Hæstiréttur íslands
Mál nr. 553/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Skaðabætur
- Tómlæti
|
|
Miðvikudaginn 30. september 2015. |
|
Nr. 553/2015.
|
Glitnir hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) gegn Þorsteini Hjaltested (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skaðabætur. Tómlæti.
Þ lýsti skaðabótakröfum við slit G hf. sem voru reistar á því að starfsmenn G hf. hefðu veitt Þ ófullnægjandi fjárfestingarráðgjöf og með því valdið honum tjóni. Auk þess hafði Þ uppi kröfu um viðurkenningu á því að honum væri heimilt að skuldajafna kröfum sínum við kröfu G hf. samkvæmt lánssamningi þeirra. Slitastjórn G hf. hafnaði kröfum Þ og vísaði ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms eftir fyrirmælum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í málinu var deilt um meint tjón Þ vegna fjögurra fjárfestinga, sem Þ réðist í eftir tillögu starfsmanna G hf. Í fyrsta lagi var um að ræða fasteignaverkefni í Berlín, í öðru lagi kaup á afleiðutengdu skuldabréfi, í þriðja lagi gjaldeyrisstýringu G hf. og í fjórða lagi lán sem Þ tók hjá G hf. til jarðakaupa. Hæstiréttur taldi að Þ hefði glatað fyrir tómlæti sérhverjum rétti sem hann gæti hafa átt á hendur G hf. vegna fasteignaverkefnisins í Berlín. Vísað var til þess að Þ hefði varið umtalsverðu fé í umrætt verkefni og mætti af þeim sökum gera þá kröfu að hann sýndi eðlilega aðgæslu þegar kæmi að því að gæta þeirra hagsmuna sinna. Samkvæmt gögnum málsins hefði Þ ekki síðar en í október 2008 átt að gera sér grein fyrir því að fjárfesting hans í verkefninu myndi ekki ganga eftir í samræmi við það sem lagt hafði verið upp með. Þ hefði hins vegar ekki gert athugasemdir við ráðgjöf G hf. fyrr en með kröfulýsingu í nóvember 2009. Hæstiréttur taldi að Þ hefði einnig glatað sérhverjum rétti sínum fyrir tómlæti í tengslum við afleiðutengda skuldabréfið, en það hafi komið í ljós í síðasta lagi í október 2008 að ekki myndi takast að vinna upp tapið sem varð af þeirri fjárfestingu. Þ gerði þó ekki athugasemdir þar að lútandi fyrr en með áðurnefndri kröfulýsingu. Hæstiréttur féllst á hinn bóginn á að viðurkenna kröfu Þ um skaðabætur vegna tjóns sem hann varð fyrir á grundvelli samnings aðila um gjaldeyrisstýringu. Í málinu lá fyrir að G hf. hefði í fjögur skipti keypt eða selt gjaldmiðla fyrir hönd Þ á gengi sem engin stoð hefði verið fyrir. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra manna hefði hagnaður Þ af gjaldeyrisstýringunni að réttu lagi átt að verða 72.363.316 krónur í stað taps upp á 80.101.684 krónur. Hæstiréttur taldi að G hf. hefði ekki hnekkt niðurstöðu matsmanna og var matsgerðin því lögð til grundvallar um tjón Þ. Þá var ekki talið standa í vegi kröfu Þ um bætur fyrir missi hagnaðar að hann hefði í raun ekki lagt af mörkum framlag til viðskiptanna í öndverðu. Taldi Hæstiréttur að við framkvæmd gjaldeyrisstýringarsamnings aðilanna hefði G hf. brotið gegn góðri viðskiptavenju og ekki leitað allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir Þ, sbr. 5. gr. og 18. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Var krafa Þ í tengslum við framkvæmd gjaldeyrisstýringarsamningsins viðurkennd í réttindaröð við slit G hf. samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Hæstiréttur hafnaði því að G hf. bæri skaðabótaábyrgð á tjóni sem Þ taldi sig hafa orðið fyrir þegar hann tók lán hjá G hf. í stað þess að leysa út eignir til þess að fjármagna jarðakaup. Vísaði Hæstiréttur til þess að Þ hefði ekki sýnt fram á að starfsmenn G hf. hefðu mátt sjá það fyrir í október 2007 að lántakan yrði óhagkvæmari fyrir hann en ef hann hefði leyst út fé sitt hjá G hf. Þá væri til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins hefði Þ sjálfur veitt lán í erlendum gjaldmiðli á svipuðum tíma og hefði honum því mátt vera fullkunnugt um áhættuna af því að veita og taka lán í erlendum gjaldmiðlum eða sem fylgdi gengi þeirra. Loks hafnaði Hæstiréttur skuldajafnaðarkröfu Þ. Aðeins hefði verið fallist á kröfu hans í tengslum við gjaldeyrisstýringarsamning aðilanna, en með hinum kærða úrskurði var því að hafnað að Þ gæti nýtt þá kröfu til skuldajafnaðar. Þar sem varnaraðili hefði ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti gæti sú niðurstaða ekki komið til endurskoðunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. ágúst 2015, sem barst réttinum 21. sama mánaðar, en kærumálsgögn bárust 28. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2015, þar sem viðurkenndar voru kröfur varnaraðila við slit sóknaraðila annars vegar að fjárhæð 21.257.769 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hins vegar 414.687.916 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga, en að auki viðurkenndur réttur varnaraðila til að skuldajafna 318.826.285 krónum af þessum kröfum við kröfur Íslandsbanka hf. á hendur sér. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að viðurkenna framangreindar kröfur varnaraðila, svo og rétt hans til skuldajafnaðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
I
Ekki er ágreiningur milli aðila um hvernig viðskiptum þeirra var komið á. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hafði starfsmaður sóknaraðila samband við varnaraðila að fyrra bragði í febrúar 2007, en hann hafði frétt af því að varnaraðila hefði þá áskotnast verulegt fé. Kom varnaraðili á fund 19. febrúar 2007, þar sem starfsmaðurinn kynnti fyrir honum einkabankaþjónustu sóknaraðila og gerði jafnframt tillögur um fjárfestingar varnaraðila ef hann kæmi í þá þjónustu. Í kjölfar fundarins gerðu aðilarnir samning um einkabankaþjónustu, þar sem sóknaraðili tók að sér fjárvörslu, eignastýringu og alhliða fjármálaþjónustu fyrir varnaraðila, en tengiliður varnaraðila hjá sóknaraðila átti að vera sami starfsmaður. Í samningnum var fjárvarsla sögð ná til þess að taka við fjármunum varnaraðila til fjárfestingar í verðbréfum fyrir hans eigin reikning. Í fjárvörslu fælist varsla, innheimta, kaup og sala verðbréfa, auk ráðgjafar um eignauppbyggingu. Í þessu skyni átti sóknaraðili að stofna vörslureikning á nafni varnaraðila, þar sem verðbréfaeign hans yrði varðveitt. Eignastýring átti að fela í sér tilfærslu á milli mismunandi tegunda verðbréfa eftir því sem tækifæri byðust á mörkuðum hverju sinni og gaf varnaraðili sóknaraðila heimild til eignastýringar samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu, sem sóknaraðili sæi um að framkvæma. Fjárfestingarstefna varnaraðila gerði ráð ráð fyrir því að allir fjármunir hans færu í skuldabréf og laust fé. Þá kom fram í 4. grein samningsins að viðskiptavinur sem teldist fagfjárfestir, í skilningi þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, gæti óskað skriflega eftir því að fjárfesta í óskráðum bréfum. Af málatilbúnaði aðila virðist óumdeilt að varnaraðili hafi ekki talist fagfjárfestir í skilningi laganna. Starfsmaður sóknaraðila gerði tillögu að breytingu á fjárfestingarstefnu varnaraðila með tölvubréfi 25. apríl 2007, en ekki verður séð af gögnum málsins að varnaraðili hafi samþykkt þá tilhögun skriflega, heldur ritaði varnaraðili undir nýjan samning um einkabankaþjónustu 19. september sama ár sem gerði ráð fyrir óbreyttri fjárfestingarstefnu. Varnaraðili skrifaði síðan undir almenna skilmála vegna markaðsviðskipta sóknaraðila 23. október 2007.
Í máli þessu greinir aðilana á um hvort starfsmenn sóknaraðila hafi veitt varnaraðila ófullnægjandi fjárfestingarráðgjöf í andstöðu við lög nr. 33/2003, og síðar lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, og með því valdið honum tjóni sem sóknaraðili beri skaðabótaábyrgð á eftir almennum reglum. Er deilt um fjórar fjárfestingar, sem varnaraðili réðist í eftir tillögu sóknaraðila, en tilurð þeirra er ítarlega rakin í hinum kærða úrskurði. Í fyrsta lagi var um að ræða fasteignaverkefni í Berlín, en eftir tillögu sóknaraðila keypti varnaraðili 12,5% hlutafjár í félaginu Berlice ehf. í maí eða júní 2007. Í öðru lagi var um að ræða kaup á afleiðutengdu skuldabréfi, sem gefið var út af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og var tengt hlutabréfaverði í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf., en sóknaraðili mælti með þeirri fjárfestingu fyrir varnaraðila. Verulegt tap varð á henni og varð það tap grundvöllur þriðju fjárfestingarinnar, sem fólst í því að gera tilraun til þess að vinna upp tapið með gjaldeyrisstýringu. Varnaraðili skrifaði undir samning um gjaldeyrisstýringu 7. ágúst 2008, en hann heldur því fram að sóknaraðili hafi á nánar tiltekinn hátt valdið sér tjóni í þeim viðskiptum. Í fjórða lagi telur varnaraðili að sóknaraðili hafi bakað sér tjón með því að hvetja sig til að taka lán 1. október 2007 í stað þess að leysa út eignir sínar, sem sóknaraðili hafi haft í vörslum sínum.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. sama mánaðar var eignum sóknaraðila með nánar tilteknum undantekningum ráðstafað til nýs banka, sem nú ber heitið Íslandsbanki hf. Lánið sem varnaraðili tók upphaflega hjá sóknaraðila 1. október 2007 var meðal þess sem var ráðstafað til Íslandsbanka hf. Við slit sóknaraðila lýsti varnaraðili 25. nóvember 2009 kröfu um skaðabætur vegna tjóns annars vegar af fasteignaverkefninu í Berlín, samtals 4.809.240 krónur og 616.220 evrur, og hins vegar af framvirkum viðskiptum, ráðgjöf og viðskiptaháttum bankans, samtals 827.773.333 krónur. Krafðist varnaraðili þess að kröfum þessum yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Að auki krafðist hann þess með vísan til 109. gr. sömu laga að tryggingarráðstöfunum, sem stofnað hafði verið til yfir innstæðum hans hjá sóknaraðila, yrði aflétt. Jafnframt gerði varnaraðili kröfu um að sér yrði heimilaður skuldajöfnuður gagnvart hverri þeirri kröfu sem sóknaraðili og Íslandsbanki hf. kynnu að hafa uppi á hendur honum.
II
Málavextir að því er varða fasteignaverkefnið í Berlín eru raktir ítarlega í úrskurði héraðsdóms. Starfsmaður sóknaraðila vakti með tölvubréfi 25. apríl 2007 athygli lögmanns varnaraðila á þessu verkefni og kvaðst áætla að ávöxtun af því yrði 100%, sem væri töluvert hærri en sú 30% ávöxtun sem hann sagðist venjulega gera til svipaðra verkefna. Í tölvupósti 7. maí sama ár sagðist starfsmaðurinn vera kominn heim frá Berlín og liti verkefnið „mjög vel út“ að hans mati. Sagði hann jafnframt að fyrirhugaður væri fundur með fjárfestum og hvatti hann varnaraðila eða lögmann hans til að mæta á fundinn, en að öðrum kosti myndi hann „gæta hagsmuna“ varnaraðila þar. Verkefnið fólst í því að fjárfestar legðu til 4.000.000 evrur í formi hlutafjáraukningar í Berlice ehf. Þeir yrðu með því hluthafar í B-flokki og myndu eignast 80% hlutafjár í félaginu. Þeir sem áður áttu félagið að fullu yrðu hluthafar í A-flokki og myndu halda 20% eignarhlut í því. Varnaraðili tók þátt í verkefninu ásamt níu öðrum fjárfestum. Greiddi varnaraðili 250.000 krónur í hlutafé 6. júní 2007 og eignaðist með því 12,5% af útgefnu hlutafé í B-flokki, en sama dag lánaði hann einnig Berlice ehf. 500.000 evrur. Fljótlega eftir greiðslu hlutafjárins krafðist sóknaraðili að varnaraðili og aðrir hluthafar gengjust í sjálfskuldarábyrgð fyrir láni sóknaraðila til Berlice ehf. Varnaraðili skrifaði þó ekki undir sjálfskuldarábyrgð fyrr en 11. febrúar 2008, en þá gekkst hann í ábyrgð fyrir 15,63% af skuldum Berlice ehf. samkvæmt lánssamningi við sóknaraðila að fjárhæð 4.164.172,95 evrur. Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði gekk verkefnið ekki eins og skyldi og 20. júlí 2012 seldi varnaraðili hlutafé sitt í Berlice ehf. og framseldi kröfu sína á hendur félaginu samkvæmt áðurnefndum lánssamningi. Nam kaupverð hins selda 276.000 evrum.
Varnaraðili telur að ráðgjöf sóknaraðila vegna þessa verkefnis hafi verið ábótavant. Um fjárfestingu í óskráðum verðbréfum hafi verið að ræða sem varnaraðili hafi ekki mátt kaupa samkvæmt samningi þeirra um einkabankaþjónustu. Þá hafi fjárfestingin ekki reynst eins arðvænleg og sóknaraðili kynnti fyrir honum og hafi ástæðan einkum verið sú að honum hafi ekki verið gefnar réttar upplýsingar um verkefnið, þar á meðal hversu skammt á veg það væri komið. Hafi varnaraðili því ekki getað tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun og beri sóknaraðili skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir vegna þessa.
Án þess að nokkuð þurfi frekar að gæta að því hvort sóknaraðili kunni að hafa á framangreindan hátt bakað sér skaðabótaskyldu verður að líta til þess að kaupin á hlutafénu voru gerð með samningi 6. júní 2007. Þótt sóknaraðili hafi vakið vonir varnaraðila um að verkefnið væri áhættulítið og arðvænlegt og komið fram fyrir hans hönd í aðdraganda samningsgerðarinnar, liggur ekkert fyrir um að sóknaraðili hafi ætlað sér að koma fram fyrir hans hönd meðan á verkefninu stóð. Varnaraðili hafði varið umtalsverðu fé í umrætt verkefni og mátti gera þá kröfu að hann sýndi eðlilega aðgæslu þegar kom að því að gæta þeirra hagsmuna sinna. Eftir meginreglum fjármunaréttar, sem meðal annars búa að baki ákvæði 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, getur annar samningsaðili glatað rétti til að bera fyrir sig vanefnd eða annað réttarbrot viðsemjanda síns ef athugasemdum er ekki hreyft af slíku tilefni án ástæðulauss dráttar. Svo sem rakið er í dómum Hæstaréttar 28. janúar 2014 í máli nr. 719/2013 og 1. apríl 2014 í máli nr. 178/2014 var þess getið í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 33/2003, að tómlæti geti haft meiri áhrif á réttarstöðu samningsaðila í verðbréfaviðskiptum en á öðrum sviðum, enda geti hver dagur skipt máli fyrir verðmæti verðbréfa og gætu rúmir frestir til athugasemda leitt til þess að samningsaðili tæki ekki aðeins mið af upplýsingum, sem lágu fyrir þegar viðskipti voru gerð, heldur einnig síðari upplýsingum. Varnaraðili gekkst sem áður segir undir sjálfskuldarábyrgð 11. febrúar 2008 fyrir skuld Berlice ehf. við sóknaraðila og mátti hann samkvæmt gögnum málsins á þeim tíma gera sér grein fyrir því að fjárfestingin væri ekki eins arðvænleg og hann hafði búist við. Þá liggur fyrir kynningarbæklingur um verkefnið, sem starfsmaður sóknaraðila afhenti lögmanni varnaraðila á fundi 27. apríl 2007. Í bæklingnum kom fram að áætlað væri að fjárfestar fengju hlutafjárframlag sitt til baka eftir 10 til 12 mánuði og að 1. október 2008 myndi verkefnið skila umtalsverðum hagnaði fyrir hluthafa, en gert væri ráð fyrir 99,56% ávöxtun hlutafjárins. Loks kom fram í hluthafasamkomulagi milli hluthafa í B-flokki Berlice ehf. að gert væri ráð fyrir 15% árlegri ávöxtun á fjárfestingu hluthafa. Samkvæmt þessu hefði varnaraðili átt að gera sér grein fyrir því ekki síðar en í október 2008 að fjárfesting hans í Berlice ehf. myndi ekki ganga eftir í samræmi við það sem lagt var upp með. Af gögnum málsins verður þó ekki séð að varnaraðili hafi nokkru sinni gert athugasemdir að því er varðaði ráðgjöf sóknaraðila í tengslum við þetta verkefni fyrr en með kröfulýsingu 25. nóvember 2009. Að öllu þessu virtu er óhjákvæmilegt að telja varnaraðila hafa glatað hér fyrir tómlæti sérhverjum rétti sem hann gæti hafa átt á hendur sóknaraðila af þessu tilefni.
III
Með tölvubréfi til lögmanns varnaraðila 6. júní 2007 lagði starfsmaður sóknaraðila til að varnaraðili myndi fjárfesta fyrir 100.000.000 krónur í framvirku skuldabréfi útgefnu af Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, en ávöxtun þess var tengd verði hlutabréfa í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. Aðilarnir gerðu með sér samning um þessi viðskipti 11. júní 2007, með auðkennisnúmerið FS 07061238, þar sem varnaraðili keypti skuldabréf að nafnvirði 100.000.000 krónur af sóknaraðila fyrir 100.853.750 krónur og átti uppgjörsdagur framvirku viðskiptanna að vera 11. desember 2007. Á þeim degi var uppgjörsdegi frestað til 7. júlí 2008 með samningi sem fékk auðkennisnúmerið FS 07121250. Tap vegna viðskiptanna á þeim uppgjörsdegi nam 23.498.315 krónum. Sóknaraðili hvatti þá varnaraðila og um leið ýmsa aðra viðskiptavini sína, sem tapað höfðu á sams konar viðskiptum, til að leggja fé í gjaldeyrisstýringu í þeirri von að vinna upp tapið. Gengið var frá samningi milli aðilanna um gjaldeyrisstýringu 7. ágúst 2008 og taldist framlag varnaraðila til fjárfestinga nema 22.000.000 krónum, sem hann innti þó ekki af hendi. Sama dag veitti varnaraðili sóknaraðila umboð til að gera samninga um gjaldeyri í sínu nafni. Þótt skjöl þessi hafi verið undirrituð 7. ágúst 2008 virðist stýringin hafa hafist fyrr, eða 11. júlí sama ár. Viðskiptum á grundvelli gjaldeyrisstýringarsamningsins lauk í október 2008 og taldi sóknaraðili að tap varnaraðila hafi þá numið 103.600.000 krónum.
Sóknaraðili krafði varnaraðila með bréfi 20. nóvember 2009 um greiðslu á fyrrnefndum 23.498.315 krónum. Sóknaraðili leysti síðan til sín innstæðu á vörslureikningi í eigu varnaraðila 2. janúar 2012 að fjárhæð 21.257.859 krónur, en hana hafði varnaraðili sett að handveði til sóknaraðila. Krafa varnaraðila um endurgreiðslu af þessu tilefni á 21.257.769 krónum var með hinum kærða úrskurði viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili unir þessari niðurstöðu héraðsdóms og hefur þegar greitt varnaraðila þá kröfu. Stendur þá eftir ágreiningur um það hvort sóknaraðili hafi bakað sér skaðabótaskyldu við varnaraðila með ráðgjöf sinni um viðskipti með afleiðutengda skuldabréfið og áðurnefndri gjaldeyrisstýringu. Tjón vegna viðskiptanna með skuldabréfið telur varnaraðili nema 23.498.315 krónum, en tjón af gjaldeyrisstýringunni 72.363.316 krónum.
Um kröfu varnaraðila um bætur vegna tjóns af viðskiptunum með skuldabréfið verður að líta til þess að tap af þeim lá fyrir 7. júlí 2008 og kom í ljós í síðasta lagi í október 2008 að ekki myndi takast að vinna það upp með samningi aðilanna um gjaldeyrisstýringu. Af gögnum málsins verður þó ekki séð að varnaraðili hafi nokkru sinni gert athugasemdir að því er varðaði ráðgjöf sóknaraðila í tengslum við þetta verkefni fyrr en með kröfulýsingu 25. nóvember 2009. Að þessu virtu og með vísan til þess sem áður var rakið er óhjákvæmilegt að telja varnaraðila hafa glatað hér fyrir tómlæti sérhverjum rétti sem hann gæti hafa átt á hendur sóknaraðila af þessu tilefni.
Hvað gjaldeyrisstýringuna varðar byggir varnaraðili á því að í fjögur skipti hafi sóknaraðili keypt eða selt gjaldmiðla fyrir hans hönd á gengi sem engin stoð hafi verið fyrir. Um þetta byggir varnaraðili á matsgerð dómkvaddra manna, þar sem rakinn er munur á því gengi, sem sóknaraðili beitti í viðskiptum þessum, og gengi, sem notað var á sama tíma í viðskiptum sóknaraðila á millibankamarkaði. Á þessum grunni komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að hagnaður varnaraðila af gjaldeyrisstýringunni hefði að réttu lagi átt að verða 72.363.316 krónur í stað taps upp á 80.101.684 krónur.
Sóknaraðili heldur því fram að ekki sé unnt að leggja niðurstöðu matsmanna til grundvallar, þar sem ekki hafi verið tekið þar tillit til tilvika þar sem framangreind framkvæmd gjaldeyrisviðskiptanna hafi orðið varnaraðila í hag. Sóknaraðili hefur á hinn bóginn ekki leitast við að fá matsgerðinni hnekkt með yfirmati. Þá hefur hann ekki lagt fram rökstudda útreikninga á því hvernig hann telur hagnað varnaraðila í einstökum tilvikum eiga að dragast frá því tjóni hans samkvæmt matsgerðinni. Verður matsgerðin því lögð til grundvallar um tjón varnaraðila. Ekki getur staðið í vegi kröfu varnaraðila um bætur fyrir missi hagnaðar að hann hafi í raun ekki lagt af mörkum framlag til viðskiptanna í öndverðu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 20. september 2012 í máli nr. 416/2011, en um þetta getur dómur réttarins 17. apríl 2013 í máli nr. 222/2013 ekki talist fordæmi, enda var kröfugerð þar reist á öðrum forsendum en hér er gert.
Að virtu öllu framangreindu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sóknaraðili hafi við framkvæmd gjaldeyrisstýringarsamnings aðilanna brotið gegn góðri viðskiptavenju og ekki leitað allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir varnaraðila, sbr. 5. gr. og 18. gr. laga nr. 108/2007, og með því bakað sér skaðabótaskyldu vegna tjóns varnaraðila af þessu. Ekki er fallist á með sóknaraðila að þessi krafa sé fallin niður fyrir tómlæti, enda verður ekki séð að varnaraðili hafi nokkru sinni verið upplýstur um þennan mikla gengismun. Þá er ekki fyrir að fara öðrum gögnum eða upplýsingum sem gátu gefið varnaraðila tilefni til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sóknaraðila áður en hann lýsti kröfu sinni. Krafa varnaraðila að fjárhæð 72.363.316 krónur verður því viðurkennd við slit sóknaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
IV
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði hugðist varnaraðili leysa úr eignastýringu hjá sóknaraðila 350.000.000 krónur til jarðakaupa sumarið 2007, en eftir ráðleggingar starfsmanns sóknaraðila ákvað varnaraðili að taka í staðinn lán hjá sóknaraðila. Aðilarnir gerðu um þetta lán samning 1. október 2007 með fyrirsögninni: „Lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum óverðtryggt“ og skyldi það vera „að jafnvirði“ 1.697.905,86 evrur, 133.801.157 japönsk jen, 1.219.351,73 bandaríkjadalur og 1.388.506,83 svissneskir frankar í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Lánið var til tveggja ára og átti að endurgreiða í einu lagi 2. október 2009. Samhliða lánveitingunni ritaði varnaraðili undir yfirlýsingu, þar sem hann setti sóknaraðila að handveði verðbréfasafn sitt, bankareikninga og innstæður til tryggingar greiðslu á öllum skuldbindingum við hann. Að kröfu sóknaraðila lagði varnaraðili fram frekari tryggingar í tengslum við breytingu á skilmálum lánssamningsins 25. febrúar 2008. Í matsgerð dómkvaddra manna var komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili hafi orðið fyrir tjóni að fjárhæð 399.827.590 krónur með því að hann hafi tekið lán með þessum skilmálum hjá sóknaraðila í stað þess að leysa fyrrgreinda fjárhæð úr eignastýringu.
Um þennan lið í kröfu varnaraðila verður að gæta að því að hann hefur ekki sýnt fram á að starfsmenn sóknaraðila hefðu mátt sjá það fyrir í október 2007 að lántakan, sem að framan greinir, yrði óhagkvæmari fyrir hann en ef hann hefði leyst út fé sitt hjá sóknaraðila til jarðakaupanna. Þá er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins veitti varnaraðili sjálfur erlent lán á svipuðum tíma eða 10. ágúst 2007, að fjárhæð 1.000.000 evrur, og mátti honum þannig vera fullkunnugt um áhættuna af því að veita og taka lán í erlendum gjaldmiðlum eða sem fylgdi gengi þeirra. Að þessu virtu hefur varnaraðili ekki sýnt fram á rekja megi tjón hans til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sóknaraðila.
V
Með vísan til þess, sem að framan er rakið, verður aðeins viðurkennd krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila að fjárhæð 72.363.316 krónur, en hún á sem fyrr segir rætur að rekja til tjóns varnaraðila af völdum gjaldeyrissstýringar sóknaraðila á tímabilinu 15. ágúst til 2. október 2008. Með hinum kærða úrskurði var því hafnað að varnaraðili gæti nýtt þá kröfu til skuldajafnaðar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur sú niðurstaða því ekki komið til endurskoðunar.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Við slit sóknaraðila, Glitnis hf., er viðurkennd krafa varnaraðila, Þorsteins Hjaltested, að fjárhæð 72.363.316 krónur og nýtur hún stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Hafnað er kröfu varnaraðila um að honum verði heimilað að beita framangreindri kröfu til skuldajafnaðar við skuld sína samkvæmt lánssamningi við sóknaraðila 1. október 2007.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2015.
Þetta mál, sem barst dóminum 24. febrúar 2012, með bréfi slitastjórnar Glitnis hf., var þingfest 13. mars 2012 og tekið til úrskurðar 12. júní 2015.
Sóknaraðili, Þorsteinn Hjaltested, kt. [...], Vatnsenda, Kópavogi, krefst þess:
I. að fjárkrafa hans við slit Glitnis hf., 21.257.769 kr. auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2001, frá 2 janúar 2012 til greiðsludags, verði viðurkennd sem búskrafa, skv. 3. mgr. 110 gr. laga nr. 21/1991,
II. að fjárkrafa hans við slit Glitnis hf., 435.945.685 kr., verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, svo og að dráttarvextir af þeirri fjárhæð, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2001 frá 22. apríl 2009, til greiðsludags verði viðurkenndir sem eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991,
III. að viðurkenndur verði með dómi réttur sóknaraðila til skuldajöfnuðar:
aðallega með viðurkenndum fjárkröfum sínum við hverja þá kröfu sem varnaraðili kunni að eiga eða hafa átt á hendur sóknaraðila, sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991.
til vara með fjárkröfum, sem falli undir annan lið fjárkröfu hans og dómurinn viðurkenni að hann eigi við slit varnaraðila, til skuldajöfnuðar við kröfu Íslandsbanka hf. á hendur honum sem byggist á lánssamningi, dags. 1. október 2007, þar sem Glitnir banki hf. lánaði sóknaraðila 1.697.905,86 evrur, 133.801.157 japönsk jen, 1.219.351,73 Bandaríkjadali og 1.388.506,83 svissneska franka, og viðauka við samninginn frá 25. febrúar 2008, milli upphaflegra samningsaðila, svo og skuldbreytingu sem gerð hafi verið með viðaukum 22. nóvember 2010 og 7. maí 2012 milli sóknaraðila og Íslandsbanka hf.
Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu.
Varnaraðili, Glitnir hf., kt. [...], Sóltúni 26, Reykjavík, krefst þess að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar Glitnis hf., að hafna kröfum sóknaraðila auðkenndum með kröfunúmerunum CL20091126-4542 og CL20091126-4563 í kröfuskrá varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess nánar tiltekið að hafnað verði:
- að viðurkenna 435.945.685 kr. auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 22. apríl 2009 til greiðsludags sem almenna kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.,
- að viðurkennda rétt sóknaraðila til skuldajöfnuðar hvort heldur sem er aðal- eða varakröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð.
Varnaraðili krefst þess að aðallega að vísað verði frá dómi, en til vara að hafnað verði, þeirri kröfu sóknaraðila að viðurkennd verði sem búskrafa, samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991, fjárhæð sem nemi 21.257.769 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. janúar 2012 til greiðsludags.
Gagnkrafa varnaraðila
Varnaraðili gerir þá gagnkröfu að sóknaraðili greiði honum 23.498.315 kr. auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 20. desember 2009 til greiðsludags, að teknu tilliti til innborgunar, 2. janúar 2012, að fjárhæð 21.257.859 kr.
Varnaraðili krefst enn fremur í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti.
Sóknaraðili krefst þess að gagnkröfu varnaraðila verði hafnað.
Málsatvik
Málsaðilar eru að nokkru leyti ósammála um atvik málsins, einkum hvernig það bar að að þeir fjármálagerningar sem um er deilt voru gerðir. Báðir leggja einnig á ólíkan hátt út af samningi um einkabankaþjónustu sem afmarkar þau verkefni sem sóknaraðili fól starfsmönnum Glitnis banka hf. að sinna fyrir sína hönd.
Atvik málsins hefjast á því að sóknaraðili gerði, 30. janúar 2007, samning við Kópavogsbæ um greiðslu eignarnámsbóta sem metinn var á 6,5 til 8 milljarða króna að lágmarki. Þar af átti að greiða sóknaraðila 2.250.000.000 kr. í reiðufé, í byrjun febrúar 2007. Ráðgert var að greiða það sem eftir stóð á annan hátt, meðal annars með byggingarlóðum.
Sóknaraðili er lærður matreiðslumaður og starfaði lengst af við það fag en frá andláti föður síns, í lok árs 1999, hefur hann starfað sem bóndi á Vatnsenda þar sem rekið er sauðfjárbú, hrossarækt og lóðaleiga. Sóknaraðili hafði enga reynslu af umsýslu mikilla fjármuna. Hann vildi því leita faglegrar aðstoðar við vörslu og ávöxtun þess fjár sem hann átti von á.
Starfsmaður Glitnis banka hafði samband við sóknaraðila á þessum tíma og bauð honum á fund. Sóknaraðili fundaði, ásamt lögmanni sínum, með Herði Guðmundssyni fulltrúa einkabankaþjónustu Glitnis í höfuðstöðvum bankans, 19. febrúar 2007. Á fundinum lagði fulltrúi bankans fram tvö kynningarrit, annað almenns eðlis og hitt sérsniðið fyrir sóknaraðila. Í almenna kynningarbæklingnum kom fram í samantekt að sóknaraðila stæði til boða í einkabankaþjónustu Glitnis banka:
- Besta fáanleg fjármálaþjónusta sem byðist aðeins völdum hópi viðskiptamanna
- Sérsniðin þjónusta
- Fjármálaráðgjafi, sem hefði yfirsýn yfir heildarstöðu viðskiptavinar
- Trúnaður og fagleg vinnubrögð
- Styrkur Glitnis banka og alþjóðleg tengsl nýtt í persónulegri þjónustu.
