Hæstiréttur íslands

Mál nr. 203/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Óðalsréttur
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 25

 

Miðvikudaginn 25. maí 2005.

Nr. 203/2005.

Bjarni Pálsson

(Eyvindur G. Gunnarsson hdl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

Lánasjóði landbúnaðarins

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Tryggingamiðstöðinni hf. og

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

Íslandsbanka hf.

(Jón G. Briem hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Óðalsréttur. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur.

 

B leitaði úrlausnar héraðsdóms um gildi nauðungarsölu á fasteigninni Brautarholti V á Kjalarnesi, sem fram fór þann 4. nóvember 2004. Jörðinni hafði verið skipt milli bræðranna P og J með landskiptagerð 1989. Meðal þess sem kom í séreignarhlut J var Brautarholt V. Þann 19. janúar 2004 afsalaði hann dóttur sinni, E, öllum óðalsrétti sínum að jörðinni, þar með talið Brautarholti V. Var E því orðin eigandi þessa jarðarhluta þegar nauðungarsalan fór fram 4. nóvember 2004. B var ekki í þeim ættartengslum við E sem greinir í c. lið 63. gr. laga nr. 65/1976, né heldur var að finna lagaákvæði í jarðalögum nr. 81/2004 sem töldust geta veitt B hugsanlegt tilkall til jarðarinnar síðar. Af þessu var ljóst að B átti ekki þeirra lögvörðu hagsmuna að gæta sem hann reisti kröfu sína á. Þegar af þessari ástæðu varð hinn kærði úrskurður staðfestur um frávísun málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í máli þessu leitar sóknaraðili úrlausnar héraðsdóms um gildi nauðungarsölu á fasteigninni Brautarholti V á Kjalarnesi sem fram fór þann 4. nóvember 2004. Byggir hann heimild sína til þess á 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991, þar sem kveðið er svo á að hver sá sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta geti leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu. Telur sóknaraðili sig eiga slíkra hagsmuna að gæta vegna ákvæðis c. liðar 63. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sbr. 11. gr. laga nr. 90/1984, sem hafi verið í gildi, þegar nauðungarsölu var beiðst í september 2003.

            Í málinu liggur fyrir að jörðinni Brautarholti var skipt milli bræðranna Páls og Jóns Ólafssona með landskiptagerð 9. desember 1989. Fengu þeir hvor um sig hluta jarðarinnar í séreign, en aðrir hlutar skyldu verða í óskiptri sameign þeirra. Meðal þess sem kom í séreignarhlut Jóns var Brautarholt V. Þann 19. janúar 2004 afsalaði hann dóttur sinni Emilíu Björgu öllum óðalsrétti sínum að jörðinni Brautarholti, þar með talið Brautarholti V. Var hún því orðin eigandi þessa jarðarhluta þegar nauðungarsalan fór fram 4. nóvember 2004. Sóknaraðili er ekki í þeim ættartengslum við hana sem greinir í c. lið 63. gr. laga nr. 65/1976. Í jarðalögum nr. 81/2004, sem tóku gildi 1. júlí 2004, er ekki að finna lagaákvæði af sambærilegum toga, sem talist gæti veita sóknaraðila hugsanlegt tilkall til jarðarinnar síðar. Af þessu er ljóst að sóknaraðili á ekki þeirra lögvörðu hagsmuna að gæta sem hann reisir kröfu sína á. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

            Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

            Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

            Sóknaraðili, Bjarni Pálsson, greiði hverjum varnaraðila fyrir sig, Kaupþingi banka hf., Lánasjóði landbúnaðarins, Tryggingamiðstöðinni hf. og Íslandsbanka hf., 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2005.

Sóknaraðili málsins er, Bjarni Pálsson, kt. 250572-3959, Brautarholti I, Kjalar­nesi, en varnaraðilar eru Kaupþing banki hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 19, Reykja­vík, Lánasjóður landbúnaðarins, kt. 491079-0299, Austurvegi 10, Selfossi, Trygg­inga­mið­stöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6, Reykjavík og Íslandsbanki hf., kt. 550500-3530, Lynghálsi 4, Reykjavík. Útivist er af hálfu þb. Skala ehf. (áður Svína­búið Brautarholti).

Málið barst héraðsdómi hinn 1. desember 2004 með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er 30. nóvember s. á. Í bréfinu segist sóknaraðili kæra nauðungarsölu, sem fram fór á Brautarholti V, Kjalarnesi hinn 4. nóvember s.á., en eignin hafi verið slegin Kaup­þingi banka hf. fyrir 98 milljónir króna.

Dómkröfur:

Sóknaraðili krefst þess, að felld verði úr gildi nauðungarsala, sem fram fór á fasteigninni Brautarholti V, Kjalarnesi 4. nóvember 2004. Einnig krefst hann málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins úr hendi varnaraðila, þar með talinn virðisaukaskattur á tildæmda lögmannsþóknun.

Varnaraðilarnir, Kaupþing banki hf., Lánasjóður landbúnaðarins og Íslandsbanki hf., krefjast aðallega frávísunar málsins, en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Varnaraðilinn, Tryggingamiðstöðin hf., krafðist þess í fyrstu að kröfum sóknar­aðila yrði hafnað, en benti jafnframt á, að málinu bæri að vísa frá dómi, án kröfu. Tryggingamiðstöðin hf. styður nú frávísunarkröfu annarra varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila, hvernig sem málið fer.

Eftirleiðis verður vísað til varnaraðila í eintölu, nema sérstök ástæða þyki til annars.

Nú verður tekin afstaða til þess, hvort rétt sé að fallast á frávísunarkröfu varnaraðila.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Rétt þykir að gera málavöxtum nokkur skil, svo að rétt yfirsýn fáist yfir kröfur og máls­ástæður málsaðila.

Ólafur Jónsson bóndi og eigandi jarðarinnar Brautarholts á Kjalarnesi gerði jörð­ina að óðalsjörð á árinu 1944. Hann afsalaði jörðinni til sona sinna Páls og Jóns með gern­ingi, dags. 20. júní 1967. Hús og jörð skyldu vera í óskiptri sameign þeirra. Bræð­urnir ákváðu að skipta jörðinni milli sín með landskiptagerð, sem dagsett er 9. desember 1989. Jörðinni var skipt í átta hluti, sem aðgreindir voru með rómverskum tölum frá I-VIII. Í séreign Páls, föður sóknaraðila, kom Brautarholt I, sem talin er ábýl­isjörð hans en í sérhlut Jóns kom ábýlisjörð hans, Brautarholt II og hlutir V og VII. Aðrir hlutar voru áfram í sameign þeirra. Ekki var þess getið í landskiptagerðinni, að jörðin væri óðalsjörð né heldur kemur það fram í veðmálabókum. Af málskjölum má ráða, að Jón Ólafsson og synir hans, Kristinn og Bjarni, ráku sameignarfélag um svína­bú á þeim hluta jarðarinnar, sem eftir landskiptin 9. desember 1989 var að­greindur sem Brautarholt V. Við landskiptin og í framhaldi af þeim voru lán, sem áður hvíldu á allri Brautarholtsjörðinni en tilheyrðu rekstri svínabúsins, færð yfir á fast­eign­ina Brautarholt V. (lóð og mannvirki). Sameignarfélagið, Svínabúið Brautarholt sf., var gert að einkahlutafélagi á tíunda áratugnum, en ekki liggur fyrir í gögnum málsins, hvenær það hafi gerst. Jón Ólafsson óðalsbóndi gerði lóðarleigu­samning til 50 ára við Svínabúið Brautarholt ehf.  Samninginn undirritaði hann sem landeigandi og einnig sem prókúruhafi einkahlutafélagsins, ásamt Kristni syni sínum.  1. gr. leigu­lóðar­samn­ingsins hljóðar svo: Leigusali selur leigutaka á leigu 20.000 m² lóð (skráð 20250 m² í veð­málabókum) land úr jörðinni Brautarholti, ásamt nauðsynlegum rétti fyrir umferð að og frá landinu. Hið leigða land nefnist Brautarholt V. (svínabú) skv. þinglýstum land­skiptasamningi dags. 9.12.1989 sem staðfestur hefur verið af Kjalarneshreppi og Jarðar­nefnd Kjósarsýslu.  Samningurinn er dagsettur 28. október 1998.

Með samningi, dags. 15. mars 2000, ákváðu bræðurnir, Páll og Jón Ólafssynir, að slíta samrekstri sínum á jörðinni Brautarholti og skipta eignum og skuldum, m.a. þeim hluta jarðarinnar, sem var í óskiptri sameign þeirra.  Landskiptagerðin frá 9. desember 1989 skyldi haldast óbreytt.  Í samningnum var ákvæði þess efnis að skipa skyldi gerðar­dóm til að leiða skiptin til lykta, ef ekki hefði náðst samkomulag um skiptingu lands fyrir 15. apríl s.á., en skiptingu tækja fyrir 25. sama mánaðar. Svo fór, að gerðar­dómur var skipaður. Hann lauk störfum hinn 4. apríl 2002. Gerðardómnum var þing­lýst 29. sama mánaðar. Ekki vildi Páll Ólafsson una niðurstöðu gerðardómsins og höfðaði dómsmál til að fá henni hnekkt. Hæstiréttur felldi dóm í málinu 19. nóvember 2004 í máli nr. 186/2004.  Þar var niðurstaða gerðardómsins staðfest, m.a. sú ákvörðun, að landskiptagerðin frá 9. desember 1989 skyldi standa óbreytt, enda var út frá því gengið í gerðardómssamningi þeirra bræðra að svo skyldi vera.

Jón Ólafsson afsalaði Emilíu Björgu dóttur sinni öllum óðalsrétti sínum að jörð­inni Brautarholti, m.a. Brautarholti V, með afsali dags. 19. janúar 2004. Önnur börn Jóns samþykktu þessa ráðstöfun með áritun sinni á afsalið. Jón andaðist 24. júní 2004.

Svínabúið Brautarholti ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði upp­kveðnum 17. janúar 2004. Þórdís Bjarnadóttir hdl. var skipuð skiptastjóri. Nafni félagsins hafði áður verið breytt í Skali ehf.

