Hæstiréttur íslands

Mál nr. 99/2000


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Kjarasamningur
  • Yfirvinna


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. nóvember 2000.

Nr. 99/2000.

Siglingastofnun Íslands

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Stefáni Hans Stephensen

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Kjarasamningur. Vinnusamningur. Yfirvinna.

Deilt var um skyldu vinnuveitanda, SÍ, til að greiða starfsmanni, SHS, yfirvinnulaun, er hann var á ferðalagi erlendis á vegum SÍ. Um yfirvinnugreiðslur fór samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar. Hvorki í kjarasamningnum né í samkomulagi um skipulag vinnutíma, sem var hluti af kjarasamningnum, var kveðið skýrt á um það, að greiða skyldi yfirvinnu vegna ferðatíma erlendis utan dagvinnutíma. Ekkert kom fram um, að við gerð kjarasamningsins eða samkomulagsins hefði því verið hreyft að greiða skyldi fyrir slíkt. Þar sem um gamalt ágreiningsmál var að ræða, var þó talið, að ástæða hefði verið til að láta það koma fram sérstaklega, ef ætlast var til, að svo yrði gert. Var kjarasamningur aðila því ekki skýrður á þann veg að SHS gæti byggt rétt á honum í þessu máli og SÍ sýknuð af kröfum hans. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 13. mars 2000. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Ágreiningur máls þessa snýst um skyldu vinnuveitanda til að greiða starfsmanni yfirvinnulaun, er hann var á ferðalagi erlendis á vegum vinnuveitanda.  Eins og fram kemur í héraðsdómi fór stefndi, sem er skipaskoðunarmaður hjá áfrýjanda, í skoðunarferð til Skotlands 20. til 22. október 1998. Samkvæmt vinnuskýrslu stefnda var yfirvinna hans 5,5 klukkustundir 20. október og 5 klukkustundir 21. október. Áfrýjandi greiddi aðeins fyrir yfirvinnu í samtals 5 klukkustundir, en neitaði að greiða fyrir yfirvinnu í 5,5 klukkustundir, þar sem sá tími væri vegna ferðalaga erlendis, og væri ekki litið á hann sem yfirvinnu.

II.

Í ráðningarsamningi málsaðila frá 27. september 1996 segir, að um launagreiðslur og önnur starfskjör fari eftir því sem í samningnum greini og samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar, sem gildir frá 1. apríl 1997. Í ráðningar-samningnum er ekki vikið sérstaklega að greiðslu vegna yfirvinnu, og fer því um yfirvinnugreiðslur eftir fyrrnefndum kjarasamningi.

Stefndi byggir kröfur sínar á grein 2.3.1 og grein 5.4.1 í kjarasamningnum. Samkvæmt grein 2.3.1 er yfirvinna skilgreind sem „sú vinna, sem fer fram utan tilskilins daglegs vinnutíma eða vaktar starfsmanns svo og vinna, sem innt er af hendi umfram vikulega vinnutímaskyldu þótt á dagvinnutímabili sé.”  Grein 5.4.1 fjallar um flutning og greiðslu ferðatíma og hljóðar svo: „Vinni starfsmaður fjarri leiðum almenningsvagna, skal ríkið sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða honum ferðakostnað. Slíkar ferðir teljast til vinnutíma, að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar. Flutningslína í Reykjavík miðast við Elliðaár.“  Þá bendir stefndi á grein 1.5.4 í kjarasamningnum máli sínu til stuðnings, en hún kveður á um það, að sé yfirvinna fjarri föstum vinnustað ekki greidd samkvæmt tímareikningi, skuli semja um þá greiðslu fyrirfram við viðkomandi starfsmann og í samráði við félagið. Loks byggir stefndi einnig á þeirri skilgreiningu á vinnutíma, sem fram kemur í samningi um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma frá 23. janúar 1997, sem er hluti af kjarasamningnum. Var hann gerður milli meðal annarra fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og nokkurra heildarsamtaka launþega, þar á meðal BSRB vegna félaga innan þeirra samtaka. Var hann gerður með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið til að hrinda í framkvæmd tilskipun Evrópusambandsins nr. 93/104/EB frá 23. nóvember 1993. Samkvæmt 2. gr. samningsins telst vinnutími „sá tími sem starfsmaður er við störf, er til taks fyrir vinnuveitandann og innir af hendi störf sín eða skyldur.“ Tekið er fram, að átt sé við „virkan vinnutíma og reiknast neysluhlé, launaður biðtími, ferðir til og frá vinnustað eða reglubundinni starfsstöð, vinnuhlé þar sem ekki er krafist vinnuframlags og sérstakir frídagar þ.a.l. ekki til vinnutíma.”

