janúar 2009 móttekið tjónabætur frá Vátryggingarfélagi Íslands og Viðlagatryggingu Íslands vegna jarðskjálfta-skemmda samtals að fjárhæð kr 9.623.311, án þess að verja nema óverulegum hluta skaðabótanna til viðgerða á því tjóni sem orðið hafði á fasteign hins óskipta bús.

Ofangreindar ráðstafanir ákærða leiddu m.a. til þess að allur arfshluti samerfingja ákærða úr dánarbúinu reyndist glataður þar sem búið reyndist eignalaust er opinber skipti á því fóru fram á síðari hluta ársins 2011.

Telst brot þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19,1940, en til vara við 247. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

Í málinu gerir Grímur Hergeirsson hdl. f.h. B, kt. [...] og C, kt. [...] kröfu um að ákærða verði með dómi gert að greiða hvorum þeirra um sig skaðabætur að fjárhæð kr. 1.046.769 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. ágúst 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er þess krafist að bótaskylda ákærða vegna óforsvaranlegrar meðferðar á fjármunum í hinu óskipta búi verði viðurkennd með dómi.  Ef bótakröfu verður vísað til meðferðar í sérstöku einkamáli gera tjónþolar jafnframt kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Í málinu gerir Sigurður Jónsson hrl. f.h. D, kt. [...], E, kt. [...] og F, kt. [...] kröfu um að ákærða verði með dómi gert að þeim hverjum um sig skaðabætur að fjárhæð kr. 1.046.769 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. ágúst 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er þess krafist að bótaskylda ákærða vegna óforsvaranlegrar meðferðar á fjármunum í hinu óskipta búi verði viðurkennd með dómi.  Ef bótakröfu verður vísað til meðferðar í sérstöku einkamáli gera tjónþolar jafnframt kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.“

Ákærði neitar sök og hafnar bótakröfum.

Í greinargerð ákærða kemur fram að aðalkrafa hans er sú að málinu verði vísað frá dómi, en þá gerir ákærði jafnframt kröfu um að allur sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, greiðist úr ríkissjóði.

Fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu ákærða þann 30. september sl. og var krafan tekin til úrskurðar að honum loknum.

Af hálfu ákæruvalds, sem og bótakrefjenda, er þess krafist að frávísunarkröu ákærða verði hafnað og málið verði tekið til efnislegrar meðferðar.

Í greinargerð ákærða eru færð fram þau rök fyrir frávísunarkröfu að sú háttsemi, sem ákærða er gefin að sök í ákæru, feli ekki í sér brot sem sæti opinberri ákæru. Ákærði hafi haft eignarráð á fjármunum búsins þegar hann sat í óskiptu búi, sbr. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962, en þannig hafi hann haft heimildir til að taka ákvarðanir um ráðstöfun á fjármunum búsins. Sé langlífari eftirlátið verulegt svigrúm við ráðstöfun fjármuna bús og hafi hann heimildir til nýtingar þeirra líkt og hann ætti þær sjálfur.

Bendir ákærði á að erfðalög mæli fyrir um einkaréttarleg úrræði fyrir erfingja sem telji að langlífari maki rýri efni óskipts bús verulega með óhæfilegri fjárstjórn. Þessi úrræði séu hins vegar af einkaréttarlegum toga en ekki refsiréttarlegum. Í þessu efni bendir ákærði á 1. mgr. 15. gr. erfðalaga, sbr. einnig 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Jafnframt bendir ákærði á úrræði skv. 1. mgr. og 2. mgr. 17. gr. erfðalaga, auk ákvæða 2. mgr. 15. gr. erfðalaganna.

Þá kveður ákærði að hvorki komi það fram í erfðalögum né skiptalögum að rýrnun fjármuna í óskiptu búi, sem rekja megi til óhæfilegrar fjárstjórnar hins langlífari maka, sæti opinberri ákæru eða refsingu. Séu lög nr. 20/1991 sérlög gagnvart almennum hegningarlögum.

