Hæstiréttur íslands
Mál nr. 538/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Víxill
|
|
Þriðjudaginn 18. október 2011 |
|
Nr. 538/2011.
|
Eignasýslan ehf. (Margrét Anna Einarsdóttir hdl.) gegn Ólafi Birni Ólafssyni (Grétar Hannesson hdl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Víxill.
Ó keypti fasteignina að Laugavegi 16 af B ehf. í febrúar 2009 og skuldbatt hinn síðarnefndi sig til að aflétta áhvílandi skuld á 2. veðrétti eignarinnar fyrir 15. júlí sama ár. Til tryggingar efndum þeirrar skuldbindingar lagði B ehf. fram tryggingavíxil, útgefinn af K og samþykktan til greiðslu af seljandanum, en E ehf. tók að sér að varðveita víxilinn. B ehf. aflétti ekki veðskuldinni og lagði Ó því í mars 2011 fram við héraðsdóm beiðni um að sér yrði afhentur víxillinn með beinni aðfarargerð. Hæstiréttur taldi að hlutverk E ehf., um að varðveita víxil seljanda fasteignarinnar, yrði ekki skilið öðru vísi en svo að E ehf. hafi borið að afhenda B ehf. víxilinn, sýndi hann fram á með órækum hætti að skuldbindingin væri efnd. Með sama hætti hafi E ehf. borið að afhenda Ó víxilinn, sýndi hann fram á vanefnd skuldbindingarinnar. Rétturinn vísaði til þess að Ó hefði lagt fram aðfararbeiðni tæpum tveimur árum eftir að B ehf. bar að aflétta veðskuldinni. Þá lágu fyrir í málinu upplýsingar um að bú eiganda B ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og að útgefandi áðurgreinds veðskuldabréfs, sem hvíldi á 2. veðrétti fasteignarinnar, hefði verið úrskurðaður gjaldþrota. Var krafa Ó því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. september 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 2011, þar sem varnaraðila var heimilað að fá tekinn með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila ódagsettan víxil að fjárhæð 27.000.000 krónur, sem gefinn var út af Karli Steingrímssyni og samþykktur af Borgarmiðjunni ehf., með árituninni: „Til tryggingar efndum á aflýsingu veðskuldar við SPRON á 2. veðrétti eignar Laugavegur 16, Rvk, sbr. kaups. um eignina dags. 20.02.2009.“ Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili tók að sér að varðveita víxil þann sem seljandi fasteignarinnar að Laugavegi 16 lagði fram til tryggingar efndum þeirrar skuldbindingar sinnar að aflétta áhvílandi skuld á 2. veðrétti eignarinnar. Það hlutverk sóknaraðila verður með vísan til gagna málsins ekki skilið öðru vísi en svo, að sóknaraðila hafi borið að afhenda seljanda eignarinnar víxilinn sýndi hann fram á með órækum hætti að skuldbindingin væri efnd, og með sama hætti hafi sóknaraðila borið að afhenda kaupanda eignarinnar, varnaraðila þessa máls, víxilinn sýndi hann fram á vanefnd skuldbindingarinnar. Þegar varnaraðili lagði hinn 11. mars 2011 fram við Héraðsdóm Reykjavíkur beiðni um að sér yrði afhentur víxillinn með beinni aðfarargerð voru tæp tvö ár liðin frá því seljandi eignarinnar skyldi hafa aflétt veðskuldinni. Þá er fram komið í málinu að seljandi fasteignarinnar, Borgarmiðjan ehf. er félag sem er að fullu í eigu Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf., en það félag mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2011. Þá mun Eignamiðjan ehf., útgefandi veðskuldabréfs þess sem hvílir á 2. veðrétti Laugavegar 16 hafa verið úrskurðuð gjaldþrota 7. janúar 2011. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Eignasýslan ehf., greiði varnaraðila, Ólafi Birni Ólafssyni, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 2011.
Með aðfararbeiðni, sem barst héraðsdómi 11. mars sl., hefur sóknaraðili, Ólafur Björn Ólafsson, kt. 050964-3109, Lúxemborg, krafist dómsúrskurðar um að tiltekinn víxill verði, með beinni aðfarargerð, tekinn úr vörslum varnaraðila og fenginn sóknaraðila í hendur.
