Hæstiréttur íslands
Mál nr. 46/2007
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Líftrygging
- Meðalganga
- Dráttarvextir
- Gjafsókn
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 11. október 2007. |
|
Nr. 46/2007. |
Hannes Axelsson Patrekur Andrés Axelsson Jónína Sif Axelsdóttir og Sif Gunnlaugsdóttir (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn Margréti Guðnýju Hannesdóttur og (Páll Arnór Pálsson hrl.) Kaupþingi líftryggingum hf. (Anton Björn Markússon hrl.) og Kaupþing líftryggingar hf. gegn Margréti Guðnýju Hannesdóttur |
Vátryggingarsamningur. Líftrygging. Meðalganga. Dráttarvextir. Gjafsókn. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
Ágreiningur aðila laut að því hver eða hverjir teldust rétthafar tveggja líftrygginga, sem A hafði verið með hjá K hf. Var félaginu stefnt til greiðslu líftryggingafjárhæðarinnar. Á það var fallist með M, fyrrverandi eiginkonu A, að hann hefði tilnefnt hana sem rétthafa líftrygginganna að öllu leyti. Þá var talið að A hefði með sérstökum yfirlýsingum afsalað sér rétti til að afturkalla tilnefningu M sem rétthafa líftrygginganna. Samkvæmt því var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að henni bæri öll fjárhæð samkvæmt líftryggingunum. Fyrir Hæstarétti krafðist K hf. þess að dráttarvextir stefnufjárhæðarinnar skyldu greiðast frá uppkvaðningu héraðsdóms 20. október 2006 en ekki 1. mars 2005 eins og héraðsdómur féllst á. Vísaði félagið til þess að ágreiningur hefði verið um hver hefði átt rétt til greiðslu líftrygginganna og benti í því sambandi á 3. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Ekki var talið að þetta ákvæði hefði veitt K hf. stoð fyrir frestun greiðslu líftrygginganna. Þar sem ekki væri ágreiningur um að félagið hefði fengið fullnægjandi upplýsingar um andlát A 14 dögum fyrir það tímamark, sem M miðaði upphafstíma dráttarvaxta við, var héraðsdómur staðfestur að þessu leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjendur, Hannes Axelsson, Patrekur Andrés Axelsson og Jónína Sif Axelsdóttir, skutu málinu til Hæstaréttar 19. janúar 2007. Þau krefjast þess aðallega að Kaupþing líftryggingar hf. greiði þeim hverju fyrir sig 1.617.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2005 til greiðsludags. Til vara krefjast þau að Kaupþing líftryggingar hf. greiði þeim hverju fyrir sig 313.750 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2005 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt á báðum dómstigum. Til vara gera þau kröfu um að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Áfrýjandinn Sif Gunnlaugsdóttir skaut málinu til Hæstaréttar 19. janúar 2007. Hún krefst þess að Kaupþing líftryggingar hf. greiði henni 941.250 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2005 til greiðsludags. Þá krefst hún aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.
Héraðsdómi var áfrýjað af hálfu Kaupþings líftrygginga hf. 19. janúar 2007. Félagið krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði breytt þannig að dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 greiðist frá 20. október 2006. Ef fallist verði á kröfur annarra áfrýjenda á hendur félaginu skuli dráttarvextir einnig greiðast frá 20. október 2006. Þá krefst félagið málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda, Margrét Guðný Hannesdóttir, krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi í héraði KB Líf hf. hefur nú nafnið Kaupþing líftryggingar hf.
I
Stefnda, Margrét Guðný Hannesdóttir, höfðaði mál þetta með stefnu birtri 28. október og 8. nóvember 2005 á hendur öllum áfrýjendum. Málið var þingfest 10. nóvember 2005. Hún gerði annars vegar kröfu á hendur áfrýjandanum Kaupþingi líftryggingum hf. um að félaginu yrði gert að greiða henni 7.723.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2005 til greiðsludags. Hins vegar gerði hún kröfu á hendur öðrum áfrýjendum um að viðurkennt yrði að þeir teldust ekki rétthafar umþrættra líftrygginga nr. 38511 og nr. 41912. Allir áfrýjendur tóku til varna og kröfðust hver um sig sýknu af kröfum stefndu samkvæmt greinargerðum lögðum fram 26. janúar 2006. Þá voru af hálfu áfrýjendanna Hannesar, Patreks og Jónínu annars vegar og Sifjar hins vegar einnig lagðar fram stefnur á hendur áfrýjandanum Kaupþingi líftryggingum hf. og stefndu með yfirskriftinni „meðalgöngustefna“. Þar kröfðust þau að þeim yrði heimiluð meðalganga í málinu og að áfrýjandanum Kaupþingi líftryggingum hf. yrði gert að greiða þeim tilgreindar fjárhæðir vegna hinna umþrættu líftrygginga. Til vara kröfðust áfrýjendurnir Hannes, Patrekur og Jónína þess að ef ekki yrði fallist á kröfu áfrýjandans Sifjar um greiðslu úr hendi Kaupþings líftrygginga hf. skyldu þeim greiddar hverju um sig 1/3 þeirrar fjárhæðar sem hún krafðist. Hvorki stefnda né Kaupþing líftryggingar hf. kröfðust þess í héraði að synjað yrði um meðalgöngu í málinu en kröfðust sýknu.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Skal hann þá stefna báðum eða öllum upphaflegu aðilunum og gera kröfu um að honum verði leyfð meðalgangan og dæmt sakarefnið eða dómur annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður. Eins og að framan er rakið voru áfrýjendurnir Hannes, Patrekur, Jónína og Sif málsaðilar við upphaf málsins og skoðast þau því ekki sem þriðju menn í skilningi ákvæðisins. Eins og málið lá fyrir 26. janúar 2006 voru ekki skilyrði til að heimila þeim að koma dómkröfum sínum að með þessum hætti. Verður meðalgöngu þessara aðila í héraði því synjað og kröfum þeirra í nefndum stefnum vísað frá héraðsdómi án kröfu.
II
Telja verður að með úrlausn sinni um greiðsluskyldu áfrýjandans Kaupþings líftrygginga hf. gagnvart stefndu hafi héraðsdómari fallist á viðurkenningarkröfu hennar á hendur öðrum áfrýjendum. Þá verður litið svo á að þessir áfrýjendur geri jafnframt kröfu fyrir Hæstarétti um sýknu af viðurkenningarkröfu stefndu. Áfrýjandinn Kaupþing líftryggingar hf. unir héraðsdómi að öðru leyti en hvað varðar ákvörðun upphafsdags dráttarvaxta. Krefst hann þess að fjárkrafa stefndu beri dráttarvexti frá uppsögu héraðsdóms 20. október 2006. Þrátt fyrir að héraðsdómari geri ekki með skýrum hætti rökstudda grein fyrir ákvörðun sinni um upphafstíma dráttarvaxta verður að ætla að hann byggi úrlausn sína um það atriði á því að tilnefning á rétthafa umræddra líftrygginga hafi verið óafturkallanleg og gjalddagi hafi af þeim sökum verið sá sem stefnda miðar við. Því koma ofangreind atriði til endurskoðunar hér fyrir dómi, en málsástæðum og lagarökum fyrir kröfum þessum er lýst í héraðsdómi.
III
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Þó skal þess getið að stefnda og Axel Emil Gunnlaugsson munu hafa skilið að borði og sæng 5. september 2000 eða nokkru áður en þau rituðu undir þau eyðublöð hjá áfrýjandanum Kaupþingi líftryggingum hf. í febrúar 2001 sem um ræðir í máli þessu. Á eyðublöð „um breytingu á bótaþegum“ rituðu þau „100%“ fyrir aftan nöfn hvors annars, en tilgreindu einnig börn sín sem rétthafa. Ekki er fallist á með héraðsdómara að vitnisburður Helga Hannessonar styðji niðurstöðu dómsins um ástæðu þessara breytinga. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, er fallist á þá niðurstöðu að Axel hafi tilnefnt stefndu sem rétthafa líftrygginganna að öllu leyti. Með vísan til forsendna héraðsdóms er einnig fallist á að Axel hafi með sérstökum yfirlýsingum afsalað sér rétti til að afturkalla tilnefningu stefndu sem rétthafa líftrygginga hans. Er því fallist á kröfu stefndu um að henni beri einni öll fjárhæð samkvæmt líftryggingum Axels nr. 38511 og nr. 41912.
IV
Um kröfu sína fyrir Hæstarétti vísar áfrýjandinn Kaupþing líftryggingar hf. einkum til ákvæða 24. gr. og 3. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Fallist er á að nefnd lög eigi við um lögskipti þessi, þrátt fyrir ákvæði 146. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga þar sem andlát Axels Emils Gunnlaugssonar bar að áður en þau lög tóku gildi 1. janúar 2006.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954 má krefja vátryggingafélag um greiðslu bóta 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga er þörf var á til þess að meta vátryggingaratburðinn og ákveða upphæð bótanna. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal félagið greiða vexti af fjárhæðinni frá gjalddaga í samræmi við ákvæði laga um vexti. Áfrýjandinn Kaupþing líftryggingar hf. telur þrátt fyrir þetta að greiðsluskylda sín hafi ekki orðið virk sökum þess að ágreiningur hafi verið um hver væri rétthafi líftrygginganna. Meðan ekki hafi verið leyst úr þeim ágreiningi fyrir dómi geti ofangreint lagaskilyrði ekki verið uppfyllt. Vísar hann um þetta til 3. mgr. 104. gr. laganna þar sem segir að hafi vátryggingarfjárhæð samkvæmt 102. gr. enn eigi verið greidd hinum tilnefnda rétthafa og gefi sig einhver fram við félagið og sanni nægilega með því að sýna hjúskaparvottorð, útskrift af skiptagerð eða með einhverju þess háttar, að hann sé einn af eftirlátnum vandamönnum vátryggingartaka, þeirra er getur um í 2. mgr., og beri af þeim sökum fram mótmæli gegn því, að fjárhæðin sé greidd hinum tilnefnda rétthafa, og megi þá félagið ekki greiða fjárhæðina, fyrr en skorið hefur verið úr með sátt eða lögsókn milli aðila, hver eigi rétt á fjárhæðinni. Félaginu sé þó ávallt rétt að greiða hinum tilnefnda rétthafa allt að þriðjungi vátryggingarfjárhæðarinnar eða hæfilegan útfararkostnað vátryggingartaka hafi hann annast um útför hans.
Í 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1954 segir að vátryggingarfjárhæð skuli renna til dánarbús vátryggingartaka ef greiða eigi fjárhæðina við lát hans og hann hefur eigi tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað. Ákvæði 2. mgr. 104. gr. laganna, sem vísað er til í 3. mgr. greinarinnar, tekur til þeirra tilvika er vátryggingartaki hefur tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, og sá maður er ekki skylduerfingi hans, en vátryggingartaki lætur eftir sig maka, lífserfingja, arfgeng kjörbörn eða lífserfingja þeirra. Skal þá farið með vátryggingarfjárhæðina, að því er varðar búshluta og skylduarf til þessara manna, eins og hún heyrði til dánarbúinu og vátryggingartaki hefði ánafnað þeim, er hann tilnefndi í sinn stað, hana með arfleiðsluskrá. Í lok ákvæðisins er sérstaklega tekið fram að ákvæðið gildi þó eigi ef vátryggingartaki hefur afsalað sér rétti til að afturkalla ánöfnunina.
Eins og fram hefur komið afsalaði Axel heitinn sér rétti til afturköllunar á tilnefningu stefndu sem rétthafa umþrættra líftrygginga og eru því atvik slík sem getið er um í lokamálslið 2. mgr. 104. gr. laganna. Veitti ákvæði 3. mgr. 104. gr. laganna áfrýjandanum Kaupþingi líftryggingum hf. því ekki stoð fyrir frestun greiðslu líftryggingafjárhæðarinnar. Ekki er ágreiningur í málinu um að þessi áfrýjandi hafi fengið fullnægjandi upplýsingar um andlát Axels Emils Gunnlaugssonar 14 dögum fyrir það tímamark er stefnda miðar upphafstíma dráttarvaxtakröfu sinnar við. Verður samkvæmt framansögðu fallist á kröfu stefndu um þetta.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Um gjafsóknarkostnað fer eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Kröfum áfrýjendanna Hannesar Axelssonar, Patreks Andrésar Axelssonar, Jónínu Sifjar Axelsdóttur og Sifjar Gunnlaugsdóttur um meðalgöngu er hafnað og kröfum samkvæmt meðalgöngustefnum þeirra vísað frá héraðsdómi.
