Hæstiréttur íslands

Mál nr. 276/2009


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Umferðarlög


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. desember 2009.

Nr. 276/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Sævari Hlyni Jónssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Umferðalög.           

S var sakfelldur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot og dæmdur til að greiða 165.000 króna sekt, auk þess sem hann var sviptur ökurétti í eitt ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2009 og krefst þyngingar á refsingu ákærða og lengri ökuréttarsviptingar. Þá krefst hann staðfestingar á upptöku.

Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærði játaði sök við þingfestingu málsins og var farið með málið samkvæmt 125. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í héraðsdómi er ekki lýst heimfærslu brots 25. júlí 2008 í I. lið ákæru til refsiákvæða, en brotið var þar talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006. Sakarferli ákærða er rétt lýst í héraðsdómi.

Refsing ákærða er ákveðin 165.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 12 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa. Þá verður ákærði sviptur ökurétti í eitt ár frá uppsögu dómsins að frádreginni ökuréttarsviptingu er hann sætti í þrjá mánuði frá 29. desember 2008. Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað verða staðfest.

Með dómi þessum er lagfærð ákvörðun hins áfrýjaða dóms um sektarrefsingu og ökuréttarsviptingu ákærða í samræmi við dómvenju og er rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sævar Hlynur Jónsson, greiði 165.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 12 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá uppsögu dóms þessa að frádreginni sviptingu í þrjá mánuði er hann sætti frá 29. desember 2008.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 19. desember 2008.

A

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 11. desember sl., er höfðað af lögreglustjóranum á Sauðárkróki 13. nóvember 2008 á hendur Sævari Hlyni Jónssyni, fæddum 16. febrúar 1989, til heimilis að Ægisstíg 5, Sauðárkróki,

I.

,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa um ellefuleytið að kvöldi föstudagsins 25. júlí 2008 ekið bifreiðinni YV-604 austur Sauðárkróksbraut við Hegranes í Skagafirði, undir áhrifum fíkniefna, og þannig verið óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, en tetrahýdrókannabínól í blóði ákærða mældist 6,3 ng/ml.  

II.

fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa í ofangreint skipti haft í vörslum sínum 0,62 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni sem lögregla fann við leit í bifreiðinni YV-604, í hólfi vinstra megin við stýrið.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með áorðnum breytingum, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, og til sviptingar ökurétta skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þess er krafist að ofangreind fíkniefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins (efnaskrárnr. 14163), verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

B

Ákærði sótti þing þegar málið var þingfest þann 11. desember sl. og játaði skýlaust háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök. Með játningu ákærða sem er í samræmi við önnur gögn málsins telst sekt ákærða fyllilega sönnuð en háttsemi hans er réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði ríkisins hefur ákærði þrisvar sinnum áður sætt refsingu. Honum var í september 2007 og tvisvar sinnum í september 2008 gert að greiða sektir fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Fyrri brot ákærða hafa ekki áhrif á niðurstöðu máls þessa. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt til ríkissjóðs en átta daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.

Þá ber að svipta ákærða ökurétti í 3 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæruskjali, ber að gera upptæk fíkniefni, svo sem í dómsorði greinir.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sem nemur samkvæmt yfirliti rannsóknara 75.574 krónum en enginn sakarkostnaður hlaust af meðferð málsins fyrir dóminum. Málið sótti Birkir Már Magnússon fulltrúi lögreglustjórans á Sauðárkróki.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Ákærði Sævar Hlynur Jónsson greiði 100.000 króna sekt til ríkissjóðs en átta daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði er sviptur ökurétti í 3 mánuði frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 75.574 krónur.

Upptæk eru 0,62 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni sem haldlögð voru við rannsókn málsins.