Hæstiréttur íslands
Mál nr. 161/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Mánudaginn 9. mars 2015 |
|
Nr. 161/2015. |
A (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) gegn B (Sigurður I. Halldórsson hdl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2015, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að „hin tímabundna sjálfræðissvipting ... verði felld úr gildi.“ Þá krefst hann þess að þóknun skipaðs verjanda síns verði greidd úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún þess að þóknun skipaðs talsmanns síns verði greidd úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila úr ríkissjóði svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, svo og skipaðs talsmanns varnaraðila, Sigurðar I. Halldórssonar héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2015.
Með beiðni, sem barst dóminum 10. febrúar sl., hefur sóknaraðili, B, [...], krafist þess að varnaraðili, A, sama stað, verði með vísan til a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sviptur sjálfræði í sex mánuði. Aðild sóknaraðila byggist á a-lið 2. mgr. 7. gr. laganna.
Af hálfu varnaraðila er því hafnað að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. Er á því byggt að lagaskilyrði séu ekki uppfyllt til þess að varnaraðili verði sviptur sjálfræði sínu tímabundið.
Í kröfu um sjálfræðissviptingu kemur fram að varnaraðili, sem er [...] ára gamall einhleypur maður, eigi að baki margra ára sögu um geðræn veikindi. Hafi hann legið bæði á barna- og unglingageðdeild og á fullorðinsdeild vegna geðrofseinkenna. Hann hafi búið undanfarin ár hjá móður sinni, sóknaraðila máls þessa, hafi lokað sig af og sé alveg hættur að hitta fólk. Hann hafi ekki lokið grunnskóla og hafi ekki getað stundað vinnu. Hann hafi nærst mjög lítið undanfarið. Varnaraðili hafi komið á bráðaþjónustu geðsviðs þann 11. janúar sl., í fylgd móður sinnar, og þá fengist til að leggjast sjálfviljugur inn á geðdeild. Varnaraðili hafi verið hlédrægur og dulur á geðdeildinni og legið mikið fyrir. Sterkur grunur sé um að varnaraðili sé með geðklofa eða annan geðrofssjúkdóm. Þann 20. janúar sl. hafi hann óskaði eftir því að fá að fara af spítalanum en hafi verið metinn of veikur til þess og því hafi innanríkisráðuneytið samþykkt daginn eftir nauðungarvistum í 21 dag. Með bréfi dags. 21. janúar sl. til Héraðsdóms Reykjavíkur hafi varnaraðili óskað eftir því að felld verði úr gildi ákvörðun ráðuneytisins. Því hafi verið hafnað með úrskurði dómsins upp kveðnum 28. janúar sl. Telur sóknaraðili með vísan til framangreinds að tímabundin sjálfræðissvipting í sex mánuði sé nauðsynleg til verndar heilsu varnaraðila. Nauðsynlegri læknishjálp og meðferðarúrræðum verði ekki komið við með öðrum hætti. Byggist krafan á því að varnaraðili sé án vafa haldinn alvarlegum geðsjúkdómi.
Beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð C geðlæknis á bráðageðdeild 32C á Landspítalanum, frá 9. febrúar sl. Þar kemur fram að varnaraðili hafi dvalið á deildinni frá [...]. janúar sl. vegna sjúkdóms en hann hafi áður dvalið á deildinni vegna svipaðra einkanna. Hann hafi til margar ára hvorki getað unnið, stundað nám, né verið viljugur til að þiggja meðferð sem honum hafi verið ráðlagt að þiggja. Frá byrjun hafi hugsun hans verið eftir óvenjulegum brautum og hegðun hans sömuleiðis. Þó að alvarlegar ranghugmyndir hafi ekki með vissu komið fram, enda fremur sjaldgæfar með þeirri gerð geðrofssjúkdóms sem hann sé talinn vera með sé ljóst að ástandi hans megi jafna til alvarlegs geðsjúkdóms í skilningi lögræðislaga. Allt frá því að 21 dags nauðungarvistun hófst hafi varnaraðila verið gefin lyf til meðferðar við sjúkdómi hans, og fyrirsjáanlegt sé að þeirri meðferð þurfi að halda áfram í nokkra mánuði svo að unnt verið að meta hvort árangur náist. Hann neiti meðferð af fúsum og frjálsum vilja. Því sé óhjákvæmilegt að vista varnaraðila áfram gegn vilja hans til þess að unnt sé að tryggja að hann fá nauðsynlega meðferð. Við meðferð málsins fyrir dómi gaf læknirinn skýrslu og staðfesti framangreint mat sitt. Hann sagði ástand varnaraðila ekki hafa breyst frá því að vottorðið var gefið út. Varnaraðila væru nú gefin lyf gegn vilja sínum. Ekki væri unnt að beita vægari úrræðum eins og staða væri í dag, t.d. samtalsmeðferð. Hins vegar væri búið að sækja um endurhæfingu fyrir hann á [...]spítala. Læknirinn taldi varnaraðila þjást af afbrigði af geðklofa eða alvarlegum sjúkdómi í skilningi lögræðislaga. Sjúkdómurinn drægi úr vilja varnaraðila til framkvæmda og til þátttöku í lífinu.
Með heimild í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 71/1997 aflaði dómari vottorðs D geðlæknis. Í niðurlagi vottorðs hans, sem dagsett er 14. febrúar sl., kemur fram að varnaraðili eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða, geðrofssjúkdóm, sem hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og leitt til vannæringar en varnaraðili hafi samt sem áður ekki skilning á mikilvægi meðferðar við sjúkdómnum, vilji ekki þiggja hana heldur vilji hann útskrifast af geðdeild. Í mörg ár hafi verið reynt að ná samstarfi við hann um meðferð en það hafi ekki tekist nema í stuttan tíma. Því sé sjúkrahúsvistun nauðsynleg nú og til að svo megi verða sé tímabundin sjálfræðissvipting óhjákvæmileg. Líklegt sé að sjúkrahúsvist þurfi ekki að vara það lengi og að áður verði náð nægum bata til að koma honum úr hættu. Telur læknirinn að skilyrðum a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 71/1997 sé fullnægt. Enn fremur sé lífi og heilsu varnaraðila hætta búin í skilningi 2. mgr. 58. gr. laganna og sjúkrahúsvistun óhjákvæmileg í skilningi 3. mgr. 19. gr. laganna. Við meðferð málsins fyrir dómi gaf læknirinn skýrslu og staðfesti framangreint mat sitt. Hann vísaði til þess að varnaraðili þjáðist af alvarlegum geðsjúkdómi. Þörf væri á meðferð með geðrofslyfjum, stuðningi, ráðgjöf og liðveislu. Samtalsmeðferð ein og sér myndi ekki duga.
Þá gaf skýrslu fyrir dóminum E, sérkennari og ráðgjafi. Hún lýsti kynnum sínum af varnaraðila sem hafi leitað hjálpar hjá henni fyrir um ári í þeim tilgangi að komast í tengsl við tilfinningar sínar. Hún lýsti hvernig kerfið hefði brugðist honum í gegnum tíðina og hann hefði ekki átt sér bandamann. Hann þyrfti á endurhæfingu á eigin forsendum að halda.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann viðurkenndi að hann þyrfti hjálp enn ekki að vera sviptur sjálfræði. Hann taldi núverandi lyfjameðferð ekki hafa virkað sem skyldi fyrir hann. Hann hafnar því að hann sé haldinn geðsjúkdómi heldur séu þetta streituáhrif.
Niðurstaða:
Eins og að framan er rakið liggur fyrir vætti tveggja geðlækna um að varnaraðili eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða sem þarfnist meðhöndlunar. Var framburður læknanna afdráttarlaus um að þörf væri á tímabundinni sjálfræðissviptingu varnaraðila til þess að unnt væri að veita honum lyfjameðferð en varnaraðili hefði ekki skilning á að hún væri honum nauðsynleg. Vegna slæms ástands varnaraðila í dag myndu vægari úrræði eins og samtalsmeðferð ekki duga. Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn því að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 hvað varðar getu varnaraðila til að ráðstafa persónulegum hagsmunum sínum. Er því óhjákvæmilegt að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið svo að tryggja megi honum viðeigandi læknismeðferð. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í sex mánuði, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og verjanda varnaraðila eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Sigurðar I. Halldórsson hdl., 124.000 krónur, og skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.