Áfrýjandi byggir sýknukröfu sína á því, að samkvæmt skýru orðalagi greinar 2.3.1 í kjarasamningi sé yfirvinna sá tími, sem starfsmaður vinni umfram vinnuskyldu sína. Átt sé við þann tíma, sem starfsmaður sé að störfum, en ekki þann tíma, sem fer í ferðir til og frá vinnu. Sami skilningur komi fram í grein 1.5.4 og 2. gr. samningsins frá 23. janúar 1997. Þá telur áfrýjandi, að grein 5.4.1 eigi eingöngu við um ferðir innanlands.

III.

Gögn málsins bera með sér, að afstaða fjármálaráðuneytisins til ágreiningsefnis þess, sem hér er til úrlausnar, hafi almennt verið sú að greiða enga yfirvinnu vegna þess tíma, sem fer í ferðalög á milli landa, nema sérstaklega hafi verið um það samið. Stefndi, sem starfað hafði hjá Siglingamálastofnun ríkisins áður en hún var sameinuð Vita- og hafnamálastofnun 1. október 1997, hafði farið í tvær ferðir vegna starfs síns til útlanda árin 1995 og 1996 og fengið greidda yfirvinnu vegna ferðatíma utan dagvinnutíma.

Fjármálaráðuneytið sendi bréf til ráðuneyta og stofnana 27. nóvember 1996 í tilefni dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 3257/1997 um greiðslur til ríkisstarfsmanns á ferðalögum erlendis. Í bréfinu sagði meðal annars: „Reglur um greiðslur í ferðum utanlands eru í fáum orðum þannig að engin yfirvinna er greidd vegna þess tíma sem fer í ferðalög á milli landa. Þeir starfsmenn stofnana sem ferðast á hennar vegum utanlands fá oftast greiddar einhvers konar viðbótargreiðslur, t.d. í formi ómældrar yfirvinnu, og er þeim greiðslum m.a. ætlað að koma í stað þeirra yfirvinnutíma sem til falla á ferðalögum milli landa. Þessi framkvæmd hefur tíðkast um árabil og er því þeim starfsmönnum kunnug sem ferðast hafa hingað til á vegum stofnana og ráðuneyta ríkisins.“ Þetta bréf var hengt upp á vinnustað stefnda. Sagði stefndi fyrir dómi, að hann hefði séð bréf þetta áður en hann fór í ferðina til Skotlands. Forstjóri og forstöðumenn vitasviðs og skoðunarsviðs áfrýjanda báru fyrir dómi, að miklar umræður hefðu verið um þessar reglur á vinnustaðnum, en mismunandi reglur virðast hafa gilt hjá Siglingamálastofnun ríkisins og Vita- og hafnamálastofnun áður en þær voru sameinaðar í eina stofnun. Töldu þeir ótvírætt, að allir starfsmenn hefðu vitað hvaða reglur áttu að gilda eftir sameininguna. Telja verður nægilega fram komið, að stefnda, sem var trúnaðarmaður stéttarfélags síns á vinnustaðnum, hafi verið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um það viðhorf fjármálaráðuneytisins að ekki yrði greidd yfirvinna fyrir ferðatíma erlendis. Hafi stefndi talið annað eiga við um sig, þar sem hann naut ekki ómældrar yfirvinnu, bar honum að inna yfirmenn sína eftir afstöðu þeirra.