Varnaraðili leggur áherslu á að í kynningarritunum komi meðal annars fram að eignir sóknaraðila samkvæmt fjárfestingarstefnu gætu verið hlutabréf, skuldabréf, lausafé, gjaldeyrir, hlutabréfatengd skuldabréf og eignir í vogunarsjóðum. Einnig hafi sóknaraðili getað valið að stýra verðbréfasafni sínu eða hluta þess í samráði við fjármálaráðgjafa, og t.d. átt viðskipti með einstök verðbréf, viðskipti með sjóði sem ekki féllu undir eignastýringarsafn, tekið þátt í útboðum, gjaldmiðlaviðskiptum, skiptasamningum o.s.frv. Tekið hafi verið fram að sóknaraðili gæti rætt við fjármálaráðgjafa um fjárfestingar og fengið hlutlaust mat á fjárfestingarkostum sem og að fjármálaráðgjafi gæti einnig átt frumkvæði að því að kynna honum tækifæri. Í gögnunum sé fjallað um ný tækifæri fyrir viðskiptavini í einkabankaþjónustu, sem fælust í fjárfestingum í fasteignaverkefnum og fyrirtækjakaupum erlendis.
Í fram lögðum tillögum fjármálaráðgjafa Glitnis banka, sem varð fyrri þjónustufulltrúi sóknaraðila, um sérsniðna samsetningu eigna sóknaraðila, hafi verið lagt til að hann tæki stöðu í fáum innlendum félögum, gjaldeyrisstýringu og fasteignaverkefni. Í kynningarritinu hafi verið sá lagalegi fyrirvari, að skjalið væri eingöngu kynning á viðskiptahugmynd og væri ætlað til upplýsingar. Ef kynningin leiddi til þess að viðskipti kæmust á milli sóknaraðila og Glitnis banka, yrði það gert á grundvelli sérstaks samnings, sem kynni að fela í sér önnur skilyrði eða fyrirvara en fælust í kynningunni. Tekið hafi verið fram að viðskiptahugmyndin væri ekki viðeigandi fyrir alla fjárfesta og í henni fælust ekki sérstök meðmæli eða ráðleggingar. Í kynningunni fælist ekki tæmandi umfjöllun um áhættur sem tengdust fjárfestingunni og hafi sóknaraðila verið ráðlegt að leita ráða hjá sérfræðingum um efni og áhrif viðskiptanna, þar á meðal varðandi fjárhagsleg, lagaleg og skattaleg atriði.
Að sögn sóknaraðila fólu þær sérsniðnu fjárfestingatillögur sem fulltrúi bankans lagði fram, að hluta, í sér tillögur að viðskiptum sem vörðuðu flókna fjármálagerninga sem hvorki sóknaraðili né lögmaður hans báru nokkuð skynbragð á. Fulltrúa bankans hafi verið gerð grein fyrir því að sóknaraðili hefði hvorki kunnáttu né reynslu á sviði verðbréfaviðskipta. Hann leitaði eftir öruggri vörslu og ávöxtun þeirra miklu fjármuna sem honum væru að renna í hendur og sæktist ekki eftir áhættu. Skýrt hafi komið fram á fundinum að sóknaraðili vildi reiða sig á sérfræðiþekkingu Glitnis banka og að hann væri að kaupa sig inn í öryggi með því að leita til bankans vegna fagþekkingar hans og reynslu.
Í kjölfar þessara viðræðna varð úr að sóknaraðili undirritaði 19. febrúar 2007 samning um einkabankaþjónustu. Lögmaður hans ritaði undir samninginn en sóknaraðili ritaði undir umboðið sem var veitt starfsmönnum Glitnis banka og setti stafi sína á allar síður samningsins. Í viðauka I með honum er mörkuð fjárfestingarstefna þar sem einungis mátti fjárfesta í skuldabréfum og lausu fé. Í viðauka II við samninginn veitti sóknaraðili starfsmönnum bankans umboð meðal annars til úttekta af reikningum sóknaraðila, en þó aðeins að undangenginni beiðni sóknaraðila. Samningurinn fékk vörslureikningsnúmer 7632.
Sóknaraðili tekur fram að fulltrúa bankans hafi verið gerð grein fyrir því að sóknaraðili ætti ekki tölvu og notaði hvorki internet né tölvupóst.
Af þessum sökum áréttar varnaraðili að hann telji fram lögð gögn sýna að nánast öll samskipti bankans í tengslum við einstök viðskipti sóknaraðila hafi verið við lögmann hans. Meðal annars liggi fyrir að stuttu eftir að hann hafi ritað undir samning um einkabankaþjónustu fyrir hönd sóknaraðila, hafi hann með tölvupósti 22. febrúar 2007, óskað eftir að opnaður yrði fyrir sig aðgangur að netbanka sóknaraðila. Hann hafi mánuði síðar fengið sendar leiðbeiningar í tölvupósti frá starfsmanni bankans um fyrstu skref í netbankanum. Með þessu hafi lögmaðurinn haft heimild til að skoða stöðu sóknaraðila í netbankanum og öll hans verðbréfaviðskipti, fyrir utan peningamarkaðsinnlánin.
Helsta efni samnings um einkabankaþjónustu
Varnaraðili leggur áherslu á að í samningnum hafi verið samið um þrjá þætti, þ.e. a) fjárvörslu, b) eignastýringu og c) einkabankaþjónustu. Fjárvarsla sé samkvæmt a-lið 1. gr. samningsins þjónusta sem felist í að taka við fjármunum viðskiptavinar til fjárfestingar í verðbréfum fyrir eigin reikning viðskiptavinar. Í eignastýringu felist samkvæmt b-lið 1. gr. tilfærsla á milli mismunandi tegunda verðbréfa eftir því sem tækifæri bjóðast á mörkuðum hverju sinni. Viðskiptavinur gefur bankanum heimild til eignastýringar samkvæmt fyrirfram ákveðinni fjárfestingarstefnu, sbr. 3. gr., og bankinn sér um framkvæmd fjárfestingarstefnunnar fyrir hönd viðskiptavinar.
Í 2. gr. samningsins sé lýst einkabankaþjónustu, en í henni felist auk fjárvörslu og eignarstýringar, alhliða fjármálaþjónusta hjá Glitni banka og dótturfélögum, sem fram kemur í a-lið 2. gr., þ.e. Ráðgjöf varðandi samsetningu heildareigna og skulda viðskiptavinar, þ.m.t. ráðgjöf varandi lántökur, áhættustýringu viðskiptavinar, arðsemisútreikninga og ráðgjöf varðandi einstakar fjárfestingar sem og aðstoð við kaup og sölu á eignum. Þá sé tiltekið í e-lið 2. gr. að í fjármálaþjónustu bankans fælist jafnframt stofnun og/eða rekstur eignarhalds- og/eða fasteignafélaga jafnt innanlands sem utan. Loks sé talið upp í f-lið 2. gr. samningsins, að þjónustan gæti lotið að gjaldeyrisviðskiptum og gerð afleiðusamninga.
Í 3. gr. samningsins sé ákvæði um fjárfestingarstefnu þar sem fram komi að eignastýring samkvæmt 1. gr. samningsins skuli vera í samræmi við þá fjárfestingarstefnu, sem viðskiptavinur samþykki skriflega á hverjum tíma. Viðskiptavinur veiti bankanum heimild til að stýra eignum sínum innan þeirra frávika sem fram komi í fjárfestingarstefnunni. Tiltekið sé að viðskiptavinur geti óskað endurskoðunar á fjárfestingarstefnunni hvenær sem er á meðan samningurinn sé í gildi. Þá beri viðskiptavinur einn ábyrgð á fjárfestingarákvörðunum sínum.
Í 4. gr. samningsins um óskráð verðbréf, þar á meðal afleiður, segi að sé viðskiptavinur fagfjárfestir, geti hann óskað þess að verðbréfaviðskipti samkvæmt samningnum felist að einhverju leyti í viðskiptum með óskráð verðbréf. Viðskiptavinur skal þá óska eftir því skriflega við bankann. Í 5. gr. segi að um samningsbundið uppgjör afleiðusamninga gildi ákvæði III. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Skriflegir afleiðusamningar á milli tveggja aðila geti þannig jafnast hvor á móti öðrum með skuldajöfnun, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 8. gr. samningsins sé bankanum veitt fullt og ótakmarkað umboð til að stýra eignum viðskiptavinar í samræmi við fjárfestingarstefnuna.
Í 12. gr. samningsins sé kveðið á um að viðskiptavinur geti gefið fyrirmæli sín um viðskipti samkvæmt samningnum munnlega eða skriflega, þ.e. með símbréfi, tölvupósti eða með símtali. Sérstaklega sé tekið fram að bankinn geti neitað að framkvæma viðskiptin séu þau t.d. sérstök eða óvenjuleg miðað við fyrri viðskipti eða það sem almennt tíðkist í sambærilegum viðskiptum eða það brjóti á einhvern hátt í bága við lög og reglur að framfylgja þeim. Í 14. gr. sé tekið fram að viðskiptavini sé kunnugt um að símtöl milli hans og starfsfólks bankans kunni að vera hljóðrituð og samþykkir að þær hljóðritanir teljist full sönnun þess sem fram fór á milli aðila ef ágreiningur rís um viðskipti eða önnur samskipti.
Samkvæmt 14. gr. samningsins hafi lög nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti gilt um ábyrgð bankans. Tekið hafi verið fram að bankinn bæri ábyrgð á tjóni viðskiptavinar sem rekja mætti til saknæmrar háttsemi starfsmanna. Bankinn bæri hins vegar ekki ábyrgð á gengislækkun verðbréfa eða tapi á verðbréfum sem keypt hefðu verið fyrir hönd viðskiptavinar. Loks segi í 18. gr. samningsins að bankinn kunni í einstaka tilvikum að eiga beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta í einstaka félögum og sjóðum. Til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, tryggja óhlutdrægni og til tryggingar því að viðskiptavinir njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör hafi bankinn sett sér verklagsreglur, sem samþykktar hafi verið af stjórn bankans og staðfestar af Fjármálaeftirlitinu.
Varnaraðili áréttar enn fremur að í viðauka I við samninginn, þar sem fjárfestingarstefnan sé valin, segi meðal annars fram að bankinn muni í nafni viðskiptavinar fjárfesta í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, verðbréfum, skuldabréfum eða hlutabréfum sem séu skráð á opinberum verðbréfamörkuðum, innlánum í bönkum og sparisjóðum (lausafé). Fjárfestingarstefna samkvæmt samningnum, eins og áður segir, var ákveðin 100% skuldabréf og laust fé.
Í kjölfar þessa fundar, 19. febrúar 2007, hófst þjónustufulltrúi sóknaraðila í bankanum handa við að festa fé og stýra eignum sóknaraðila. Hann fékk í upphafi, 20. febrúar 2007, 2.000.000.000 kr. til ráðstöfunar. Í mars 2007 færði sóknaraðili 800.000.000 kr. yfir til Landsbanka Íslands í því skyni að gera einnig samning um eignastýringu við þann banka.
Fasteignaverkefni í Berlín
Þjónustufulltrúi sóknaraðila í Glitni banka sendi lögmanni hans, 24. apríl 2007, yfirlit yfir stöðu á verðbréfareikningi sóknaraðila nr. 7632. Þar kemur fram að heildareign sóknaraðila í verðbréfum var 959.694.275 kr. að markaðsvirði. Að mati sóknaraðila kemur samsetning eignasafnsins torkennilega fyrir sjónir nú (nánast allt í bréfum tengdum Glitni banka og eigendum hans), en á þessum tíma hafi menn verið grandalausir um það sem gerðist á bak við tjöldin í íslenskum fjármálaheimi.
Sama dag óskaði lögmaðurinn eftir því í tölvupósti að þjónustufulltrúinn kæmi með tillögu að breyttri fjárfestingarstefnu fyrir eignasafn sóknaraðila: Komdu með tillögu þar sem 50% er óbreytt, 30% hófleg áhætta, 20% meiri áhætta (en enga vitleysu) væri fínt að fá sem fyrst.
Þjónustufulltrúi sóknaraðila sendi lögmanninum tillögu næsta dag. Þar lagði hann til að fjárfest yrði 50% í innlendum peningamarkaði, 15% í innlendum hlutabréfamarkaði, 15% í erlendum hlutabréfamarkaði og 20% í erlendu fasteignaverkefni.
Þjónustufulltrúinn gerði grein fyrir því að hann væri að fara með viðskiptamönnum sínum í fasteignaverkefni erlendis, sem fæli í sér kaup á fasteign, hún gerð upp og síðan seld. Hann tiltók að hann gerði ráð fyrir almennri ávöxtunarkröfu sem væri hærri en 30%, allt eftir verkefnum hverju sinni. Í verkefni sem hann hygðist fara í í Berlín, ætlaði bankinn að s.k. IRR, þ.e. árleg ávöxtun eigin fjár, yrði 100%. Gert var ráð fyrir að framlag hvers fjárfestis um sig væri 40.000.000 kr. en þar sem verkefnið væri fullmannað þyrfti að fá aðra fjárfesta til að minnka sinn hlut. Þjónustufulltrúinn bauðst til að senda lögmanni sóknaraðila kynningu og afhenti honum hana 27. apríl 2007.
Glitnir banki bauð sóknaraðila um þetta leyti í vikulanga laxveiðiferð til Rússlands og fannst sóknaraðila mikið til þess koma. Sóknaraðili telur ferðina hluta af markaðssetningu bankans gagnvart honum og mikið í lagt af hálfu bankans gagnvart einstaklingi og almennum fjárfesti. Í ferðinni voru meðal annars starfsmenn einkabankaþjónustu bankans og telur sóknaraðili að í ferðinni hafi þeir fengið gott tækifæri til að átta sig á reynsluleysi hans í verðbréfaviðskiptum.
Varnaraðili bendir á að á þessum tíma hafi Hilmar Steinar Sigurðsson, starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis banka, verið í forsvari fyrir kannanir á fjárfestingum af þessu tagi. Hafi honum litist vel á fjárfestinguna, hafi hún verið kynnt ákveðnum viðskiptavinum bankans í einkabankaþjónustu. Félagið Kapital North hafi kynnt Hilmari Berlínarverkefnið.
Þjónustufulltrúi sóknaraðila í bankanum sendi lögmanni sóknaraðila tölvupóst, 7. maí 2007. Hann var þá nýkominn frá Berlín þar sem hann hafði verið með hóp fjárfesta sem skoðuðu verkefnið. Í póstinum segist hann telja fasteignaverkefnið líta vel út. Hann bauðst til að gæta hagsmuna sóknaraðila ef hvorki hann né lögmaður hans kæmust á fund fjárfestanna sem var áætlaður tveimur dögum síðar. Lögmaður sóknaraðila svaraði tölvupóstinum sama dag og óskaði eftir að starfsmaðurinn gætti hagsmuna sóknaraðila á fundi fjárfestanna.
Sóknaraðili telur að af máli þjónustufulltrúa síns í Glitni banka hafi hann ekki mátt skilja annað en að verkefnið væri á vegum bankans í samstarfi við afar trausta aðila.
Varnaraðili telur fram lögð kynningargögn um fasteignaverkefnið sýna, að bankinn hafi hvorki stofnað til verkefnisins né hafi það verið á hans vegum. Eina aðkoma bankans að verkefninu hafi verið að veita fjárfestingarráðgjöf á grundvelli samninga um einkabankaþjónustu við tiltekna viðskiptavini sem og veita fjármagn. Verkefnið hafi verið undirbúið af Kapital North, sem setti fram viðskiptaáætlun þar sem helstu kostum verkefnisins hafi verið lýst.
Starfsmaður bankans sendi fjárfestahópnum og lögmanni sóknaraðila tölvupóst 7. júní 2007, þar sem kemur fram að lögfræðingur KPMG, sem hafi unnið með umsjónaraðila fasteignaverkefnisins, Kapital North, hefði lokið skjalagerð vegna verkefnisins, sem fékk heitið Project Blucherstrasse. Meðfylgjandi voru þau skjöl sem nauðsynlegt var að fjárfestarnir undirrituðu vegna aðkomu þeirra að fjárfestingunni. Þjónustufulltrúi sóknaraðila hjá bankanum kvaðst mæla með því að fjárfestarnir, sóknaraðili þar með talinn eða lögmaður hans, kynntu sér gögnin eða fengu lögmenn til að fara yfir þau en hann kvað starfsmenn bankans einnig hafa farið yfir þau. Óskað var eftir athugasemdum ef einhverjar væru.
Varnaraðili áréttar að þau gögn sem lögmanni sóknaraðila hafi verið send hafi í fyrsta lagi verið fjárfestingarsamningur, annars vegar milli þeirra tveggja einstaklinga sem áttu Kapital North og einnig 100% hlutafjár í Berlice ehf. á þessum tíma og hins vegar fjárfestahópsins, þ.m.t. sóknaraðila, þar sem eigendurnir veittu fjárfestunum rétt til að skrá sig fyrir hlutafjáraukningu í Berlice ehf. Með þessum samningi hafi fjárfestarnir tekið á sig þá skuldbindingu að greiða 4.000.000 evrur, um það bil 344.000.000 kr., fyrir allt útgefið hlutafé í B-flokki hlutafjár. Samkvæmt 1. gr. samningsins hafi sóknaraðili skuldbundið sig til að greiða 500.000 evrur eða um það bil 43.000.000 kr., fyrir 12,5% af útgefnu hlutafé í B-flokki. Í skilmálunum sé tilgangur félagsins Berlice ehf. enn fremur ítarlega rakinn, þ.e. að fjárfesta í fasteignaþróunarverkefni í Blücherstrasse í Berlín í gegnum dótturfélag og að nánari upplýsingar um verkefnið væru í Project Memorandum. Í gögnunum hafi í öðru lagi verið samningur við Kapital North, Management Agreement, þar sem Kapital North tók að sér nánar tiltekna þjónustu í tengslum við verkefnið, sem sé rakin í viðauka 1 við samninginn. Í þriðja lagi samþykktir fyrir Berlice ehf., þar sem rakið sé að tilgangur félagsins sé eignarhald á 100% hlutafjár í Berlice GmBH í tengslum við fasteignafjárfestingu í Berlín. Í fjórða lagi hluthafasamkomulag milli allra hluthafa í Berlice ehf. Í fimmta lagi hafi verið í skjölunum, sem þjónustufulltrúi sóknaraðila sendi lögmanni hans, fundargerð hluthafafundar, sem haldinn var 25. maí 2007.
Kaupverð fasteignarinnar var greitt með 4.000.000 evrum, sem fengust vegna kaupa fjárfestanna á hlutafé í Berlice ehf., og 4.000.000 evrum til viðbótar, sem greiddar voru með lánsfjármagni sem Berlice ehf. fékk hjá Glitni banka. Með fyrrgreindu láni bankans til Berlice ehf., var peningamarkaðslán samkvæmt lánssamningi 17. júlí 2007 að fjárhæð 4.000.000 evrur, greitt upp. Þá gerðu sóknaraðili og Berlice ehf. með sér lánssamning, dags. 6. júní 2007, þar sem sóknaraðili veitti Berlice ehf., lán að fjárhæð 500 evrur, sem félagið skuldbatt sig til að endurgreiða með einni greiðslu 6. júní 2009.
Sóknaraðili gekkst auk þess í sjálfskuldarábyrgð fyrir láni Glitnis banka til verkefnisins fyrir allt að 15,63 % af 4.164.172,95 evrum. Krafa virðist hafa komið fram um þetta gagnvart hluthafahópnum í júlí 2007 en sóknaraðili hefur einungis afrit eigin sjálfskuldarábyrgðar frá 11. febrúar 2008.
Að sögn sóknaraðila komu fljótlega í ljós ýmsir vankantar á verkefninu og ljóst að bankinn hefði staðið að undirbúningi, kynningu og sölu þess á ámælisverðan hátt. Fundargerðir hluthafafunda í Berlice ehf. sýni að strax á árinu 2007 hafi allt verið í kaldakoli í verkefninu og hafi bankanum mátt vera það ljóst.
Sóknaraðili tekur fram að vegna þessarar fjárfestingar hafi bankinn ekki óskað eftir því að hann breytti fjárfestingarstefnu sinni skriflega og honum hafi ekki verið veitt nein eiginleg ráðgjöf heldur hafi bankinn leitast við að selja honum hluti í þessu óskráða félagi.
Varnaraðili leggur áherslu á þann skilning sinn að þessi fjárfestingartillaga hafi tekið til þeirrar fjárfestingarstefnu sem gilti um eignasafn sóknaraðila í heild sinni en ekki þeirrar sem tók til eignastýringarhluta samningsins um einkabankaþjónustu, enda hafi sú fjárfestingarstefna haldist óbreytt.
Sóknaraðili kveðst hafa talið að starfsmaður bankans myndi gæta hagsmuna hans vegna þessarar fjárfestingar svo sem lofað hafi verið. Síðar hafi komið í ljós að allt málið væri í algeru skötulíki og að bankinn vildi ekki kannast við að fjárfestingin væri á sínum vegum eða að hann hefði lofað að fjármagna hana. Ekki hafi verið gerð grein fyrir því að sóknaraðili ætti að gangast undir sjálfskuldarábyrgð vegna verkefnisins og ekkert slíkt eyðublað hafi verið meðal þeirra gagna sem sent var lögmanni sóknaraðila 7. júní 2007. Lánssamningur vegna láns til Berlice að fjárhæð 500.000 evrur var undirritaður og fjármunir teknir af reikningi sóknaraðila, 6. júní 2007, degi áður en önnur skjöl voru undirrituð.
Sóknaraðili hafi takmarkað tjón sitt vegna þessarar fjárfestingar með því að selja hana fyrir 276.000 evrur eða 44.500.000 kr. Aðdragandi þess hafi verið sá að innan hluthafahópsins hafi myndast meirihluti sem vildi kaupa minni hluthafa út og fella niður áunna vexti skv. lánasamningunum. Sóknaraðili hafi ekki getað fallist á slíkt fyrirkomulag og þegar honum hafi boðist að selja sinn hlut og einnig að fá loforð um yfirtöku ábyrgða hans vegna verkefnisins, hafi hann metið það sem réttmæta tjónstakmörkun. Sóknaraðili gætti þess áður að bjóða varnaraðila að leysa til sín hlut sóknaraðila á sama verði en því hafnaði varnaraðili.
Varnaraðili telur fyrirliggjandi gögn sýna að starfsmaður Glitnis banka hafi kynnt lögmanni sóknaraðila ákveðna fjárfestingu, sem fólst í kaupum á fasteign, enda hluti af þeirri þjónustu sem bankinn veitti viðskiptavinum í einkabankaþjónustu, þ.e. aðstoð við kaup og sölu eigna, sbr. a-lið 2. gr. samningsins. Sóknaraðila hafi verið eða mátt vera ljóst af því kynningarefni sem lögmaður sóknaraðila fékk sent, að til þess að halda utan um verkefnið yrðu fjárfestar að kaupa hlut í eignarhaldsfélagi, sem hélt utan um fasteignaverkefnið, þ.e. Berlice ehf.
Fram lagðar fundargerðir hluthafafundar í Berlice ehf. sýni, að frumkvæðið að því að leita til Glitnis banka um fjármögnun hafi komið frá félaginu sjálfu, sbr. fundargerð hluthafafundar, 27. júní 2007. Á þeim fundi hafi verið samþykkt að óska eftir fundi með bankanum til að fara yfir lánakjör og fá aðstoð varðandi framhaldsfjármögnun. Enn fremur sé ljóst að félagið hafi leitað eftir samstarfi við önnur fjármálafyrirtæki um fjármögnun verkefnisins. Þá liggi fyrir að hvorki sóknaraðili né lögmaður hans hafi sótt hluthafafundi Berlice á árunum 2007 og 2008. Það hafi ekki verið fyrr en á hluthafafundi í lok árs 2009, að lögmaður sóknaraðila hafi sótt fund og þá til að ræða hvort það væri hægt að selja verkefnið. Þá hafi staðan verið sú að nánast ekkert var eftir til greiða hluthöfum af framlögðu eigin fé og lánum í verkefnið. Sú fullyrðing sóknaraðila að starfsmaður bankans hafi sagst ætla að gæta hagsmuna hans varðandi þessa fjárfestingu sé röng, þar sem fyrir liggi að umræddur starfsmaður hafi eingöngu sagst ætla að gæta hagsmuna sóknaraðila á hluthafafundi í byrjun maímánaðar 2007.
Fjármagnað, afleiðutengt skuldabréf (Straums-strúktúr)
Fulltrúi sóknaraðila í einkabankaþjónustu Glitnis sat ekki auðum höndum. Þann 6. júní 2007 sendi hann lögmanni sóknaraðila tölvupóst þar sem hann kvaðst hafa áhuga á að kaupa 100.000.000 kr. í strúktúr fyrir sóknaraðila. Hann tók fram að tapsáhætta væri takmörkuð en ávöxtunin tengdist gengi bréfa í Straumi Burðarási fjárfestingarbanka. Til tryggingar kaupunum lægi 6.000.000 króna trygging. Hann taldi þessa fjárfestingu henta sóknaraðila mjög vel. Með tölvupósti þjónustufulltrúans fylgdi kynning á fjárfestingunni á einblöðungi. Starfsmaður bankans og lögmaður sóknaraðila ræddu saman næsta dag. Lögmaður sóknaraðila kveðst hafa vísað til þess í samtali við fulltrúann að ekki ætti að taka áhættu með fjármuni sóknaraðila og vísað til fyrirliggjandi fjárfestingarstefnu. Upptökur af samtölum þjónustufulltrúa sóknaraðila við lögmann hans hafa ekki fundist hjá varnaraðila.
Sóknaraðili ritaði, 11. júní 2007, undir samning um framvirk verðbréfaviðskipti, þar sem Glitnir banki seldi honum skráð skuldabréf gefið út af SPRON, tengt gengi hlutabréfa í Straumi, fyrir 107.853.750 kr. á umsömdum afhendingardegi, sem var 11. desember 2007. Með samningnum skuldbatt bankinn sig til að afhenda sóknaraðila bréfin á tilteknum degi og sóknaraðili skuldbatt sig til að greiða bankanum tiltekna fjárhæð þann sama dag. Þessi samningur, auðkenndur FS 07061238, var 11. desember 2007 framlengdur til 7. júlí 2008 með öllum sömu skilmálum og sá fyrri og fékk þá auðkennið FS 07121250.
Varnaraðili áréttar að sóknaraðili hefði getað kosið að loka samningnum og sætta sig við stöðu hans 11. desember eða haldið honum opnum í þeirri von að gengið hækkaði á ný. Við uppgjör samningsins á afhendingardegi 7. júlí 2008 nam tap sóknaraðila 23.498.315 kr.
Sóknaraðili vísar til þess að Glitnir banki hafi ekki mátt eiga þessi viðskipti við hann vegna skilmála í 4. gr. einkabankaþjónustusamningsins. Starfsmenn bankans hafi hvorki veitt sóknaraðila ráðgjöf né skýrt út fyrir honum áhættu af þessum viðskiptum né heldur gert honum grein fyrir hættu á hagsmunaárekstri bankans. Enn fremur hafi starfsmenn bankans brotið gegn eigin verklagsreglum með því að selja sóknaraðila þennan fjármálagerning þar sem fram hafi komið í kynningargögnum , að gerningurinn væri einungis ætlaður fagfjárfestum. Loks hafi starfsmenn bankans ekki kannað hvort gerningurinn væri við hæfi sóknaraðila miðað við reynslu hans og þekkingu á verðbréfamarkaði.
Lántaka í ágúst 2007
Lögmaður sóknaraðila fékk tölvupóst frá þjónustufulltrúa sóknaraðila í Glitni banka 24. ágúst 2007 þar sem sagði: „Lánið verður greitt inn á þorstein í dag. Göngum frá formsatriðum síðar“. Lögmaður sóknaraðila hafði ekki óskað eftir láni fyrir hönd sóknaraðila og skildi ekki í þessari skeytasendingu. Síðar hafi komið í ljós að samkvæmt ráði þjónustufulltrúa sóknaraðila í bankanum hafi verið ákveðið að veita sóknaraðila lán með gengisáhættu í stað þess að sóknaraðili tæki sömu fjárhæð út af verðbréfaeign sinni í íslenskum krónum.
Sóknaraðila virðist bankinn hafa stofnað yfirdráttarreikninga í erlendum gjaldeyri í hans nafni og síðan gert gjaldeyrisskiptasamninga fjármagnaða af sama yfirdrætti til að greiða sóknaraðila út í íslenskum krónum þennan sama dag, 24. ágúst 2007, alls 370.000.000 kr. Á þessum tíma virðist sóknaraðili hafa átt í verðbréfum í bankanum um 599.683.694 kr. Fyrir liggi að málum hafi verið komið fyrir á þennan hátt skv. ráðgjöf einkabankaþjónustu bankans. Sóknaraðili telur að með síðari rannsóknum hafi verið leitt í ljós að úttekt úr sjóðum Glitnis banka sem næmi 370.000.000 kr. hefði valdið bankanum vandræðum í rekstri sjóðs 9 þar sem mestur hluti þessara fjármuna var.
Sóknaraðili vísar til þess að bankinn hafi ekki veitt honum neina ráðgjöf um þá áhættu sem fælist í þessari ráðstöfun (veðsetningu eignasafns á móti erlendum lánum) sem hafi í raun verið formlaus afleiðusamningur þar sem veðjað hafi verið á ávöxtun eigna sóknaraðila og gengi krónunnar gagnvart fjórum gjaldmiðlum. Áhætta sóknaraðila hafi verið að minnsta kosti tvöföld á við það að sóknaraðili hefði einfaldlega tekið út úr eignasafni sínu þá fjármuni sem hann ætlaði að ráðstafa.
Varnaraðili lítur svo á að sóknaraðili hafi átt frumkvæðið að þessari lántöku. Hann hafi átt fund með starfsmanni bankans og þá ákveðið að taka lánið. Hann hafi eftir fundinn fengið staðfestingu á gjaldeyrisinnláni (e. confirmation forex deposit).
Þann 19. september 2007 undirritaði sóknaraðili nýjan samning um einkabankaþjónustu samhljóða hinum fyrri frá 19. febrúar 2007 og er þar kveðið á um óbreytta fjárfestingastefnu, skuldabréf og laust fé, 100%. Samningurinn fékk vörslureikningsnúmer 7799.
Þrátt fyrir að lánsféð, 370.000.000 kr., hefði verið afhent sóknaraðila 24. ágúst 2007 var það ekki fyrr en 1. október 2007 að sóknaraðili undirritaði lánssamning í „erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum“. Með honum veitti Glitnir banki sóknaraðila óverðtryggt lán í erlendum myntum til tveggja ára að jafnvirði 1.697.905,86 evra, 133.801.157 japanskra jena, 1.219.351,73 Bandaríkjadala og 1.388.506,83 svissneska franka. Sóknaraðili skuldbatt sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu 2. október 2009 og ber honum að endurgreiða það í þeim gjaldmiðlum sem veittir voru að láni, sbr. 2. gr. samningsins.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins setti sóknaraðili bankanum að handveði, með sérstakri handveðsyfirlýsingu, öll þau verðbréf sem voru í vörslum bankans á hverjum tíma á vörslureikningi nr. 7632, sbr. 6. gr. samningsins. Einnig var tekið fram að verðbréf á framangreindu vörslusafni skyldu á hverjum tíma vera bundin/skilyrt við eign í skuldabréfasjóðum bankans, sbr. Sjóð 7 og Sjóð 9, og innlendum skuldabréfum og víxlum íslensku bankanna, FL Group og Exista.
Þegar verðbréfasafnið rýrnaði og lánið hækkaði krafðist bankinn ítrekað frekari trygginga af sóknaraðila. Skilmálum lánssamningsins var breytt, 25. febrúar 2008, og því bætt við 6. gr., er tekur til trygginga, að sóknaraðili gæfi út tryggingabréf að fjárhæð 70.000.000 kr., þar sem veðsett væri fasteignin að Vatnsendabletti 241A. Veð samkvæmt bréfinu stóð því einnig til tryggingar öðrum skuldum sóknaraðila við bankann.
Almennir skilmálar markaðsviðskipta undirritaðir 23. október 2007
Sjö mánuðum eftir að fyrsti samningurinn var gerður ritaði sóknaraðili, eins og áður segir, undir nýjan samning um einkabankaþjónustu, 19. september 2007 og ákvað að hafa fjárfestingarstefnuna óbreytta, þ.e. 100% skuldabréf og laust fé, sbr. viðauka I. Hilmar Steinar Sigurðsson, starfsmaður bankans, tók á þessum tíma við af Herði Guðmundssyni sem þjónustufulltrúi sóknaraðila samkvæmt einkabankaþjónustusamningnum.