Fari langlífari maki, sem situr í óskiptu búi, fram úr þeim ríku heimildum sem hann hafi til ráðstöfunar á fjármunum búsins, þá geti það aðeins leitt til einkaréttarlegra úrræða erfingja, en ekki til refsingar. Vísar ákærði jafnframt til þess að ekki skuli gefa út ákæru nema það sem fram kemur við rannsókn máls teljist nægilegt eða líklegt til sakfellis, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                Ráðstafanir ákærða á fjármunum umrædds óskipts bús varði ekki við ákvæði almennra hegningarlaga. Erfingjar hafi ekki látið reyna á þau einkaréttarlegu úrræði, sem þeim séu tæk vegna meintrar óhæfilegrar fjárstjórnar ákærða. Hafi þeir ekki lagt fram kæru á hendur ákærða, heldur hafi sýslumaður sjálfur ákveðið að leggja fram kæru á hendur ákærða og ákæra síðan í málinu. Sé óljóst hvaða hagsmuna sé verið að gæta. Þá hafi í kæru verið vísað til 247. gr. almennra hegningarlaga þrátt fyrir að í yfirskrift kæru hafi verið getið um fjársvik eða umboðssvik.

                Sé þannig málið í röngum farvegi og beri að vísa því frá dómi enda útgáfa ákæru lögum andstæð.

                Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu vísaði sækjandi til þess að í ákæru væri lýst efnisþáttum þeirra refsiákvæða sem byggt væri á í málinu af hálfu ákæruvalds. Ágreiningur um sök ákærða varðaði efnislegar varnir og ætti að koma til skoðunar við aðalmeðferð. Vísaði sækjandi til þess að ráðstafanir ákærða hafi farið langt út fyrir heimildir þess sem situr í óskiptu búi. Gat sækjandi þess að í lögum um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 væri ekki vísað til refsiviðurlaga, en kvað það ekki geta breytt neinu enda væru ákvæði 247. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ekki þannig að þar væri neitt undanskilið refsiábyrgð. Það að lög nr. 20/1991 hafi tiltekin einkaréttarleg úrræði fyrir erfingja geti ekki takmarkað heimildir og skyldu ákæruvalds til að ákæra fyrir refsiverð brot.

                Forsendur og niðurstaða

                Í máli þessu er ákærða gefin að sök umboðssvik, en til vara fjárdráttur, með því að hafa, þá er hann sat í óskiptu búi eftir látna eiginkonu sína, með óhæfilegri fjárstjórn í tiltekin skipti, rýrt efni hins óskipta bús á grófan og óforsvaranlegan hátt, eins og nánar greinir í ákæru. Segir í ákæru að ráðstafanir ákærða hafi leitt m.a. til þess að allur arfshluti samerfingja ákærða úr dánarbúinu hafi reynst glataður þar sem búið hafi reynst eignalaust er opinber skipti á því hafi farið fram á síðari hluta ársins 2011.

                Óumdeilt er það í málinu að ákærði sat í óskiptu búi á þeim tíma sem um er rætt í málinu og lýst er í ákæru.

                Um óskipt bú gilda reglur erfðalaga nr. 8/1962. Er í II. kafla laganna mælt fyrir um þær reglur sem um óskipt bú gilda, þ. á m. um heimildir þess sem situr í óskiptu búi til ráðstöfunar á eigum búsins, sem og um þau lagaúrræði sem um er að tefla ef búsetuleyfishafi er talinn misfara með eigur búsins eða rýra þær með óhæfilegri fjárstjórn.

Í 12. gr. erfðalaga, sbr. 7. gr. laga nr. 48/1989, segir að maki, sem situr í óskiptu búi hefur í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins. Verður að telja þetta meginreglu laga. Ber búsetuleyfishafi jafnframt ábyrgð á skuldum hins látna sem um hans eigin skuldir væri að ræða.

Þá segir í 27. gr. erfðalaga að erfingja er óheimilt að ráðstafa arfi sem hann á í vændum. Jafnframt segir í 2. mgr. 18. gr. laganna að erfingi má ekki afhenda hlut sinn í óskiptu búi né skuldfesta hann, og eigi geta heldur skuldheimtumenn hans leitað fullnustu í honum. Er jafnljóst að skuldheimtumenn búsetuleyfishafa, sem og hins skammlífari maka, geta ekki gengið að samerfingjum búsetuleyfishafans með kröfur sínar eða haft uppi nokkra innheimtu gagnvart samerfingjum. Bera samerfingjar ekki ábyrgð gagnvart skuldheimtumönnum búsetuleyfis hans eða hins skammlífari maka. Er búsetuleyfishafinn  einn bær til þess að ráðstafa eignum hins óskipta bús, sbr. þá meginreglu sem birtist í 12. gr. erfðalaga.

