Hæstiréttur íslands

Mál nr. 327/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Aðild


Mánudaginn 30. maí 2011.

Nr. 327/2011.

Guðmundur Þór Jónsson

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

Verkfræðistofu F.H.G. ehf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Kærumál. Innsetningargerð. Aðild.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa V ehf. um að honum yrði heimilað að fá nánar tilgreinda lausafjármuni tekna úr vörslum G og afhenta sér með beinni aðfarargerð. Í dómi Hæstaréttar sagði að samkvæmt 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför geti sá sem telji öðrum manni skylt að veita sér umráð yfir öðru en fasteign, að fullnægðum nánar tilteknum skilyrðum, leitað innsetningargerðar án undangengins dóms eða sáttar til að fá slíka muni tekna úr vörslum þess manns og afhenta sér. Slíkri gerð verði eftir þessum lagaákvæðum að beina að þeim sem hefur umráð munanna. V ehf. hafi enga viðhlítandi grein gert fyrir því hvernig telja mætti áðurgreinda muni vera í umráðum G þannig að innsetningargerð yrði með réttu beint að honum. Var kröfu V ehf. því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá nánar tilgreinda lausafjármuni tekna úr vörslum sóknaraðila og afhenta sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að „hann verði sýknaður af kröfum sóknaraðila í héraði“, svo og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði leitar varnaraðili í máli þessu heimildar til að fá tekna úr umráðum sóknaraðila og afhenta sér með innsetningargerð þrjá gáma með nánar tilgreindum auðkennum ásamt sex hjólbörum, steypuhrærivél, slöngum fyrir háþrýstidælur, þrjá rafmagnsofna og rafmagnstöflu, en skilja verður málatilbúnað varnaraðila svo að síðastgreinda muni sé að finna í gámunum þremur. Varnaraðili kveðst hafa komið gámunum fyrir á lóð að Vallarkór 2 í Kópavogi á árinu 2008, en í janúar 2010 hafi hann orðið þess var að gámarnir hafi verið teknir þaðan. Hann hafi af því tilefni snúið sér til lögreglu 22. þess mánaðar og verið tjáð að 29. desember 2009 hafi maður að nafni Sævar Þór Guðmundsson tilkynnt að hann hafi fjarlægt af lóð sinni við Vallarkór þessa gáma, sem hann hafi ekki getað komist að raun um hver ætti. Jafnframt hafi Sævar Þór tjáð lögreglu að hann hygðist flytja gámana á jörðina Borgareyrar, sem varnaraðili kveður vera fyrir austan Hvolsvöll, en hann hafi árangurslaust leitast við að fá þá afhenta sér þar.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 getur sá, sem telur öðrum manni skylt að veita sér umráð yfir öðru en fasteign, að fullnægðum nánar tilteknum skilyrðum leitað innsetningargerðar án undangengins dóms eða sáttar til að fá slíka muni tekna úr vörslum þess manns og afhenta sér. Slíkri gerð verður eftir þessum lagaákvæðum að beina að þeim, sem hefur umráð munanna. Samkvæmt gögnum málsins á sóknaraðili heimili á nánar tilteknum stað í Reykjavík og mun hann ekki vera eigandi jarðarinnar Borgareyrar, heldur félag með heitinu SÞ Guðmundsson ehf. Í málinu hefur varnaraðili enga viðhlítandi grein gert fyrir því hvernig telja megi áðurgreinda muni nú vera í umráðum sóknaraðila þannig að innsetningargerð yrði með réttu beint að honum. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu varnaraðila.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Verkfræðistofu F.H.G. ehf., um að honum verði veitt heimild til innsetningargerðar hjá sóknaraðila, Guðmundi Þór Jónssyni.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2011.