Sóknaraðili ritaði 23. október 2007 undir almenna skilmála markaðsskipta bankans (MAR). Sóknaraðili áréttar að þegar hér var komið sögu hafi algert tjón orðið á fjármálum hans undir stjórn einkabankaþjónustu Glitnis banka. Eignir sóknaraðila allar veðsettar bankanum og undirorpnar gríðarlegri gjaldeyrisáhættu. Auk þess hafi bankinn selt honum hlut í áhættufjárfestingu í Berlín og hafið afleiðuviðskipti fyrir hans hönd, án þess að honum hefði verið kynnt hversu áhættusamar þessar fjárfestingar væru.
Varnaraðili tekur fram að þjónustufulltrúi sóknaraðila í bankanum hafi rúmum tveimur mánuðum fyrr, sent lögmanni sóknaraðila tölvupóst og beðið hann eða sóknaraðila að rita undir almenna skilmála markaðsviðskipta en það hefði farist fyrir hjá starfsmanni bankans 19. febrúar 2007.
Varnaraðili tekur enn fremur fram að skilmálarnir lýsi því réttarsambandi sem var á milli sóknaraðila og bankans vegna markaðsviðskipta, hvernig samningar og boðskipti fóru fram, hvaða kröfur bankinn gerði um tryggingar fyrir viðskiptum og við hvaða aðstæður honum var heimilt að gjaldfella samninga o.fl. Skilmálunum hafi einnig verið ætlað að árétta að sóknaraðili gerði sér grein fyrir eðli þeirra samninga sem féllu undir skilmálana og þeirri áhættu sem þeim fylgdi. Þessir skilmálar hafi gilt um öll markaðsviðskipti sóknaraðila við bankann, svo sem um skammtímalán, gjaldeyrisviðskipti, afleiðuviðskipti og kaup og sölu verðbréfa.
Varnaraðili áréttar enn fremur að með undirritun sinni á skilmálanna hafi sóknaraðili lýst því yfir að honum væri ljóst að þau viðskipti sem hann kynni að eiga við markaðsviðskipti bankans gætu verið sérstaklega áhættusöm. Honum bæri að afla sér ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga teldi hann hennar þörf. Með undirritun sinni hafi sóknaraðili jafnframt staðfest að hann gerði sér grein fyrir því að í markaðsviðskiptum bankans fælist ekki viðskiptavakt og það væri á hans ábyrgð að fylgjast með stöðu og þróun þeirra samninga sem hann gerði við bankann. Með undirritun sinni undir viðauka 1 við skilmálana, hafi sóknaraðili enn fremur staðfest að hann heimilaði bankanum að skuldfæra vörslureikning nr. 4433 vegna viðskipta sinna við markaðsviðskipti bankans, s.s. með verðbréf, gjaldeyri og afleiður. Slík skuldfærsla myndi, eftir því sem við ætti, fara fram án undangenginnar tilkynningar til sóknaraðila.
Flokkun sóknaraðila sem fjárfestis og gildistaka laga nr. 108/2007
Þann 26. október 2007 sendi Glitnir banki sóknaraðila tilkynningu þess efnis að hann væri metinn almennur fjárfestir.
Varnaraðili tekur fram að í kjölfar innleiðingar á tilskipun um markaði með fjármálagerninga, svokallaðrar MiFID-tilskipunar (Markets in Financial Instruments Directive) með lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, hafi verið gerðar breytingar á skilmálum samninga milli fjármálafyrirtækja og viðskiptavina. Í þeim hafi verið gerðar auknar kröfur til fjármálafyrirtækja vegna viðskipta með verðbréf. Þann 26. október 2007 hafi allir viðskiptavinar bankans í verðbréfaviðskiptum verið flokkaðir samkvæmt nýju löggjöfinni, þ.e. í almenna fjárfesta, fagfjárfesta eða viðurkennda gagnaðila. Sérstakur upplýsingapakki hafi verið sendur þessum viðskiptavinum í lok október 2007, þar sem veittar hafi verið m.a. upplýsingar um þær breytingar sem urðu á löggjöfinni og þau áhrif sem þær hefðu fyrir viðskiptavini. Með þessum upplýsingapakka hafi fylgt eyðublöð sem viðskiptavinir voru beðnir um að fylla út og senda bankanum, rafrænt eða með bréfi. Viðskiptavinir bankans, sem voru í eignastýringarþjónustu fyrir gildistöku laganna 1. nóvember 2007, hafi því þurft að undirrita sérstakt eyðublað, þar sem þeir staðfestu að hafa fengið og samþykkt verklagsreglur Glitnis banka um framkvæmd viðskiptafyrirmæla auk fleiri atriða.
Sóknaraðili ritaði undir þetta samþykkiseyðublað 21. maí 2008 og staðfesti að hann hefði fengið og samþykkt verklagsreglur bankans um framkvæmd viðskiptafyrirmæla.
Varnaraðili bendir á að viðskiptavinir hafi einnig þurft að fylla út spurningalista sem hafi átt að veita fjármálafyrirtækjum í verðbréfaþjónustu upplýsingar til að meta hentuga fjárfestingarþjónustu og fjármálagerninga.
Sóknaraðili tekur fram að þjónustufulltrúi hans hjá bankanum hafi verið búinn að fylla út þennan spurningalista og hafi sjálfur ritað undir hann. Sóknaraðili hafi síðar, 21. maí 2008, ritað nafn sitt undir undirritun starfsmanns bankans.
Varnaraðili tekur fram að í svörum sóknaraðila á spurningalistanum komi meðal annars fram að hann telji sig hafa miðlungsþekkingu og reynslu af fjármálagerningum og að mesta reynsla hans sé af einkabankaþjónustu. Undir reynslu af tegundum fjármálagerninga og viðskiptum með þá, hafi sóknaraðili hakað við að hann ætti 1-10 viðskipti með afleiðugerninga, 10-40 viðskipti með hlutabréf, gjaldeyrisviðskipti og verðbréfa- og fjárfestingarsjóði og 40 eða fleiri viðskipti með peningamarkaðsskjöl og skuldabréf. Sóknaraðili hafi jafnframt tilgreint að fjárfestingarmarkmið hans væru vöxtur, þ.e. að auka verðmæti til langs tíma, 3-5 ár og að sveiflur í safni mættu vera miklar. Loks hafi sóknaraðili hakað við að hann væri reiðubúinn að samþykkja hámark 20% tap á slöku ári. Sóknaraðili hafi skorað 5,51 stig út frá svörum sínum þar sem 8 sé hæsta skor varðandi þekkingu og reynslu viðskiptavinar af verðbréfaviðskiptum.
Gjaldeyrisstýring
Sóknaraðili telur fram lögð gögn sýna að farið hafi verið í viðskipti með gjaldeyri í hans nafni að frumkvæði Glitnis banka til að vinna upp tap af afleiðuviðskiptunum. Þessi viðskipti með gjaldeyri hafi hafist strax 11. júlí 2008. Þann dag hafi verið gerður samningur, sem sóknaraðili hafi hvergi komið nærri, þar sem hagnaður hans af viðskiptunum sé 23.198.316 kr. eða sama tala og tap hans af afleiðuviðskiptum með skuldabréf Straums Burðaráss hf. Fleiri samningar hafi verið gerðir í nafni sóknaraðila í júlí, en það hafi ekki verið fyrr en 7. ágúst 2008 að Glitnir banki hafi leitað eftir því við hann að hann gerði skriflegan samning um kaup á gjaldeyrisafleiðum. Sóknaraðila hafi ekki verið veitt nein ráðgjöf um áhættu þessara viðskipta og þau raunar hafin að honum fornspurðum.
Varnaraðili lýsir þessu þannig að sem hluta af uppgjöri þess taps sem varð af viðskiptum sóknaraðila með samninga um framvirk verðbréfaviðskipti hafi hann og Glitnir banki gert með sér samning um gjaldeyrisstýringu, 7. ágúst 2008. Á grundvelli hans hafi tiltekin deild innan markaðsviðskipta bankans staðið fyrir ýmsum gjaldeyrisviðskiptum fyrir hönd sóknaraðila í samræmi við heimildir samkvæmt samningnum. Framlag sóknaraðila til þeirra fjárfestinga, 22.000.000 kr., sbr. 1. gr. samningsins, hafi nýst til lækkunar á tapi hans við uppgjör framangreindra samninga um framvirk skuldabréfaviðskipti. Útfærslan hafi verið þannig að á grundvelli samningsins um gjaldeyrisstýringu hafi verið farið í gjaldeyrisviðskipti þar sem sóknaraðili hafi byrjað í tapi að fjárhæð 23.948.315 kr. Þar sem viðskiptin hafi hafist í tapi hafi verið innleystur sá hagnaður sem varð til á móti tapi sóknaraðila. Tap hans samkvæmt samningnum um gjaldeyrisstýringu hafi verið takmarkað við framlag hans til fjárfestingarinnar, sbr. 8. gr. samningsins, 22.000.000 kr. Því hafi 22.000.000 kr. af þeim innleysta hagnaði verið notaðar til að gera upp hluta af samningi sóknaraðila um framvirk skuldabréfaviðskipti með númerið FS 07121250.
Þessum viðskiptum lauk í október 2008 og þá nam tap sóknaraðila af þeim 103.600.000 kr.
Varnaraðili áréttar að samkvæmt 8. gr. samningsins um gjaldeyrisstýringu takmarkaðist tap sóknaraðila við framlag hans til fjárfestingar, sem sé skilgreint sem 22.000.000 kr. Fyrir liggi tölvupóstsamskipti milli starfsmanna Glitnis banka, þar sem staðfest sé að sóknaraðili hafi samþykkt að fara þessa leið og það enn frekar staðfest með undirritun hans á umræddan samning. Til tryggingar þessum viðskiptum hafi sóknaraðili sett bankanum að veði innstæður vörslureiknings nr. 7799, sbr. handveðsyfirlýsingu, dags. 19. september 2007.
Varnaraðila þykir rétt að rekja nánar ákvæði samnings aðila um gjaldeyrisstýringu en samkvæmt honum hafi þeir fjármunir sem sóknaraðili lagði fram, 22.000.000 kr., verið handveðsettir til tryggingar viðskiptunum, sbr. 1. gr. samningsins. Bankinn hafi nýtt fjárfestingarframlag sóknaraðila til stöðutöku og afleiðuviðskipta með gjaldeyri á alla helstu gjaldeyriskrossa og gengisvísitölur, jafnt innlenda sem erlenda, eins og rakið sé í 2. gr. samningsins.
Í 10. gr. samningsins hafi ítarlega verið farið yfir þá áhættu sem fylgdi fjárfestingum í gjaldeyri og hafi sóknaraðili staðfest með undirritun sinni, að hann gerði sér grein fyrir því að þessar fjárfestingar væru sérstaklega áhættusamar og að hann hefði kynnt sér sérstaklega áhættu samfara viðskiptum með afleiður. Hann hafi þannig gert sér grein fyrir því að höfuðstóll hans gæti tapast í heild sinni í slíkum viðskiptum og að ekki væri hægt að tryggja að fjárfestingarstefna, áhættustýring eða vogun, sem stefnt væri að, myndi nást. Um þennan samning hafi auk ákvæða hans, gilt almennir skilmálar vegna markaðsviðskipta Glitnis banka, almennir skilmálar um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og almennir skilmálar fyrir skiptasamninga.
Samningur um fjárfestingarráðgjöf
Þann 4. september 2008 ritaði sóknaraðili undir samning við Glitni banka um fjárfestingaráðgjöf. Í samningum er vísað til upplýsinga á interneti, þrátt fyrir að sóknaraðili hafi gert bankanum grein fyrir því, á þar til gerðu eyðublaði, að hann ætti ekki og notaði ekki tölvu.
Sóknaraðili kveðst hafa beðið um upptökur af samtölum við bankann og séu afar fáar upptökur til. Þær sem fundist hafi séu lagðar fram. Í þessum samskiptum heyrist ekki að sóknaraðila sé veitt ráðgjöf, en í samtali 7. maí 2008 komi skýrt fram að bankinn hafi ráðlagt sóknaraðila að taka lán og veðsetja eignasafn sitt, en ekki útskýrt „tröppuganginn í þessu“.
Glitnir banki kallaði eftir frekari veðum frá sóknaraðila 6. október 2008. Síðar í sama mánuði var tilkynnt um útborgun eigna úr sjóði 9 sem var handveðsettur Glitni banka. Í tölvupósti starfsmanns bankans, 24. nóvember 2008, kemur fram að bankinn haldi liðlega 17,4 milljónum úr sjóði 9 vegna tapstöðu úr gjaldeyrisstýringu. Í tengslum við beiðni um gögn og upplýsingar frá varnaraðila kveðst sóknaraðili hafa komið á framfæri við hann mótmælum við því að hann héldi peningum í eigu sóknaraðila vegna afleiðuviðskiptanna.
Í kjölfar alls þessa hafi sóknaraðili ítrekað reynt að fá upplýsingar um tap sitt af viðskiptum við einkabankaþjónustu Glitnis en ekki fengið skýra mynd af því. Íslandsbanki hafi tekið yfir kröfu skv. lánasamningi sem sóknaraðili undirritaði 1. október 2007 en hafi ekki gengið hart fram í innheimta hana á meðan þetta mál sé óútkljáð. Sóknaraðili hafi fengið að breyta skilmálum lánsins gegn því að leggja fram auknar tryggingar og greiða inn á lánið. Sóknaraðili hafi ritað undir skilmálabreytingar með fyrirvara.
Sóknaraðili hafi látið endurútreikna lánið frá 1. október 2007 miðað við útborgunardag 24. ágúst 2007 og á þeirri forsendu að það sé ólögmætt gengistryggt lán. Samkvæmt þeim útreikningi hafi sóknaraðili ofgreitt varnaraðila 140.540.776 kr. miðað við útreikningsdag, 14. desember 2011, og 122.988.673 kr. miðað við kröfulýsingardag, 25 nóvember 2009.
Að mati sóknaraðila sýna fram lögð gögn að gengishagnaður hans af evrueign (stöðutöku með evru) hefði átt að vera umtalsverður. Þrátt fyrir það ljúki gjaldeyrisstýringarviðskiptum með tapi sóknaraðila. Frekari skjöl skýri að tap sóknaraðila stafi aðallega af tveimur stundarsamningum þar sem sóknaraðili selji evrur á afar óhagstæðu gengi. Fyrst 3. október 2008 þar sem sóknaraðili selji 4.000.000 evrur á gengi sem sé 23% lægra en gengi Seðlabankans og tapi 114.520.000 kr. miðað við það. Síðan 6. október 2008 þar sem sóknaraðili selji 1.500.000 evrur á gengi sem sé 24% lægra en gengi Seðlabankans og tapi sóknaraðili 45.600.000 kr. miðað við það. Síðan séu nokkur tilvik þar sem mismunur á gengi sem bankinn bjóði sóknaraðila og samþykki fyrir hans hönd frá 3% og upp í 18% frá gengi Seðlabanka sem sé hærra en eðlileg álagning í slíkum viðskiptum.
Sóknaraðili telji starfsmenn Glitnis banka hafa á margvíslegan hátt brotið gegn lagaskyldum sínum sem starfsmönnum fjármálafyrirtækis á markaði. Sóknaraðili telji starfsmenn bankans einnig hafa brotið gegn góðum viðskiptaháttum og venjum svo og gegn samningi um einkabankaþjónustu við sóknaraðila.
Slitameðferð varnaraðila
Hinn 7. október 2008, beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að taka yfir starfsemi Glitnis banka hf. og skipaði bankanum skilanefnd sem tók við stjórn hans.
Hinn 15. október 2008 var Nýi Glitnir banki hf. (nú Íslandsbanki hf.) stofnaður um innlenda bankastarfsemi Glitnis banka í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að færa hluta af starfsemi hans til nýs banka sem stofnaður hafði verið.
Varnaraðila var 12. maí 2009 skipuð slitastjórn samkvæmt ákvæðum 4. töluliðar ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002. Samkvæmt lögum nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009 um breytingu á þeim lögum, gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna varnaraðila 25. maí 2009 sem birtist fyrst í Lögbirtingarblaðinu 26. maí 2009. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn sex mánuðir og lauk honum því 26. nóvember 2009.
Á kröfulýsingartímabilinu lýsti sóknaraðili almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 104.282.911 kr., sem byggir á meintu tjóni sem sóknaraðili telur að starfsmenn Glitnis banka hafi valdið honum með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni í tengslum við fasteignaverkefnið Project Blucherstrasse. Sú krafa fékk númerið CL20091126-4542 í kröfuskrá slitastjórnar. Þá lýsti sóknaraðili sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 19.356.525 kr. og almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laganna að fjárhæð 827.773.333 kr., sem sóknaraðili byggir á meintu tjóni af framvirkum viðskiptum og sem leitt hafi af ráðgjöf og viðskiptaháttum bankans. Sú krafa fékk númerið CL20091126-4564 í kröfuskrá slitastjórnar.
Varnaraðili krafðist þess með bréfi 20. nóvember 2009, að sóknaraðili greiddi honum 22.000.000 kr. vegna samnings um gjaldeyrisstýringu og 1.498.315 kr. vegna eftirstöðva uppgjörs gjaldmiðlaskiptasamninganna. Varnaraðili áskildi sér rétt til þess að ganga að tryggingum settum fyrir kröfunni að liðnum 14 dögum frá dagsetningu bréfsins. Þá áskildi hann sér rétt til að reikna dráttarvexti á samtölu kröfunnar, þ.e. 23.498.315 kr., frá því hún féll í gjalddaga á árinu 2008, yrði krafan ekki gerð upp. Með bréfi 24. mars 2010 ítrekaði varnaraðili þessa kröfu sína en þá þegar hafði sóknaraðili lýst kröfu við slit varnaraðila.
Með bréfi 1. nóvember 2010 hafnaði slitastjórn Glitnis þeim kröfum sem sóknaraðili lýsti þar sem þær væru vanreifaðar og ættu ekki rétt á sér. Með bréfum, 1. desember 2010, mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu slitastjórnar varnaraðila að hafna kröfunum. Á kröfuhafafundi sem slitastjórn hélt 2. desember 2010, var fjallað um ágreining vegna afstöðu til krafnanna. Í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 var boðað til fundar 20. desember 2011, þar sem fjallað var sérstaklega um kröfurnar.
Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila, með bréfi 2. janúar 2012, að hann myndi ganga að innstæðu vörslureiknings nr. 7799, sem sóknaraðili hafði sett bankanum að handveði með yfirlýsingu, 19. september 2007. Í samræmi við það leysti varnaraðili til sín tryggingar að fjárhæð 21.257.859 kr. og ráðstafaði þeim til lækkunar á skuld hans eins og hann taldi sér heimilt samkvæmt handveðsyfirlýsingunni.
Lögmaður sóknaraðila mótmælti þessari aðgerð skriflega 10. janúar 2012 og krafðist þess að bankinn héldi fjármununum áfram sérgreindum á reikningi sóknaraðila.
Einum og hálfum mánuði síðar, 24. febrúar 2012, sendi varnaraðili héraðsdómi ágreininginn til úrlausnar með vísan til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.
Við meðferð málsins fyrir dómi óskaði sóknaraðili dómkvaðningar matsmanna. Matsmennirnir, Grétar Elías Finnsson og Ólafur Ásgeirsson, afhentu matsgerð sína í febrúar 2013.
Sundurliðun dómkrafna sóknaraðila
Fjárhæð dómkrafna sóknaraðila breyttist nokkuð að fenginni matsgerð. Endanlegar kröfur lagði sóknaraðili fram við aðalmeðferð.
Kröfuliður I
Að sögn sóknaraðila er fjárkrafa í fyrsta kröfulið fjárhæð sem hafi legið á vörslureikningi nr. 7799 og sóknaraðili hafði sett Glitni banka að handveði, 19. september 2007. Varnaraðili hafi innleyst innstæðuna, 21.257.769 kr., 2. janúar 2012. Þar sem ekki sé lengur sérgreind eign til staðar krefjist sóknaraðili þess að fjárhæðin fái stöðu í kröfuröð sem búskrafa skv. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliður II
Fjárhæð í öðrum kröfulið sóknaraðila sundurliðast svo:
|
1) Framvirk afleiða (Straumsstrúktúr) og gjaldeyrisstýring |
95.861.631 kr. |
|
2) Fasteignaverkefni í Berlín |
42.575.896 kr. |
|
3) Lántaka og veðsetning |
297.508.158 kr. |
|
Samtals |
435.945.685kr. |
1)Afleiðuviðskipti tengd Straumi og gjaldeyrisstýring í framhaldi af þeim viðskiptum:
|
1.a) Krafa vegna afleiðuviðskipta, vegna taps af þeim |
23.498.315 kr. |
|
1.b) Krafa vegna gjaldeyrisstýringar |
72.363.316 kr. |
|
Samtals |
95.861.631 kr. |
2) Krafa vegna fasteignaverkefnis í Berlín (Berlice):
|
2.a) Tjón vegna höfuðstóls skuldabr. 226.400 evrur x 169,23 kr. |
38.313.672 kr. |
|
2.b) Tjón vegna framlags á árinu 2009 |
4.368.216 kr. |
|
Samtals tjón |
42.681.888 kr. |
|
2.c) Hagnaður vegna sölu hlutafjár í Berlice ehf. dregst frá |
(105.992 kr.) |
|
Samtals |
42.575.896 kr. |
3) Krafa vegna láns og veðsetningar lánasafns:
|
3.a) Staðreyndur kostnaður sóknaraðila 3. október 2008 |
360.968.809 kr. |
|
3.b) Hagnaður vegna ávöxtunar á eigið fé dregst frá |
(63.460.651 kr.) |
|
Samtals |
297.508.158 kr. |
Kröfuliður III
Sóknaraðili byggir þriðja lið kröfu sinnar um skuldajöfnuð á almennum reglum kröfuréttar, ákvæði 100. gr. laga nr. 21/1991 og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Í varakröfu sé lýst yfir skuldajöfnuði við eina tiltekna kröfu sem Glitnir banki hafi átt en Íslandsbanki hf. eigi nú samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun FME.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Varnaraðili, Glitnir hf., tók við réttindum og skyldum vegna flestra þeirra gerninga sem hér reynir á af Glitni banka hf. Sóknaraðili byggir kröfur sínar á hendur varnaraðila á því að hann hafi leitað eftir fjármálaráðgjöf í Glitni banka í því skyni að fá örugga vörslu fjár síns og hóflega ávöxtun. Starfsmönnum bankans hafi verið gerð grein fyrir því að sóknaraðili hefði hvorki reynslu né þekkingu á verðbréfaviðskiptum og þeim hafi verið það ljóst. Sóknaraðili hafi hafnað öllum tillögum bankans og lagt upp með íhaldssama fjárfestingastefnu. Vegna þessarar afstöðu sóknaraðila, sem lögmaður hans hafi kynnt bankanum, hafi ekki verið ritað undir markaðsskilmála í upphafi viðskipta, enda ekki ætlunin að standa í markaðsviðskiptum þar sem slíkra skilmála væri þörf.
Sóknaraðili byggi á því að Glitnir banki hafi, að eigin frumkvæði, leitað eftir viðskiptum við hann með fjármálagerninga sem voru áhættusamir og féllu utan þeirrar fjárfestingarstefnu sem sóknaraðili valdi. Bankinn hafi ekki á neinn hátt bent sóknaraðila á þá áhættu sem fælist í umræddum gerningum heldur þvert á móti gefið rangar og óábyrgar upplýsingar um þá.
Sóknaraðili vísi fyrst til Berlínarverkefnis. Í fyrstu kynningu bankans á verkefninu sé verkefnið sagt skila 100% ávöxtun á eigið fé og eftirspurnin sé slík að ekki fái allir sem vilji. Í tölvuskeyti sem þjónustufulltrúi sóknaraðila hafi sent lögmanni hans 7. maí 2008 komi fram að verkefnið líti vel út að mati bankans og að bankinn muni gæta hagsmuna sóknaraðila vegna málsins. Starfsmenn bankans hafi við sölu á Berlínarverkefninu til sóknaraðila brotið gegn skilmálum samningsins um einkabankaþjónustu og 5. gr. laga nr. 33/2003 með því að bjóða sóknaraðila fjárfestingakost sem hafi ekki verið við hans hæfi, sé litið til reynslu hans og þekkingar á verðbréfamarkaði. Honum hafi ekki verið veittar greinargóðar upplýsingar um þennan fjárfestingakost, upplýsingarnar hafi ekki verið skýrar, heldur villandi og alls ekki fullnægjandi þannig að hann gæti tekið upplýsta fjárfestingaákvörðun. Sóknaraðila hafi ekki verið gerð grein fyrir þeirri áhættu sem í fjárfestingunni fælist. Þvert á móti hafi því verið haldið fram að fjárfestingin væri trygg. Bankinn hafi hreint ekki staðið við það loforð sitt að gæta hagsmuna sóknaraðila.
Sóknaraðili byggi á því að Glitnir banki hafi brotið gegn 4. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti þar sem það hafi ekki verið í samræmi við heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum að bjóða sóknaraðila kaup í Berlínarverkefni sé litið til þekkingar og reynslu hans af verðbréfaviðskiptum. Á íslenskum verðbréfamarkaði séu ekki neinar rótgrónar venjur enda slíkt nýlunda á Íslandi. Þegar venjur skorti verði að túlka háttsemi á markaði út frá trúverðugleika fjármálamarkaðarins og með hagsmuni viðskiptavinarins að leiðarljósi. Með lögum nr. 33/2003 hafi verið innleiddar evrópskar reglur og því sé rétt að líta til þeirra venja sem myndast hafi á þeim markaði, en jafnvel þar sé lítið um rótgrónar venjur sökum sífelldra breytinga á lagaumgjörð fjármálamarkaðarins. Einnig þar sé stuðst við túlkun sem styrki trúverðugleika markaðarins og verndi hagsmuni viðskiptavinarins (neytandans). Sú ákvörðun bankans að selja sóknaraðila fjárfestingu í óskráðu einkahlutafélagi, þar sem allt reyndist á hverfanda hveli sé ekki fallin til þess að styrkja tiltrú á fjármálamarkaði og ekki til verndar hagsmunum sóknaraðila.
Þá byggi sóknaraðili á því að Glitnir banki hafi við markaðssetningu gagnvart sóknaraðila beitt hann óhæfilegum þrýstingi með því að bjóða honum í laxveiðiferð til Rússlands. Með slíkri boðsferð hafi verið komið inn hjá honum þeirri hugmynd að hann stæði í einhvers konar þakkarskuld við bankann og sé algerlega ólögmæt háttsemi gagnvart almennum fjárfesti, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 33/2003.
Í öðru lagi vísar sóknaraðili til sölu bankans á afleiðu tengdri Straumi Burðarási. Hann byggi á því að með því að selja sóknaraðila þann gerning hafi bankinn brotið bæði gegn 5. og 4. gr. laga nr. 33/2003. Þetta hafi verið flókinn fjármálagerningur og ekki við hæfi sóknaraðila miðað við reynslu hans og þekkingu á verðbréfamarkaði. Framlenging bankans á þessum samningi eftir gildistöku laga nr. 108/2007 brjóti gegn 14. og 5. gr. þeirra. Starfsmenn Glitnis hafi veitt villandi upplýsingar um eðli gerninganna þar sem hætta á tapi sé sögð mjög takmörkuð. Þótt ekki hafi orðið af viðskiptum á grundvelli upplýsinga sem veittar voru á einblöðungi sem var sendur lögmanni sóknaraðila heldur eftir bein samskipti bankans við sóknaraðila sé ekki ástæða til að ætla annað en að þjónustufulltrúi sóknaraðila í bankanum hafi veitt sóknaraðila sömu röngu upplýsingarnar.
Sóknaraðili byggi einnig á því, sérstaklega varðandi Berlínarverkefnið svo og afleiðuviðskipti tengd Straumi Burðarási, en hvort tveggja hafi Glitnir banki selt sóknaraðila fyrri hluta árs 2007, að þau viðskipti hafi verið andstæð fjárfestingastefnu sóknaraðila og hafi bankanum borið að endursemja um hana og gera sóknaraðila samhliða grein fyrir aukinni áhættu. Þetta sé gróft brot bankans á skyldum sínum sem fjármálafyrirtækis. Sóknaraðili byggi enn fremur á því að starfsmenn bankans hafi ekki virt 4. gr. samningsins um einkabankaþjónustu þar sem fjallað sé um viðskipti með óskráð verðbréf. Samkvæmt eigin samningsskilmálum hafi bankanum verið óheimilt að selja sóknaraðila óskráð verðbréf nema hann sækti sérstaklega um það skriflega að komast í slík viðskipti.
Starfsmaður bankans hafi ráðlagt sóknaraðila að taka lán bundið gengisáhættu og veðsetja eignasafn sitt í stað þess að taka út eigið fé eins og hann hafi hugsað sér. Sú ráðgjöf bankans hafi farið í bága við 4. og 5. gr. laga nr. 33/2003. Bankinn hafi ekki gert sóknaraðila grein fyrir þeirri áhættu sem falist hafi í þessari ráðagerð heldur skuldbundið sóknaraðila í raun með orðunum „göngum frá formsatriðum síðar“. Bankanum hafi borið að veita sóknaraðila ráðgjöf um þá áhættu sem í þessu fælist enda hafi bankinn lagt þetta til en ekki sóknaraðili sem ætlaði einfaldlega að taka þá fjármuni út sem hann vantaði. Starfsmönnum bankans hafi borið að vekja athygli sóknaraðila á þeirri margföldu og flóknu áhættu sem í þessari ráðagerð fólst og komi vanræksla hvað þetta varðar skýrt fram í samtali sóknaraðila við starfsmann bankans og vakin athygli á því að starfsmaður bankans þræti ekki fyrir það.
Sóknaraðili byggi á því að bankinn hafi farið langt út fyrir mörk samnings um einkabankaþjónustu með þessari ráðagerð og brotið gegn fyrirmælum hans. Áhættan sem í þessu fólst hafi farið langt út fyrir þá fjárfestingastefnu sem samið hafði verið um. Jafnframt hafi þarna verið byrjað á að gera afleiðusamninga með gjaldeyri sem bankinn hafði enga samningsbundna heimild til að gera fyrir hönd sóknaraðila.
Sóknaraðili byggi sérstaklega á því að einu beinu fyrirmælin sem hann hafi gefið Glitni banka hafi falist í ákvörðun fjárfestingastefnu í upphafi viðskipta aðila. Bankanum hafi því ávallt borið gæta fyrirmæla 9. gr. laga nr. 33/2003 og 18. gr. laga nr. 108/2007. Að mati sóknaraðila hafi starfsmenn bankann, þegar þeir fylgdu eftir skyldum sínum samkvæmt samningi sóknaraðila um einkabankaþjónustu, viðstöðulaust brotið gegn ákvæðum laga nr. 33/2003 og 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Verði ekki fallist á að lán tengd gengi erlendra mynta og veðsetning lánasafns til tryggingar láninu hafi verið réttarbrot gegn sóknaraðila byggi hann á því að lánssamningurinn hafi verið tengdur gengi erlendra mynta á ólögmætan hátt. Líta verði til þess hvernig til lánsins var stofnað í upphafi (algerlega óformbundið) svo og þess að lánsfjárhæðin var greidd út í íslenskum krónum og ekki samið um form lánsins fyrr en eftir á og sóknaraðili þá þegar bundinn bankanum af láninu.
Sú háttsemi bankans að hefja afleiðuviðskipti með gjaldeyri 11. júlí 2008 án þess að hafa aflað samþykkis sóknaraðila eða gera honum grein fyrir áhættu af þeim viðskiptum hafi farið í bága við ákvæði 14. gr. og 5. gr. laga nr. 108/2007. Starfsmenn bankans hafi gert nokkra slíka samninga án samþykkis eða vitundar sóknaraðila frá 11. júlí 2008 og fram að 7. ágúst 2008. Þann dag sé ritað undir samning um gjaldeyrisstýringu og sé ekkert til um að starfsmenn bankans hafi upplýst sóknaraðila um a) að hann hafi þegar hafið slík viðskipti og b) gert honum grein fyrir þeirri gríðarlegu áhættu sem í þessum viðskiptum fælist. Sóknaraðili hafi hvorki haft kunnáttu, þekkingu né reynslu á verðbréfamarkaði til að stunda svo áhættusöm viðskipti. Afleiðusamningar af þessu tagi hafi ekki verið fjárfestingakostur við hæfi sóknaraðila og bankanum því óheimilt að selja honum slíka fjármálagerninga.