Í 15. og 17. gr. erfðalaga er mælt fyrir um úrræði til handa erfingjum, í þeim tilfellum að þeir telja að fjárstjórn búsetuleyfishafans sé óhæfileg. Þannig kemur fram í 1. mgr. 15. gr. laganna að erfingi getur krafist skipta sér til handa ef hann sannar að maki vanræki framfærsluskyldu sína gagnvart sér eða rýri efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veiti tilefni til að óttast megi slíka fjárstjórn. Þá kemur fram í 2. mgr. 15. gr. laganna að unnt sé að rifta gjöfum úr hinu óskipta búi að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Í 1. mgr. 17. gr. kemur fram að erfingjar geti krafist endurgjalds ef efni bús hafa rýrnað til muna vegna óhæfilegrar fjárstjórnar maka.

Í erfðalögum er hvergi gert ráð fyrir því að meðferð búsetuleyfishafa á fjármunum hins óskipta bús geti verið honum refsiverð.

Óhjákvæmilegt er við úrlausn um frávísunarkröfu ákærða að líta til þeirrar meginreglu sem birtist í 12. gr. erfðalaganna þar sem segir að „maki, sem situr í óskiptu búi, hefur í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins“, sem og þeirrar staðreyndar að hann einn hefur ráðstöfunarheimildir gagnvart eignum búsins og hann einn getur bundið hendur þess. Er jafnframt óhjákvæmilegt að líta til þess að þó svo að meðferð búsetuleyfishafans geti haft áhrif á þann arf sem að lokum kemur í hendur samerfingja, þá er ekki unnt að líta svo á að búsetuleyfishafi geti með ráðstöfunum sínum bundið samerfingja sína í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda bera þeir ekki ábyrgð á skuldbindingum búsetuleyfishafans eða skammlífari makans gagnvart skuldheimtumönnum. Þá verður ekki fram hjá því horft að hvergi virðist gert ráð fyrir því í erfðalögum að meðferð búsetuleyfishafa á fjármunum búsins geti leitt til refsiábyrgðar fyrir hann á þann hátt sem krafist er, en einungis er í lögum mælt fyrir um einkaréttarleg viðbrögð þegar svo háttar til að ráðstafanir og meðferð búsetuleyfishafa fara út fyrir mörk.

Þá verður ekki litið svo á að búsetuleyfishafi hafi í vörslum sínum fjármuni eða önnur verðmæti sem annar maður er eigandi að í skilningi 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda fara samerfingjar ekki með eignarréttarheimildir gagnvart þeim arfi sem þeir kunna að eiga í vændum.

Getur ekki breytt þessu að í 247. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 séu engin tilvik undanskilin, en ekki verður maður ákærður að réttu lagi fyrir verknað sem í eðli sínu er refsilaus.

Að framansögðu virtu þykir ekki vera lýst í ákærunni auðgunarbroti, heldur fremur meðferð fjármuna hins óskipta bús sem var óhagstæð hagsmunum samerfingja ákærða, en sem gátu aðeins leitt til einkaréttarlegra viðbragða af þeirra hálfu í samræmi við ákvæði erfðalaga nr. 8/1962, en ekki til saksóknar af hálfu ákæruvalds. Er ákæran að þessu leyti ekki í samræmi við c lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og því óhjákvæmilegt að vísa henni frá dómi að meðtöldum einkaréttarkröfum sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. 

                Samkvæmt 219. gr. laga nr. 88/2008 ber að ákveða að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði og er aðeins um að ræða þóknun skipaðs verjanda ákærða, sem þykir hæfilega ákveðin kr. 527.100.

                Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Máli þessu er vísað frá dómi.

Þóknun skipaðs verjanda ákærða, Óskars Sigurðssonar hrl., kr. 527.100, greiðist úr ríkissjóði.