Með aðfararbeiðni, sem barst héraðsdómi 13. ágúst sl., hefur sóknaraðili, Verkfræðistofa FHG ehf., kt. 451192-2059, Baughúsum 49, Reykjavík, krafist dómsúrskurðar um að nánar tilgreindir gámar og allt sem í þeim er, verði með beinni aðfarargerð, tekið úr vörslum varnaraðila, Guðmundar Þórs Jónssonar, kt. 120955-4979, Garðhúsum 10, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst innsetningar í eftirtalda muni:

1.       hvítan 40 feta einangraðan gám, upphaflega frystigám, nr. 500688/4332,

2.       bláan 20 feta einangraðan gám, SANU, nr. 300293/22GI,

3.       sex hjólbörur,

4.       steypuhrærivél,

5.       slöngur fyrir háþrýstidælur,

6.       þrjá rafmagnsofna,

7.       rafmagnstöflu og

8.       hvítan 40 feta gám, nr. 500512/IS43232.

Sóknaraðili krefst að auki málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara krefst hann sýknu. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu, að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti á málflutn­ings­þóknun.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að hann eigi þá muni sem hann krefst afhendingar á. Gáma og lausafjármuni, tilgreinda í 1.-7. tölulið kröfu sinnar, hafi hann keypt af þrotabúi Stafnáss ehf. með kaupsamningi dagsettum 10. júlí 2008. Gám tilgreindan í 8. tölulið hafi sóknaraðili áður keypt af fyrirtækinu Stöfnum ehf.

Sóknaraðili kveðst hafa komið þessum gámum fyrir á lóð við Vallakór 2, Kópavogi, síðari hluta árs 2008, en þar hafi hann komið að byggingar­fram­kvæmdum sem síðar hafi verið hætt við. Hinn 23. janúar 2010 hafi sóknaraðili uppgötvað að gámarnir væru horfnir og hafi hann fengið þær upplýsingar að flutn­ingabíll hefði ekið með þá á brott skömmu áður. Sóknaraðili hafi þá þegar tilkynnt hvarf gámanna til lögregl­unnar á höfuðborgarsvæðinu sem hafi gefið honum nafn varnar­aðila. Sókn­ar­aðili hafi í kjölfarið haft samband við varnar­aðila og hafi hann viðurkennt að hafa fjarlægt gámana og komið þeim fyrir á bænum Borgareyrum, austan við Hvolsvöll.

Hinn 23. mars 2010 hafi sóknaraðili sent gámaflutningabíl að Borgareyrum til að ná í gámana. Varnaraðili hafi þá neitað að afhenda gámana nema gegn greiðslu flutnings- og geymslukostnaðar vegna flutnings gámanna að Borgareyrum og geymslu þeirra þar. Sóknaraðili hafi umsvifalaust hafnað þeirri kröfu enda hafi varnaraðili ekki haft neina heimild til að flytja gáma sóknaraðila á brott.

Hinn 6. júlí sl. hafi lögmaður, fyrir hönd sóknaraðila, sent varnaraðila áskorun um afhendingu gámanna og lausafjármunanna. Birting áskorunarinnar hafi hins vegar ekki tekist þar sem varnaraðili hafi ekki verið reiðubúinn til að gefa stefnu­votti upp­lýs­ingar um dvalarstað sinn, eins og fram komi á framlögðu birtingar­vottorði.

Þar sem varnaraðili hafi neitað að afhenda sóknaraðila eignir hans sé krafist umráða yfir lausafjármununum með tilvísun í 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa í heimildarleysi komið umræddum gámum fyrir á lóðinni að Vallakór 2, Kópavogi. Sóknaraðili hafi ekki haft fyrir því að kanna hver ætti þá lóð og hafi aldrei haft samband við lóðareiganda. Því sé óumdeilt, að staðsetning gámanna þar hafi bæði verið í algjöru heimildarleysi og án vitundar lóðar­eiganda um það hver væri eigandi gámanna.

Í bréfi lögmanns sóknaraðila til varnaraðila, dagsettu 6. júlí 2010, sé því lýst svo að hann hafi 23. janúar 2010 uppgötvað að gámarnir væru horfnir og af því tilefni hafi hann tilkynnt um þjófnað á þeim til lögreglunnar á höfuðborgar­svæðinu.

Í framlögðu skjali, dagbók lögreglu, lengri útgáfu, komi málsatvik glögglega fram. Hinn 29. desember 2009, kl. 12:52, hafi lögreglunni borist tilkynning frá Sævari Þór Guðmundssyni, eiganda lóðarinnar að Vallakór 2 (áður Vatnsenda­bletti 226), Kópavogi. Hafi hann látið lögregluna vita að hann tæki gáma, sem á lóðinni væru, og honum væri ókunnugt um hver ætti, og flytti þá austur á jörðina Borgar­eyrar. Samkvæmt dagbók lögreglu hafi Sævar gert grein fyrir því að vegna samn­ings­bundinnar skyldu væri honum nauðsynlegt að fjarlægja gáma og annað á lóðinni. Jafnframt hafi komið fram að Sævar hefði lagt mikla vinnu í að reyna að grafa upp hver ætti umrædda gáma. Í dagbókinni segi enn fremur að 22. janúar 2010, kl. 14:30, hafi Friðrik H. Guðmundsson hringt á lögreglu­stöðina í Kópavogi og tilkynnt að þremur gámum hefði verið stolið. Fram komi að Friðriki hafi verið gerð grein fyrir því að gámarnir hefðu verið fluttir í burtu svo og hver hefði gert það. Þannig sé hvort tveggja ljóst, að Friðrik H. Guðmundsson hafi vitað að umræddum gámum hefði ekki verið stolið og að þeir hafi alls ekki verið fjarlægðir af varnaraðilanum, Guðmundi Þór Jónssyni. Það sé því hrein rangfærsla að fullyrða þjófnað og að Guðmundur Þór Jónsson hafi látið fjar­lægja umrædda gáma. Varnar­aðili mótmæli því sem tilhæfu­lausu, að hann hafi viðurkennt að hafa fjarlægt gámana eins og látið er að liggja í bréfi sóknaraðila, dags. 6. júlí 2010.

Þegar varnaraðila hafi, 6. júlí 2010, borist bréf sóknaraðila þar sem krafist sé skila á umræddum gámum hafi því um hálft ár verið liðið frá því að sóknaraðili vissi um geymslustað umræddra gáma. Sóknaraðili fullyrði að hann hafi ætlað að sækja gámana að Borgareyrum en verið bent á að á þeim væri kostnaður vegna flutn­ings og geymslu sem standa yrði skil á, áður en afhending færi fram. Í bréfi sóknar­aðila komi fram að kröfu um greiðslu þess kostnaðar hafi hann hafnað umsvifalaust.

Kröfu sína um frávísun styður varnaraðili þeim rökum að eignarheimild sókn­ar­aðila sé eigi ljós af framlögðum gögnum. Sóknaraðili hafi að vísu lagt fram kaup­samning um kaup á tveimur gámum en ekki liggi fyrir að samningurinn hafi verið efndur og greiðslur farið fram samkvæmt 1. gr. samningsins. Kvittanir hafi ekki verið lagðar fram um það að greiðslur hafi farið fram og verði því ekki með órækum hætti fullyrt að eignarheimild sé skýr og ljós. Þá liggi ekkert fyrir um eignarheimild sóknar­aðila að þriðja gáminum, enda þótt hann fullyrði að hann eigi þann gám. Því sé ljóst að ekki séu uppfyllt skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför um afdráttarlausan og skýran rétt og eignarheimildir sóknaraðila að umræddum gámum og innihaldi. Þá sé máls­atvikum ranglega lýst. Fullyrt sé, að gámunum hafi verið stolið, enn fremur að umræddir gámar hafa verið staðsettir á lóðinni Vallakór 2 í Kópavogi, sem er rangt og fleiri atriði séu  rangfærð.

Þar sem varnaraðili sé ekki aðili að þessu máli og hafi ekki haft uppi fjár­kröfur vegna geymslugjalda og flutnings á umræddum gámum þyki ekki efni til þess að víkja að því sérstaklega. Af framangreindum ástæðum beri að vísa máli þessu frá, auk þess sem málabúnaður fullnægi ekki ákvæðum laga um meðferð einkamála, sbr. 80. gr. og 100. gr. laga nr. 91/1991.

Kröfu sína um sýknu styður varnaraðili við það að augljóst sé af gögnum málsins að aðildin sé röng og hafi sóknaraðila mátt vera það ljóst. Framlögð dagbók lögreglu, lengri útgáfa, lýsi málavöxtum glögglega og tilgreini þá sem séu aðilar að þessu máli. Ljóst sé að Guðmundur Þór Jónsson sé ekki á neinn hátt aðili að því og beri að sýkna hann með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins og að teknu tilliti til virðisaukaskatts með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 varð­andi málskostnað og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1998 með áorðnum breytingum.

Skýrslutökur fyrir dómi

                Fyrir dóminn komu Friðrik Hansen Guðmundsson, fyrirsvarsmaður sóknar­aðila og varnaraðili, Guðmundur Þór Jónsson. Friðrik kvað forsögu málsins þá að gámarnir, sem um sé deilt, hafi verið fluttir á lóðina að Vallakór 2. Hafi félagið Stafnar ehf., sem farið hafi í þrot um síðastliðin áramót en áður verið í hans eigu, í samstarfi við félagið Húsanes, keypt lóðina og stofnað um hana félagið Vallakór ehf. Nánar tiltekið hafi Vallakór ehf. keypt Molann ehf. sem hafi átt lóðina. Hannað hafi verið fjölbýlis­hús til að reisa á lóðinni. Þegar teikningar hafi verið samþykktar af byggingar­nefnd Kópavogsbæjar og graftrarleyfi verið gefið út, hafi hann flutt á lóðina einn 40 feta verktakagám til að hægt væri að hefja framkvæmdir. Þessir gámar væru sérútbúnir að hans óskum til þess að vera „aðal­hjartað“ á vinnu­staðnum og hannaðir til að geyma verkfæri. Félagið Stafnás ehf., sem hafi einnig verið í hans eigu, hafi samið við eiganda lóðarinnar, Vallakór ehf., um byggingu fjölbýlis­hússins. Gámurinn hafi verið í eigu Stafnáss ehf.

                Árið 2008 hafi Stafnás ehf. farið í þrot. Sóknaraðili, verkfræðistofa sem fyrirsvarsmaðurinn reki, hafi þá keypt þennan gám og annan samskonar af þrotabúi Stafnáss ehf. og flutt þá, ásamt þriðja gáminum, á lóðina við Vallakór 2.

                Þegar félagið hafi ætlað að hefja framkvæmdir hafi viðskiptabanki þeirra, VBS-fjárfestingarbanki, beðið þá um að bíða með þær og hafi því ekki orðið af framkvæmdum haustið 2008. Ekkert hafi gerst í málinu og gámarnir staðið áfram á lóðinni. Eins og áður segi séu gámarnir sérstaklega útbúnir til þess að þjóna verktaka­starfsemi. Á annarri hlið gámanna sé kista með tugum af innstungum til að tengja við stærstu gerð af krönum og allt sem til þurfi. Inni í gámunum sé tafla sem sinni þessum innstungum og framan á gámunum séu, sérstaklega innfluttir frá Danmörku, miklir slagbrandar og sérstakur lás, með láshúsi. Á slagbrandinn sé ritað skýrum stöfum GSM númer fyrirsvarsmannsins þannig að öllum, sem hefðu kært sig um, hefði verið í lófa lagið að hafa samband við hann vegna þessara gáma.

                Hinn 20. janúar 2010 hafi fyrirsvarsmaðurinn uppgötvað að allir gámarnir væru horfnir af lóðinni. Hafi hann hringt í lögregluna og tilkynnt þjófnað á gámunum. Lögreglan hafi gefið fyrirsvarsmanninum númer manns sem hafi sagst kannast við málið, en hefði ekkert með málið að gera og hafi hann gefið fyrirsvars­mann­inum símanúmer varnaraðila. Fyrirsvarsmaðurinn hafi hringt í varnaraðila sem hafi viður­kennt að hafa tekið gámana. Þeir væru á bóndabæ í Rangárvallasýslu. Fyrir­svars­maðurinn hafi beðið varnaraðila að skila gámunum á þann stað þar sem hann hafi tekið þá. Varnaraðili hafi neitað því nema gegn greiðslu flutnings- og geymslu­kostnaðar. Hafi fyrirsvars­maður­inn ekki talið það koma til greina og ekki hafi orðið úr því að gámunum hafi verið skilað. Með tveimur öðrum símtölum hafi fyrir­svars­maðurinn reynt að fá gámunum skilað. Í mars hafi hann gert tilraun til að sækja gámana og sent gámabíl til að sækja þá. Bílstjórinn hafi haft samband við varnar­aðila þegar hann hafi nálgast bæinn þar sem gámarnir eru og varnaraðili hafi vísað honum burt. Vitnið hafi þá óskað aðstoðar lögreglunnar á Hvolsvelli við að sækja gámana en lögreglan hafi ekki talið sig geta það en hafi bent fyrirsvarsmanninum á að leita til lögmanns. Hafi fyrirsvarsmaðurinn ekki rætt við varnaraðila síðan.

