Hæstiréttur íslands

Mál nr. 432/2003


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Hlutabréf
  • Ógilding samnings


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. maí 2004.

Nr. 432/2003.

Arnfinnur Sævar Jónsson

(Brynjar Níelsson hrl.)

gegn

Birni Eysteinssyni

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

 

Kaupsamningur. Hlutabréf. Ógilding samnings.

B, sem keypt hafði hlut í félaginu N af A, krafðist ógildingar eða riftunar kaupsamningsins vegna þess að viðskiptaáætlun, sem lá til grundvallar kaupunum, hafi ekki gengið eftir. Talið var að áætlunin hafi gefið svo ranga mynd af N og viðskiptatækifærum þess að B væri, vegna brostinna forsendna, ekki bundinn af samningnum. Var A samkvæmt því dæmdur til að endurgreiða B umsamið kaupverð hlutabréfanna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. nóvember 2003 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda. Til vara krefst hann sýknu að svo stöddu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Vorið 2001 var stefndi útibússtjóri hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis en áfrýjandi stundaði viðskipti. Kom áfrýjandi að máli við stefnda í maímánuði og bað um að hann og félög á hans vegum yrðu tekin í bankaviðskipti í útibúi því, sem stefndi veitti forstöðu. Á fundum, sem aðilar áttu í framhaldi af því, mun hafa borið á góma einkahlutafélagið North Atlantic Computers Ísl. Félag þetta var að öllu leyti í eigu áfrýjanda, sem kvaðst í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi hafa keypt það fyrir 40.000 krónur á árinu 2000 eða 2001. Kom fljótlega til tals á fundum aðila að stefndi keypti hlut í félaginu, en þeim ber ekki saman um hvor þeirra hafi átt frumkvæði að viðræðum um þau kaup. Stefndi kvaðst í skýrslu fyrir héraðsdómi fljótlega hafa fengið upplýsingar og tölur úr viðskiptaáætlun, sem legið hafi fyrir varðandi félagið, en eintak af áætluninni hafi hann séð á skrifstofu áfrýjanda um mánaðamótin júní og júlí 2001. Áfrýjandi kvaðst fyrir héraðsdómi hafa kynnt stefnda kosti þá sem lægju í rekstri félagsins, en þeir hafi fyrst og fremst falist í viðskiptum erlendis.

 Í málinu hafa verið lagðar fram tvær viðskiptaáætlanir vegna reksturs North Atlantic Computers Ísl ehf. Eru þær báðar dagsettar 12. júní 2001. Tekur önnur þeirra til tímabilsins 1. maí 2001 til 30. apríl 2002 en hin til tímabilsins 1. júlí 2001 til 30. júní 2002. Voru aðilar sammála um það í skýrslum sínum fyrir héraðsdómi að fyrrnefnda áætlunin hafi legið fyrir í júnímánuði 2001 áður en kaup tókust með aðilum. Í hinum áfrýjaða dómi er hins vegar vitnað til efnisatriða hinnar rekstraráætlunarinnar, en aðilar eru sammála um að hún hafi ekki legið fyrir fyrr en eftir að hin umdeildu kaup tókust og kveðst stefndi hafa fengið þá viðskiptaáætlun senda í tölvupósti 21. ágúst 2001.

