Hæstiréttur íslands

Mál nr. 63/2001


Lykilorð

  • Fiskveiðibrot
  • Vigtun sjávarafla
  • Afladagbók


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. maí 2001.

Nr. 63/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Sigurði Helga Jónssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Fiskveiðibrot. Vigtun sjávarafla. Afladagbók.

Skipstjórinn S var sakfelldur fyrir fiskveiðibrot með því að hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni að tryggja að allur afli yrði vigtaður á hafnarvog þegar í kjölfar löndunar. S var jafnframt sakfelldur fyrir að hafa ekki fært upplýsingar um afla skipsins réttilega í afladagbók og fyrir að hafa fullunnið hluta aflans um borð án þess að hafa til þess leyfi sjávarútvegsráðuneytisins. Var hann dæmdur til að greiða 800.000 krónur í sekt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. febrúar 2001 samkvæmt áfrýjun ákærða og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru auk þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði látin niður falla eða hún milduð frá héraðsdómi.

Atvikum málsins er lýst í héraðsdómi. Svo sem þar kemur fram voru sex fiskkassar færðir úr Eldey GK 74 föstudaginn 22. október 1999 í bifreiðina OH 946, sem stöðvuð var á Njarðarbraut í Njarðvík. Í kössunum voru 172 kg af hausuðum þorski, 45 kg af þorskflökum, 30 kg af ýsuflökum og 5 kg af lúðu. Auk þessa afla voru 324 kg af slægðum þorski úr bátnum vigtuð á hafnarvoginni í Keflavík.

Í III. kafla laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð nr. 522/1998 eru skýrar og nákvæmar reglur um vigtun sjávarafla. Segir í 5. gr. laganna að öllum afla úr stofnum, sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skuli landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn og í 6. gr. að það skuli vera á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Í 9. gr. laganna er mælt fyrir um ábyrgð skipstjóra og skyldu hans að láta vigta hverja tegund afla sérstaklega.

Fallast ber á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða vegna þess afla, sem hann sagði áhöfn skipsins hafa ætlað til einkaneyslu, en það voru þorskflökin, ýsuflökin og lúðan, enda var hvergi gerð grein fyrir þessum hluta aflans í afladagbók skipsins, hvorki sem ætlaðri soðningu skipsáhafnar né sem hluta af heildarafla. Auk þessa hluta aflans fóru 172 kg af hausuðum og slægðum þorski úr skipinu framhjá hafnarvigt þennan dag. Krefst ákærði sýknu af þessum hluta ákærunnar á þeim forsendum að hann hafi rækt umsjónarskyldur sínar nægilega með því að fela skipstjórnarlærðum manni, sem hann treysti, að færa þennan afla á hafnarvigt.

Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 er berum orðum kveðið á um það að skipstjóra beri að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann berist til vigtarmanns. Til þess ber að líta að sá maður, sem ákærði fól aflann á hafnarbakkanum, var hvorki í áhöfninni né starfsmaður útgerðarinnar og laut ekki boðvaldi skipstjóra, heldur var hann kaupandi þessa hluta aflans. Ákærði mátti þannig ekki treysta því að svo yrði farið með aflann sem skylt er. Með hliðsjón af þeirri ríku ábyrgð sem á skipstjórum hvílir í þessu tilliti verður ekki á það fallist með ákærða að hann hafi uppfyllt starfsskyldur sínar í umrætt sinn. Sakfelling ákærða fyrir brot gegn 5., 6. og 9. gr. laga nr. 57/1996 verður því einnig látin taka til þessa hluta aflans.

Í málinu liggur fyrir að upplýsingar um afla skipsins voru ekki réttilega færðar í afladagbók, sem átti að vera um borð í skipinu. Það leysir ákærða ekki undan ábyrgð að þessu leyti þótt hann hefði fært upplýsingar um afla skipsins í vinnudagbók sína, enda koma slíkar færslur ekki í stað lögboðinnar færslu afladagbókar. Hefur ákærði með þessu gerst brotlegur við ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, sbr. og 2. gr. og 3. mgr. 8. gr. reglugerðar um afladagbækur nr. 303/1999.

