Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2001
Lykilorð
- Þjófnaður
- Tilraun
- Vanaafbrotamaður
- Ítrekun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. janúar 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2000.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 1. ágúst 2000 á hendur: ,,X, kt. 230762-5549, Bárugötu 22, Reykjavík, fyrir eftirtaldar tilraunir til þjófnaða í Reykjavík á árinu 2000, með því að hafa í auðgunarskyni reynt að brjótast inn í eftirtalin fyrirtæki:
1.
Aðfaranótt miðvikudagsins 12. apríl, verslunina Vínberið, Laugavegi 43, með því að spenna upp hurð, en lögregla kom að ákærða á vettvangi.
Mál nr. 010-2000-9569)
2.
Aðfaranótt miðvikudagsins 22. júní, heildverslunina A Karlsson hf., Brautarholti 28, með því að spenna upp glugga, en komið var að ákærða á vettvangi.
(Mál nr. 010-2000-16180)
Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Önnur ákæra var gefin út á hendur ákærða 14. nóvember 2000 og þá ákært ,,fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 20. mars 2000 reynt í auðgunarskyni að brjótast inn í verslunina Drauminn, Rauðarárstíg 41, Reykjavík, með því að spenna upp járngrind við útidyr, en lögreglan kom að ákærða á vettvangi.
(Mál nr. 010-2000-8066)
Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Önnur ákæra á hendur ákærða var gefin út 15. september 2000 og þá ákært ,,fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík í ágúst á árinu 2000.
I
Húsbrot, með því að hafa mánudaginn 28. í heimildarleysi ruðst inn í íbúð B að Bárugötu 22, með því að fara upp á þak hússins og skríða inn um þakglugga.
(Mál nr. 010-2000-22332)
Telst þetta varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II
Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa að morgni miðvikudagsins 30. reynt í auðgunarskyni að brjótast inn í verslunina Assa, Hverfisgötu 78, með því að spenna upp læsingu á hurð, en lögregla kom að ákærða á vettvangi.
(Mál nr. 101-2000-22603)
Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Þriðja ákæran var gefin út á hendur ákærða 14. nóvember 2000 og þá ákært ,,fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 30. mars 2000 reynt í auðgunarskyni að brjótast inn í verslunina Drauminn, Rauðarárstíg 41, Reykjavík, með því að spenna upp járngrind við útidyr, en lögreglan kom að ákærða á vettvangi.
(Mál nr. 010-2000-8066)
Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Málin voru sameinuð.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna að mati dómsins.
Verður nú vikið að hverri ákæru fyrir sig og rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi og aðdragandi hvers máls eftir því sem ástæða þykir.
Ákæra dagsett 1. ágúst 2000.
1
Kl. 04.56 aðfaranótt miðvikudagsins 12. apríl sl. barst lögreglu tilkynning um að innbrot stæði yfir í versluninni Vínberinu, Laugavegi 43. Tilkynnandi fylgdist með innbrotsþjófnum. Lögreglan var send á staðinn og handtók ákærða.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið staddur baka til við Laugaveg 43 er lögreglan kom þar aðfaranótt 12. apríl sl., en hann hafi verið að ,,ráfa svona um borgina” þessa nótt.
Jóhann Vilbergsson kvaðst hafa vaknað við hundsgá aðfaranótt 12. apríl sl. og orðið var við mann sem kraup við hurð baka til við verslunina Vínberið. Maðurinn fór frá en kom aftur, en Jóhann fylgdist með honum og hringdi á lögregluna. Er lögreglan kom kraup maðurinn við dyrnar, en reis á fætur og reyndi að hlaupa á brott er hann varð lögreglunnar var. Lögreglan handtók manninn.
Þórður Þórðarson lögregluvarðstjóri fór á vettvang baka til við Laugaveg 43 um nóttina og er hann kom þar sá hann ákærða vera að ,,djöflast eitthvað á hurðinni”, en ákærði hafði einhver áhöld þar sem hann var að plokka í dyrnar. Er hann varð lögreglu var reyndi hann að hlaupa á brott, en var handtekinn. Að sögn Þórðar voru verksummerki á hurðinni eftir ákærða.