Sú viðskiptaáætlun, sem stefnda var kynnt fyrir kaupin, er 11 blaðsíður að lengd. Fyrsti kafli hennar fjallar um rekstur og rekstrarfyrirkomulag félagsins. Er því lýst að það hafi gert einkasölusamning á Íslandi og sölusamning vegna Skandinavíu við rótgróinn austurrískan tölvuframleiðanda, Gericom AG. Hafi félagið einnig heimild til að selja vörur þessa framleiðanda í Eystrasaltslöndum, Rússlandi, Japan, og Bandaríkjunum, auk þess að hafa vilyrði um að verða alþjóðlegur einkasöluaðili á öllum tollfrjálsum svæðum heims. Þar segir að starfsemi North Atlantic Computers Ísl ehf. verði eingöngu heildsala og dreifing. Öll sala félagsins fari fram með svonefndu „pre-paid“ fyrirkomulagi þannig að hver pöntun verði fyrirfram borguð eða greiðsla vegna hennar í ábyrgð af hálfu banka kaupandans. Félagið þurfi því ekki að eiga neinn lager eða fjármagna áhættusöm innkaup. Stöðugildi hjá félaginu sé eitt og hálft, en áætlað sé að starfsmenn verði ekki fleiri en þrír til fimm, sem gefi góða mynd af hagkvæmni rekstrarins. Í síðari hluta fyrsta kafla er fjallað um framleiðandann Gericom AG, markaðsstöðu hans og framleiðsluvörur. Í öðrum kafla viðskiptaáætlunarinnar er fjallað um markaðinn. Þar er almenn umfjöllun um tölvumarkaðinn, fyrst og fremst markað fyrir fartölvur og flatskjái, en á því sviði sé ætlunin að félagið sérhæfi sig. Síðan er rætt um einstök markaðssvæði. Varðandi Ísland er tekið fram að gengið hafi verið frá samningi við ACO hf. um sölu á framleiðsluvörum Gericom AG. Markmið félagsins sé að ná 14% markaðhlutdeild á næstu 12 mánuðum. Varðandi Skandinavíumarkað er tekið fram að félagið eigi nú þegar í viðræðum við þrjú félög um sölu og dreifingu á framleiðsluvörum Gericom AG í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Gangi þær viðræður vel og sé áætlað að þeim ljúki um miðjan júlí. Markmið félagsins sé að ná 4,3% markaðshlutdeild á næstu 12 mánuðum. Í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku hafi félagið þegar komið sér upp álitlegum viðskiptasamböndum sem lofi góðu. Í Eistlandi sé verið að leggja lokahönd á samning. Í Japan séu „heilmiklir möguleikar“ og „gríðarlegir“ í Rússlandi. Varðandi frísvæði er tekið fram að félagið hafi ágætis sambönd og verið sé að vinna að markaðssetningu. Í þriðja kafla áætlunarinnar er yfirlit yfir samninga félagsins. Þar er tekið fram að gerður hafi verið samningur við ACO hf. um sölu á 1.600 fartölvum og 200 flatskjám á Íslandi. Á lokastigi sé samningur við félagið Esknet í Eistlandi um sölu á að minnsta kosti 300 fartölvum og 100 flatskjám. Á umræðustigi séu samningar við þrjá aðila vegna sölu á markaði í Skandinavíu en vegna óska viðsemjenda sé ekki unnt að nafngreina þá að svo stöddu. Enn segir að „lágmarkskrafa“ félagsins við hvern þessara kaupenda sé sala á 15.000 fartölvum og 2000 flatskjám á næstu 12 mánuðum. Þá sé heldur ekki unnt að greina frá nöfnum viðsemjenda félagsins í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Japan en ljóst sé að markmið, sem félagið hafi sett sér á þessum svæðum séu vel framkvæmanleg. Í fjórða kafla er rekstraráætlun fyrir tímabilið 1. maí 2001 til 30. apríl 2002. Í forsendum hennar er gert ráð fyrir sölu á 43.400 fartölvum og 2.300 flatskjám á þessu tímabili, að mestu leyti erlendis. Rekstrartekjur félagsins á tímabilinu eru áætlaðar 6.120.300.000 krónur og rekstrarhagnaður þess eftir skatta 266.128.846 krónur.

Fyrir héraðsdómi bar stefndi að áfrýjandi hafi sagt honum að nafngreindur starfsmaður hjá Kaupþingi hf. hafi áætlað markaðsverð félagsins og hafi kaupverð, sem stefnda stóð til boða á hlutunum, miðast við þá áætlun. Hafi honum verið gefin ástæða til að ætla að Kaupþing hf. hafi komið að gerð fyrrgreindrar viðskiptaáætlunar. Þá hafi verið fullyrt að sjóðir á vegum Kaupþings hf. myndu fjárfesta í félaginu um haustið. Í greinargerð áfrýjanda fyrir héraðsdómi er því haldið fram að Kaupþing hf. hafi komið að gerð viðskiptáætlunarinnar. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi tók áfrýjandi fram að það væri ekki allskostar rétt, en hins vegar hefði starfsmaður Kaupþings hf., frændi starfsmanns North Atlantic Computers Ísl ehf., aðstoðað við gerð hennar „á vinanótum“. Sérstaklega spurður um það hvort hann hafi nefnt við stefnda að starfsmaður Kaupþings hf. hafi komið að gerð viðskiptaáætlunarinnar kvaðst áfrýjandi ekki muna hvort hann hafi nefnt nafn þessa manns. Áfrýjandi kvað það hins vegar af og frá að Kaupþing hf. hafi fundið út það söluverð á hlutum í félaginu, sem stefnda hafi staðið til boða. Eftir að stefndi hafi keypt hlut í félaginu hafi alltaf verið ætlunin að selja Kaupþingi að minnsta kosti 20 til 30% hlut í því.

Þann 9. júlí 2001 gerðu áfrýjandi og stefndi, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, með sér samning um kaup á 5% hlutafé í títtnefndu einkahlutafélagi. Umsamið kaupverð var 8.500.000 krónur sem greiðast skyldi við undirritun samningsins. Þá var í samningnum ákvæði þess efnis að stefndi hefði tiltekinn forgangsrétt til að selja sinn hlut í félaginu kæmi til sölu frekari hluta í því.

Kaupverð hlutafjárins var ekki greitt við undirskrift kaupsamningsins eins og þar var þó kveðið á um. Kvaðst stefndi fyrir héraðsdómi hafa lýst því yfir við undirritun að hann hefði ekki handbært fé til greiðslu kaupverðsins. Varð það úr að aðilar leituðu til Verðbréfastofunnar til að fjármagna kaupin. Gaf stefndi 29. ágúst 2001 út þrjú skuldabréf til handhafa samtals að fjárhæð 9.515.000 krónur. Voru bréfin vaxtalaus og féllu í gjalddaga í einu lagi 20. febrúar 2003. Var áfrýjandi sjálfskuldarábyrgðarmaður á einu þeirra. Voru bréfin seld með afföllum fyrir milligöngu Verðbréfastofunnar 4. september 2001.

Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvað stefndi að honum hafi orðið ljóst er kom fram á árið 2002 að ekkert stæðist af viðskiptaáætluninni. Hafi hann þá viljað ganga úr félaginu og áfrýjandi ekki tekið því ólíklega að losa hann úr því án skaða. Hafi hann gert kröfu um riftum kaupsamningsins „svona sirka í mars.“ Áfrýjandi heldur því fram að stefndi hafi á þessu stigi ekki borið fyrir sig vanefndir eða blekkingar en viljað að áfrýjandi keypti hinn selda hlut til baka þar sem stefndi hefði ekki greiðslugetu til að standa við kaupin. Hafi stefndi ekki greitt framangreind skuldabréf á gjalddaga þeirra 20. febrúar 2002. Síðar kom Þorbjörn Tjörvi Stefánsson viðskiptafræðingur að málinu að beiðni áfrýjanda til að leita lausnar á ágreiningi aðila. Fyrir hans milligöngu lagði áfrýjandi fyrir stefnda „greinargerð vegna starfsemi NAC“, dagsetta 21. júní 2002. Er efni hennar að nokkru rakið í héraðsdómi. Í júnímánuði 2002 lagði Þorbjörn Tjörvi  fram ódagsetta tillögu að samkomulagi aðila um lausn á framangreindum ágreiningi. Er efni hennar einnig rakið í hinum áfrýjaða dómi. Ekki leiddi þessi tillaga til samkomulags. Verður ráðið af skýrslum aðila fyrir héraðsdómi að helst hafi strandað á því að stefndi hafi viljað að áfrýjandi greiddi samanlagt nafnverð framangreindra skuldabréfa eða 9.515.000 krónur fyrir 5% hlutinn, en áfrýjandi hafi verið tilbúinn til að kaupa þann hlut til baka fyrir sama verð og tilgreint var sem söluverð hans í kaupsamningnum 9. júlí 2001 eða 8.500.000 krónur.

Með bréfi 24. september 2002 lýsti stefndi yfir riftun á kaupunum og væri það ítrekun á fyrri munnlegri yfirlýsingu um riftun. Hafi áðurnefnd viðskiptaáætlun verið forsenda kaupanna en hún hafi reynst röng í öllum grundvallaratriðum. Krafðist stefndi endurgreiðslu á umsömdu kaupverði, 8.500.000 krónum, ásamt vöxtum frá samningsdegi. Höfðaði hann mál þetta með stefnu 21. nóvember 2002.

 

II.

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að stefndi sé ekki réttur aðili að málinu. Hann hafi ekki gert kaupsamninginn 9. júlí 2001 í eigin nafni heldur fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags. Þá hafi stefndi ekki síðar verið skráður fyrir hlutunum en þeir skráðir á nafn þriðja manns að hans ósk. Í skýrslu fyrir héraðsdómi sagði stefndi að ekki hafi orðið af stofnun hlutafélags þess, sem til var vitnað í kaupsamningnum. Þá hafi heldur ekki orðið af fyrirhuguðum viðskiptum sínum við þann mann, sem hann hafi á sínum tíma óskað eftir að yrði skráður fyrir 5% hlutnum. Meðal gagna málsins er yfirlýsing þess manns því til staðfestu. Kvaðst stefndi vera eigandi umræddra hluta. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög getur óskráð hlutafélag hvorki öðlast réttindi né tekið á sig skyldur. Það getur heldur ekki verið aðili í öðrum dómsmálum en þeim, sem þar eru talin. Sá sem löggerning gerir fyrir hönd óskráðs hlutafélags ber persónulega ábyrgð á efndum hans, sbr. 2. mgr. tilvitnaðrar lagagreinar. Eðli máls samkvæmt verður sama regla að gilda þegar sótt eru réttindi vegna  hlutafélags, sem ekki  hefur verið stofnað. Er stefndi því réttur aðili að máli vegna krafna er af samningnum kunna að rísa.

Eins og að framan er rakið er ekki ágreiningur um að stefnda voru kynntir þeir kostir, sem áfrýjandi taldi að fælust í starfsemi North Atlantic Computers Ísl ehf. áður en kaupsamningurinn 9. júlí 2001 var gerður. Verður á því byggt að honum hafi fyrir kaupin verið kynnt sú viðskipaáætlun, sem aðilar eru sammála um að fyrir hafi legið í júnímánuði 2001, en efni hennar voru gerð skil hér að framan. Þá verður að leggja til grundvallar að stefnda hafi verið gefið til kynna að Kaupþing hf. eða starfsmaður þess hafi komið að gerð áætlunarinnar.

Í skýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að félagið hafi ekki selt eina einustu tölvu erlendis, en samkvæmt áætluninni yrði velta og tekjur félagsins fyrst og fremst vegna erlendra viðskipta. Meðal gagna málsins er ársreikningur margnefnds félags fyrir árið 2002. Kemur þar fram að vörusala félagsins var 23.015.586 krónur árið 2001 en  35.534.900 krónur árið 2002. Nam tap af rekstri félagsins 215.342 krónum fyrra rekstrarárið en 7.049.107 krónum það síðara. Af þessu sést að því fór víðs fjarri að viðskiptaáætlunin gengi eftir.