Þessi víxill sé, nánar tiltekið, að fjárhæð 27.000.000 króna, gefinn út af Karli Steingrímssyni, kt. 190347-8269, en greiðandi og samþykkjandi sé Borgarmiðjan ehf. Hvorki útgáfudagur né gjalddagi séu skráðir á víxilinn. Á víxilinn sé ritað: „Til tryggingar efndum á aflýsingu veðskuldar við SPRON á 2. veðrétti eignar Laugavegur 16, Rvk, sbr. kaups. um eignina dags. 20.02.2009.“
Víxillinn sé, eftir því sem næst verði komist, á starfsstöð varnaraðila, Eignasýslunnar ehf., sem sé rekin undir nafni Stórborgar Fasteignasölu, Kirkjustétt 4, Reykjavík.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila svo og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Varnaraðili, Eignasýslan ehf., kt. 520109-2180, Kirkjustétt 4, Reykjavík, krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Til vara er þess krafist, nái kröfur sóknaraðila fram að ganga, að úrskurðað verði að kæra úrskurðar til Hæstaréttar fresti aðfarargerð.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila ásamt virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Málið var tekið til úrskurðar, 30. ágúst sl., að loknum munnlegum málflutningi.
Málavextir
Með kaupsamningi, 20. febrúar 2009, keypti sóknaraðili fasteignina að Laugavegi 16, Reykjavík, af Borgarmiðjunni ehf., kt. 570594-2819, Hafnarhvoli, Reykjavík. Að sögn sóknaraðila annaðist eigandi og starfsmaður varnaraðila, Stefán Hrafn Stefánsson, héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteignasali, gerð kaupsamningsins, skráði hann og vottaði. Samkvæmt kaupsamningnum nam heildarkaupverð eignarinnar 465.000.000 kr. og bar að greiða þannig:
A. Með greiðslu peninga, 48.000.000 kr.
1. Við undirritun kaupsamnings, 25.000.000 kr.
2. Hinn 16. júlí 2009, 16.500.000 kr.
3. Við útgáfu afsals, 3. október 2009, 6.500.000 kr.
B. Með yfirtöku 5 veðskuldabréfa á 1. veðrétti, alls að fjárhæð 276.594.867 kr.
C. Með veðskuldabréfi, að fjárhæð 140.405.133 kr., á 3. veðrétti sem færast skyldi á 2. veðrétt þegar skuldabréfi, sem fyrir væri, yrði aflétt af 2. veðrétti.
Ákvæði E-liðar kaupsamningsins varðar sérstaka tryggingu eftirstöðvaskuldabréfs samkvæmt ákvæði C-liðar. Leigugreiðslur af þeim hluta fasteignarinnar, sem nýttar eru undir lyfjabúð Lyfju ehf., skyldu leggjast inn á tiltekinn vörslureikning í Kaupþingi á nafni kröfuhafa. Tekið var fram að næmu leigugreiðslur, með áföllnum vöxtum, hærri fjárhæð en heildargreiðsla eftirstöðvaskuldabréfsins ár hvert, skyldi seljandi leggja mismuninn inn til kaupanda sama dag og greiðsla færi fram af umæddu bréfi.
Seljandi, Borgarmiðjan ehf., skuldbatt sig til að létta af fasteigninni, fyrir 15. júlí 2009, veðskuldabréfinu sem hvíldi á 2. veðrétti. Samkvæmt ákvæði B-liðar kaupsamningsins lagði Borgarmiðjan ehf. fram, til tryggingar á efndum sínum, persónulega ábyrgð, tryggingarvíxil að fjárhæð 27.000.000 kr., sem er í vörslum varnaraðila. Ákvæði kaupsamningsins um þetta er svohljóðandi: „Lán á 2. veðrétti SPRON upphafl. kr. 35.000.000,- hvílir á eigninni og annarri eign, Grensásvegi 16A en eftir á að aflýsa því af Laugavegi 16 (veðbandalausn). Seljandi ábyrgist að því verði lokið fyrir 15. júlí 2009.“ Þá er áréttað: „Ógreiddar útborgunargreiðslur skv. tl. 2. og 3. í útborgun eru til tryggingar því.“ Síðan segir: „Jafnframt leggur seljandi fram persónulega ábyrgð (tryggingarvíxil kr. 27.000.000,-) fyrir efndum þessum, sem Stórborg Fasteignasala varðveitir.“
Að sögn varnaraðila hefur sóknaraðili haldið eftir greiðslum samkvæmt töluliðum 2 og 3 til tryggingar því að aflétt verði þessu láni frá SPRON.