Þórarinn Þórarinsson lögreglumaður kom að ákærða krjúpandi við hurð baka til við verslunina Vínberið þar sem hann var að reyna að spenna dyrnar upp með skrúfjárni. Smávægileg verksummerki voru á hurðinni eftir ákærða, sem var handtekinn, en hann hafði meðferðis stórt skrúfjárn og fulla vasa af ýmsum smáverkfærum.
2
Samkvæmt lögregluskýrslu dagsettri 22. júní sl. kl. 04.42 var tilkynnt um innbrot í heildverslunina A Karlsson hf., Brautarholti 28 á þessum tíma. Lögreglan fór á vettvang og handtók ákærða, sem hafði reynt að brjótast inn í heildverslunina að sögn Árna S. Hafsteinssonar, sem tilkynnti innbrotið til lögreglu. Við handtöku var ákærði með töng, dúkahníf og fleiri smáverkfæri í fórum sínum, eins og segir í skýrslu lögreglunnar.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið staddur uppi á vörugámi er öryggisvörður kom að. Hann var í för með Ágústi Frey Svanbergssyni þessa nótt og geti hann vitnað um það sem fram fór. Aðspurður hverra erinda hann var þarna kvaðst hann hafa verið að príla og fylgjast með rottum. Hann hafi ekki hlaupið á brott. Hann hafi gefið sig á tal við lögreglu er hún kom á staðinn, en sér hafi ekki tekist að losa sig við öryggisvörðinn sem fylgdi ákærða.
Árni Sverrir Hafsteinsson öryggisvörður var á eftirlitsferð við Brautarholt 28 aðfaranótt 22. júní sl. er hann sá ákærða uppi á vörugámi og búinn að opna glugga á húsinu. Ákærði notaði skrúfjárn við verkið. Er ákærði sá til ferða Árna tók hann á rás og Árni á eftir og er hann hafði elt ákærða um stund kom lögreglan og handtók hann.
Guðjón Gústafsson starfaði sem lögreglumaður á þessum tíma. Hann kvað tilkynningu hafa borist um innbrot í A Karlsson í Brautarholti. Er hann kom á vettvang var ákærði handtekinn, þar sem hann var á hlaupum skammt frá bílaumboði Heklu. Hann ræddi við öryggisvörð á vettvangi, en sá tilkynnti innbrotið til lögreglu og kvaðst hafa séð ákærða eiga við glugga á 2. hæð hússins og kallaði í hann. Ákærði kom þá niður og ógnaði öryggisverðinum með skrúfjárni, en hljóp síðan á brott og öryggisvörðurinn á eftir. Lögreglan kom skömmu síðar á vettvang.
Ágúst Freyr Svanbergsson kvaðst hafa ekið með ákærða aðfaranótt 22. júní sl. Er þeir voru staddir í Brautarholti um nóttina lagði Ágúst bílnum og ákærði fór út til að elta mús eða rottu. Hann vissi síðan ekki fyrr en hann heyrði spól og sá þá bifreið öryggisvarðar sem elti ákærða. Hann fylgdist ekki með ferðum ákærða eftir að hann yfirgaf bílinn og sá ekki er hann var handtekinn.
Niðurstaða ákæru dagsettrar 1. ágúst 2000.
1
Ákærði neitar sök. Hann var handtekinn við verslunina um hánótt með verkfæri í fórum sínum. Gegn neitun ákærða er sannað með vitnisburði Jóhanns Vilbergssonar, Þórarins Þórarinssonar og Þórðar Þórðarsonar, að ákærði hafi í auðgunarskyni reynt að brjótast inn í verslunina Vínberið eins og ákært er fyrir.
2
Undir rannsókn málsins var haft samband við fjármálastjóra A Karlssonar hf. að því virðist vegna hugsanlegrar skaðabótakröfu fyrirtækisins. Í skýrslu sem rituð er um þetta segir að engar skemmdir hafi verið unnar á glugga og því engar kröfur gerðar.
Framburður ákærða um veru sína uppi á vörugáminum þykir fjarstæðukenndur. Ekki var rannsakað hvort verksummerki voru eftir ákærða og er ósannað gegn eindreginni neitun hans að hann hafi í auðgunarskyni reynt að brjótast inn í heildverslunina A Karlsson hf., Brautarholti 28 og ber að sýkna ákærða af þessum kafla ákærunnar.
Ákæra dagsett 15. september 2000.
Ákæruvaldið hefur fallið frá I. kafla þessarar ákæru.
