Hæstiréttur íslands
Mál nr. 309/2010
Lykilorð
- Þjófnaður
- Hilming
- Nytjastuldur
- Fíkniefnalagabrot
- Umferðarlagabrot
- Akstur sviptur ökurétti
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 2010. |
|
Nr. 309/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Emil Frey Júlíussyni (Jóhannes Ásgeirsson hrl.) |
Þjófnaður. Hilming. Nytjastuldur. Fíkniefnalagabrot. Umferðarlagabrot. Akstur sviptur ökurétti. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ítrekun. Vanaafbrotamaður.
E var meðal annars sakfelldur fyrir þjófnað, hilmingu, fjársvik, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot samkvæmt fjölmörgum ákæruliðum í ákæru á hendur honum. E játaði sök og sannað þótti með játningu hans og öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært var fyrir. Með vísan til þess að E hafði framið umrædd brot eftir uppkvaðningu tveggja refsidóma á hendur honum var refsing hans ákveðin með vísan til 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við mat á refsingu E var meðal annars litið til þess að hann játaði brot sín skýlaust. Hann væri síbrotamaður með óslitinn sakaferil frá árinu 2007 og hefði margsinnis áður gerst sekur um ýmis hegningarlagabrot, fíkniefnalagabrot og akstur undir áhrifum fíkniefna, en að auki ótal sinnum akstur sviptur ökurétti og önnur umferðarlagabrot. Með vísan til 77. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. maí 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Með hinum áfrýjaða dómi var Y sakfelldur auk ákærða og honum gerð fangelsisrefsing, en hann unir dómi.
Í máli þessu hefur ákærði meðal annars verið sakfelldur fyrir að brjótast inn í tvö íbúðarhús og stela þar miklum fjármunum, auk sex annarra auðgunarbrota. Nam verðmæti þeirra muna, sem brot hans tóku til á fimmtu milljón króna. Brot þessi eru öll framin eftir að hann hlaut fangelsi í 12 mánuði með dómi 12. júlí 2007 fyrir vopnað rán og fangelsi í fimm mánuði með dómi 25. október sama ár, en þá var hann sakfelldur fyrir fjölmörg brot, þar á meðal þjófnað og fjársvik. Verður refsing hans því ákveðin með vísan til 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en einnig verður tekið tillit til þess að hann játaði brot sín skýlaust. Þá verður jafnframt vísað til þess að hann hefur margsinnis áður gerst sekur um ýmis hegningarlagabrot, fíkniefnalagabrot og akstur undir áhrifum fíkniefna, en að auki ótal sinnum akstur sviptur ökurétti og önnur umferðarlagabrot. Ákærði er síbrotamaður. Sakaferill hans er óslitinn frá árinu 2007 og voru sum brota hans framin í beinu framhaldi þeirra dóma sem hann hefur hlotið. Ber einnig að vísa til 255. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar hans, sem er ákveðin fangelsi í tvö ár.
Ákvæði héraðsdóms um annað en refsingu ákærða verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Emil Freyr Júlíusson, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 324.255 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 8. desember 2009 „á hendur
Emil Frey Júlíussyni, kennitala 070888-3279,
Búðarstíg 5b, Eyrabakka, og
Y, kennitala [...],
[...], [...].
I. Á hendur ákærðu báðum fyrir eftirfarandi brot:
1.
Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 6. febrúar 2009, í félagi, farið inn í verslun [...] við [...] í Reykjavík og stolið þaðan tveimur hafnaboltakylfum, samtals að verðmæti kr. 6.980, með því að taka kylfurnar og ganga með þær út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2.
Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 9. febrúar 2009, í félagi við Z kt. [...], brotist inn í fyrirtækið [...] við [...] í Reykjavík, með því að spenna upp útidyrahurð á aðalinngangi hússins með kúbeini og stolið þaðan kr. 664.200 í reiðufé, með því að spenna upp spilakassa sem þar voru.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
3.
Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 14. febrúar 2009, í félagi, brotist inn í verslunina [...] við [...] í Reykjavík, með því að brjóta rúðu í útidyrahurð verslunarinnar og stolið þaðan reiðufé að verðmæti kr. 1.471.900, með því að spenna upp spilakassa sem þar voru.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II. Á hendur ákærða Emil Frey:
1.
Fyrir hylmingu, með því að hafa mánudaginn 12. janúar 2009 haft í vörslum sínum hljóðfæri, gítareffekta, magnara og hljóðkerfi, þrátt fyrir að vita að um þýfi væri að ræða, sem meðákærði Y hafði stolið í bílskúr að [...] í Hafnarfirði sama dag og þannig haldið mununum ólöglega fyrir eigendum þeirra.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 13. janúar 2009 í bílskúr að [...] í Reykjavík haft í vörslum sínum 0,76 g af amfetamíni og 1,10 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem lögregla fann við leit á ákærða og í fyrrnefndum bílskúr umrætt sinn.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974 hvað varðar vörslu amfetamíns og 6. gr. laganna að því er varðar vörslu kannabisefna, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
3.
Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 4. febrúar 2009 farið inn í verslun [...] í [...] og stolið þaðan svartri Northface úlpu að verðmæti kr. 33.590, með því að klæða sig í úlpuna, slíta þjófavörn úr úlpunni og ganga út úr versluninni án þess að greiða fyrir hana.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í máli þessu gerir A, öryggisfulltrúi [...], þá kröfu f.h. [...] kt. [...], að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 33.590, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi, en svo dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
4.
Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 7. febrúar 2009, í félagi við Z kt. 070782-4809, brotist inn í [...]skóla við [...] í Reykjavík, með því að hafa brotið rúðu með felgulykli og opnað gluggafag á norðurhlið skólans, og stolið tölvu af gerðinni iMac og tölvuskjá af gerðinni Dell, samtals að verðmæti kr. 350.000.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
5.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 7. febrúar 2009, ekið bifreiðinni B, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana og fíkniefna (amfetamín í blóði 140 ng/ml.) og sviptur ökuréttindum, frá [...]skóla við [...] í Reykjavík um götur Reykjavíkur og án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu, um Laugarnesveg á milli Sundlaugavegar og Laugalækjar á allt að 100 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði var 30 km hraði á klst., uns ákærði Emil stöðvaði bifreiðina við hringtorg Dalbrautar og Sundlaugarvegar og reyndi að komast undan á hlaupum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 5. gr., a-lið 2. mgr. 36. gr., 1. mgr. 37. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a., 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga nr. 90/1996.
6.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 18. febrúar 2009, á hótelherbergi við hótelið [...] að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum samtals 71,58 g af hassi, 1,87 g af amfetamíni og 0,84 g af kókaíni sem lögregla fann við leit í fyrrnefndu hótelherbergi og við leit á ákærða þegar hann var handtekinn.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, hvað varðar vörslur á amfetamíni og 6. gr. sömu laga hvað varðar vörslur á hassi og kókaíni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
7.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 10. febrúar 2009, ekið bifreiðinni B, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana og fíkniefna (amfetamín í blóði 20 ng/ml.) og sviptur ökuréttindum austur Hverfisgötu í Reykjavík, uns ákærði stöðvaði akstur við hús númer [...] við [...].
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
8.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 12. febrúar 2009, ekið bifreiðinni B sviptur ökuréttindum norður Lækjargötu í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Hverfisgötu.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
9.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 12. febrúar 2009, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana og fíkniefna (amfetamín í blóði 25 ng/ml.) og sviptur ökuréttindum um Háaleitisbraut í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við fyrrnefnda götu.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
10.
Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 21. maí 2009, tekið bifreiðina C í heimildarleysi og til eigin nota frá [...] í Reykjavík og ekið henni um götur höfuðborgarsvæðisins, sviptur ökuréttindum, uns lögregla fann bifreiðina á bifreiðastæði við verslun [...] við [...] í Reykjavík.
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
11.
