Hæstiréttur íslands

Mál nr. 618/2012


Lykilorð

  • Börn
  • Faðerni


                                     

Þriðjudaginn 26. mars 2013.

Nr. 618/2012.

B

(Oddgeir Einarsson hrl.)

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl. málsvari)

Börn. Faðerni.

B krafðist þess að viðurkennt yrði að M væri faðir sinn. Þá gerði hann kröfu um einfalt lágmarksmeðlag á mánuði til 18 ára aldurs. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var vísað til þess að fyrir lægi trúverðugur framburður móður B um að M væri faðir barnsins en á hinn bóginn hefði ekki tekist að hafa uppi á M og því lægi hvorki fyrir afstaða hans til kröfu B né mannerfðafræðileg rannsókn á faðerni barnsins. Eins og atvikum málsins var háttað var því ekki talið sannað að M væri faðir B og var kröfu B því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2012. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé faðir sinn og verði stefnda gert að greiða með sér einfalt meðlag eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni frá 26. apríl 2011 til 18 ára aldurs. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til þess að allur kostnaður hans greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnda er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur, svo og að þóknun málsvara hans vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður látinn falla niður, en um þóknun lögmanns áfrýjanda og málsvara stefnda fyrir flutning málsins hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, sbr. 11. gr. og 13. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Þóknun lögmanns áfrýjanda og málsvara stefnda fyrir flutning málsins fyrir Hæstarétti, 300.000 krónur handa hvorum, greiðist úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. ágúst 2012.

I.

Mál þetta, sem var dómtekið 22. ágúst sl., er höfðað 20. október 2011 af K, [...] í [...], f.h. ólögráða sonar síns, B, gegn M, sem er með skráð lögheimili að [...] í [...].

Í málinu er gerð sú krafa að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé faðir drengsins B, kt. [...]. Verði niðurstaða dómsins sú að stefndi teljist faðir barnsins er gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða með barninu einfalt meðlag eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni frá 29. apríl 2011 til 18 ára aldurs. Þar að auki er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti 25,5% samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, án tillits til þess að allur kostnaður stefnanda vegna málarekstursins skal greiðast úr ríkissjóði skv.11. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Stefndi hefur ekki sótt þing. Við meðferð málsins var honum skipaður málsvari, sbr. 13. gr. barnalaga nr. 76/2003.

II.

Í stefnu kemur fram að stefnandi, B, sé fæddur í [...] [...]. apríl 2011. Hafi móðir hans lýst stefnda föður drengsins við fæðingu. Ekki hafi tekist að afla faðernisviðurkenningar þar sem hann hafi þá verið farinn af landi brott og engar upplýsingar legið fyrir um dvalarstað hans.

Fram kemur í stefnu að stefndi og móðir stefnanda hafi verið í óskráðri sambúð í nokkra mánuði en sambúðin hafi verið stormasöm. Hafi stefndi beitt móðurina ofbeldi. Þá segir í stefnu að grunur hafi verið um að stefndi hafi beitt dóttur móðurinnar, A, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Þau hafi ekki átt sameiginlegt lögheimili en í raun hafi verið um að ræða hefðbundið sambúðarform. Stefndi hafi yfirgefið heimilið 19. ágúst 2010 og hafi móðirin ekki heyrt frá honum síðan þá.

Í stefnu kemur fram að móðir stefnanda kveði engan annan mann koma til greina sem hugsanlegan föður stefnanda. Ríkir hagsmunir stefnanda mæli með því að hann verði réttilega feðraður. Þar sem ekki hafi tekist að afla faðernisviðurkenningar sé nauðsynlegt að höfða mál þetta.

III.

Í 17. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir að maður skuli talinn faðir barns ef niðurstöður mannerfðafræðilegra rannsókna benda eindregið til þess að hann sé faðir þess. Ekki má þó gagnálykta frá ákvæðinu þannig að maður geti aðeins verið dæmdur faðir barns ef niðurstöður slíkrar rannsóknar liggja fyrir. Verði mannerfðafræðilegri rannsókn ekki komið við getur niðurstaða í slíku máli byggst á öðrum sönnunargögnum samkvæmt hinni almennu reglu um frjálst sönnunarmat, eins og fram kemur í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að barnalögum.

Eins og fram hefur komið er stefnandi fæddur [...]. apríl 2011. Ekki liggja fyrir læknisfræðileg gögn um meðgöngutíma og þar með getnaðartíma stefnanda. Í umsókn til velferðarsviðs [...] 14. apríl 2011 kemur aftur á móti fram að áætlaður fæðingardagur yrði „í næstu viku“. Ekki er ástæða til að ætla að móðir stefnanda, K, hafi þar greint rangt frá. Meðgöngutími stefnanda virðist því hafa verið eðlilegur. Má því leiða líkur að því að stefnandi hafi verið getinn í fyrri hluta ágústmánaðar 2010 eða um það leyti.

Samkvæmt framburði K fyrir dómi, sem fær stoð í skýrslu móður hennar, C, og öðrum gögnum málsins, bjuggu K og stefndi saman um nokkurra mánaða skeið á árinu 2010, fyrst ásamt C á [...], en síðar í íbúð í [...]. Í dagbók lögreglu frá 29. júní 2010 greinir frá afskiptum lögreglu af átökum milli C og stefnda að [...]. Þar kemur fram að stefndi hafi skýrt frá því að K væri kærasta sín. Með hliðsjón af þessu þykir nægjanlega í ljós leitt að þau hafi átt í ástarsambandi. K fullyrðir að stefndi hafi flutt af heimili þeirra 19. ágúst 2010. Ekki nýtur hins vegar við annarra gagna eða framburðar vitna um sambandsslit þeirra. Framburður D fyrir dómi gefur þó vísbendingu um að sambandi þeirra hafi ekki verið slitið er hann sótti afmælisveislu K í kringum [...]. ágúst 2010.

Fram kemur í gögnum málsins að stefndi sé frá [...] og að hann hafi leitað hælis hér á landi. Samkvæmt bréfi lögreglu 19. júlí 2011 var hann á þeim tíma farinn af landi brott og lá ekkert fyrir um dvalarstað hans. Af hálfu málsvara stefnda hefur ítrekað verið reynt að hafa uppi á honum til að fá afstöðu hans til kröfu stefnanda. Þær tilraunir hafa ekki borið árangur. Af þessum sökum liggur hvorki fyrir afstaða stefnda til kröfunnar né mannerfðafræðileg rannsókn á faðerni stefnanda. Í framlögðum gögnum er heldur ekki að finna vísbendingar um afstöðu stefnda til þess hvort hann geti talist faðir barnsins.

Móðir stefnanda, sem höfðar mál þetta fyrir hans hönd, hefur staðfastlega haldið því fram að stefndi komi einn til greina sem faðir stefnanda. Gaf hún trúverðuga skýrslu fyrir dómi þess efnis. Dómur um faðerni barnsins verður þó ekki reistur á því einu að móðirin fullyrði að stefndi sé faðirinn. Önnur gögn og framburður vitna verða að styðja eindregið þá fullyrðingu. Í því efni er ekki nóg að allt bendi til þess að móðirin og stefndi hafi búið saman á líklegum getnaðartíma stefnanda. Af þessu leiðir að ekki er komin fram full sönnun fyrir því að stefndi sé faðir stefnanda eins og hér háttar til. Því er óhjákvæmilegt að hafna kröfum hans.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Með vísan til 11. gr. barnalaga nr. 76/2003 greiðist allur kostnaður stefnanda af málinu úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 502.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Þóknun skipaðs málsvara stefnda, Valborgar Þ. Snævarr hrl., sem er ákveðin 213.350 krónur, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 13. gr. barnalaga.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Hafnað er kröfu stefnanda, K, f.h. ófjárráða sonar síns, B, á hendur stefnda, M.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Allur málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn 502.000 krónur.

Þóknun skipaðs málsvara stefnda, Valborgar Þ. Snævarr hrl., 213.350 krónur, greiðist úr ríkissjóði.