Eins og að framan er getið fékk stefndi greitt fyrir þá tíma samkvæmt vinnuskýrslu, sem hann taldi beina vinnu í framangreindri ferð til Skotlands. Grein 1.5.4 í kjarasamningnum ræður því ekki úrslitum, heldur skilgreining á því hvað telja skuli til virks vinnutíma og greiða eigi sem yfirvinnu. Fallist er á það með áfrýjanda, að grein 5.4.1 eigi samkvæmt orðan sinni og með hliðsjón af öðrum ákvæðum kjarasamningsins aðeins við um ferðir innanlands. Í áðurnefndri tilskipun Evrópusambandsins frá 1993 kemur fram að með henni sé ætlað að stuðla að ákveðnum umbótum, einkum að því er varðar vinnuumhverfi til að tryggja aukna öryggis- og heilsuvernd launþega. Sama markmiði er lýst í 1. grein samningsins 23. janúar 1997, sem gerður var á grundvelli þessarar tilskipunar. Hvorki í kjarasamningnum né samkomulaginu frá 1997 er kveðið skýrt á um það, að greiða skuli yfirvinnu vegna ferðatíma erlendis utan dagvinnutíma. Ekkert er fram komið um, að við gerð kjarasamningsins eða samkomulagsins hafi því verið hreyft að greiða skyldi fyrir slíkt. Hefði þó, þar sem um gamalt ágreiningsmál var að ræða, verið ástæða til þess að láta það koma sérstaklega fram, ef ætlast var til, að svo yrði gert.

Samkvæmt framansögðu verður kjarasamningur aðila ekki skýrður á þann veg, að stefndi geti byggt rétt á honum í þessu máli, og ber því að sýkna áfrýjanda af kröfum stefnda.

Rétt þykir, að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

D ó m s o r ð :

Áfrýjandi, Siglingastofnun Íslands, skal vera sýkn af kröfum stefnda, Stefáns Hans Stephensen.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 12. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 22. mars 1999 af Stefáni Hans Stephensen, kt. 111253-5449, Fiskakvísl 28, Reykjavík, á hendur Siglingastofnun Íslands, kt. 560269-1029, Vesturvör 2, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar vegna ógreiddra vinnulauna að fjárhæð 6.925 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til greiðsludags.  Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins og að við ákvörðun máls­kostnaðarfjárhæðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisauka­skatt af lögmannsþjónustu þar sem stefnandi reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

 

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi hefur verið starfsmaður stefnda í nokkur ár en ráðningarsamningur er dagsettur 27. september 1996.  Stefnandi fór á vegum stefnda til Skotlands dagana 20. til 22. október 1998.  Hann fór með flugi til Glasgow en þaðan akandi til Buckie þar sem hann skoðaði bát og gerði um það skýrslur.  Samkvæmt vinnuskýrslu stefnanda vann hann þann 20. október tvær klukkustundir í yfirvinnu en átta klukkustundir á dagvinnutíma og þrjár og hálf klukkustund í yfirvinnu fór í ferðalagið.  Þann 21. október vann stefnandi átta klukkustundir í dagvinnu og þrjár í yfirvinnu en tvær klukkustundir fóru þar að auki í yfirvinnu vegna ferðarinnar frá Buckie áleiðis til Reykjavíkur.

Stefndi hefur neitað að greiða stefnanda kaup fyrir þann tíma sem fór í ferðalög umrædda daga á yfirvinnutíma, samtals fimm og hálfa klukkustund, og er málið höfðað af hálfu stefnanda af því tilefni.  Deilt er um það hvort stefnandi skuli fá greitt yfir­vinnu­­kaup fyrir þann tíma sem fór umfram dagvinnutíma í umrædd ferðalög en enginn ágreiningur er um útreikning kröfunnar að öðru leyti en því að deilt er um upphafstíma dráttarvaxta. 

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að stefnandi sé starfsmaður á rekstrarsviði stefnda sem sé ríkisstofnun.  Stefnandi sé þannig ríkisstarfsmaður samkvæmt lögum nr. 70/1996 og sé hann félagsmaður í Starfsmannafélagi ríkisstofnana, SFR.  Ráðningarsamningur stefnanda sé dagsettur 27. september 1996 og sé um laun og kjör vísað til kjarasamnings SFR og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs.  Núgildandi samningur sé með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 30. október 2000.  Stefnandi taki laun eftir samningnum samkvæmt launaflokki B07-6 eins og sjáist á launaseðli hans frá 1. desember 1998.  Dagvinnutímar stefnanda séu 8 klukkustundir hvern virkan dag frá klukkan 8:00 til 17:00.

Stefnandi hafi vegna starfs síns þurft að fara í skoðunarferð til Skotlands 20. til 22. október 1998.  Ferða- og vinnutilhögunin hafi verið þessi:

20. október:  Mætt á Hótel Loftleiðir kl. 5:00, flug frá Keflavík kl. 7:20 til Glasgow.  Frá

Glasgow ekið til Buckie og komið þangað kl. 16:45. Skoðun undirbúin til kl. 19:00.

