Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. apríl 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Suðurlandi með ákæru 30. nóvember 2015 á hendur varnaraðila fyrir brot á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa nr. 30/2007. Í verknaðarlýsingu ákæru kemur fram að varnaraðili hafi 8. apríl 2014 siglt skipinu m/b [...] [...] á veiðum í utanverðum Faxaflóa án þess að hafa stýrimann um borð. Er brot varnaraðila talið varða við b. lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 20. gr. laganna.
Í hinum kærða úrskurði var komist að þeirri niðurstöðu að ákæran uppfyllti ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 þar sem ekki hafi verið tilgreint í ákæru hvort varnaraðili hafi fengið heimild hjá mönnunarnefnd til þess að sigla skipinu án stýrimanns, en af síðari málslið áðurgreinds ákvæði laga nr. 30/2007 leiði að hafi slík heimild verið fengin væri siglingu skipsins án stýrimanns refsilaus.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa fyrirmæli þessa lagaákvæðis verið skýrð svo að verknaðarlýsing í ákæru verði að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverða háttsemi honum sé gefin að sök og hvaða lagaákvæði hann er talinn hafa gerst brotlegur við.
Í ákæru er tilgreint hvar og hvenær brot er talið hafa verið framið og við hvaða refsiákvæði það varðar. Formskilyrðum ákæru er því fullnægt. Það heyrir síðan undir efnishlið málsins hvort háttsemin sem varnaraðila er gefin að sök, sé refsiverð samkvæmt b. lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 30/2007, en í því tilliti getur reynt á hvort heimild frá mönnunarnefnd leiði til þess að háttsemin hafi verið ákærða refsilaus. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. apríl 2016.
Mál þetta, sem þingfest var 17. desember 2015, er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Suðurlandi útgefinni 30. nóvember 2015 á hendur X, kt. [...], [...], [...].
„fyrir brot á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa
með því að hafa, að morgni þriðjudagsins 8. apríl 2014 siglt skipinu m/b [...] [...], sknr. [...] á [...]veiðum í utanverðum Faxaflóa án þess að hafa stýrimann um borð, en Landhelgisgæslan hafði umrætt sinn afskipti af skipinu þar sem það var statt 64°18´N – 022°42´V.
Telst brot ákærða varða við b. lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 30, 2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skika.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði neitar sök.
Aðalmeðferð málsins fór fram 4. mars 2016 og var málið dómtekið að henni lokinni.
Af hálfu ákæruvalds eru þær kröfur gerðar sem að ofan greinir.
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara að refsing verði tiltekin eins væg og kostur er. Þá er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins til handa skipuðum verjanda, úr ríkissjóði.
Eftir dómtöku málsins varð dómari þess var að vera kynnu efni til að vísa málinu frá dómi ex officio og var sakflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um það í þinghaldi fyrr í dag.
Málavextir
Samkvæmt gögnum málsins sendi Landhelgisgæsla Íslands lögreglustjóranum á Selfossi kæru á hendur ákærða þann 8. apríl 2014. Segir í kærunni að við athugun á atvinnuréttindum og lögskráningu hafi komið í ljós að enginn stýrimaður hafi verið um borð í téðu skipi umrætt sinn og engin undanþága þess efnis hafi verið frá mönnunarnefnd. Kemur jafnframt fram að ákærði hafi verið skipstjóri umrætt sinn.
Samkvæmt lögskráningu voru ákærði og einn háseti lögskráðir á skipið umrætt sinn.
Samkvæmt skoðunarskýrslu A 2. stýrimanns á varðskipinu Þór, sem fór um borð í [...] umrætt sinn, voru gerðar athugasemdir við að sjókort skipsins væru gömul, skrá um björgunaræfingu vantaði og þá vantaði stýrimann um borð. Í skoðunarskýrslu kemur fram að veiðiferð hafi hafist kl. 05:30 og áætluð lok hennar hafi verið kl. 19:00, en í kæru kemur fram að afskipti hafi verið höfð af skipinu kl. 09:08 umræddan dag.