Óumdeilt er að sjávarútvegsráðuneytið hefur ekki gefið út leyfi til vinnslu sjávarafla um borð í Eldey GK 74 og sannað er að hluti þess afla sem landað var 22. október 1999, var unninn um borð í skilningi 19. gr. reglugerðar nr. 522/1998 um vigtun sjávarafla. Staðfesta ber úrlausn héraðsdóms um þetta ákæruefni. Samkvæmt ákvæði 19. gr. reglugerðarinnar eru gerðar ríkar kröfur til skipstjóra skipa, er fengið hafa fullvinnsluleyfi ráðuneytisins, um skjótar og greinargóðar aflaupplýsingar til Fiskistofu. Þar sem ljóslega verða ekki gerðar vægari kröfur til skipa, er skortir slíkt leyfi, ber jafnframt að sakfella ákærða fyrir brot gegn 1. og 4. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar.

Með  hliðsjón af framansögðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru.

Refsing ákærða, sem ákveða ber með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir hæfileg 800.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Helgi Jónsson, greiði 800.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 80 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarskostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 130.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæruskjali sýslumannsins í Keflavík 17. janúar sl. á hendur Sigurði Helga Jónssyni, kt. 060851-4179, Reykjanesvegi 50, Njarðvík og X [...] fyrir brot á lögum um stjórn fiskveiða, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, reglugerð um vigtun sjávarafla, reglugerð um afladagbækur og reglugerð um leyfi til fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum.

Gegn ákærða Sigurði Helga, sem skipstjóra Eldeyjar GK-74, skipaskrárnúmer 450, fyrir að hafa, föstudaginn 22. október 1999, þegar 45 kg af þorskflökum, 172 kg af hausuðum þorski, 30 kg af ýsuflökum og 5 kg af lúðu var landað úr skipinu í Njarðvíkurhöfn, ekki sinnt þeirri skyldu sinni að tryggja að aflinn yrði vigtaður á hafnarvigt í Keflavíkurhöfn, en með því móti reiknaðist sá afli skipsins ekki með réttum hætti til aflamarks.  Þá er hann ákærður fyrir að hafa í umrætt sinn ekki haft afladagbók um borð í skipinu og fært í hana afla skipsins, fyrir að hafa fullunnið 45 kg af þorski og 30 kg af ýsuflökum um borð án þess að hafa til þess leyfi frá sjávarútvegsráðuneytinu og fyrir að hafa ekki tilkynnt Fiskistofu um áætlað magn unnins afla með símskeyti (telefaxi eða telexi) ásamt fyrirhuguðum löndunardegi og löndunarstað.

[...]

Brot ákærða Sigurðar Helga teljast varða við 5. gr., 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. og 2. mgr. 9. gr. laga um umgengni við nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og 1. mgr. 2. gr., 3. gr., 1. og 4. mgr. 19. gr. og 43. gr. reglugerðar um vigtun sjávarafla nr. 522/1998, 2. gr., 3. mgr. 8. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar um afladagbækur nr. 303/1999, 1. gr. laga nr. 54/1992 um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum og 1. gr. reglugerðar nr. 510/1998 um leyfi til fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum.

[...]

Þess er krafist að ákærðu verið dæmdir til refsingar sbr. 23. gr. og 24. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, 1. mgr. 44. gr. reglugerðar um vigtun sjávarafla og 20. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 sbr. 27.gr. laga nr. 57/1996 og 195. gr. laga nr. 82/1998 og 7. gr. laga um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum sbr. 5. gr. laga nr. 58/1996 að því er varðar ákærða Sigurð Helga.”

Ákærði, Sigurður Helgi Jónsson, krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvalds. Til vara krefst hann þess að refsing verði látin falla niður en krefst ella vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandi ákærða krefst hæfilegra málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.

[...]

Málsatvik.