 Stefnda mátti vera ljóst að rekstur North Atlantic Computers Ísl ehf. var háður mikilli óvissu og að hann tók verulega áhættu með kaupum sínum á hlutafé í félaginu. Það að viðskiptaáætlunin gekk ekki eftir varðandi veltu og hagnað er í sjálfu sér ekki sönnun þess hún hafi verið óraunhæf. Af áætluninni sjálfri var ljóst að hún byggði fyrst og fremst á væntingum um árangur samningaviðræðna við erlenda kaupendur en ekki á gerðum samningum. Þar var þó lagt mat á líkindi þess að samningar tækjust. Var meðal annars fullyrt að samningar við nafngreint fyrirtæki í Eistlandi væru á lokastigi, að áætlað væri að samningaviðræðum við fyrirtæki, sem óskuðu nafnleyndar, vegna sölu til Skandinavíu lyki um miðjan júlí 2001 og að markmið félagsins um sölu í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Japan væru vel framkvæmanleg. Verður að telja að sönnunarbyrðin fyrir því að þær væntingar, sem áætlunin byggði á, hafi verið raunhæfar og hún þar með forsvaranleg hvíli á áfrýjanda. Sú sönnun hefur honum ekki tekist, en í málinu eru engin gögn sem styðja áætlunina að þessu leyti. Verður að telja að viðskiptaáætlunin hafi gefið svo ranga mynd af félaginu og viðskiptatækifærum þess að stefndi sé, vegna brostinna forsendna, ekki bundinn af samningi sínum 9. júlí 2001 um kaup á 5% hlutafjár í því.

Áfrýjandi krefst til vara sýknu að svo stöddu af kröfu stefnda þar sem stefndi hafi ekki greitt skuldabréf þau, sem hann gaf út 29. ágúst 2001, en áfrýjandi sé ábyrgur fyrir greiðslu þeirra. Áfrýjandi ber sjálfskuldarábyrgð á einu bréfanna að fjárhæð 4.750.000 krónur samkvæmt texta þess. Hin bréfin tvö bera það ekki með sér að áfrýjandi sé ábyrgur fyrir greiðslu þeirra. Sú ábyrgð sem áfrýjandi kann að hafa tekið á greiðslu umræddra skuldabréfa er sjálfstæður gerningur. Verður ógildi kaupsamnings aðila um hlutabréfin og endurgreiðsla kaupverðs þeirra ekki tengd því hvort á slíka ábyrgð áfrýjanda kunni að reyna. Varakröfu áfrýjanda verður því hafnað.

Verður áfrýjandi samkvæmt framansögðu dæmdur til að endurgreiða stefnda umsamið kaupverð hlutabréfanna, 8.500.000 krónur, með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Eru engin efni til að verða við kröfu stefnda um að áfrýjanda verði gert að greiða honum hærri fjárhæð. Munur á samanlögðu nafnverði skuldabréfanna þriggja, sem út voru gefin 29. ágúst 2001, og umsömdu kaupverði hlutabréfanna er í raun fjármagnskostnaður vegna þess að stefndi hafði ekki handbært fé til standa við kaupsamninginn af sinni hálfu. Verður hann sjálfur að bera þann kostnað.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Arnfinnur Sævar Jónsson, greiði stefnda, Birni Eysteinssyni, 8.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. febrúar 2002 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. september 2003.

 

I. Dómkröfur.

1.          Stefnandi hefur gert þessar kröfur í málinu.

Aðallega:

Að viðurkennd verði með dómi ógilding, en til vara, riftun á kaupsamningi, dags.09.07.2001 milli stefnanda og stefnda um 5% hlutafé í einkahlutafélaginu NAC- North Atlantic Computers kt. 430192-2219.

Að stefndi greiði stefnanda kr.9.515.000 auk dráttarvaxta skv.  1. mgr. 6. gr. l. 38/2001 um vexti og verðtryggingu  frá 20.02.2002 til greiðsludags.

Til vara:

Að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta eða afsláttar úr hendi stefnda.

Að stefndi greiði stefnanda kr.9.515.000 eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins, auk dráttarvaxta skv.  1. mgr. 6. gr. l. 38/2001 um vexti og verðtryggingu  frá 20.02.2002 til greiðsludags.

Að stefnda greiði stefnanda málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

2.          Stefndi krefst þess aðalega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefndi verði sýknaður að svo stöddu.

             Þá er þess krafist að stefnandi greiði stefnda málskostnað.

             Stefndi hafði upphaflega gert kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi en féll frá þeirri kröfu við meðferð málsins.

 

II. Málavextir.

              1. Málavextir stefnanda eru þeir að þann 09.07.2001 keypti stefnandi 5% hlutafjár í einkahlutafélaginu NAC-North Atlantic Computers ehf af stefnda sem átti allt hlutafé félagsins.  Í kaupsamningnum, sem saminn er af stefnda, segir um hið  selda:

Með í kaupunum eru öll viðskiptasambönd NAC hverju nafni sem nefnast, þar með eru taldir umboðs-samningar við Gericom AG og IPC-Archtec AG. Björn Stefán Eysteinsson kt. 091248-3289 skal fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags eignast einnig 5% hlut í vörumerkinu NAC.Var kaupverð ákveðið kr. 8.500.000 og skyldi það greitt við undirritun samnings með skuldabréfum. Var heildarvirði  félagsins skv. því  kr. 170 milljónir.