Dómsorð hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjendanna Hannesar Axelssonar, Patreks Andrésar Axelssonar og Jónínu Sifjar Axelsdóttur fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 500.000 krónur.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Margrétar Guðnýjar Hannesdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. september, er höfðað með stefnu birtri 28. október 2005 og 8. nóvember sama árs.
Stefnandi er Margrét Guðný Hannesdóttir, Kríuhólum 2, Reykjavík.
Stefndu eru KB-líf hf., Sóltúni 26, Reykjavík, Sif Gunnlaugsdóttir, Lautasmára 16, Kópavogi og Margrét Gunnlaugsdóttir, Ásbúð 23, Garðabæ, sem fjárhaldsmaður hinna ólögráða barna Hannesar Axelssonar, Patreks Andrésar Axelssonar og Jónínu Sifjar Axelsdóttur, öllum til heimilis að Kríuhólum 2, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda, KB lífi hf., verði gert að greiða stefnanda kr. 7.723.000 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. mars 2005 til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess jafnframt að viðurkennt verði með dómi að stefndu, Hannes Axelsson, Patrekur A. Axelsson og Jónína Sif Axelsdóttir, teljist ekki rétthafar trygginga nr. 38511 og 41912 hjá stefnda, KB lífi hf.
Þá krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Sif Gunnlaugsdóttur, teljist ekki rétthafi tryggingar nr. 41912 hjá stefnda, KB lífi hf.
Til vara er þess krafist að stefnda, KB lífi hf., verði gert að greiða stefnanda 1.930.750 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. mars 2005 til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi jafnframt að viðurkennt verði með dómi að stefndu Hannes Axelsson, Patrekur A. Axelsson, Jónína Sif Axelsdóttir og Sif Gunnlaugsdóttur, teljist eingöngu rétthafar þriggja fjórðu hluta tryggingafjárhæða trygginga nr. 38511 og 41912 hjá stefnda, KB lífi hf.
Varakrafa um vexti er að stefnda KB líf hf. verði gert að greiða stefnanda vexti, af tryggingarfjárhæðum nr. 38511 og 41912, skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2005 til greiðsludags.
Í öllum tilvikum er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Af hálfu stefnda, KB-lífs hf., er krafist sýknu og málskostnaðar.
Af hálfu stefndu, Sifjar Gunnlaugsdóttur, er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.
Af hálfu stefndu, Margrétar Gunnlaugsdóttur, f.h. Hannesar, Patreks Andrésar og Jónínu Sifjar Axelsbarna, er krafist sýknu og málskostnaðar.
Stefnda, Sif Gunnlaugsdóttir, höfðaði meðalgöngusök á hendur stefnanda og stefnda með meðalgöngustefnu birtri 25. janúar. Krefst hún þess að meðalganga hennar verði leyfð í máli þessu. Þá krefst hún þess að meðalgöngustefnda, KB-lífi hf., verði gert að greiða meðalgöngustefnanda 941.250 krónur, sem eru þrír fjórðu hlutar (3/4) tryggingarfjár líftryggingar nr. 41912, með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 1. mars 2005 að telja til greiðsludags.
Loks er undir báðum kröfuliðum krafist að meðalgöngustefndu verði dæmdir til að greiða meðalgöngustefnanda málskostnað.
Stefnda, Margrét Gunnlaugsdóttir, f.h. Hannesar, Patreks Andrésar og Jónínu Sifjar Axelsbarna, höfðaði meðalgöngusök á hendur stefnanda og stefnda. Krefst hún þess að meðalganga Hannesar Axelssonar, Patreks Andrésar Axelssonar og Jónínu Sifjar Axelsdóttur, verði leyfð í máli þessu. Þá er þess krafist að, KB-líf hf., verði gert að greiða meðalgöngustefnendum, þeim Hannesi Axelssyni 1.617.000 krónur, Patreki Andrési Axelssyni 1.617.000 krónur og Jónínu Sif Axelsdóttur 1.617.000 krónur, eða öllum samtals 4.851.000 krónur eða þrjá fjórðu hluta (3/4) tryggingarfjár líftryggingar nr. 38511, með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 1. mars 2005 að telja til greiðsludags.
Þá er þess að auki, og aðeins til vara, krafist að meðalgöngustefndi, KB-líf hf., verði gert að greiða meðalgöngustefnendum Hannesi Axelssyni 313.750 krónur, Patreki Andrési Axelssyni 313.750 krónur og Jónínu Sif Axelsdóttur 313.750 krónur, eða öllum samtals 941.250 krónur eða þrjá fjórðu hluta (3/4) tryggingarfjár líftryggingar nr. 41912, með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 1. mars 2005 að telja til greiðsludags, komi til þess að dómurinn fallist á aðalkröfu meðalgöngustefndu, Margrétar Guðnýjar Hannesdóttur, um að viðurkennt verði með dómi að Sif Gunnlaugsdóttir, kt. 190464-2459, teljist ekki rétthafi tryggingar nr. 41912 hjá meðalgöngustefnda, KB-lífi hf.
Meðalgöngustefndi, KB-líf hf., krefst sýknu af öllum kröfum meðalgöngustefnenda og málskostnaðar.
Meðalgöngustefndi, Margrét Guðný Hannesdóttir, gerir sömu kröfur á hendur meðalgöngustefnendum og í stefnu og krefst sýknu af málskostnaðarkröfu meðalgöngustefnenda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi meðalgöngustefnenda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
MÁLAVEXTIR
Stefnandi var í hjúskap með Axel Emil Gunnlaugssyni. Á hjúskapartímanum eignuðust þau börnin Hannes, Patrek Andrés og Jónínu Sif. Á meðan á hjónabandi þeirra stóð tóku stefnandi og Axel Emil sjúkra- og líftryggingar hjá Alþjóða líftryggingafélaginu, nú stefnda, KB lífi hf., tvær tryggingar hvort, annars vegar sjúkdóma- og líftryggingu og hins vegar líftryggingu. Upphafleg fjárhæð sjúkdóma- og líftrygginganna var 2.000.000 króna og líftrygginganna 5.000.000 króna.
