Hæstiréttur íslands
Mál nr. 322/1998
Lykilorð
- Þjófnaður
- Líkamsárás
- Ítrekun
- Skilorðsrof
|
Nr. 322/1998. |
Fimmtudaginn 18. febrúar 1999. Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Helga Gunnlaugssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Líkamsárás. Ítrekun. Skilorðsrof.
H var ákærður fyrir þjófnað og líkamsárás. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu var staðfest. Með brotunum rauf H skilorð og voru þau framin áður en fyrri dómur gekk. Var H ákvarðaður hegningarauki, en við refsiákvörðun var einnig tekið tillit til að H hafði ítrekað gerst sekur um þjófnað og að líkamsárásin var án nokkurs tilefnis af hendi þess sem fyrir henni varð. Var H dæmdur til fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Ákærði krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru 26. maí 1998, svo og að vísað verði frá dómi bótakröfu Vals Hafsteinssonar, sem þar var höfð uppi. Að öðru leyti krefst ákærði þess að refsing samkvæmt héraðsdómi verði milduð.
Í málinu er ákærði sóttur til saka með tveimur ákærum. Sú fyrri var gefin út af sýslumanninum á Akureyri 29. apríl 1998 og ákærði borinn þar sökum um nánar tiltekinn þjófnað aðfaranótt 1. febrúar sama árs. Síðari ákæran var gefin út af ríkissaksóknara 26. maí 1998 og ákærða þar gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með líkamsárás á Val Hafsteinsson aðfaranótt 8. febrúar sama árs. Ákærði hefur gengist við brotinu, sem um ræddi í fyrrnefndu ákærunni, og verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hans samkvæmt henni. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður jafnframt staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt síðarnefndu ákærunni.
Eins og greinir í héraðsdómi hlaut ákærði dóma 8. desember 1994 og 18. apríl 1995 vegna þjófnaðar, svo og dóm 30. desember 1996 vegna brots gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Öll þau brot mun ákærði hafa drýgt áður en hann náði 18 ára aldri. Í fyrsta dóminum hlaut hann sekt, í öðrum dóminum þriggja mánaða varðhald skilorðsbundið og í þeim þriðja fimm mánaða fangelsi skilorðsbundið, en refsing samkvæmt öðrum dóminum var þar tekin upp og viðurlög ákveðin í einu lagi. Aftur hlaut ákærði dóm 31. desember 1997 vegna þjófnaðar. Fyrrnefndur skilorðsdómur frá 30. desember 1996 var þar tekinn upp og refsing ákveðin í einu lagi fangelsi í tíu mánuði, þar af sjö mánuði skilorðsbundið. Loks var ákærði dæmdur 28. apríl 1998 fyrir þjófnað og brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, en þau brot voru drýgð fyrir uppkvaðningu dómsins 31. desember 1997. Skilorðshluti síðastnefnds dóms var þá tekinn upp og refsing ákærða ákveðin í einu lagi fangelsi í níu mánuði, þar af sjö mánuði skilorðsbundið í þrjú ár.
Ákærði hefur nú gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga. Með þeim hefur hann rofið skilorð fyrir frestun á fullnustu sjö mánaða fangelsisrefsingar samkvæmt áðurnefndum dómi frá 28. apríl 1998. Brot ákærða, sem hann er nú sakfelldur fyrir, voru framin áður en sá dómur gekk og fer því um refsiákvörðun samkvæmt því, sem segir í 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur ítrekað gerst sekur um þjófnað og ber því að gæta ákvæða 255. gr. nefndra laga. Hann drýgði brot sitt, sem ákæra 29. apríl 1998 tók til, ásamt öðrum manni. Verður því að taka tillit til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Brot ákærða samkvæmt ákæru 26. maí 1998 var framið án nokkurs tilefnis af hendi þess, sem varð fyrir því, og koma því fyrirmæli 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga ekki til álita. Að gættu þessu og ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga, svo og 60. gr. laganna, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í eitt ár. Eins og áður er getið hlaut ákærði fjórum sinnum skilorðsbundna dóma á rúmlega þremur árum, en rauf ávallt skilorð. Kemur því ekki til álita að mæla nú fyrir um skilorðsbundna frestun á hluta refsingar ákærða.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Helgi Gunnlaugsson, sæti fangelsi í eitt ár.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 40.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Héraðsdómur Norðurlands eystra 26. júní 1998.
Ár 1998, föstudaginn 26. júní, er af Ólafi Ólafssyni, héraðsdómara kveðinn upp dómur í málinu nr. S-43/1998: Ákæruvaldið gegn Helga Gunnlaugssyni og A.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 8. júní s.l., er höfðað með tveimur ákæruskjölum á hendur A, og Helga Gunnlaugssyni, atvinnulausum, kt. 250978-4569, nú til heimilis að Vestursíðu 30, Akureyri.
1. Ákæruskjal sýslumannsins á Akureyri, útgefið 29. apríl 1998.
Með þessu ákæruskjali er mál höfðað á hendur Helga Gunnlaugssyni og A „ fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt 1. febrúar 1998, stolið sjö hljómgeisladiskum, tveim tölvuleikjadiskum og pakka með tveim orðabókum og persónulegum munum, úr íbúð Ólafar Völu Valgarðsdóttur að Hjallalundi 7 C á Akureyri.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákæru verði dæmdir til refsingar.“
2. Ákæruskjal ríkissaksóknara, útgefið 26. maí 1998.
Með þessu ákæruskjali er mál höfðað á hendur Helga Gunnlaugssyni „ fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 8. febrúar 1998, á bifreiðastæði austan við útibú Landsbanka Íslands, Strandgötu 1, Akureyri, veist að Val Hafsteinssyni, kennitala 010875-4979, og slegið hann hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að vinstri framtönn skábrotnaði, auk þess sem Valur hlaut sprungu á neðri vör, 2 cm langan skurð ofan við vinstra eyra og mar og rispur hægra megin á háls og á vinstri öxl og undir hægri geirvörtu.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Ólafur Birgir Árnason, hæstaréttarlögmaður, hefur fyrir hönd Vals Hafsteinssonar, kennitala 010875-4989, krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 134.070 krónur auk málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.“
Ákærumál sýslumannsins á Akureyri var þingfest 15. maí s.l. og rekið með hliðsjón af 125. gr. laga nr. 19/1991, en undir rekstri þess var fallið frá því ákæruatriði að ákærðu hefðu stolið ótilgreindum „persónulegum munum“. Málið var dómtekið 19. s.m. Með vísan til 131. gr. sbr. 23. gr. nefndra laga var málið endurupptekið þann 29. maí s.l. og ákærumál ríkissaksóknara þá sameinað málinu, en að lokinni aðalmeðferð þann 8. júní s.l. var málið dómtekið að nýju.
Ákærði, A, hefur krafist vægustu refsingar sem lög framast heimila.
Skipaður verjandi ákærða Helga Gunnlaugssonar hefur haft uppi eftirfarandi dómkröfur:
a) Að refsing ákærða vegna ákærumáls sýslumannsins á Akureyri verði ákvörðuð eins væg og lög framast heimila.
b) Að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ríkissaksóknara, en til vara að refsing hans verði ákvörðuð eins væg og lög heimila, og að bótakrafa verði lækkuð verulega.
Þá krafðist verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna.
I.
Málavextir:
1. Ákæruskjal sýslumannsins á Akureyri, útgefið 29. apríl 1998.
Ákærðu, A og Helgi Gunnlaugsson, hafa fyrir dómi skýlaust viðurkennt að hafa framið þjófnaðarbrot það sem lýst er í ákæruskjali, en líkt og áður var rakið var af hálfu ákæruvalds fallið frá því sakaratriði að þeir hefðu stolið ótilgreindum „persónulegum munum“. Samkvæmt gögnum málsins höfðu ákærðu þegið heimboð húsráðanda aðfaranótt 1. febrúar s.l, en neytt færis þegar húsráðandi sá ekki til og stolið þeim munum sem tilgreindir eru í ákæruskjali. Upplýst er að ákærðu skiluðu þýfinu til húsráðanda áður en þeir voru boðaðir til lögreglu vegna þjófnaðarkæru hans.
Samkvæmt framansögðu er háttsemi ákærðu nægjanlega sönnuð og varðar atferli þeirra við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Ákæruskjal ríkissaksóknara, útgefið 26. maí 1998.
