Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-46

A (Björgvin Jónsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Miskabætur
  • Gæsluvarðhald
  • Friðhelgi einkalífs
  • Ærumeiðingar
  • Vanhæfi
  • Lögmætisregla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 1. apríl 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. mars sama ár í máli nr. 149/2021: A gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili telur að sömu sjónarmið eigi við og í ákvörðun Hæstaréttar um áfrýjunarleyfi 19. febrúar 2021 nr. 25/2021, en gerir að öðru leyti ekki frekari athugasemdir við leyfisbeiðni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um miskabætur úr hendi gagnaðila vegna vistunar hans á öryggisdeild í fangelsinu Litla-Hrauni, framkvæmdar hennar og nánar tilgreindra ummæla er höfð voru eftir forstjóra Fangelsismálastofnunar í fjölmiðlum. Hann byggir á því að ummælin hafi verið ærumeiðandi í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og gert forstjórann og forstöðumann fangelsisins vanhæf til að taka ákvarðanir um málefni hans.

4. Í dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna. Í dómi héraðsdóms var rakið að ákvörðun um vistun leyfisbeiðanda á öryggisdeild sem og síðari framlenging hennar hefði átt sér fullnægjandi stoð í þágildandi lögum nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Hvorki var talið sýnt fram á að brotið hefði verið gegn andmælarétti leyfisbeiðanda, rannsóknar-, meðalhófs- eða jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, né að ákvörðun um vistun hefði falið í sér agaviðurlög í skilningi laga nr. 49/2005. Þá var talið ósannað að framkvæmd og tilhögun vistunar hefði verið ólögmæt svo að bótaskyldu varðaði. Jafnframt var talið ósannað að forstjóri Fangelsismálastofnunar hefði gert sig vanhæfan gagnvart leyfisbeiðanda með ummælum sínum í fjölmiðlum. Þá hefðu þau ekki falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart æru og persónu hans.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Þar um vísar hann meðal annars til þess að ákvörðun um vistun á öryggisdeild í 541 dag hafi skort lagastoð. Þá hafi hún og aðrar aðgerðir gegn honum falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart frelsi, friði og persónu hans, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Á því beri gagnaðili bótaábyrgð samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og sakarreglunni. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að gagnstæð niðurstaða Landsréttar um framangreint sé bersýnilega röng.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.