II
Samkvæmt lögregluskýrslu dagsettri 30. ágúst sl. kl. 07.46 var tilkynnt um innbrot í verslunina Assa, Hverfisgötu 78. Maður væri að reyna að brjótast þar inn með því að brjóta lás á útidyrum en maðurinn færi í hvarf er bílar ækju fram hjá. Er lögreglan kom á vettvang sást til ferða ákærða á móts við Hverfisgötu 78 og var hann að ganga inn í port baka til við verslun Kjörgarðs við Laugaveg. Ákærði var handtekinn grunaður um innbrotstilraun, en í fórum hans fundust dúkahnífar, rörtöng, skrúfjárn og fleiri smáverkfæri. Við skoðun á lás á útidyrum verslunarinnar Assa voru greinileg för eftir verkfæri og var lásinn skemmdur. Á móts við Hverfisgötu 76 fannst reiðhjól ákærða, en hann kvaðst hafa skilið það eftir þar.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið að slæpast baka til við Hverfisgötu 78 er lögreglan kom að honum. Hann kvaðst ekki hafa reynt að spenna upp læsingu á hurðinni, eins og lýst er í ákærunni. Hann var með verkfæri á sér við handtökuna og kvaðst hann nota þau til að laga bilaðar bremsur á reiðhjóli sínu.
Einar Páll Eggertsson bifreiðastjóri kvaðst hafa litið út um glugga á heimili sínu að morgni 30. ágúst sl. er hann sá til ferða manns sem honum fannst grunsamlegur. Maðurinn leit stöðugt í kringum sig og sá Einar Páll manninn eiga við skrá eða hurðarhún á versluninni, sem lýst er í ákæru. Maðurinn færði sig frá ef einhver nálgaðist en kom jafnharðan aftur. Einar hringdi á lögreglu sem kom og handtók manninn, sem þá var enn að fikta við dyrnar.
Sigurður Freyr Eggertsson lögreglumaður kvað hafa verið tilkynnt um innbrotstilraun í verslun við Hverfisgötu á þessum tíma. Er hann kom á vettvang sá hann ákærða skammt frá versluninni og var hann handtekinn og var með verkfæri í fórum sínum. Við athugun á dyrum verslunarinnar Assa voru ummerki eins og reynt hefði verið að brjóta upp lás, en ekki tekist.
Eiríkur Óskar Jónsson lögreglumaður lýsti atburðum efnislega á sama veg og vitnið Sigurður Freyr, en Eiríkur Óskar fór á vettvang og handtók ákærða ásamt Sigurði Frey. Sá sem tilkynnti innbrotið var í símsambandi við lögreglu allan tímann og fylgdist með og lýsti því að maðurinn færi frá ef einhver umferð væri, en kæmi strax aftur er umferðin væri farin hjá. Við handtöku var ákærði með skrúfjárn, dúkahnífa, töng og fleira á sér, en hann hafi verið með 10 til 15 verkfæri á sér við handtökuna.
Niðurstaða ákæru dagsettrar 15. september 2000.
Áður var vikið að því að ákæruvaldið féll frá I. lið þessarar ákæru.
II
Ákærði neitar sök. Dómurinn telur sannað með vitnisburði Einars Páls Eggertssonar, Sigurðar Freys Eggertssonar og Eiríks Óskars Jónassonar, en gegn neitun ákærða, að hann hafi í auðgunarskyni reynt að brjótast inn í verslunina Assa að morgni 30. ágúst sl.
Ákæra dagsett 14. nóvember 2000.
Kl. 06.05 að morgni 30. mars sl. var lögreglan send að versluninni Drauminum við Rauðarárstíg vegna tilkynningar um hávaða líkt og frá innbroti. Er lögreglan kom á vettvang hafði járngrind verið spennt frá útidyrum verslunarinnar og er verksummerkjum á vettvangi og handtöku ákærða lýst í lögregluskýrslu frá ofangreindum tíma.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið staddur skammt frá versluninni Draumnum er lögreglan handtók hann um nóttina, en hann var á leiðinni í Þórskaffi. Hann var með borvél meðferðis, en hann kvaðst hafa verið hræddur um að lögreglan tæki borvélina, sem hann hafði nýlega fengið lánaða og því kastað henni frá sér á hlaupum, en ákærði ætlaði með borvélina með sér í Þórskaffi, þar sem hann hugðist hitta vin sinn. Ákærði neitaði því að hafa haft kúbein meðferðis en kúbein fannst á stað þar sem sást til ákærða.
