Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-51

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Einari Sigurði Einarssyni (Haukur Örn Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fíkniefnalagabrot
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 27. desember 2018 leitar Einar Sigurður Einarsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 30. nóvember sama ár í málinu nr. 57/2018: Ákæruvaldið gegn Einari Sigurði Einarssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með framangreindum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur eins og í héraði fyrir að hafa brotið gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa, ásamt tveimur nafngreindum mönnum, staðið að innflutningi á 30.225 töflum með fíkniefninu MDMA. Var refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann einkum til þess að málsmeðferð í héraði hafi verið stórlega ábótavant og í andstöðu við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í fyrsta lagi hafi héraðsdómari verið vanhæfur til að leysa úr málinu vegna fyrri afskipta af máli leyfisbeiðanda, annars vegar sem dómsformaður í máli ákæruvaldsins gegn hinum mönnunum tveimur og hins vegar sem settur hæstaréttardómari í kærumáli þar sem leyfisbeiðanda var gert að sæta farbanni. Í öðru lagi hafi leyfisbeiðandi hvorki haft tækifæri til að leggja spurningar fyrir nafngreint vitni né hlýða á upptökur af skýrslutökum. Í þriðja lagi hefði héraðsdómur átt að vera fjölskipaður. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi verulega almenna þýðingu og sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að málið lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.