Í umsókn um líftryggingu til handa Axel Emil, dags. 13. janúar 1997, sem fékk síðar númerið 38511, var í 5. kafla umsóknarinnar „Ánöfnun rétthafa“, tilgreint nafn stefnanda og barna stefnanda og Axels Emils. Í umsókn um sjúkdóma- og líftryggingu Axels Emils, dags. 19. nóvember 1998, (sem síðar fékk númerið 41912) var hakað við ánöfnun líftryggingarhluta hennar í reit þar sem kveðið var á um að líftrygging rynni til maka tryggingartaka.
Eftir að tryggingar þessar voru teknar, nánar tiltekið árið 1999, veiktist Axel Emil af alvarlegum taugasjúkdómi. Í kjölfarið var greiddur út sjúkratryggingarhluti sjúkdóma- og líftryggingar hans. Stóð þá eftir líftrygging Axels Emils sem fékk númerið 41912.
Með tilkynningum, dags. 22. febrúar 2001, tilkynnti Axel Emil til stefnda, KB lífs hf., breytingu á bótaþegum fyrrnefndra trygginga. Tilgreindi hann þar stefnanda sem aðalrétthafa, með því að setja 100% fyrir aftan nafn hennar. Fyrir neðan setti hann nafn barna sinna. Heldur stefnandi því fram að það hafi verið gert í þeim tilgangi að þau yrðu rétthafar ef stefnanda nyti ekki lengur við. Hafi þetta verið samkvæmt fyrirmælum frá ráðgjafa Alþjóða líftryggingafélagsins. Umræddar tilkynningar voru samhljóða og undirritaði stefnandi samskonar tilkynningar varðandi sínar líftryggingar, þ.e. að Axel Emil yrði aðalrétthafi, sbr. 100% hlutfall, og börn þeirra rétthafar ef hans nyti ekki við.
Samhliða gerð þessara yfirlýsinga undirritaðu Axel Emil og stefnandi yfirlýsingu um óafturkallanlega tilnefningu á rétthafa líftryggingafjárhæðar trygginga sinna, dags. 22. febrúar 2001 og 23. febrúar 2001. Með þeim yfirlýsingum afsalaði Axel Emil rétti sínum til að afturkalla tilnefningu stefnanda sem rétthafa líftrygginga hans nr. 38511 og 41912.
Upp úr sambandi stefnanda og Axels Emils slitnaði nokkrum mánuðum eftir undirritun yfirlýsinga þessara og þau skildu árið 2002.
Axel Emil bjó síðustu árin einn en var mikið á sjúkrahúsi. Með yfirlýsingum, dags. 11. mars 2002, freistaði Axel Emil þess að breyta rétthöfum umræddra trygginga og tilnefndi annars vegar systur sína, Sif Gunnlaugsdóttur, sem rétthafa tryggingar nr. 41912 og hins vegar börn sín sem rétthafa tryggingar nr. 38511.
Axel Emil andaðist hinn 10. febrúar 2005. Óskað var eftir opinberum skiptum á búi hans með bréfi Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 20. apríl 2005, en búið var eignalaust. Eftir andlát Axels Emils var lögð fram yfirlýsing í hans nafni, dags. 15. nóvember 2004, þar sem farið er fram á að Margrét Gunnlaugsdóttir, systir hins látna, verði skipuð fjárhaldsmaður barna hans og stefnanda. Hinn 19. apríl 2005 skipaði sýslumaðurinn í Reykjavík, gegn mótmælum stefnanda, Margréti Gunnlaugsdóttur fjárhaldsmann barna stefnanda, vegna skipta á dánarbúi föður þeirra, Axels Emils Gunnlaugssonar, og kröfu til tryggingafjár skv. líftryggingum hins látna.
Skipun Sýslumannsins í Reykjavík á fjárhaldsmanni var staðfest með úrskurði Dómsmálaráðuneytisins, dags. 13. september 2005.
Með bréfi, dags. 8. apríl 2005, krafði lögmaður stefnanda Alþjóðlega líftryggingafélagið hf., nú stefnda, KB líf hf., um greiðslu úr tryggingum hins látna í samræmi við tilnefningar, dags. 22. febrúar 2001. Á fundi lögmanna með lögmanni KB lífs hf., dags. 30. júní 2005, var því hins vegar lýst yfir af hálfu lögmanns KB líf hf. að ef ágreiningur væri með stefnanda og stefndu um hver væri rétthafi líftrygginganna, myndi félagið halda eftir greiðslum þar til leyst hefði verið úr ágreiningi þar um.
Eftir óformlegar viðræður aðila er ljóst að ágreiningur er milli stefnanda og stefndu um greiðslu bótafjár. Er því stefnanda nauðugur einn kostur að höfða mál á hendur stefndu KB líf hf. annars vegar til greiðslu á fjárhæðum skv. fyrrnefndum tryggingum og hins vegar öðrum stefndu til viðurkenningar á því að stefnandi sé ein rétthafi umræddra trygginga.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Aðalkröfur stefnanda
Stefnandi byggir á því að stefndi, KB líf hf., og Axel Emil Gunnlaugsson hafi gert með sér tvo bindandi vátryggingarsamninga um að Axel Emil keypti líftryggingar af stefnda, með samþykki stefnda á vátryggingarumsóknum Axels Emils, dags. 4. febrúar 1997 og 23. nóvember 1998. Samkvæmt skýrum ákvæðum yfirlýsinga, dags. 22. febrúar 2001, sem teljist hluti af vátryggingarsamningum hafi vátryggingartaki, Axel Emil, tilnefnt stefnanda sem viðtakanda allra greiðslna skv. vátryggingasamningum við andlát hans í samræmi við 1. mgr. 102. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Samhliða því hafi Axel Emil, með yfirlýsingum, dags. 22. og 23. febrúar 2001, sem einnig teljist hluti af samningunum, afsalað rétti sínum til að afturkalla þessa tilnefningu stefnanda, skv. heimild í 2. mgr. 104. gr. nr. 20/1954. Er á því byggt að á grundvelli þessa sé stefndi, KB líf hf., bundinn af samningum sínum við Axel Emil og beri skv. fyrrnefndum grundvallarreglum að efna hann skv. orðanna hljóðan.