Varnaraðilinn, Lánasjóður landbúnaðarins, krafðist uppboðs á Brautarholti V í september 2003 vegna vanskila á ýmsum áhvílandi veðskuldum. Nauðungarsala á eign­inni var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík 8. janúar 2004. Málinu var síðan frestað nokkrum sinnum. Í þinghaldi í málinu 26. apríl 2004 er mætt af hálfu Emilíu Bjargar Jónsdóttur og bent á að eignin væri háð ákvæðum 7. kafla jarðalaga. Fyrst var mætt af hálfu sóknaraðila, þegar málið kom til meðferðar hjá sýslumanni 11. október sl. Þar er bókað eftir lögmanni hans, að uppboðinu sé mótmælt þar sem jarða­lög girði fyrir sölu eignarinnar. Fulltrúi sýslumanns ákvað að hafna mótmælum sókn­ar­aðila, Bjarna Pálssonar, þar sem ekki komi fram á veðbókarvottorði að eignin sé háð óðals­kvöð.  Ákveðið var að uppboðinu yrði fram haldið á eigninni sjálfri 4. nóvember sl. Það gekk eftir. Lögmaður sóknaraðila mótmælti þá enn framgangi uppboðsins á sömu forsendum og fyrr og hélt því fram, að Brautarholt V væri háð óðalsrétti, sem umbj. hans ætti tilkall til samkvæmt 63. gr. jarðalaga. Fulltrúi sýslumanns hafði sem fyrr mótmælin að engu og vísaði til fyrri ákvörðunar og studdi hana þeim rökum, að þing­lýstar eignarheimildir bæru ekki með sér, að um óðalskvöð væri að ræða og því ættu jarðalög ekki við. Lögmaður sóknaraðila því þá yfir, að umbj. hans myndi leita úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun fulltrúa sýslumanns, eins og reyndin síðan varð.  Eignin var því næst slegin Kaupþingi banka hf. fyrir 98 milljónir króna, eins og áður er lýst. Við aðalmeðferð málsins var lögð fram yfirlýsing, sem lögmaður Emilíu Bjargar Jónsdóttur undirritaði fyrir hennar hönd 8. þessa mánaðar. Yfirlýsingin er svo­hljóðandi: Ég undirritaður, Sigmundur Hannesson hrl. staðfesti það f.h. Emilíu Bjargar Jónsdóttur, kt. 260870-5489, vegna héraðsdómsmáls nr. Z-13/2004, að Emilía mótmælir því ekki að nauðungarsala á Brautarholti V, Kjalarnesi, sem fram fór þann 4. nóvember 2004, verði staðfest. Jafnframt lítur Emilía ekki svo á sem Brautar­holt V sé háð reglum óðalsréttar.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili byggir á því, að sóknaraðili hafi ekki verið aðili að nauðungarsölu á eign­inni Brautarholti V, enda sé hann hvorki eigandi hennar né veðhafi og ekkert bendi til þess, að óðalskvöð hvíldi á eigninni og því síður að sóknaraðili eigi aðild þar að. Þegar af þeirri ástæðu falli aðild sóknaraðila ekki að inntaki 1. mgr. 80 gr. laga nr. 20/1991 (nl.). Ekki verði heldur séð, að sóknaraðili eigi lögvarða hagsmuni af því, að nauð­ungarsala á eigninni Brautarholti V verði felld úr gildi, eins og áskilið sé í til­vitnuðu lagaákvæði. Sóknaraðili byggi rétt sinn á c. lið 63. gr. eldri jarðalaga nr. 65/1976. Lagagrein þessi verði fráleitt túlkuð svo, að hún veiti sóknaraðila einhvern rétt yfir þeim hluta Brautarholts, sem áður hafi tilheyrt Jóni heitnum Ólafssyni, nú Emilíu Björgu, dóttur hans. Með landskiptagerðinni frá 9. desember 1989 hafi Brautar­holt V komið í hlut Jóns Ólafssonar. Þessi landspilda hafi verið sérstaklega af­mörkuð í þeim tilgangi að starfrækja þar svínabú og óðalskvöð aflétt af henni. Lán, til­heyrandi rekstri svínabúsins, sem fyrir landskiptagjörðina voru áhvílandi heildar­jörð­inni óskiptri, hafi verið flutt yfir á Brautarholt V og þinglýst þar án athugasemda, enda hafi Jón Ólafsson alls ekki litið svo á, að hann væri með þessu að þrengja að óðalsrétti sínum eða afkomenda sinna. Hæstiréttur hafi staðfest með dómi í máli nr. 186/2004, að landskiptagerðin frá 9. desember 1989 væri gild. Af því leiði að afmörkun land­spildunnar Brautarholts V, leiga hennar og sjálfstæð veðsetning hafi með sama hætti verið staðfest af Hæstarétti. Loks liggi fyrir afstaða Emilíu Bjargar til óðalsréttar hennar að Brautarholti V, en hún líti svo á, að eignin sé ekki háð óðalskvöð. Sókn­ar­aðili geti ekki vænst þess, að óðalsréttur hans að Brautarholti V verði nokkurn tímann virkur og alls ekki gagnvart honum.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því, að hann eigi brýnna hagsmuna að gæta í sambandi við nauð­ungarsölu á fasteigninni Brautarholt V. Honum sé kappsmál, að salan fari ekki fram. Hann sé óðalsbóndi á óðalsjörðinni Brautarholti I og öllu sem henni fylgir, sbr. gerðardóm frá 4. apríl 2002, sem Hæstiréttur hafi staðfest. Það varði hann því miklu, hverjir séu eigendur nágrannajarðarinnar eða hluta hennar ekki síst í ljósi þess, að jörðin hafi verið á einni hendi í tíð afa hans. Markmið eldri og yngri jarðarlaga um ættar­óðal sé að halda jörðum innan sömu ættar og tryggja að landkostir þeirra og landrými verði ekki skert þannig að hefðbundinn búskapur leggist af. Í þessu ljósi beri að líta á stöðu hans samkvæmt 1. mgr. 80 nl. Þannig sé 3. mgr. 63. gr. laga nr. 76/1976 ætlað að tryggja þennan tilgang laganna. Jarðalög takmarki einnig hverjir geti tekið veð í óðalsjörð. Þetta sé gert til að takmarka heimildir óðalsbónda til að veðsetja óðals­jörð sína til tryggingar öðrum lánum en þeim, sem gangi beint til uppbyggingar hennar og auki verðmæti hennar og afkomumöguleika til hagsbóta fyrir síðari óðals­réttar­hafa. Ljóst sé, að áhvílandi veðskuldir Íslandsbanka hf. og Kaupþings banka hf. fái ekki staðist með vísan til 57. gr. jarðalaga. Af því leiði, að ógilda beri nauð­ung­ar­söluna 4. nóvember sl., jafnvel þótt Lánasjóður landbúnaðarins og Trygg­inga­mið­stöðin hf., kunni að eiga gild veðréttindi í eigninni, enda hafi verið með öllu heim­ild­ar­laust að slá Kaupþingi banka hf. eignina sem veðhafa. Afleiðing þessara mistaka fulltrúa sýslumanns hafi verið sú, að boð í eignina voru háð algerri óvissu. Rétthafar óðals­réttar, m.a. sóknaraðili, höfðu þannig engin tök á því að gæta hagsmuna sinna með því að taka við óðalinu og koma áhvílandi löglegum veðskuldum og öðrum að­kallandi greiðslum í skil, sbr. m.a. 59. gr. jarðalaga frá 1976 og 49. gr. jarðalaga  nr. 81/2004. 

