Hæstiréttur íslands
Mál nr. 428/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
- Ómerking úrskurðar héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Mánudaginn 8. nóvember 2004. |
|
Nr. 428/2004. |
Hnoðrahöllin ehf. (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Þórunni Kristjánsdóttur Helgu Kristjánsdóttur Þórunni M. Garðarsdóttur Gunnari S. Kristjánssyni Kristjáni Sigurðssyni Kristrúnu Sigurðardóttur Fanneyju SigurðardótturEddu Rúnu Kristjánsdóttur og Guðrúnu Kristjánsdóttur (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing. Ómerking úrskurðar héraðsdóms. Heimvísun.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H ehf. um að stefnu í máli þess á hendur Þ o.fl. yrði á grundvelli 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 þinglýst á tiltekna fasteign. Talið var að málsmeðferð héraðsdómara hefði í mörgu farið gegn lagareglum. Var meðferð málsins því ómerkt frá upphafi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfu H ehf. um þinglýsingu stefnunnar fyrir á dómþingi í héraðsdómsmáli aðilanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2004, sem barst réttinum ásamt hluta kærumálsgagna 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. október 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að stefnu í máli hans á hendur varnaraðilum yrði þinglýst á fasteignina Smárahvamm í Garðabæ. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til q. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess aðallega að synjað verði um endurupptöku á úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem kveðinn var upp 1. september 2004. Til vara krefst hann að sér verði heimilað að þinglýsa stefnunni. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað.
Fyrir héraðsdóm stefndi sóknaraðili Einbýli ehf. til réttargæslu og hefur félagið látið málið til sín taka. Fyrir Hæstarétti krefst það málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Af gögnum þeim sem send hafa verið Hæstarétti má ráða, að 1. september 2004 hafi héraðsdómari kveðið upp úrskurð á grundvelli 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga, þar sem fallist hafi verið á kröfu sóknaraðila um að mega þinglýsa stefnu á hendur varnaraðilum í máli sem hann hugðist þingfesta í Héraðsdómi Reykjaness 8. september 2004. Í stefnunni er meðal annars gerð krafa um viðurkenningu dómsins á því, að stofnast hafi með aðilum bindandi kaupsamningur um fasteignina Smárahvamm svo sem nánar er þar lýst. Hafði stefna þessi verið árituð um birtingu af lögmanni varnaraðila 29. ágúst 2004.
Svo virðist sem varnaraðilar hafi ritað bréf 20. september 2004 með kröfu um að úrskurðurinn 1. september 2004 yrði endurupptekinn og honum breytt, en bréf þetta er ekki meðal þeirra gagna sem send hafa verið Hæstarétti. Tók héraðsdómari þessa ósk fyrir á dómþingi 8. október 2004 í sérstöku máli, þar sem tvö skjöl voru talin liggja frammi. Má ráða að það hafi verið upphaflegt bréf lögmanns sóknaraðila 24. ágúst 2004 með beiðni um þinglýsingu stefnunnar og stefnan sjálf. Þá var bókað að lagt væri fram bréf varnaraðila 20. september 2004. Málið var svo tekið fyrir 13. október sama árs og þá lagðar fram greinargerðir málsaðila um ágreining varðandi þinglýsingu stefnunnar. Munnlegur flutningur málsins fór fram í sama þinghaldi. Hinn kærði úrskurður var, eins og áður gat, kveðinn upp 20. október 2004. Í honum er skírskotað til efnis skjala, sem ekki voru lögð fram í hinu sérstaka ágreiningsmáli en virðast liggja frammi í héraðsdómsmálinu, sem þingfest var 8. september 2004.
Af atburðarrás þessari verður dregin sú ályktun, að hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp í sérstöku máli fyrir héraðsdóminum, sem hafist hafi með bréfi lögmanns sóknaraðila 24. ágúst 2004 og lyktað þar með hinum kærða úrskurði 20. október 2004.