Sunnudaginn 8. febrúar 1998, kl. 04:42, var hringt á lögreglustöðina á Akureyri og óskað eftir aðstoð lögreglu í miðbæinn vegna slagsmála, sem þar hefðu orðið. Á vettvangi hittu lögreglumenn kæranda, Val Hafsteinsson, og félaga hans vitnið Magnús Bjargarson. Í frumskýrslu lögreglu er þess getið að kærandi hafi verið nokkuð bólginn í andliti, sérstaklega á nefi og með brotna framtönn vinstra megin. Þá er þess getið að nokkuð hafi blætt úr höfði kærandans, ofan við vinstra eyra. Kærandi greindi lögreglu frá því á vettvangi að hann hefði hlotið áverkana af völdum ákærða Helga Gunnlaugssonar. Kærandi var færður á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri til aðhlynningar og í fyrirliggjandi læknisvottorði Þorvaldar Ingvarssonar, bæklunarlæknis, dags. 24.03.1998, er áverkum hans lýst svofellt:
„Skoðun: 5 cm. ofan við vinstra eyra er ca 2 cm langur skurður, nokkuð djúpur. Nef er verulega bólgið og grunur er um nefbrot. Þó er engin aflögun til staðar og miðsnes er ekki úr lagi fært. Það er fleiður á vinstri nasavæng. Blæðing úr báðum nösum. Neðri vör er sprungin á tveimur stöðum og vinstri framtönn er skábrotin. Mar og tvær rispur eru til staðar hægra megin á hálsi, einnig mar á vinstri öxl og undir hægri geirvörtu. Fjögur lítil fleiðursár eru á vinstra hné. Sárið var saumað með fjórum saumum og settar á umbúðir. Neftróð var sett í hægri nös. Sj. síðan boðaður til endurkomu 09.02. til rtg-myndatöku og til að fjarlægja neftróð úr nefi sem notað var til að stöðva blæðingu. Þegar hann kemur til endurkomu hefur hann fjarlægt neftróðið, blóðnasirnar hættar. Rtg-mynd af nefi sýndi ekki brot.“
Kærandi, Valur Hafsteinsson, bar fram formlega kæru á hendur ákærða mánudaginn 9. febrúar s.l.
Við meðferð málsins andmælti ákærði sakargiftum og kannaðist ekki við að hafa slegið kæranda hnefahögg með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæruskjali ríkissaksóknara. Ákærði viðurkenndi hins vegar að hafa átt í útistöðum við kæranda í miðbæ Akureyrar aðfaranótt 8. febrúar s.l., nánar til tekið við Strandgötu 4, húsnæði Nýja bíós. Ákærði kvaðst hafa verið ölvaður umrædda nótt og af þeim sökum bar hann fyrir sig minnisleysi að nokkru. Þannig gat ákærði eigi sagt til um hvert hefði verið tilefni illdeilna þeirra, en ætlaði að hann hefði ætlað að skilja kæranda og félaga hans að. Vísaði ákærði og til þess að hann hefði ekkert átt sökótt við kæranda.
Fyrir dómi lýsti ákærði átökum sínum við kæranda á þann veg að þeir hefðu verið í gagnkvæmum slagsmálum og m.a. legið í fangbrögðum á akbrautinni. Í þeirri stöðu kvaðst ákærði hafa slegið til kæranda, en ekki gat hann sagt til um hvar högg hans hefðu lent á líkama kæranda. Ákærði kvaðst hafa orðið fyrir höggum frá kæranda, en ekki hlotið aðra áverka en smávægilegar rispur á olnboga. Ákærði bar að allmargir vegfarendur hefðu verið á vettvangi, og staðhæfði að einhverjir þeirra hefðu sparkað í kæranda þar sem hann lá á akbrautinni. Ákærði ætlaði að átökin hefðu staðið yfir í u.þ.b. 5 mínútur og bar að þeim hefði lokið er nærstaddir aðilar drógu þá í sundur. Eftir það kvaðst ákærði ekkert hafa skipt sér af kærandanum og þá ekki af félaga hans, en ákærði kvað félagann þó eitthvað hafa skipt sér af málum.
Framburður vitna.