Sóknaraðili byggi á því að bankanum hafi verið kunnugt um að hann notaði ekki tölvu og hefði ekki aðgang að interneti. Fyrir þessu hafi verið gerð grein á fyrsta fundi aðila 19. febrúar 2007. Sóknaraðili hafi einnig fyllt út eyðublað þar sem þetta komi skýrt fram og skráð í kerfum bankans. Í ljósi þessa sé það stórfellt brot starfsmanna bankans að eiga stundarviðskipti með gengisafleiður á áhættu sóknaraðila. Útilokað hafi verið fyrir sóknaraðila að fylgjast með slíkum viðskiptum því hann kunni ekki á tölvu. Raunin sé sú að sóknaraðili hafi ekki haft hugmynd um hvað bankinn hafðist að í hans nafni í þessum efnum.
Sóknaraðili telji Glitni banka enn fremur hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 8. gr. laga nr. 108/2007 þar sem við skoðun á þeim gerningum sem bankinn gerði blasi við hagsmunaárekstrar. Bankanum hafi borið að grípa til sérstakra ráðstafana til að greina þá og grípa til úrræða. Ekki verði séð að það hafi verið gert og hafi starfsmönnum bankans borið að greina sóknaraðila frá hættu á hagsmunaárekstri og freistnivanda í tengslum við stundargengisviðskipti. Staðreyndin sé sú að starfsmaður bankans hafi getað handstýrt viðskiptagengi í uppgjöri og séu frávik í slíkum viðskiptum sem nemi 23 og 24 % frá opinberu gengi sama dags óútskýranleg með markaðslegum sjónarmiðum. Eins verði ekki séð að það hafi verið sóknaraðila til sérstakra hagsbóta að ganga til slíkra samninga, heldur einungis bankanum eða hverjum þeim sem hann hafi valið sem mótaðila sóknaraðila í þessum viðskiptum.
Það renni stoðum undir þessa málsástæðu að í upphafi þessara viðskipta hafi verið gerður afleiðusamningur sem leiddi til nákvæmlega sama hagnaðar 11. júlí 2008, og nam tapi af uppgjöri afleiðusamnings tengdum Straumi þann sama dag eða 23.498.315 kr.
Sóknaraðili byggi á því að yfirlit bankans yfir þessi afleiðuviðskipti séu ógagnsæ og ófullkomin og gefi á engan hátt mynd af því sem starfsmenn hans gerðu og fari gegn fyrirmælum 2. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007. Afleiðuviðskipti eins og þau birtist í fram lögðu yfirliti yfir gjaldeyrisstýringuna hafi öll einkenni píramída-viðskipta fremur en fjármála- eða markaðsvísinda. Bankinn hafi án heimilda leikið sér með fjármuni sóknaraðila sem sé augljóst réttarbrot.
Sóknaraðili byggi einnig á því að með láni sem bankinn veitti sóknaraðila hafi starfsmenn bankans brotið gegn reglum um neytendalán nr. 121/1994, bæði 3. gr. og fyrirmælum II. kafla laganna.
Sóknaraðili byggi á því að öll réttarbrot bankans gagnvart honum og vanræksla og brot á réttum efndum einkabankasamnings veiti sóknaraðila rétt til að krefja varnaraðila skaðabóta vegna alls þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir og sundurliðað hafi verið. Háttsemi starfsmanna bankans sé saknæm. Hún hafi valdið sóknaraðila tjóni og jafnframt sé allt tjón sóknaraðila sennileg afleiðing af háttsemi starfsmanna bankans.
Við mat á því hvað teljist heilbrigðir viðskiptahættir og venja í 4. gr. laga nr. 33/2003 megi byggja á leiðbeiningum CESR (The committee of European Securities Regulators) frá apríl 2002 og tveimur viðaukum sem fylgi þeim. Þá megi einnig líta til danskra reglna frá árinu 2007 um góða hegðan fjármálafyrirtækja. Þegar metið sé hvað teljist heilbrigðir viðskiptahættir og venja í 5 gr. laga nr. 108/2007 beri að líta til svonefndra MiFID-reglna og skýringa á þeim. Sóknaraðili leggi fram sjónarmið viðruð af írska fjármálaeftirlitinu um góða viðskiptahætti skv. MiFID-reglum.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til laga nr. 33/2007 um verðbréfaviðskipti (brottfallin), aðallega 4. gr., 5. gr. og 9. gr., til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, aðallega 5., 8., 14. og 19 gr. Hann vísar til reglna kröfuréttar um skaðabætur innan samninga og reglna um sérfræðiábyrgð. Sóknaraðili vísar til venja í verðbréfaviðskiptum á evrópska efnahagssvæðinu og sjónarmiða þar að lútandi í CESR-reglum frá apríl 2002 og MiFID-reglum sem hafi átt að innleiða með lögum nr. 33/2007. Sóknaraðili vísar til laga nr. 121/1994 um neytendalán. Þá vísar sóknaraðili til almennra reglna kröfuréttar um skuldajöfnuð og til ákvæða XVII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann vísar til 130 gr. laga nr. 91/1991 um málskostnað.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Um 1. kröfu sóknaraðila búskrafa samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991
Varnaraðili tekur fyrst afstöðu til þeirrar kröfu sóknaraðila að viðurkennd verði sem búskrafa samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991 fjárhæð sem nemi 21.257.859 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. janúar 2012 til greiðsludags.
Sóknaraðili virðist byggja á því að með þeirri aðgerð varnaraðila að leysa til sín innstæður í eigu sóknaraðila að framangreindri fjárhæð upp í kröfur á hendur honum, hafi varnaraðili valdið sóknaraðila tjóni eftir upphaf slitameðferðar og því sé fjárkrafa hans búskrafa. Að öðru leyti sé þessi krafa ekkert reifuð frekar, þar með talið á hvaða á bótagrundvelli sóknaraðili byggi kröfu sína.
Sóknaraðili hafi í kröfulýsingu lýst sértökukröfu, samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, þar sem þess hafi verið krafist að allar innstæður sóknaraðila í fórum varnaraðila og/ eða Íslandsbanka hf., sem haldið hafi verið á grundvelli tryggingaráðstafana varnaraðila, yrðu leystar undan öllum kvöðum. Taldir hafi verið upp þeir reikningar sem krafan tók til sem og hlutdeild sóknaraðila í peningamarkaðssjóðunum 9.1. og 9.3., allt samkvæmt yfirliti, dags. 25. nóvember 2008. Þessi krafa sóknaraðila sem hafi verið lýst með kröfulýsingu ári síðar, 25. nóvember 2009, sé ekki sett fram í kröfugerð sóknaraðila í þessu ágreiningsmáli. Í greinargerð kröfuhafa í ágreiningsmálum, eigi að koma fram til fullnaðar þær kröfur sem þeir hyggist hafa uppi og á hverju þær séu byggðar, ásamt frekari gögnum sem þeir hyggist styðja málstað sinn við, sbr. 177. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem sóknaraðili setji þessa kröfu ekki fram í þessu ágreiningsmáli, verði að líta svo á að hann hafi með því fallið frá þeirri kröfu. Þó sé ljóst, að sú tryggingarráðstöfun sem fólst í veðsetningu vörslureiknings nr. 7799, sé ekki lengur til staðar, þar sem varnaraðili hafi nú gengið að þeirri ráðstöfun með heimild í handveðsyfirlýsingu.
Þess í stað krefjist sóknaraðili viðurkenningar búskröfu samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991, sem taki til þeirrar aðgerðar varnaraðila að leysa til sín fyrirliggjandi tryggingar með því að ganga að innstæðum á vörslureikningi sóknaraðila nr. 7799, með heimild í handveðsyfirlýsingu, dags. 19. september 2007. Varnaraðili bendi á að sá sem vilji halda uppi kröfu á hendur þrotabúi, skuli, samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, lýsa henni fyrir skiptastjóra. Þar sem fyrir liggi að henni hafi ekki verið lýst við slitameðferð varnaraðila, liggi sömuleiðis fyrir að slitastjórn hafi ekki tekið afstöðu til hennar. Þótt sýnt yrði fram á að henni hefði verið lýst á einhvern hátt, bendi varnaraðili á að í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 segi, að skiptastjóri skuli í kröfuskrá sinni láta í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Undantekning frá þessari skyldu skiptastjóra, í niðurlagsákvæði 1. mgr. 119. gr., eigi ekki við hér.
Í 1. mgr. 120. gr. laganna segi að sá, sem ekki vilji una afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sinnar á hendur þrotabúinu eða sá sem vilji mótmæla afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hafi gert, skuli lýsa mótmælum á skiptafundi. Í 2. mgr. 120. gr. sé gert ráð fyrir að skiptastjóri reyni að jafna ágreining sem sé kominn upp. Verði hann ekki leystur skuli skiptastjóri beina málinu til héraðsdóms eftir 171. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessum lagareglum sé það skilyrði fyrir því að héraðsdómur taki til úrlausnar ágreining um kröfur sem sé lýst í þrotabú, að skiptastjóri hafi tekið afstöðu til þeirra og leitast við að jafna ágreininginn. Varnaraðili telji að þessu skilyrði sé ekki fullnægt og því beri að vísa málinu frá héraðsdómi.
Verði ekki fallist á að vísa beri kröfunni frá dómi, krefjist varnaraðili þess að henni verði hafnað. Varnaraðili byggi þá kröfu sína á því að rökstuðningur sóknaraðila sé haldinn miklum annmörkum. Varnaraðili telji kröfugerð sóknaraðila ekki fullnægja skilyrði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um skýrleika, sérstaklega með hliðsjón af því að hvorki ætlað tjón sóknaraðila liggi fyrir né á hvaða bótagrundvelli krafa sóknaraðila byggi. Það sé og nauðsynlegt að fyrir liggi að milli þeirrar saknæmu háttsemi sem búskrafa sóknaraðila byggi á og þess tjóns sem hann telji sig hafa orðið fyrir, séu orsakatengsl. Einnig verði að liggja fyrir að meint tjón teljist sennileg afleiðing af umræddri athöfn. Að minnsta kosti sé ljóst að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi valdið honum tjóni. Sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum skaðabótaábyrgðar sé fullnægt hvíli óumdeilt á þeim sem krefjist bóta. Varnaraðili telji þessa kröfu sóknaraðila svo vanreifaða að ekki sé unnt að byggja efnislega niðurstöðu málsins á henni.
Það eina sem standi eftir sé að varnaraðili hafi nýtt sér heimild í handveðsyfirlýsingu, sem sóknaraðili undirritaði, 19. september 2007, og gengið að tryggingu sem sóknaraðili hafði sett, yrðu vanskil á þeirri skuld sem handveðinu var ætlað að tryggja. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að í þessari aðgerð hafi falist háttsemi sem felli bótaskyldu á varnaraðila.
Um 2. kröfu sóknaraðila almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991
a) Samningar um framvirk verðbréfaviðskipti og gjaldeyrisviðskipti
Sóknaraðili krefjist skaðabóta að fjárhæð 204.876.174 kr. vegna afleiðuviðskipta. Hann sundurliði þá kröfu þannig að samtals 44.756.174 kr. séu vegna samnings um framvirk verðbréfaviðskipti, sem stofnað var til í júní 2007 og lauk með tapi, þ.e. 23.498.315 kr., sem og vegna úttektar varnaraðila af bankareikningi sóknaraðila, að fjárhæð 21.257.859 kr. Síðargreinda fjárhæðin sé sú sama og fyrri dómkrafa sóknaraðila taki til, þ.e. búskrafan. Því beri þá þegar að hafna að sú fjárhæð komi til álita hér þegar skoðað sé hvort skaðabótaskylda hafi stofnast vegna þessara viðskipta. Að öðru leyti vísar varnaraðili til röksemda vegna búskröfu sóknaraðila.
Þá byggi sóknaraðili á því að tap af tveimur ótilgreindum samningum í byrjun október 2008, hafi leitt til taps að fjárhæð 160.120.000 kr., og að bankinn hafi flutt hagnað sóknaraðila yfir til sín. Að öðru leyti sé þessi kröfufjárhæð ekki rökstudd. Af málsatvikalýsingu í greinargerð sóknaraðila, virðist sem sóknaraðili byggi á tveimur gjaldeyrisviðskiptum, þ.e. annars vegar 3. október 2008, þar sem sóknaraðili seldi 4.000.00 evrur, sem leiddi til 114.520.000 kr. taps, og hins vegar 6. október 2008, þar sem sóknaraðili seldi 1.500.000 evrur, sem leiddu til 45.600.000 kr. taps eða samtals 160.120.000 krónur.
Varnaraðili bendi á að síðastgreinda kröfufjárhæðin, sé vegna tveggja tiltekinna viðskipta með gjaldeyri á grundvelli gjaldeyrisstýringarsamnings aðila, samnings sem lauk með 103.600.000 kr. tapi. Framlag sóknaraðila til fjárfestinga samkvæmt þeim samningi hafi numið 22.000.000 kr., sbr. 1. gr. samningsins. Samkvæmt 8. gr. hans takmarkaðist tap sóknaraðila við framlag hans til fjárfestingar, þ.e. 22.000.000 kr. Meint tjón sóknaraðila vegna viðskipta á grundvelli samningsins geti því aldrei talist meira en 22.000.000 kr. Án nánari tilgreiningar, virðist sóknaraðili hins vegar taka út tiltekin tvö viðskipti með gjaldeyri, á grundvelli samnings sem hann samþykkti, og telji að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem sé augljóslega ekki rétt. Sóknaraðili tefli ekki fram neinum röksemdum sem sanni að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum þessara viðskipta og hvert umfang þess tjóns sé eða gæti orðið. Því beri að hafna þessari kröfu hans.
Varnaraðili byggi á því að með undirritun sóknaraðila á samning um gjaldeyrisstýringu, hafi komist á bindandi samningur milli aðila. Viðskiptum á grundvelli samningsins hafi lokið með tapi fyrir sóknaraðila, tapi sem takmarkist við fjárframlag hans til viðskiptanna eins og fyrr sé rakið. Þetta tap hafi sóknaraðila borið að greiða varnaraðila í samræmi við ákvæði samningsins, sbr. 4. gr., þar sem segi orðrétt: Framlag viðskiptamanns, sem veðsett er Glitni banka hf., skal einvörðungu tryggja skuldir hans við bankann og skal einvörðungu nýtt af hálfu viðskiptamanns sem veðandlag fyrir stöðutökur, afleiðusamninga og aðrar skuldbindingar sem leiða af samningi þessum. Því verði að telja að hann hafi viðurkennt að um gilda löggerninga hafi verið að ræða enda hafi hvorki verið gerðar athugasemdir við tilurð samningsins, efni hans né þess taps sem af honum leiddi, fyrr en með kröfulýsingu sóknaraðila í nóvember 2009.
Í umþrættum samningi hafi samningsskyldur aðila verið tíundaðar ítarlega. Sóknaraðili hafi gert fjölmarga samskonar samninga við Glitni banka, sem sumir hverjir hafi skilað hagnaði eins og áður sé rakið. Með undirritun sinni á samninginn, hafi sóknaraðili lýst yfir því og staðfest, að hann gerði sér grein fyrir að fjárfestingar í gjaldeyri væru sérstaklega áhættusamar, að hann gerði sér grein fyrir að vegna eðlis og áhættu viðskipta með gjaldeyrissamninga, gæti bankinn hvorki ábyrgst höfuðstól fjármuna hans, né tiltekna lágmarksávöxtun þeirra. Jafnframt að viðskipti með gjaldeyri væru í eðli sínum áhættusöm viðskipti. Sóknaraðili hafi með undirritun sinni lýst því yfir, að hann hefði kynnt sér sérstaklega áhættu samfara viðskiptum með afleiður og að hann gerði sér grein fyrir því að höfuðstóll hans gæti tapast í heild sinni í slíkum viðskiptum. Þá liggi fyrir að sóknaraðili hafi aflað sér sérfræðiráðgjafar þriðja aðila áður en hann undirritaði samninginn sem og á gildistíma hans. Varnaraðili vísi hér til þess að lögmaður sóknaraðila hafi komið að samskiptum við starfsmenn Glitnis banka, farið yfir alla samninga og samþykkt þá fyrir hönd sóknaraðila. Þegar þetta sé virt, telji varnaraðili að sóknaraðili geti ekki nú, þegar hann hafi orðið fyrir tapi, haldið því fram að hann hafi hvorki skilið samninginn og þau viðskipti sem hann kvað á um né þá áhættu sem slíkum viðskiptum fylgi.
Varnaraðili áréttar að ekki sé rétt að framvirkur samningur aðila um verðbréfaviðskipti með skuldabréf sem SPRON gaf út og var tengt gengi hlutabréfa í Straumi, hafi verið gerður að frumkvæði þjónustufulltrúa sóknaraðila í bankanum. Rétt sé að sóknaraðila eða réttara sagt lögmanni hans, hafi verið kynnt þessi viðskipti og þau í framhaldi samþykkt. Starfsmanni bankans hafi verið kunnugt um að sóknaraðili hefði mikla trú á Straumi, sér í lagi vegna samskipta félagsins við Landsbankann í Lúxemborg, og af þeim sökum ákveðið að kynna lögmanni sóknaraðila fjárfestinguna. Með tölvupósti starfsmanns bankans til lögmanns sóknaraðila, 6. júní 2007, hafi fylgt kynningarbréf um fjárfestinguna, þar sem komi skýrt fram að ávöxtun skuldabréfsins tengist hækkun á hlutabréfum Straums. Jafnframt að skuldabréfið sjálft væri 95% höfuðstólstryggt, boðið væri upp á fjármögnun á 13,5% vöxtum auk álags til kaupa á skuldabréfinu og að tryggingarþörfin væri 6%. Þetta kynningarbréf hafi lögmaður sóknaraðila kynnt sér og samþykkt kaupin fyrir hönd sóknaraðila næsta dag.
Varnaraðili hafni því að sóknaraðila hafi ekki verið leiðbeint um þá áhættu sem hafi falist í umræddum gerningi og hafni því jafnframt að rangar og óábyrgar upplýsingar hafi verið gefnar. Fyrirsögn kynningarbréfsins, þ.e. Fjármagnað afleiðutengt skuldabréf, sem og sú staðreynd, að tryggingarþörfin væri 6% og lánsfjármagn 94%, hafi gefið skýrt til kynna að tapsáhætta væri fyrir hendi. Sóknaraðila hafi einnig verið ráðlagt að kynna sér Straum, þá áhættu sem fælist í fjárfestingu í hlutabréfum félagsins og fyrri og frekari þróun afleiðunnar. Varnaraðili bendi hér á að ráðlegging um kaup á tilteknum fjármálagerningi feli ekki í sér ákvörðun kaup, enda sé sú ákvörðun ávallt í höndum sóknaraðila sjálfs. Enn síður feli ráðlegging um slík kaup í sér ákvörðun um að gera framvirkan samning um verðbréfaviðskipti. Með ákvörðun sinni um kaupin hafi sóknaraðili lýst yfir því að hann væri reiðubúinn að taka þá áhættu sem í viðskiptunum fælist og verði hann einn að bera ábyrgð á þeirri ákvörðun.
Varnaraðili hafni því að starfsmenn Glitnis banka hafi brotið gegn 4. og 5. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Í 4. gr. sé vísiregla sem mæli fyrir um að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum. Í 5. gr. sé mælt fyrir um að fjármálafyrirtæki skuli afla sér upplýsinga hjá viðskiptavinum um þekkingu og reynslu í verðbréfaviðskiptum og markmiðum þeirra með fyrirhugaðri fjárfestingu, eftir því sem máli skipti vegna þjónustunnar sem óskað sé eftir. Í ákvæðinu sé nánar mælt fyrir um almennar reglur gagnvart viðskiptavinum, meðal annars að upplýsingar sem fjármálafyrirtæki veiti skuli vera skýrar, nægjanlegar og ekki villandi þannig að viðskiptavinir geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun. Varnaraðili byggi á því að þessum ákvæðum hafi verið fylgt í hvívetna. Varnaraðili byggi jafnframt á því að sóknaraðili hafi sérstaklega verið varaður við þeirri áhættu sem fælist í afleiðuviðskiptum. Þannig sé berum orðum tekið fram bæði í samningi aðila um einkabankaþjónustu sem og markaðsskilmálum, sem sóknaraðili undirritaði, að mikil áhætta væri fólgin í slíkum viðskiptum, um leið og athygli hafi verið vakin á því að bankinn bæri ekki ábyrgð á tjóni viðskiptavinar vegna lækkunar á gengi verðbréfa.
Sóknaraðili byggi á því að fjármagnaða, afleiðutengda skuldabréfið hafi verið flókinn fjármálagerningur, sem hafi ekki verið við hæfi hans miðað við reynslu hans og þekkingu á verðbréfamarkaði. Varnaraðili byggi á því að ekkert annað liggi fyrir en að við fjármálaráðgjöf starfsmanna Glitnis banka hafi verið tekið tillit til hagsmuna sóknaraðila og þeir hafðir að leiðarljósi. Sóknaraðili hafi fjárfest fyrir 100.000.000 kr., sem sé tiltölulega lág fjárhæð miðað við fjárhagsstöðu hans á þessum tíma og því ekki há hlutfallsleg áhætta tekin. Varnaraðili byggi á því að eftir 4. og 5. gr. laganna hafi verið farið í einu og öllu. Þá bendi varnaraðili á að hafi eitthvað verið óljóst við viðskiptin, hafi sóknaraðila eða lögmanni hans, verið í lófa lagið að leita frekari upplýsinga hjá starfsmönnum bankans. Hér, eins og í öðrum viðskiptum, hvíli sú skylda á fjárfestum að kynna sér upplýsingar og gögn um þau viðskipti sem standi fyrir dyrum. Hafi sóknaraðili gefið sér að þessi viðskipti væru áhættulítil þyki ljóst að hann hafi í engu hirt um að kynna sér þau gögn sem lágu fyrir áður en hann ákvað að kaupa. Eftir standi að lögmanni sóknaraðila hafi verið kynnt fjárfestingin og á þann hátt hafi sóknaraðili verið fullkomlega upplýstur um þá áhættu sem í henni fælist. Því liggi ekki fyrir annað en að sóknaraðili hafi tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun í skilningi 5. gr. laganna.
Varnaraðili hafni því að fjármálagerningurinn hafi verið flókinn eins og sóknaraðili haldi fram. Þetta hafi verið samsett skuldabréf og afleiða, svokallað afleiðutengt skuldabréf. Sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um það. Bréfið hafi verið 95% höfuðstólstryggt. Í því felist að sóknaraðili hafi aldrei getað tapað meira en 5% af höfuðstól fjárfestingarinnar á gjalddaga, svo lengi sem útgefandi skuldabréfsins (SPRON), væri gjaldfær. Úrslitaatriði um það hvort hagnaður eða tap yrði af þessari fjárfestingu, hafi þar af leiðandi ráðist af því hvernig afleiðuhluta bréfanna reiddi af, að gefnum almennum áhættuþáttum skuldabréfa. Hér beri jafnframt að líta til þess að afleiðutengd skuldabréf hafi verið boðin til kaups á alþjóðlegum fjármálamörkuðum frá 1980. Þau séu ávallt í formi tveggja eða fleiri gerninga sem hafi verið settir saman í einn þar sem meginhluti bréfsins sé fjármálagerningur sem sé tryggari en hefðbundin hlutabréf, t.d. skuldabréf eða víxill. Sá hluti sé því að meginstefnu til aðeins háður almennri áhættu þess að skuldari geti ekki greitt. Seinni hlutinn sé svo að jafnaði áhættusamari fjármálagerningur, sem geti gefið af sér hagnað eða tap. Sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um að með þessari fjárfestingu hafi hann veðjað á hækkun hlutabréfa í Straumi, sem gekk ekki eftir og leiddi til taps.
Varnaraðili hafni því að þessi viðskipti sóknaraðila hafi verið andstæð fjárfestingarstefnu sem og að á einhvern hátt hafi verið brotið gegn 4. gr. samnings aðila um einkabankaþjónustu, þar sem fjallað sé um viðskipti með óskráð verðbréf. Í þeim samningi hafi falist, auk fjárvörslu og eignastýringar, aðstoð við kaup og sölu eigna, sbr. a-lið 2. gr., og gjaldeyrisviðskipti og gerð afleiðusamninga, sbr. f-lið sömu greinar. Í 5. gr. samningsins hafi sérstaklega verið mælt fyrir um samningsbundið uppgjör afleiðusamninga, þar sem tekið hafi verið fram að um slíka skriflega samninga giltu lög nr. 33/2003. Skriflegir afleiðusamningar milli aðila gætu þannig jafnast hver á móti öðrum með skuldajöfnun, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti, þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 8. gr. samningsins hafi bankinn haft fullt og ótakmarkað umboð til að stýra eignum viðskiptavinar í samræmi við fjárfestingarstefnuna, sbr. umboð sem fylgdi samningnum sem viðauki II. Umboðið hafi einnig náð til kaupa, framsals og sölu verðbréfa, þar á meðal undirritunar allra skjala sem að mati bankans hafi verið nauðsynleg í tengslum við slík kaup hverju sinni, stofnun bankareikninga, ráðstöfun greiðslna inn á og út af bankareikningum sem voru stofnaðir samkvæmt 9. gr., innheimtu afborgana, vaxta og verðbóta, arðs af verðbréfum og ráðstöfunar andvirðisins til kaupa á öðrum verðbréfum eða til greiðslu til viðskiptavinar.
Í samningi aðila um einkabankaþjónustu sé þannig sérstaklega rætt um afleiðusamninga, sbr. 5. gr., sbr. 8. gr. og f-lið 2. gr. Á grundvelli framangreindra ákvæða hafi Glitni banka verið heimilt að ráðleggja sóknaraðila slíkar fjárfestingar. Í b-lið 1. gr. samningsins segi að í eignastýringu felist tilfærsla á mismunandi tegundum verðbréfa eftir því sem tækifæri bjóðist á mörkuðum á hverjum tíma. Sóknaraðili hafi því gefið bankanum heimild til eignastýringar samkvæmt fyrirframákveðinni fjárfestingarstefnu, sbr. 3. gr. samningsins og hafi bankinn séð um framkvæmd fjárfestingarstefnunnar fyrir hönd sóknaraðila. Hugtakið eignastýring hafi verið tekið upp við gildistöku laga nr. 33/2003 og það skilgreint sem viðtaka fjármuna til fjárfestingar í fjármálagerningum eða öðrum verðmætum fyrir eigin reikning viðskiptavinar gegn endurgjaldi, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 1. gr. þeirra laga. Í eignastýringarhluta samningsins hafi því falist að starfsmenn bankans hafi átt að taka ákvarðanir um einstaka fjárfestingar viðskiptamanns, innan samþykktrar fjárfestingarstefnu og án nokkurrar aðkomu viðskiptavinar, þ.e. að ekki hafi þurft að liggja fyrir samþykki hans fyrir hverri einustu fjárfestingu á grundvelli þess hluta samningsins. Fjárfestingarráðgjöf, hvort sem var að frumkvæði sóknaraðila eða starfsmanna bankans, hafi einnig verið hluti af samningnum, eins og áður sé rakið. Greinarmunur hafi verið gerður á þessu tvennu, eignastýringu annars vegar og hins vegar fjárfestingarráðgjöf varðandi einstakar fjárfestingar. Viðskipti sóknaraðila með afleiðutengt skuldabréf tengt gengi hlutabréfa Straums, hafi ekki farið fram á grundvelli eignastýringar og því ekki verið andstæð fjárfestingarstefnu eignastýringarhluta samningsins, sbr. viðauka I.
Varnaraðili hafni því að túlka eigi ákvæði 4. gr. samnings aðila um einkabankaþjónustu þannig að sóknaraðila hafi verið óheimilt að eiga viðskipti með óskráð verðbréf nema hann myndi sækja sérstaklega um slíkt skriflega. Samningurinn hafi ekki verið hreinn eignastýringarsamningur, eins og rakið sé í umfjöllun um einstök ákvæði hans í málsatvikalýsingu. Það að túlka ákvæði 4. gr. samningsins á þann hátt sem sóknaraðili haldi fram, mæli í fyrsta lagi gegn hlutverki bankans samkvæmt samningnum enda tilgangur hans meðal annars ráðgjöf og fjárvarsla, sem felist meðal annars í viðskiptum með verðbréf sem og aðstoð við kaup á eignum. Þá sé sérstaklega mælt fyrir um að í þjónustu bankans samkvæmt samningnum felist gerð afleiðusamninga, sbr. f-lið 2. gr. Hér beri einnig að líta til ákvæðis 12. gr. samningsins um fyrirmæli viðskiptavinar, þar sem segi að viðskiptavinur geti gefið fyrirmæli sín um viðskipti samkvæmt samningnum, munnlega eða skriflega. Samningnum hafi enn fremur ekki verið ætlað að hefta frelsi sóknaraðila til að eiga viðskipti með afleiðusamninga. Ákvæði 4. gr. samningsins vísi þannig til viðskipta sem starfsmenn bankans framkvæmi fyrir hönd viðskiptamanns án sérstakrar aðkomu hans, en fyrir liggi að svo hafi ekki háttað til í þessu tilviki.
Varnaraðili vísi hér jafnframt til ákvæðis 7. gr. laga nr. 33/2003, þar sem mælt hafi verið fyrir um að tæki fjármálafyrirtæki að sér þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta sem fæli í sér viðvarandi viðskiptasamband, svo sem um eignastýringu, skyldi gerður skriflegur samningur milli fjármálafyrirtækisins og viðskiptavinar, þar sem meðal annars skyldi kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila. Skyldan til að gera samninga eigi ávallt við þegar gerðir hafi verið samningar um eignastýringu, eins og greini í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi til þeirra laga sem urðu að framangreindum lögum. Með því að setja reglu í 4. gr. samningsins um viðskipti með óskráð verðbréf, hafi Glitnir banki fylgt ákvæði 7. gr. laganna. Tilgangur 4. gr. samningsins sé að viðskiptavinur geti í upphafi gert sér grein fyrir réttindum og skyldum samningsaðila svo og að koma í veg fyrir að upp rísi ágreiningur í samningssambandinu. Í 7. gr. laga nr. 33/2003 hafi ekki verið mælt fyrir um að í skriflegum samningi væri tæmandi talning á réttindum og skyldum aðila, enda væri slíkt næsta ómögulegt. Þar að auki komi fram í athugasemdum við 7. gr., að ekki sé gerð krafa um skriflegan samning í öllum tilvikum en ráðlegast sé fyrir fjármálafyrirtæki að slíkur samningur sé fyrir hendi. Sóknaraðila hafi því ekki verið óheimilt að eiga viðskipti með óskráð verðbréf á grundvelli ráðgjafarhluta samningsins um einkabankaþjónustu, eingöngu eignastýringarhluta hans. Önnur túlkun sé ótæk að mati varnaraðila.
Sóknaraðili byggi á því að með framlengingu á samningi um framvirk verðbréfaviðskipti í desember 2007, hafi bankinn brotið gegn 5. og 14. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Varnaraðili bendi á að sóknaraðili færi engin rök fyrir þessari málsástæðu sinni og beri að hafna henni þegar af þeirri ástæðu vegna vanreifunar. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi stofnað til þessara viðskipta í júní 2007. Eftir það hafi sóknaraðili framlengt samninginn einu sinni, þ.e. í desember 2007 og viðskiptunum hafi verið lokað í júlí 2008. Varnaraðili bendi á að í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 108/2007 segi í umfjöllun um ákvæði 14. gr., að það eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar stofnað sé til nýrra viðskipta eða nýrrar tegundar viðskipta eftir gildistöku laganna, og ekki hafi áður verið aflað þeirra upplýsinga sem hin nýju lög geri kröfu um. Samkvæmt því telji varnaraðili þá málsástæðu sóknaraðila að Glitnir banki hafi ekki gætt áðurnefndra ákvæða laga nr. 108/2007 í samskiptum sínum við sóknaraðila enga þýðingu við úrlausn málsins.
Þá sé með öllu órökstudd sú málsástæða sóknaraðila að ráðgjöf starfsmanna bankans hafi ekki verið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur, með hagsmuni sóknaraðila að leiðarljósi, sbr. 5. gr. laga nr. 108/2007, sem og að bankinn hafi ekki gætt reglna um hagsmunaárekstra, sbr. 8. gr. laganna. Þær fullyrðingar sóknaraðila að starfsmenn bankans hafi handstýrt viðskiptagengi við uppgjör séu ósannaðar og ekki studdar neinum gögnum. Sömuleiðis sé sú fullyrðing sóknaraðila að það hafi verið bankanum til hagsbóta að ganga til gjaldeyrisviðskipta með öllu órökstudd. Tap sóknaraðila hafi takmarkast við framlag hans til fjárfestingarinnar en það sem eftir stóð, hafi sóknaraðili þurft að taka á sig. Til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, tryggja óhlutdrægni og til tryggingar því að viðskiptamenn nytu jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör, hafi bankinn sett sér verklagsreglur um viðskipti starfsmanna með verðbréf, gjaldeyri o.fl. Reglurnar hafi verið settar á grundvelli 2. mgr. 15., 2. mgr. 20. og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Tilgangur þeirra hafi verið að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfi bankans og jafnframt að draga úr hættu á að þeir sem þær tóku til tengdust einstökum úrlausnarefnum á þann hátt að fyrirfram mætti draga í efa óhlutdrægni þeirra við meðferð og afgreiðslu einstakra mála. Varnaraðili byggi á því að eftir þeim hefði verið farið í einu og öllu varðandi viðskipti sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á með rökum að svo hafi ekki verið.