Framangreind málsmeðferð fór í mörgu gegn lagareglum. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga verður heimildar ákvæðisins ekki neytt nema mál sé sótt fyrir dómstóli. Þessu skilyrði er ekki fullnægt fyrr en mál hefur verið þingfest. Þá er ekki gert ráð fyrir því í lögum, að sérstakt mál sé rekið, þegar fram kemur krafa í máli um þinglýsingu stefnu samkvæmt lagaákvæðinu. Slík krafa verður tekin fyrir í málinu sjálfu og úrskurðuð eftir að málsaðilar hafa átt þess kost að tjá sig um hana. Liggja þá öll gögn dómsmálsins fyrir, þegar um slíka kröfu er fjallað og afstaða tekin til hennar.
Samkvæmt framansögðu er meðferð máls þessa ómerkt frá upphafi og lagt fyrir héraðsdómara að taka fyrir á dómþingi í héraðsdómsmálinu, sem þingfest var 8. september 2004, kröfu sóknaraðila 24. ágúst sama árs um þinglýsingu stefnunnar.
Það athugist að verulegir annmarkar eru á frágangi héraðsdómara á skjölum sem fylgja áttu kærunni til Hæstaréttar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur sem og meðferð málsins frá 1. september 2004.
Lagt er fyrir héraðsdómara að taka erindi sóknaraðila frá 24. ágúst 2004 til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. október 2004.
Mál var höfðað með stefnu útgefinni 23. f.m. af Hnoðrahöllinni ehf., Tunguvegi 19a, Reykjavík gegn Þórunni Kristjánsdóttur, Helgu Kristjánsdóttur, Þórunni M. Garðarsdóttur, Gunnari S. Kristjánssyni, Kristjáni Sigurðssyni, Kristrúnu Sigurðardóttur, Eddu Rúnu Kristjánsdóttur, Guðrúnu Kristjánsdóttur og Einbýli ehf. til réttargæslu.
Þann 1. september 2004 var kveðinn upp úrskurður á grundvelli 1. mgr. 28. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 þar sem fallist var á að stefnanda væri heimilt að þinglýsa stefnunni á fasteignina Smárahvamm, landsnúmer 119815, Garðabæ, í máli Hnoðrahallarinnar ehf. gegn Þórunni Kristjánsdóttur, Helgu Kristjánsdóttur, Þórunni M. Garðarsdóttur, Gunnari S. Kristjánssyni, Kristjáni Sigurðssyni, Kristrúnu Sigurðardóttur, Eddu Rúnu Kristjánsdóttur, Guðrúnu Kristjánsdóttur og Einbýli ehf. til réttargæslu.
Stefndu hafa nú sem sóknaraðilar gert þá kröfu að úrskurðinum verði breytt á þann veg að kveðið skuli á um það að stefnunni, þinglýsingarskjali nr. 436-Z-003523/2004 verði aflýst hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Í þessu sambandi hefur verið vísað til heimildar dómara í 112. gr. eml. til þess að breyta úrskurði sem felur ekki í sér lokaniðurstöðu máls.
Af hálfu varnaraðila, stefnanda í væntanlegu dómsmáli, er þess krafist aðallega að synjað verði kröfu sóknaraðila um endurupptöku eða breytingu á fyrri úrskurði og til vara verði endurupptaka heimiluð þá verði fyrri ákvörðun um þinglýsingu látin standa óhögguð.
Báðir aðilar krefjast málskostnaðar úr hendi hins..
Af hálfu réttargæslustefnda er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Að mati dómara felur það ekki í sér lokaniðurstöðu máls að heimila þinglýsingu á stefnu í máli sem eftir á að fjalla um fyrir dómstól. Engu máli skipti í því sambandi þó að krafa um slíkt hljóti sérstaka skráningu og málanúmer enda hafði væntanlegt dómsmál í þessu tilviki ekki verið þingfest heldur taldist málið höfðað vegna áritunar stefndu á stefnuna um birtingu. Með þessum rökum telur dómari að honum sé heimilt að breyta fyrri ákvörðun sinni um það atriði sem fjallað er um í úrskurðinum í máli Ö-17/2004 sýnist honum rök hníga að þeirri niðurstöðu.