Kærandi, Valur Hafsteinsson, vélstjóri, fæddur 1975, bar fyrir dómi að hann hefði aðfaranótt 8. febrúar s.l. verið að skemmta sér í Sjallanum ásamt félaga sínum, Magnúsi Bjargarsyni, og eftir skemmtunina kvað hann þá hafa gengið saman suður Geislagötu í átt að Nætursölunni, Strandgötu 6. Kærandi kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis líkt og félagi hans og bar að þeir hefðu verið að kýta, en við húsnæði Nýja bíós, skammt frá Nætursölunni kvað hann ákærða hafa blandað sér í málið. Ætlaði kærandi að ákærði hefði ætlað að stöðva deilur þeirra félaganna, en afskipti hans hins vegar leitt til þess að þeir, þ.e. hann og ákærði, hefðu lent í slagsmálum. Ákærði kvað slagsmálin aðallega hafa falist í gagnkvæmum hrindingum og staðfesti að þeir hefðu báðir fallið á akbrautina. Fyrir dómi kannaðist kærandi við að hafa reynt að slá til ákærða, en ekki tekist. Þá kvaðst hann ekki hafa hlotið ákomur frá ákærða við nefndar aðstæður. Kærandi kvað átökunum hafa lokið er nærstaddir aðilar skildu þá að, en kannaðist ekki við að þessir aðilar hefðu skipt sér af málum með öðrum hætti t.d. með spörkum eða barsmíðum. Kærandi bar að atgangurinn hefði staðið yfir í örfáar mínútur og kvaðst hann ekki hafa hlotið aðrar ákomur en mar á hálsi og ætlaði að sá áverki hefði komið er ákærði tók hann hálstaki. Kærandi kannaðist og ekki við að hafa hlotið blóðnasir í átökunum. Kærandi bar að eftir að atganginum var lokið hefði hann farið af vettvangi skamma stund, en síðan gengið til félags síns, Magnúsar Bjargarsonar, þar sem hann var í viðræðum við ákærða, skammt frá Nætursölunni. Í staðfestri skýrslu kæranda hjá lögreglu hinn 9. febrúar s.l. lýsti hann málsatvikum nánar svofellt:
„Mætti segir að hann hafi gengið til vesturs að Levís búðinni. Hann hafi verið þar smástund en síðan gengið austur gangstéttina sunnan við Strandgötuna. Hann segir að Magnús hafi þá verið að tala við Helga. Mætti segist hafa ætlað að bíða eftir Magnúsi og vera honum samferða. Mætti segist hafa gengið í átt að Magnúsi og Helga. Hann segist hafa stöðvað álengdar og beðið. Hann hafi verið búinn að bíða nokkra stund þegar Helgi hafi gengið að honum og fyrirvaralaust og án nokkurrar ástæðu slegið hann eitt hnefahögg í andlitið. Höggið hafi komið í nef hans og munn. Hann hafi fallið afturfyrir sig í götuna. Mætti segir að strax hafi farið að blæða mjög mikið úr nefi hans og hann hafi fundið að vinstri framtönn hafi brotnað við höggið. Mætti segir að hann viti ekki mikið um hvað gerðist fyrst eftir höggið. Magnús hafi sagt honum að 4-5 aðilar hefðu sparkað í hann þar sem hann lá eftir að Helgi sló hann. Mætti segist hafa rétt Magnúsi farsíma og Magnús hafi hringt á lögregluna. Mætti segir að Magnús hafi lent í einhverju þrefi til að fá lögregluna á staðinn en hún hafi komið eftir nokkurt þóf. Mætti segir að lögreglan hafi flutt hann á Slysadeild F.S.A. Hann hafi verið með skurð á hnakka, bólgur á nefi auk þess að vinstri framtönn sé brotin. Auk þess sé hann fleiðraður á hálsi eftir hálstak er hann og Helgi voru að slást hjá 1929.“
Frásögn kæranda fyrir dómi var í öllum aðalatriðum samhljóða ofangreindri skýrslu hans hjá lögreglu.