                Aðspurður kvaðst hann hafa keypt alla gámana, tvo af þrotabúi Stafnáss ehf. og einn af þrotabúi Stafna ehf. Hann ítrekaði að Vallakór ehf. væri lóðarhafi lóðar­innar að Valla­kór 2. Aðspurður kvað hann sér ekki kunnugt um að Molinn ehf. hefði ekki fengið lóðina afhenta vegna ágreinings Kópavogsbæjar við eiganda lóðar­innar, Sævar Þór Guðmundsson. Hafi félagið Vallakór ehf. keypt lóðina í góðri trú. Kaupin hafi verið fjármögnuð af VBS-fjárfestingarbanka og fengist hafi sam­þykki bygg­ingar­nefndar Kópavogs svo og graftrarleyfi og hafi verktakinn verið farinn að grafa. Í öllu þessu ferli hafi aldrei komið fram neinar efasemdir um eignarhald á lóðinni að Valla­kór 2 og hafi Vallakór ehf. verið lóðarhafi þegar gámarnir þrír hafi horfið af lóðinni.

                Fyrirsvarsmaðurinn kvaðst hafa sett fyrsta gáminn á lóðina um vor eða mitt ár 2008. Stafnás ehf. hafi farið í þrot í apríl 2008. Tveir af þessum þremur gámum hafi staðið á lóð sem Stafnás ehf. hafi verið að byggja á við Vindakór 2-8 og hafi verið lóðarhafi að. Þeir gámar hafi verið fluttir á lóðina Vallakór 2 eftir að fyrsti gámurinn hafi verið fluttur þangað.

                Varnaraðili, Guðmundur Þór Jónsson, kvaðst ekki eiga neina persónulega aðild að þessu máli. Hann bar að Sævar Þór Guðmundsson, sonur hans, hafi átt þá lóð í Kópavogi, þar sem gámarnir stóðu, þegar þeir hafi verið fjarlægðir. Varnaraðili kvað Kópavogsbæ ekki hafa haft neina heimild til lóðarinnar fyrr en hún hefði verið afhent samkvæmt samkomulagi Kópavogsbæjar og Sævars 12. október 2009. Lóðin hafi verið athafnasvæði Túnþökuvinnslunnar. Hann bar jafn­framt að félag í eigu Sævars, S. Þ. Guðmundsson ehf., ætti jörðina Borgareyrar þar sem gámarnir séu en Túnþöku­vinnslan hafi alla sína starfsemi á jörðinni og nytji hana. Gámarnir séu þar og læstir eins og þeir voru þegar þeir hafi verið fjarlægðir.

                Varnaraðili kvaðst reka Túnþökuvinnsluna og dveljast mest á Borgareyrum. Varnaraðili kvaðst hafa rætt við fyrirsvarsmann sóknaraðila í síma. Hafi fyrirsvars­maðurinn talið eina viskí-flösku hæfilega greiðslu varnaraðila og Sævars fyrir þeirra fyrirhöfn við að flytja gámana. Hafi varnaraðili gert það að skilyrði fyrir því að hann afhenti sóknaraðila gámana að fyrirsvarsmaðurinn greiddi Túnþökuvinnslunni flutn­ings­­kostn­aðinn. Varnaraðili kvaðst hafa móttekið áskorun frá sóknaraðila um afhendingu gámanna.

Niðurstaða

                Varnaraðili krefst þess fyrst að þessu máli verði vísað frá dómi af þeim sökum að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á ótvíræðan eignarrétt sinn að gámunum. Með fram­lögðum gögnum og framburði fyrirsvarsmanns sóknaraðila fyrir dómi þykir eignar­réttur sóknaraðila að gámunum nægjanlega í ljós leiddur. Kröfu sóknaraðila verður því ekki vísað frá dómi á þeim grunni að ekki sé uppfyllt skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um skýran eignar­rétt sóknaraðila að gámunum og því sem í þeim er.

                Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað þar sem henni sé ekki beint að réttum aðila. Gámarnir standi á jörðinni Borgareyrum í Rangárvalla­sýslu. Félagið S.Þ. Guðmundsson ehf. eigi jörðina en ekki varnaraðili. Þar með sé kröfunni ekki réttilega beint að honum.

                Í þessu máli þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort gámarnir stóðu á Vatn­sendabletti 226 eða Vallakór 2 enda verður ekki annað séð en að Vatnsenda­blettur 226 sé eldra nafn á hluta þeirrar lóðar sem nú heitir Vallakór 2. Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanns sóknaraðila stóðu gámarnir ekki á þeim helmingi lóðarinnar sem enn hefur sjálfstætt fastanúmer sem Vatnsendablettur 226.

                Framlagt samkomulag, dagsett 12. október 2009, þar sem meðal annars kemur fram að Sævar Þór Guðmundsson skuli flytja af lóðinni Vatnsendabletti 226 hús, gáma og gróður er á milli Sævars og Kolbrúnar Þóru Oddsdóttur annars vegar og Kópa­vogsbæjar hins vegar. Hafi gámar sóknaraðila verið fluttir af lóðinni til að uppfylla samkomulag við Kópavogsbæ þá var það Sævar sem bar skyldu samkvæmt því samkomulagi en ekki Túnþökuvinnslan, félag hans sem nýtir jörðina Borgareyrar.

                Samkvæmt framlagðri dagbók lögreglu tilkynnti Sævar lögreglunni á höfuð­borgarsvæðinu, 29. desember 2009, að hann tæki þrjá gáma af Vatnsendabletti 226 og flytti þá að Borgareyrum. Þegar sóknaraðili leitaði til Sævars, eftir ábendingu lögregl­unnar, vísaði Sævar á varnaraðila til að svara óskum sóknaraðila um afhendingu gámanna. Þessu hefur varnaraðili ekki mótmælt. Að eigin sögn neitaði varnaraðili að afhenda sóknaraðila gámana nema gegn greiðslu flutningskostnaðar til Túnþöku­vinnsl­unnar. Eins og áður segir lagði samkomulagið við Kópavogsbæ ekki neina skyldu á Túnþökuvinnsl­una að hreinsa lóðina að Vatnsendabletti 226 og verður það fyrirtæki ekki talið eiga neina aðild að þessu máli. Fyrirtækið S.Þ. Guðmundsson, sem að sögn varnaraðila á jörðina Borgareyrar, verður ekki heldur talið aðili að málinu enda er ekkert komið fram um að það fyrirtæki aftri varnaraðila að neyta réttar síns að gámunum.

                Af því sem fram kom fyrir dómi verður ekki annað ráðið en það sé varnaraðili, og enginn annar, sem aftri því að sóknaraðili geti neytt réttar síns að gámunum, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Ekki verður heldur annað séð en það sé jafn­framt á hans valdi að veita sóknaraðila umráð gámanna, sbr. 73. gr. sömu laga. Því þykir kröfunni réttilega beint að varnaraðila. Skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eru því uppfyllt og af þeim sökum verður fallist á kröfu sóknaraðila.

                Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 250.000 kr. í málskostnað.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Sóknaraðila, Verkfræðistofu FHG ehf., er heimilt að fá tekna með beinni aðfarar­gerð úr vörslum varnaraðila, Guðmundar Þórs Jónssonar, eftirtalda muni:

1.          hvítan 40 feta einangraðan gám, upphaflega frystigám, nr. 500688/4332,

2.          bláan 20 feta einangraðan gám, SANU, nr. 300293/22GI,

3.          sex hjólbörur,

4.          steypuhrærivél,

5.          slöngur fyrir háþrýstidælur,

6.          þrjá rafmagnsofna,

7.          rafmagnstöflu og

8.          hvítan 40 feta gám, nr. 500512/IS43232.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.