Seljandi, Borgarmiðjan ehf., er félag sem er að fullu í eigu Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. Síðarnefnda félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2011 og lýtur stjórn skiptastjóra. Að sögn varnaraðila lagði lögmaður sóknaraðila tillögu um lausn málsins fyrir skiptastjóra Vindasúlna ehf. Í henni hafi falist að skuldabréf fyrir eftirstöðvum kaupverðsins yrði lækkað, sem næmi upphæð þess veðskuldabréfs sem átti að aflétta, og að það skuldabréf yrði í staðinn yfirtekið með samþykki kröfuhafa. Sóknaraðili hafi einnig óskað eftir því að ógreiddar útborgunargreiðslur samkvæmt tölulið 2 og 3 í ákvæði A-liðar kaupsamningsins yrðu settar á skuldabréf.
Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa óskað efir því, munnlega, við Stefán Hrafn Stefánsson, eiganda varnaraðila, að hann afhenti sér umræddan víxil. Þá hafi þess verið krafist með bréfum, 1. og 7. mars sl., að varnaraðili afhenti lögmanni sóknaraðila umræddan víxil. Þessar málaleitanir sóknaraðila hafi verið árangurslausar. Hinn 11. mars 2011 hafi lögmanni sóknaraðila borist bréf, undirritað af Stefáni Hrafni, þar sem varnaraðili hafni kröfum sóknaraðila nema að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Að sögn sóknaraðila eiga þau ekkert skylt við þá skilmála sem fram komi í kaupsamingi um eignina.
Varnaraðili kveðst hafa hafnað því að afhenda víxilinn meðal annars vegna þess að niðurstaða hefði ekki fengist um þá tillögu að lausn ofangreinds máls sem sóknaraðili lagði fyrir skiptastjóra Vindasúlna ehf. Hafi varnaraðili talið eðlilegt að málið yrði fyrst afgreitt hjá skiptastjóra áður en hann afhenti sóknaraðila víxilinn. Ekki hafi heldur legið fyrir yfirlýsing frá SPRON, eiganda veðskuldabréfsins, þess efnis að við móttöku umrædds tryggingarvíxils myndi láni SPRON á 2. veðrétti verða létt af fasteigninni. Sóknaraðili hafi ekki svarað bréfi varnaraðila en hafi þess í stað höfðað þetta innsetningarmál.
Við fyrirtöku málsins, 15. apríl sl., krafðist varnaraðili þess að sóknaraðili legði fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Með úrskurði héraðsdóms, 21. júní sl., var þeirri kröfu hafnað.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt kaupsamningnum hafi seljanda borið að a) afhenda fasteignina 20. febrúar 2009, b) aflétta fyrir 15. júlí 2009, samkvæmt B-lið í kaupsamningi, veðskuldabréfi, útgefnu af Eignamiðjunni ehf., 4. október 2005, upphaflega að fjárhæð 35.000.000 kr., sem hvíli á 2. veðrétti á fasteigninni, c) gefa út afsal fyrir fasteigninni, 3. október 2009 og d) standa skil á mismun leigugreiðslna greiddum á vörslureikning og afborgunum á eftirstöðvaskuldabréfi.
Sóknaraðili byggir á því að það verði leitt af ákvæði kaupsamningsins um skyldu seljanda til að aflétta veðskuld, sem nú njóti 2. veðréttar í fasteigninni, að efni seljandi ekki þessa skyldu sína beri varnaraðila, Eignasýslunni ehf., að afhenda sóknaraðila þann víxil sem hafi verið settur til tryggingar því að veðinu yrði aflétt.
Seljandi fasteignarinnar, Borgarmiðjan ehf., sé að fullu í eigu Eignarhaldsfélagsins Vindasúlna ehf. Það félag hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, 25. janúar 2011, og lúti nú stjórn skiptastjóra. Því sé fyrirséð að seljandi muni ekki, úr þessu, bæta úr umræddum vanendum á kaupsamningi um eignina.
Að auki liggi fyrir að Eignamiðjan ehf., kt. 661199-2539, útgefandi þess veðskuldabréfs, sem hvíli á 2. veðrétti á fasteigninni, hafi verið úrskurðað gjaldþrota, 7. janúar 2011. Fyrirsjáanlegt sé því að útgefandi veðskuldabréfsins muni ekki greiða upp umrædda veðskuld.