Vitnið, Magnús Bjargarson, pípulagningamaður, fæddur 1975, lýsti fyrir dómi samskiptum þeirra félaganna eftir skemmtun í Sjallanum með sama hætti og kærandi hér að framan. Vitnið bar að við Nætursöluna hefði ákærði, Helgi Gunnlaugsson, svo og þrír ókunnugir piltar haft afskipti af þeim og að til smápústra hefði komið þeirra í milli. Í framhaldi af því kvaðst vitnið hafa tekið ákærða tali, en veitt því athygli hvar Valur lá á akbrautinni og að piltarnir þrír veittust þar honum með spörkum. Vitnið staðhæfði að ákærði hefði ekkert blandað sér í atganginn og vísaði til þess að hann hefði einungis staðið í örfáar mínútur, en Valur þá staðið upp og nokkru síðar komið til þeirra. Í staðfestri skýrslu hjá lögreglu lýsti vitnið atvikum máls nánar svofellt:
„Mætti segir að hann hafi svo haldið áfram að tala við Helga. Valur hafi staðið vinstra megin við Helga og ekki haft sig í frammi. Skyndilega, og án sýnilegra ástæðu, hafi Helgi snúið sér að Val og slegið hann einu mjög kröftugu hnefahöggi í andlitið. Mætti segir að Valur hafi fallið afturábak í götuna. Blóð hafi farið að renna frá nefi Vals og framtönn í honum hafi verið brotin. Mætti segir að Valur hafi rétt honum síma, sem hafi reyndar verið brotinn eftir árásina, og með honum hafi mætti hringt eftir aðstoð lögreglu. Lögreglan hafi svo komið og ekið þeim á Slysadeild F.S.A. Mætti segir að eftir árásina hafi hann rifist eitthvað við Helga Gunnlaugsson. Helgi hafi gefið þá skýringu að Valur hafi slegin hann. Mætti segir að hann hafi ekki séð neitt slíkt og ekki séð neina áverka á Helga.“
Fyrir dómi staðhæfði vitnið að hnefahögg það er kærandi hlaut frá ákærða hefði verið mjög fast og bar að Valur hefði fallið kylliflatur á akbrautina og orðið blóðugur í andliti. Vitnið staðhæfði að Valur hefði fengið áverka sína í andlitið af völdum nefnds hnefahöggs ákærða. Hins vegar kvaðst vitnið hafa ályktað það síðar að kærandi hefði hlotið aðra áverka sína, þ.e. mar og rispur á búk, vegna þeirra barsmíða er hann varð fyrir af hálfu piltanna þriggja fyrir margnefnt hnefahögg ákærða.
Vitnið Elvar Már Sigurðsson, verkamaður, fæddur 1980, staðhæfði fyrir dómi að það hefði fylgst með slagsmálum ákærða og Vals Hafsteinssonar við Nætursöluna. Vitnið bar að nefndir aðilar hefðu þá legið á akbrautinni og viðhaft gagnkvæmar kýlingar. Þrátt fyrir það kvaðst vitnið ekki hafa litið á atgang þeirra sem harkaleg átök, fremur sem tusk. Fyrir dómi kannaðist vitnið ekki við að nærstaddir aðilar hefðu skipt sér af málum og er átökunum lauk kvaðst það engin áverkamerki hafa séð á ákærða eða Val Hafsteinssyni.
Vitnið Elvar var ekki yfirheyrt við frumrannsókn lögreglu og fyrir dómi vísaði það til nokkurs minnisleysis um málsatvik og bar að það hefði verið undir áhrifum áfengis umrædda nótt.
Vitnið, Jóhann Kristinsson, verkamaður, fæddur 1980, staðhæfði fyrir dómi að það hefði fylgst með slagsmálum ákærða og Vals Hafsteinssonar við Nætursöluna stutta stund, og á þeim tíma séð hvar nærstaddir aðilar reyndu að stía þeim í sundur. Vitnið staðhæfði að það hefði ekki séð nefnda aðila skipta sér af ákærða eða Val með öðrum hætti, t.d. ekki með spörkum eða barsmíðum. Eftir atganginn kvaðst vitnið hafa veitt því athygli að Valur var með blóðnasir, en ekki kvaðst það hafa séð hvernig hann hlaut áverkann. Vitnið kvaðst ekki hafa séð áverka á ákærða.
Fyrir dómi hefur Jóhann Olsen, lögreglumaður, staðfest framangreinda frumskýrslu lögreglu og var það mat hans að Valur Hafsteinsson og Magnús Bjargarson hefðu ekki verið áberandi ölvaðir aðfaranótt 8. febrúar s.l. Hann kvað frásögn þeirra hafa verið greinargóða.
Niðurstaða.
Í máli þessu verður lagt til grundvallar að viðskipti ákærða og Vals Hafsteinssonar hafi átt sér stað við Strandgötu 4-6, en eigi handan götunnar, við útibú Landsbanka Íslands, líkt og segir í ákæruskjali. Þetta þykir þó ekki standa í vegi þess að dæmt verði um sakarefnið, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Við meðferð málsins hefur Valur Hafsteinsson staðfastlega borið að höfuðáverka hans megi rekja til fyrirvaralauss hnefahöggs frá ákærða, nokkru eftir að þeir höfðu hætt átökum í Strandgötunni. Vitnið Magnús Bjargarson, félagi kæranda, hefur skilmerkilega lýst barsmíðinni og jafnframt staðhæft að kærandi hafi ekki borið áverka í andliti fyrir hnefahöggið. Að mati dómsins er frásögn vitnisins trúverðug og er að áliti dómsins eigi varhugavert, þegar framburður annarra vitna er virtur samhliða, að telja sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er að sök gefin, að því frátöldu að ekki þykir alveg nægjanlega sannað að hann hafi valdið kæranda áverkum á vinstri öxl og undir hægri geirvörtu.
Atferli ákærða varðar að framangreindu virtu við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Ólafur Birgir Árnason, hæstaréttarlögmaður, hefur fyrir hönd Vals Hafsteinssonar, haft uppi skaðabótakröfu á hendur ákærða og sundurliðast hún þannig:
|
„1. Tannlæknakostnaður |
kr. 55.000 |
|
2. Gjald fyrir komu á slysavarðstofu |
kr. 2.370 |
|
3. Röntgenrannsókn |
kr. 1.000 |
|
4. Heimsókn til heimilislæknis |
kr. 700 |
|
Samtals |
kr. 59.070 |
|
Miskabótakrafa |
kr. 75.000 |
|
Lögmannskostnaður |
kr. 18.000 |
|
VSK á lögmannsþóknun |
kr. 4.410 |
|
Samtals |
kr. 156.480” |
Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir líkamsárás og ber hann fébótaábyrgð gagnvart bótakrefjanda vegna tjóns hans. Ber að dæma ákærða til að greiða tjónþola, Val Hafsteinssyni, kostnað af komu á slysavarðstofu, kostnað af komu til heimilislæknis og vegna röntgenrannsóknar. sbr. 2.-4. tl. kr. 4.070, en bótaliðirnir eru studdir gögnum. Tjónþoli þykir eiga rétt til miskabóta skv. 26. gr. skaðabótalaga, sem þykja hæfilega ákveðnar kr. 40.000,-. Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 á tjónþoli rétt á bótum vegna lögmannsaðstoðar og þykja þær hæfilega tilteknar kr. 12.450,- með virðisaukaskatti. Kröfu um tannlæknakostnað, sbr. 1. tl., er vísað frá dómi þar sem krafan er einungis byggð á áætlun.
Ákærði verður samkvæmt framanrituðu dæmdur til að greiða tjónþola bætur samtals að fjárhæð kr. 56.520,-.
II.
Ákærði, A, var samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins dæmdur í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnaðarbrot auk sektarrefsingar vegna fíkniefnabrots með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra þann 31. desember s.l. Þá var ákærði dæmdur fyrir þjófnaðarbrot, sem hann framdi í nóvember s.l. með dómi sama dómstóls þann 24. apríl s.l., en eigi gerð sérstök refsing með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 31. desember s.l. og ber skv. 60. gr. hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 20/1981 og 7. gr. laga nr. 22/1955 að ákveða ákærða refsingu í einu lagi eftir reglum 77. gr. og 78. gr. laganna með broti því sem hér er til meðferðar. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi. Þegar litið er til þess að ákærði játaði brot sitt skýlaust og skilaði þýfi, sem hann hafði undir höndum áður en hann var boðaður til lögregluyfirheyrslu og að hann var einungis 17 ára þegar hann framdi fyrri hegningarlagabrot þá þykir enn fært að fresta fullnustu refsingar hans og skal hún niður falla að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955. Það er jafnframt ákvörðun dómsins að frestun fullnustu refsivistar ákærða verði bundin því skilyrði að hann sæti á skilorðstímanum sérstakri umsjón, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 19, 1940. Skal sýslumaðurinn á Akureyri, sem ákærandi, tilnefna þann aðila, sem hafa skal með hendi umsjónina, sbr. 1. mgr. 58. gr. hegningarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 84, 1996.
