Hæstiréttur íslands
Mál nr. 183/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Faðerni
- Börn
- Mannerfðafræðileg rannsókn
|
|
Mánudaginn 28. apríl 2008. |
|
Nr. 183/2008. |
A(Garðar G. Gíslason hdl.) gegn B (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) |
Kærumál. Faðerni. Börn. Mannerfðafræðileg rannsókn.
Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu B um að fram skyldi fara mannerfðafræðileg rannsókn í máli sem hann höfðaði á hendur A til að fá viðurkennt með dómi að kjörfaðir hans, sem er látinn, sé ekki faðir A. Talið var að eins og málið lægi fyrir Hæstarétti gæti mál B gegn A hvorki talist vefengingarmál né mál höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Var talið að framangreind atriði heyrðu undir frumathugun dómara sem honum bæri að framkvæma af sjálfsdáðum og taka afstöðu til áður en til úrlausnar gæti komið hvort skilyrði væru til þeirrar gagnaöflunar sem um væri deilt í þessum þætti málsins. Með vísan til þessa var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2008, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að mannerfðafræðileg rannsókn mætti fara fram á lífssýnum úr sóknaraðila og C, sem er látinn, til sönnunarfærslu í máli sem varnaraðili hefur höfðað til viðurkenningar á því að kjörfaðir hans, C, sé ekki faðir sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í gögnum málsins kemur fram að sóknaraðili hefur kallað til arfs eftir C á þeim grundvelli að hann sé sonur hans. Liggur fyrir fundargerð skiptafundar við opinber skipti á búi C heitins, þar sem bókað er um þá afstöðu skiptastjóra að hann rengi ekki frumrit fæðingarvottorðs sóknaraðila þar sem fram komi að C sé faðir hans, enda komi vottorðið úr opinberri skrá á Englandi. Umrædd ákvörðun skiptastjóra mun hafa verið tekin á grundvelli 3. mgr. 53. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., en í því lagaákvæði er mælt fyrir um að skiptastjóri kanni af sjálfsdáðum hvort kröfur um arf eftir þann látna eigi við rök að styðjast. Þá er mælt fyrir um að verði ágreiningur um slíka kröfu skuli skiptastjóri beina málefninu til héraðsdóms eftir 122. gr. laganna. Ekki verður séð að neytt hafi verið þessa úrræðis til að fá úr því skorið hvort skiptastjóri hafi með réttu tekið umrædda ákvörðun.
Í máli þessu er deilt um hvort efni séu til að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn á grundvelli 15. gr. barnalaga, en ætlun varnaraðila er að leggja niðurstöðu rannsóknarinnar fram til sönnunar í máli því sem hann hefur höfðað á hendur sóknaraðila. Í stefnu málsins vísar varnaraðili til þess að hann byggi kröfur sínar í málinu á III. kafla þeirra laga og um aðild sína vísar hann til 1. mgr. 21. gr. laganna. Í síðastgreindu ákvæði barnalaga er mælt fyrir um aðild að málum er varða vefengingu á faðerni barns sem feðrað hefur verið á grundvelli 2. gr. barnalaga, en óumdeilt er að sóknaraðili var ekki feðraður á grundvelli þeirrar lagagreinar. Þá er þess og að geta að þó fyrir liggi í málinu fæðingarvottorð sóknaraðila frá Bretlandi, íslenskt skírnarvottorð hans og skjöl er virðast bera með sér að C hafi litið svo á að sóknaraðili væri sonur hans, verður ekki séð að neitt þessara skjala fullnægi áskilnaði 4. gr. barnalaga til að geta talist faðernisviðurkenning í skilningi laganna. Því liggur ekki fyrir að sóknaraðili hafi verið feðraður í samræmi við 2. eða 3. gr. barnalaga. Þá er ekki á því byggt að fyrir liggi faðernisviðurkenning samkvæmt breskum lögum, sem dómsmálaráðuneytið hefur mælt fyrir um að jafngild sé slíkri viðurkenningu gefinni á Íslandi, sbr. 2. mgr. 4. gr. barnalaga. Eins og gögn málsins liggja fyrir Hæstarétti getur mál varnaraðila gegn sóknaraðila því hvorki talist vefengingarmál né mál höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Verður að telja að framangreind atriði séu meðal þeirra sem dómara ber að athuga af sjálfsdáðum og taka afstöðu til áður en til úrlausnar getur komið hvort skilyrði séu til þeirrar gagnaöflunar sem um er deilt í málinu, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eru því ekki efni til að taka afstöðu til þess að svo stöddu hvort umkrafin sönnunarfærsla sé þýðingarlaus til úrlausnar málsins, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, sem á hér við sbr. 1. mgr. 12. gr. barnalaga. Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður ómerktur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2008.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að faðir stefnanda, C, [kt.], sem lést þann 23. mars 2006 og var þá skráður til heimilis að D, Reykjavík, sé ekki faðir stefnda, A, sem fæddur er þann [...] 1984. Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda er aðallega sýkna af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að faðir stefnda sé C, [kt.], sem lést hinn [...] 2006 og var þá skráður til heimilis að D, Reykjavík. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Í þessum þætti málsins er tekin til úrskurðar krafa stefnanda um að stefnda, A, verði með úrskurði gert að gangast undir mannerfðafræðalega rannsókn í samræmi við 15. gr. barnalaga. Jafnframt er þess krafist að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram á lífsýni úr föður stefnanda, C, til að unnt verði að staðreyna hvort hann er faðir stefnda. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndi hafnar kröfum stefnanda og krefst málskostnaðar.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að faðir stefnanda, C, var kvæntur móður stefnanda, E, og bjuggu þau í Reykjavík. Þau ættleiddu stefnanda [...] 1962, en faðir stefnanda mun ekki hafa getað getið barn. Ólst stefnandi upp sem sonur foreldra sinna og kveðst aldrei hafa verið um annað rætt af hálfu föður hans en að stefnandi væri einkasonur hans.
Stefndi fæddist á Princess Margaret spítala í Windsor á Englandi [...] 1984. Móðir hans er F, fædd í Úganda, og faðir hans var C, sbr. skráningu í þjóðskrá Englands. Stefndi var skírður í Englandi [...] 1984 af Sr. Braga Friðrikssyni. Stefndi kveður foreldra sína hafa kynnst árið 1972 í G en þangað kom C heitinn vegna vinnu sinnar. Móðir stefnda hafi starfað þar fyrir hann og fljótlega hafi þau hafið sambúð þar. Frá árinu 1980 hafi þau búið í Englandi og haldið þar heimili saman og mun C hafa gengið tveimur börnum F í föðurstað. Stefndi upplýsir að hann hafi verið getinn með glasafrjóvgun á þýskri læknastofnun. Varðandi búsetu föður stefnanda tekur stefnandi fram að hann hafi ásamt foreldrum sínum og föðurforeldum búið í G til ársins 1984.
Í byrjun mars 2006 veiktist C alvarlega og lá hann meðvitundarlaus á Landspítala háskólasjúkrahúsi í rúmar þrjár vikur þar til hann lést hinn [...] 2006. Á dánarbeð hans komu stefndi og móðir hans og dvöldu hjá honum. Komst þá upp um hið tvöfalda líf er hann hafði lifað. Móðir stefnanda andaðist í janúar 2007 eftir erfið veikindi.
Í ljós kom að skipti dánarbús C myndu ekki ganga friðsamlega fyrir sig. Dánarbú hans var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2007 og var fyrsti skiptafundur í dánarbúinu haldinn 6. júlí 2007. Á skiptafundi 12. desember 2007 féllst skiptastjóri á kröfu stefnda um rétt til arfs eftir látinn föður sinn.
Stefnandi ákvað að gera ýtrustu kröfur og vefengja rétt stefnda til arftöku úr búinu, þar sem hann gæti ekki verið líffræðilegur sonur C
Stefnandi hefur með formlegum hætti óskað eftir því að stefndi samþykki að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn. Stefndi hefur neitað því. Í ljósi neitunar stefnda er krafa þessi tekin til úrskurðar. Stefnandi kveðst hafa fengið það staðfest að lífsýni úr C sé til hjá rannsóknarstofu Háskólans í meinafræðum, þar sem faðir stefnanda hafi verið krufinn.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að ástæða þess að hann var ættleiddur á sínum tíma hafi verið sú staðreynd að faðir hans hafi verið ófær um að geta börn þar sem sæði hans hafi verið ónýtt. Það var læknisfræðilega algjörlega útilokað að faðir stefnanda gæti nokkru sinni átt barn.