Hinn 11. mars 2011 hafi lögmanni sóknaraðila borist bréf, undirritað af Stefáni Hrafni Stefánssyni fasteignasala þar sem varnaraðili hafni kröfum sóknaraðila nema að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum sem séu alls óskyld þeim skilmálum sem fram komi í kaupsamningi um eignina. Telji sóknaraðili að með þessari háttsemi brjóti Stefán Hrafn alvarlega gegn skyldum sínum sem fasteignasala, samkvæmt lögum nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, enda sé sóknaraðili löglegur eigandi umrædds víxils, samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins um fasteignina að Laugavegi 16, Reykjavík, og hafi fulla heimild til að krefjast afhendingar hans úr hendi varnaraðila.
Sóknaraðili telji skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför uppfyllt og beri að fallast á kröfu hans. Þrátt fyrir skýran rétt sóknaraðila til víxilsins hafi varnaraðili neitað að afhenda hann. Sóknaraðila sé því nauðugur sá kostur að krefjast þessarar gerðar.
Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, sbr. einnig meginreglu þeirra sem gildi um eignarrétt. Þá vísar hann til laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna og fyrirtækja, varðandi skyldur fasteignasala, sérstaklega til 14., 15. og 17. gr. laganna. Einnig er vísað til 12. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 78. gr. Um málskostnað er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að Borgarmiðjan ehf. hafi skuldbundið sig, samkvæmt ákvæði B-liðar kaupsamningsins, til að létta af fasteigninni, fyrir 15. júlí 2009, veðskuldabréfi sem njóti 2. veðréttar í henni. Til tryggingar á efndum sínum hafi Borgarmiðjan ehf. lagt fram persónulega ábyrgð, tryggingarvíxil að fjárhæð 27.000.000 króna, sem sé í vörslum varnaraðila.
Varnaraðili byggir á því að þessi tryggingarvíxill eigi einvörðungu að standa til tryggingar því að létt verði af fasteigninni að Laugavegi 16, skuldabréfi í eigu SPRON á 2. veðrétti eignarinnar, en ekki neinum öðrum viðskiptum aðila kaupsamningsins. Þetta verði lesið úr samningnum og að auki hafi aðilum verið þetta ljóst þegar samningurinn var gerður.
Samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför sé það lágmarksskilyrði fyrir aðför, að gerðarbeiðanda sé aftrað að neyta réttinda sem hann tjáir sig eiga og telji svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verði samkvæmt 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í greinargerð, er fylgdi frumvarpi er varð að lögum nr. 90/1989, segi meðal annars í athugasemdum við 78. og 79. gr. að það sé skilyrði beinnar aðfarargerðar að krafa gerðarbeiðanda sé skýr eða ljós, að um skýlaus réttindi sé að ræða eða að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst, að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana. Með 1. mgr. 78. gr., og með hliðsjón af fyrirmælum 83. gr., sé gerð tillaga um stuttorða lögfestingu á skilyrðum beinna aðfarargerða samkvæmt dómvenju. Ofangreind regla feli í sér að gera eigi mun strangari kröfur til styrkleika þeirrar sönnunar, sem gerðarbeiðandi færi fram fyrir réttindum sínum, heldur en verði annars gerðar í einkamálum.
Varnaraðili telji sóknaraðila ekki eiga rétt á að fá umráð margnefnds tryggingarvíxils sé hætta á að hann verði notaður í annað en að aflétta láni SPRON af 2. veðrétti fasteignarinnar þar sem tryggingarvíxillinn hafi einungis verið lagður fram til tryggingar ofangreindri veðbandalausn, en ekki neinum öðrum viðskiptum aðila eða öðru uppgjöri fjármuna í umræddum samningi. Gögn málsins og framkoma sóknaraðila í þessu máli beri með sér að hann muni að öllum líkindum ekki aflétta umræddu veðskuldabréfi fái hann víxilinn afhentan. Til þess sé einnig að líta að sóknaraðili hafi ekki greitt eina einustu krónu af þeim lánum sem hann hafi tekið yfir við kaupin á fasteigninni í febrúar 2009 og verði því að teljast líklegt að lánveitandi hans muni leita fullnustu í eigninni í nánustu framtíð.
Varnaraðili hafi leitast við að leysa málið með sóknaraðila. Hann hafi meðal annars verið tilbúinn að afhenda sóknaraðila víxilinn gegn því að fyrir lægi yfirlýsing SPRON, eiganda veðskuldabréfsins, þess efnis að við móttöku umrædds tryggingarvíxils yrði veðskuldinni aflétt af eigninni. Sóknaraðili hafi hafnað þeirri tillögu og hafi einungis viljað fá víxilinn afhentan. Því verði að telja líkur fram komnar fyrir því að sóknaraðili eigi ekki rétt á að fá afhentan víxilinn. Með vísan til 2. ml. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför beri að hafna kröfum sóknaraðila.