21. október:  Unnið við skoðun til kl. 15:00. Þá farið til Aberdeen og með lest þaðan til

Glasgow.  Komið á hótel kl. 17:45 og gengið frá skoðunarskýrslu til kl. 21:00.

22. október:  Flogið til Keflavíkur og lent kl. 14:00.

Stefnandi hafi haldið vinnuskýrslu þar sem hann hafi skráð dag- og yfirvinnu sína þá daga sem ferðin stóð yfir.  Yfirvinna hafi verið samtals 5,5 klukkustundir þann 20. október og 5 klukkustundir 21. október.  Yfirmaður stefnanda hafi ekki samþykkt vinnuskýrsluna  óbreytta.  Hann hafi aðeins samþykkt tvær klukkustundir 20. október og þrjár klukkustundir 21. október.  Hafi sú skýring verið gefin að mismunurinn, þ.e. 3,5 klukkustund 20. október og 2 klukkustundir 21. október, væri yfirvinna vegna ferðalaga erlendis og að hún væri ekki borguð.  Þessi afstaða komi einnig fram á vinnuyfirliti stefnda og hafi áðurnefndir 5,5 tímar ekki verið greiddir.

Stefnandi hafi leitað til stéttarfélags síns vegna þessa.  Með bréfi lögmanns félagsins til forstjóra stefnda 28. desember 1998 hafi þess verið krafist að stefnanda yrðu greidd yfirvinnulaun vegna ferðalaganna en kröfunni hafi forstjórinn hafnað með bréfi 27. janúar 1999 með vísan til margítrekaðra fyrirmæla fjármála­ráðuneytisins um að hafna greiðslu yfirvinnu á ferðalögum erlendis.

Stefnandi vísar til þess að hann hafi fengið greidd dagvinnulaun og hluta yfirvinnulauna vegna umræddrar utanlandsferðar.  Ágreiningur aðila einskorðist við rétt stefnanda til yfirvinnugreiðslna vegna ferðalaga, samtals 5,5 yfirvinnu­tíma.  Stefnu­fjárhæðin sé fundin með því að margfalda yfirvinnutímana með 1.259,21 krónum, þ.e. yfirvinnulaunum stefnanda á hverja klukkkustund samkvæmt launaseðli stefnanda frá 1. desember 1998.

Í ráðningarsamningi stefnanda sé ekki vikið sérstaklega að greiðslu vegna yfirvinnu.  Fari því um yfirvinnugreiðslur til hans eftir áðurnefndum kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.  Í gr. 2.3.1 kjarasamningsins segi að yfirvinna teljist sú vinna, sem fari fram utan tilskilins daglegs vinnutíma eða vaktar starfsmanns.  Í gr. 5.4.1 komi fram að vinni starfsmaður fjarri leiðum almenningsvagna skuli ríkið sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða honum ferðakostnað.  Slíkar ferðist teljist til vinnutíma.

Stefnandi kveðst byggja rétt sinn til greiðslu vegna yfirvinnustundanna á þessum kjarasamningsákvæðum.  Það sé óumdeilt að ferðin hafi verið farin í þágu vinnuveitanda hans og stefnandi hafi þurft vegna starfsins að komast milli staða á tímum, sem falli utan dagvinnutíma hans samkvæmt ráðningarkjörum hans og kjara­samningi.  Engin rök séu til að víkja frá greindum kjarasamningsákvæðum, sem séu skýr og ótvíræð hvað þetta varði og án undantekninga.

Stefnandi telur að stefnda beri því að greiða honum fyrir framangreinda vinnu hans samkvæmt þeirri meginreglu samninga- og kröfuréttar að gerða samninga beri að halda.  Jafnframt vísar stefnandi til þess að ríkisstofnanir hafi í verki viðurkennt greiðsluskyldu í sambærilegu tilviki með því að áfrýja ekki til Hæstaréttar dómi Héraðs­dóms Reykjavíkur í máli nr. E-3257/1996: Einar Pálsson gegn umhverfis­ráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.  Þá hafi ríkisstofnanir í sambæri­legum tilvikum viðurkennt skyldu til greiðslu yfirvinnu við sömu aðstæður og er um rétt stefnanda í því sambandi vísað til jafnræðisreglu.