Varnaraðili hafnar því að bankinn hafi brotið gegn 9. gr. laga nr. 33/2003 og 18. gr. laga nr. 108/2007, þar sem mælt sé fyrir um skyldu fjármálafyrirtækja til að tryggja bestu framkvæmd viðskiptafyrirmæla fyrir viðskiptavini sína. Í þessum ákvæðum felist meðal annars að fjármálafyrirtæki verði ávallt að leita bestu viðskiptakjara fyrir viðskiptamenn sína og þau hafi stöðu viðskiptavinarins og þarfir hans í huga hverju sinni. Sóknaraðili rökstyðji ekki á hvaða hátt bankinn eigi að hafa brotið gegn umræddum lagaákvæðum og telji varnaraðili að ekkert liggi fyrir um annað en að viðskiptafyrirmæli sóknaraðila hafi verið framkvæmd á besta mögulega hátt.
Sóknaraðili byggi meðal annars skaðabótakröfu sína á því að yfirlit Glitnis banka yfir afleiðuviðskipti sóknaraðila hafi verið ógegnsæ og ófullkomin. Hafi bankinn þannig brotið gegn ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007. Í umræddu ákvæði segi að fjármálafyrirtæki skuli halda sérstaka skrá yfir alla samninga sem séu gerðir við hvern viðskiptavin þess og innihaldi ákvæði um réttindi og skyldur í viðskiptum aðila. Óljóst sé hvaða áhrif það hafi á meinta bótaábyrgð varnaraðila að slík skrá hafi ekki verið haldin. Hins vegar sé ljóst að sóknaraðili hafi reglulega fengið send yfirlit yfir verðbréfaviðskipti sín og hafi jafnframt getað, hvenær sem var, óskað upplýsinga um stöðu einstakra samninga. Þá hafi lögmaður sóknaraðila haft aðgang að netbanka hans þar sem hægt hafi verið að skoða öll verðbréfaviðskipti sóknaraðila. Sóknaraðili hafi að fullu verið upplýstur um eðli þeirra viðskipta sem grundvölluðust á samningnum um gjaldeyrisstýringu og því hafnað að bankinn hafi án heimilda leikið sér með fjármuni sóknaraðila eins og hann haldi fram. Varnaraðili byggi á því að sóknaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á að bankinn hafi brotið gegn reglum gildandi laga, þegar hann heimilaði sóknaraðila að eiga þau viðskipti sem hér um ræðir. Starfsmenn bankans hafi staðið eðlilega að málum í þeim viðskiptum við sóknaraðila og í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma.
Varnaraðili bendi á að bæði samningur aðila um einkabankaþjónustu og upphaflegi samningurinn um framvirk verðbréfaviðskipti, hafi verið gerðir í gildistíð eldri laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003. Hvorki eldri lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 né núgildandi lög nr. 108/2007, geri hins vegar ráð fyrir því að fjárfestar skuli flokkaðir á ákveðinn hátt til þess að geta átt í afleiðuviðskiptum. Því byggi varnaraðili á því að heimilt hafi verið að leyfa sóknaraðila að eiga í afleiðuviðskiptum, óháð flokkun hans sem fjárfestis.
b) Fasteignaverkefni Berlice ehf.
Sóknaraðili telji sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þátttöku sinnar í fasteignaverkefni en aðdragandi þeirra viðskipta sé rakinn í lýsingu málsatvika. Tjón sitt telji sóknaraðili í fyrsta lagi vera andvirði þeirra fjármuna sem hann setti í verkefnið, í öðru lagi vegna tapaðrar ávöxtunar fjármuna og í þriðja lagi vegna kostnaðar við hagsmunagæslu, þar með talinn fórnarkostnað við að halda verkefninu gangandi. Varnaraðili hafni því að starfsmenn bankans hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi í tengslum við þessi viðskipti sóknaraðila.
Fyrir liggi að þjónustufulltrúi sóknaraðila í bankanum hafi tjáð lögmanni sóknaraðila að sóknaraðila stæði til boða að taka þátt í fjárfestingarverkefni tengt kaupum á fasteignum í Þýskalandi, að til staðar væri 6-8 manna hópur fjárfesta og að fyrir lægi ítarlega kynning Kapital North á því. Varnaraðili mótmæli því að þessi kynning hafi verið á vegum bankans enda komi skýrt fram í kynningarefninu að það sé frá Kapital North. Bankinn hafi ekki verið aðili að verkefninu heldur hafi hann veitt viðskiptavinum sínum ráðgjöf og fjármagnað verkefnið að hluta, að beiðni þeirra fjárfesta sem að því komu. Bankinn hafi ráðlagt um kaup á vöru þriðja aðila, eins og ráðgjöf hans á grundvelli samnings aðila um einkabankaþjónustu hafi almennt verið. Sóknaraðila hafi verið ljóst eða mátt vera, að aðkoma starfsmanna bankans væri ekki á grundvelli sérfræðiþekkingar þeirra á fasteignum erlendis. Varnaraðili geti ekki heldur borið ábyrgð á einstökum upplýsingum úr kynningu Kapital North á verkefninu þar sem Glitnir banki hafi einfaldlega ekkert komið að þeirri vinnu og beri enga ábyrgð á ráðgjöf þess félags. Sama sé að segja um þá samninga sem kynntir hafi verið lögmanni sóknaraðila og KPMG útbjó. Þar sem hvergi í samningi aðila um einkabankaþjónustu hafi verið takmarkanir á því að sóknaraðila væru boðin óskráð verðbréf, verði að álykta að um slík viðskipti hafi ríkt meginregla samningsréttar um samningsfrelsi, en í henni felist að aðila sé frjálst að velja sér samningsaðila, samningsefni svo og hvort hann geri samning.
Varnaraðili mótmæli því að starfsmaður bankans hafi skuldbundið sig á einhvern hátt til þess að gæta hagsmuna hans vegna fjárfestingarinnar. Í tölvupósti starfsmannsins til lögmanns sóknaraðila, 7. maí 2007, hafi verið tekið fram að gætu hvorki sóknaraðili né lögmaður hans mætt á fund vegna verkefnisins sem fyrirhugaður var 9. maí sama ár, myndi hann gæta hagsmuna hans. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram neinar sannanir fyrir því að starfsmaður bankans hafi skuldbundið sig til að gæta hagsmuna hans í verkefninu og verði slík skuldbinding ekki heldur ráðin af þeim skilmálum sem giltu milli aðila samkvæmt samningi um einkabankaþjónustu.
Varnaraðili hafni því að starfsmenn Glitnis banka hafi brotið gegn skilmálum samningsins um einkabankaþjónustu sem og 4. og 5. gr. laga nr. 33/2003. Sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um viðskiptaáætlun verkefnisins, að fjárfestarnir þyrftu að kaupa sig inn í eignarhaldsfélag sem héldi utan um verkefnið, þ.e. Berlice ehf., og að frekari lánsfjármögnunar væri þörf. Lögmaður sóknaraðila hafi fengið send ítarleg kynningargögn um verkefnið og fengið til yfirlestrar þau gögn sem Kapital North lagði fram, þ.e. fjárfestingarsamninginn, hluthafasamkomulagið o.fl., skjöl sem voru unnin af endurskoðunarfyrirtækinu KPMG. Lögmaður sóknaraðila hafi ekki gert neinar athugasemdir og í framhaldinu samþykkt að sóknaraðili tæki þátt í verkefninu. Ekki liggi annað fyrir en að upplýsingar starfsmanns bankans hafi verið fullnægjandi og aðkoma bankans að verkefninu hafi verið í samræmi við skyldur ráðgjafahluta samnings aðila um einkabankaþjónustu. Varnaraðili bendi á að frá upphafi samningssambands aðila hafi legið ljóst fyrir að skoðaðar yrðu fjárfestingar í fasteignaverkefnum af þessu tagi, eins og þau kynningargögn sem lögð voru fram á fundi aðila í febrúar 2007 beri með sér.
Varnaraðili bendi hér jafnframt á að hvergi sé gert að skilyrði að upplýsingaöflun fjármálafyrirtækis samkvæmt 5. gr. laga nr. 33/2003 skuli fara fram skriflega. Sóknaraðili hafi skrifað undir samning um einkabankaþjónustu og hafi honum verið úthlutað starfsmanni einkabankaþjónustu bankans, sem hafi séð um allar hans viðskiptabeiðnir, kynnt honum einstakar fjárfestingar og þekkt inn á hans fjármál og markmið. Sami starfsmaður hafi kynnt sóknaraðila fasteignaverkefnið sem þetta mál taki að hluta til. Skyldu fjármálafyrirtækis um upplýsingaöflun verði vart sinnt á betri og persónulegri hátt en með því fyrirkomulagi. Að öðru leyti en að framan greinir, vísar varnaraðili til fyrri umfjöllunar sinnar um ákvæði 4. og 5. gr. laga nr. 33/2003.
Sóknaraðili haldi því fram að honum hafi aldrei verið gerð grein fyrir því að hann þyrfti að gangast undir sjálfskuldarábyrgð á greiðslu hluta af skuldum og fjárskuldbindingum félagsins Berlice ehf. Aðrir hluthafar hafi ritað undir slíka yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð, sem takmarkaðist við tiltekið hlutfall í samræmi við hlutafjáreign þeirra. Varnaraðili hafni þessu og bendi á að þetta hafi verið eðlileg tryggingaráðstöfun bankans. Óeðlilegt hefði verið hefði bankinn ekki tekið tryggingar vegna slíkra lánveitinga til félagsins.
Varnaraðili telji málsgrundvöll sóknaraðila óskýran og hvergi ljóst af greinargerð hans hvort hann byggi á reglum um skaðabætur innan eða utan samninga eða hvoru tveggja. Skaðabótakrafa hans samkvæmt þessum kröfulið sé mjög óljós og eigi sjálfkrafa að leiða til höfnunar. Varnaraðili telji þó ljóst að til þess að sýna fram á grundvöll skaðabótaábyrgðar verði ábyrgðin að grundvallast á sakarreglunni. Sóknaraðili leggi mesta áherslu á það að starfsmenn bankans hafi með störfum sínum valdið tjóni sem rekja megi til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi þeirra. Sóknaraðili vísi hins vegar ekki til reglunnar um vinnuveitendaábyrgð því til stuðnings. Framsetning skaðabótakröfunnar uppfylli að mati varnaraðila engan veginn skilyrði réttarfarsreglna um skýrleika og geri honum erfitt fyrir um varnir.
Varnaraðili hafni því alfarið að orsök meints tjóns sóknaraðila sé ófullnægjandi ráðgjöf starfsamanna bankans. Þótt sýnt yrði fram á að þeim hefði borið að upplýsa um tiltekin atriði, sem þeir hafi ekki gert, hvíli á sóknaraðila sönnunarbyrði fyrir því að uppfyllt séu skilyrði skaðabótaábyrgðar svo sem um orsakasamhengi og sennilega afleiðingu. Jafnvel þótt saknæmisskilyrði skaðabótaábyrgðar teldust uppfyllt sé það tjón sem hlaust af fjárfestingu sóknaraðila, ekki komið til vegna þeirra atvika, heldur þess að sóknaraðili seldi sinn hluta. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á orsakasamband á milli meint tjóns síns og ætlað saknæms og ólögmæts atferlis starfsmanna bankans. Bankinn hafi einfaldlega ekki haft stjórn verkefnisins á sínum höndum og geti þar af leiðandi ekki borið ábyrgð á því að tilteknir þættir þess hafi ekki gengið upp. Stjórn þess hafi verið í höndum hluthafanna sjálfra sem og Kapital North samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um. Auk þess hafi fjölmargir aðrir sérfræðingar, innlendir sem erlendir, komið að verkefninu og verið ráðnir af stjórn Berlice ehf.
Sóknaraðili telji fjártjón sitt nema í fyrsta lagi andvirði þeirra fjármuna sem hann setti í verkefnið, þ.e. 250.000 kr. í hlutafé, lán til félagsins að fjárhæð 500.000 evrur, sem jafngildi 41.879.413 kr., auk þess sem hann greiddi til Berlice ehf., í janúar 2010, 4.368.216 kr. Síðastgreinda fjárhæðin hafi komið til eftir upphaf slitameðferðar bankans og hafi ekki verið lýst, þannig að sú fjárhæð geti vart komið til álita hér.
Varnaraðili vísar til þess sem fram komi í 3. gr. hluthafasamkomulagsins, þar segi að hluthöfum hafi verið skylt að samþykkja á hluthafafundi að allur hagnaður af verkefninu yrði greiddur út sem arður í lok verkefnisins. Hins vegar hátti svo til að verkefninu sé ekki lokið. Meðal fram lagðra gagna sé hluthafasamkomulag, dags. 25. nóvember 2010, þar sem hluthafarnir samþykki að endurgreiðslur vegna lána hluthafa til Berlice ehf., skuli fara fram á árunum 2013-2019, sbr. 4. gr. Undir þetta hluthafasamkomulag hafi lögmaður sóknaraðila ritað. Sóknaraðili hafi hins vegar kosið að selja hlut sinn í félaginu tæpum tveimur árum eftir framangreint samkomulag.
Varnaraðili bendi á að það sé frumskilyrði þess að skaðabótaskylda sé fyrir hendi, að tjón hafi orðið og að tjónið og umfang þessi teljist sannað, en markmið skaðabóta sé að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og tjónið hefði ekki orðið. Krafa sóknaraðila samrýmist vart meginreglu skaðabótaréttar um að tjón skuli hvorki of- né vanbætt.Varnaraðili telji kröfu sóknaraðila verulega vanreifaða hvað þessa þætti varðar og krefjist þess að henni verði hafnað þegar af þeirri ástæðu. Þá uppfylli kröfugerð sóknaraðila ekki skilyrði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um skýrleika, sérstaklega með hliðsjón af því að umfang meints tjóns sé með öllu óljóst.
c) Lántaka sóknaraðila í erlendum myntum
Sóknaraðili byggi á því að sú ráðgjöf starfsmanna bankans að sóknaraðili tæki lán bundið gengisáhættu og veðsetti eignasafn sitt, hafi farið í bága við 4. og 5. gr. laga nr. 33/2003. Þessu hafni varnaraðili og bendi á að fyrir liggi fullgildur lánssamningur við bankann þar sem sóknaraðili hafi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum myntum og endurgreiða bankanum það í samræmi við skilmálasamningsins. Varnaraðili telji ekki efni til að víkja frá þeirri meginreglu íslensk samningsréttar að samningar séu skuldbindandi fyrir aðila þeirra.
Varnaraðili bendi á að ráðleggingar starfsmanna til sóknaraðila um tiltekna lánategund frekar en aðra sé ekki ákvörðun um lántöku. Sú ákvörðun hafi alfarið verið í höndum sóknaraðila sjálfs, sem skrifaði undir lánssamninginn án nokkurs fyrirvara eða athugasemda. Jafnframt hafi sóknaraðili samþykkt að leggja fram nánar tilteknar tryggingar. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að þau veð sem sett voru til tryggingar láninu hafi verið óeðlileg að umfangi og útfærslu.
Varnaraðili hafni því að sóknaraðila hafi ekki verið gerð grein fyrir þeim áhættuþáttum sem fylgi því að taka lán í erlendum myntum. Varnaraðili byggi á því að sóknaraðili hafi vitað fullvel af gengisáhættunni og hafi á þessum tíma haft bæði þekkingu og reynslu af bæði töku og veitingu slíkra lána. Þannig megi ráða af símtali sóknaraðila og starfsmanns bankans í júlí 2008, að sóknaraðili hafi veitt sjálfur einhverjum aðila lán í erlendri mynt, sbr. eftirfarandi: [ÞH] Serbía, það eru 2. milljónir kanadadollar sem ég fæ rúma milljón. [HSS] Er þetta lán? [ÞH] Sem ég veitti gegn veði í hlutabréfum, er með hlutabréfinu. Þá virðist ljóst af fyrirliggjandi gögnum, að flest öll viðskipti sóknaraðila hafi farið í gegnum lögmann hans, sem hafi getað ráðlagt honum þegar þurfti að ákveða fjármögnun. Samkvæmt varúðarskyldu fjárfesta hafi sóknaraðila borið að afla sér ráðgjafar sérfræðinga, hefði hann takmarkaða þekkingu á fjárfestingum af þessu toga, s.s. um fjárfestingarkosti, áhættu og annað sem snerti hans fjárfestingar. Ekkert annað liggi fyrir en að sóknaraðili hafi tekið upplýsta og vel ígrundaða ákvörðun um að taka lán í erlendum myntum.
Varnaraðili hafni því að úr símtali sóknaraðila og starfsmanns bankans, 5. júlí 2008, tæpu ári eftir að sóknaraðili ritaði undir lánasamninginn, verði lesið að starfsmaður bankans hafi vanrækt að gefa sóknaraðila ráð um áhættuþætti lántökunnar. Sóknaraðili rökstyðji þessa fullyrðingu sína ekkert og sé henni mótmælt sem rangri og ósannaðri. Varnaraðili bendi aftur á móti á að í símtali sóknaraðila og starfsmanns Glitnis banka í lok janúar 2008, virðist sóknaraðili hafi haft fulla vitneskju um stöðu lánsins, þ.e. að það hefði hækkað mikið og lýsi sóknaraðili því yfir að hann sé reiðubúinn með frekari veð sé þörf á þeim.
Varnaraðili hafni því að starfsmenn Glitnis banka hafi brotið gegn 4. og 5. gr. laga nr. 33/2003. Sóknaraðili hafi ekki fært sönnur á að bankinn hafi í starfsemi sinni brotið gegn framangreindum lagaákvæðum, þannig að tjón hafi hlotist af. Ekkert annað liggi fyrir en að þær upplýsingar sem starfsmenn hans veittu sóknaraðila hafi verið skýrar, nægjanlegar og ekki villandi, þannig að sóknaraðili hafi getað tekið upplýsta ákvörðun. Samkvæmt a-lið 2. gr. samningsins um einkabankaþjónustu, hafi í þjónustu bankans falist, auk fjárvörslu og eignastýringar, ráðgjöf um lántökur. Starfsmönnum bankans hafi þannig verið skylt samkvæmt samningnum að veita sóknaraðila slíka ráðgjöf. Í slíkum tilvikum sé ekki hægt að gera aðrar kröfur en þær, að vinnan sé vel og fagmannlega af hendi leyst. Starfsmönnum bankans hafi með öllu verið ómögulegt að fullyrða hvernig sveiflur yrðu á höfuðstól lánsins til loka lánstímans enda hafi það ráðist af framtíðarþróun gengis gjaldmiðla, sem ekki verði séð fyrir nema að vissu marki. Hafa beri í huga að á þessum tíma hafi það verið almenn vitneskja að lánum í erlendum myntum fylgi ákveðin gengisáhætta. Með vísan til framangreinds telji varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að starfsmenn bankans hafi á ólögmætan og saknæman hátt valdið sóknaraðila tjóni. Að þessu leyti sé krafa sóknaraðila vanreifuð. Auk þess hafi gögn, sem geti rennt stoðum undir framangreindar málsástæður sóknaraðila, hvorki fylgt kröfulýsingu sóknaraðila né greinargerð hans.
Varnaraðili hafni því að lánssamningurinn brjóti gegn ákvæðum laga nr. 121/1994 um neytendalán. Sóknaraðili vísi til 3. gr. og fyrirmæla II. kafla laganna þeirri málsástæðu til stuðnings án þess að reifa það nánar. Sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um þær upplýsingar sem séu tilgreindar í 3. gr. laganna. Þá hafi starfsmenn bankans sinnt upplýsingaskyldu sinnar í kjölfar þess að lánssamningurinn var undirritaður. Varnaraðili bendi á að lögmaður sóknaraðila hafi ekki gert neinar athugasemdir við það að gengið yrði frá formsatriðum lánssamningsins síðar, sbr. tölvupóst starfsmanns Glitnis banka til sóknaraðila, 24. ágúst 2007.
Sóknaraðili byggi á því, verði ekki fallist á að lántakan og veðsetning vörslusafns sóknaraðila til tryggingar láninu hafi verið réttarbrot, að lánið hafi verið ólögmætt gengistryggt lán. Varnaraðili bendi á að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf. til Nýja Glitnis banka hf., með síðari breytingum, hafi þeim lánasamningi, sem þetta mál fjalli meðal annars um, verið ráðstafað til hins nýja banka, nú Íslandsbanka hf. Af því leiði að kröfur sem varði skuldbindingargildi, lögmæti eða túlkun framangreinds samnings, svo og meintum vörnum sóknaraðila gagnvart skuldbindingu sinni á grundvelli lánssamningsins, verði ekki með réttu beint að varnaraðila, heldur þurfi sóknaraðili að beina þeim að Íslandsbanka hf. Þannig liggi fyrir að með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins hafi sóknaraðili ekki misst neinn mótbárurétt við tilfærsluna yfir til Íslandsbanka hf. Sóknaraðili eigi þess kost að fá úrlausn um þá hagsmuni, sem hér reyni á, með því að verjast kröfum Íslandsbanka hf. um greiðslu lánsins. Varnaraðili krefjist þess því að þessum kröfulið sóknaraðila verði hafnað sökum aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varnaraðili mótmæli því að lánssamningurinn sé ólögmætur. Samkvæmt dómum Hæstaréttar, 23. nóvember 2011, í málum nr. 551/2011 og 552/2011 beri við úrlausn á ágreiningi af þessu tagi fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggi til grundvallar skuldbindingunni, sbr. orðalag 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og lögskýringargögn. Samkvæmt dómunum skipti í því sambandi einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í þeim gerningum. Eins og rakið hafi verið beri umræddur lánasamningur yfirskriftina Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum óverðtryggt). Þessi yfirskrift bendi til þess að skuldbindingin sé í erlendum myntum en ekki í íslenskum krónum. Í lánssamningnum viðurkenni sóknaraðili enn fremur að skulda bankanum tilgreindar erlendar myntir eða jafnvirði þeirra í öðrum erlendum myntum eða íslenskum krónum. Formáli lánssamningsins verði ekki skilinn á annan veg en þann að skuldbinding sóknaraðila sé í þeim erlendu gjaldmiðlum sem þar sé getið, enda fjárhæð hinna erlendu mynta nákvæmlega tilgreind í lánssamningnum og ekki einu sinni vikið að jafnvirði þeirra í íslenskum krónum.
Varnaraðili mótmæli fjárhæð sóknaraðila í þessum kröfulið þar sem hún sé óskýr og vanreifuð enda afmarki hún ekki nægilega hvorki hið meinta tjón né hina bótaskyldu háttsemi.
d) Dráttarvaxtakrafa sóknaraðila
Sóknaraðili krefjist þess að kröfufjárhæðin í öðrum kröfulið auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. nóvember 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili bendi á að krafa sóknaraðila um dráttarvexti sé ekki sundurliðuð eftir mismunandi stofndögum meintra tjónsatburða heldur sé eingöngu miðað við dagsetningu kröfulýsingar. Það verði ekki túlkað á annan hátt en þann að þá fyrst hafi sóknaraðili lagt fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Krafa sóknaraðila um dráttarvexti af kröfufjárhæðinni í 2. kröfulið sé eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991, enda komin til eftir upphafsdag slitameðferðar varnaraðila. Til slíkra krafna hafi varnaraðili ekki tekið afstöðu.
Þá vísar varnaraðili til þess að vaxtakrafa sóknaraðila sé ekki sett fram í krónum. Í 117. gr. laga nr. 21/1991 segi að í kröfulýsingu skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum. Þessi lýsing gangi þannig lengra en gildi um kröfugerð í stefnu í einkamáli. Samkvæmt 177. gr. laga 21/1991 eigi í greinargerð sóknaraðila að koma fram til fullnaðar kröfur hans og málsástæður fyrir þeim. Að mati varnaraðila nægi þannig ekki að krefjast vaxta með tilvísun til vaxtafótar og tímabils, heldur verði að reikna þá út og tiltaka fjárhæð þeirra.
Þekking og reynsla sóknaraðila/lögmanns sóknaraðila
Sóknaraðili geri mikið úr þekkingar- og reynsluleysi sínu við umsýslu mikilla fjármuna og hafi hann af þeim sökum leitað faglegrar aðstoðar starfsmanna Glitnis banka við vörslu og ávöxtun þeirra. Þá sé jafnframt mikið gert úr því að sóknaraðili hafi ekki haft aðgang að tölvu og þar af leiðandi ekki verið hægt að senda honum tölvupóst. Fram lögð gögn sýni að sóknaraðili hafi stofnað, eigi og setið í stjórn fjölmargra óskráðra einkahlutafélaga, þar með talið í Vatnsendafélaginu ehf., en tilgangur þess sé að eiga fasteignir og byggingarlóðir, byggingarstarfsemi, sala fasteigna, útlánastarfsemi, verðbréfaviðskipti og önnur skyld starfsemi. Lögmaður sóknaraðila sitji í stjórn þess félags. Með stofngögnum félagsins hafi meðal annars fylgt allsherjarumboð, dags. 22. október 2001, þar sem lögmanni sóknaraðila sé veitt fullt og ótakmarkað umboð til að hafa umsjón allra eigna sóknaraðila, á hvern þann hátt sem hann telji þjóna hagsmunum sóknaraðila best með öllum sömu réttaráhrifum og hann sjálfur hefði verið að verki. Lögmaður sóknaraðila, starfandi hæstaréttarlögmaður, hafi setið í stjórnum fjölmargra óskráða einkahlutafélaga og eigi því að vera vel kunnugt um lögmál og aðstæður í íslensku viðskiptalífi.
Varnaraðili byggi á því að líta beri til þess við úrlausn þessa ágreinings, að sérfræðingur hafi komið fram fyrir hönd sóknaraðila. Umþrættir fjármálagerningar hafi verið kynntir honum og lagt í hans hendur að meta hvort þeir hentuðu sóknaraðila. Af þeirri ástæðu telur varnaraðili að slaka megi á þeim kröfum sem ákvæði laga nr. 33/2003 og eftir atvikum gildandi lög nr. 108/2007, leggi á herðar fjármálafyrirtækjum þegar fjármálaráðgjöf starfsmanna þeirra sé metin. Telja verði lögmann sóknaraðila alvanan viðskiptum af þessu tagi, sér í lagi varðandi kaup á óskráðum verðbréfum. Honum hafi því verið í lófa lagið að afla sér eða krefjast nánari upplýsinga. Af fram lögðum gögnum sóknaraðila virðist það ekki hafa verið gert.
Tómlæti sóknaraðila
Verði fallist á að starfsmenn Glitnis banka hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og valdið sóknaraðila tjóni vegna þeirra viðskipta sem þetta mál taki til, byggi varnaraðili þá kröfu að kröfum sóknaraðila verði hafnað á reglum um tómlæti. Honum þyki ljóst að réttur sóknaraðila til skaðabóta sé fallinn niður vegna aðgerðarleysis, enda eigi tjónþoli að hafa uppi kröfu um skaðabætur, telji hann sig hafa orðið fyrir tjóni, svo fljótt sem verða megi.
Varnaraðili telji einsýnt að sóknaraðili geti ekki löngu eftir umþrætt viðskipti, komið fram eins og grandlaus aðili, og borið það fyrir sig að hafa hvorki haft neina vitneskju né þekkingu um þessa fjármálagerninga. Í því sambandi bendi varnaraðili á að lögmaður hafi komið fram fyrir hans hönd, tekið við skjölum og veitt sóknaraðila ráðgjöf. Sóknaraðili verði að bera hallann af því sé staðreyndin sú að hann hafi ekki kynnt sér þá fjármálagerninga sem stóðu til boða og hann ákvað að eiga viðskipti með.
Sóknaraðili hafi hvorki gert athugasemdir við að framvirkur samningur um verðbréfaviðskipti yrði framlengdur í desember 2007 né við það tap sem varð af þeim samningi. Sóknaraðili hafi í framhaldi af því samþykkt að koma í gjaldeyrisstýringu hjá bankanum. Jafnframt hafi lögmaður sóknaraðila vitað um stöðu lánssamningsins í nóvember 2008 sem og stöðuna á gjaldeyrisstýringunni hjá markaðsviðskiptum Glitnis banka. Sömu sögu sé að segja um aðkomu lögmanns sóknaraðila að fasteignaverkefninu. Ekki hafi verið gerðar neinar athugasemdir við það og sóknaraðili hafi í raun ekki gert neinar athugasemdir fyrr en með kröfulýsingu sinni, 25. nóvember 2009, rúmum tveimur árum eftir þau viðskipti sem þetta mál taki til. Sóknaraðili hafi allan þennan tíma haft tækifæri til að koma að athugasemdum þess efnis að ráðgjöf hafi verið ábótavant, ekki væri farið eftir umsaminni fjárfestingarstefnu eða að óheimilt hefði verið að bjóða sóknaraðila óskráð verðbréf til kaups samkvæmt samningi um einkabankaþjónustu. Varnaraðili vísar til þeirrar meginreglu í viðskiptum af þessu tagi, sem sé meðal annars áréttuð í 3. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 33/2003, að viðskiptavinur hafi almennt skamman frest til að gera athugasemdir.
Varnaraðili vísi hér til dóms Hæstaréttar í máli nr. 16/2001, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að viðskiptamaður yrði allt að einu bundinn af viðskiptum sínum vegna athafnaleysis en þar lá fyrir að hann hefði ekki gert athugasemdir við viðskiptin fyrr en rúmum tveimur árum eftir að til þeirra var stofnað. Telja verði með vísan til alls framangreinds að sóknaraðili hafi sýnt af sér slíkt aðgerðarleysi við gæslu þess skaðabótaréttar sem hann sæki sér til handa í þessu máli, að hann hafi með því fyrirgert honum.
Skuldajöfnuðarkrafa sóknaraðila
Sóknaraðili krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til skuldajöfnuðar með viðurkenndum fjárkröfum við hverja þá kröfu sem varnaraðili kunni að eiga eða hafi átt á hendur honum, sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili byggi á því að krafa sóknaraðila um skuldajöfnuð sé vanreifuð. Jafnframt að skilyrði skuldajöfnuðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki fyrir hendi.
Varnaraðili bendi á að ekki liggi enn fyrir hver fjárhæðin sé, en ljóst sé að skuldajöfnuður geti ekki farið fram fyrr en nægjanlega skýr yfirlýsing hafi borist um nákvæmlega þá kröfu sem nota skuli til skuldajöfnuðar.
Sóknaraðili krefjist einungis viðurkenningar á rétti sínum til skuldajöfnuðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991. Þessi dómkrafa teljist ekki nægjanleg að mati varnaraðila svo hægt sé að fallast á skuldajöfnuð enda verði að gera þá lágmarkskröfu, að þær fjárkröfur sem eigi að jafna út séu skýrt tilgreindar en þannig sé krafa sóknaraðila ekki.
Varnaraðili mótmæli því hins vegar ekki að samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, sé hægt að skuldajafna kröfum Íslandsbanka hf. við kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila. Hins vegar verði eftir sem áður að gæta allra skilyrða 100. gr. laga nr. 21/1991. Málatilbúnaður sóknaraðila byggi að meginstefnu á meintri ólögmætri og saknæmri háttsemi starfsmanna Glitnis banka í tengslum við samning aðila um einkabankaþjónustu. Almenna reglan sé sú að skaðabótakrafa stofnist þegar hin bótaskylda háttsemi eigi sér stað. Komi til þess að fallist verði á skaðabótakröfur sóknaraðila, telur varnaraðili að hluti þeirra sé ótækur til skuldajöfnuðar. Samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 sé réttur til skuldajöfnuðar háður því að kröfuhafi eignist kröfu til skuldajöfnuðar áður en þrír mánuðir séu til frestdags enda hafi krafa þrotabús á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Frestdagur slitameðferðar varnaraðila sé 15. nóvember 2008. Því sé ljóst að 1. dómkrafa sóknaraðila sé ekki tæk til skuldajöfnuðar, þar sem skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki uppfyllt.