Aðdragandi kaupanda var sá að stefndi, sem hefur rekið heild- og smásöluverslun á Íslandi og erlendis um árabil hafði samband við stefnanda og bauð honum að kaupa 5% hlutafjár í félaginu NAC-North Atlantic Computers ehf. Grundvöllur kaupanna var viðskiptaáætlun frá 12 júní 2001 fyrir NAC-North Atlantic Computers sem stefndi hafði gert. Í viðskiptaáætluninni kemur fram að félagið hafi gert “sölu- og dreifingarsamning á Scandinavíumarkaði, Ameríkumarkaði (USA, Canada og S-Ameríku), Japan, Rússland og Eystrasaltslöndin við framsækna, trausta og rótgróna Evrópska tölvuframleiðendur. Olivetti, Gericom AG og IPC Archtec AG.” Er því lýst yfir að “ öll sala NAC fer fram á svokölluðu “ Pre-paid” fyrirkomulagi, þ.e. að hver pöntun er fyrirfram borguð eða greiðsla ábyrgð af banka viðkomandi viðskiptaaðila.” Er og fullyrt að NAC þurfi ekki að fjármagna áhættusöm innkaup og engin gengisáhætta, afskriftir o.þ.h. sé til staðar hjá NAC. Í áætluninni er lýst yfir að samningar hafi tekist við Aco Tæknival ehf. um sölu á Gericom tölvum og Pennann-Griffil um sölu á IPC-Archtec tölvum. Er stefnt að 5% markaðshlutdeild á Íslandi frá júlí 2001 til júlí 2002. Þá var félagið sagt vera í viðræðum við 3 fyrirtæki um sölu og dreifingu á tölvum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og lyki þeim samningum í október 2001.   Áætluð sala í Skandínavíu væri ca 3,5 milljón tölva á ári og þar af 250.000,- fartölvur. Að því er varðaði sölu í Norður- og Suður Ameríku var því lýst yfir að félagið hefði umboð til að selja og markaðssetja vörur Gericom og IPC-Archtec í Bandaríkjunum. Þá sagði að “verið væri að ganga frá samningi um þjónustu á vörum Gericom og IPC í USA og S-Ameríku ( “after sales service” ) sem er höfuð forsenda markvissrar markaðssóknar.” Þá var fullyrt að félagið stæði í viðræðum við verslunarkeðjurnar Best Buy og Office- Depot í Bandaríkjunum og í AAA- Co Operation In´l í Japan. Var og fullyrt að “mjög líklegt verður að teljast að þau markmið sem NAC hefur sett sér á þessum svæðum eru vel framkvæmanleg”

Í rekstraráætlun sem tilheyrði viðskiptaáætluninni kemur fram að áætlaðar tekjur í júlí 2002 skyldu nema u.þ.b. kr. þremur og hálfum milljarði króna. Í rekstraráætluninni er félagið sagt skuldlaust utan það að taka skuli ný lán að fjárhæð ein milljón og fimmhundruð þúsund á tímabilinu júlí, ágúst og september 2001.

Í áætluðum efnahagsreikningi pr. júní 2002 var sjóður sagður nema kr. 168.810.093 sem er u.þ.b. sú tala sem félagið var metið á í heildina í samningi aðila.

Stefndi fullyrti við stefnanda að Kaupþing hf. hefði aðstoðað sig við gerð viðskipta- og rekstraráætlunarinnar og væri Kaupþing að auki að vinna í því að selja viðbótarhlutafé í  félaginu til fjárfesta og væri fyrirsjáanlegt að stefnanda yrði unnt að endurselja hlutaféð innan skamms tíma. Sömdu stefnandi og stefndi  um að ef selt yrði meira en 20% hlutafjár í félaginu þá “skal Björn Stefán Eysteinsson kt.091248-3289…hafa forgangsrétt til þess að selja sinn 5% hluta” sbr. svonefnt “söluréttarákvæði” í kaupsamningnum.

Í stað þess að staðgreiða kr. 8.500.000 eins og samningurinn kvað á um sömdu aðilar um að stefnandi myndi greiða hið selda með skuldabréfum að fjárhæð samtals kr. 9.515.000,- sem voru með gjalddaga 20.02.2002. Seldi stefndi bréfin til Verðbréfastofunnar hf. Í tengslum við frágang á skuldabréfunum komst stefnandi að því að Garðar Vilhjálmsson kt. 210965-4839, væri viðskiptafélagi stefnda í NAC-North Atlantic Computers ehf. og stefndi hefði skömmu fyrir kaupsamninginn keypt hlutabréfin í félaginu af téðum Garðari eða félagi tengdu honum.En Garðar þessi varð gjaldþrota 1998 og hefur síðan oftsinnis verið gerð hjá honum árangurslaus aðför.