Til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili til meginreglna kröfu- og samningaréttar. Einnig er vísað til laga nr. 90/1989 um aðför og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Verði fallist á kröfu sóknaraðila krefst varnaraðili þess að dómari úrskurði að kæra til Hæstaréttar fresti aðfarargerð, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Til stuðnings þessari kröfu sinni byggir varnaraðili á því að réttur sóknaraðila til umrædds víxils sé ekki nógu glöggur til að taka megi víxilinn úr vörslum varnaraðila og fá hann sóknaraðila. Yrði sóknaraðila afhentur víxillinn og hann framseldi hann grandlausum framsalshafa, myndi greiðandi víxilsins, seljandi fasteignarinnar, Borgarmiðjan ehf., tapa öllum mótbárum gagnvart framsalshafanum, sbr. 11. gr. víxillaga nr. 93/1933. Sé lögsókn eða fjárnám hafið út af víxilkröfu, geti varnaraðili ekki borið fram neinar þær varnir gegn víxilhafa, er lúti að viðskiptum hans við útgefanda eða þá er áður áttu víxilinn, nema því aðeins, að víxilhafi, er hann eignaðist víxilinn, hafi af ásettu ráði viljað baka skuldara tjón samkvæmt 17. gr. víxillaga nr. 93/1933, sbr. 118. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem tilgreindar séu þær varnir, sem heimilt er að hafa uppi í víxilmáli.
Þar sem sóknaraðili búi erlendis verði mun erfiðara fyrir greiðanda víxilsins að leita réttar síns framselji sóknaraðili tryggingarvíxilinn. Greiðandi víxilsins þyrfti að öllum líkindum að höfða einkamál erlendis, sbr. 2. gr. laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.
Um lagarök er vísað til meginreglna kröfu- og samningaréttar. Einnig er vísað til víxillaga nr. 93/1933, laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, laga nr. 90/1989 um aðför og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Sóknaraðili krefst afhendingar á víxli, sem varnaraðili geymir. Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að Borgarmiðjan ehf., sem seldi honum fasteign, hafi vanefnt þá skyldu samkvæmt kaupsamningnum að létta af fasteigninni láni, sem tryggt er með 2. veðrétti í henni. Til tryggingar því að láninu yrði aflétt hafi seljandinn lagt fram þennan víxil. Vegna vanefnda seljanda hafi stofnast réttur sóknaraðila til að fá víxilinn afhentan sér.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, getur sá, sem telur öðrum manni skylt að veita sér umráð yfir öðru en fasteign, að fullnægðum nánar tilteknum skilyrðum, leitað innsetningargerðar án undangengins dóms eða sáttar til að fá slíka muni tekna úr vörslum þess manns og afhenta sér. Slíkri gerð verður eftir þessum lagaákvæðum að beina að þeim sem hefur umráð munanna. Þar sem ekki hefur verið vefengt að sá víxill, sem sóknaraðili krefst að verði afhentur sér, sé í umráðum varnaraðila þykir sóknaraðila heimilt að beina kröfu sinni að honum einum þrátt fyrir að skylda varnaraðila ráðist af mati á því hvort svonefndur „þriðji maður“, seljandi fasteignarinnar, hafi vanefnt tilgreint ákvæði kaupsamnings um hana.
Varnaraðili byggir á því að réttur sóknaraðila til umráða yfir víxlinum sé bundinn því skilyrði að víxillinn verði ekki notaður í annað en að aflétta láni SPRON af 2. veðrétti fasteignarinnar þar sem tryggingarvíxillinn hafi einungis verið lagður fram til tryggingar ofangreindri veðbandalausn, en ekki neinum öðrum viðskiptum aðila eða öðru uppgjöri fjármuna í umræddum samningi. Gögn málsins og framkoma sóknaraðila bendi til þess að hann muni að öllum líkindum ekki aflétta umræddu veðskuldabréfi fái hann víxilinn afhentan. Þar sem sóknaraðili hafi ekkert greitt af þeim lánum, sem hann hafi tekið yfir við kaup á umræddri fasteign í febrúar 2009, verði að teljast líklegt að lánveitandi hans muni leita fullnustu í eigninni í nánustu framtíð.
