Hæstiréttur íslands
Mál nr. 642/2007
Lykilorð
- Líkamsárás
- Frelsissvipting
- Álag á miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 22. maí 2008. |
|
Nr. 642/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Frelsissvipting. Miskabætur. Sératkvæði.
X var ákærður fyrir líkamsárás og brot gegn frjálsræði A, fyrrum unnustu sinnar. Þá var hann ákærður fyrir hótanir í hennar garð. Ekki þótti hafið yfir skynsamlegan vafa að brotið hefði verið gegn frjálsræði A og var X því sýknaður af þeim lið ákærunnar. X var hins vegar sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í dómi Hæstaréttar sagði að X hefði játað brot sín að hluta. Þá hefði hann einungis verið 17 ára er hann framdi brotin og væri litið til þessara atriða til refsimildunar. Hins vegar yrði að líta til þess að sú líkamsárás sem X var fundinn sekur um stóð yfir í langan tíma og hafði talsverðar afleiðingar í för með sér fyrir A, einkum vegna þess áfalls sem hún varð fyrir er kærasti hennar beitti hana slíku ofbeldi. Var refsing X ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað. Þá var X gert að greiða A 400.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. nóvember 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta til A að fjárhæð 600.000 krónur með tilgreindum dráttarvöxtum.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara mildunar refsingar. Þá krefst hann þess að bótakröfu A verði vísað frá dómi eða hún lækkuð.
Ákæruvaldið sættir sig við lýsingu málsatvika og tekur undir röksemdir héraðsdómara fyrir efnislegri niðurstöðu.
Í hinum áfrýjaða dómi eru atvik máls rakin og framburður ákærða og vitna. Ákærða er gefið að sök að hafa veitt A margvíslega áverka í bifreið sinni, eins og nánar er lýst í ákæru, svipt hana frelsi og hótað henni.
Broti gegn frjálsræði A er þannig lýst í 1. ákærulið: „[...] með því að hafa [...] í bifreið sinni sem ákærði lagði fyrir utan heimili A [...] og ók síðan um götur Reykjavíkur, [...] er A tókst að komast út úr bifreiðinni í Hafnarstræti, elt hana uppi og dregið hana nauðuga aftur inn í bifreiðina og ekið með hana út að Gróttu [...]“. Hófst atburðarás þessi um klukkan 20.30 og stóð í um klukkustund. Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að nauðungin hafi byrjað strax þegar A fór upp í bifreiðina við heimili sitt við það að ákærði ók af stað og verið viðvarandi þar til ökuferðinni lauk við Eiðistorg. Þó að þessi skilningur sé í samræmi við framburð hennar þykir hátternislýsing ekki nægilega skýr í ákæru til þess að við það verði miðað. Verður lagt til grundvallar að ákæran taki til þess að ákærði hafi dregið hana nauðuga aftur inn í bifreiðina í miðbæ Reykjavíkur og ekið með hana út að Gróttu. Ber þeim hér nokkuð á milli um atburðarrásina. Óumdeilt er að A fór út úr bifreiðinni við höfnina og hljóp berfætt yfir að Hafnarstræti og að ákærði sótti hana aftur í bílinn. Þau greinir hins vegar á um það hvort hún hafi komið sjálfviljug inn í bifreiðina. Samkvæmt frásögn hennar var eitthvað fólk þarna á ferli sem ekki brást við hjálparbeiðni hennar. Framburður beggja staðfestir að hún hafi verið grátandi og í miklu uppnámi. Ekki gætir annarra heimilda um þennan þátt málsins en framburðar þeirra. Þrátt fyrir að telja verði að aflsmunur hafi verið með þeim, verður að ætla að talsverð átök hafi þurft til þess að koma henni gegn vilja sínum inn í bifreiðina. Af öllu framangreindu þykir ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að A hafi verið neydd í skilningi 225. gr. almennra hegningarlaga aftur inn í bifreiðina. Verður því með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að sýkna ákærða af þessum atriði í 1. tölulið ákærunnar. Hins vegar er staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga með vísan til forsendna hans.
