Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þóknun verjanda
  • Ákvörðun héraðsdómara felld úr gildi


Mánudaginn 5

 

Mánudaginn 5. maí 2008.

Nr. 219/2008.

Ríkissaksóknari

(enginn)

gegn

Birni Ólafi Hallgrímssyni

(sjálfur)

 

Kærumál. Þóknun verjanda. Ákvörðun héraðsdómara felld úr gildi.

B var skipaður verjandi X við lögreglurannsókn sakamáls, en lét af þeim starfa áður en meðferð málsins lauk. Gerði hann kröfu um að héraðsdómari ákvarðaði honum þóknun vegna framangreindra starfa og var það gert. Kærði B ákvörðunina til Hæstaréttar og krafðist þess að þóknun hans yrði hækkuð. Talið var að ekki lægi fyrir að máli gegn X væri lokið í skilningi 1. og 2. ml. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og hafi því ekki verið tímabært að kveða á um þóknun B með þeim hætti sem gert hafi verið. Var hin kærða ákvörðun því ómerkt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun héraðsdómara 14. apríl 2008, sem barst varnaraðila 16. þess mánaðar, um þóknun hans vegna starfa sem skipaður verjandi X við lögreglurannsókn á ætluðu refsilagabroti. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fallist verði á kröfu hans um greiðslu fyrir 145,3 vinnustundir sem farið hafi í vinnu við málið, aðallega á tímagjaldinu 14.600 krónur en til vara á tímagjaldinu 10.800 krónur, í báðum tilvikum að viðbættum virðisaukaskatti. Þá krefst hann staðfestingar á ákvörðun héraðsdómara um aksturskostnað.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Í 1. málslið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 19/1991 segir að dómari ákveði þóknun verjanda í dómi eða úrskurði ef máli lýkur á þann hátt. Í 2. málslið sama lagaákvæðis er mælt fyrir um að ljúki máli ekki með þeim hætti ákveði dómari þóknun með bókun í þingbók, eða á annan skriflegan hátt. Ekki liggur fyrir að máli sóknaraðila gegn X hafi lokið í skilningi framangreindra lagareglna. Breytir þar engu um þótt varnaraðili hafi látið af störfum sem verjandi hans og nýr lögmaður verið skipaður í hans stað. Var því ekki tímabært að kveða á um þóknun varnaraðila með þeim hætti sem gert var með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 19/1991. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hina kærðu ákvörðun.

Dómsorð:

Hin kærða ákvörðun er ómerkt.

 

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 14. apríl 2008.

Í þinghaldi 24. janúar sl. voruð þér [Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.] að ósk  X skipaður verjandi hans vegna rannsóknar á ætluðu broti hans gegn ákvæðum 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Með bréfi dómsins 27. mars sl. var yður að eigin ósk veitt lausn frá skipuninni. Í bréfi yðar dags. 8. apríl sl. er óskað  ákvörðunar á þóknun samkv. tímaskýrslu.

                Þóknun yðar vegna verjandastarfs í málinu þykir með hliðsjón af tímaskrá yðar hæfilega ákveðin 40,5 * 10.800 kr. = 437.400 kr. eða 544.563,- kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Þar að auki ferðakostnaður 230 km * 76,00 kr. samtals 17.480 kr.

                                                                                        Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari