Hæstiréttur íslands

Mál nr. 108/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. mars 2004.

Nr. 108/2004.

Þuríður Gísladóttir

(sjálf)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Þ kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hennar á hendur ríkinu til greiðslu skaðabóta var með vísan e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vísað frá dómi. Í Hæstarétti var fallist á með héraðsdómara að kröfugerðin væri ekki skýr. Þ væri hins vegar ekki löglærð en ekki varð séð að henni hafi verið leiðbeint um lagfæringar á orðalagi dómkrafna. Var talið að héraðsdómsstefnan uppfyllti skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 með þeim hætti að ekki væru alveg næg efni til að vísa málinu frá dómi. Var úrskurðurinn því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

I.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila til greiðslu bóta vegna rofa varnaraðila á vinnusamningi og ráðningar þriðja manns í starf það, sem hún kveðst hafa gegnt við Garðyrkjuskóla ríkisins. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði rökstyður varnaraðili frávísunarkröfu sína með því að máltilbúnaður sóknaraðila sé óskýr og samhengislaus. Þá sé dómkrafa hennar óljós. Telur hann málatilbúnað sóknaraðila andstæðan ákvæðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Sóknaraðili telur enga þá galla vera á málatilbúnaði sínum að réttlæti frávísun máls. Sóknaraðili kveður skýrt í stefnu að hún krefjist fébóta úr hendi varnaraðila vegna rofa hans á ígildi samnings sem komist hafi á milli málsaðila. Miði hún fjárhæð bóta við tilgreind laun náttúrufræðings með hennar menntun og starfsreynslu í tiltekinn fjölda mánaða. Sóknaraðili kveður málsástæður sínar koma fram í stefnu og gögnum málsins.

II.

Í hinum kærða úrskurði er kröfugerð sóknaraðila tekin orðrétt upp. Er  fallist á það með héraðsdómara að kröfugerðin sé ekki skýr og blandist inn í hana málsástæður sóknaraðila. Hins vegar tilgreinir sóknaraðili að hún telji sig eiga rétt á bótum úr hendi varnaraðila að fjárhæð 6.304.144 krónur, með dráttarvöxtum frá 1. nóvember 2003 til greiðsludags samkvæmt III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar. Sóknaraðili er ekki löglærð og sækir hún mál sitt sjálf, en ekki verður séð að henni hafi verið leiðbeint um lagfæringar á orðalagi dómkrafna. Sóknaraðili hefur lýst málavöxtum eins og þeir horfa við henni og öðrum atvikum, er hún telur að leiða eigi til skaðabótaskyldu varnaraðila. Virðist hún reisa kröfur sínar á því að af hálfu varnaraðila hafi ekki verið að fullu staðið við loforð um að hún fengi að stunda vinnu og rannsóknir hjá varnaraðila, sem meðal annars hefðu nýst henni til öflunar doktorsgráðu. Hafi varnaraðili að lokum sagt upp samningi aðila á ólögmætan hátt. Vegna þess beri henni bætur að fjárhæð 4.953.256 krónur. Jafnframt þessu hafi varnaraðili ráðið karlmann til starfa í stöðu hennar og þannig gengið fram hjá rétti hennar til stöðunnar er byggja megi á fyrri samskiptum málsaðila. Fyrir það eigi hún rétt á bótum að fjárhæð 1.350.888 krónur. Þá hefur sóknaraðili í stefnu gert grein fyrir þeim grundvelli sem hún miðar fjárhæð bóta við. Auk þess vísar sóknaraðili til þeirra lagaákvæða er hún telur að við eigi. Að öllu þessu virtu verður að telja að héraðsdómsstefnan uppfylli skilyrði, sem greinir í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, með þeim hætti að ekki séu alveg næg efni til að vísa málinu frá dómi. Verður hinn kærði úrskurður samkvæmt því felldur úr gildi.

Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2004.

I

          Málið var höfðað 13. október sl. og tekið til úrskurðar 11. febrúar sl.

          Stefnandi er Þuríður Gísladóttir, Akraseli 17, Reykjavík.

          Stefndi er Garðyrkjuskóli ríkisins, Reykjum, Ölfusi.

          Stefnandi orðar dómkröfu sína svo:  "Vegna einhliða riftunar loforðs­skuld­bind­ingar um að verkefnið "Lífsíur úr vikri og sandi í lokuðum ræktunarkerfum í ylrækt" leiði til Ph.D. gráðu hennar, eigi stefnandi kröfu á fébótum í bótakröfu 1, að upphæð 4.953.256 kr. úr hendi stefnda.  Fyrir brot á 24. gr. jafnréttislaga nr. 96/2000, gerir stefn­andi kröfu um bætur í bótakröfu 2, að upphæð 1.350.888 kr. úr hendi stefnda.  Sam­anlagðar nema bótakröfu 1 og 2, 6.304.144 kr. Dráttarvextir samkvæmt III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 bætist við þessar upphæðir frá 1. nóvember 2003 til greiðslu­dags."  Þá er krafist málskostnaðar.

           Stefndi krefst aðallega frávísunar og málskostnaðar.

II

Stefnandi lýsir málavöxtum svo, að hún hafi á árinu 1998 haft samband við for­svars­mann stefnda og lýst áhuga sínum á að starfa þar við tilteknar rannsóknir, er gætu nýst henni til að öðlast Ph.D. gráðu.  Hún kveðst vera með kennsluréttindi í raun­greinum, M.Sc. gráðu í matvælavísindum og tækni og handhafi Licentiate Diploma skírteinis frá breskum fagsamtökum.  Stefnandi kveður stefnda hafa boðist til að skipu­leggja rannsóknarverkefni fyrir sig, sem fjármagnað yrði af honum og fleiri aðilum innlendum, auk sænsks landbúnaðarháskóla.  Stefnandi kveðst hafa samþykkt þetta og farið á launaskrá hjá stefnda í 50% starfi 1. júlí 1999, en kveðst þá þegar hafa unnið að verkefninu í nokkrar vikur.  Hún hafi fengið vinnuaðstöðu hjá stefnda og víðar en skólameistari stefnda hafi verið verkefnisstjóri.  Stefnandi kveðst hafa unnið að verkefninu allt þar til í september 2001 og safnað miklu af gögnum, sem hafi verið vistuð í tölvukerfi stefnda.

Í september 2000 kveðst stefnandi hafa fengið í hendur afrit af bréfi verk­efn­is­stjóra stefnda til Rannsóknarráðs Íslands þar sem hann telji tímaleysi sitt standa  verk­efn­inu fyrir þrifum.  Þrátt fyrir það hafi hún verið beðin um að útbúa umsóknir um styrki á árunum 2001 og 2002 en þeim umsóknum hafi báðum verið hafnað.  Í fram­hald­inu hafi verið auglýst föst staða verkefnisstjóra þróunarverkefna hjá stefnda sem stefn­andi hafi sótt um en karlmaður hafi verið ráðinn og hún tekin af launaskrá. 

Þrátt fyrir þessi málalok kveðst stefnandi að mestu hafa lokið við úrvinnslu rann­sókna sinna.  Einnig hafi hún sinnt ýmsum öðrum verkefnum, er tengjast doktorsnámi hennar.

Í málinu krefur stefnandi stefnda um laun fyrir hálft starf náttúrufræðings með hennar menntun og starfsreynslu í 44 mánuði.  Mánaðarlaun fyrir það starf séu 225.148 krónur á mánuði og helmingur þeirrar fjárhæðar, 112.574 krónur marg­fald­aður með 44 geri 4.953.256 krónur.  Þá krefst stefnandi 1.350.888 króna sem bóta vegna þess að gengið var fram hjá henni við ráðningu verkefnisstjóra.  Eru það fram­an­greind mánaðarlaun í 6 mánuði.  Samtals mynda þessar fjárhæðir stefnufjárhæðina. 

 Stefndi kveður stefnanda hafa óskað eftir starfi við rannsóknir hjá sér haustið 1998.  Í framhaldinu hafi stefnandi verið ráðin tímabundið til stefnda frá 1. júlí 1999 en ráðningu hennar hafi lokið 28. febrúar 2003.  Hafi ástæðan verið sú að ekki fengust frekari styrkir til vekefnisins, sem hún vann að.  Í upphafi hafi stefndi talið að rann­sóknir stefnanda gætu nýst henni sem doktorsverkefni við sænskan háskóla en síðar kom í ljós að ekkert gat orðið af því.  Stefnanda hafi engin loforð verið gefin varðandi doktors­námið, ekki hafi einu sinni verið sótt um það, heldur hafi verið um ráðagerðir að ræða.