Samkvæmt framlögðum kaupsamningi bar sóknaraðila að greiða kaupverð fasteignarinnar með þrennu móti: a) með reiðufé, b) með veðskuldabréfi og c) með yfirtöku lána á 1. veðrétti. Hins vegar tók kaupandi ekki yfir lán sem hvíldi á 2. veðrétti. Þvert á móti bar seljanda, samkvæmt ákvæði kaupsamningsins, að aflétta því og ábyrgðist hann að því yrði lokið fyrir 15. júlí 2009. Um þetta atriði er ekki deilt. Til tryggingar því að láninu yrði aflétt voru gerðar tvær ráðstafanir. Önnur sú að tvær síðari peningagreiðslurnar bar seljanda ekki að inna af hendi fyrr en eftir 15. júlí 2009 og hin tryggingarvíxill sem seljandi lagði fram og er greiðandi að.
Samkvæmt framlögðu veðbókarvottorði yfir eignina hefur láninu á 2. veðrétti ekki enn verið létt af eigninni. Um þetta atriði er ekki heldur deilt. Með þeim takmörkuðu gögnum sem heimilt er að afla í málum sem þessum þykir sóknaraðili hafa sýnt fram á réttmæti kröfu sinnar þannig að með þeirri vanefnd Borgarmiðjunnar ehf., að létta veðinu ekki af eigninni innan tilskilins frests, hafi stofnast réttur sóknaraðila til að fá umráð þess víxils sem var settur til tryggingar því að veðinu yrði aflétt.
Skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför þykja því vera fyrir hendi. Vegna eðlis víxla, sem viðskiptabréfa, þykir ekki skipta máli þótt óvíst sé hvað sóknaraðili muni gera við tryggingarvíxilinn. Af þeim sökum getur sú málsástæða varnaraðila að ekki megi afhenda víxilinn nema tryggt sé að hann verði einungis notaður til að létta veðinu af eigninni ekki varpað slíkum vafa yfir réttmæti kröfu sóknaraðila að 3. mgr. 83. gr. laga um aðför eigi við. Þar fyrir utan hefur ekki annað komið fram en að seljandi fasteignarinnar hafi sjálfur valið að setja tryggingu sína fram í formi víxils og því hans val að taka þá áhættu sem fylgir viðskiptabréfum.
Ekki þykir heldur skipta máli þótt sóknaraðili hafi ekki enn innt tvær síðari peningagreiðslurnar af hendi enda virðist efndatímum og gjalddögum í kaupsamningnum stillt þannig upp að honum hafi ekki borið að inna aðra greiðsluna af hendi fyrr en veðinu hefði verið aflétt, það er að segja degi síðar, 16. júlí 2009. Þriðja greiðslan verður ekki gjaldkræf fyrr en við útgáfu afsals.
Varnaraðili krefst þess, verði ekki fallist á kröfur hans, að kveðið verði á um það í úrskurði að málskot til Hæstaréttar fresti aðfarargerð, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Fyrir þessari kröfu færði hann þau rök að framseldi sóknaraðili víxilinn grandlausum framsalshafa missti greiðandi víxilsins mótbárur sínar gagnvart framsalshafanum og gæti þurft að sækja rétt sinn gagnvart sóknaraðila í Lúxemborg, þar sem hann býr.
Regla 3. mgr. 84. gr. laganna er undantekningarregla sem einkum á við séu hagsmunir sem um er deilt ófjárhagslegs eðlis og tjón gerðarþola yrði ekki bætt með fégreiðslu. Þar sem ekki verður annað séð en að þeir hagsmunir, sem hér eru í húfi, séu eingöngu fjárhagslegir þykja ekki vera efni til að fallast á þessa kröfu varnaraðila.
Með vísan til þessarar niðurstöðu, 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, og umfangs málsins verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 500.000 kr. í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til skyldu sóknaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ekki eru efni til þess að mæla fyrir um heimild til fjárnáms fyrir málskostnaði og kostnaði af væntanlegri gerð vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Sóknaraðila, Ólafi Birni Ólafssyni, er heimilt að fá tekinn með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Eignasýslunnar ehf., ódagsettan víxil, að fjárhæð 27.000.000 króna, gefinn út af Karli Steingrímssyni, samþykktan til greiðslu af Borgarmiðjunni ehf., með áritunina: „Til tryggingar efndum á aflýsingu veðskuldar við SPRON á 2. veðrétti eignar Laugavegur 16, Rvk, sbr. kaups. um eignina dags. 20.02.2009.“
Varnaraðili greiði sóknaraðila 500.000 kr. í málskostnað.