Kröfu sína um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Upphafstími dráttarvaxta miðist við gjalddaga hinna vangreiddu launa 1. desember 1999.  Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Við málskostnaðarákvörðun beri að líta til þess að fyrir liggi dómur um greiðsluskyldu í sambærilegu tilviki.  Krafa um að við málskostnaðar­ákvörðun verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns sé skaðleysiskrafa þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og njóti því ekki frádráttarréttar vegna skattsins.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að samkvæmt skýru orðalagi greinar 2.3.1 í kjarasamningi sé yfirvinna sá tími sem starfsmaður vinni umfram vinnuskyldu sína.  Þar sé ótvírætt átt við þann tíma er stafsmaður sé að störfum en ekki annan tíma, t.d. þann tíma sem fari í ferðir til og frá vinnu.  Enn fremur segi í 2. gr. samnings um ákveðna þætti er varði skipulag vinnutíma milli fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, Reykjavíkur­borgar og Launanefndar sveitarfélaga annars vegar og Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambands Íslands hins vegar frá 23. janúar 1997, er gilt hafi um laun og kjör stefnanda á greindu tímabili, að virkur vinnutími sé sá tími sem starfsmaður sé við störf, sé til taks fyrir vinnu­veitandann og inni af hendi störf sín eða skyldur.  Krafan um að starfsmaður sé til taks fyrir vinnuveitanda feli jafnframt í sér að hann þurfi að vera á vinnustaðnum.  Ósannað sé af hálfu stefnanda að hann hafi skilað vinnuframlagi þann tíma sem hann krefjist launa fyrir.  Yfirvinnu hafi verið hafnað af stefnda vegna umrædds tíma þar sem um ferðir hafi verið að ræða en ekki vinnu, en greiðsla yfirvinnu sé háð samþykki yfirmanns. 

Grein 5.4.1 sé sér- og undantekningarákvæði sem túlka beri þröngt eftir almennum lögskýringarsjónarmiðum.  Meginregla vinnu- og kröfuréttar sé sú að starfsmanni beri á eigin kostnað að sjá sjálfur um að koma sér til og frá vinnu og að sá tími teljist ekki til vinnutíma.  Eigi umrædd meginregla bæði við um stefnanda og ferðir hans umrædd skipti eins og gildi um ríkisstarfsmenn almennt og einnig um starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði.  Ákvæðið hafi upphaflega komið í kjarasamning fyrir tæpum 30 árum með aðalkjarasamningi fjármála­ráðherra við BSRB í desember 1973.  Á þeim tíma hafi fólk almennt ferðast mun sjaldnar til útlanda en það geri í dag og af flestum þá talið til forréttinda að fara á vegum vinnuveitanda til útlanda á dagpeningum.  Loks byggir stefndi á því að líta verði til annarra ákvæða kjarasamnings er fjalli um ferðir á vegum vinnuveitanda, þ.e. greina 5.1.1 og 5.5.1, en í þeim sé fjallað um kostnað vegna ferða innanlands og um fargjöld á ferðalögum erlendis.  Verði að skýra nefnd ákvæði þannig að grein 5.4.1 eigi eingöngu við þegar fastur vinnustaður sé utan þéttbýlis, fjarri leiðum almenningsvagna og sé innanlands.  Með vísan til orðalags ákvæðisins sé óraunhæft að telja það geta átt við um vinnuferð stefnanda til Skotlands.  Þar sem grein 5.4.1 eigi augljóslega samkvæmt orðan sinni og með hliðsjón af öðrum ákvæðum kjarasamnings einungis við um ferðir innanlands sé ekki til að dreifa heimild í kjarasamningi til að greiða yfirvinnukaup erlendis þegar um ferðir sé að ræða en ekki vinnuframlag.

Ef svo ólíklega færi að ákvæðið yrði talið eiga við um ferðir erlendis yrði samkvæmt skýru orðalagi að gera þá kröfu að hinn tilfallandi vinnustaður væri utan þéttbýlis og fjarri leiðum almenningsvagna.  Þá yrði ekki vikist undan skýru orðalagi um að miða ferðatíma við næsta aðalíbúðasvæði í viðkomandi landi.  Fram á þetta hafi ekki verið sýnt í málinu.