Stefndi kveður karl hafa verið ráðinn í stöðu hjá sér, en stefnandi hafi einnig sótt um hana.  Karlinn hafi verið ráðinn vegna þess að hann var hæfari.  Kveður stefndi hann hafa stundað mun umfangsmeiri vísindastörf en stefnandi.

III

Stefnandi byggir á því að hún hafi unnið hjá stefnda í fullu starfi við verkefni, sem hún hafi talið að væri doktorsverkefni, en fengið greidd laun fyrir hálft starf.  Stefndi hafi einhliða rift samningi aðila um verkefnið og þar með valdið sér fjártjóni, sem honum beri að bæta samkvæmt almennum fébótareglum.  Vísar stefnandi, máli sínu til stuðnings, til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða.

Stefnandi byggir kröfuna um bætur vegna þess að hún var ekki ráðin í stöðu hjá stefnda á 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.  Karlinn, sem ráðinn var, hafi ekki haft doktorspróf og því ekki hæfari en stefnandi til að gegna starfinu.

Stefndi byggir frávísunarkröfuna á því að kröfugerð stefnanda sé vanreifuð og ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Málatilbúnaður stefnanda sé óskýr og samhengislaus og hún geri ekki grein fyrir samhengi og grundvelli málsástæðna sinna.  Þá sé dómkrafa hennar óljós og ekki sé hægt að gera hana að dómsorði.  Loks byggir stefndi á því að kröfugerð stefnanda sé ekki til þess fallin að ráða ágreiningi aðila til lykta.

IV

Í málavaxtalýsingu sinni heldur stefnandi því fram að hún hafi verið ráðin í hálft starf hjá stefnda en unnið fullt starf.  Hún byggir fyrri hluta kröfu sinnar á því að hún hafi unnið fullt starf en fengið greitt fyrir hálft.  Hún útskýrir hins vegar ekki afhverju hún eigi rétt á fullum launum þegar hún aðeins hafi verið ráðin í hálft starf.  Af mála­til­búnaði hennar verður ekki ráðið hvort vinna hennar, umfram hálft starf, hafi verið samkvæmt samningi við stefnda eða hvort hún hafi unnið hana á sjálfrar sín vegum við doktorsverkefnið og, hafi svo verið, afhverju henni beri laun frá stefnda fyrir það.

Seinni hluti kröfugerðarinnar er á því byggður að stefndi hafi brotið gegn fram­an­greindu ákvæði laga nr. 96/2000 með ráðningu karls í stöðu, er stefnandi hafi einnig sótt um.  Í 1. mgr. 24. gr. nefndra laga segir að atvinnurekendum sé óheimilt að mis­muna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis.  Í 3. mgr. segir að ef leiddar séu líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu í starf skuli atvinnu­rekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.  Í stefnunni gerir stefnandi hins vegar engan þann samanburð á sér og karlinum, sem stöðuna fékk, sem leitt geti líkur að því að henni hafi verið mismunað vegna kynferðis síns.  Hún lætur við það eitt sitja að fullyrða að hann hafi ekki tiltekna próf­gráðu en það er sama gráða og hún hugðist afla sér í starfinu hjá stefnda.

Í e-lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaganna segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má málsástæður, sem stefnandi byggi málsókn sína á.  Þá á og að greina önnur atvik málsins eins og þörf er á til að samhengi málsástæðna verði ljóst.  Þessi lýsing á að vera svo gagnorð og skýr að ekki fari á milli mála hvert sakarefnið sé.

Eins og að framan hefur verið rakið skortir verulega á að stefnan sé í samræmi við framangreint ákvæði einkamálalaganna.  Samhengi málsatvika og málsástæðna stefn­anda er engan veginn svo ljóst að hægt sé að leggja dóm á málið í þeim búningi sem það er nú.  Er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi, en málskostnaður þykir mega falla niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Málinu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.