Hæstiréttur íslands
Mál nr. 175/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. mars 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. mars 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. mars 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X kt. […] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. mars 2016, kl. 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan rannsaki nú meint rán og frelsissviptingu á heimili við […] í […] 16. febrúar sl. Brotaþoli málsins lýsi því í skýrslutöku hjá lögreglu að tveir menn, Y og X, hafi ráðist inn á heimili hennar ásamt fjórum grímuklæddum mönnum sem hafi talað ensku og spænsku sín á milli. Mennirnir hafi haldið henni á heimilinu í um sex klukkustundir, bundið hana niður, beitt hana ofbeldi og m.a. notað rafbyssu á hana og tekið hana kyrkingartaki svo hún hafi liðið út af í tvígang á meðan þeir hafi verið á heimili hennar. Þegar mennirnir hafi farið hafi þeir haft á brott með sér skartgripi og peninga í eigu brotaþola. Brotaþoli hafi leitað á slysadeild eftir atvikið vegna áverka sem hún hafi hlotið en samkvæmt vottorði sem liggi fyrir hafi hún hlotið maráverka á við og dreif um líkama og í andliti, auk tognunar. Eftir árásina hafi kærði ítrekað hringt í brotaþola og hótaði henni lífláti.
Málið sé talið tengjast því að brotaþoli hafi átt að geyma fíkniefni sem kærði hafi flutt hingað til lands á síðasta ári sem lögregla lagði síðar hald á á heimili brotaþola. Eigi kærði að hafa hótað brotaþola lífláti myndi hún ekki greiða honum fimm milljónir króna vegna umræddra fíkniefna.
Kærði hafi verið handtekinn 25. febrúar sl. og úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna til dagsins í dag. Kærði sé ekki búsettur hér á landi. Samkvæmt upplýsingum lögreglu sé hann sagður frá […] en búsettur í […]. Fengist hafi staðfest að hann hafi flogið hingað til lands þann 9. febrúar sl. með Easy Jet frá London. Við skoðun sé ljóst að hann hafi komið hingað til lands í styttri ferðir í nokkur skipti undanfarin tvö ár.
Kærði hafi verið yfirheyrður í tvígang og neiti allri aðild að málinu. Þá neiti hann að upplýsa lögreglu um hvar hann gisti og hafi dvalið fram að því að hann hafi verið handtekinn og hafi verið mjög ósamvinnuþýður við rannsókn málsins.
Lögreglu hafi ekki tekist að hafa uppi á Y þrátt fyrir mikla leit en skv. upplýsingum lögreglu sé hann í felum þar sem hann óttist nú kærða sem hafi haft í hótunum við hann og fólk honum tengt vegna málsins.
Lögregla hafi aflað símagagna bæði kærða og Y þar sem fram komi að þeir tengist sendi skammt frá brotavettvangi þegar umrædd árás hafi átt sér stað. Sömuleiðis sjáist að þeir eru í símasamskiptum sín á milli í kringum árásina og við þekkta brotamenn hér á landi þegar árásin eigi sér stað. Þeir aðilar séu Z og Þ sem hafi verið handteknir vegna málsins 3. mars sl. og kannast við að hafa verið við heimili brotaþola þegar árásin hafi átt sér stað. Símar þeirra komi einnig inn á senda við árásarstaðinn. Þá kannist annar þeirra við að hafa verið þar með Y. Lögreglan hafi sömuleiðis tekið skýrslu af tveimur aðilum sem segja að Z og Þ hafi verið með skartgripi sem teknir hafi verið af heimili brotaþola í fórum sínum í síðustu viku.
Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í máli þessu, enda sé kærði undir rökstuddum grun um aðild að ráni og frelsissviptingu sem talið sé að varði við 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Þá sé rannsókn málsins hvergi nærri lokið. Framburður kærða, Z og Þ sé ótrúverðugur um margt. Hvorki hafi tekist að hafa uppi á Y né að finna þýfið sem brotaþoli beri um að hafi verið tekið frá henni. Því sé afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun, þannig að hann hafi ekki tækifæri til að torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum og hafa áhrif á aðra samseka. Einnig sé talin hætta á að kærði reyni að koma sér úr landi þar sem hann er ekki búsettur hér á landi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a- og b-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt því sem að framan greinir og að virtum rannsóknargögnum málsins verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um brot sem geta varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 233., 226. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er ekki lokið og ljóst að mati dómsins að haldi kærði óskertu frelsi sínu geti hann torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Er þannig fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kærði er erlendur ríkisborgari og hefur að því er virðist engin tengsl við Ísland. Verður því talið að uppfyllt séu skilyrði b. liðar 95. gr. laga nr. 88/2008. Að virtum rannsóknarhagsmunum ber að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, […], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. mars 2016 kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.