Fyrir fjársvik, með því að hafa miðvikudaginn 10. júní 2009, í félagi við Þ kt. [...], svikið út í 10 skipti á eftirgreindum stöðum á höfuðborgarsvæðinu vörur og þjónustu að andvirði samtals kr. 23.788 með því að láta skuldfæra andvirðið heimildarlaust á greiðslukortareikning Æ kt. [...]:
1. Andvirði 4.547 kr. í verslun [...] við [...] í Hafnarfirði.
2. Andvirði 5.535 kr. í verslun [...].
3. Andvirði 2.540 kr. hjá leigubifreið nr. [...] hjá [...].
4. Andvirði 1.830 kr. í söluturninum [...] við [...] í Reykjavík.
5. Andvirði 2.000 kr. í söluturninum [...] við [...] í Reykjavík.
6. Andvirði 1.059 kr. í verslun [...] við [...] í Reykjavík.
7. Andvirði 1.059 kr. í verslun [...] við [...] í Reykjavík.
8. Andvirði 1.059 kr. í verslun [...] við [...] í Reykjavík.
9. Andvirði 3.139 kr. í verslun [...], [...] við [...] í Reykjavík.
10. Andvirði 1.020 kr. hjá leigubifreið nr. [...] hjá [...].
Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
12.
Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 13. júní 2009, tekið bifreiðina D í heimildarleysi og til eigin nota frá [...] í Reykjavík og ekið henni til Hafnarfjarðar, sviptur ökuréttindum, uns lögregla kom að ákærða í bifreiðinni á bifreiðastæði við [...] í Hafnarfirði.
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
13.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 13. júlí 2009 ekið bifreiðinni E, sviptur ökuréttindum austur Túngötu í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Aðalstræti.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
14.
Fyrir þjófnað, nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 18. september 2009 brotist inn í íbúðarhúsnæðið að [...] í Hafnarfirði, með því að spenna upp glugga í eldhúsi íbúðarinnar og stolið þaðan 42 tommu sjónvarpi af gerðinni Samsung, seðlaveski sem innihélt kr. 10.000 í reiðufé ásamt ökuskírteini og greiðslukortum, svörtu kortaveski, skólatösku ásamt bókum og ritföngum, DG karlmannsúri, húslyklum af [...], bíllyklum af bifreiðunum F og G og kvenmannsfatnaði og með því að hafa eftir innbrotið tekið bifreiðina F í heimildarleysi, til eigin nota, og ekið henni um höfuðborgarsvæðið, sviptur ökuréttindum, uns lögregla fann bifreiðina við Dalshraun í Hafnarfirði.
Telst þetta varða við 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
15.
Fyrir þjófnað, með því að hafa að morgni föstudagsins 18. september 2009 brotist inn í íbúðarhúsið að [...] í Hafnarfirði, með því að sparka upp útdýrahurð húsnæðisins og stolið þaðan 2 stk. fartölvum af gerðinni Apple og Toshiba, 3 stk. Ipod, kaffivél af gerðinni Saecon, ferðatösku, Playstation 3 leikjatölvu, 2 stk. myndavélar af gerðinni Sony og Nikon, Sigma myndavélalinsu, Nintendo Wii leikjatölvu, myndavélatösku, leikjatölvufjarstýringum, hátölurum af gerðinni Bose, heyrnartólum, flakkara, tölvuleikjum, veiðistöng af gerðinni Sage Launch, ásamt öðrum veiðibúnaði, fatnaði frá 66 gráður norður, sólgleraugum, snyrtivörum, hlaupaskóm, áfengi, kúbverskum vindlum, skartgripum og dvd-spilara, samtals að áætluðu verðmæti kr. 1.957.000.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III. Á hendur ákærða Y:
1.
Fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa að morgni sunnudagsins 20. júlí 2008 ekið bifreiðinni B, sviptur ökuréttindum suður Höfðabakka í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Blikahóla og með því að hafa á sama tíma haft í vörslum sínum 0,52 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
2.
Fyrir hylmingu og fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 8. september 2008 í íbúð að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 4 stk. tölvuskjái af gerðunum Acer, Apple og Hewlett Packard, fartölvu af gerðinni Hewlett Packard og tölvu af gerðinni Shuttle, þrátt fyrir að vita að um þýfi væri að ræða, og þannig haldið mununum ólöglega fyrir eigendum þeirra og með því að hafa umrætt sinn haft í vörslum sínum 41,05 g af hassi og 2,54 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögregla fann við leit í íbúðinni og sem ákærði framvísaði.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
3.
Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 12. janúar 2009 brotist inn í bílskúr við [...] í Hafnarfirði, með því að spenna upp hurðina með kúbeini og stolið þaðan 3 stk. Fender rafmagnsgítörum, 4 stk. gítareffectum, 2 stk. mögnurum, rafmagnsbassa af gerðinni Music man og hljóðkerfi af gerðinni JBL.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
4.
Fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 16. febrúar 2009 ekið bifreiðinni B, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana og fíkniefna (amfetamín í blóði 165 ng/ml.) og slævandi lyfja og sviptur ökuréttindum austur Hverfisgötu í Reykjavík, gegn rauðu umferðarljósi við gatnamót Hverfisgötu og Barónsstígs, suður Barónsstíg og yfir Laugaveg, of hratt miðað við aðstæður, án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu og ekið bifreiðinni áfram um miðbæ Reykjavíkur, uns lögreglu tókst að stöðva aksturinn á Njálsgötu. Auk þess haft í vörslum sínum umrætt sinn 1,95 g af hassi og 0,82 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögregla fann við leit á ákærða eftir að hann var handtekinn.
Telst þetta varða við 1. og 3. mgr. 5. gr., 1. mgr. og a- og c liðar, 2. mgr. 36. gr., 1. mgr. 44. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
5.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni sunnudagsins 7. júní 2009 ekið bifreiðinni H, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í útöndunarlofti 0,38 mg/l.), óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana og fíkniefna (amfetamín í blóði 90 ng/ml.) og sviptur ökuréttindum um Skógarsel í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Þverársel.
Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
6.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni þriðjudagsins 11. ágúst 2009 ekið bifreiðinni B, sviptur ökuréttindum austur Hraunberg í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Hólaberg.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og jafnframt að ofangreind fíkniefni sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Við fyrirtöku máls þessa hinn 3. febrúar sl. játaði ákærði Y sök að öllu leyti. Ákærði Emil Freyr játaði þá sök að öðru leyti en því að hann neitaði sök í ákæruliðum II. 7 og II. 11.
Við fyrirtöku málsins hinn 25. febrúar sl. var af hálfu ákæruvaldsins fallið frá ákæruliðum II.7 og II.11 á hendur ákærða Emil Frey.
Farið var með mál þetta samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Af hálfu ákærða Emils Freys er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar vegna verjandastarfa.
Af hálfu ákærða Y er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og refsing hans verði bundin skilorði. Einnig er krafist hæfilegrar þóknunar vegna verjandastarfa.
Ákærðu hafa báðir skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu beggja ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærðu eru sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði ákærða Emils Freys gekkst hann, með lögreglustjórasátt á árinu 2006, undir að greiða sekt vegna fíkniefnabrots. Með dómi 26. apríl 2007 var ákærða gert að greiða 250.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár og þrjá mánuði fyrir fíkniefnaakstur. Hinn 15. maí 2007 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, fíkniefnaakstur, þjófnað og nytjastuld. Með dómi 12. júlí 2007 var ákærða gert að sæta tólf mánaða fangelsi fyrir rán. Hinn 25. október 2007 var ákærði dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld, ölvunarakstur, sviptingarakstur, fíkniefnabrot og fjársvik. Ákærði var þá og sviptur ökurétti í tvö ár og sex mánuði. Hinn 9. apríl 2008 var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, ölvunarakstur og að aka sviptur ökurétti en honum var þá ekki gerð sérstök refsing. Hinn 17. apríl 2008 gekkst ákærði með viðurlagaákvörðun undir að greiða 170.000 króna sekt fyrir þjófnað og fíkniefnabrot. Með dómi hinn 9. janúar 2009 var ákærða gert að sæta fangelsi í sextíu daga fyrir fíkniefnabrot, fíkniefnaakstur, að aka sviptur ökurétti og fleiri umferðarlagabrot. Var ákærði þá og sviptur ökurétti ævilangt. Með viðurlagaákvörðun 8. janúar 2009 gekkst ákærði undir að greiða sekt vegna fíkniefnabrots. Þá var ákærða gert, með dómi hinn 23. október 2009, að sæta fangelsi í átta mánuði vegna þjófnaðar, nytjastuldar, fíkniefnabrots og sviptingaraksturs. Loks var ákærði sakfelldur fyrir fíkniefnabrot hinn 23. október 2009, en honum ekki gerð þá sérstök refsing. Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru öll framin fyrir uppkvaðningu tveggja síðastgreindu refsiákvarðananna. Verður refsing hans því ákveðin sem hegningarauki við þær með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga. Við mat á refsingu ákærða verður til refsimildunar horft til greiðrar játningar hans. Til refsiþyngingar horfir hins vegar að í tveimur tilvikum braust ákærði inn í íbúðarhús, að andlag þjófnaða hans var umtalsvert, að hann framdi hluta brota sinni í félagi við annan og að hann hefur áður ítrekað verið fundinn sekur um auðgunarbrot. Að þessu öllu virtu, og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði gekkst ákærði Y, með lögreglustjórasátt á árinu 2003, undir sektargreiðslu vegna fíkniefnabrots. Á árinu 2004 var hann í tvígang dæmdur fyrir þjófnað. Í fyrra skiptið hlaut hann 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, en honum var ekki gerð sérstök refsing í síðara skiptið. Ákærði hlaut aftur dóm vegna þjófnaðarbrots í febrúar 2005 en honum var þá ekki gerð sérstök refsing. Í október 2005 var ákærða gert að sæta fangelsi í átta mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnaðarbrot, þjófnaðartilraun og fíkniefnabrot. Á árinu 2006 og í september 2007 gekkst ákærði með lögreglustjórasáttum þrívegis undir að greiða sektir vegna fíkniefnabrota. Með dómi hinn 19. nóvember 2007 var ákærða gert að greiða 250.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í tólf mánuði fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og fíkniefnabrot. Með dómi 5. febrúar 2008 var ákærða gert að greiða 50.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í sex mánuði vegna fíkniefnaaksturs. Var refsing þá ákveðin sem hegningarauki við dóm frá 19. nóvember 2007. Hinn 10. apríl 2008 gekkst ákærði, með lögreglustjórasátt, undir að greiða sekt vegna fíkniefnabrots. Með dómi hinn 17. apríl 2008 var ákærða gert að greiða 180.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár vegna fíkniefnaaksturs. Með lögreglustjórasátt hinn 23. október 2008 gekkst ákærði undir að greiða 110.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði fyrir að aka of hratt og aka sviptur ökurétti. Með dómi hinn 4. júní 2009 var ákærða gert að sæta fangelsi í tvo mánuði, greiða 130.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar ævilangt fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna, aka of hratt og aka þrátt fyrir að hafa verið sviptur ökurétti. Loks gekkst ákærði, með lögreglustjórasátt 18. ágúst sl., undir að greiða 50.000 króna sekt vegna fíkniefnabrots. Ákærði framdi brot þau sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir að hluta til fyrir refsiákvarðanirnar 23. október 2008, 4. júní og 18. ágúst 2009. Verður refsing hans að því leyti ákveðin sem hegningarauki með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að virtu framangreindu, skýrri játningu ákærða og með hliðsjón af því að brot ákærða voru að hluta framin í félagi við annan mann og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða Y hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, sem staðfesta vilja ákærða til að snúa lífi sínu til betri vegar, og með hliðsjón af aðstæðum ákærða að öðru leyti, þykir rétt að fresta fullnustu fimm mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.
Upptæk eru gerð 3,15 g af amfetamíni, 4,46 g af tóbaksblönduðu hassi og kannabisefni, 114,58 g af hassi og 0,84 g af kókaíni.
Af hálfu bótakrefjanda, [...], var ekki mætt við þingfestingu málsins og var krafa hans því felld niður með vísan til ákv. 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ákærði Emil Freyr greiði 420.227 krónur í sakarkostnað, þar með talda 160.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar hrl., við rannsókn málsins og fyrir dómi.
Ákærði Y greiði 464.004 krónur í sakarkostnað, þar með talda 140.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar hrl., við rannsókn málsins og fyrir dómi.
Við ákvörðun verjendaþóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Emil Freyr Júlíusson, sæti fangelsi í tólf mánuði.
Ákærði Emil Freyr er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu fimm mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði Y er sviptur ökurétti ævilangt.
Upptæk eru gerð 3,15 g af amfetamíni, 4,46 g af tóbaksblönduðu hassi og kannabisefni, 114,58 g af hassi og 0,84 g af kókaíni.
Ákærði Emil Freyr greiði 420.227 krónur í sakarkostnað, þar með talda 160.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar hrl., við rannsókn málsins og fyrir dómi.
Ákærði Y greiði 464.004 krónur í sakarkostnað, þar með talda 140.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar hrl., við rannsókn málsins og fyrir dómi.