Lögregla ræddi við ákærða í síma við rannsókn málsins og er haft eftir honum í skýrslu um samtalið, að hann hafi staðfest afskipti Landhelgisgæslunnar. Er jafnframt haft eftir ákærða að hann hafi kannast við það ákvæði sem honum er gefið að sök að hafa brotið gegn, en ekki hafa fengið tilkynningu um að sett hefði verið á hann 14 tíma regla. Það hafi ekki verið stýrimannaregla áður fyrr og hann hafi ekki ætlað að sækja um hana til þess eins að skerða réttindi sín. Þá er haft eftir ákærða að á þeim tíma sem Landhelgisgæslan hafi komið um borð hafi hann ekki verið á 14 tíma reglu og í raun aldrei verið 14 tíma eða lengur á sjó.
Fram kemur í gögnum málsins að skipið [...] er fiskiskip, 29,36 brúttórúmlestir og 28 brúttótonn og skráð lengd skipsins er 15,58 metrar.
Þá hefur verið lagður fram úrskurður Mönnunarnefndar skipa, dags. 23. apríl 2014, þar sem útgerð skipsins [...] sækir um frávik svo ekki þurfi að skrá stýrimann á skipið í úthaldi styttra en 14 klukkustundir. Í úrskurðinum er heimilað að ekki þurfi að vera stýrimaður í áhöfn skipsins þegar dagleg útivist skipsins er styttri en 14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu er ákærða gefið að sök brot gegn mönnunarreglum íslenskra skipa eins og lýst er í ákæru með því að hafa siglt umræddu skipi án þess að hafa stýrimann um borð. Ákærði neitar sök.
Í lagaákvæði því sem ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn, þ.e. b lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 30/2007, segir: „Á skipi sem er styttra en 24 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður ef útivera skips fer fram úr 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili. Á skipi þar sem daglegur útivistartími er styttri en 14 klst. er heimilt að vera án stýrimanns, enda hafi skip fengið útgefna heimild þess efnis frá mönnunarnefnd. [Samgöngustofa]1) skal halda skrá yfir þau skip sem slíka heimild hafa hlotið. Séu reglur um skilyrtan útivistartíma brotnar skal mönnunarnefnd afturkalla heimildina.“
Samkvæmt gögnum málsins er skipið [...] 15,58 metrar að skráðri lengd og fellur því undir framangreint ákvæði. Samkvæmt umræddu lagaákvæði er fortakslaus skylda til að hafa stýrimann í áhöfn ef útivera skips fer fram úr 14 klukkustundum á hverju 24 klukkustunda tímabili. Ekkert liggur fyrir í málinu um að útivera skipsins umrætt sinn hafi verið umfram 14 klukkustundir á 24 klukkustunda tímabili. Þvert á móti kemur fram í gögnum málsins að veiðiferðin hafi hafist kl. 05:30 umræddan dag og áætluð lok hennar hafi verið innan við 14 klukkustundum síðar, eða kl. 19:00 þann sama dag. Er ekki byggt á því í ákæru að útiveran hafi verið umfram 14 klukkustundir.
Sé útivera skips þannig styttri en 14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili er heimilt að vera án stýrimanns, enda hafi skip fengið útgefna heimild þess efnis frá mönnunarnefnd. Þegar þannig stendur á að útivera skips er styttri en 14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili felst því brot gegn umræddu ákvæði í því að sigla skipinu án stýrimanns, án þess að hafa fengið til þess heimild frá mönnunarnefnd. Er það óhjákvæmilegur efnisþáttur í slíku broti að ekki hafi verið fengin heimild frá mönnunarnefnd til að sigla skipinu án stýrimanns. Hafi slík heimild verið fengin er sigling skipsins án stýrimanns refsilaus og ekki um brot að ræða.
Í ákæru kemur ekkert fram um vöntun á heimild frá mönnunarnefnd til þess að sigla skipinu án stýrimanns, en skortur á heimildinni er óhjákvæmilegur efnisþáttur í brotinu. Að mati dómsins skortir því á að lýst sé refsiverðri háttsemi í ákæru sbr. c lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en ekki verður ákærði sakfelldur fyrir aðra háttsemi en þá sem greinir í ákæruskjalinu sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 420/2005.
Er samkvæmt framansögðu óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi án kröfu.
Samkvæmt 218. gr. laga nr. 88/2008 verður sakarkostnaður ekki lagður á ákærða, en ekki liggur fyrir að annar kostnaður hafi hlotist af málinu en málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Jónssonar hrl., sem eru ákveðin kr. 450.120 að meðtöldum virðisaukaskatti og greiðist úr ríkissjóði.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Jónssonar hrl., kr. 450.120.