Nokkru eftir að kaupsamningurinn var gerður fór stefnandi að grafast fyrir um hvernig starfsemi félagsins gengi með tilliti til viðskiptaáætlunarinnar. Skemmst er frá því að segja að við þá skoðun kom í ljós að fullyrðingar í viðskiptaáætlunni reyndust rangar í öllum aðalatriðum.Voru sölu- og dreifingarsamningar fyrirtækisins langt frá því að vera til staðar í þeim mæli sem staðhæft var í áætluninni og ekkert bólaði á að rekstur þess yrði með þeim hætti sem lýst hafði verið af stefnda. Kaupþing virtist ekki hafa komið að málum félagsins.

Óskaði stefnandi þá eftir riftun á samningnum í ljósi þess að félagið hefði ekki yfir að ráða þeirri viðskiptavild  sem stefndi staðhæfði að væri fyrir hendi við kaupin og forsendur fyrir kaupunum og greiðslu kaupverðsins væru brostnar.

Í júní 2002, eftir allnokkra fundi aðila ásamt Þorbirni Tjörva Stefánssyni viðskiptafræðingi, aðstoðarmanni stefnda og nefndum Garðari Vilhjálmssyni, sem sat alla fundina með stefnda, lét stefndi stefnanda í té greinargerð sína vegna starfsemi NAC. Hún staðfestir að fullyrðingar í áætluninni hafi verið meira og minna rangar í öllum atriðum. Er þar t.d. fullyrt varðandi samninga í Skandínavíu  að NAC hafi farið á fund til Danmerkur og átt í viðræðum við aðila.Segir t.a.m. “Ljóst er að mikinn tíma tekur að vinna markaði þar og þarf til þess ákveðið fjármagn.Reynst hefur erfitt að nálgast aðila sem fyrirtæki frá Íslandi” Ekki er þar minnst á Noreg eða Svíþjóð. Er ljóst að staðhæfingar í áætluninni um að viðræður við 3 fyrirtæki  um sölu og dreifingu í Noregi, Danmörku og Svíþjóð gengju vel og að samningum yrði lokið í október 2001 voru alrangar. Um Bandaríkin segir í greinargerðinni að “gerðar hafi verið ákveðnar kannanir varðandi samkeppnisstöðu NAC í verðum á þessum markaði…hinsvegar þarf gríðarlegt fjármagn og tíma til að ná einhverri festu í USA…þá hefur NAC lagt grunn að stofnun NAC America í Miami sem mun þjóna USA og S- Ameríku og jafnvel Skandínavíu.Rætt hefur verið við fjárfesta og er nú verið skoða þau mál.” Er því ljóst að hin álitlegu sambönd sem lofuðu góðu og þeir samningar sem “verið [var] að ganga frá” í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku voru aldrei til staðar, eins og fullyrt var í áætluninni. Um Suður Ameríku segir að burðarliðnum sé stofnun NAC Miami sem þjóna eigi þeim markaði og því sömuleiðis ljóst að staðhæfingar í áætluninni um sölu í Suður Ameríku voru rangar og misvísandi. Um Kanada er sagt í greinargerðinni að “lítið [hafi] verið gert” Ekki er minnst á stöðu mála í  Eystrasaltslöndum, Japan og öðrum löndum sem nefnd eru í viðskiptaáætluninni. Bersýnilegt er að engin viðskipti vöru þar á vegum félagsins.Um Ísland segir fátt nema að Aco Tæknival hafi vanefnt samning og verið sé að ræða við hin og þessi fyrirtæki sem selji tölvur í smásölu. Greinargerðin staðfesti því að engin rekstur væri á vegum NAC-North Atlantic Computers ehf. , hvorki hérlendis né erlendis.

Að fenginni þessari greinargerð ítrekaði stefnandi kröfur sínar um riftun á samningnum þar sem ljóst væri að viðskipta- og rekstraráætlun sú sem var grundvöllur kaupanna stóðst í engu og heimilaði stefnanda að rifta kaupin.

Í framhaldi þessa hittust aðilar í júní 2002 ásamt Þorbirni Tjörva, aðstoðarmanni stefnda og téðum Garðari, til þess að ræða riftunarkröfu stefnanda. Á þeim fundi féllst stefndi á að greiða stefnanda kaupverðið til baka, en þó þannig að Þorbirni var falið af stefnda að setja fram drög að því hvernig endurgreiðslunni skyldi hagað. Þann 27.júní lét téður Þorbjörn Tjörvi stefnanda hafa tillögu að samkomulagi. Er í henni kveðið á um að;“ Kaupandi (Björn) [hafi] gert ágreining um verðmæti þess hlutafjár sem keypt var og haldið því fram að verðmæti hlutafjár hafi verið mun minna en þær 8,5 millj.