Hinrik Pálsson lögreglumaður var sendur að versluninni Draumnum á þeim tíma sem í ákæru greinir, en tilkynnt var um einkennileg hljóð líkt og verið væri að brjótast inn. Er hann kom á vettvang og að járnhliði í porti var búið að valda skemmdum á hliðinu. Þrusk heyrðist skammt frá og gekk lögreglan á hljóðið. Kom hann þá auga á mann, sem hann þekkti sem ákærða og hljóp hann á brott, en náðist skömmu síðar og var handtekinn. Rétt áður en Hinrik náði ákærða kastaði hann frá sér einhverju sem vafið var inn í hvítan segldúk og við athugun reyndist það vera hleðsluborvél. Við leit á vettvangi fundust 2 kúbein efst í stiga þar sem ákærði hafði verið. Hann lýsti því að sýnilega hefði verið reynt að spenna upp járnhlið við verslunina Drauminn.
Þórir Ingvason starfaði sem lögreglumaður á þessum tíma og kom á vettvang um nóttina ásamt Hinriki Pálssyni og lýsti hann aðkomunni á sama veg og Hinrik. Hann kvað ákærða hafa verið handtekinn á vettvangi og að för hafi verið á kúbeini, sem fannst á vettvangi og einnig hafi verið verksummerki á stóru járnhliði við verslunina Drauminn. Einnig fannst borvél á vettvangi, en ákærði kastaði henni frá sér á hlaupum.
Samkvæmt gögnum málsins fannst á vettvangi sundursagaður hengilás. Einnig hafði verið borað í lykilhús lássins. Borin voru saman för eftir borinn, sem var í borvélinni sem ákærði kastaði frá sér á vettvangi annars vegar og hins vegar borfar í lásnum sem fannst. Sú rannsókn leiddi í ljós að borinn í borvélinni, sem ákærði kastaði frá sér, var notaður við að bora í lásinn.
Bjarni J. Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn og Sævar Þorbjörn Jóhannesson lögreglufulltrúi staðfestu fyrir dóminum rannsókn, þar sem þetta var borið saman og þá niðurstöðu sína sem að ofan greinir.
Niðurstaða ákæru dagsettrar 14. nóvember 2000.
Ákærði neitar sök, en framburður hans er að mati dómsins fjarstæðukenndur. Dómurinn telur sannað með rannsókn þeirri sem fram fór á bornum, með vitnisburði Hinriks Pálssonar og Þóris Ingvasonar, sem lýstu verksummerkjum og með gögnum málsins að öðru leyti, en gegn neitun ákærða, að ákærði hafi framið þá háttsemi sem lýst er í þessari ákæru.
Brot ákærða eru í öllum tilvikum rétt færð til refsiákvæða í ákærunum.
Ákærði á að baki langan sakaferil. Hann hefur hlotið 26 refsidóma frá árinu 1978, en þar af eru 5 Hæstaréttardómar. Samanlögð óskilorðsbundin refsing ákærða samkvæmt þessum dómum er hátt í 10 ár. Flestir dómanna eru fyrir þjófnað. Síðast hlaut ákærði dóm í júní 1998 er hann var af Hæstarétti dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar. Samkvæmt sakavottorði ákærða afplánaði hann þann dóm að fullu. Fyrsta brot ákærða sem hann er nú sakfelldur fyrir var framið 12. apríl sl., en þá voru aðeins liðnir fáir mánuðir frá því að ákærði lauk afplánun refsivistar samkvæmt fyrrgreindum dómi.
Ákærði er vanaafbrotamaður. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, en auk þess með hliðsjón af 71., 72. og 255. gr sömu laga.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði 4/5 hluta sakarkostnaðar á móti 1/5 hluta sem greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn tilgreindur hluti af 100.000 króna málsvarnarlaunum til Guðmundar Ingva Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns.
Hjalti Pálmason fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði 4/5 hluta sakarkostnaðar á móti 1/5 hluta sem greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn tilgreindur hluti af 100.000 króna málsvarnarlaunum til Guðmundar Ingva Sigurðsson hæstaréttarlögmanns.