Vátryggingartaki, Axel Emil, hafi látist hinn 10. febrúar 2005, og hafi þá stofnast greiðsluskylda skv. vátryggingarsamningunum. Samkvæmt efni hans beri stefnda KB líf hf. að greiða stefnanda hinar umstefndu tryggingarfjárhæðir, verðbættar í samræmi við ákvæði tryggingarskilmálanna.
Stefnandi byggir á því að yfirlýsingar, dags. 22. febrúar 2001, um tilnefningu á rétthöfum séu skýrar og túlkun þeirra ekki neinum vafa undirorpin. Fyrir aftan nafn stefnanda sé ritað 100%, sem sé ótvíræð sönnun þess að hún ein sé rétthafi umræddra líftrygginga. Nöfn barna hennar á yfirlýsingunni hafi verið sett þar, vegna upplýsinga frá starfsmanni stefnda, KB lífs hf., sem nöfn rétthafa ef stefnanda nyti ekki lengur við þegar tryggingin væri greidd út. Börn stefnanda séu því vararétthafar tryggingarinnar, en stefnandi aðalrétthafi.
Í þessu sambandi beri til þess að líta að stefnandi og Axel Emil tóku bæði líftryggingar hjá stefnda, KB lífi hf., og undirrituðu í febrúar 2001 samskonar tilnefningar á rétthöfum. Hafi það verið ótvíræður skilningur þeirra beggja að þau væru að tilnefna hvort annað sem 100% rétthafa trygginga sinna. Þessu til stuðnings er einnig á það bent að á tryggingarumsókn, dags. 13. janúar 2001, um tryggingu nr. 38511, sé stefnandi tilgreindur sem rétthafi ásamt börnum stefnanda og Axels Emils. Hefði því verið ástæðulaust fyrir Axel Emil að breyta tilnefningum skv. tryggingunni ef tilgangur Axels Emils hefði ekki verið að breyta tilnefningu rétthafa og tilnefna stefnanda sem eina rétthafa tryggingarinnar.
Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að með yfirlýsingum, dags. 22. og 23. febrúar 2001, hafi Axel Emil afsalað sér rétti til að breyta tilnefningu stefnanda sem 100% rétthafa hinna umstefndu trygginga. Samkvæmt skýru orðalagi yfirlýsingarinnar verði tilnefningunni ekki breytt án samþykkis rétthafa. Slíkt samþykki hafi aldrei verið veitt af stefnanda og stefnanda aldrei tilkynnt um þessar breytingar né óskað eftir samþykki hennar á þeim.
Stefnandi telur yfirlýsingar þessar í fyrsta lagi fela í sér enn frekari sönnun þess að stefnandi sé ein rétthafi trygginganna. Í öðru lagi heldur stefnandi því fram að í ljósi þessara óafturkallanlegu yfirlýsinga hafi Axel Emil verið óheimilt að breyta tilnefningu rétthafa með yfirlýsingum, dags. 11. mars 2002, þar sem hann hafði þá áður beinlínis afsalað sér þeim rétti.
Í ljósi fyrrnefnds afsals stefnanda, á rétti til að breyta tilnefningu rétthafa trygginganna, byggir stefnandi á því að yfirlýsingar Axels Emils, um breytingar á rétthöfum trygginganna, dags. 11. mars 2002, séu ógildar og að engu hafandi. Beri því að líta fram hjá tilnefningu Axels Emils, dags. 11. mars 2002 á stefndu Sif Gunnlaugsdóttur, sem rétthafa tryggingar nr. 41912, og tilnefningu Axels Emils, dags. 11. mars 2002 á stefndu Hannesi Axelssyni, kt. 010991-2269, Patreki Andrési Axelssyni, kt. 120194-2169, og Jónínu Sif Axelsdóttur, kt. 200197-3059, sem rétthafa tryggingar nr. 38511.
Að öllu þessu virtu telur stefnandi ljóst að Axel Emil Gunnlaugsson hafi tilnefnt stefnanda sem 100% rétthafa líftrygginga nr. 38511 og 41912, sem teknar voru hjá stefnda, KB lífi hf. Jafnframt hafi Axel Emil afsalað sér rétti til að breyta tilnefningu, án samþykkis stefnanda. Breytingar Axels Emils á rétthöfum trygginganna séu því ógildar og beri því að líta fram hjá þeim. Af þessum sökum verði að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu hinnar umstefndu tryggingafjárhæða og viðurkenningakröfur um að stefnandi teljist ein rétthafi trygginganna.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á því að samkvæmt tryggingarskilmálum stofnist greiðsluskylda stefnda, KB lífs hf., 14 dögum eftir að fullnægjandi sannanir bárust félaginu um greiðsluskyldu þess, t.d. dánarvottorð hins látna. Stefndi telur sýnt að stefndi, KB líf hf., hafi í síðasta lagi 15. febrúar 2005 haft undir höndum fullnægjandi gögn um greiðsluskyldu þess og því teljist gjaldagi greiðslunnar vera 14 dögum seinna eða 1. mars 2005. Beri stefnda, KB lífi hf., því að greiða dráttarvexti skv. 5. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma.
Varakrafa stefnanda.
Varakrafa stefnanda byggir á því að verði ekki fallist á að stefnandi sé ein rétthafi tryggingafjár trygginga nr. 38511 og 41912, beri að fallast á að hún sé rétthafi fjórðungs hluta tryggingafjárins, en börn stefnanda og Axels Emils, rétthafar þriggja fjórðu hluta. Stefnandi byggir varakröfu sína á því að skv. tilnefningum rétthafa trygginganna, dags. 22. febrúar 2001, sé hún tilgreind rétthafi ásamt börnum sínum. Samtals séu fjórir rétthafar tilnefndir skv. tryggingunni og beri því að greiða hverjum þeirra um sig fjórðung tryggingafjárins.