sem greiddar voru. Seljandi (Sævar) hefur lýst sig ósammála þessu mati kaupanda” Var  lagt til að; “Sævar [hafi] rétt til 20 ágúst 2002 til að selja hlutabréf Björns í NAC, þ.e. 5% eignarhlut, Birni að skaðlausu.heildargreiðsla til Björns skal þó eigi vera lægri en kr. ---???. og skyldi hér setja inn þá fjárhæð sem næmi uppreiknuðum skuldabréfum sem stefnandi hafði afhent stefnda. Þá sagði í drögunum: Finnist ekki kaupandi fyrir 20 ágúst 2002 skal Birni afhent 5% eignarhlutur til viðbótar þannig að hlutafé Björn verði 10% af hlutafé einkahlutafélagsins. Afhending hlutafjár er háð því skilyrði að Sævar hafi kauprétt á viðbótarhlutafé Björns næstu 12 mánuði frá dagsetningu samkomulags þessa. Umsamið kaupverð á 5% viðbótarhlut Björns skal vera kr. 3.000.000,- þrjármilljónirkróna.” Þá sagði ennfremur í samkomulagsdrögunum að “Aðilar eru sammála um að öllum ágreiningi um kaupverð hlutabréfa í NAC sé lokið og að samkomulag þetta verði ekki borið undir dómstóla”

Stefnandi féllst ekki á þessa tillögu stefnda þar sem hún fól ekki í sér ótvíræða  skyldu fyrir stefnda að endurgreiða kaupverðið og krafðist þess að stefndi játaðist undir fulla endurgreiðslu kaupverðs.

Aðilar, ásamt Þorbirni Tjörva og téðum Garðari, hittust enn í júlí 2002 þar sem stefnandi kom með breytingartillögu við tillögu stefnda sem stefndi hafnaði. Stefndi kvaðst vilja ræða aðrar útfærslur og lýsti yfir að hann myndi gera stefnanda tilboð. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar af því tagi hefur stefndi ekki komið fram með tilboð til lausnar málsins.

Þann 24. september 2002 ritaði lögmaður stefnanda bréf til stefnda  þar sem ítrekuð var yfirlýsing stefnanda um riftun á kaupsamningnum. Var krafist endurgreiðslu á kaupverðinu auk vaxta innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Að beiðni lögmanns stefnda var fresturinn framlengdur. Þrátt fyrir það hefur bréfinu ekki verið svarað en vísað til þess að stefndi væri reiðubúinn að kaupa hlutinn til baka. Þó að kallað hafi verið eftir slíku kauptilboði hefur því ekki verið sinnt en af hálfu stefnda verið vísað til þess sem munnlega hefur farið á milli aðila málsins.

Þar sem stefndi hefur ekki orðið við tilmælum um endurgreiðslu kaupsverðsins er stefnanda nauðugur kostur að höfða mál á hendur stefnda til ógildingar eða riftunar kaupsamningsins og endurheimtu kaupverðsins auk dráttarvaxta og kostnaðar, eða skaðabóta og afsláttar ef ekki verður fallist á ógildingar og riftunarkröfur stefnanda.

 

2. Málsatvik stefnda eru þau að stefndi kemur að máli við stefnanda, sem þá var útibússtjóri í SPRON í Hátúni, um að bankinn tæki í viðskipti nokkur félög sem stefndi var aðaleigandi í, m.a. NAC ehf.. Eftir ítarlega könnun af hálfu stefnanda á stöðu félaganna varð úr að bankinn tók þau í viðskipti.

Fljótlega fór stefnandi að sýna áhuga á kaupum á hlut í NAC. Farið var að vinna að viðskiptaáætlun eftir það. Var stefnandi sjálfur einn af aðalmönnum við gerð hennar ásamt Kaupþingi hf., og Garðari Vilhjálmssyni, sem á þeim tíma stóð í samningagerð f.h. félagsins víðsvegar um heim. Tók sú viðskiptaáætlun ýmsum breytingum um sumarið 2001 og sú sem lögð er fram af hálfu stefnanda í málinu er ekki endalega áætlunin heldur sú sem lögð er fram með greinargerð þessari á dskj. nr. 15. Stefndi kom minnst að gerð þessarar áætlunar heldur var stefnandi sjálfur aðalmaður við gerð hennar enda hafði hann þá þekkingu sem til þurfti. Hafði hann aðgang að öllum gögnum um félagið, hvaða saminga var búið að gera og hvaða samningaviðræður voru í gangi. Því er harðlega mótmælt að nokkrum svikum eða blekkingum hafi verið beitt af hálfu stefnda.

Eftir mikla eftirgangsmuni af hálfu stefnanda féllst stefndi á að selja honum eða félagi á hans vegum 5% hlut í félaginu. Þar sem stefnandi var útibússtjóri í viðskiptabanka félagsins varð úr að félag sem hann hugðist stofna keypti hlutinn af stefnda og var undirritaður kaupsamningur þess efnis 9. júlí 2001, sbr. dskj. nr. 4. Samkvæmt honum átti kaupandi að greiða kr. 8.500.000 við undirritun hans. Vegna fjárskorts gat stefnandi ekki greitt kaupverðið við undirritun samningsins. Varð þá úr að stefnandi gaf út 3 skuldabréf samtals að fjárhæð kr. 9.515.000 vaxtalaust með gjalddaga 20. febrúar 2002, sem greiðslu kaupverðs. Var það gert í samráði við Verðbréfastofuna ehf., sem var tilbúin að greiða fyrir þau kr. 8.500.000 sem stefndi fékk í hendur gegn því að vera sjálfskuldarábyrgðarmaður á einu bréfanna og taka fulla ábyrgð á þeim að öðru leyti sem framseljandi allra bréfanna. Þetta var allt ákveðið áður en bréfin voru gefin út.