Ákærði, Helgi Gunnlaugsson, fæddur 25. september 1978, hefur samkvæmt vottorði sakaskrá ríkisins tvívegis gengist undir sektargreiðslur með sátt, árið 1994 vegna skemmdarverka og árið 1997 vegna ölvunaraksturs. Þá hefur hann hlotið eftirgreinda refsidóma:
|
1994 |
08/12 Héraðsdómur Norðurlands eystra. Dómur: 35.000 kr. sekt f. brot g. 244. gr. alm. hgl. |
|
1995 |
18/04 Héraðsdómur Norðurlands eystra. Dómur: Varðhald 3 mán., skb. 3 ár, f. brot g. 244. gr. alm. hgl. |
|
1996 |
30/12 Héraðsdómur Norðurlands eystra. Dómur: Fangelsi 5 mán., skb. 3 ár, f. brot g. 1. mgr. 218. gr. alm. hgl. |
|
1997 |
31/12 Héraðsdómur Norðurlands eystra. Dómur: Fangelsi 10 mán., þar af 7 mán. skb. 3 ár, f. brot g. 244. gr. alm. hgl. |
|
1998 |
28/04 Héraðsdómur Norðurlands eystra. Dómur: Fangelsi 9 mán., þar af 7 mán. skb., f. brot g. 244. og 1. mgr. 217. gr. alm. hgl. |
Samkvæmt upplýsingum dómsins er ákærði nú í 5 mánaða refsiúttekt vegna eldri dóma.
Í máli þessu hefur ákærði gerst sekur um auðgunarbrot og líkamsárás. Brotin eru framin fyrir uppkvaðningu dómsins frá 28. apríl s.l., en sá dómur var ákvarðaður með hliðsjón af dómi þeim er ákærði hlaut í árslok 1997, en hann hefur nú rofið skilorðshluta dómsins. Ber að ákvarða refsingu með hliðsjón af 60. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Líta ber til þess að á árunum 1994 til 1996 var ákærði dæmdur fyrir samkynja brot og nú er fjallað um, en að þau voru þó framin áður en hann náði 18 ára aldri. Við ákvörðun refsingar verður og litið til þess að ákærði játaði þjófnaðarbrotið skýlaust og skilaði þýfi til eiganda, að hann átti í átökum við árásarþola Val Hafsteinsson, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en að atlaga hans var mun harkalegri og að ákærði lét í raun til skarar skríða eftir að atganginum var lokið. Þá ber að virða það að brot þau sem hér eru til meðferðar eru framin fyrir uppkvaðningu dóms sem kveðinn var upp hinn 28. apríl s.l. Með hliðsjón af öllu framanrituðu og hegningaraukaáhrifum 78. gr. hegningarlaganna þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 8 mánaða fangelsi. Rétt þykir að fresta 7 mánuðum af refsingunni og skal sá hluti niður falla að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955. Rétt þykir, svo sem gert var í dómnum frá 28. apríl s.l., að binda frestun fullnustunnar einnig skilyrðum 1. og 2. tl. nefndrar lagagreinar.
Með vísan til 164. gr. og 165. gr. laga nr. 19, 1991 ber að dæma ákærða Helga Gunnlaugsson til að greiða saksóknarlaun til ríkissjóðs kr. 50.000 og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hreins Pálssonar hæstaréttarlögmanns, kr. 50.000. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.
Dóm þennan kvað upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, Helgi Gunnlaugsson, sæti 8 mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsingunni og skal sá hluti niður falla að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955. Þá er frestun á fullnustu refsivistar jafnframt bundin því skilyrði að ákærði sæti á skilorðstímanum sérstakri umsjón, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955. Skal sýslumaðurinn á Akureyri hafa umsjónina með hendi.
Ákærði, A, sæti 6 mánaða fangelsi, en fullnustu refsingarinnar skal fresta og falli hún niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955. Þá er frestun fullnustu refsivistar jafnframt bundin því skilyrði að ákærði sæti á skilorðstímanum sérstakri umsjón, sbr. 1. og 2. tl. 3. mgr. 57. gr. hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955. Skal sýslumaðurinn á Akureyri hafa umsjónina með hendi.
Ákærði, Helgi Gunnlaugsson, greiði Val Hafsteinssyni, kt. 010875-4989, kr. 56.520 í skaðabætur.
Ákærði, Helgi Gunnlaugsson, greiði saksóknarlaun í ríkissjóð kr. 50.000,- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hreins Pálssonar hæstaréttarlögmanns, kr. 50.000, en að öðru leyti greiði hann ásamt ákærða A sakarkostnað óskipt.