Samkvæmt gögnum málsins og framburðum vitna eru málavextir þeir að eftirlitsmenn Fiskistofu voru við hefðbundið eftirlit með löndun í Njarðvíkurhöfn föstudaginn 22. október 1999.  Þeir voru á tveimur bílum, einn maður var í bíl á bryggjunni en aðrir tveir í bíl neðan við gluggaverksmiðjuna á Fitjum, en þaðan er góð yfirsýn yfir hafnarsvæðið og fylgdust þeir með því úr sjónauka.  Mótorbáturinn Eldey GK-74 lagði að bryggju um kl. 14.00.  Um svipað leyti var bifreiðinni OH-946 ekið niður á hafnargarðinn.  Henni var ekið alveg niður á garðinn líkt og verið væri að athuga svæðið.  Bifreiðinni OH-946 var síðan ekið að m/b Eldey.  Eitt fiskkar var híft upp á garðinn með bómu bátsins og tók áhöfnin þátt í lönduninni.  Eftirlitsmennirnir á Fitjum voru í beinu sambandi við eftirlitsmanninn á hafnarsvæðinu sem gat fylgst náið með lönduninni.  Taldi hann fyrir þá að sex fiskkassar væru teknir úr karinu og settir í bifreiðina.  Að þessu loknu var bifreiðinni OH-946 ekið upp í bæinn.  Meiri afla var landað úr bátnum eftir þetta og var hann allur færður á hafnarvogina í Keflavík, um 324 kg af slægðum þorski. 

Eftirlitsmennirnir lögðu af stað þegar löndunin byrjaði til þess að fylgjast með því hvort bifreiðinni yrði ekið á hafnarvogina og höfðu jafnframt samband við lögreglu til að undirbúa afskipti af bifreiðinni.  Eftirlitsmennirnir sáu til bifreiðarinnar þar sem henni var ekið eftir Sjávargötu og einum manni var hleypt út á gatnamótunum við syðri hafnargarðinn, nálægt húsinu Mörk.  Þaðan veittu þeir henni eftirför.  Af Sjávargötu var bifreiðinni ekið inn á Njarðarbraut, þaðan inn í íbúðahverfi. Þegar bifreiðin var komin inn á Vallarbraut mun ökumaður hafa hert verulega á sér.  Lögreglan hafði þá bæst í bílalestina en ók þó ekki á eftir honum með forgangshraða.  Bifreiðinni OH-946 var síðan ekið aftur inn á Njarðarbraut þar sem lögreglan ók framúr, stöðvaði hana og handtók ökumann, ákærða X.  Fiskur sem fannst við leit í bifreiðinni var veginn á fiskmarkaði Suðurnesja í Njarðvík og reyndust þar vera 4 fiskikassar með hausuðum og slægðum þorski, alls 172 kg og tveir kassar með flökum í svörtum ruslapokum, 45 kg af þorskflökum og 30 kg af ýsuflökum ásamt einni lúðu.  Viðstaddir vigtunina voru lögreglumenn og ákærði X en hvorki skipstjóri Eldeyjarinnar né útgerðarmaður hennar.  Það mun hafa tekið lögregluna nokkra stund að komast að því hver væri skipstjóri á bátnum og því var hann ekki viðstaddur.  Seinna um daginn var hann tekinn til yfirheyrslu og var þá jafnframt beðinn að leggja fram afladagbók.  Afladagbókina kvaðst hann ekki hafa fundið en framvísaði vinnudagbók.  Í bókun fyrir umræddan dag var einungis getið um eitt kar til Stakkavíkur en þess hluta aflans sem fannst í bifreiðinni var ekki getið í vinnudagbókinni.

Ákærði, X, kveður bróður sinn, G, hafa hringt í sig um kl. 13.30 þegar X hafi verið nýkominn heim frá vinnu og beðið hann að gera sér þann greiða að fara að Njarðvíkurhöfn og taka þar fisk úr m/b Eldey.  Hafi G síðan beðið hann um að aka fiskinum á vigtina og þaðan til Sandgerðis til T sem sé með slægingarþjónustu þar.  Þar hafi átt að pakka fiskinum sem færi síðan með flugi til útlanda.  Þar sem G hafi verið sviptur ökuleyfi hafi X haft bifreið hans OH-946 til umráða.  X kveðst hafa verið kominn niður á bryggju í Njarðvík um kl. 14.00 og fylgst með bátnum koma að landi.  G bróðir hans hafi áður verið kominn þangað.  Þeir bræðurnir og skipverjar hafi lestað bifreiðina.  Hann kvaðst hafa ætlað að koma við heima hjá sér til að sækja peninga svo hann gæti keypt sér eitthvað í svanginn og því hafi hann ekki ekið rakleiðis á hafnarvog heldur í gagnstæða átt áleiðis að heimili sínu.  Hann hafi auk þess gefið G bróður sínum far upp á Sjávargötu.  Eftir að hafa komið við heima hjá sér hafi hann ætlað með aflann á vigt og þaðan til Sandgerðis.  Hann lýsti ökuleið sinni frá höfninni á sama hátt og fram kemur í ákæru. Þegar hann hafi beygt inná Hólagötu hafi hann veitt athygli rauðri bifreið sem hann grunaði að veitti sér eftirför.  Hann hafi viljað fá úr því skorið hvort honum væri í raun veitt eftirför eða hvort þetta væri bara einhver vitleysa og hafi því ekið framhjá heimili sínu inn á Samkaupsveg og Krossmóa og aftur út á Njarðarbraut þar sem lögreglan hafi stöðvað hann.

Hann kvaðst aldrei hafa flutt afla á vigt áður og þekkti ekki hvernig það ætti að ganga fyrir sig.  Hann hafi því ekki látið „tara” bifreiðina áður en hann ók niður að Njarðvíkurhöfn.  Hann hefði haldið að kassarnir yrðu teknir úr bifreiðinni og settir á vigtina.

Ákærði, X, bar fyrir dóminum mjög líkt því sem hann gerði í lögregluskýrslum við rannsókn málsins.  Hann bætti því þó við hann hefði ekki verið viss hvort ætti að vigta fiskinn á fiskmarkaði Suðurnesja í Njarðvík eða hafnarvoginni í Keflavík.  Honum hefði láðst að spyrja að því.  Þar sem síminn hans hefði verið lokaður hefði hann ekki getað hringt úr honum og hefði verið að hugsa um að hringja heiman frá sér um leið og hann næði í peningana.  Þar sem hann hefði grunað að það væru eftirlitsmenn frá Fiskistofu sem veittu honum eftirför hefði hann ekki viljað stoppa heima hjá sér því þá hefðu þeir ástæðu til að ætla að hann ætlaði ekki með fiskinn á vigt. Hann hefði því snúið aftur í áttina að fiskmarkaðnum í Njarðvík enda hafi hann vitað að bróðir hans, G, væri staddur þar og hafi hann ætlað að fá nánari upplýsingar frá honum.  Bróðir hans, G, hafi hringt í hann, X, þegar hann hafi ekið framhjá Samkaupum og spurt hvort hann væri ekki kominn á vigtina.  Hann hafi sagst vera á leiðinni þangað en hafi stuttu síðar verið stöðvaður af lögreglu.

Hann kvað að einungis hefði staðið til að vigta hausaða og slægða þorskinn.  Ekki hefði staðið til að vigta ýsu- og þorskflökin og lúðuna enda hefði það verið soðning fyrir skipverja Eldeyjarinnar.  Allur aflinn hefði þó átt að fara til slægingarþjónustu Tryggva í Sandgerði, hausaði þorskurinn til frágangs í flug en flökin í ísun fyrir skipverjana.

Hann sagðist aldrei hafa komið að vigtun fisks áður, hvorki fyrir þetta fyrirtæki né önnur. Hann hafi ekki vitað að það þyrfti að „tara” bifreiðina og enginn hefði bent honum á nauðsyn þess.  Hann gat þess jafnframt að þegar fiskurinn hefði verið veginn á fiskmarkaði Suðurnesja í Njarðvík eftir að yfirheyrslum lauk hjá lögreglu þá hefðu kassarnir verið teknir út úr bílnum og settir á vogina.  Það væri því hægt að vigta fisk án þess að „tara” bílinn sem hann er fluttur í.

