Hæstiréttur íslands

Mál nr. 592/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Tilhögun gæsluvarðhalds
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Mánudaginn 3

 

Mánudaginn 3. nóvember 2008.

Nr. 592/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(enginn)

gegn

X

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Tilhögun gæsluvarðhalds. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Vísað var frá Hæstarétti kröfu X um breytingu á tilhögun gæsluvarðhaldsvistar þar sem ekki varð séð að slík krafa hefði verið borin undir héraðsdómara.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhald verði án takmarkana.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Ekki verður séð að krafa varnaraðila um breytingu á tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hafi verið borin undir héraðsdóm samkvæmt 75. gr. laga nr. 19/1991 og verður henni því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kröfu varnaraðila, X, um breytingu á tilhögun gæsluvarðhaldsvistar er vísað frá Hæstarétti.                       

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2008.

Með beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri í dag, er þess krafist að X verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. nóvember 2008 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans segir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi að undanförnu haft til rannsóknar ætlaða stórfellda framleiðslu og dreifingu fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu.  Á grundvelli þeirra upplýsinga sem hafi borist lögreglu og á grundvelli gagna sem lögreglan hafi aflað í þágu rannsóknar málsins sé talið að kærði standi að framleiðslu fíkniefna ásamt Y og mögulega fleiri aðilum, m.a. Z, sem talinn sé koma með einhverjum hætti að framleiðslunni eða í beinu framhaldi af henni, þ.e. sölu á efnunum.  Hafi kærði ásamt Y verið með aðstöðu í tveimur iðnaðarhúsnæðum, að [...] og [...] og sé talið að framleiðslan hafi farið fram þar.  Hafi lögreglan fylgst með greindum stöðum og hafi kærði og Y sést við bæði húsnæðin og hafi farið þar inn.  Nánar sé vísað til framlagðra gagna varðandi tengsl aðila við húsnæðin.

Þann 16. október sl. hafi lögreglan farið inn í bæði framangreind iðnaðarhúsnæði.  Kærði, X, hafi komið inn í húsnæðið að [...] og hafi hann verið handtekinn.  Inni í húsnæðinu að [...] hafi verið mikið magn ætlaðra sterkra fíkniefna á framleiðslustigi, auk þess sem uppsett hafi verið tæki sem sérfræðingar beri um að unnt sé að nota við framleiðslu sterkra fíkniefna og hafi þar verið framleiðsla í gangi.  Tekin hafi verið sýni úr efnum á staðnum og fyrsta svörun hafi verið methamfetamine, en efnin hafi verið send til frekari greiningar.  Sérfræðingar hafi verið fengnir á vettvang til að meta umfang framleiðslunnar og ætlaða almannahættu sem kunni að hafa verið samfara framleiðslunni.  Samkvæmt þeirra upplýsingum kunni sprengihætta að fylgja efnaframleiðslu þeirri sem talið sé að hafi farið fram í húsnæðinu.  Sérfræðingar frá Europol, sem fóru á vettvang, hafi talið verksmiðjuna hafa mjög mikla framleiðslugetu og hafi fagmannlega verið að verki staðið.  Miðað við þau efni og þann tækjabúnað sem hafi verið í húsnæðunum töldu þeir möguleika á framleiðslu amfetamíns, methamfetamíns og MDMA.

Í húsnæðinu að [...] hafi fundist rúmlega 700 g af amfetamíni.

Við leit lögreglu að [...], hafi fundist rúmlega 18 kg af hassi í ferðatösku.

Kærði hafi borið svo um í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi tekið að sér að framleiða fenylaceton fyrir ónafngreindan aðila og væri kærða kunnugt um að viðkomandi hafi ætlað að nota efnið til framleiðslu á amfetamíni.  Fenylaceton muni samkvæmt heimildum lögreglu vera efnasamband sem notað sé við framleiðslu á amfetamíni. 

Rannsókn lögreglu miði að því að finna út hvernig staðið var að hinni ætluðu framleiðslu, umfangi framleiðslunnar, hvort efni hafi verið farin í dreifingu, fjármögnun, skipulagningu og hvort fleiri aðilar tengist ætlaðri framleiðslu og dreifingu.  Rannsóknin sé mjög umfangsmikil og hafi mikil vinna verið við gagnaöflun og úrvinnslu gagna og sé þeirri vinnu ekki lokið.

Kærði hafi hlotið dóm m.a. fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.  Kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 8. febrúar 2007 í 2 ár á 300 daga eftirstöðvum refsingar vegna dóms í máli Hæstaréttar nr. 510/2004.

Rökstuddur grunur sé um stórfellt fíkniefnabrot kærða.  Nauðsynlegt sé talið að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn og/eða vitni og/eða að kærði geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafa í málinu og hafa ekki verið haldlögð.  Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi.

Nánar er vísað til framlagðra gagna hvað varðar rökstuddan grun lögreglu um ætlaðan þátt kærða í hinu stórfellda fíkniefnabroti.

Til rannsóknar er ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. 

Kærði hefur mótmælt framkominni gæsluvarðhaldskröfu og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að henni verði markaður skemmri tími.

Að öllu framanrituðu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður að fallast á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi átt aðild að framleiðslu og dreifingu fíkniefna sem fangelsisrefsing er lögð við. Málið er umfangsmikið og stendur rannsókn þess enn yfir. Haldi kærði frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, haft áhrif á vætti hugsanlegra vitna eða vitorðsmanna. Eru uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, til að kærða verði gert að sæta gæluvarðhaldi og þykir rétt að taka kröfu lögreglustjóra til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 13. nóvember 2008 kl. 16:00.