Hæstiréttur íslands

Mál nr. 517/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Faðerni
  • Börn
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Föstudaginn 11. september 2015.

Nr. 517/2015.

A

(Lilja Margrét Olsen hdl.)

gegn

B

(sjálfur)

Kærumál. Faðerni. Börn. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem faðernismáli A á hendur B var vísað frá dómi þar sem ekki var uppfyllt skilyrði 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2015 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Sóknaraðili, sem er fædd árið 1986, höfðaði mál þetta til að „dæmt verði“ að varnaraðili sé faðir hennar. Skömmu eftir fæðingu sóknaraðila gekkst annar maður, C, við faðerni hennar. Samkvæmt fæðingarvottorði var hún skráð dóttir hans og er sú skráning enn óbreytt, en hún var á hinn bóginn ættleidd af stjúpföður sínum 30. mars 2015.

Varnaraðili, sem ekki sótti þing við meðferð málsins í héraði, gekkst undir mannerfðafræðilega rannsókn og samkvæmt niðurstöðu hennar 9. maí 2015 eru líkur þess að hann sé faðir hennar 99,999997%. Meðal gagna málsins er yfirlýsing sóknaraðila 6. júlí 2015 þess efnis að hún falli frá öllum lagalegum tengslum við blóðföður sinn en á grundvelli dóms í málinu hyggist hún krefjast þess að hann verði skráður kynfaðir hennar á fæðingarvottorði hjá Þjóðskrá Íslands. Í málinu hefur einnig verið lögð fram yfirlýsing varnaraðila 6. júlí 2015 þar sem hann tekur undir þá kröfu sóknaraðila að hún verði skráð dóttir hans í fæðingarvottorði sem og öðrum gögnum er varða líffræðileg tengsl þeirra. Þá kemur fram í yfirlýsingunni að hún sé gerð að virtri yfirlýsingu sóknaraðila um að hún haldi lagalegum tengslum við föður sinn samkvæmt ættleiðingu að öðru leyti en að ofan greini. Í málinu liggur jafnframt fyrir yfirlýsing C 6. júlí 2015 þar sem fram kemur að hann hafi gengist við faðerni sóknaraðila eftir fæðingu en við erfðafræðirannsókn hafi komið í ljós að hann sé ekki kynfaðir hennar. Þá segir í yfirlýsingu C að þar sem hann sé skráður kynfaðir sóknaraðila geti hann vel skilið að það séu hagsmunir hennar að fá því breytt þannig að réttur faðir sé þar skráður.

Í málinu hefur sóknaraðili ekki gert kröfu um að einungis verði viðurkennt að varnaraðili sé kynfaðir hennar, heldur hefur hún farið þá leið að krefjast þess að dæmt verði að hann sé faðir hennar og reisir að auki málsókn sína að öllu leyti á ákvæðum II. kafla barnalaga nr. 76/2003. Sem fyrr segir liggur fyrir að stjúpfaðir sóknaraðila hafi ættleitt hana 30. mars 2015 og stendur sú ráðstöfun óhögguð. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. barnalaga er það skilyrði fyrir höfðun faðernismáls samkvæmt II. kafla laganna að barn hafi ekki verið feðrað eða faðerni þess ákveðið eftir 2. mgr. 6. gr. laganna. Í ljósi þess sem að framan getur er þessu lagaskilyrði ekki fullnægt. Að auki hefur sóknaraðili sem áður segir lýst því yfir undir rekstri málsins í héraði að hún falli frá öllum lagalegum tengslum við kynföður sinn en ætli að nýta dóm um kröfu sína til að fá hann skráðan sem kynföður sinn á fæðingarvottorði. Takmörkun sem þessi kemur þó hvergi fram í kröfugerð sóknaraðila og verður henni heldur ekki komið að í máli sem rekið er eftir II. kafla barnalaga. Að þessu gættu hefur sóknaraðili ekki lagt málið á þann hátt fyrir dómstóla að efnisdómur verði felldur á það. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðili hefur ekki krafist þess að ákvæði 11. gr. barnalaga verði beitt um málskostnað fyrir Hæstarétti og verður henni ekki dæmdur kærumálskostnaður úr hendi varnaraðila.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2015.