Hann kvaðst hafa verið til sjós á togurum.  Venjuleg soðning eftir hverja ferð væri einn til tveir kassar, það er 27 til 54 kg. 

 Vitnið G er útflytjandi á ferskum fiski með flugi og bróðir ákærða X.  Hann sagði að A, útgerðarmaður Eldeyjarinnar, hefði haft samband við sig vegna þess að hann ætti í erfiðleikum með að losa sig við fisk sem væri of smár til að selja Stakkavík, sem taki ekki fisk undir 5 kg þyngd.  Vitnið hefði getað fundið kaupanda að þessum fiski erlendis en Þýskalandsmarkaður tæki við 2-4 kg þorski. Hann hefði síðan bent A á fyrirtæki í Sandgerði, Fiskþjónustuna ehf., sem gæti gengið frá fiskinum til útflutnings fyrir útgerðina. 

A hafi ekki getað verið viðstaddur löndunina. G hafi því komið niður að bryggju til að athuga þennan smærri fisk og sjá um löndun á honum fyrir útgerðina, það er að koma honum á hafnarvog og þaðan áleiðis til Sandgerðis til pökkunar.  Hafi fiskurinn átt að fara út með flugvél annað hvort að morgni eða miðdegi næsta dags.  Hann kvaðst hafa sagt skipstjóranum á Eldeynni, ákærða Sigurði A, að hann, G, sæi til þess að fiskurinn færi á vigt og síðan til pökkunar í Sandgerði.  Þegar fiskurinn hafi verið kominn í bílinn hafi G fengið far með ákærða X.  G hafi beðið X að beygja til vinstri til þess að skutla honum á fiskmarkaðinn þannig að hann, G, kæmist á uppboð kl. 15.00. Enda þótt hann væri skipstjórnarlærður hefði honum ekki verið kunnugt um að aka þyrfti „rakleiðis” á vigt.  Enn síður hefði bróður hans, ákærða X, verið kunnugt um það.  Hann ítrekaði að alltaf hefði staðið til að aka með aflann á vigt áður en hann væri fluttur til Sandgerðis og hefði hann skýrlega tekið það fram við ákærða X. 

Þorskflökin, ýsuflökin og lúðuna í bílnum kvað hann ekki hafa verið á sínum vegum, heldur hefði það verið til einkaneyslu fyrir skipshöfnina.

Vitnið A, sem gerir út Eldeyna, kvaðst yfirleitt selja aflann sinn til Stakkavíkur.  Hann hefði hinsvegar gert samning við G um að selja fyrir sig til útlanda fisk léttari en 5 kg, hausaðan og slægðan. Þennan tiltekna dag kvaðst hann hafa verið í rannsóknum á sjúkrahúsi í Reykjavík.  Hann hafi séð fram á að báturinn yrði kominn að landi um klukkustund áður en hann, A, kæmist til Njarðvíkur.  Hann hafi því beðið G að sjá um þetta fyrir sig enda hafi þeir verið að búa fiskinn til sölu til útlanda í fyrsta sinn.

Hann kvaðst yfirleitt hafa látið vigta á hafnarvoginni í Keflavík þó landað hafi verið í Njarðvík.

Hann taldi verðmæti 172 kg af hausuðum þorski vera um 10-15.000 krónur að kvótaleigu frádreginni.  Hann viðurkenndi að flökin í pokanum hefðu ekki átt að fara á vigt heldur í hans eigin bíl.  Flökin hefðu verið til einkaneyslu fyrir áhöfnina.

Ákærði Sigurður Helgi Jónsson, skipstjóri Eldeyjarinnar, kvað A eiganda bátsins hafa hringt um borð í Eldeyna til að láta vita að hann yrði seinn fyrir og hefði beðið annan mann að taka við og sjá um þann hluta aflans sem ætti að fara í flug. G hafi verið kominn á bryggjuna þegar báturinn hafi komið að landi.  G hafi sagt honum, að hann myndi sjá um að koma þessu á vigt og þaðan í Sandgerði.  Þennan dag hafi lítið veiðst og því hafi lítið farið í Stakkavík, eitt kar.  Hann kvaðst ekki hafa fylgst með hífingu þar sem hann hafi verið að færa í dagbók.  Ákærði kvaðst ekki hafa neina möguleika til að fylgjast með hvort bílar sem landað er í fari á vigt þegar landað sé í Njarðvík.  Önnur vogin sé í Keflavík en hin á markaðnum í Njarðvík.  Hann kvaðst vita að G hefði skipstjórnar-réttindi og að hann hefði treyst honum til að koma aflanum á vigt.

Ákærði kvað afladagbókina ætíð vera í bátnum.  Þar sem ekki væri hægt að læsa bátnum öðru megin tæki hann bókina með sér heim þegar þeir færu í helgarfrí.  Í hana væru færðar upplýsingar sem væru trúnaðarmál milli útgerðar og Fiskistofu.  Hann hafi verið búinn að koma við heima þegar hann var kallaður í yfirheyrslu hjá lögreglu síðla umræddan dag og taldi að hann hefði tekið bókina með sér heim.  Þegar hann hafi verið beðinn að framvísa henni hafi hann þó einvörðungu fundið sína vinnudagbók heima. Þegar hann kom um borð á mánudagsmorgni eftir helgafrí hafi hann síðan fundið afladagbókina um borð í bátnum þar sem hann hafði stungið henni undir önnur gögn. Hann kvaðst fyrst færa upplýsingarnar í vinnudagbók og síðan færi hann þær í afladagbók frá Fiskistofu. 

Ákærði  kvað flökin sem fundust í bifreiðinni hafa verið til einkaneyslu fyrir áhöfnina en þeir séu fimm á bátnum.  Karlarnir hafi helst tekið sér í soðið fyrir helgarfrí enda sé ævagömul venja að taka sér smáslatta.

Hann kvað verðmæti 172 kg af hausuðum og slægðum þorski vera milli 10-20.000 krónur.

Vitnin Hólmgeir Hreggviðsson, veiðieftirlitsmaður, Þorvaldur Benediktsson, lögreglumaður og Þórarinn Þórarinsson, lögreglumaður gáfu skýrslu fyrir dóminum.  Þau báru öll mjög líkt og þau höfðu gert í lögregluskýrslum sínum og er sá framburður í samræmi við málsatvikalýsingu ákæranda.

Í framburði vitnisins Hólmgeirs kom fram að engin eiginleg hafnarvog væri í Njarðvíkurhöfn. Þeim sem lönduðu í Njarðvíkurhöfn væri ætlað að fara á hafnarvogina í Keflavík.  Fiskmarkaðurinn í Njarðvík hefði hinsvegar heimavigtunarleyfi. 

Niðurstaða.

Ákærði Sigurður Helgi mátti treysta því að hausaði og slægði fiskurinn sem lestað var um borð í bifreiðina OH-946 færi á vigt í Kefalvík eftir að G hafði fullvissað hann um að hann, G, sæi um að koma aflanum þangað og þaðan til Sandgerðis.  Miðað við þær aðstæður sem eru til vigtunar í Njarðvíkurhöfn er ákærði Sigurður Helgi því talinn hafa uppfyllt skyldur sínar til að fylgjast með að afli fari á vigt hvað þann afla varðar. Verður hann því sýknaður að því er vigtun slægða fisksins varðar.