Af þessu tilefni gafst málsaðiljum kostur á því að skila greinargerðum auk þess sem þeir tjáðu sig munnlega fyrir dómara um þann ágreining sem uppi er þeirra í milli varðandi hið afmarkaða atriði sem úrskurðurinn fjallaði um auk þess sem gögn voru lögð fram fyrir dómara sem skýra alla málavexti sem varða téða þinglýsingu.
Hlýtur viðhorf dómara til þessarar kröfu sóknaraðila að mótast af því hvort hann metur hagsmuni sóknaraðila af því að fá kröfu sinni framgegnt ríkari en hagsmuni varnaraðila af því að henni verði hafnað. Telur dómari að heimild hans samkvæmt 5. mgr. 112. gr. eml. hljóti að gera ráð fyrir því að málsaðiljar komi að nýjum gögnum og viðhorfum varðandi atriði þeirrar gerðar sem þar eru nefnd.
Meðal þeirra gagna er þinglýsingarvottorð sem ber með sér að þegar fyrri úrskurðurinn var kveðinn upp hafði þriðji aðili, réttargæslustefndi, fengið þinglýst athugasemdalausri eignarheimild sem dómara var ekki kunnugt um á úrskurðardegi þann 1. september 2004. Lítur dómari svo á að niðurstaða dómsmálsins sem umrædd stefna boðar til geti ekki bundið þriðja mann, sem hefur eignast hina umdeildu eign og fengið eignarréttindum sínum þinglýst athugasemdalaust, hver sem niðurstaða þess máls kynni að verða, og fengist því ekki þinglýst á eignina sbr. 4. mgr. 24. gr. þinglýsingarlaga. Eru því ekki efni til að láta umdeilda þinglýsingu stefnunnar standa óhaggaða enda liggur fyrir í málinu að sóknaraðili studdist við fullnægjandi eignarheimild er hann ráðstafaði eigninni til réttargæslustefnda og að þeir hagsmunir hans að geta ráðstafað eigninni verða að teljast ríkari en hagsmunir varnaraðila af því einu að láta þinglýsingu stefnunnar halda sér ekki síst í ljósi þess að þriðji maður hefur fengið eignarheimildinni þinglýst athugasemdalaust. Byggir dómari á því að af þessu verði að draga þá ályktun að varnaraðila hafi ekki eins og nú er komið tekist að færa fram nægilega sterk rök fyrir réttindum sínum yfir hinni umþrættu fasteign til þess að uppfylla þær kröfur sem gera verður til þess að veita honum heimild til þinglýsingar stefnu á hana á grundvelli 1. mgr. 28. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Í þessari niðurstöðu er lagt mat á þau líkindi sem ætla má að séu til staðar á hinu ytra borði án þess að lagt sé mat á efnisréttinn.
Niðurstaða:
Með vísan til framanritaðs hefur dómari ákveðið að fallast á kröfu sóknaraðila og breyta úrskurði sínum frá 1. september 2004 á þá lund að í stað þess að heimila varnaraðila þinglýsingu á stefnu útgefinni 23. ágúst 2004 á fasteignina Smárahvamm, landsnúmer 119815, í Garðabæ, er synjað um heimild til þinglýsingar og kveðið á um að stefnunni, þinglýsingarskjali nr. 436-Z-003523/2004 verði aflýst hjá sýslumanninum í Hafnarfirði.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Synjað er um heimild til þinglýsingar á stefnu útgefinni 23. ágúst 2004 á fasteignina Smárahvamm, landsnúmer 119815, í Garðabæ, og kveðið á um að stefnunni, þinglýsingarskjali nr. 436-Z-003523/2004 verði aflýst hjá sýslumanninum í Hafnarfirði.
Málskostnaður fellur niður.