Stefndi byggir einnig á því að í kjarasamningnum sé ekki kveðið á um skyldu til að greiða starfsmanni yfirvinnukaup vegna ferðalaga hans utan dagvinnutíma í tengslum við vinnuferðir innanlands.  Frá þessu séu þó tvær undantekningar.  Hafi fulltrúar fjármálaráðherra og kjaradeildar ríkis­starfsmanna í Félagi viðskipta- og hagfræðinga gert samkomulag í mars 1988 um að greiða skyldi fyrir þann tíma sem færi í ferðir innanlands á frídögum.  Sams konar samkomulag hafi verið gert við Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins í febrúar 1989.  Það að umrædd félög hafi samið sérstaklega við fjármálaráðherra um greiðslur fyrir ferðatíma á frídögum styðji þann skilning að almenna reglan sé að ekki beri að greiða fyrir þann tíma sem fer í ferðalög innanlands utan dagvinnutíma enda sé ekki tekið á þessu atriði í eldri ákvæðum kjarasamninga.  Þrátt fyrir að meginareglan sé sú að ekki sé skylt samkvæmt kjarasamningnum að greiða fyrir þann tíma sem fari í ferðalög utan dagvinnutíma í tengslum við vinnuferðir innanlands hafi framkvæmdin almennt verið sú að greiða fyrir eðlilegan ferðatíma.  Í þeim tilvikum hafi ekki verið um að ræða greiðslur samkvæmt kjarasamningi heldur samkvæmt verklagsreglum er gilt hafi við afgreiðslu launa hjá ríkinu í fjölda ára eins og fram komi í bréfi fjármála­ráðuneytis til Flugmálastjórnar frá 5. nóvember 1991.  Framkvæmd kjarasamninga hafi almennt verið á hinn veginn þegar vinnuferðir til útlanda eigi í hlut.  Þeirri framkvæmd hafi verið fylgt hjá stefnda að greiða ekki fyrir ferðatíma utan dagvinnutíma á vinnuferðum erlendis og er í því sambandi vísað til bréfs fjármálaráðuneytisins frá 5. nóvember 1991.

Stefnanda hafi verið um þetta kunnugt eða mátt vera það enda sé hann trúnaðar­maður fyrir SFR hjá stefnda og hafi verið það þegar hann fór í ferðina til Skotlands.  Þessi mál hafi verið rædd á starfsmannafundum auk þess sem bréf ráðuneytisins frá 17. nóvember 1996 um þetta efni hafi verið hengt upp í húsakynnum stefnda.  Sé löng venja fyrir þessari tilhögun við túlkun kjarasamninga án þess að athugasemdir kæmu fram af hálfu stefnanda eða stéttarfélags hans.

Í kjarasamningnum sé kveðið á um að greiða skuli annan ferðakostnað á ferðalögum erlendis með dagpeningum sem ferðakostnaðar­nefnd ákveði, sbr. grein 5.6.1.  Eins og fram komi í grein 5.6.2 sé gert ráð fyrir að dagpeningar á ferðalögum erlendis dugi fyrir minniháttar risnu og hvers kyns persónulegum útgjöldum auk venjulegs ferðakostnaðar, svo sem kostnaðar vegna ferða að og frá flugvöllum, fæði og húsnæði.  Dagpeningum sé þannig ætlað að koma til móts við þá röskun sem starfsmaður verði fyrir á ferðalögum erlendis, en sambærilegt ákvæði gildi ekki um greiðslu dagpeninga á ferðalögum innanlands.  Stefnandi hafi fengið greidda dagpeninga í ferðinni til Skotlands, sem hafi verið 215 SDR á sólarhring eða rúmar 21 þúsund krónur miðað við gengi á þeim tíma.  Dagpeningar á ferðum innanlands væru nokkuð lægri, enda virtist þeim eingöngu ætlað að nægja fyrir gistingu og fæði.  Um þá gildi auglýsing ferðakostnaðar­nefndar nr. 5/1998 um dagpeninga á ferðalögum innanlands en þeir nemi 7.500 krónum á sólarhring. Að greiða bæði dagpeninga og yfirvinnu á ferðatíma, án þess að um vinnuframlag hafi verið að ræða, væru ósamrýmanlegar greiðslur þar sem dagpeningum sé bersýnilega ætlað að bæta starfsmanni að fullu upp röskun vegna ferðatíma, sem eftir meginreglum geti ekki talist til vinnu heldur kostnaðar sem starfsmaður beri sjálfur.  Geri kjarasamningurinn augljóslega ekki ráð fyrir greiðslu hvors tveggja við þessar aðstæður.  Myndi það sama gilda þótt stefnandi hafi ekki fengið dagpeninga, þar sem hann hafi allt að einu átt rétt til þeirra.