Á hinn bóginn verður ákærði Sigurður Helgi talinn bera ábyrgð á því að sá afli sem flakaður var um borð og áhöfn ætlaði sér í soðið var ekki vigtaður. Hann hefur viðurkennt að aldrei hafi staðið til að vigta þann afla. Þar var um að ræða 45 kíló af þorskflökum og 30 kíló af ýsuflökum. Verður með vísan til dómafordæma að telja þann hluta afla skipsins hafa verið langt umfram það magn sem unnt er að fella undir þá skilgreiningu að vera soðning áhafnar og fjölskyldu áhafnar utan aflaheimilda. Þá ber að taka tillit til þess að um var að ræða flakaðan fisk og má því ætla að þyngd þess fisks óslægðs upp úr sjó hafi numið um 150 kílóum. Með því telst ákærði Sigurður hafa brotið gegn 5., 6. og 9. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar.

Ákærandi hefur ekki getað borið brigður á þá fullyrðingu ákærða Sigurðar Helga að hann hafi skilið afladagbókina eftir í bátnum umræddan dag.  Einnig er fram komið að ákærði Sigurður Helgi færði afladagbókina eftir vinnudagbók sinni.  Það er því ekki sannað að hann hafi brotið gegn  reglum um afladagbækur. Verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi.

Ákærði Sigurður Helgi játaði að skipverjar á m/b Eldey hefðu flakað bæði ýsu og þorsk um borð í bátnum föstudaginn 22. október sl.  Með því að leyfa að afli væri fullunninn um borð í skipi sem ekki hefur leyfi til fullvinnslu braut ákærði Sigurður Helgi gegn ákvæðum 1. gr. laga nr. 54/1992 um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum og 1. gr. reglugerðar nr. 510/1998.

Ekki verður talið að ákærði hafi brotið gegn ákvæði 19. gr. reglugerðar nr. 522/1998 um vigtun sjávarafla með því að tilkynna ekki Fiskistofu í símskeyti (telefaxi eða telexi) um áætlað aflamagn hverrar fisktegundar ásamt fyrirhuguðum löndunardegi og löndunarstað.  Þetta ákvæði er fyrsta greinin í VIII. kafla reglugerðarinnar.  Af heiti kaflans og öðrum ákvæðum hans verður ekki annað séð en hann geymi einungis reglur sem gilda um skip sem hafa leyfi sjávarútvegs-ráðuneytisins til þess að vinna afla um borð.  Mótorbáturinn Eldey GK-74 er dagróðrabátur og hefur ekki slíkt leyfi.  Því hvílir tilkynningaskylda skv. 1. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar ekki á skipstjóra hans. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

[...]

Ákvörðun refsingar.

Ákærði Sigurður Helgi hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 23. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og samkvæmt 1. mgr. 44. gr. reglugerðar nr. 522/1998, samkvæmt 7. gr. laga um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum og samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 510/1998 um sama efni.

Ákærði hefur eigi áður sætt refsingum er hér skipta máli.

Í lögum nr. 57/1996 um umgengni við nytjastofna sjávar er mælt fyrir um það að refsing vegna brota sem þessara skuli eigi vera lægri en 400.000 krónur og ekki hærri en 4.000.000 krónur eftir eðli og umfangi brots.  Þetta er sami refsirammi er tilgreindur í  lögum nr. 38/1990 eins og þeim var breytt með lögum 57/1996.  Vegna þessara skýru fyrirmæla löggjafans verður ekki talið að unnt sé að færa refsingu niður úr refsilágmarki laganna.

 Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 40 daga.

Þá ber að dæma ákærða Sigurð Helga til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar, hæstaréttarlögmanns, sem þykja  hæfilega ákveðin 70.000 krónur.

[...]

Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.

Mál þetta var endurflutt í dag og dómtekið, en vegna embættisanna dómara varð dómur eigi lagður á málið innan lögmælts tíma eftir fyrri flutning málsins. Endurflutningi var fyrst komið við í dag.

Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari kveður dóminn upp.

DÓMSORÐ

Ákærði Sigurður Helgi Jónsson greiði 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna talið frá birtingu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 40 daga.

Ákærði X greiði 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna talið frá birtingu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 40 daga.

Ákærði, Sigurður Helgi greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur..

Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar, héraðsdómslögmanns, 70.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði greiði ákærðu óskipt.