Vísar stefnandi til þess að Axel Emil hafi með afsali á rétti til að afturkalla tilnefningarnar, dags. 22. og 23. febrúar 2001, afsalað sér rétti til þess að svipta stefnanda fyrrnefndum fjórðungsrétti sínum í tryggingafénu og því séu breytingar Axels Emils á tilnefningu rétthafa, dags. 22. mars 2002, ógildar.
Að öðru leyti vísast til málsástæðna varðandi aðalkröfu eftir því sem við á.
Varakröfu um vexti styður stefnandi við það að krafa stefnanda á hendur stefnda sé skaðabótakrafa og beri því vexti skv. ákvæðum 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá tjónsdegi. Ekki liggi fyrir hvort stefndi, KB líf hf., hafi geymslugreitt tryggingafjárhæðir skv. hinum umstefndu tryggingum á grundvelli 2. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954, en telja verður að umræddar fjárhæðir beri í öllu falli vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001. Verði ekki fallist á að umrætt ákvæði eigi við umræddar fjárhæðir skv. orðanna hljóðan er á því byggt að beita beri því með lögjöfnun um stefnufjárhæðir máls þessa.
Stefnandi vísar til III. kafla laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, einkum 102., 104 og 108 gr.
Um varnarþing er vísað til ákvæða 32., 33. og 1. mgr. 42. gr. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.
Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Af hálfu stefnda, KB-lífs hf., er vísað til þess að tryggingafélagið hafi ekki mátt greiða bætur fyrr en skorið yrði úr ágreiningi um hver rétt eigi á fjárhæðinni, sbr. 3. mgr. 104. gr. laga nr. 29/1954 um vátryggingasamninga en tekið er fram að engin afstaða sé tekin til þess hvaða aðila beri bætur. Þá kveður stefndi sér ekki hafa verið fært að greiða út bætur og mótmælir því dráttarvaxtakröfu stefnanda.
Af hálfu stefndu, Sifjar Gunnlaugsdóttur, er vísað til þess að Axel Emil hafi tilkynnt um breytingu á bótaþegum á líftryggingu nr. 41912 hinn 4. mars 2002. Þáverandi rétthafar bóta hafi verið stefnandi og sameiginleg börn þeirra beggja, Hannes, Patrekur Andrés og Jónína Sif. Frá og með 11. febrúar 2002 skyldi stefnda, Sif Gunnlaugsdóttir, ein verða bótaþegi skv. tryggingu nr. 41912. Með tilkynningunni um breytingu á bótaþegum frá 22. febrúar 2001 hafi hverjum hinna fjögurra bótaþega verið tryggður fjórðungur bótafjárhæðarinnar við andlát Axels Emils. Vegna óafturkallanlegrar tilnefningar Axels Emils á tilnefningu stefnanda sem bótaþega hafi Axel Emil aðeins verið heimilt að afturkalla ánöfnun annarra bótaþega, þ.e. barna sinna, sbr. 2. mgr. 102. gr. og sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 20/1954. Þannig hafi stefnda, Sif, orðið rétthafi að ¾ hlutum líftryggingarfjárhæðarinnar skv. líftryggingu nr. 41912, þegar tillit hafi verið tekið til fjórðungs hlutar Margrétar Guðnýjar. Með stefnukröfum sé stefnandi að gera kröfu um að fá greitt úr líftryggingu nr. 41912 það sem stefndu beri samkvæmt tilnefningunni frá 4. mars 2002 . Stefnda telur sig eiga rétt til að fá í sinn hlut ¾ hluta bótafjárhæðar líftryggingar nr. 41912, skv. þeirri breytingu sem Axel Emil hafi gert á bótaþegum tryggingarinnar með tilkynningu, dags. 4. mars 2002, sem móttekin hafi verið athugasemdalaust af Alþjóða líftryggingafélaginu, nú stefndi KB-líf hf., hinn 13. mars 2002. Axel Emil hafi verið frjálst að breyta um rétthafa að líftryggingarfjárhæðinni svo sem hann hafi gert. Vilji hans hafi staðið til þess að ánafna líftryggingarfjárhæðina systur sinni. Hann hafi ákveðið að fella niður rétt fyrri bótaþega og ánafna alla tryggingarfjárhæðina stefndu. Réttur stefnanda, Margrétar Guðnýjar, til fjórðungs eða ¼ hluta tryggingarfjárhæðarinnar sé þó tryggður með óafturkallanlegri tilnefningu Axels Emils á Margréti Guðnýju sem rétthafa frá 22. febrúar 2001, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga 20/1954.
Tilkynning Axels Emils frá 13. mars 2002 um breytingu bótaþega hafi falið í sér efnisbreytingu frá fyrri tilkynningu, dags. 22. febrúar 2001. Því beri að sýkna stefndu af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði með dómi að stefnda teljist ekki rétthafi tryggingar nr. 41912.
Um kröfur stefndu vísast aðallega til laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, auk almennra reglna samninga og kröfuréttar. Stefnda styður kröfur um málskostnað við l. nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.
Í meðalgöngusök byggir meðalgöngustefnandi, Sif, kröfu sína um greiðslu ¾ hluta bótafjárhæðar líftryggingar nr. 41912 á þeirri breytingu sem Axel Emil gerði á bótaþegum tryggingarinnar með tilkynningu dags. 4. mars 2002, sem móttekin hafi verið athugasemdalaust af Alþjóða líftryggingafélaginu, nú meðalgöngustefndi KB-líf hf., hinn 13. mars 2002. Axel Emil hafi verið frjálst að breyta um rétthafa að líftryggingarfjárhæðinni svo sem hann hafi gert. Vilji hans hafi staðið til þess að ánafna systur sinni líftryggingarfjárhæðina. Hann hafi ákveðið að fella niður rétt fyrri bótaþega og ánafna alla tryggingarfjárhæðina meðalgöngustefnanda. Réttur meðalgöngustefndu, Margrétar Guðnýjar, til fjórðungs eða ¼ hluta tryggingarfjárhæðarinnar sé þó tryggður með óafturkallanlegri tilnefningu Axels Emils á Margréti Guðnýju sem rétthafa frá 22. febrúar 2001, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga 20/1954.
Tilkynning Axels Emils frá 13. mars 2002 um breytingu bótaþega hafi falið í sér efnisbreytingu frá fyrri tilkynningu, dags. 22. febrúar 2001. Samkvæmt henni beri KB-lífi hf. að greiða meðalgöngustefnanda hina umstefndu tryggingarfjárhæð. Við andlát vátryggingartaka, Axels Emils, hinn 10. febrúar 2005, hafi stofnast greiðsluskylda skv. vátryggingarsamningnum.
Vegna þeirrar óvissu sem þótt hafi ríkja um hvert beri að greiða tryggingarfjárhæðina hafi meðalgöngustefndi, KB-líf hf., hafnað greiðslu bótafjárhæðarinnar þar til ágreiningur hafi verið leystur um það hverjir teljist réttahafar og að hvaða hluta, skv. líftryggingu nr. 41912.
Fullar bætur úr líftryggingu nr. 41912 nemi 1.255.000 krónum, og krefst meðalgöngustefnandi ¾ hluta þeirrar fjárhæðar eða 941.250 króna úr hendi KB-lífs hf., á móti ¼ hluta meðalgöngustefndu, Margrétar Guðnýjar, eða 313.750, sbr. varakröfu hennar í héraðsdómsmálinu nr. E-6944/2005.
Um upphafstíma dráttarvaxtakröfu byggir meðalgöngustefnandi á því að samkvæmt tryggingarskilmálum hafi greiðsluskylda meðalgöngustefnda, KB-lífs hf., stofnast 14 dögum eftir að fullnægjandi sannanir bárust félaginu um greiðsluskyldu þess, s.s. dánarvottorð hins látna, Axels Emils. Meðalgöngustefnandi telur að KB-líf hf. hafi í síðasta lagi hinn 15.02.2005 haft undir höndum fullnægjandi gögn um greiðsluskyldu félagsins og því teljist gjalddagi greiðslunnar vera 14 dögum síðar eða hinn 1. mars 2005. Beri meðalgöngustefnda, KB-lífi hf., því að greiða dráttarvexti skv. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim tíma.
Um kröfur meðalgöngustefnanda vísast aðallega til laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, auk almennra reglna samninga og kröfuréttar.
Um dráttarvexti er vísað til III. kafla l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Af hálfu stefndu, Margrétar Gunnlaugsdóttur, f. h. Hannesar, Patreks Andrésar og Jónínu Sifjar Axelsbarna er vísað til þess að Axel Emil hafi tilkynnti um breytingu á bótaþegum á líftryggingu nr. 38511 hinn 11. mars 2002. Þáverandi rétthafar bóta hafi verið stefnandi og sameiginleg börn þeirra beggja, stefndu, Hannes, Patrekur Andrés og Jónína Sif. Frá og með 11. mars 2002 skyldu stefndu einir verða bótaþegar skv. tryggingu nr. 38511. Með tilkynningunni um breytingu á bótaþegum frá 22. febrúar 2001 hafi hverjum hinna fjögurra bótaþega verið tryggður fjórðungur bótafjárhæðarinnar við andlát Axels Emils. Vegna óafturkallanlegrar tilnefningar Axels Emils á stefnanda sem bótaþega hafi Axel Emil ekki verið heimilt að afturkalla ánöfnun hennar sem bótaþega, sbr. 2. mgr. 102. gr. og sbr. 2. mgr. 108. gr. laga 20/1954. Þannig séu stefndu samtals rétthafar að ¾ hlutum líftryggingarfjárhæðarinnar skv. líftryggingu nr. 38511, þegar tillit hafi verið tekið til fjórðungs hlutar stefnanda.
Með stefnukröfum sé stefnandi að gera kröfu um að fá greitt úr líftryggingu nr. 38511 það sem stefndu beri. Stefndu telja sig eiga rétt til að fá í sinn hlut ¾ hluta bótafjárhæðar líftryggingar nr. 38511 skv. þeirri breytingu sem Axel Emil hafi gert á bótaþegum tryggingarinnar með tilkynningu dags. 22. febrúar 2001. Vilji hans hafi staðið til þess að ánafna hverju barna sinna ¼ hluta líftryggingarfjárhæðarinnar. Þrátt fyrir að vilji hans stæði til þess síðar að tryggja stefndu alla líftryggingarfjárhæðina, varð það ekki gert án tillits til réttar stefnanda, til fjórðungs eða ¼ hluta tryggingarfjárhæðarinnar sem tryggður hafi verið með óafturkallanlegri tilnefningu Axels Emils á stefnanda sem rétthafa frá 23. febrúar 2001, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga 20/1954.
Tilkynning Axels Emils frá 22. febrúar 2001 um breytingu bótaþega hafi tryggt stefndu rétt til hluta bótafjárhæðar skv. líftryggingu nr. 38511. Því beri að sýkna stefndu af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði með dómi að stefndu teljist ekki rétthafar tryggingar nr. 38511.
Í meðalgöngusök byggja stefnendur kröfur sínar, um greiðslu samtals ¾ hluta bótafjárhæðar líftryggingar nr. 38511, á þeirri breytingu sem Axel Emil gerði á bótaþegum tryggingarinnar með tilkynningu, dags. 22. febrúar 2001. Vilji hans hafi staðið til þess að ánafna hverju barna sinna ¼ hluta líftryggingarfjárhæðarinnar. Þrátt fyrir að vilji hans hafi staðið til þess síðar að tryggja meðalgöngustefnendum alla líftryggingarfjárhæðina, varð það ekki gert án tillits til réttar meðalgöngustefndu, Margrétar Guðnýjar, til fjórðungs eða ¼ hluta tryggingarfjárhæðarinnar sem tryggður hafi verið með óafturkallanlegri tilnefningu Axels Emils á Margréti Guðnýju sem rétthafa frá 23. febrúar 2001, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga 20/1954.
Við andlát vátryggingartaka, Axels Emils, hinn 10. febrúar 2005, hafi stofnast greiðsluskylda skv. vátryggingarsamningnum. Vegna þeirrar óvissu sem þótt hafi ríkja um hvert beri að greiða tryggingarfjárhæðina hafi meðalgöngustefndi, KB-líf hf., hafnað greiðslu bótafjárhæðarinnar þar til ágreiningur hafi verið leystur um það hverjir teljist réttahafar og að hvaða hluta, skv. líftryggingu nr. 38511.
Fullar bætur úr líftryggingu nr. 38511 nemi 6.468.000 krónum og krefjast meðalgöngustefnendur samtals ¾ hluta þeirrar fjárhæðar, þ.e. fjórðungshluta hvert eða 1.617.000 króna, úr hendi KB-lífs hf., á móti ¼ hluta meðalgöngustefndu, Margrétar Guðnýjar, sbr. varakröfu hennar.
Um upphafstíma dráttarvaxtakröfu byggja meðalgöngustefnendur á því að samkvæmt tryggingarskilmálum hafi greiðsluskylda meðalgöngustefnda, KB-lífs hf., stofnast 14 dögum eftir að fullnægjandi sannanir hafi borist félaginu um greiðsluskyldu þess, s.s. dánarvottorð hins látna, Axels Emils. Meðalgöngustefnendur telja að KB-líf hf. hafi í síðasta lagi hinn 15. febrúar 2005 haft undir höndum fullnægjandi gögn um greiðsluskyldu félagsins og því teljist gjalddagi greiðslunnar vera 14 dögum síðar eða þann 1. mars 2005. Beri meðalgöngustefnda, KB-lífi hf., því að greiða dráttarvexti skv. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim tíma.
Í meðalgöngusök vísar stefnandi og meðalgöngustefndi, Margrét Guðný Hannesdóttir, til umfjöllunar hér að framan um málsatvik, málsástæður og lagarök og tekur fram að Axel Emil Gunnlaugssyni hafi verið óheimilt að breyta tilnefningu á bótaþegum á líftryggingum sínum eftir 22. febrúar 2001 og verði því ekki neinn réttur byggður á tilnefningum á nýjum rétthöfum trygginganna 11. mars 2002.
Af hálfu stefnda, KB-lífs hf., er vísað til þess í meðalgöngusök að tryggingafélagið hafi ekki mátt greiða bætur fyrr en skorið yrði úr ágreiningi um hver rétt eigi á fjárhæðinni, sbr. 3. mgr. 104. gr. laga nr. 29/1954 um vátryggingarsamninga en tekið er fram að engin afstaða sé tekin til þess hvaða aðila beri bætur.
NIÐURSTAÐA
Hinn 22. febrúar 2001 undirritaði Axel Gunnlaugsson tilkynningu um breytingu á bótaþegum á líftryggingu 41912 þannig að í stað nánustu vandamanna kæmu stefnandi og á eftir nafni hennar stendur 100% og þar fyrir neðan nöfn barna þeirra. Þá undirritaði Axel tilkynningu um breytingu bótaþega á líftryggingu nr. 38511 sama dag. Þar segir að rétthafar fyrir breytingu hafi verið stefnandi og börn þeirra en frá og með 22. febrúar 2001 séu bótaþegar stefnandi 100% og þar á eftir koma nöfn barna þeirra.
Fram kom hjá vitnunum Ingibjörgu Sveinsson og Helga Hannessyni, bróður stefnanda, að ætlan Axels og stefnanda hafi verið sú, vegna þess hve fjárhagur þeirra var slæmur, að tryggja að það þeirra sem lengur lifði fengi tryggingarfé og að þeim frágengnum börn þeirra. Því hafi þau sagt hvort um sig að hitt skyldi vera rétthafi 100% og með þeirri tilgreiningu verið tryggt að það þeirra sem lifði hitt hefði eitthvað fyrir sig að leggja og að því frágengnu börn þeirra þrjú.
Eins og að framan segir er 100% ritað við nafn stefnanda. Samkvæmt tilkynningu um breytingar á rétthafa samkvæmt tryggingu 38511 voru eldri rétthafar stefnandi og börn hennar og þykir því breyting sú á rétthafa sem Axel gerði með nefndri yfirlýsingu hafa verið sú sem stefnandi heldur fram. Framangreindur framburðar vitna bendir til sömu áttar og verður á því byggt að með tilkynningum þessum hafi Axel ætlað að koma málum þannig fyrir að stefnandi yrði ein rétthafi samkvæmt umræddum tryggingum en börn þeirra að henni frágenginni.
Með yfirlýsingu sem ber yfirskriftina „Óafturkallanleg tilnefning á rétthafa líftryggingarfjárhæðar“ undirritaðri 22. febrúar 2001 af Axel Gunnlaugssyni lýsti hann því yfir að hann afsalaði sér rétti sínum til að afturkalla ánöfnun sína á stefnanda sem rétthafa þeirra bóta líftryggingar sinnar sem getið væri um á líftryggingarumsókn No 38511. Þá undirritaði Axel öldungis samhljóða yfirlýsingu sama dag um líftryggingu No 41912.
Eftir útgáfu yfirlýsingar þessarar gat Axel ekki breytt rétthöfum umræddra trygginga sem samkvæmt framansögðu var stefnandi máls þessa.
Samkvæmt þessu verður fallist á það með stefnanda að stefnda, KB-lífi hf., beri að greiða henni hina umstefndu fjárhæð með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Að fenginni framangreindri niðurstöðu þykir hvorki þörf frekari úrlausnar um efni kröfu meðalgöngustefnenda né viðurkenningarkröfu stefnanda á hendur stefndu, Sifjar Gunnlaugsdóttur og Margrétar Gunnlaugsdóttur f. h. barnanna Hannesar, Patreks Andrésar og Jónínu Sifjar Axelsbarna.
Málskostnaður á milli aðila verður felldur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 778.218 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Allur gjafsóknarkostaður stefndu, Margrétar Gunnlaugsdóttur, f.h. Hannesar Gunnlaugssonar, Patreks Andrésar Gunnlaugssonar og Jónínu Sifjar Gunnlaugsdóttur, samtals 354.056 krónur greiðist úr ríkisjóði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, KB-líf hf., greiði stefnanda, Margréti Guðnýju Hannesdóttur, 7.723.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. mars 2005 til greiðsludags.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, Margrétar Guðnýjar Hannesdóttur, samtals 778.218 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Gjafsóknarkostaður stefndu, Margrétar Gunnlaugsdóttur, f.h. Hannesar Gunnlaugssonar, Patreks Andrésar Gunnlaugssonar og Jónínu Sifjar Gunnlaugsdóttur, samtals 354.056 krónur greiðist úr ríkisjóði.