Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Dómsatkvæði

         

Miðvikudaginn  6. júní 2007.

Nr. 296/2007.

Lögskil ehf.

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

gegn

Filippusi Guðmundssyni

(Hallvarður Einvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

L ehf. krafðist þess að F greiddi sér tilgreinda fjárhæð samkvæmt tveimur reikningum 28. október 2005 vegna vinnu í þágu F. Ekki var talið að L ehf. hefði gert nægilega grein fyrir því hvaða vinna lægi að baki þeim reikningum, sem krafan var reist á. Var málið því svo vanreifað að ekki var talið unnt að leggja á það efnisdóm og því vísað sjálfkrafa frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2007.

I

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð mánudaginn 23. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Lögskilum ehf., kt. 551294-2859, Suðurlandsbraut 48, Reykjavík, með stefnu birtri 14. desember 2005, á hendur Filippusi Guðmundssyni, kt. 060632-2009, Lindargötu 57, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 738.996,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 738.996,00 frá 28.10.2005 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að stefnukröfur verði lækkaðar stórlega og stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Málavextir

Í stefnu segir, að krafa stefnanda sé vegna vinnu við, annars vegar aðgerðir til innheimtu á eftirstöðvum söluverðs fasteignar, og hins vegar vegna meðferðar kærumáls hjá lögreglunni í Reykjavík og ríkissaksóknara vegna meintrar nafnfölsunar gagnvart stefnda og veðsetningar á fasteign hans með tryggingarbréfi.  Í fyrra tilvikinu er ekki gerð grein fyrir tengslum stefnda við umrædda vinnu eða við umrædda fasteign.  Þá er engin grein gerð fyrir því í stefnu, hvenær vinnan fór fram. 

Stefndi skýrir svo frá, að hann hafi ítrekað reynt að kalla eftir gögnum um málið, án árangurs.

Við aðalmeðferð var bókað eftir lögmönnum aðila, að þeir legðu áherzlu á að fá efnisdóm í málinu, þrátt fyrir rýra málavaxtalýsingu í stefnu.  Kom fram við skýrslutöku við aðalmeðferð, að stefnandi hefði aðstoðað stefnda við sölu á fasteign stefnda að Öldugötu 44, Reykjavík.  Kaupandi fasteignarinnar, Ós ehf., stóð ekki við greiðsluskuldbindingar sínar og varð síðar gjaldþrota.  Er fyrri kröfuliður stefnanda byggður á vinnu fyrir stefnda vegna sölunnar, síðari innheimtuaðgerða og loks aðstoð við að lýsa kröfu í búið.  Skiptum lauk sumarið 2003 og reyndist búið eignalaust.  Þá liggur fyrir, að stefndi veitti nýjum lögmanni umboð til að aðstoða sig, og liggur umboðið fyrir í málinu, dags. 29. október 2002.  Ágreiningur er um það, hvenær stefnanda mátti verða það ljóst, en samkvæmt því sem fram kom við skýrslutökur, hélt vinna stefnanda áfram í þágu stefnda fram á mitt sumar 2003, þegar skiptum lauk í þrotabúi Óss ehf.  Einnig kom fram við skýrslutökur, að á árinu 2001 hafi komið í ljós, að á fasteigninni Öldugötu 44, hvíldi tryggingarbréf að fjárhæð kr. 18 milljónir.  Taldi stefndi nafnritun sína undir bréfið vera falsaða og byggir síðari kröfuliðurinn á vinnu stefnanda fyrir stefnda við að kæra og fylgja eftir kæru vegna meintrar fölsunar.  Niðurstaða þeirrar rannsóknar, sem lauk síðla árs 2002, leiddi ekki í ljós, að um fölsun væri að ræða. 

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á tveimur eftirgreindum reikningum, þeim fyrri vegna innheimtuaðgerða á eftirstöðvum söluverðs Öldugötu 44, Reykjavík, á hendur Ósi ehf., og þeim síðari vegna meðferðar kærumáls hjá Lögreglunni í Reykjavík og Ríkissaksóknara v/meintrar nafnfölsunar gagnvart stefnda og veðsetningar fasteignar hans með tryggingarbréfi:

Nr.       Útgáfudagur       Gjalddagi            Fjárhæð

1262    28.10.2005        28.10.2005        444.118,00

1263    28.10.2005        28.10.2005        294.878,00

 

Stefnandi kveður stefnda, og síðar lögmann hans, Svein Guðmundsson hdl., hafa óskað eftir að fá gögn málsins, sem stefnandi hafi verið tilbúinn að afhenda, gegn greiðslu áfallins og útlagðs kostnaðar.  Stefndi hafi ekki orðið við því og hafi nú andmælt kröfunum með bréfi, dags. 01.12. 2005, og beri m.a. fyrir sig fyrningu og tómlæti.  Reikningarnir og vinnuframlag að baki þeim séu ófyrndir og verði stefnandi ekki sakaður um tómlæti, þar sem viðræður hafi verið í gangi allt fram á sumarið 2005 um afhendingu gagna og greiðslu kostnaðar.

