Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-283

A (Guðni Á. Haraldsson lögmaður)
gegn
B hf. (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Starfslok
  • Skaðabætur
  • Einelti
  • Meðdómsmaður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir, Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 7. desember 2020 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. nóvember sama ár í málinu nr. 838/2019: A gegn B hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaða- og miskabætur vegna ætlað eineltis og ofbeldis af hálfu yfirmanna sinna hjá gagnaðila sem hafi leitt til þess að leyfisbeiðanda hafi verið nauðugur sá kostur að ganga til samninga um starfslok. Í dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, um að ósannað væri að gagnaðili eða starfsmenn hans hefðu með saknæmum og ólögmætum hætti valdið leyfisbeiðanda bótaskyldu tjóni á starfstíma hennar hjá gagnaðila. Þá var ekki fallist á að hegðun starfsmanna gagnaðila gagnvart leyfisbeiðanda hefði falið í sér ólögmæta meingerð sem valdið hefði henni miska sem gagnaðili bæri ábyrgð á.

Leyfisbeiðandi byggir beiðni sína einkum á því að meðferð málsins í Landsrétti hafi verið ábótavant og beri því að ómerkja dóm Landsréttar og vísa málinu að nýju til réttarins til löglegrar meðferðar. Byggir hún á því að í málinu hafi verið til úrlausnar hvort hún hafi sætt andlegu ofbeldi með því að yfirmenn hafi dreift sögusögnum um sig auk þess sem héraðsdómur hafi vikið til hliðar skýrslu sálfræðistofu sem gagnaðili hafi aflað. Telur hún að Landsrétti hafi borið að kveðja til setu í dómi sérfróðan meðdómsmann til að leggja mat á þessi atriði. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og að málið varði verulega fjárhagslega hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið svo ábótavant að uppfyllt sé skilyrði 3. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar, né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Beiðninni er því hafnað.