Stefnandi hafnar því að skrásetning faðernis í Bretlandi sé fullgild faðernisviðurkenning hér á landi. Engra samtímaheimilda njóti við um faðerni stefnda er hann fæddist á árinu 1984. Ætlað fæðingarvottorð stefnda er fyrst útgefið í febrúar 1999 er stefndi var 15 ára og skírnarvottorð er fyrst gefið út hér á landi 10. febrúar 2003, er stefndi var 19 ára. Þá sé ósamræmi í meintri faðernisviðurkenningu þar sem stefndi er tilgreindur [...] en í skírnarvottorði er stefndi sagður [...]. Stefnandi bendir á að hvergi sé yfirlýsing í gögnum málsins frá hinni ætluðu þýsku læknastofnun þar sem glasafrjóvgunin átti að hafa farið fram. Þá bendir stefnandi á að glasafrjóvgun dugi skammt þegar sæðið sé ónýtt. Þrátt fyrir að C hafi í orði gengist við stefnda sem syni sínum, telur stefnandi að sú viðurkenning sanni ekki raunverulegt faðerni stefnda og þar með erfðarétt.
Stefnandi tekur fram að hann hafi strax á dánarbeði föður síns mótmælt að málsaðilar væru hálfbræður. Nafn stefnda hafi þó verið tilgreint við skiptin og var það gert þar sem móðir stefnanda hafi verið mjög veik og látist tíu mánuðum á eftir föður stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi hafnar alfarið kröfu stefnanda um mannerfðafræðilega rannsókn. Stefndi bendir á að C hafði með öllum athöfnum sínum og mörgum skjalfestum yfirlýsingum sínum lýst því yfir að stefndi væri sonur hans. Nefnd er handrituð yfirlýsing hans. Þá liggur fyrir fæðingarvottorð, opinbert skjal að enskum rétti. Íslenska þjóðkirkjan gaf einnig út skírnarvottorð til handa stefnda þar sem C heitinn er tilgreindur faðir stefnda. Þá liggja fyrir tölvupóstsamskipti C heitins við Hallgrím Snorrason, þáverandi hagstofustjóra, frá því í mars 2003, þar sem kemur fram skýr afstaða C til faðernis stefnda. Með nefndum tölvupósti átti C erindi við hagstofustjóra varðandi möguleika stefnda á að fá kennitölu og skráningu í þjóðskrá á Íslandi. Stefndi hafði sjálfur, í febrúar sama ár, sent hagstofustjóra fyrirspurn um slíkt. Stefndi telur það engum vafa undirorpið hver afstaða C heitins var til faðernis stefnda og áðurnefnd opinber skjöl staðfesta faðerni hans. Þá liggur fyrir afstaða skiptastjóra í áðurnefndu skiptamáli til faðernis stefnda. Stefndi hafnar því að lagaheimild sé til staðar til að heimila hina umkröfu mannerfðafræðilegu rannsókn.
Forsendur og niðurstaða.
Í máli þessu krefst stefnandi málsins þess að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram á stefnda og lífsýni úr föður hans og vísar til 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Stefndi hafnar því. Stefndi gerir þó þá varakröfu í greinargerð sinni að viðurkennt verði með dómi að faðir stefnda sé C. Til þess að hægt sé að taka afstöðu til þeirrar kröfu þarf mannerfðarfræðileg rannsókn að fara fram.
Með vísan til þessa og að öðru leyti með vísan til þess hvernig mál þetta liggur fyrir telur dómurinn rétt að heimila hina umbeðnu mannerfðafræðilegu rannsókn sem stefnandi krefst.
Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað að fjárhæð 150.000 kr.
Af hálfu stefnanda flutti málið Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Sigríður Á. Andersen hdl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ú r s k u r ð a r o r ð:
Mannerfðafræðileg rannsókn skal fara fram á lífsýnum úr stefnda, A og látnum föður stefnanda, C.
Stefndi greiði stefnanda 150.000 kr. í málskostnað.