Stefnandi vísar til meginreglu samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.  Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

Stefndi kveður sýknukröfu sína á því byggða, fyrst og fremst, að stefnandi eigi engar fjárkröfur á hendur honum.

Krafa stefnanda í þessu máli sé í verulegum atriðum vanreifuð.  Stefnandi hafi ekki lagt fram vinnuskýrslur, sem stefndi hafi óskað eftir að fá afhentar, í þeim eina tilgangi að kanna, hvaða vinnuframlag það væri mögulega, sem stefnandi eigi að hafa unnið fyrir stefnda frá fyrri árum.  Stefndi hafi strax mótmælt reikningagerð stefnanda, sbr. dskj. nr. 4, og m.a. talið, að öllum reikningsskilum væri lokið. 

Stefndi telji sig hafa lokið öllum skilum við stefnanda þessa máls með greiðslu á reikningi nr. 1671, að upphæð kr. 218.124.  Þá hafi stefndi greitt skömmu áður annan reikning, nr. 1670, að upphæð kr. 149.400.  Stefndi hafi hins vegar greitt reikning nr. 1671 með fyrirvara, svo sem áritun á greiðsluseðil banka beri með sér.

Því sé mótmælt, sem fram komi í stefnu, að viðræður hafi verið í gangi milli aðila allt fram á síðasta sumar um afhendingu gagna gegn greiðslu kostnaðar.  Eftir ofangreint uppgjör á árinu 2001 hafi lögmaður stefnda haft samband við Hilmar Magnússon, lögmann hjá Lögskilum, og óskað eftir upplýsingum og öðru, er varðaði gögn og þá vinnu, sem stefnandi hafði lagt fram fyrir stefnda.  Í framhaldi  hafi aðeins borizt tímaskýrslur frá stefnanda, sbr. dskj. nr. 8-10. 

Í nokkur ár hafi stefndi þessa máls engar fréttir fengið frá fyrrum umboðsmönnum sínum, þ.e. stefnanda þessa máls, og hafi ávallt verið í góðri trú um, að öllu uppgjöri á milli aðila væri lokið.

Það sé viðurkennd höfuðregla, að kröfuhafi verði að gæta réttar síns og halda honum til haga og bera halla af vanrækslu sinni á því sviði.  Með tómlæti sínu hafi stefnandi glatað kröfu sinni í þessu máli.  Stefnandi hafi látið hjá líða, lengur en hæfilegt þyki, að gera einhverjar ráðstafanir, sem venja mæli fyrir um, til að tryggja meintan rétt sinn eða viðgang kröfunnar.  Rök mæli með því, að samskiptum milli aðila ljúki endanlega, áður en mjög langt um líði frá réttum efndatíma, þannig að aðilar geri upp mál sín vegna kröfunnar innan hæfilegs frests.  Réttarreglunum um tómlæti og tómlætisáhrif sé m.a. ætlað að stuðla að þessu markmiði. 

Það verði að teljast mjög bagalegt gagnvart stefnda þessa máls að vera knúinn til að greiða meinta skuld, sem legið hafi niðri til margra ára.  Hafi meint skuld verið til staðar, gefi það stefnda tilefni til að ætla, að stefnandi hafi gefið hana eftir vegna aðgerðarleysis.

Þá sé reikningagerð stefnanda í engu samræmi við þá venju, sem hann hafi viðhaft gagnvart stefnda frá fyrri tíma.  Dómskjal nr. 6 beri með sér, að stefnandi geri upp með útgáfu reiknings vegna áfallinnar vinnu frá fyrri tíma gagnvart stefnda í beinu framhaldi, þegar vinnan var afstaðin.

Það hljómi ankannalega í málatilbúnaði stefnanda, að hann hafi beðið með reikningagerð, sem mál þetta sé sprottið af, til margra ára vegna deilna við stefnda, þá þannig að stefnandi hafi eingöngu ætlað að afhenda gögn til stefnda gegn greiðslu á meintum óuppgerðum reikningi við stefnanda. 