Varnaraðili hafni hinni óljósu skuldajöfnuðarkröfu sóknaraðila. Svo hægt sé að taka efnislega afstöðu þurfi kröfur sóknaraðila að vera ljósar, sem og staða krafna Íslandsbanka hf. á hendur sóknaraðila.
Gagnkrafa varnaraðila
Gagnkrafa varnaraðila byggist á því að við uppgjör framvirks samnings um verðbréfaviðskipti með auðkenninu FS07121250, sem gerður var árið 2008, hafi tap sóknaraðila numið 23.498.315 kr. Sem hluta af uppgjöri þess taps, hafi sóknaraðili og Glitnir banki gert með sér samning um gjaldeyrisstýringu. Framlag sóknaraðila til þeirra fjárfestinga hafi numið 22.000.000 kr., sbr. 1. gr. samningsins, sem nýttist til lækkunar á tapi hans við uppgjör framangreinds framvirks samnings. Viðskiptum á grundvelli samnings um gjaldeyrisstýringu hafi lokið í október 2008 og tap sóknaraðila þá numið 103.600.000 kr. Samkvæmt 8. gr. samningsins takmarkaðist tap hans við framlag hans til fjárfestingarinnar.
Með bréfi 20. nóvember 2009 hafi varnaraðili krafist þess að sóknaraðili greiddi sér 22.000.000 kr. vegna samnings um gjaldeyrisstýringu og 1.498.315 kr., vegna eftirstöðva uppgjörs framvirka samningsins. Krafa varnaraðila hafi þá samtals numið 23.498.315 kr. Varnaraðili hafi innleyst fyrirliggjandi tryggingar að fjárhæð 21.257.859 kr. samkvæmt heimild í handveðsyfirlýsingu, dags. 19. september 2007, og ráðstafað til lækkunar á skuld sóknaraðila. Þeim fjármunum hafi fyrst verið ráðstafað inn á áfallna dráttarvexti og svo á ógreiddan höfuðstól. Að öðru leyti vísar varnaraðili til þeirra röksemda sem hann færði fram vegna samnings um framvirk verðbréfaviðskipti og gjaldeyrisviðskipti.
Varnaraðili krefjist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá og með þeim degi þegar liðinn var mánuður frá því að hann sannanlega krafði sóknaraðila með réttu um greiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga. Innheimtubréf varnaraðila sé dagsett 20. nóvember 2009 og því upphafsdagur dráttarvaxta miðaður við 20. desember 2009.
Heimild sína til að gera gagnkröfu reisir varnaraðili á 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. tölulið 173. gr. sömu laga. Gagnkrafan sé komin til vegna skuldar sóknaraðila við Glitni banka samkvæmt framvirkum samningi og samningi um gjaldeyrisstýringu sem í gildi voru á milli málsaðila.
Lagarök
Varnaraðili vísar til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti (brottfallin), laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti (brottfallin), laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga, skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi, almennra reglna skaðabótaréttar um skilyrði skaðabótaábyrgðar, um sönnun og sönnunarbyrði, um orsakatengsl og sennilega afleiðingu og reglna um eigin sök og skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki vísar hann til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
Niðurstaða
Sóknaraðili, Þorsteinn Hjaltested, eignaðist í febrúar 2007 talsvert fé. Vegna reynsluleysis af meðferð mikilla fjármuna ákvað hann að nýta sér sérfræðiþekkingu Glitnis banka í þeim efnum og gerði samning um einkabankaþjónustu við þann banka. Bankinn, sem er varnaraðili og heitir nú Glitnir hf. var tekinn til slita vorið 2009. Sóknaraðili telur sig eiga fjárkröfu við slit hans.
Áður en afstaða er tekin til fjárkrafna sóknaraðila þarf að taka afstöðu til þess hvort þeir gerningar, sem hann leiðir þessar fjárkröfur af, hafi verið gerðir þannig að í bága færi annars vegar við einkabankasamning sem var grundvöllur þess að bankinn gat ráðstafað fjármunum sóknaraðila og hins vegar við þær lögboðnu verklagsreglur sem starfsmönnum Glitnis banka bar að fara eftir. Til skoðunar koma einkum fjórir gerningar: fasteignaverkefni í Berlín, í öðru lagi fjármagnað, afleiðutengt skuldabréf og í framhaldi af því gjaldeyrisstýring, og í fjórða lagi lán í erlendum myntum sem tryggt var með veði í eignasafni sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna gáleysislegra vinnubragða starfsmanna Glitnis banka. Hann hafi keypt fjármálaráðgjöf af þeim banka og hafi einkum tveir fjármálasérfræðingar bankans verið honum til ráðgjafar. Samningur hans við bankann um einkabankaþjónustu rammi inn þau verkefni sem sérfræðingarnir hafi mátt inna af hendi. Viðmið fyrir það hvernig þeim bar að inna þjónustu sína af hendi séu lögð í lögum nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti sem giltu allt fram til 1. nóvember 2007, lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti sem þá tóku gildi, MiFID-reglum sem átti að leiða í lög með lögum nr. 108/2007, lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki svo og CESR-reglum um vernd fjárfesta. Enn fremur telur hann vísireglur um fagleg vinnubrögð þeirra í lögum nr. 121/1994 um neytendalán.
Áður en metið er hvort þeir fjármálasérfræðingar bankans, sem seldu sóknaraðila sérþekkingu sína og reynslu hafi við það verkefni valdið honum tjóni þarf að árétta nokkur atriði sem eru óumdeild og taka afstöðu til nokkurra almennra umdeildra atriða.
Starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis banka hringdi í sóknaraðila þegar fréttist að hann hefði auðgast skyndilega og boðaði hann á fund. Á þennan fyrsta fund með starfsmönnum Glitnis, 19. febrúar 2007, tók sóknaraðili með sér lögmann sinn. Starfsmaður bankans, sem varð fyrri þjónustufulltrúi sóknaraðila, Hörður Guðmundsson, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann bar að lögmaðurinn hefði tekið fram að sóknaraðili hefði ekki mikið vit á fjármálum og hann þyrfti ráðgjafa sér við hlið. Starfsmaðurinn bar einnig að hann hefði áttað sig á því sóknaraðili gæti ekki meðtekið flóknari gerninga nema eftir talsverðar útskýringar. Síðar í framburði sínum bar hann að vegna flóknari fjármálagerninga hefði sóknaraðili þurft að reiða sig á fjármálaráðgjafa.
Á þessum fundi kom einnig fram að sóknaraðili hefði ekki tölvupóstaðgang og kynni ekki á tölvur.
Sóknaraðili var almennur fjárfestir en ekki fagfjárfestir. Sú fjárfestingarstefna sem hann valdi og undirritaði 19. febrúar 2007 var að fé hans yrði einvörðungu ráðstafað í skuldabréf og laust fé. Þar sem ekki stóð til að hann tæki lán hjá bankanum, stundaði gjaldeyrisviðskipti, afleiðuviðskipti eða keypti og seldi verðbréf, var ekki ritað undir Almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf. á þessum fundi. Þessari fjárfestingarstefnu var aldrei breytt.
Varnaraðili lítur á lögmann sóknaraðila sem umboðsmann hans, sem hafi komið fram fyrir hans hönd gagnvart bankanum og hafi hann, í einhverjum tilvikum, skuldbundið sóknaraðila í orði eða verki.
Á þessum fundi afhenti sóknaraðili bankanum ekki það umboð sem hann hafði veitt lögmanni sínum. Þegar starfsmaður bankans spurðist fyrir um það í tölvuskeyti til lögmannsins einu og hálfu ári síðar, 3. september 2008, hvort hann hefði umboð þar sem ekki næðist í sóknaraðila en áríðandi væri að tiltekin skjöl yrðu undirrituð hafði bankinn ekki umboðið. Lögmaðurinn afhenti bankanum hvorki umboð á þeim fundi, sem hann fór á með sóknaraðila, né síðar á þeim tíma sem bankinn starfaði sem viðskiptabanki. Lögmaðurinn bar að hann hefði hugsanlega afhent varnaraðila það umboð sem varnaraðili lagði fram í málinu þegar hann, lögmaðurinn, eftir bankahrunið, hefði þurft að afla gagna vegna þessa máls til þess að sanna að honum væri heimilt að afla upplýsinga um fjárhagsmálefni sóknaraðila.
Sjálfur leit sóknaraðili svo á að lögmaður hans hefði umboð til þess að gera samninga sem tengdust útleigu hans á landi.
Dómurinn telur ekki ótvírætt að í bréfi lögmannsins til starfsmanns bankans, 3. september 2008, sem svar við fyrirspurn hans teljist tilkynningarumboð í skilningi 13. gr. laga nr. 7/1936. Þótt svo væri verður ekki séð að lögmaðurinn hafi ritað undir nokkurt skjal sem varðar þá gerninga sem hér er deilt um eftir að bankanum barst þetta tölvuskeyti.
Lögmaður sóknaraðila undirritaði vissulega einkabankasamninginn. Á því voru gefnar skýringar. Þann samning staðfesti sóknaraðili einnig með upphafsstöfum sínum og það var hann sem gaf bankanum umboð til þess að ráðstafa þeim fjármunum sem hann afhenti bankanum þannig að þeir varðveittust og ávöxtuðust sem best.
Þar fyrir utan voru ekki gerðir neinir löggerningar eftir 3. september 2008 sem reynir á í þessu máli. Sóknaraðili ritaði undir samninga vegna Berlínarverkefnis 6. júní 2007, fjármagnað afleiðutengt skuldabréf (Straumsstrúktúr) 11. júní 2007, samningur um gjaldeyrisstýringu er dagsettur í byrjun ágúst 2007, lán var honum veitt í ágúst sem hann undirritaði 1. október 2007 og samningur um gjaldeyrisstýringu var undirritaður 7. ágúst 2008 eða síðar. Þótt lögmaður sóknaraðila hafi gert bankanum grein fyrir því, 3. september 2008, að hann hefði umboð frá sóknaraðila þykir það ekki geta haft neina þýðingu í málinu.
Dómurinn getur því ekki fallist á að bankinn hafi getað litið svo á að lögmaðurinn væri umboðsmaður sóknaraðila og með því að senda lögmanninum gögn í tölvupósti eða afhenda þau á skrifstofu hans hafi falist kynning sem jafnaðist á við að sóknaraðila hefði verið sent erindið eða að tiltekið verkefni eða fjármálagerningur hefði verið kynnt honum.
Sóknaraðili kvaðst, sérstaklega að því spurður, aldrei hafa ráðfært sig við lögmann sinn um neinn þeirra gerninga sem hér er fjallað um áður en hann hlýddi kalli bankans og fór þangað til þess að rita undir samninga um þá. Lögmaður sóknaraðila kvaðst ekki heldur hafa kynnt sóknaraðila neitt þeirra gagna sem bankinn sendi honum og síðar verður gerð grein fyrir. Af þeim sökum er ekki heldur fallist á að lögmaðurinn hafi verið sérlegur ráðgjafi sóknaraðila í fjármálum þótt hann hafi farið með honum á fyrsta fund í bankanum.
Þjónustufulltrúi sóknaraðila í Glitni banka gat því aldrei varpað yfir á lögmann sóknaraðila þeirri ábyrgð að meta hvort tiltekinn fjármálagerningur hentaði sóknaraðila enda liggur fyrir að lögmaðurinn hafði ekki neina þekkingu til að skilja þessa gerninga og taldi þekkingu og skilningi sóknaraðila á þessu sviði svo áfátt að honum bæri að kaupa sér aðgang að þekkingu sérfræðinga bankans fjármálum.
Dóminum þykir einnig nægjanlega í ljós leitt að lögmaður sóknaraðila hafi aldrei haft aðgang að netbanka hans og hafi því ekki á þann hátt getað skoðað öll verð-bréfaviðskipti sóknaraðila. Endurskoðandi sóknaraðila hafði hins vegar aðgang að þessum netbanka.
Þrátt fyrir að Glitnir banki hafi metið sóknaraðila sem almennan fjárfesti lítur varnaraðili svo á að hann hafi allnokkra reynslu og þekkingu á fjármálum. Það byggir varnaraðili fyrst á því hvernig MiFID-spurningalisti var fylltur út, en hann er dagsettur 21. maí 2008.
Í framburði vitnisins Hilmar Steinars Sigurðssonar, sem tók við sem einkabankafulltrúi sóknaraðila í september 2007 kom fram að vitnið hefði hakað við alla reitina í spurningalistanum þegar sóknaraðili kom í bankann og ritaði nafn sitt undir yfirlitið. Hann hafði því valið að sóknaraðili hefði miðlungsþekkingu á fjármálamarkaði af valmöguleikunum: engin, lítil, miðlungs eða mikil.
Alla þá gerninga sem þarna er merkt við höfðu starfsmenn Glitnis banka gert í nafni sóknaraðila á þeim 15 mánuðum sem þeir höfðu haft fjármuni hans í vörslu sinni. Þegar sóknaraðili ritaði undir þennan lista, 21. maí 2008, hafði þegar verið stofnað til allra þeirra gerninga sem þetta mál varðar nema samningsins um gjaldeyrisstýringuna.
Þetta skjal getur að mati dómsins ekki haft neina þýðingu í málinu, jafnvel þótt hakað hafi verið við að sóknaraðili hefði miðlungsgóða þekkingu á fjármálamarkaði og hann hafi ekki gert athugasemd við það áður en hann ritaði undir skjalið enda lagði hann mikið traust til starfsmanna bankans og hefur gert ráð fyrir að það sem þarna væri skráð væri rétt mat þeirra. Merking forskeytisins miðlungs- ræðst einnig alfarið af því viðmiði sem hver og einn leggur til grundvallar.
Varnaraðili vísar jafnframt til þess að sóknaraðili hafi stofnað fjölmörg óskráð félög og sé stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í þeim. Að mati dómsins verður ekki dregin af því nein ályktun um vit hans og reynslu af fjármálum eða af verðbréfaviðskiptum. Mýmörg dæmi sýna að fleiri en þeir sem hafa vit á fjármálum hafa stofnað félög og stýrt þeim. Jafnframt verður ekki dregin nein víðtæk ályktun af því sem kemur fram í þeim fáu símtölum sem til eru af samtölum sóknaraðila og fulltrúa hans í bankanum. Enn fremur bera verðbréfaviðskipti hans í Landsbankanum ekki vitni um mikla þekkingu á fjármálum.
Varnaraðili telur það þýðingarmikið að sóknaraðili ritaði undir alla þá gerninga sem hér er deilt um og hafi í sumum tilvikum staðfest með henni að hann skildi eðli og efni þeirra, áhættuna af þeim og að hann hefði notið ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga.
Sóknaraðili bar að þegar hann hefði verið kallaður í bankann til þess að rita undir samninga hafi honum verið kynnt efni þeirra lauslega og svo bent á hvar hann ætti að rita undir.
Fasteignaverkefni í Berlín
Þar sem símtöl þjónustufulltrúans Harðar við lögmann sóknaraðila virðast ekki hafa verið hljóðrituð eru ekki önnur gögn til um upphaf þess að fasteignaverkefnið ber á góma en tölvuskeyti sem þjónustufulltrúinn sendi lögmanninum 25. apríl 2007. Lögmaður sóknaraðila, sem bar vitni fyrir dóminum, bar að skömmu áður hefði sóknaraðili flutt tæpan helming fjármuna sinna frá Glitni til Landsbankans. Hafi þjónustufulltrúanum orðið órótt vegna þess þar sem þar með hefði horfið vænn spónn úr þóknanaaski einkabankaþjónustu Glitnis og hafi hann viljað bregðast við því. Þjónustufulltrúinn hafi borið sig upp við lögmanninn út af þessu í símtali og svo sent lögmanninum yfirlit yfir eignir sóknaraðila eins og þær stóðu 24. apríl 2007. Hafi lögmaðurinn í framhaldi af símtalinu ritað fulltrúanum bréf þar sem hann segir: „Komdu með tillögu þar sem 50% er óbreytt, 30% hófleg áhætta, 20% meiri áhætta (en enga vitleysu), væri fínt að fá sem fyrst.“
Í tölvupóstinum 25. apríl leggur fulltrúinn til breytta fjárfestingarstefnu sóknaraðila þar sem hann raðar einum milljarði af eign sóknaraðila niður á fjórar fjárfestingarleiðir. Hinni skriflegu fjárfestingarstefnu, sem sóknaraðili undirritaði 19. febrúar 2007 var þó ekki breytt af þessu tilefni og var hún óbreytt fram að því að viðskiptum sóknaraðila við Glitni banka var sjálfhætt vegna hruns bankans. Lögmaður hans bar fyrir dóminum að hann hefði aldrei rætt þessa tillögu að breyttri fjárfestingarstefnu við sóknaraðila og aldrei hafi komið til þess síðar að henni hefði verið breytt.
Í fjórða lið tillagna sinna segir fulltrúinn: „Hér sé ég fyrir mér að við gætum t.d. farið í erlend fasteignarverkefni. Við höfum farið með viðskiptamönnum okkar inn í gríðarlega spennandi og skemmtileg fasteignarverkefni víðsvegar um heiminn. Og fram til þessa hafa öll verkefni verið mjög vel heppnuð. Yfirleitt búum við til teymi með 3-8 fjárfestum sem fara með 30-100 millj. í hvert verkefni. ... Hér geri ég almennt ávöxtunarkröfu upp á 30%+ allt eftir verkefnum hverju sinni.
Ég er að fara með 6-8 manna hóp fjárfesta í umbreytingarverkefni í Berlín en þar ætlum við að ávöxtun (s.k. IRR þ.e. árleg ávöxtun eigin fjár) verði 100%.“
Þjónustufulltrúinn kom á stofu lögmannsins 27. apríl 2007 og afhenti honum kynningarbækling um verkefnið en fór ekki yfir hann með lögmanninum.
Þjónustufulltrúinn ritaði lögmanni sóknaraðila annan tölvupóst 7. maí 2007 og sagði ferðina til Berlínar hafa verið vel heppnaða. „Verkefnið lítur mjög vel út að mínu mati. Ég ætla að hitta fjárfestana ... þar sem við munum ræða málið nánar áður en menn skuldbinda sig endanlega. Ef annar hvor ykkar hefur tök á að mæta þá væri það gott en annars mun ég gæta hagsmuna Þorsteins.“
Fyrir dómi kom hvorki fram að lögmaður sóknaraðila hefði rætt verkefnið við sóknaraðila né að sóknaraðili hefði ráðfært sig við lögmanninn.
Sóknaraðili kvað starfsmann bankans hafa boðað hann á fund til að kynna honum áhugavert fjárfestingartækifæri í húsnæði í Berlín. Þar sem fjárfestingin hafi verið í húsnæði hafi hún verið talin mjög örugg. Það hafi verið kynnt þannig að um tíu fjárfestar ættu að leggja til fé en bankinn hafi ætlað að sjá um verkefnið. Aldrei hafi verið nefnt að fjárfestarnir ættu sjálfir að stýra verkefninu enda hefði hann þá aldrei tekið þátt í því. Hann hafi staðið í þeirri trú að hann væri að kaupa húsnæði en ekki að fara út í byggingarframkvæmdir.
Fyrri þjónustufulltrúi sóknaraðila, Hörður, bar að einungis hefði verið gert ráð fyrir því að fjárfestarnir legðu fram fé sem þeir fengu endurgreitt í nokkrum skerfum á næstkomandi tólf mánuðum og að sá síðasti bærist 1. október 2008. Ekki hafi heldur verið gert ráð fyrir því að þeir þyrftu að vita neitt um byggingarframkvæmdir eða fara til Berlínar og vakta verkefnið eða taka nokkurn þátt í því.
Hann bar að honum hafi ekki fundist umsjónaraðilarnir í Þýskalandi, Kapital North, standa sig og enn fremur hafi verktakinn sem það félag réði til verksins, R.E.D. Berlin, ekki verið traustsins verður.
Ytri umbúnaður verkefnisins var í reynd sá að íslensku fjárfestarnir, sem voru í einkabankaþjónustu hjá Glitni keyptu 80% hlutafjár í félagi, Berlice ehf., sem félagið Kapital North ehf. hafði stofnað og eigendur þess áttu 20% í. Það félag átti félag Þýskalandi, 1. Berlice GmbH. Það félag átti þá fasteign sem hér er rætt um, Blücherstrasse 32, íbúðarhús með 36 íbúðum og þremur verslunarrýmum, þar sem átti að vera 3.100 fm. gólfflötur á fimm hæðum og iðnaðarhúsnæði á baklóð, Blücherstrasse 31a, þar sem átti að vera ríflega 8.000 fm. gólfflötur á fimm hæðum.
Einn fjárfestanna, vitnið Sigurjón Sigurðsson, sem sat í stjórn Berlice ehf. bar að selja hafi átt íbúðirnar í íbúðarhúsinu á næstkomandi tólf mánuðum og þannig hafi fjárfestarnir átt að fá eigið fé endurgreitt á þeim tíma. Ávöxtunin hafi átt að koma af sölu íbúða í iðnaðarhúsnæðinu, eftir að það hefði verið innréttað, og hafi sú ávöxtun átt að berast á næstu tveimur árum þar á eftir.
Sóknaraðila minnti að hann hefði setið fund í höfuðstöðvum Glitnis þar sem farið hefði verið yfir glærukynningu. Ekki liggur fyrir hvernig sú glærukynning var eða hverjum hún var merkt, Glitni, Kaptial North eða báðum. Sú glærukynning sem lögð er fram í málinu er þó ekki sú sem þar var kynnt því vitnið Sigurjón kvaðst aldrei hafa séð það skjal áður. Það skjal ber þess nokkur merki að vera kynning fyrir starfsmenn bankans, þótt ekki verði um það fullyrt.
Í því skjali er nefnd þóknun einkabankaþjónustunnar (Fee to Glitnir PB) en þá þóknun kvaðst vitnið ekki hafa vitað um fyrr en eftir hrun bankans í október 2008. Jafnframt hafi hann aldrei séð, eins og þarna komi fram, að kaupverðið hefði í reynd verið 6.250.000 evrur heldur hafi það, í þeim gögnum sem honum voru sýnd, verið tilgreint 7.140.000 evrur sem var í reynd kaupverðið að viðbættum þóknunum og kostnaði.
Í þessu kynningarefni á glærum segir í kaflanum Sundurliðun á kaupvirði og þóknunum: „Fee to Glitnir PB, 400.000 , All contracts, DD-legal, LOI.“ Af þessum texta verður ekki annað ráðið en að sú þóknun sem einkabankaþjónusta Glitnis tók hafi meðal annars átt að standa straum af lagalegri áreiðanleikakönnun sem fór fram í Þýskalandi. Hin lagalega áreiðanleika könnun stóð ekki undir nafni því í ljós kom að á félaginu 1. Berlice GmbH hvíldi skattskuld.
Í svari við þeirri kröfu Berlice ehf. að Kapital North greiddi skattskuldina segir lögmaður þess félags að þessi skattskuld sé komin til vegna alvarlegra mistaka Dr. Martins Heller, þýsks lögmanns sem hafi unnið áreiðanleikakönnun vegna verkefnis á lóð við Blücherstrasse að beiðni Glitnis banka.
Þjónustufulltrúi sóknaraðila, Hörður, sendi Norbert Lehmann, á arkitektastofunni Artus GmbH í Berlín tölvupóst, 9. mars 2007, og óskaði tilboðs í tæknilega áreiðanleikakönnun. Hann bað arkitektinn að ráða því hversu víðtæk könnunin yrði, teldi hann hana þurfa að vera víðtækari en Kapital North ráðgerði. Í áreiðanleikakönnuninni er tekið fram að arkitektastofan hafi verið ráðin af einkabankaþjónustu Glitnis banka.
Sóknaraðili bar jafnframt að þegar honum hafi verið kynnt verkefnið hafi ekki verið nefnt að fjárfestarnir ættu að gangast persónulega í ábyrgð fyrir láni til viðbótar sínu eigin fjárframlagi. Þetta staðfesti vitnið Sigurjón. Á þá ábyrgð hefði ekki verið minnst fyrr en nokkrum vikum eftir að allir fjárfestarnir hefðu verið skuldbundnir. Í tölvupósti starfsmanna Glitnis banka sín í milli 11. maí 2007 er nefnt hvort tryggingin geti verið veð í hlutabréfunum í Berlice ehf.
Vitnið Hörður, fyrri þjónustufulltrúi sóknaraðila hjá Glitni banka, bar að fjárfestunum hefði ekki verið kynnt að þeir þyrftu að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna þeirra fjármuna sem bankinn ætlaði að veita inn í verkefnið með láni til Berlice ehf. Taldi hann þá hugmynd ekki hafa komið upp fyrr en örlað hafi á fjármálakreppu og erfiðara hafi verið að fá lánsfé í Þýskalandi.
Vitnið Hilmar Steinar bar að sjálfskuldarábyrgðin hefði ekki verið kynnt í upphafi en fjárfestarnir hafi vitað af henni áður en þeir undirrituðu alla samningana 6. júní 2007. Sóknaraðili ritaði undir sína sjálfskuldarábyrgð 11. febrúar 2008.
Sóknaraðili bar að auki að bankinn hefði aldrei varað hann við því að þetta verkefni væri áhættusamt. Þvert á móti hafi verið sagt að fjárfesting í húsnæði væri mjög trygg. Í framlagðri glærukynningu, hvort sem hún var kynnt einhverjum fjárfestanna eða einvörðungu til upplýsingar fyrir starfsmenn bankans segir í kaflanum Helstu niðurstöður: „Lítil áhætta hvað varðar höfuðstólstap, spurning um ávöxtun eigin fjár“.
Fjárfestarnir munu allir hafa ritað undir alla samninga sem vörðuðu verkefnið 6. eða 7. júní eða síðar. Fjárframlag sóknaraðila var tekið af reikningi hans 6. júní 2007. Öll skjöl tengd þessum gerningi voru send hluthöfum í tölvupósti daginn eftir. Þar sem sóknaraðili hafði ekki tölvupóstaðgang sendi þjónustufulltrúinn lögmanni hans þessi gögn í tölvupósti. Hann fékk þau ekki til yfirlestrar áður en sóknaraðili var bundinn af gerningunum.
Texti samninganna var, að sögn varnaraðila, saminn af KPMG. Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi ritað undir svofellda yfirlýsingu í fjárfestingarsamningnum:
Fjárfestar lýsa því jafnframt yfir að þeim er kunnugt um að fjárfesting í félaginu er áhættusöm vegna rekstraráhættu félagsins og að ekki verði virkur markaður með hluti í félaginu. Fjárfestingin er á eigin ábyrgð og áhættu fjárfesta. Fjárfestar hafa alfarið treyst á eigin ákvarðanatöku og treysta á engan hátt á ráðgjöf frá Glitni banka eða annarra aðila. Í samræmi við framangreint undanskilur Glitnir banki og tengd félög sig hver konar og allri ábyrgð á öllum verðsveiflum, tapi og/eða tjóni sem fjárfestar kunna að verða fyrir vegna fjárfestingarinnar.
Að mati dómsins sýnir þessi texti, þótt hann kunni að hafa verið saminn af KPMG, að Glitnir banki hafi haft hönd í bagga með gerð hans. Að mati dómsins hefur þessi texti þó ekki nein réttaráhrif í þessu máli þar sem hann er í fjárfestingarsamningi milli hluthafa í A-flokki, sem voru þeir tveir einstaklingar sem áttu Kaptial North ehf. og hluthafa í B-flokki, það er fjárfestanna tíu. Í samningnum skuldbundu þessir fjárfestar sig til þess að leggja fé í félagið Berlice ehf. á tilteknum gjalddögum, en Glitnir er ekki aðili að honum.
Í tölvupósti 7. maí 2007 til lögmanns sóknaraðila kvaðst Hörður einkabankafulltrúi sóknaraðila myndu gæta hagsmuna hans á fundi með fjárfestunum. Hann bar fyrir dómi að hann hafi komið fram gagnvart Kapital North eins og hann væri að vinna fyrir fjárfestana.
Hilmar síðari einkabankafulltrúi sóknaraðila sat nánast alla stjórnarfundi Berlice ehf. Vitnið Sigurjón, stjórnarmaður í Berlice ehf., bar að Hilmar hefði sagst sækja fundina fyrir sóknaraðila og annan hluthafa í félaginu, sem sjaldan sótti fundi.
Vitnið Sigurjón bar, eins og áður segir, að ekki hefði verið nefnt að bankinn myndi taka sér þóknun vegna þessa verkefnis umfram þá þóknun sem hann tók sér á grundvelli samningsins um einkabankaþjónustuna. Þetta hafi hluthöfunum í íslenska félaginu ekki verið sýnilegt þar sem reikningur vegna þóknunarinnar hafi verið sendur þýska félaginu 1. Berlice GmbH en um bókhald þess sá Kapital North.
Ekki hafi heldur komið fram við kynningu verkefnisins að bankinn hefði samið um það við Kapital North að hann myndi stuðla að því að fjárfestarnir gerðu samning við það félag um rekstur og utanumhald vegna fjárfestinganna. Jafnframt hafi ekki verið minnst á að af þeirri þóknun sem fjárfestarnir greiddu Kapital North ætti bankinn að fá þóknun (kick back).
Vitnið Sigurjón gerði dóminum grein fyrir þeim hrakningum sem fjárfestarnir hefðu lent í vegna verkefnisins. Það hafi stafað af því að hvorki tæknilega né lagalega áreiðanleikakönnunin hafi verið áreiðanlegar. Fullyrt hafi verið í gögnum að félagið 1. Berlice GmbH hefði ekki áður staðið í viðskiptum. Það hefði reynst rangt því í ljós hafi komið að félagið hefði átt aðra eign og afsalað henni til annars félags. Það afsal skilgreindi þýski skatturinn sem sölu fasteignar og lagði fasteignaskatt á félagið. Sú skattskuld hafi reynst þungur myllusteinn um háls verkefnisins og hluthafanna sem tróðu marvaðann með málaferlum við þýsk skattyfirvöld allt þar til þau viðurkenndu árið 2011 að félaginu bæri ekki að greiða þennan skatt.
Auk þess hafi, þegar leið á verkið, verið gerð krafa um mengunarúttekt sem ekki hafi verið getið um í lagalegu áreiðanleikakönnuninni. Einnig hafi komið í ljós að burðarþol í gólfum iðnaðarhúsnæðisins stæðist ekki kröfur og fleiri gallar í þeirri byggingu en það hefði tæknilega úttektin átt að sýna. Upplýsingar um seljanlegt flatarmál hafi ekki heldur staðist.
Fjárfestarnir hafi þurft að losa sig við Kapital North svo og byggingarverktakana sem það félag hafi ráðið, R.E.D. Berlin. Komið hafi í ljós að verktakarnir hafi misst þessa eign í gjaldþroti og hafi unnið að því hörðum höndum að koma 1. Berlice GmbH í gjaldþrot til þess að komast aftur yfir eignina. Hafi félagið oft staðið nærri þroti. Upplýsingar um fyrri eigendur og gjaldþrot þeirra svo og að þeir væru verktakarnir sem Kapital North hefði samið við hefði átt að koma fram í lagalegu áreiðanleikakönnuninni. Hún hafi verið unnin af lögmanni Glitnis banka, Dr. Martin Heller.
Efni kynningarheftisins sem þeim hafi verið afhent í upphafi hafi ekki heldur staðist. Þar hafi staðið að þannig hefði verið samið við verktakana, R.E.D. Berlin, að auðvelt yrði að losa sig við þá stæðust þeir ekki kröfur. Þegar að hafi verið gáð hafi staðið í samningi við þá að greiða þyrfti þeim skaðabætur ætti að víkja þeim af verkinu og það hafi kostað fjárfestana 1.200.000 evrur að losa sig við þá. Jafnframt hafi verið rangt greint frá mörgum öðrum atriðum í kynningarheftinu.
Vitnið bar enn fremur að þjónustufulltrúi hans í einkabankaþjónustu Glitnis, Hilmar Steinar, hefði séð um allt fyrir fjárfestana. Hann hefði ráðlagt þeim að ráða Kapital North til verksins og ráðið aðra sérfræðinga til verksins sem ekki hefði verið hlutverk Kaptital North að ráða. Það félag hafi átt að halda utan um alla þræði í Þýskalandi og hafi Hilmar verið í daglegum samskiptum við eigendur þess. Það hafi verið hluti af því loforði að fjárfestarnir ættu ekki að þurfa að hafa áhyggjur af neinu. Hlutverk stjórnar Berlice ehf. hafi verið að fylgjast með að framgangur væri eðlilegur og fá reglulega stöðumat. Eftir nokkra mánuði hafi komið í ljós að svona einfalt væri málið ekki. Fyrir áramót 2007 og 2008 hafi komið í ljós að Glitnir gæti ekki lánað þeim það fé sem hann hefði lofað að útvega.
