Hæstiréttur íslands

Mál nr. 279/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Föstudaginn 7. maí 2010.

Nr. 279/2010.

A

(Ingi H. Sigurðsson hdl.)

gegn

B

(enginn)

Kærumál. Lögræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í eitt ár á grundvelli a. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. apríl 2010, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Varnaraðili lætur ekki málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Inga H. Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. apríl 2010.

                B, kt. [...],[...], móðir varnaraðila hefur krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...],[...], verði sviptur sjálfræði í eitt ár á grundvelli a-liðar  4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

                Varnaraðili kom fyrir dóminn og mótmælti kröfunni á þeim forsendum að hann hefði enga þörf fyrir þau meðferðarúrræði sem sjálfræðissviptingunni er ætlað að þjóna.

                Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi verið í fíkniefnaneyslu í langan tíma eða allt frá 14 ára aldri og að á árinu 2006 hafi foreldrar hans orðið varir við miklar breytingar hjá honum. Hann hafi hætt námi og ekki verið í neinni vinnu að ráði síðan. Hann hafi farið að hegða sér undarlega, eins og að ganga með sólgleraugu allan sólarhringinn og sitja langtímum saman í sömu stellingum fyrir framan sjóvarpið mjög ómeðvitaður um umhverfi sitt. T.d hafi varnaraðili fyrir nokkrum árum farið til blóðföður síns í [...] en þegar þangað kom vissi hann ekkert hvað hann ætti að gera og dvaldi fjóra sólarhringa á flugstöðinni. Hafi varnaraðili í tvígang verið lagður inn á geðdeild á árinu 2007 og í bæði skiptin nauðungarvistaður þar í 21 dag og um miðjan apríl sl. var hann síðan lagður inn á geðdeild og nauðungarvistaður þann 17. s.m. í 21 dag.

                Í læknisvottorði Guðrúnar Geirsdóttur geðlæknis, sem staðfesti vottorð sitt þegar tekin var af henni símaskýrsla fyrir dóminum, kemur fram að varnaraðili hafi verið innlagður í þriðja sinn á sömu forsendum og fyrr. Hann hafi verið ógnandi heima fyrir, rifist við sjónvarpið ógnandi við fjölskylduna.  Einnig sé varnaraðili með sjónofskynjanir, hafi séð svartar pöddur og hent skál í sjónvarpið í bræðiskasti. Í vottorðinu kemur einnig fram að varnaraðili sé eftir sem áður til lítillar samvinnu og innsæisleysi hans sé algert. Þá hafi hann einu sinni þurft á nauðungarlyfjum að halda þar sem hann reifst við sjónvarpið og var mjög æstur.  Einnig kemur fram í vottorðinu að varnaraðili sé með þunga ættarsögu um geðraskanir og mikinn neysluvanda.  Hann sé að mati Guðrúnar að þróa með sér geðrofseinkenni með tilheyrandi vanlíðan og vanvirkni. Varnaraðili hafi ekkert sjúkdómsinnsæi, en virðist þó af og til skynja að ekki sé allt með felldu. Þó sé erfitt að halda uppi almennum samræðum við hann. Hann hafi ekki náð bata utan stofnana og ætíð sótt í sama farið. Hann hafi ekki haldið nein meðferðarplön og er nú innlagður í 7 sinn á þremur árum. Í lok vottorðsins kemur fram það mat læknisins að óhjákvæmilegt sé að sækja um sjálfræðissviptingu til a.m.k. eins árs, svo að veita megi honum þá meðferð og stuðning sem hann þarf á að halda til að koma í veg fyrir frekari veikindi.

                Ólafur Bjarnason geðlæknir sem nú annast meðferð varnaraðila hefur gefið skýrslu fyrir dóminum og lýsti hann sig algerlega sammála því mati læknisins Guðrúnar sem gaf út fyrirliggjandi læknisvottorð að engar forsendur væru fyrir því að varnaraðili gæti náð bata utan þess að njóta þjónustu lokaðrar meðferðardeildar eins og deild 15 á LSH er.

                Á grundvelli þessa mats geðlæknisins og í raun tveggja geðlækna er sett  fram beiðni um sjálfræðissviptingu til eins árs á grundvelli a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. 5. gr. sömu laga.

                Að frumkvæði dómara sem fer með mál þetta nú og ábendingu Guðrúnar Geirsdóttur var leitað álits Pálma Matthíassonar setts yfirlæknis á deild 33-A á LSH á ástandi varnaraðila þegar til meðferðar var samsvarandi krafa, sem leiddi til sviptingar sjálfræðis varnaraðila til eins árs, 21. maí 2008 Kom fram í skýrslu hans fyrir dóminum þá að hann væri sammála þeirri lýsingu á varnaraðila sem fram kemur í vottorði Guðrúnar. Lýsti hann þeirri skoðun sinni að frá faglegum grunni væri eitt ár lágmarkstími þeirrar meðferðar sem varnaraðili þyrfti að gangast undir ef von ætti að vera um bata og á meðan á henni stæði yrði að taka ráðin af varnaraðila.

                Verjandi mótmælti því fyrir hönd varnaraðila að sjálfræðissviptingarkrafan næði fram að ganga.

                Í ljósi þess sem að ofan er rakið og fyrirliggjandi gagna telur dómari að sýnt hafi verið fram á að skilyrði a- liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 séu til staðar og því megi svipta hann sjálfræði eins og sóknaraðili hefur krafist.

                Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Inga H. Sigurðssonar hdl. og þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl. eins og segir í úrskurðarorði

Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

                Varnaraðili, A, kt. [...], [...], er sviptur sjálfræði í 1 ár frá deginum í dag að telja.

                Þóknun talsmanns sóknaraðila og þóknun verjanda varnaraðila að fjárhæð 101.675 krónur til hvors um sig greiðist úr ríkissjóði. Tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts.