Hæstiréttur íslands
Mál nr. 607/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Mánudaginn 22.september 2014. |
|
Nr. 607/2014.
|
Ákæruvaldið (Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari) gegn X (Almar Þór Möller hdl.) Y og (Gestur Jónsson hrl.) Z (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Hæfi dómara.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu X, Y og Z, um að meðdómsmaðurinn B viki sæti í máli ákæruvaldsins gegn þeim, var hafnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að nánar tilgreind ummæli B væru til þess fallin að X, Y og Z hefðu réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni B í efa. Var B því gert að víkja sæti í málinu.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2014, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að meðdómsmaðurinn Bjarni Frímann Karlsson viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum og þremur öðrum mönnum. Um kæruheimild er vísað til a. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að áðurnefndur meðdómsmaður víki sæti í málinu.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með ákæru sóknaraðila 5. júlí 2013 voru varnaraðilunum Y og Z gefin að sök nánar tiltekin meiri háttar brot gegn lögum nr. 3/2006 um ársreikninga og lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur í störfum sínum við endurskoðun ársreikninga A ehf. og samstæðureikninga A [...] fyrir árin 2006 og 2007. Er ákæran reist á því að þau hafi hagað störfum sínum í ósamræmi við góða endurskoðunarvenju samkvæmt nánari skilgreiningu í ákæru. Þá voru öllum varnaraðilum gefin að sök tilgreind brot gegn áðurnefndum lögum um endurskoðendur með því að rækja ekki endurskoðendastörf sín fyrir A ehf. í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Í ákærunni var tekið fram að varnaraðilar hafi starfað hjá endurskoðunarfyrirtækinu B.
Varnaraðilar vísa um rökstuðning fyrir áðurnefndri kröfu sinni meðal annars til fyrirlestrar, en glærur frá honum eru aðgengilegar almenningi á netinu. Þar fjallaði meðdómsmaðurinn um framferði endurskoðenda í aðdraganda fjármálakreppunnar um haustið 2008. Á einni glærunni segir svo: „B annaðist endurskoðun allra sex bankanna, nema hvað.“ Með orðum sínum vék meðdómsmaðurinn óbeint að varnaraðilum, sem störfuðu samkvæmt áðursögðu hjá fyrrgreindu endurskoðunarfyrirtæki. Þegar þau orð eru sett í samhengi við hvassa gagnrýni hans í fyrirlestrinum á störf endurskoðenda má skilja þau svo að í þeim felist áfellisdómur yfir störfum varnaraðila. Samkvæmt því hafa þeir réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni hans í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Ber honum því að víkja sæti í málinu.
Dómsorð:
Meðdómsmaðurinn Bjarni Frímann Karlsson skal víkja sæti í máli þessu.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2014.
Í þinghaldi 2. september síðastliðinn tilkynnti dómarinn að meðdómsmenn yrðu þeir Bjarni Frímann Karlsson lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Ingvi Björn Bergmann löggiltur endurskoðandi. Verjendur ákærðu X, Y og Z mótmæltu því að nefndur Bjarni Frímann yrði tilkvaddur sem meðdómsmaður vegna vanhæfis. Þeir kváðu ákærðu hafa ástæðu til að draga óhlutdrægni meðdómsmannsins í efa vegna skrifa hans um starfsstétt ákærðu og stöðu eignarhaldsfélaga.
Ákærðu byggja kröfu sína um að meðdómsmanninum verði vikið frá, á ummælum hans sem koma fram í tveimur erindum sem hann hélt í október 2010 og hafa komið út sem greinar. Einnig er byggt á fyrirlestri er hann hélt í apríl sama ár. Máli sínu til stuðnings vísa þeir til g liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og telja ummæli hans í tilvitnuðum gögnum með réttu til þess fallin að draga óhlutdrægni í efna hans gagnvart ákærðu. Ákæruvaldið lét þessa kröfu ekki til sín taka.
Meðdómsmaðurinn er lektor við viðskiptafræðideild háskólans og hefur sem slíkur fjallað um ýmis álitamál sem tengjast endurskoðendum og störfum þeirra. Hann hefur hins vegar ekki fjallað um það mál sem hér er til meðferðar og heldur ekki um ákærðu. Á einum stað í nefndum fyrirlestri víkur hann að fyrirtæki því er ákærðu starfa hjá og nefnir að það hafi endurskoðað bankana síðustu árin fyrir hrun og bætir við orðunum „nema hvað“. Þessi fræðilega umfjöllun meðdómsmannsins um endurskoðendur og eignarhaldsfélög er að mati dómsins ekki með þeim hætti að ákærðu geti með réttu dregið óhlutdrægni hans í efa. Kröfu þeirra um að hann víki sæti er því hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu um að Bjarni Frímann Karlsson víki sæti sem meðdómandi.