Til þess að sú ákvörðun sóknaraðila að leggja fé í þetta uppbyggingarverkefni teldist upplýst fjárfestingarákvörðun hefði sóknaraðili þurft að vita a) að bankinn mátti ekki bjóða honum hlutabréf í Berlice ehf. til kaups án þess að meta þekkingu og reynslu hans nema sóknaraðili sækti um það skriflega að fá að kaupa þau, b) að bankinn myndi áskilja sér tryggingu fyrir greiðslu þeirra fjármuna sem hann hugðist lána Berlice ehf. í verkefnið svo og að sú trygging ætti að vera sjálfskuldarábyrgð fjárfestanna en t.d. ekki veð í hlutabréfunum í Berlice, c) að Glitnir hafði tvöfaldan fjárhagslegan ávinning af því að fá fjárfesta að verkefninu, annars vegar með þóknun frá fjárfestunum og hins vegar með hlutdeild í þeirri þóknun sem þeir greiddu Kapital North. Auk þess hefði sóknaraðili þurft að átta sig á því d) að hann var ekki að kaupa húseign í Berlín heldur leggja fé í endurbætur á húseign og e) vekja hefði þurft athygli hans á þeirri áhættu sem fælist í verkefni sem þessu. Þessu til viðbótar hefði f) upplýsingabæklingurinn frá Kapital North þurft að vera réttur, g) lagalega áreiðanleikakönnunina þurft að vera fullnægjandi, svo sem meðal annars að á félaginu hvíldi skattskuld, h) tæknilega áreiðanleikakönnunin þurft að vera fullnægjandi, og i) þurft hefði að liggja fyrir úttekt á Kapital North, reynslu, þekkingu og getu þeirra sem að því stóðu. Þar fyrir utan hefði Glitnir þurft j) að greina fjárfestunum frá því að hann hefði samið við Kapital North um það að bankinn myndi stuðla að því að fjárfestarnir gerðu samning við Kapital North um rekstur og utanumhald vegna fjárfestinganna.
Síðast en ekki síst hefðu starfsmenn bankans þurft k) að fara vandlega yfir rétta lagalega og tæknilega áreiðanleikakönnun, ásamt úttekt á Kapital North svo og vönduðu kynningarefni um verkefnið með sóknaraðila þannig að ekki væri vafi á því að hann gerði sér til fullnustu grein fyrir því.
Varnaraðili vísar til þess að engin gögn bendi til þess að fasteignaverkefnið hafi verið á vegum Glitnis banka og því geti varnaraðili sem leiðir rétt sinn og skyldur frá þeim banka ekki borið ábyrgð á meintu tjóni sóknaraðila.
Að mati dómsins nægir að allt það sem starfsmenn bankans áttu að tryggja að sóknaraðili áttaði sig til fullnustu á og varðaði þá fjárhagslegu skuldbindingu sem hann tók á sig var ýmist rangt, villandi eða ófullnægjandi.
Þannig var rangt að fjárfestarnir ættu einungis að leggja fram fé og bíða svo rólegir þar til afrakstur fjárfestingarinnar skilaði sér í þremur skerfum, þeim síðasta 1. október 2008. Það var einnig rangt að bankinn myndi ekki áskilja sér neina tryggingu frá fjárfestunum vegna þeirra fjármuna sem bankinn hugðist leggja í verkefnið. Það var einnig rangt það verð sem var gefið upp (7.140.000 ) þar sem ekki var gerður greinarmunur á kaupverði hússins (6.250.000 ) annars vegar og hins vegar þeim fjármunum sem greiða þurfti í Þýskalandi vegna þinglýsingar og söluskatts svo og þeirra þóknana sem bankinn áskildi sér af fjárfestunum á annan bóginn (í upphafi áætlað 871.250 ) og hinn bóginn hlutdeildar (kick back) í þeirri þóknun sem fjárfestarnir greiddu Kapital North fyrir að bjóða fram verkefnið (finders fee).
Það var villandi að bjóða sóknaraðila að fjárfesta í óskráðum verðbréfum án þess að gera honum grein fyrir því að í reynd þyrfti að meta sérstaklega þekkingu hans og reynslu því með því að bjóða honum bréfin til kaups væri ella brotið gegn samningnum um einkabankaþjónustu nema hann sækti sjálfur skriflega um að fá að víkja frá þeim samningi. Það var villandi að kynna þetta sem mjög áreiðanlega fjárfestingu í stað þess að benda á þá áhættu sem í verkefninu gæti falist.
Það var ófullnægjandi að geta ekki þeirra a.m.k. tvíþættu fjárhagslegu hagsmuna sem bankinn hafði af því að fá fjárfesta til verkefnisins. Það var einnig ófullnægjandi að geta þess ekki að bankinn hefði lofað Kapital North því í samstarfssamningi þeirra að hann myndi stuðla að því að fjárfestarnir gerðu samning við félagið um rekstur og utanumhald vegna fjárfestinganna.
Fram til 1. nóvember 2003 giltu ákvæði laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti um það hvernig góður og gegn bankamaður seldi verðbréf. Með þessu verklagi sínu fylgdu starfsmenn Glitnis banka ekki fyrirmælum 8. gr. laganna um sölu óskráðra verðbréfa þar sem þeir buðu almennum fjárfesti þau til kaups án þess að gæta fyrirmæla ákvæðisins. Jafnframt fylgdu þeir ekki neinum fyrirmælum 5. gr. um skyldu til að veita réttar og fullnægjandi upplýsingar. Að auki samrýmdist þetta verklag ekki fyrirmælum 4. gr. laganna um góða viðskiptavenju.
Allt þetta hafði þýðingu fyrir sóknaraðila og gaf honum rangar hugmyndir um fjárfestinguna en þó einkum og sér í lagi að það væri á hans færi að fara í slíka fjárfestingu, að hann þyrfti einvörðungu að leggja leggja fram fé í upphafi en að öðru leyti yrði séð um málið fyrir hann og hann gæti sinnt sínum hugðarefnum þar til framlag hans skilaði sér þegar eignarhlutir í verkefninu yrðu seldir.
Að mati dómsins nægir þetta til þess að fallast megi á það að vegna gáleysislegra vinnubragða starfsmanna Glitnis, sem sóknaraðili hafði óumdeilanlega mikla trú á og taldi að réðu honum heilt, hafi hann ekki tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun þegar hann ritaði undir samningana í júní 2007. Dómurinn telur að sýnt sé að hann hefði ekki gengið til þessara samninga hefði hann áttað sig til fullnustu á þessum atriðum og að tjón hans vegna þessa verði rakið til ófullnægjandi vinnubragða starfsmanna bankans.
Þarf þá ekki sérstaklega að taka afstöðu til þess að hvaða marki verkefnið hafi verið á vegum Glitnis banka og grundvallast á sérþekkingu starfsmanna hans á fasteignaverkefnum erlendis og tengslum þeirra við Kapital North og R.E.D. Berlin, þátttöku bankans í stofnun 1. Berlice GmbH og samstarfi við lögmanninn Dr. Martin Heller, svo og hverju það varðar að starfsmenn bankans hafi gagnrýnislaust kokgleypt fagurgalann í Kaptial North og endurflutt hann fyrir fjárfestana.
Varnaraðili ber því við að krafa sóknaraðila sé fallin niður fyrir tómlæti þar sem hann hafi ekki gert neinar athugasemdir fyrr en með kröfulýsingu. Þegar sóknaraðila var boðin þessi fjárfesting var honum kynnt að hann ætti einungis að leggja fram fé og fá afraksturinn að liðnum 10-15 mánuðum. Honum var kynnt að ekki væri gert ráð fyrir því að fjárfestarnir þyrftu að skipta sér neitt af framgangi verksins. Frá upphafi var því ekki gert ráð fyrir að sóknaraðili þyrfti að hafa nein afskipti af málinu. Þar fyrir utan kemur fram í gögnum í fyrsta lagi að Hörður starfsmaður bankans hygðist gæta hagsmuna sóknaraðila á fundum með Kapital North. Í öðru lagi sat Hilmar starfsmaður bankans nánast alla stjórnarfundi í Berlice ehf. og bar vitið Sigurjón, sem var stjórnarmaður í því félagi, að vitnið Hilmar Steinar hefði sagst sækja fundina einnig fyrir sóknaraðila sem og annan hluthafa sem ekki kom á þá. Stóð Hilmari því nær að gera sóknaraðila grein fyrir framvindu verksins og þeim snurðum sem hlupu á þráðinn heldur en sóknaraðila að gera athugasemdir við það sem honum hafði verið kynnt að hann ætti ekki að hafa áhyggjur af.
Sóknaraðili seldi sína hlutdeild í verkefninu á hálfvirði. Jafnframt var varnaraðila boðið, 9. júlí 2012, að kaupa hans hlutdeild á því verði en því boði hafnaði varnaraðili. Því verður ekki fallist á það með varnaraðila að sóknaraðili hafi dregið það fram yfir þann tíma að verkefnið varð verðlaust að bera fyrir sig að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna sakar starfsmanna bankans. Krafa sóknaraðila er því ekki fallin niður fyrir tómlæti.
Fjármagnað, afleiðutengt skuldabréf (Straumsstrúktúr)
Einkabankafulltrúi sóknaraðila sendi lögmanni hans tölvupóst 6. júní 2007. Í viðhengi var einblöðungur þar sem veitt var gróft yfirlit yfir fjármálagerning sem nefndur var Fjármagnað, afleiðutengt skuldabréf. Í tölvupóstinum segir bankafulltrúinn: „Mig langar að kaupa 100 millj. í þessum strúktúr fyrir Þorstein. Tapsáhætta er mjög takmörkuð en ávöxtun tengist gengi bréfa í Straumi. Til tryggingar kaupunum liggja 6 millj. ISK. Þetta hentar mjög vel fyrir Þorstein að mínu mati. Þarf að loka þessu í fyrramálið þannig að ég slæ á þig og tek stöðuna með þér.“
Lögmaður sóknaraðila gaf skýrslu sem vitni fyrir dóminum. Hann bar að hann og einkabankafulltrúi sóknaraðila á þessum tíma, Hörður, hafi ræðst við í síma eftir að lögmaðurinn fékk tölvupóstinn. Hafi lögmaðurinn sagt fulltrúanum að þar sem hann væri fjármálaráðgjafi sóknaraðila yrði hann að meta það sjálfur hvort þessi gerningur væri við hæfi sóknaraðila eða ekki. Sjálfur hefði lögmaðurinn hvorki skilning né þekkingu til að meta það sem borið væri undir hann.
Hvorki þetta símtal né önnur þeirra í milli voru hljóðrituð en þeir stóðu þó báðir í þeirri trú að það væri gert.
Sóknaraðili kannaðist við undirritun sína á samning um framvirk verðbréfaviðskipti dagsettan 11. júní 2007 og annan gerðan 11. desember 2007. Að öðru leyti mundi hann ekki eftir neinu í sambandi við þessi viðskipti. Þetta væru skjöl frá bankanum sem hann hefði verið kallaður í bankann til að rita undir. Hann kvaðst ekki vita hvað afleiða væri.
Á því skjali sem hann ritaði undir 11. júní 2007 er ekki nein viðvörun um áhættuna af þessum viðskiptum. Samkvæmt framburði dómkvadds matsmanns, Grétars Elíasar Finnssonar, er áhættan þreföld. Hann bar að bréfið væri þannig upp byggt að kreditáhættan réðist af gengi SPRON. Sá banki hefði því ekki mátt falla þar sem hann greiddi skuldabréfið. Gengi hlutabréfa Straums hefði ekki mátt falla því að þá hefði ávöxtun kaupandans horfið en ávöxtunin yrði að vera fyrir hendi til þess að kaupandinn gæti greitt vextina af framvirka samningnum sem greiddi fyrir kaupin af afleiðunni.
Einkabankafulltrúi sóknaraðila, Hörður, bar að hann hefði örugglega ekki rætt mikið við sóknaraðila um fjármagnaða, afleiðutengda skuldabréfið og örugglega ekki djúpt. Hann hafði þó áður borið að hann hefði áttað sig á því að sóknaraðili bæri ekki meira skynbragð en svo á fjármál að vegna flóknari gerninga þyrfti hann talsverðar útskýringar. Síðar í vitnisburði sínum bar hann að vegna flóknari fjármálagerninga hefði sóknaraðili þurft að reiða sig á fjármálaráðgjafa.
Þetta fjármagnaða, afleiðutengda skuldabréf er ekki skráð verðbréf. Samkvæmt 4. gr. einkabankasamningsins, sem sóknaraðili gerði við Glitni banka 19. febrúar 2007, gátu einungis fagfjárfestar óskað eftir því að eiga viðskipti með óskráð verðbréf á grundvelli samningsins og bar þeim þá að óska þess skriflega við bankann.
Að mati dómsins er nægjanlega leitt í ljós að sóknaraðili óskaði ekki eftir því að kaupa þetta verðbréf heldur var það hugmynd bankans að fjármunum hans væri vel ráðstafað þar.
Varnaraðili telur að sóknaraðila hafi ekki verið óheimilt að kaupa óskráð verðbréf á grundvelli ráðgjafarahluta einkabankasamningsins einungs eignastýringarhluta hans.
Þrátt fyrir að tilgreint sé í samningum að hann varði fjárvörslu, eignastýringu og ráðgjöf getur dómurinn ekki fallist á að hægt sé að vinna eftir honum í aðskildum hólfum eins og hann væri þrír sjálfstæðir samningar og ákvæði einnar greinar, þar sem sérstök skilyrði eru sett fyrir því að selja megi almennum fjárfesti óskráð verðbréf, hafi enga þýðingu þegar ákvæði annarrar greinar séu lesin og skýrð. Ekkert í samningnum gefur tilefni til slíkrar skapandi túlkunar.
Eins og fram er komið telur dómurinn að bankinn hafi hvorki haft ástæðu til að álykta að lögmaður sóknaraðila væri ráðgjafi hans í fjármálum né hefði umboð til þess að ákveða hvaða leiðir skyldi fara til þess að varðveita og ávaxta fjármuni sóknaraðila. Þar fyrir utan liggur ekkert fyrir um það að hann hafi samþykkt þessa ráðstöfun bankans en eins og áður segir voru ekki hljóðrituð þau símtöl þar sem þjónustufulltrúi sóknaraðila hringdi í lögmann hans.
Eins og áður er greint giltu á þessum tíma og fram til 1. nóvember 2007 lög nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti um þessi viðskipti sóknaraðila og bankans. Samkvæmt 8. gr. þeirra var sala fjármálafyrirtækis eða milliganga þess um sölu á óskráðum verðbréfum til annarra en fagfjárfesta, sem hvorki væru seld í almennu útboði né féllu undir 28. gr. laganna háð því að lagt hefði verið mat á faglega þekkingu, fjárhag og reynslu viðskiptavinar, enda væri ekki um að ræða sölu eða milligöngu í almennu útboði verðbréfa. Sama gilti um sölu fjármálafyrirtækis eða milligöngu þess um sölu á afleiðum sem tengdar væru einu eða fleiri óskráðum verðbréfum. Í slíkum tilfellum var fjármálafyrirtæki heimilt að synja um milligöngu með slíka fjármálagerninga teldi það viðskiptavin ekki búa yfir nægjanlegri þekkingu, reynslu eða fjárhagslegum styrk.
Á þessum tíma voru liðnir tæpir fjórir mánuðir frá því að sóknaraðili gerði einkabankasamning við Glitni banka og um fimm mánuðir frá því að hann fékk mikla fjármuni í hendurnar en fram að þeim tíma hafði hann ekki haft mikið fé handa á milli og aldrei fengist við pappírsviðskipti, svo notuð séu hans eigin orð.
Það er alkunna að menn fá ekki fjármálavit við það eitt að eignast fé. Þau viðskipti sem sóknaraðili hafði gert á þessum fáu mánuðum og eiga, að mati varnaraðila, að leggja grunninn að þekkingu hans höfðu starfsmenn bankans gert fyrir hann á grundvelli þess umboðs sem hann veitti þeim í samningnum um einkabankaþjónustu.
Það samningsskjal, sem sóknaraðili undirritaði 11. júní 2007, er einblöðungur með, vægast sagt, afar rýrum texta. Þar er ekki fyrirvari þess efnis að viðskiptamaður hafi kynnt sér eðli framvirkra samninga eða geri sér grein fyrir þeirri áhættu sem í þeim felist. Þessi samningur, FS 07061238, rann út 11. desember 2007. Þann dag ritaði sóknaraðili undir annan samning um framvirk verðbréfaviðskipti, FS 07121250, sem jafnframt var á einblöðungi. Sá samningur gilti til 7. júlí 2008. Textinn hafði aukist lítillega og bætt hafði verið við svohljóðandi fyrirvara:
Auk þeirra skilmála sem fram koma í samningi þessum gilda um viðskiptin almennir skilmálar Glitnis banka hf. vegna markaðsviðskipta sem viðskiptamaður hefur kynnt sér og undirritað. ... Jafnframt staðfesta samningaaðilar að hafa kynnt sér eðli framvirkra verðbréfasamninga og hafa hvor í sínu lagi tekið ákvörðun á eigin forsendum um að gangast undir samning þennan. Aðilar lýsa því einnig yfir að hvorugur þeirra hafi, vegna samnings þessa, notið eða reitt sig á ráðgjöf hins.
Áður en sóknaraðili ritaði undir síðari samninginn, 11. desember 2007, hafði hann, 23. október 2007, ritað undir almenna skilmála vegna markaðsviðskipta Glitnis banka hf. Samkvæmt texta þeirra var þeim ætlað að árétta að viðskiptamaður hefði gert sér grein fyrir eðli þeirra samninga sem féllu undir skilmálana og þeirri áhættu sem þeim fylgdi. Í sérstakri grein skilmálanna þar sem bankinn lýsir yfir ábyrgðarleysi sínu á ráðgjöf starfsmanna sinna segir að með undirritun sinni á skilmálana lýsi viðskiptamaður því yfir að honum sé ljóst að þau viðskipti sem hann kunni að eiga við markaðsviðskipti bankans geti verið sérstaklega áhættusöm.
Líta verður á síðari samninginn sem framlengingu þess fyrri. Á gjalddaga framlengingarinnar, 7. júlí 2008, nam tap af samningnum 23.498.315 kr. Sóknaraðili undirritaði uppgjörsblaðið. Þar er fyrirvari þar sem hann staðfestir að hann hafi kynnt sér eðli framvirkra verðbréfasamninga og notið sérfræðiráðgjafar utan bankans áður en hann undirritaði samninginn.
Sóknaraðili ræddi þessi viðskipti ekki við lögmann sinn og lögmaðurinn ræddi þau ekki heldur við sóknaraðila. Eins og áður greinir taldi þjónustufulltrúi sóknaraðila, Hörður, sig ekki hafa farið djúpt í samninginn með sóknaraðila enda hefði væntanlega þurft til þess mjög langan fund.
Þegar litið er til þeirra flóknu forsendna sem þessi samningur er fléttaður úr þykir ekki neinum vafa undirorpið að sóknaraðili áttaði sig ekki á því þegar hann ritaði undir fyrsta samningsskjalið hvaða áhætta fólst í honum enda liggur fyrir að hann var lítið sem ekkert útskýrður fyrir honum.
Skilningur sóknaraðila jókst ekkert fram að því að framlengja þurfti samninginn. Að mati dómsins skiptir ekki máli þótt þá hafi þeirri viðvörun, sem áður er getið, verið bætt inn í texta samningsins. Þegar grunnurinn var lagður að gerð þessa samnings, 11. júní 2007, voru ekki neinar viðvaranir í texta samningsins. Af sömu sökum þykir ekki hafa þýðingu sá fyrirvari sem er í uppgjörsblaðinu.
Sóknaraðili telur að með því að selja honum þetta fjármagnaða, afleiðutengda skuldabréf hafi starfsmenn bankans hvorki fylgt fyrirmælum 8. gr. laga nr. 33/2003, né 5. gr. né 4. gr.
Efni 8. gr. laganna var rakið framar í textanum og liggur fyrir að starfsmenn bankans fylgdu ekki fyrirmælum ákvæðisins. Einnig er ljóst að fyrirmælum 5. gr. var ekki fylgt. Jafnframt felst dómurinn á það að þessi vinnubrögð samrýmist ekki 4. gr. laganna um góða viðskiptavenju.
Ekkert er komið fram um það að sóknaraðili hefði keypt þetta verðbréf hefði starfsmaður bankans ekki mælt með því við hann enda hefði sóknaraðili væntanlega ella ekki vitað af því að markaðsviðskiptadeild bankans hefði hannað slíkan gerning enda aðeins almennur fjárfestir og hlýðinn, en ekki afskiptasamur, viðskiptavinur. Það tjón sem hann varð fyrir vegna taps af þessum samningi verður því rakið til gáleysislegra vinnubragða starfsmanna bankans.
Gjaldeyrisstýring
Það eina sem til er um upphaf þess að starfsmenn bankans fóru í gjaldeyrisstýringu í nafni sóknaraðila er tölvuskeyti sem starfmaður markaðsviðskiptadeildar bankans, Guðmundur Magnús Daðason, ritaði öðrum starfsmanni bankans að morgni dags 11. júlí 2008: „Þorsteinn ætlar að koma í stýringuna. Er þetta ekki tapið og á hvaða reikning var það skuldfært.“ Tíu mínútum síðar ritaði hann: „Ég er að fara í vikufrí eftir hádegið í dag og vil því klára þetta í einum grænum. Er hægt að skuldfæra þetta á einhverjum reikning (má vera biðreikningur bankans) og ég set inn FX samning sem coverar tapið?“
Meðal gagna málsins er samningur um gjaldeyrisstýringu dagsettur 7. ágúst 2008 en sóknaraðili taldi ekki víst að hann hefði undirritað hann þá þar sem hann kynni þá að hafa verið á Austfjörðum.
Sóknaraðili minntist þess ekki að hann hefði óskað eftir því að fara í gjaldeyrisstýringu og minntist þess ekki heldur að starfsmenn bankans hefðu haft samband við hann og kynnt honum þessa fjárfestingarleið. Hann kvaðst ekki tengja hana við fjármagnaða, afleiðutengda skuldabréfið (Straumsstrúktúrinn). Hann kvaðst ekki heldur kannast við Guðmund í bankanum.
Vitnið Hilmar Steinar, sem var þjónustufulltrúi sóknaraðila á þessum tíma, taldi líkur á því að hann hefði lagt til við sóknaraðila að fara í gjaldeyrisstýringu. Margir af hans viðskiptamönnum hefðu verið í þessari þjónustu. Hún hafi tengst kaupum á Straumsafleiðum þar sem „menn“ hafi verið að reyna að vinna upp tapið af þeim viðskiptum og hafi bankinn átt frumkvæði að þessum viðskiptum.
Í gjaldeyrisstýringu er það allajafna svo að fjárfestirinn reiðir fram fé sem hann vill að starfsmenn bankans ávaxti fyrir sig með því að kaupa og selja gjaldeyri. Upphafsstaða þeirrar gjaldeyrisstýringar sem starfsmenn Glitnis banka fóru í fyrir sóknaraðila nam hins vegar því tapi sem varð af fjármagnaða, afleiðutengda skuldabréfinu (Straumsstrúktúrnum) 23.498.315 kr.
Þegar upp var staðið og Fjármálaeftirlitið hafði tekið yfir stjórn bankans reyndist hafa verið verulegt tap af gjaldeyrisstýringunni einnig.
Sóknaraðili telur að árangur gjaldeyrisstýringarinnar hefði ekki átt að vera tap heldur hagnaður. Þá niðurstöðu byggir hann á því að í nokkrum gjaldeyrisviðskiptum á tímabilinu frá 11. júlí til og með 13. október 2008 hafi starfsmenn markaðsviðskipta Glitnis banka ekki selt honum eða keypt fyrir hann íslenskar krónur og erlendar myntir á réttu gengi. Munurinn hafi í nokkrum tilvikum verið honum óeðlilega óhagstæður.
Þegar þau tilvik sem hafi verið sóknaraðila óhagstæð hafi verið reiknuð upp og greiðsluflæði gjaldeyrisstýringarinnar hafi verið leiðrétt að teknu tilliti til þess taps sem sett var inn í gjaldeyrisstýringuna í upphafi hafi sóknaraðili átt að fá hagnað af gjaldeyrisstýringunni sem nemi 72.363.316 kr. þegar upphaflega tapið, 23.498.315 kr. hafi verið dregið frá.
Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er tekið fram að það hafi verið markaðsvenja að miðlun tæki sína þóknun sem álag (e. spread) á gengi stundarviðskipta (e. spot) og vaxtamun á framvirka samninga/framlengingar. Þetta álag hafi aukist í takt við aukið flökt á markaði en venjan hafi verið að álagið væri ekki meira en 2-5 aurar á stór viðskipti. Síðan segir: „Viðskipti sóknaraðila eða öllu heldur gjaldeyrisstýringarinnar í nafni sóknaraðila verða að teljast stór viðskipti í samanburði við að viðskipti varnaraðila á millibankamarkaði voru miðuð við 3.000.000 EUR í hverjum viðskiptum við annan markaðsaðila á millibankamarkaði með krónur. Frávik upp á tugi aura frá markaðsgengi, svo ekki sé talað um 27,87 kr. geta vart talist innan eðlilegra marka. Taka verður fram að ekki eru öll frávik frá markaðsgengi sóknaraðila í óhag.“
Orð matsmannanna verða vart skilin á annan veg en þann að í þau fjögur skipti, sem þeir endurskoðuðu í matsgerðinni og breyttu greiðsluflæði í gjaldeyrisstýringunni miðað við hæfilega þóknun, hafi bankinn tekið sér svo hraustlega þóknun, með því að víkja verulega frá markaðsgengi, að það hafi valdið sóknaraðila fjártjóni.
Sóknaraðili byggir á því að starfsmenn bankans hafi valdið honum tjóni með því að víkja frá góðri viðskiptavenju við gjaldeyrisstýringuna og þar með brotið gegn 4. gr. laga nr. 33/2003.
Það var tilgangur starfsmanna Glitnis, með því að setja það tap sem varð af fjármagnaða, afleiðutengda skuldabréfinu inn í gjaldeyrisstýringu, að vinna upp tapið og væntanlega gott betur. Með því að kaupa og selja gjaldmiðla fyrir hönd sóknaraðila á óeðlilega óhagstæðu gengi sem aftur leiddi til tjóns fyrir hann brutu starfsmenn Glitnis banka gegn góðri viðskiptavenju, sbr. 5. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og meginreglunni bestu framkvæmd sbr. 1. mgr. 18. gr. sömu laga.
Því er fallist á að starfsmenn Glitnis banka hf. hafi valdið sóknaraðila tjóni sem hann hefði ekki orðið fyrir hefðu þeir fylgt góðri viðskiptavenju, heilbrigðum viðskiptaháttum og bestu framkvæmd viðskipta. Hann þykir því eiga rétt á þeim hagnaði sem hefði orðið af gjaldeyrisviðskiptunum hefðu kaup og sala gjaldmiðla fyrir hans hönd ætíð verið á gengi sem samrýmdist góðri viðskiptavenju og bestu framkvæmd viðskipta.
Lán í erlendum gjaldmiðlum og veðsetning eignasafns
Sumarið 2007 hringdi sóknaraðili í bankann þar sem hann hugðist taka út 350.000.000 kr. til þess að kaupa jörð og bað um að fjármunirnir yrðu tilbúnir til afhendingar. Hann kvaðst þá hafa verið kallaður á fund í bankanum. Á fundinum hafi einkabankafulltrúi hans, Hörður, lýst því fyrir honum með margvíslegum útreikningum að það borgaði sig ekki að taka peningana út þar sem ávöxtun þeirra væri svo góð. Það væri glapræði að taka féð af þeim sjóðum sem það væri varðveitt. Slíkt gerðu gáfaðir fjárfestar ekki heldur tækju þeir lán. Hafi fulltrúinn margútskýrt fyrir honum að hann myndi alltaf hagnast þrátt fyrir lántökuna þar sem ávöxtunin á eignasafninu væri svo miklu hærri en þeir vextir sem hann þyrfti að greiða bankanum af láninu.
Sóknaraðili bar að á þessum fundi hafi honum hvorki verið gerð nein grein fyrir áhættu sem tengdist lántökunni né heldur að hann þyrfti að veðsetja eignasafnið sitt til að tryggja greiðslu lánsins. Hvorki hafi verið samið um lánskjör né rætt að öðru leyti um það hvernig lánið yrði. Fulltrúinn hafi einungis sannfært hann um að féð yrði lagt inn á bankareikninginn hans í tæka tíð þannig að hann gæti reitt féð af hendi á réttum tíma.
Þjónustufulltrúi sóknaraðila ritaði öðrum starfsmanni bankans svohljóðandi tölvuskeyti 13. ágúst 2007: „Þarf að taka 350 millj. lán fyrir Þorstein vegna kaupa á landi. 2ja ára kúla. Lánið þarf að greiða út í næstu viku. Ég vil setja safnið að veði en það fylgir í þessu meili.“ Ellefu dögum síðar, 24. ágúst 2007, ritaði hann sama starfsmanni bankans annað bréf: „Minni á að það þarf að greiða út lánið til Þorsteins í dag. Myndi vilja hækka það upp í 370 millj. (úr 350 millj.)“ Síðar sama dag ritaði Hörður sama starfsmanni annan póst: „Þorsteinn Hjalt Lán 370 millj. Gjaldmiðlar, eur 40%, usd 20%, jen 20%, chf 20% Umbreyta í isk og greiða inn á 528-26-4433 í dag.“
Strax á eftir þessu bréfi ritaði Hörður lögmanni sóknaraðila svofellt tölvuskeyti: „Lánið verður greitt inn á bankareikning Þorsteins í dag. Göngum frá formsatriðum síðar.“ Lögmaðurinn bar fyrir dómi að hann hefði ekki vitað hvaðan veðrið stóð á hann þegar honum barst skeytið enda hefði hann ekki haft hugmynd um að sóknaraðili hygðist taka lán. Þennan dag var færð fjárhæð, samtals 370.000.000 kr., í fjórum hlutum inn á bankareikning sóknaraðila.
Þessi einkabankafulltrúi sóknaraðila hóf í lok ágústmánaðar störf hjá Glitni í Lúxemborg. Nokkrum vikum síðar og jafnframt nokkrum vikum eftir að sóknaraðili hafði nýtt féð til að greiða fyrir jörð gerði Glitnir banki loks, 1. október 2007, skriflegan lánssamning við sóknaraðila. Þar segir að það lán sé tekið til þess að greiða upp lán sem sóknaraðili hafi tekið 24. [ágúst] 2007. Enn fremur er tilgreint að til tryggingar greiðslu lánsins setji sóknaraðili bankanum að handveði öll bréf á þeim vörslureikningi sem var tengdur samningnum um einkabankaþjónustuna. Í lánssamningnum var sett það skilyrði að verðbréf á vörslusafninu skyldu bundin við eign í skuldabréfasjóðum Glitnis banka hf., sbr. Sjóð-7 og Sjóð-9, og innlendum skuldabréfum og víxlum íslensku bankanna, FL Group og Exista.
Sama dag var gerður
handveðssamningur, allsherjarveð, þar sem sóknaraðili setti bankanum að veði
verðbréfasafn sitt, bankareikning, innistæður á bókarlausum reikningum og
sparisjóðsbók.
Þessi samskipti sýna að það var starfsmaður bankans sem ákvað að sóknaraðili tæki hærri fjárhæð að láni en hann þurfti og ákvað hvernig lánið ætti að vera, þ.e.a.s. í fjórum gjaldmiðlum og hversu hátt hlutfall væri af hverjum. Þegar lánið var greitt út, 24. ágúst 2007, hafði ekkert formlegt verið gert. Sóknaraðili hafði hvorki fyllt út lánsumsókn né sett neinar tryggingar fyrir greiðslu lánsins.
Það sem hér hefur verið rakið sýnir jafnframt að þegar sóknaraðili lét til leiðast að hvika frá þeirri ákvörðun sinni að taka út reiðufé og taka lán þess í stað hafði hann hvorki hugmynd um hvernig það lán yrði né að hann þyrfti að setja vörslusafn sitt í bankanum honum að veði.