Í 2. ákærulið er ákærði sakaður um hótun í símaskilaboði sem hafi verið til þess fallið að vekja hjá A ótta um líf sitt og heilbrigði. Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að hann hefði ekki stjórn á skapi sínu. Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sakfelling ákærða vegna þessarar háttsemi og er hún rétt heimfærð til 233. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði játaði brot sín að hluta. Hann var aðeins 17 ára þegar hann framdi þau og hafði engan sakarferil. Er litið til þessara atriða til refsimildunar. Hins vegar verður að líta til þess að sú líkamsárás sem hann hefur verið fundinn sekur stóð yfir í langan tíma og hafði talsverðar afleiðingar í för með sér fyrir A, einkum vegna þess áfalls sem hún varð fyrir er kærasti hennar beitti hana slíku ofbeldi. Það réttlætir ekki verknaðinn „að stúlkan hafði storkað honum með því að segjast hafa verið honum ótrú“, eins og segir í héraðsdómi. Hann er einnig fundinn sekur um líflátshótun. Verður refsing ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði skilorðsbundna í þrjú ár frá uppkvaðningu dóms þessa.
Þegar virtir eru þeir áverkar sem A hlaut en einkum eftirköst verknaðarins þykja miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar 400.000 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, en krafan var kynnt fyrir ákærða 23. ágúst 2006.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, skal sæta fangelsi í þrjá mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í þrjú ár frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorði samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A 400.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. september 2006 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 276.895 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Í fyrsta lið ákæru að hafa brotið gegn frjálsræði A og að hafa framið líkamsárás gegn henni.
Eins og rakið er í atkvæði meirihluta dómenda er ákærði sýknaður af broti gegn frjálsræði A með þeim rökum að ákærði og hún séu ein til frásagnar um atvik og að gögn málsins styðji ekki frásögn A nægilega. Ég er sammála þeirri niðurstöðu.
Ákærði og A voru einnig tvö ein til frásagnar um þá líkamsárás sem ákærða er gefið að sök í þessum sama lið ákæru. Ákærði hefur viðurkennt líkamsárásina með þeim hætti sem rakið er í niðurstöðu héraðsdóms og með þeim afleiðingum er greinir í ákæru. Ber raunar ekki mikið í milli í frásögn ákærða og A um háttsemi ákærða. Hvorki áverkavottorð né önnur gögn málsins bera glöggt með sér að háttsemi ákærða hafi verið önnur en sú sem hann viðurkennir. Með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærði heldur ekki í þessu tilviki dæmdur fyrir aðra háttsemi en hann hefur viðurkennt. Er háttsemi hans réttilega heimfærð til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er ég sammála meirihluta dómenda um sakfellingu samkvæmt öðrum lið ákærunnar. Þá er ég sammála meirihlutanum um ákvörðun refsingar ákærða, miskabætur og greiðslu sakarkostnaðar.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. september 2007.
Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 5. febrúar sl. á hendur ákærða, “X, kt. [...], [...],
1. Fyrir líkamsárás og brot gegn frjálsræði A, fyrrum unnustu sinnar, með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 16. maí 2006, í bifreið sinni sem ákærði lagði fyrir utan heimili A að [...] og ók síðan um götur Reykjavíkur, veist að henni, rifið í hár hennar og slegið höfði hennar í glugga bifreiðarinnar, slegið hana með krepptum hnefa og flötum lófa í andlit og líkama, og er A tókst að komast út úr bifreiðinni í Hafnarstræti, elt hana uppi og dregið hana nauðuga aftur inn í bifreiðina og ekið með hana út að Gróttu, þar sem ákærði hélt áfram að veitast að A með höggum í andlit og líkama, auk þess sem hann tók hana kverkataki tvívegis og beit í fætur hennar. Ákærði ók að lokum að Eiðistorgi á Seltjarnarnesi þar sem hann henti A út úr bifreiðinni. Við líkamsárásina hlaut A mar víða á líkamanum, þar á meðal á hægri framhandlegg, í vinstri lófa og aftan á hálsi, eymsli í hársverði og bitför á báðum ristum, hægri hásin og á hægri kálfa.
Telst þetta varða við 217. gr. og 1. mgr. 226. gr., en til vara við 217. gr. og 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Fyrir hótanir með því að hafa aðfarnótt sunnudagsins 4. júní 2006 sent A símaskilaboð með eftirgreindum orðum: „Thuert daud!!! Ef thu svararmer ek. Eg fkn stend vid thad!", og var hótunin til þess fallin að vekja hjá A ótta um líf sitt og heilbrigði.
Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
A, kennitala [...], krefst miskabóta að fjárhæð kr. 600.000 auk vaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 16. maí 2006 til greiðsludags.”
1. töluliður ákæru.
Miðvikudaginn 17. maí 2006 kom á lögreglustöðina í Reykjavík A ásamt foreldrum sínum til þess að kæra yfir því að fyrrverandi kærasti hennar, ákærði í málinu, hefði ráðist á hana þegar hún var með honum í bíl þá kvöldið áður. Sagði hún ákærða hafa bæði rifið í hár hennar og slegið höfði hennar við og barið hana í höfuð og líkamann og hótað henni bana. Þegar henni hefði tekist að komast úr bílnum frá honum hefði hann elt hana uppi í Hafnarstræti og dregið hana inn í bílinn og ekið með hana út að Gróttu. Þar hefðu barsmíðar og hótanir haldið áfram, bæði hnefahögg og kinnhestar og hún þannig fengið högg á eyrun. Ákærði hefði tekið hana kverkataki svo að henni lá við köfnun og bitið hana í fæturna þegar hún reyndi að sparka honum frá sér. Hefði hann svo hringt í foreldra hennar og sagt þeim að sækja hana við Hagkaup á Eiðistorgi. Hefði hann ekið með hana þangað og hent henni þar út þegar foreldrar hennar komu þar að. Þau hefðu ekið með hana á slysadeild þar sem hlynnt var að henni.
Í málinu er vottorð Ólafs Baldurssonar dr. med., læknis á Fossvogsspítala, um áverka á A. Segir þar að hún hafi greinilega verið í miklu uppnámi og grátandi. Hún hafi verið marin víða um líkamann, þar á meðal á hægri framhandlegg og aftan á hálsi vinstra megin. Þá hafi hún verið aum í hársverðinum sem samrýmist því að togað hafi verið sterklega í hárið á henni. Þá hafi verið bitför á báðum ristum, hægra megin á hálsi og ofanvert á hægri kálfa. Þá hafi sést far í vinstri lófa. Stúlkan hafi átt erfitt með gang og haltrað um með erfiðismunum. Teknar voru myndir af þessum áverkum og fylgja þær málinu.
Í málinu er einnig vottorð Þóris Njálssonar sérfræðings á slysa- og bráðasviði Fossvogsspítala sem skoðaði A 18. maí þegar hún kom þangað “vegna einkenna frá eyrum og sérstaklega vinstra eyra”. Segir í vottorðinu að þegar skoðað hafi verið inn í eyrun hafi ekkert óeðlilegt sést í hægra eyra en í vinstra eyra hafi hljóðhimnan verið svolítið mött og aðeins útbungandi eins og væri eyrnabólga á bakvið. Ekki hafi þó verið gat á himnunni. Þá segir þar að fleiri marblettir hafi verið að koma í ljós; á framhandlegg, hálsi og einnig yfirborðsáverkar á fótlegg, ökkla og fæti, og úlnlið og hendi.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í meðferð málsins fyrir dómi.
Við þingfestingu málsins sagði ákærði ákæruna að nokkru leyti vera rétta en að öðru leyti ranga. Í fyrsta lagi væri það rangt að hann hafi svipt A frelsi. Á hinn bóginn viðurkenndi hann að hafa rifið í hár hennar, slegið hana einu sinni í öxlina, slegið hana einu sinni með flötum lófa á eyrað og loks að hafa bitið hana einu sinni í fótinn. Að öðru leyti neitaði hann sök varðandi þennan ákærulið.
Í aðalmeðferð málsins hefur það komið fram hjá ákærða að þau A hafi verið saman í um sex mánaða skeið. Kveðst hann hafa búið hjá henni á heimili foreldra hennar. Þetta kvöld hafi slest upp á vinskapinn þegar hún hefði orðið afbrýðissöm vegna annarrar stúlku. Kveðst ákærði þá hafa ákveðið að slíta sambandi þeirra. Hafi hún sent skilaboð til ákærða að hann skyldi koma og tala við hana. Hafi hún látið hann frétta að hún hefði átt vingott við tvo stráka meðan hann var úti á sjó. Kveðst hann hafa reiðst þessu mjög og farið heim til hennar á [...] með dót sem hún hefði beðið hann um að skila. Hafi hún beðið eftir honum þar fyrir utan glottandi og sest inn í bílinn hjá honum og hann ekið af stað. Á leiðinni að ráðhúsinu hafi hún farið að öskra á hann út af þessari stúlku og þau farið að tuskast til. Hafi hún veist að honum og klórað hann upp allan handlegginn, sparkað í síðuna á honum og hárreytt hann. Þá hafi hún slegið hann í hálsinn, klipið hann og klórað allan. Verði menn “að skilja...að þegar fólk er í brjálæðiskasti í bíl, þá verður maður reiður og brjálaður og þá man maður ekki allt sem skeði”. Kveðst hann hafa farið í algert “black-out”. Viðurkennir hann að hafa tuskað hana til rétt eins og hún hafi gert við hann á móti. Kannast hann við að hafa kýlt í öxlina á henni. Hafi séð á þeim báðum eftir átökin. Hann kveðst ekki hafa tekið hana með sér nauðuga í bílinn, enda hafi hún sest inn í hann sjálfviljug og hann þá ekið strax af stað. Nánar aðspurður segir hann að það hafi ekki verið fyrr en þegar þau voru komin niður að ráðhúsinu að hann hafi tekið í hana yfir axlirnar, togað hana til sín og spurt af hverju hún hefði verið að halda fram hjá, en hann hefði svo sleppt takinu. Hafi þau farið í áttina að “nesinu” til þess að þau gætu ræðst við en hún verið alveg brjáluð og engu tauti við hana komið. Hafi hann þá ekið aftur niður í bæ þar sem hún hafi farið út úr bílnum en hann ekið á eftir henni og sagt henni að koma inn í bílinn aftur. Hafi hún þá sest aftur í bílinn, af frjálsum vilja, og hann ætlað að aka henni heim. Hún hafi hins vegar verið í einhverju brjálæðiskasti og hann því hringt í móður hennar og beðið um að stúlkan yrði sótt út á Nes þar sem Hagkaup séu. Hafi stúlkan farið sjálf úr bílnum, en ekki verið hent úr honum, og hún farið til foreldra sinna sem komu þangað. Honum er bent á að hann hafi sagt hjá lögreglu að hann hefði hent henni þarna úr bílnum. Segir hann að það sé rangt og skilji hann ekki af hverju hann hafi sagt þetta. Þá er honum kynnt að þar sé einnig haft eftir honum að hann myndi ekki hvernið hann hefði komið A út úr bílnum því hann hafi verið svo reiður. Segir hann að orðasambandið að “henda út” megi ekki skilja bókstaflega. Nánar aðspurður segir hann að þau hafi á þessari ferð farið frá ráðhúsinu, stoppað við bensínstöðina sem var við höfnina og hafi hún þá verið hágrátandi, sár og reið. Hafi maður horft á þau og hann því ekið af stað aftur. Geti verið að það hafi verið þar sem hún fór úr bílnum og hann ekið á eftir henni og fengið hana til þess að setjast inn í bílinn. Hafi hún verið berfætt að ganga á möl eftir að hafa sparkað af sér skónum inni í bílnum. Hafi hann því ætlað að skutla henni heim og boðið henni það en hann muni ekki af hverju það hafi ekki orðið úr. Hann kveðst muna eftir því að hafa kýlt í öxlina á henni og að hafa bitið hana í fótinn þegar hún var að sparka í hann og hann var þá að aka. Hann kveðst aðspurður ekki geta skýrt áverkana sem voru á stúlkunni á slysadeild, enda myndi hann “ekkert eftir þessu”. Hann muni þó eftir að hafa barið hana í handlegginn. Leið þeirra hafi legið út á Nes og hafi hann hringt úr bílnum í neyðarlínuna til þess að hún gæti kært hann en hún verið því mótfallin. Kveðst hann hafa sagt í símann að hann vildi fá lögregluna út á Nes þar sem þau væru þar að rífast og slást. Hafi þá verið svarað að þeir sinntu ekki slíku. Hann segir þetta annars allt vera í móðu fyrir sér. Hann kannast við að hafa slegið stúlkuna á eyrað en segir að hann hafi ekki ætlað að slá hana þar heldur á kinnina. Hann segist hafa verið allur klóraður á framhandleggnum eftir hana, marinn á hægri síðu og á hálsinum þeim megin svo og hárreyttur. Þá hafi hann verið útsparkaður eftir hana. Af Seltjarnarnesi hafi svo leiðin legið að verslun Hagkaupa þar sem foreldrar stúlkunnar komu og sóttu hana.
Spurður hvort hann hafi gefið stúlkunni færi á því að fara úr bílnum segir hann að ekki sé erfitt að komast út úr bíl af þessari gerð og þó hann læsi hurðunum geti sá sem er í bílnum opnað innan frá. Þau hafi stoppað á tveimur stöðum, við bensínstöðina og úti á Nesi og þar hefði hún getað komist út.
A hefur skýrt frá því að þau ákærði hefðu verið kærustupar í um hálft ár. Hafi ákærði meira og minna búið heima hjá henni á þessum tíma. Kveðst hún hafa komist að því að ákærði hefði verið henni ótrúr og orðið mjög reið. Hafi hún hringt í hann og sent boð og sagt honum að hún hefði líka verið honum ótrú til þess að ná sér niðri á honum. Hafi hann reiðst mjög og hringt en hún sagt honum að sækja dótið sitt. Hafi hann komið akandi og hún farið út í bíl með dótið hans. Hafi hún sest inn í bílinn en hann þá þegar ekið af stað án þess að þau hefðu talað um að fara nokkuð. Hafi hann strax byrjað að lemja hana og haldið henni niðri. Hafi ákærði ekið frá [...] niður á Fríkirkjuveg og Lækjargötu. Hafi hann sagst myndu drepa hana og hrinda henni í sjóinn og ekið niður að höfn, skammt frá Esso-stöðinni, og þar hafi hún komist að raun um að bíllinn var læstur svo að hún gat ekki opnað og komist út. Hafi hann látlaust ausið yfir hana skömmum og svívirðingum og síspurt hvernig hún hefði fengið af sér að gera honum þetta. Hafi hún reynt að komast út og getað það að endingu og hlaupið berfætt að “Nonnabitum”, en hann náð henni aftur við pulsuvagninn og dregið hana þar inn í bílinn. Þarna hafi verið fólk og hún öskrað á hjálp en enginn skipt sér af, enda hafi ákærði reynt að láta líta svo út að hún væri ekki með öllum mjalla. Ákærði hafi ekið með hana þaðan út í Gróttu svo enginn sæi til þeirra og haldið þar áfram að berja hana í bílnum og hárreyta. Hafi bílnum verið lagt þar við eitthvert verkstæði og þar hafi hún reynt að verjast honum með því að sparka frá sér en hann þá bitið hana. Þegar maður hafi komið þar út í dyr hafi ákærði fært bílinn. Hún kveðst hafa hringt heim en ákærði þegar slitið sambandinu. Hún segir hann hafa tekið hana kverkataki og hert svo að að hún hafi óttast að hún myndi deyja. Kveðst hún halda að hann hafi þá gert sér grein fyrir því að hann væri að ganga frá henni því hann hafi hringt heim til hennar og beðið stjúpa hennar um að koma og sækja hana. Þá segist hún aðspurð muna til þess að ákærði hafi hringt í neyðarlínuna en ekki muni hún hvað hann sagði þá í símann. Hún segist þó muna að hún hafi öskrað á meðan í von um að fá hjálp. Hafi þau ekið inn að Eiðistorgi og þar hafi ákærði ekið í hringi þar til foreldrar hennar komu. Hafi hún þá opnað bíldyrnar og hann ýtt henni út úr bílnum svo að hún lenti í götunni. Hafi hún farið til foreldra sinna sem hafi ekið beint á slysadeildina með hana. Hún segir ákærða ekki hafa gefið henni færi á að fara úr bílnum meðan á ferðinni stóð. Einu sinni hafi hann þó opnað en þá hafi bíllinn verið á svo mikilli ferð að hún hætti ekki á að fara úr honum. Hafi þetta verið á móts við JL-húsið á leiðinni út í Gróttu. Hún segir bíldyrnar annars hafa verið læstar en ekki muni hún hvar ákærði læsti bílnum. Hún segist hafa reynt að verjast ákærða eftir bestu getu, berja frá sér, sparka og klóra í andlitið og líklega víðar en hann sé miklu sterkari en hún og hafi hann t.d. getað haldið höndum hennar. Hún segist hafa verið með 18 marbletti eftir þetta og ekki getað greitt sér í nokkra daga vegna hárloss. Þá hafi höggið á eyrað verið svo þungt að vatn hafi lekið undir hljóðhimnuna. Þá hafi hún verið með bitför og átt erfitt með að stíga í fótinn. Bitförin hafi hún væntanlega hlotið þegar hún var að sparka frá sér. Hún segist hafa fengið miklar martraðir eftir þetta, einkum fyrst eftir atburðinn. Þá hafi hún farið að finna fyrir þunglyndiseinkennum.
Ólafur Baldursson læknir hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt. Hann kveðst hafa skoðað A en ekki muna eftir tilvikinu í smáatriðum. Vísar hann til þess sem segir í vottorðinu.
Móðir A, B, hefur skýrt frá því að hún hafi verið stödd á kaffihúsi þetta kvöld og hafi maðurinn hennar þá hringt í hana og sagt að eitthvað mikið væri á seyði því A hefði hringt og verið æst og mátt heyra að mikið gengi á milli þeirra ákærða. Um hálftíma seinna hafi hann hringt aftur og sagt að ákærði hefði hringt og sagt að þau væru úti í Gróttu. Hefði mátt heyra að mikið gengi á og að ákærði væri að lemja hana. Hafi þau farið saman vestur eftir. Kveðst hún hafa náð sambandi við A sem hafi hágrátið í símann og sagt að þau yrðu á Eiðistorgi. Þegar þau komu þangað hafi bíll ákærða verið þar og minnir hana að hann hafi verið að hringsóla um svæðið þar. Hafi hurð á honum opnast og ákærði ýtt stúlkunni út svo að hún lá í götunni. Hafi hún verið organdi af gráti eins og smábarn. Hafi hún haltrað með þeim yfir í bílinn þeirra og skolfið þar öll og grátið. Hafi þau ekið henni beint á slysadeildina og þau orðið að styðja hana þar inn vegna þess að hún hafði verið bitin í fæturna. Þá hafi hún ekki heyrt vel fyrir suði eftir högg sem hún hafði fengið á eyrun. Á leiðinni á slysadeildina hafi hún sagt þeim hvað gerst hafði. Næstu daga á eftir hafi þau hjónin orðið að taka sér frí til þess að vera hjá A því hún hafi grátið stanslaust. Þá kveðst hún vita til þess að stúlkan hafi fengið martraðir þetta sumar. Þá hafi stúlkan fengið líflátshótanir í símann þangað til hún skipti um númer. Þá segir hún að Alexander, vinur ákærða, hafi skilað því til hennar frá ákærða að hún yrði að svara hringingum hans, annars kæmi hann með kylfu að berja hana. Hafi fjölskyldan verið líkt og í umsátri ákærða.
C, stjúpi A, hefur komið fyrir dóm og greint frá því að eftir að hann kom heim um áttaleytið þetta kvöld hafi hann heyrt að stúlkan talaði í síma, mjög æst. Síðan hafi hún komið upp frá sér með einhverjar flíkur og sagst ætla að skila þessu drasli og farið út. Um það bil 40 mínútum seinna hafi síminn hringt eina hringingu en svo hætt. Rétt á eftir hafi stúlkan hringt og æpt í símann í skelfingu og sagt að ákærði væri að berja hana þar sem þau væru stödd úti við vitann. Hafi einnig heyrst í ákærða á bak við. Sambandið hafi svo slitnað og hann þá hringt í konu sína og sagt henni að hann myndi sækja hana til þess að þau færu saman. Skömmu seinna hafi ákærði hringt og sagt að hann skyldi koma og sækja “drusluna” sem hefði haldið fram hjá honum. Þegar þau komu út á Eiðistorg hafi bíll ákærða verið þar á stæðinu og verið ekið til móts við þau. Hafi bíllinn verið stöðvaður og opnast og stúlkunni verið hrint út svo að hún kom niður á hnén. Hafi þau farið til, hjálpað henni inn í bílinn og ekið umsvifalaust á slysadeildina með hana. Stúlkan hafi verið hágrátandi með ekkasogum og virst viti sínu fjær af skelfingu. Hafi hún sagt ákærða hafa lamið hana allan tímann og slegið höfði hennar við bílrúðuna og einnig bitið hana. Eins hafi hann komið í veg fyrir að hún gæti hringt. Vitnið segist hafa orðið vart við það að ákærði reyndi mikið til þess að tala við hana í síma eftir atburðinn og hafi hann sent símboð, bæði úr eigin síma en eins úr ýmsum öðrum, þegar stúlkan svaraði ekki hringingum hans. Hafi þessi ásókn ákærða aukið mjög á vanlíðan hennar.
Margrét Sigríður Blöndal, hjúkrunarfræðingur á Fossvogsspítala, hefur komið fyrir dóm og greint frá því að A hafi verið mjög miður sín lengi eftir atburðinn og sýnt greinileg merki um áfallastreitu.
Niðurstaða
1. Af skýrslum ákærða má ráða að hann hafi verið í miklu uppnámi meðan á bílferðinni stóð og hefur hann meðal annars sagt að hann muni lítið eftir því sem gerðist í ferðinni. Kemur þetta heim og saman við það sem A segir um hugarástand hans. Frásögn hennar af atburðarásinni þykir vera einkar trúverðug og hefur auk þess stuðning af læknisvottorðunum og því sem foreldrar hennar bera um ástand hennar eftir að hún kom úr bílnum hjá ákærða. Ákærði hefur jafnframt játað að hafa tuskað stúlkuna til, kýlt hana í öxlina, barið hana í handlegginn, bitið í fót hennar, slegið hana á eyrað og einnig er fram komið hjá honum að hún hafi verið hágrátandi, sár og reið. Þykir því mega byggja á frásögn hennar um líkamsárásina og telja það sannað að hann hafi veitt henni þá áverka, sem lýst er í ákærunni og læknisvottorðunum, með því að rífa í hár hennar, slá höfði hennar við, slá hana með hnefa og flötum lófa í andlit og líkama á ferð um miðbæinn þar til hún fór þar úr bílnum og svo áfram úti við Gróttu með því að slá hana í andlit og líkama, taka hana kverkataki og bíta hana í fæturna. Telst þetta allt varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
2. Í ákæru er ákærði sagður hafa hent stúlkunni út úr bílnum á Eiðistorgi og mun það vera byggt á því sem haft er eftir ákærða og A í lögregluskýrslum sem teknar voru af þeim. Telja verður það ótrúlegt að ákærði hafi megnað að henda stúlkunni út úr bílnum við þessar aðstæður. Ákærði hefur enda neitað þessu fyrir dómi og stúlkan og foreldrar hennar hafa borið fyrir dómi að henni hafi verið hrint eða ýtt úr bílnum. Ber því að sýkna ákærða af þessu sakaratriði.
3. Ákærði er saksóttur fyrir brot gegn frjálsræði A. Eins og ákæran er úr garði gerð kemur ekki annað til álita í þessu sambandi en sá verknaður hans að hafa dregið stúlkuna nauðuga inn í bílinn, eftir að hún fór úr honum í eða nálægt Hafnarstræti. Ákærði neitar því að hafa þá dregið hana inn í bílinn og segir hana hafa sest í hann af frjálsum vilja. Fyrir liggur að ákærði hafði áður en þetta gerðist rifið í hár hennar, slegið höfði hennar við og slegið hana með hnefa og flötum lófa í andlit og líkama á ferðinni um miðbæinn. Þá ber þeim stúlkunni saman um að hún hafi verið berfætt þegar hún fór úr bílnum frá honum. Þegar þetta er allt haft í huga er ekki varhugavert að byggja á frásögn stúlkunnar og telja sannað að ákærði hafi dregið hana nauðuga inn í bílinn. Varðar þessi verknaður hans við 225. gr. almennra hegningarlaga.
2. töluliður ákæru.
Við þingfestingu málsins viðurkenndi ákærði að hafa sent skilaboðin sem þar eru tilgreind en hann segir þau hafi verið send í reiði og ekki verið ætluð til þess að valda henni ótta. Hann hefur sagt um þetta í aðalmeðferð málsins að A hefði borið út þá sögu að hún hefði fundist rænulaus í húsasundi við Laugaveg og kennt honum um það. Hafi hann orðið “brjálaður” og verði því að skoða þessi skilaboð í samhengi við þennan söguburð A að hann væri “orðinn morðingi”. Hafi hann ekki ætlað að vinna henni mein heldur verið að mana hana til að svara sér með þessari sendingu. Hann segist þó gera sér grein fyrir því að þetta hefði getað vakið með henni ótta en hún hafi þó vitað upp á sig sökina.
A hefur skýrt frá því að eftir atburðinn í bílnum hafi ákærði farið að ónáða hana með hringingum og boðum. Hafi hann skammað hana fyrir það að leita til lögreglunnar og svo farið að hóta henni dauða í sms-boðunum ef hún ekki svaraði hringingum hans. Um boðin sem ákært er út af segist hún hafa óttast það að hann myndi gera alvöru úr þessari hótun. Þá segist hún hafa fengið boð frá Alexander nokkrum, vini ákærða, að hún yrði að svara ákærða því hann væri orðinn svo brjálaður að hann myndi ella fara að henni með kylfu.
Niðurstaða.
Ákærði kannast við að hafa sent A skilaboðin sem um ræðir. Voru þau augljóslega fallin til þess að vekja henni ótta um líf sitt og heilsu og sérstaklega eftir það sem á undan var gengið. Varðar þetta brot ákærða við 233. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði var 17 ára að aldri þegar þessi atburður varð. Þá er á það að líta að hann hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot og einnig það að stúlkan hafði storkað honum með því að segjast hafa verið honum ótrú, eins og fram er komið. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga. Rétt þykir að fresta
framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Að kröfu A ber að dæma ákærða miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 350.000 krónur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 4. gr laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 16. maí 2006 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá 22. september 2006 til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til þess að greiða Sveini Andra Sveinssyni hrl. 150.000 krónur í málsvarnarlaun en eftir málsúrslitum ber að dæma að 70.116 króna málsvarnarlaun greiðist verjandanum úr ríkissjóði. Þá ber að dæma ákærða til þess að greiða Þórdísi Bjarnadóttur hdl. 249.249 krónur í réttargæslulaun. Dæmast málsvarnar- og réttargæslulaunin með virðisaukaskatti. Ekki er kunnugt um annan kostnað af málinu.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 45 daga. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði greiði A 350.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 16. maí 2006 og með dráttarvöxtum frá 22. september 2006 til greiðsludags.
Ákærði greiði Sveini Andra Sveinssyni 150.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði greiðist verjandanum 70.116 krónur málsvarnarlaun. Þá greiði ákærði Þórdísi Bjarnadóttur hdl. 249.249 krónur í réttargæslulaun.