Þetta mál, sem tekið var til úrskurðar 10. júlí sl., var höfðað með stefnu birtri 18. maí sl. af A, kt. [...], [...], Reykjavík á hendur B, kt. [...], [...], [...].

Stefnandi krefst þess að dæmt verði að stefndi sé faðir stefnanda. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi ríkissjóðs, að teknu tillit til virðisaukaskatts.

                Stefndi sótti ekki þing við þingfestingu málsins, en meðal gagna málsins er skrifleg yfirlýsing stefnda, dags. 6. júlí sl., þar sem stefndi lýsir því yfir að hann taki undir kröfu stefnanda um ,,að hún verði rétt skráð dóttir [stefnda] í fæðingarvottorði hjá Þjóðskrá Íslands sem og öðrum gögnum er varða líffræðileg tengsl okkar“. Við fyrirtöku málsins 12. júní sl. vakti aðstoðarmaður dómara athygli lögmanns stefnanda á því að málinu kynni að verða vísað frá dómi af sjálfsdáðum og gaf lögmanni stefnanda kost á að tjá sig um mögulega frávísun málsins. Að þeim flutningi loknum var málið tekið til úrskurðar. Málið var endurupptekið 10. júlí sl. að ósk lögmanns stefnanda til frekari gagnaframlagningar. Aðstoðarmaður dómara áréttaði að hann teldi að málinu kynni að verða vísað frá dómi af sjálfsdáðum og gaf lögmanni stefnanda kost á að tjá sig um mögulega frávísun málsins. Að þeim flutningi loknum var málið tekið til úrskurðar á ný.

Málavextir, málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi lýsir því að hún hafi fæðst [...] á [...]. Móðir stefnanda og stefndi hafi átt vingott saman á þeim tíma er getnaður hafi átt sér stað. Á þessum tíma hafi sónartækni verið nýtilkomin og hafi læknir tjáð móður stefnanda að útilokað væri að stefndi væri faðir stefnanda. Skömmu eftir fæðingu stefnanda hafi annar maður gengist við faðerni hennar. Stefnandi hafi breytt nafni sínu þegar hún varð 18 ára og sé nú kennd við móður sína. Árið 2015 hafi stjúpfaðir stefnanda ættleitt hana. Af því tilefni hafi meintur faðir óskað eftir mannerfðafræðilegri rannsókn (DNA). Niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir og gefi til kynna að sá maður sé ekki líffræðilegur faðir stefnanda. Stefnandi telji að stefndi sé án vafa faðir hennar. Stefndi hafi gengist undir mannerfðafræðilega rannsókn og liggi niðurstaða hennar fyrir sem bendi til að svo sé.

                Stefnandi byggir á því að stefnandi hafi augljósa hagsmuni af því vera rétt feðruð, en þeir hagsmunir varði félagslega, sálfræðilega og erfðafræðilega stöðu stefnanda og hennar niðja. Við fyrirtöku málsins 10. júlí kom fram hjá lögmanni stefnanda að stefnandi hefði skýra hagmuni af því að líffræðilegur faðir hennar væri réttilega skráður í fæðingavottorði. Lögmaðurinn stefnanda hefði lagt fram skjöl í þessu máli og málinu nr. [...]/2015, sem sé höfðað gegn lýstum föður stefnanda, þar sem stefndu taka undir kröfu stefnanda. Málið varði þau grundvallarmannréttindi stefnanda að þekkja uppruna sinn.

                Meðal gagna málsins er einnig yfirlýsing stefndu, dags. 6. júlí sl., þar sem stefnda kveðst falla ,,frá öllum lagalegum tengslum við blóðföður minn, [stefnda] … Hins vegar geri ég þá kröfu að hann verði rétt skráður blóðfaðir minn á fæðingarvottorði hjá Þjóðskrá Íslands.“

Um lagarök vísar stefnandi til II. kafla barnalaga nr. 76/2003. Um varnarþing vísar stefnandi til 9. gr. barnalaga og um um málsaðild til 10. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað sé reist á 11. gr. barnalaga. Enn fremur sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Niðurstaða

Af hálfu stefnda hefur hvorki verið sótt né látið sækja þing og er honum þó löglega stefnt. Ber því samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem er samrýmanlegt fram­komnum gögnum, nema gallar séu á málatilbúnaði stefnanda sem varða frávísun án kröfu.

Stefnandi höfðar þetta mál á grundvelli II. kafla barnalaga nr. 76/2003 um dómsmál til feðrunar barns og krefst þess að dæmt verði að stefndi sé faðir stefnanda. Samhliða hefur stefnandi höfðað mál á hendur lýstum föður, C, kt. [...] til ógildingar á faðernisviðurkenningu á grundvelli III. kafla barnalaga, sbr. mál nr. [...]/2015. Samkvæmt stefnu málsins var stefnandi ættleidd af stjúpföður sínum árið 2015.

Réttaráhrif dóms þar sem tekin er til greina dómkrafa um að karlmaður sé faðir stefnanda eru þau að sá maður telst faðir barnsins samkvæmt barnalögum, sbr. 1. mgr. 2. gr. og á þau réttindi og ber þær skyldur sem lagðar eru á föður barns samkvæmt lögum. 

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um ættleiðingar nr. 130/1999 eru réttaráhrif ættleiðingar þau að við hana öðlast kjörbarn sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum, ættmennum þeirra og þeim sem eru í kjörsifjum við þá eins og væri það eigið barn kjörforeldra, nema lög mæli á annan veg. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barnsins við kynforeldra þess, önnur ættmenni og þá sem eru í kjörsifjum við þá, nema lög kveði öðruvísi á. 

Með ættleiðingu stefnanda féllu niður lagatengsl á milli hennar og blóðföður, sbr. 25. gr. laga nr. 130/1999. Dómurinn telur að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hver kynfaðir hennar sé með vísan til þeirra málsástæðna sem raktar eru í stefnu og við fyrirtökur málsins 12. júní sl. og 10. júlí sl. Aftur á móti verður ekki séð að réttarfarsskilyrði séu fyrir hendi til að gera megi kröfu til staðfestingar á faðerni samkvæmt II. kafla barnalaga. Væri fallist á dómkröfu stefnanda eins og hún er sett fram myndu lagatengsl stefnanda og stefnda rakna við, en fyrir slíkri niðurstöðu er engin lagaheimild, þar sem stefnandi er ættleidd og ættleiðing verður ekki aftur tekin. Um þetta er vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 362/2014 og 452/2013.

Þá er ósamræmi milli dómköfu stefnanda og þess málatilbúnaðar sem birtist í yfirlýsingu hennar, dags. 6. júlí sl. Þeirri takmörkun á kröfugerð að stefndi verði skráður faðir stefnanda á fæðingarvottorði verður heldur ekki komið við í máli sem er rekið á grundvelli II. kafla barnalaga, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 159/2004 og 239/1999.

Af þessum ástæðum er óhjákvæmilegt að vísa þessu máli frá dómi án kröfu.

Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 11. gr., sbr. 22. gr. barnalaga, þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Lilju Margrétar Olsen hdl., sem þykir, með hliðsjón af umfangi málsins, hæfilega ákveðin 275.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt.

Ásbjörn Jónasson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan dóm.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Þessu máli er vísað frá dómi án kröfu.

Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Lilju Margrétar Olsen hdl., 275.000 krónur.