Ljóst sé af málatilbúnaði, að strax á árinu 2002 sé stefndi kominn með nýjan lögmann, sem sé að óska eftir gögnum og öðru, er varði fyrri vinnu stefnanda.  Eðli málsins samkvæmt hafi stefnanda þá strax mátt vera ljóst, að vatnaskil hafi verið í samskiptum milli aðila, og hefði þá eðli málsins samkvæmt átt að gera reikning fyrir meintri skuld og skilyrða afhendingu málsgagna gegn greiðslu reiknings.

Nái krafa um sýknu ekki fram að ganga, geri stefnandi kröfu um verulega lækkun á stefnukröfu og telji, að leggja verði mat á það vinnuframlag, sem stefnandi segist hafa lagt fram í þágu stefnda fyrir u.þ.b. fimm árum síðan.

Krafa um sýknu sé aðallega byggð á meginreglum um tómlæti og tómlætisáhrif.  Krafa um málkostnað sé byggð á 1. mgr. 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.  Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé studd við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Forsendur og niðurstaða

Hilmar Magnússon, lögmaður og framkvæmdastjóri stefnanda, gaf skýrslu fyrir dómi, sem og stefndi.

Af framburði aðila í málinu þykir í ljós leitt, að stefnandi vann að hagsmunum stefnda samkvæmt umboði frá honum allt fram á mitt sumar 2003, svo sem lýst er hér að framan.  Engu að síður réð stefndi sér annan lögmann í október 2002, samkvæmt fyrirliggjandi umboði.  Er ósannað, að stefnandi hafi vitað eða mátt vita um lögmannsskiptin fyrr en á árinu 2004.

Reikningar þeir, sem eru grundvöllur kröfugerðar stefnanda, eru dagsettir 28. október 2005, en þeir bera ekki með sér, hvenær sú vinna var unnin, sem krafizt er greiðslu á.  Fyrri reikningurinn, að fjárhæð kr. 444.118, er vegna reksturs innheimtumáls á hendur Ósi ehf. fyrir héraðsdómi og eftirfarandi fullnustutilraunar.  Síðari reikningurinn er að fjárhæð kr. 294.878, og er vegna vinnu við kærumál til Lögreglunnar í Reykjavík, vegna meintrar fölsunar á nafnritun stefnda.

Fyrir liggur, að stefndi greiddi stefnanda tvo reikninga, dags. 12. júlí 2001.  Er annar reikningurinn að fjárhæð kr. 218.124, og er hann vegna þóknunar fyrir aðstoð við sölu á Öldugötu o.fl.  Hinn reikningurinn er að fjárhæð kr. 149.400, og er hann vegna ýmissar lögfræðiþjónustu samkvæmt verkbókhaldi.  Stefndi heldur því fram, að með greiðslu þessara reikninga hafi hann greitt alla vinnu stefnanda í sína þágu allt til 12. júlí 2001. 

Samkvæmt vinnuskýrslu stefnanda á dskj. nr. 26 er ljóst, að a.m.k. hluti af vinnu stefnanda vegna fölsunarmálsins var látinn í té fyrir 12. júlí 2001.  Þá liggur einnig fyrir vinnuskýrsla á dskj. nr. 12, sem virðist vera grundvöllur vinnu stefnanda vegna sölunnar á Öldugötu 44 og eftirfarandi uppboðs.  Vinnuskýrsla á dskj. nr. 8 sýnist vera annars vegar vegna fölsunarinnar og hins vegar vegna útburðarbeiðni og málaferla vegna sölunnar á Öldugötu, auk annarra atriða.  Lýkur vinnu samkvæmt þeirri vinnuskýrslu 12. júlí, þegar fyrri reikningar stefnanda voru gefnir út.  Stefnandi hefur ekki gert reka að því að tengja reikninga þá, sem eru grundvöllur kröfugerðar hans í máli þessu, vinnuskýrslunni, eða gera grein fyrir því, hvaða vinna liggur að baki þeim reikningum, sem krafa hans í máli þessu byggir á.  Málið er því verulega vanreifað og hefur ekki skýrzt nægilega við meðferð þess svo lagður verði á það efnisdómur.  Er því óhjákvæmilegt, þrátt fyrir eindreginn vilja beggja lögmanna málsaðila til að fá efnisdóm í málinu, að vísa því frá dómi ex officio.  Með hliðsjón af þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 150.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi ex officio.

Stefnandi, Lögskil ehf., greiði stefnda, Filippusi Guðmundssyni, kr. 150.000 í málskostnað.