Afrit eins af þeim fáu símtölum sem fundist hafa sýnir að sóknaraðili hafi ekki verið varaður við þeirri áhættu sem fælist í því að taka lán í erlendum myntum. Þar kemur fram að honum hafi verið sagt að það væri mörgum sinnum hagstæðara fyrir hann að taka þetta lán en „hann útskýrði ekki alveg tröppuganginn í þessu, hvað myndi gerast, ef þetta myndi gerast [þ.e. verðfall íslensku krónunnar]“
Varnaraðili, sem leiðir rétt sinn og skyldur frá Glitni banka, lítur svo á að þetta lán falli innan þess ramma sem sóknaraðili hafi falið bankanum með gerð einkabankasamningsins þar sem samkvæmt a-lið 2. gr. þess samnings felist einnig ráðgjöf varðandi lántökur og áhættustýringu. Þessi lántaka er hins vegar ekki hluti af skriflegri fjárfestingarstefnu sóknaraðila.
Verk sín bar starfsmönnum Glitnis banka að vinna í samræmi við þau lög sem giltu um starfsemi bankans. Sóknaraðili byggir á því að það hafi þeir ekki gert.
Við mat á því hvort starfsmenn bankans hafi farið að lögum þegar þeir unnu fyrir sóknaraðila á grundvelli einkabankasamningsins í þetta sinn hafa, að mati dómsins, einkum þýðingu 4. og 5. gr. laga nr. 33/2003.
Þar sem þetta lán var framselt Íslandsbanka með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 áréttar varnaraðili að ekki verði tekin efnisleg afstaða til lánssamningsins í þessu máli þar sem Íslandsbanki sé ekki aðili að því.
Sóknaraðili byggir fjárkröfur sínar á niðurstöðum dómkvaddra matsmanna. Í þeim lið matsbeiðninnar sem varðar þetta mál eru þeir beðnir að svara því hvert fjártjón sóknaraðila hafi orðið við það að taka lán í erlendum myntum og setja eignasafn sitt að veði á móti því að taka peninga út af eignasafni sínu í sömu fjárhæð í íslenskum krónum og lánið.
Krafa sóknaraðila er því bótakrafa sem byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna Glitnis banka. Í þessu máli er því ekki tekin afstaða til eðlis lánsins, svo sem hvort það sé bundið ólögmætri gengistryggingu, heldur einvörðungu háttsemi sérfræðinga bankans þegar lánið var veitt.
Af þessum sökum eru ekki skilyrði til þess að vísa kröfu sóknaraðila sem byggir á þessu láni frá dómi vegna aðildarskorts, þar sem Íslandsbanki, sem nú byggir kröfu á hendur sóknaraðila á láninu, sé ekki aðili að dómsmálinu.
Að mati dómsins voru þær upplýsingar sem starfsmaður Glitnis veitti sóknaraðila áður en sóknaraðili hætti við að taka fé úr eignasafni sínu en féllst þess í stað á að taka lán ekki þannig að sóknaraðili gæti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun. Í fyrsta lagi ákvað starfsmaður bankans, nokkru eftir fund hans með sóknaraðila, að lánið skyldi vera 20.000.000 kr. hærra en nam þeirri fjárhæð sem sóknaraðili þurfti. Ekkert liggur fyrir um að þeir hafi rætt á fundinum í hvaða myntum lánið ætti að vera eða hvert skyldi vera hlutfall hverrar myntar um sig. Ekki liggur heldur fyrir að sóknaraðila hafi verið kynnt að til stæði að leggja eignasafn hans að veði til tryggingar greiðslu lánsins eða að á honum hafi verið rætt að setja yrði tryggingar og hvort til greina kæmi að setja aðrar en eignasafnið. Afrit af símtali sóknaraðila við þann þjónustufulltrúa sem tók við sérfræðiráðgjöfinni í september þykir sýna nægilega að sóknaraðila hafi ekki verið gerð grein fyrir þeirri áhættu sem fælist í því að taka lán í erlendum gjaldmiðlum heldur áherslan lögð á þá ávöxtun og von um ávinning sem þá var talinn fylgja lánum í erlendum myntum. Að mati dómsins hafði sóknaraðili því hvorki fyrir fundinn með fulltrúanum né eftir þann fund forsendur til þess að gera sér grein fyrir umfangi þeirrar áhættu sem fólst í láninu og hann hafi jafnframt ekki haft neinar forsendur til þess að taka ábyrgð á því að ráðast í þessi viðskipti. Þá áhættu sem fólst í þessu láni hlaut fulltrúinn þó að þekkja til þrautar og bar að útskýra fyrir sóknaraðila og tryggja að hann skildi.
Til viðbótar því að sóknaraðili hafi ekki haft forsendur til að meta gerninginn var það ekki hann í reynd sem ákvað hversu hátt lánið skyldi vera, í hvaða myntum og hlutföll þeirra né hvaða trygging yrði sett fyrir greiðslu þess heldur þjónustufulltrúinn. Slíkt lán var þó ekki innan þeirrar fjárfestingarstefnu sem afmarkaði heimildir fulltrúans til þess að vinna fyrir sóknaraðila án þess að bera gerninginn undir hann.
Dómurinn telur því að sóknaraðili hafi ekki tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun í skilningi 5. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti þegar hann ritaði undir lánssamninginn 1. október 2007. Vart verður um það deilt að þessi vinnubrögð samrýmist hvorki eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum né venjum á fjármálamarkaði sem hafi hagsmuni viðskiptavinar að leiðarljósi, sbr. 4. gr. sömu laga.
Sóknaraðili hugðist taka út reiðufé en var þess í stað ráðlagt að taka lán. Það lán varð honum dýrkeypt. Af því láni er hann nú bundinn án þess að hafa haft forsendur til að skilja þá áhættu sem í því fólst. Það var hlutverk fjármálasérfræðinga bankans að útskýra það. Þar sem þeir höguðu ráðgjöf sinni og vinnubrögðum ekki í samræmi við þær lögboðnu verklagsreglur sem um starf þeirra giltu, en á þeim óvandaða faglega grunni hvíldi skuldbinding sóknaraðila, verður að líta svo á að tjón sóknaraðila verði rakið til gáleysislegra vinnubragða þeirra.
Fjárkröfur sóknaraðila
Víkjum næst að fjárkröfum sóknaraðila, kröfu um stöðu þeirra í réttindaröð svo og um skuldajöfnuð.
Sóknaraðili krefst þess:
I. að við slit varnaraðila verði viðurkennd sem búskrafa, skv. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991, fjárhæð sem nemur 21.257.769 kr. auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 2. janúar 2012 til greiðsludags.
II. að við slit varnaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa, skv. 113 gr. laga nr. 21/1991, fjárhæð sem nemur 435.945.685. kr. og sem eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991 dráttarvextir skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 22. apríl 2009 til greiðsludags.
III. að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til skuldajöfnuðar:
aðallega með viðurkenndum fjárkröfum sínum við hverja þá kröfu sem varnaraðili kunni að eiga eða hafi átt á hendur sóknaraðila,
til vara með fjárkröfum, sem falli undir annan lið fjárkröfu hans og dómurinn viðurkenni að hann eigi við slit varnaraðila, til skuldajöfnuðar við kröfu Íslandsbanka hf. á hendur honum sem byggist á lánssamningi, dags. 1. október 2007, þar sem Glitnir banki hf. lánaði sóknaraðila 1.697.905,86 evrur, 133.801.157 japönsk jen, 1.219.351,73 Bandaríkjadali og 1.388.506,83 svissneska franka, og viðauka við samninginn frá 25. febrúar 2008, milli upphaflegra samningsaðila, svo og skuldbreytingu sem gerð hafi verið með viðaukum 22. nóvember 2010 og 7. maí 2012 milli sóknaraðila og Íslandsbanka hf.
Kröfuliður I
Sóknaraðili útskýrir þennan lið fjárkröfu sinnar þannig að þetta sé fjárhæð sem hafi legið á vörslureikningi nr. 7799 sem sóknaraðili hafði sett Glitni banka að handveði, 19. september 2007, en varnaraðili hafi innleyst innstæðuna, 21.257.769 kr., 2. janúar 2012. Þar sem ekki sé lengur sérgreind eign til staðar krefjist sóknaraðili þess að fjárhæðin fái stöðu í kröfuröð sem búskrafa skv. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfuliður II
Fjárhæð í öðrum kröfulið sóknaraðila sundurliðast svo:
|
1) Framvirk afleiða (Straumsstrúktúr) og gjaldeyrisstýring |
95.861.631 kr. |
|
2) Fasteignaverkefni í Berlín, Berlice |
42.575.896 kr. |
|
3) Lántaka og veðsetning |
297.508.158 kr. |
|
Samtals |
435.945.685kr. |
1)Afleiðuviðskipti tengd Straumi og gjaldeyrisstýring í framhaldi af þeim viðskiptum:
|
1.a) Krafa vegna afleiðuviðskipta, vegna taps af þeim |
23.498.315 kr. |
|
1.b) Krafa vegna gjaldeyrisstýringar |
72.363.316 kr. |
|
Samtals |
95.861.631 kr. |
2) Krafa vegna fasteignaverkefnis í Berlín (Berlice):
|
2.a) Tjón vegna höfuðstóls skuldabr. 226.400 evrur x 169,23 kr. |
38.313.672 kr. |
|
2.b) Tjón vegna framlags á árinu 2009 |
4.368.216 kr. |
|
Samtals tjón |
42.681.888 kr. |
|
2.c) Hagnaður vegna sölu hlutafjár í Berlice ehf. dregst frá |
(105.992 kr.) |
|
Samtals |
42.575.896 kr. |
3) Krafa vegna láns og veðsetningar lánasafns:
|
3.a) Staðreyndur kostnaður sóknaraðila 3. október 2008 |
360.968.809 kr. |
|
3.b) Hagnaður vegna ávöxtunar á eigið fé dregst frá |
(63.460.651 kr.) |
|
Samtals |
297.508.158 kr. |
Vikið verður að ágreiningi málsaðila um fyrsta kröfulið síðar í textanum.
Undir öðrum lið fjárkröfu sinnar raðar sóknaraðili efst fjárkröfu vegna fjármagnaðs, afleiðutengds skuldabréfs (Straums-strúktúrs). Eins og fram er komið telur dómurinn að leggja verði á Glitni banka og þar með varnaraðila ábyrgðina á því að sóknaraðili keypti það bréf og að rekja megi fjártjón hans vegna þess til gáleysislegs verklags starfsmanna bankans. Af þeim sökum er fallist á að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varnaraðila sem samsvari fjárhæð þess tjóns, 23.498.315 kr.
Í því skyni að vinna upp tjónið vegna þessa skuldabréfs fluttu starfsmenn bankans tapið inn í gjaldeyrisstýringu. Ekki vildi betur til en svo að af því varð meira tap fyrir sóknaraðila. Sóknaraðili taldi starfsmenn bankans ekki hafa staðið fyllilega rétt að verki við gjaldeyrisstýringuna og það hafi valdið þessu tapi. Hefðu þeir fylgt góðri viðskiptavenju og ætíð veitt honum kjör sem voru innan eðlilegra frávika frá markaðsgengi hefði orðið hagnaður af gjaldeyrisstýringunni. Með matsgerð dómkvaddra matsmanna var staðfest að sá hagnaður hefði átt að nema 95.861.631 kr. Þegar dregin hefði verin frá fjárhæð þess taps sem var flutt inn í stýringuna (23.498.315 kr.) næmi hagnaður sóknaraðila 72.363.316 kr. Fallist er á að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varnaraðila sem samsvari því tjóni, það er þeim hagnaði sem hann hefði átt að fá, hefði réttra vinnubragða verið gætt, en fékk ekki, 95.861.631 kr.
Í öðrum kröfulið raðar sóknaraðili næst fjárkröfum vegna fasteignaverkefnis í Berlín. Til þess verkefnis lagði hann fram 250.000 kr. í hlutafé í Berlice ehf. Hann lánaði því félagi jafnframt 500.000 evrur. Þar á ofan gekkst hann í sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 15,63% af 4.164.172,95 evrum. Jafnframt þurfti hann að greiða hinum fjárfestunum 4.368.216 kr. Þá fjárhæð höfðu þeir lagt út fyrir hans hönd vegna skuldar félagsins Berlice ehf. við bankann, en þessari kröfu lýsti sóknaraðili ótvírætt í kröfulýsingu sinni.
Einn þeirra sem fjárfestu í fasteignaverkefninu ásamt sóknaraðila keypti hann út úr því með kaupsamningi gerðum 20. júlí 2012. Með sama samningi seldi sóknaraðili hlutafé sitt í félaginu fyrir 2.400 evrur.
Þegar hinir dómkvöddu matsmenn reiknuðu út andvirði hlutafjárins, 2.400 evra, í íslenskum krónum miðuðu þeir við opinbert miðgengi Seðlabankans 1. ágúst 2012 en það fyrsti greiðsludagur samkvæmt kaupsamningnum. Þannig út reiknað fékk sóknaraðili 355.992 kr. fyrir hlutaféð eða 105.992 kr. hærri fjárhæð en hann lagði félaginu til í upphafi og hagnaðist því á sölu hlutafjárins sem því nam.
Sóknaraðili lánaði félaginu Berlice ehf. 500.000 evrur í upphafi. Þann lánssamning seldi hann, einnig 20. júlí 2012, fyrir 273.600 evrur. Fjártjón hans vegna taps á höfuðstól lánsins nam því 226.400 evrum. Samkvæmt útreikningi sóknaraðila, sem miðar við skráð sölugengi evru 22. apríl 2009, 169,23 kr., nemur andvirði þess taps 38.313.672 íslenskum krónum.
Enn fremur þurfti sóknaraðili, 26. janúar 2010, að greiða öðrum fjárfestum í Berlice ehf. hlutdeild sína í kostnaði sem þeir höfðu áður greitt bankanum 4.368.216 kr.
Eins og áður er rakið telur dómurinn að vegna gáleysislegra vinnubragða starfsmanna Glitnis banka hafi sóknaraðili ekki tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun þegar hann skuldbatt sig til þess að taka þátt í svonefndu umbreytingaverkefni í Berlín og að tjón hans vegna þátttöku í því verði rakið til þessara ófullnægjandi vinnubragða starfsmanna bankans. Af þeim sökum er fallist á að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varnaraðila sem samsvari fjárhæð þess tjóns, (38.313.672 + 4.368.216 - 105.992) 42.575.896 kr.
Í öðrum lið fjárkröfu tilgreinir sóknaraðili í þriðja lagi tjón sem hann hafi orðið fyrir við það að taka lán hjá Glitni banka sem var tryggt með veði í eignasafni hans í bankanum í stað þess að taka út reiðufé eins og hann hafði hugsað sér.
Dómurinn telur sóknaraðila ekki hafa tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun í skilningi 5. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti þegar hann ritaði undir lánssamninginn 1. október 2007 svo og að vinnubrögð starfsmanna Glitnis hafi hvorki samrýmst eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum né venjum á fjármálamarkaði sem hafi hagsmuni viðskiptavinar að leiðarljósi, sbr. 4. gr. sömu laga svo og að tjón sóknaraðila verði rakið til gáleysislegra vinnubragða þeirra.
Hinir dómkvöddu matsmenn reiknuðu kostnað sóknaraðila af því að taka lán í erlendum myntum, eins og sá kostnaður stóð 27. júní 2012, 463.288.241 kr. Í þeirri fjárhæð eru vextir frá 3. október 2008 til 27. júní 2012. Þá fjárhæð tekur sóknaraðili ekki með í kröfu sína en miðar einungis við útlagðan kostnað, 360.968.809 kr. Frá þeirri fjárhæð dregur hann þann hagnað sem hann hafði af eignasafni sínu á tímabilinu en hann er samkvæmt útreikningi matsmannanna 63.460.651 kr. Tjón hans vegna töku lánsins nemur því 297.508.158 kr.
Dómurinn fellst því á að sóknaraðili eigi fjárkröfu við slit varnaraðila sem samsvari, þegar allt er talið, (95.861.631 + 42.575.896 + 297.508.158) 435.945.685 kr.
Sóknaraðili krefst einnig dráttarvaxta af þessari fjárhæð frá 22. apríl 2009 þeim degi þegar Glitnir banki var tekinn til formlegrar slitameðferðar með gildistöku laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2009. Þessari kröfu lýsti sóknaraðili ekki í kröfulýsingu, eins og hann hefði getað, og því verður ekki tekin afstaða til hennar hér.
Sóknaraðili krefst þess einnig að viðurkenndur verði réttur hans til skuldajöfnuðar. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkenndur verði réttur hans til þess að nýta þær fjárkröfur, sem dómurinn viðurkenni að hann eigi við slit varnaraðila, til skuldajöfnuðar við hverja þá kröfu sem varnaraðili kunni að eiga eða hafi átt á hendur sóknaraðila.
Varnaraðili telur að hafna beri kröfunni þar sem hún sé ekki nógu skýr og uppfylli ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991.
Réttur sóknaraðila til skuldajöfnuðar ræðst af 100. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu getur hver sá, sem skuldar þrotabúinu, dregið frá skuld sinni það sem hann á hjá því, hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið, hafi hann eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn ætti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag.
Fjárkrafa sóknaraðila, gagnkrafan samkvæmt notkun hugtaka við skuldajöfnuð, er skýr. Hún nemur þeirri fjárhæð sem dómurinn fellst á að hann eigi rétt til við slit varnaraðila. Ekki skiptir máli þótt fjárhæð aðalkröfunnar, þeirrar kröfu sem varnaraðili kann að eiga, eða hafa átt og framselt Íslandsbanka, sé ekki tilgreind því það er ekki skilyrði skuldajöfnuðar að aðalkrafan greiðist að fullu með skuldajöfnuði og kann jafnframt að ráðast af ýmsum þáttum hver fjárhæð hennar á endanum reynist. Það sem er óskýrt er hverjar þessar aðalkröfur eru.
Úr þessu hefur sóknaraðili bætt með varakröfu sinni. Í henni krefst hann þess að viðurkenndur verði réttur hans til að nýta þær fjárkröfur, sem falli undir annan lið dómkröfu hans og dómurinn viðurkenni að hann eigi við slit varnaraðila, til skuldajöfnuðar við kröfu Íslandsbanka hf. á hendur honum sem byggist á lánssamningi, dags. 1. október 2007 þar sem Glitnir banki hf. lánaði sóknaraðila 1.697.905,86 evrur, 133.801.157 japönsk jen, 1.219.351,73 Bandaríkjadali og 1.388.506,83 svissneska franka, og viðauka við samninginn frá 25. febrúar 2008, milli upphaflegra samningsaðila, svo og skuldbreytingu sem gerð hafi verið með viðaukum 22. nóvember 2010 og 7. maí 2012 milli sóknaraðila og Íslandsbanka hf.
Gegn varakröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð færir varnaraðili þau rök að hún hafi ekki komið fram fyrr en við upphaf aðalmeðferðar og komist því ekki að nema hann samþykki það, sbr. 111. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, sem hann geri ekki. Dómurinn getur ekki fallist á að þetta lagaákvæði eigi við. Krafa sóknaraðila um skuldajöfnuð kom fram í greinargerð hans til sóknar. Breytt krafa sóknaraðila um skuldajöfnuð er varnaraðila ekki í óhag enda má honum vera sama um hvernig verður ráðstafað þeim fjármunum sem sóknaraðili á rétt á við slit varnaraðila en með varakröfunni hefur sóknaraðili dregið úr aðalkröfu sinni um skuldajöfnuð og rúmast varakrafan fyllilega innan aðalkröfunnar.
Það er fyrsta skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 að sá sem skuldar þrotabúi og lýsi yfir skuldajöfnuði hafi eignast kröfu sína eigi síðar en þremur mánuðum fyrir frestdag. Þrátt fyrir að samningur sóknaraðila við Glitni banka um einkabankaþjónustu, 19. febrúar 2007, afmarki þau verkefni sem hann fól fjármálasérfræðingum bankans að annast fyrir sig er ekki unnt að líta á kröfu hans sem kröfu um skaðabætur vegna vanefnda á samningi. Líta verður svo á að krafan sé um bætur vegna saknæmrar háttsemi sérfræðinga bankans þegar þeir veittu sóknaraðila ráðgjöf í fjármálum og að sú ráðgjöf og aðrar ráðstafanir þeirra hafi valdið sóknaraðila tjóni sem varnaraðili, sem tók við skyldum bankans, beri ábyrgð á.
Slík skaðabótakrafa stofnast þegar hið bótaskylda atvik á sér stað. Frestdagur við slit varnaraðila er 15. nóvember 2008. Allir þeir gerningar sem leggja grunn að fjárkröfu sóknaraðila voru gerðir á árinu 2007 nema sú ákvörðun að reyna að vinna tap sóknaraðila af fjármagnaða, afleiðutengda skuldabréfinu (Straums-strúktúrnum) upp með gjaldeyrisstýringu. Þar sem hinir voru allir gerðir áður en þrír mánuðir voru til frestdags þykir ekki þurfa að taka sérstaka afstöðu til þess hvenær nákvæmlega hið bótaskylda atvik vegna hvers um sig var.
Af matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna verður ekki annað ráðið en sá hagnaður sem sóknaraðili átti að njóta af gjaldeyrisstýringunni hafi ekki ekki myndast fyrr en með samningi sem var á gjalddaga 19. ágúst 2008 og nokkrum samningum gerðum síðar. Hagnaðurinn, 95.861.631 kr., myndaðist því á tímabilinu 19. ágúst til 13. október það er innan við þremur mánuðum fyrir frestdag og verður sú fjárhæð því ekki nýtt til skuldajöfnuðar.
Sóknaraðili vill nýta þær fjárkröfur sem honum verða viðurkenndar við slit varnaraðila og njóta stöðu almennrar kröfu til að greiða kröfu sem varnaraðili átti á hendur honum og stofnaðist þegar hann ritaði undir lánssamning 1. október 2007. Sú krafa var flutt til Nýja Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf., í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Í 13. tölulið þeirrar ákvörðunar eftirlitsins segir að framsal kröfuréttinda samkvæmt þeirri ákvörðun svipti skuldara ekki rétti til skuldajöfnuðar sem hann átti gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans.
Þar sem ekkert liggur fyrir um það að sóknaraðili hafi vitað eða mátt vita að bankinn hafi ekki átt fyrir skuldum þegar hann eignaðist kröfuna, eða að fjárhagsástand bankans hafi yfirhöfuð verið þannig á þeim tíma, svo og að ekkert bendir til þess að sóknaraðili hafi fengið kröfuna til þess að nýta til skuldajöfnuðar verður viðurkenndur réttur hans til þess að skuldajafna þeirri fjárkröfu sem hann á við slit Glitnis hf. við þá kröfu sem Íslandsbanki á nú á hendur honum.
Varnaraðili gerir þá gagnkröfu að sóknaraðili greiði honum 23.498.315 kr. auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 20. desember 2009 til greiðsludags, að teknu tilliti til innborgunar, 2. janúar 2012, að fjárhæð 21.257.859 kr.
Þessa kröfu byggir varnaraðili á framvirkum verðbréfasamningi (Straumsstrúktúr) sem sóknaraðili ritaði undir 11. júní 2007 og framlengdi 11. desember sama ár. Þessum viðskiptum lauk með tapi sóknaraðila sem nam 7. júlí 2008, 23.498.315 kr.
Fram er komið að dómurinn telur starfsmenn Glitnis banka hafa valdið sóknaraðila þessu tjóni með gáleysislegu verklagi sínu. Þar með er því hafnað að varnaraðili, sem leiðir rétt sinn frá Glitni, geti byggt greiðslukröfu á þessum gerningi.
Eins og kemur fram í gagnkröfu varnaraðila tók hann sér af handveðsettum reikningi sóknaraðila 21.257.859 kr., 2. janúar 2012, upp í þá fjárkröfu sem hann taldi sig eiga á hendur sóknaraðila. Krafa um endurgreiðslu þess fjár er fyrsti liður fjárkröfu sóknaraðila og krefst hann þess þar að fjárkrafan fái stöðu í kröfuröð sem búskrafa samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.
Þessi krafa er eins og áður segir á grundvelli framvirks verðbréfasamnings (Straumsstrúktúrs). Krafa um bætur vegna tjóns sem sóknaraðili varð fyrir vegna taps af þeim gerningi er einnig í öðrum lið fjárkröfu hans, 23.498.315 kr. Á þá fjárkröfu hefur dómurinn fallist. Nánar tiltekið hefur dómurinn fallist á að sú fjárhæð falli innan til þess hagnaðar sem sóknaraðili hefði átt að njóta af gjaldeyrisstýringarsamningi sem var gerður til að vinna tapið upp.
Þá stendur einungis eftir að taka afstöðu til þess hvaða stöðu sá hluti hennar sem varnaraðili tók, 2. janúar 2012, af reikningi sem sóknaraðili hafði sett honum að handveði, 21.257.859 kr., eigi að njóta í kröfuröð.
Dómurinn hefur nú hafnað því að sóknaraðili eigi að greiða varnaraðila þetta tap. Með því að taka fjárhæðina af reikningi sóknaraðila, en þar var hún sérgreind fjárhæð og naut þá stöðu í kröfuröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, hefur varnaraðili valdið sóknaraðila tjóni sem ekki fæst bætt með því að skipa fjárhæðinni í stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili telur að vísa eigi fyrsta kröfulið sóknaraðila frá dómi. Í fyrsta lagi telur varnaraðili sóknaraðila hafa fallið frá kröfu sem hann lýsti í kröfulýsingu sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 þar sem í dómkröfum í greinargerð krefjist hann þess ekki að nein fjárkrafan njóti þeirrar stöðu en krefjist þess hins vegar að ein þeirra njóti stöðu samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laganna en slíkri kröfu hafi hann ekki lýst.
Þegar sóknaraðili lýsti kröfu sinni 25. nóvember 2009 studdist hann við upplýsingar sem starfsmenn Glitnis banka sendu honum árið áður, 25. nóvember 2008. Á því yfirliti er tilgreint að sóknaraðili eigi eignir í sjóði 9, evrur og Bandaríkjadali, en á verðbréfareikningum hans 7632 og 7799 virðast einungis vera 2 kr. Hann lýsti því ekki sérstaklega kröfum vegna inneigna á þessum reikningum en lýsti kröfum vegna inneigna í sjóði 9. Þar sem það fé, sem varnaraðili tók af reikningi sóknaraðila 2. janúar 2010 er fé sem áður lá í sjóði 9 þykir hann hafa lýst fjárkröfunni nægilega í kröfulýsingu sinni.
Varnaraðili telur í öðru lagi að vísa eigi kröfunni frá þar sem skiptastjóri hafi ekki í kröfuskrá tekið afstöðu til stöðu kröfunnar í kröfuröð. Sóknaraðili hafi ekki mótmælt afstöðu skiptastjóra á skiptafundi og ekki hafi verið haldinn fundur um ágreininginn samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til stöðu kröfunnar og þar með ekki leitast við að jafna ágreininginn sé ekki fullnægt því skilyrði að dómurinn geti tekið kröfuna til meðferðar.
Sóknaraðili lýsti kröfum sínum með kröfulýsingu 25. nóvember 2009. Með tveimur tilkynningum 1. nóvember 2010 hafnaði slitastjórnin þeim þar sem hún taldi þær vanreifaðar og ekki eiga rétt á sér. Þessari afstöðu mótmælti sóknaraðili skriflega 1. desember 2010. Fundur til að leysa ágreininginn var haldinn ríflega ári síðar 20. desember 2011. Þar hafnaði varnaraðili öllum kröfum og var ákveðið að vísa ágreiningnum til héraðsdóms. Tæpum tveimur vikum síðar 2. janúar 2012 tók varnaraðili margnefnda fjárhæð af reikningi sóknaraðila. Þessu mótmælti sóknaraðili skriflega 10. janúar 2012 og krafðist þess að fjármunirnir yrðu lagðir aftur inn á reikninginn. Einum og hálfum mánuði síðar, 24. febrúar 2012, var ágreiningnum vísað til héraðsdóms. Í bréfi slitastjórnar til dómsins var þess ekki getið að sóknaraðili hefði mótmælt rétti slitastjórnar til þess að taka fé af vörslureikningi hans og krafist þess að því yrði skilað á sinn stað.
Dómurinn skilur rökleiðslu varnaraðila þannig að hann telji sóknaraðila hafa átt, 25. nóvember 2009, að sjá fyrir að slitastjórn myndi, 2. janúar 2012, taka af handveðsettum reikningi hans 21.257.859 kr. og hefði því átt að lýsa þeirri fjárhæð í kröfulýsingu sinni og krefjast þess þar að hún nyti stöðu sem skaðabótakrafa samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 til þess að slitastjórn gæfist, fyrir 1. nóvember 2010, kostur á að taka afstöðu til kröfu vegna tjóns sem hún ætti eftir að valda sóknaraðila og gæti reynt að jafna ágreining vegna þeirrar kröfu á skiptafundi sem einnig var haldinn áður en tjóninu var valdið. Slík fyrirhyggja og framtíðarsýn er vart á færi annarra en Münchhausens baróns.
Kröfunni verður ekki vísað frá dómi þótt í kröfulýsingu hafi þess verið krafist að hún nyti stöðu í kröfuröð samkvæmt 109. gr. en í greinargerð, sem var lögð fram á dómþingi 11. september 2012, eftir að slitastjórn hafði séð svo til að fjárhæðin var ekki lengur sérgreind á reikningi sóknaraðila, hafi þess verið krafist að hún nyti stöðu samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Sú fjárhæð sem sóknaraðili krefst, 21.257.769 kr., er af einhverjum ástæðum 90 kr. lægri en sú fjárhæð sem slitastjórn tók af reikningi hans en við kröfu sóknaraðila verður að miða. Þar sem varnaraðili átti ekki rétt til fjárins og slitastjórn olli sóknaraðila tjóni með því að taka fjárhæðina af vörslureikningi hans er fallist á að krafa sem sóknaraðili á við slit varnaraðila að fjárhæð 21.257.769 kr. njóti stöðu í kröfuröð sem búskrafa samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991. Þessi fjárkrafa sóknaraðila ber dráttarvexti frá 2. janúar 2012 til greiðsludags. Dráttarvextir af kröfu samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991 njóta sömu stöðu í kröfuröð og bótakrafan sem þeir leggjast við.
Kröfum samkvæmt öðrum lið fjárkröfu sinnar telur sóknaraðili að skipa beri í röð almennra krafna samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Fallist er á það með sóknaraðila þó þannig að frá þeirri fjárhæð sem fallist hefur verið á samkvæmt þeim lið dragist 21.257.769 kr.
Krafa sóknaraðila að fjárhæð (435.945.685 - 21.257.769) 414.687.916 kr. nýtur stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Til skuldajöfnuðar við kröfu Íslandsbanka er fallist á að sóknaraðila sé heimilt að nýta þá fjárhæð sem fallist er á sem almenna kröfu að frá dregnum þeim hagnaði sem myndaðist eftir 15. ágúst 2008 (414.687.916 95.861.631) 318.826.285 kr.
Dómurinn hefur því fallist á, svo gott sem, allar kröfur sóknaraðila en enga kröfu varnaraðila.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, 6.200.000 kr. í málskostnað.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er þeirri kröfu varnaraðila, Glitnis hf., að vísað verði frá dómi fyrsta lið í kröfu sóknaraðila, Þorsteins Hjaltested.
Viðurkennt er að við slit varnaraðila skuli krafa sóknaraðila að fjárhæð 21.257.769 kr. með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 2. janúar 2012 til greiðsludags, njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.
Krafa sóknaraðila að fjárhæð 414.687.916 kr. er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Viðurkenndur er réttur sóknaraðila til að skuldajafna 318.826.285 kr. sem fallist hefur verið á að hann eigi við slit varnaraðila og njóta stöðu samkvæmt 113. gr., við kröfur Íslandsbanka hf. á hendur honum sem byggjast á lánssamningi, dags. 1. október 2007 þar sem Glitnir banki hf. lánaði sóknaraðila 1.697.905,86 evrur, 133.801.157 japönsk jen, 1.219.351,73 Bandaríkjadali og 1.388.506,83 svissneska franka, og viðauka við samninginn frá 25. febrúar 2008, milli upphaflegra samningsaðila, svo og skuldbreytingu sem gerð var með viðaukum 22. nóvember 2010 og 7. maí 2012 milli sóknaraðila og Íslandsbanka hf.
Gagnkröfu varnaraðila er hafnað.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 6.200.000 kr. í málskostnað.