Þar sem kröfur stefnanda eigi sér ekki stoð í þeim ákvæðum kjarasamnings SFR sem hann vísi til í stefnu, þ.e. hvorki greinum 2.3.1 né 5.4.1, telur stefndi enga réttarheimild fyrir kröfum hans í málinu.  Af hálfu stefnda hafi verið haldið við samninga og efndar allar þær skyldur stefnda gagnvart stefnanda sem kveðið sé á um í kjarasamningi og ráðningarsamningi.  Þar sem ekki hafi verið sýnt fram á vinnuframlag af hálfu stefnanda umræddan tíma eigi krafa hans ekki stoð í almennum reglum samninga- og kröfuréttar.

Því er mótmælt að stefndi hafi í verki viðurkennt greiðsluskyldu eða að mál annarra starfsmanna við aðrar stofnanir hafi áhrif.  Fullyrðingar stefnanda þess efnis séu órökstuddar.  Fyrir liggi í máli þessu synjun stefnda um að greiða stefnanda þá kröfu sem hann sæki í málinu en hvorki viljayfirlýsing né loforð þess efnis að greiða kröfuna.  Dómur héraðsdóms í málinu E-3257/1996 hafi enga þýðingu varðandi kröfur stefnanda, enda ekki um sambærilegt tilvik að ræða.  Niðurstaða í því máli hafi byggt á sambærilegu ákvæði og grein 1.5.4 í kjarasamningnum en ekki sé vísað til þess í málatilbúnaði stefnanda.  Þá hafi niðurstaða málsins einnig byggst á öðrum lagaatriðum.  Því er jafnframt mótmælt að jafnræðisregla styðji kröfur stefnanda.  Stefnuna megi túlka þannig að vísað sé til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ákvæði þeirra eigi ekki við í málinu enda um skýringu á kjara- og ráðningarsamningi að ræða og því utan gildissviðs 11. gr. laganna þar sem um einkaréttarlega samninga sé að ræða. Einnig er því mótmælt að jafnræðisregla helgi stefnanda þann rétt sem ekki sé fyrir hendi samkvæmt ákvæðum kjarasamnings.

Varakrafa stefnda varðar upphafstíma dráttarvaxta sem er mótmælt af hálfu stefnda.  Beri að miða við dómsuppsögu eða í fyrsta lagi málshöfðun, sbr. heimild í 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.  Til stuðnings kröfum varðandi málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstöður

Í ráðningarsamningi málsaðila frá 27. september 1996 segir að um réttindi og skyldur stefnanda fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Skuli þau lög liggja til grundvallar við gerð ráðningarsamningsins auk kjarasamnings stéttarfélags Starfsmannafélags ríkisstofnana.  Eins og hér að framan hefur komið fram er krafa stefnanda í málinu byggð á kjarasamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar, sem gilti á þeim tíma sem hér um ræðir.  Þá er óumdeilt að samningur um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga annars vegar og Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kennarsambands Íslands hins vegar frá 23. janúar 1997 gildir einnig um lögskipti málsaðila en samkvæmt 17. gr. samningsins skal hann skoðast sem hluti af kjarasamningum aðildarsamtaka og/eða einstakra aðildarfélaga heildarsamtaka sem að samningum stóðu.

Í 2. gr. samningsins um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma frá 23. janúar 1997 er vinnutími skilgreindur sem sá tími sem starfsmaður er við störf, sé til taks fyrir vinnuveitandann og inni af hendi störf sín eða skyldur.  Segir þar enn fremur að þar sé átt við virkan vinnutíma en neysluhlé, launaður biðtími, ferðir til og frá vinnustað eða reglubundinni starfsstöð, vinnuhlé þar sem ekki sé krafist vinnuframlags og sérstakir frídagar reiknist þar af leiðandi ekki til vinnutíma.  Um vinnutíma er enn fremur fjallað í 2. kafla kjarasamningsins og um yfirvinnu er fjallað í grein 2.3.  Þar segir í lið 2.2.1 að dagvinna skuli unnin á tímabilinu 8:00 til 17:00 frá mánudegi til föstudags og í lið 2.3.1 segir að yfirvinna teljist sú vinna, sem fari fram utan tilskilins daglegs vinnutíma.

Óumdeilt er að dagvinnutími stefnanda var frá klukkan 8 að morgni til klukkan 17.  Stefnandi lagði af stað í umrædda ferð snemma morguns þann 20. október 1998 en samkvæmt því sem fram hefur komið mætti hann á Hótel Loftleiðir kl. 5.  Hann kom á áfangastað í Skotlandi kl. 16:45 sama dag og vann þar til kl. 19.  Næsta dag vann hann dagvinnu til kl. 15 en lagði þá af stað til Glasgow en þangað var hann kominn kl. 17:45 og vann þar til kl. 21.  Rétt þykir að líta svo á að tíminn sem fór í þessar ferðir teljist til þess tíma sem stefnandi innti af hendi skyldur sínar gagnvart stefnda.  Þá verður ekki talið með réttu að um hafi verið að ræða ferðir til og frá vinnustað eða reglubundinni starfsstöð enda var vinnustaður stefnanda í starfsstöð stefnda að Vesturvör 2 í Kópavogi eins og fram kemur í ráðningarsamningnum. Tilvísanir stefnda til fyrirmæla fjármálaráðuneytisins í þessu sambandi og þess að stefnanda hafi verið kunnugt um þau teljast ekki jafngilda því að fyrir hafi legið samkomulag um að greiða ekki fyrir yfirvinnu vegna ferðalaga eins og í því tilviki sem hér um ræðir.  Þykir ekki rétt að einhliða afstaða stefnda að þessu leyti hafi þýðingu fyrir úrlausn málsins. 

Þá er af hálfu stefnda vísað til þess að löng venja sé fyrir því að greiða ekki yfirvinnu vegna ferðalaga erlendis.  Telja verður þessa staðhæfingu stefnda ósannaða gegn andmælum stefnanda en samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber stefndi hallann af þeim sönnunarskorti.  Samkomulag fjármála­ráðherra og Félags viðskipa- og hagfræðinga frá 24. mars 1988 annars vegar og samkomulag launaskrifstofu ríkisins og Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins frá 17. febrúar 1989 hins vegar, sem stefndi vísar til um greiðslur fyrir vinnu innanlands á frídögum, þykja ekki hafa þýðingu í þeim efnum.  Sama gildir um bréf fjármálaráðu­neytisins frá 5. nóvember 1991 til Flugmálastjórnar.

Um ferðir og gistingu er fjallað í 5. kafla kjarasamningsins.  Um flutning og greiðslu ferðatíma er fjallað í grein 5.4 og um dagpeninga á ferðum erlendis er fjallað í grein 5.6.  Í lið 5.4.1 segir að vinni starfsmaður fjarri leiðum almenningsvagna, skuli ríkið sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða honum ferðakostnað.  Slíkar ferðir teljist til vinnutíma.  Ekki er tekið fram að þetta ákvæði eigi eingöngu við um ferðir innanlands.  Þá segir í lið 5.6.2 að af dagpeningum á ferðalögum erlendis beri að greiða allan venjulegan ferðakostnað, annan en fargjöld, svo sem kostnað vegna ferða að og frá flugvöllum, fæði, húsnæði, minniháttar risnu og hvers konar persónuleg útgjöld.  Verður af þessum ákvæðum og orðalagi þeirra engin ályktun dregin um að dagpeningum sé "bersýnilega ætlað að bæta starfsmanni að fullu upp röskun vegna ferðatíma" eins og haldið er fram af hálfu stefnda eða að yfirvinnukaup vegna ferðalaga erlendis skuli greiða af dagpeningum.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður að túlka framangreind ákvæði kjarasamningsins þannig að stefnda beri að greiða stefnanda yfirvinnukaup í samræmi við kröfur hans í málinu.  Gjalddagi kröfunnar var 1. desember 1998 samkvæmt ráðningasamningi málsaðila.  Ber með vísan til þess og 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 að taka dráttarvaxtakröfu stefnanda til greina.  Samkvæmt ofangreindu verða kröfur stefnanda, sem eru að öðru leyti óumdeildar, því teknar til greina.  Málskostnaður þykir hæfilega ákveðinn 120.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

   Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Siglingastofnun Íslands, greiði stefnanda, Stefáni Hans Stephensen, 6.925 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 120.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðis­auka­skattur.