Ljóst sé því af framansögðu, að Bjarni Pálsson sóknaraðili þessa máls, hafi veru­lega lögvarða hagsmuni af því, að umrædd nauðungarsala verði ógilt. Afstaða nú­verandi óðalsréttarhafa skipti engu máli hér. Jörðin Brautarholt hafi verið gerð að óðals­jörð á sínum tíma og verði ekki leyst úr óðalsböndum nema að uppfylltum laga­skilyrðum, sem ekki hafi verið gert.

Niðurstaða:

Frávísunarástæður þær, sem varnaraðilar tilgreina, varða velflestar efnishlið máls­ins, s.s. hvort jarðarhlutinn Brautarholti V hafi verið leystur úr óðalsböndum og hvaða áhrif það kunni að hafa á réttarstöðu sóknaraðila og annarra málsaðila, hvaða þýðingu land­skiptagerðin frá 9. desember 1989 hafi á réttarstöðu málsaðila, eða áhrif lóð­ar­leigusamnings Jóns Ólafssonar við Svínabúið Brautarholt frá 28. október 1998, af­staða núverandi óðalsbónda og fleiri atriði, sem varnaraðilar byggja frávísunarkröfu sína á og tilgreind eru hér að framan.

Í 1. mgr. 80 gr. nl. segir, að hver sá sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta geti leitað úrlausnar héraðsdóms um gildi nauðungarsölu. Samkvæmt 2. tl. 16. gr. laga nr. 91/1991 (eml.) leiðir aðildarskortur til sýknu, sem telst efnisleg niðurstaða máls.  Ákvörðun dóms um sýknu vegna aðildarskorts er þannig endanleg og útilokar máls­aðila frá því að leita á ný dómsniðurstöðu um sakarefnið. Því verður að telja var­huga­vert að beita sýknu, þegar vafi leikur á um aðildarhæfi.

Vandséð er, hverjir kunni að vera lögvarðir hagsmunir sóknaraðila í máli þessu í skiln­ingi 1 mgr. 80. gr. nl., þegar það er virt, að sóknaraðili eignaðist jörðina Brautar­holt I með afsali Páls föður síns, sem dags. er 29. júní 2004, en Páll lét umrædda fast­eign (Brautarholt V) af hendi til Jóns bróður síns með landskiptagerðinni frá 9. desember 1989.

Að mati dómsins er þó ekki loku fyrir það skotið, að sóknaraðila takist að afla gagna, sem renni stoðum undir aðildarhæfi hans.

Að öllu þessu virtu þykir rétt, eins og hér stendur á, að fallast á kröfur varnaraðila og vísa málinu frá dómi.

Málsaðilar skulu hver og einn bera sinn kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.