Stefndi veit ekki hvort kaupandi, hið óstofnaða félag, hafi verið stofnað. Þegar kom að því að gera hlutaskrá í NAC var stefnandi inntur eftir því hver væri eigandi hlutarins sem hann sagði að væri Rúnars Guðjónssonar, kt. 030365-4969, Hvassaleiti 24, Reykjavík. Var sá maður því skráður eigandi hlutarins í skrá félagsins og hefur því ekki verið breytt enda ekki komið fram ósk um það. Það er því alröng fullyrðing sem fram kemur í stefnu að hluturinn sé skráður á nafn stefnda og að stefnandi hafi ekki fengið hann skráðan á sig. Er ýjað að því í stefnunni að að hafi ekki fengist þrátt fyrir ítrekuð tilmæli þar um.

Haldið er áfram að vinna að markmiðum sem fram koma í viðskiptaáætlun um veturinn og tók stefnandi fullan þátt í því starfi eins og sjá má af gögnum málsins. Engar athugasemdir komu þá fram af hálfu stefnanda.

Skuldabréf þau sem stefnandi gaf út sem kaupsamningsgreiðslu fóru í vanskil en þau áttu að greiðast í einu lagi 20. febrúar 2002. Var þá ljóst að stefnandi hafði ekki greiðslugetu og fór fram á um vorið 2002 að stefndi keypti aftur hinn selda hlut með því að greiða upp bréfin. Stefnandi bar ekki fyrir sig vanefndir eða blekkingar af hálfu stefnda í upphafi þó ljóst væri þá að markmið félagsins hefðu ekki að öllu leyti náðst eins og stefnt var að.

Var stefndi tilbúinn að kaupa til baka hlutinn, aðallega vegna þess að hann taldi það skylt samkvæmt hlutafélagalögum vegna meirihlutaeignar sinnar í félaginu en aðeins á því verði sem hann fékk fyrir hlutinn eða kr. 8.500.000. Þá fyrst bar stefnandi fyrir sig svik og blekkingar af hálfu stefnda talaði um að rifta kaupunum og krafðist þess að hann greiddi bréfin að fjárhæð kr. 9.515.000 auk dráttarvaxta sem þá voru fallnir á bréfin vegna vanefnda stefnanda.

Þann 24. september 2002 lýsti stefnandi yfir riftun á samningnum sem var mótmælt af hálfu stefnda. Í október 2002 hefjast síðan innheimtuaðgerðir á hendur stefnda sem ábyrgðarmanns vegna bréfanna sem stefnandi gaf út til greiðslu kaupverðsins, sbr. dskj. nr. 17.

 

III. Málsástæður.

1.          Stefnandi byggir kröfur sínar á eftirgreindum málsástæðum:

Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi þegar fallist á riftunarkröfu stefnanda sbr. tillaga stefnda að samkomulagi frá júní 2002 þar sem stefndi hafi boðist til að halda stefnanda skaðlausum af þessum viðskiptum með þeim hætti sem greinir í tillögunni. Snúist málið því í reynd aðeins um endurgreiðslukröfu stefnanda. Verði að miða við það kaupverð sem stefnandi greiddi stefnda skv. kaupsamningnum.

 

Verði ekki fallist á framangreint er, í öðru lagi, byggt á því að stefndi hafi beitt svikum við sölu hlutabréfanna. Hafi NAC-North Atlantic Computers ehf. verið eignalaust fyrirtæki er kaupin áttu sér stað og viðskipta- og rekstaráætlun fyrir félagið hafi verið tilbúningur; full af röngum og misvísandi staðhæfingum um viðskiptavild og sölumöguleika félagsins á Íslandi og erlendis. Sé ljóst að staða félagsins sé í engu í samræmi við viðskipta-og rekstraráætlun þá sem stefndi lagði fram og var forsenda kaupanna. Hafi stefndi vísvitandi haldið fram röngum upplýsingum í því skyni að fá stefnanda til að kaupa 5% eignarhlut í félaginu. Sé samningurinn því haldinn upphaflegum ógildingarannmörkum og beri því að ógilda hann með dómi.

Verði ekki fallist á framangreint er, í þriðja lagi, byggt á því að hið selda sé haldið göllum og hið selda hafi ekki uppfyllt þá áskildu kosti sem það skyldi hafa skv. sölulýsingu stefnda sbr. viðskipta- og rekstraráætlun stefnda fyrir NAC-North Atlantic Computers ehf. Í sölulýsingu hafi stefndi lýst áætlaðri afkomu NAC-North Atlantic Computers ehf á tímabilinu júní 2001 – júní 2002 er byggði á samningum og samningaviðræðum félagsins. Hafi kaupverðið verið ákveðið m..t.t. væntrar afkomu félagsins í júní 2002.  Hafi stefnandi mátt gera ráð fyrir að viðskiptaáætlunin byggði á traustum grunni enda stefndi stundað heild- og smásölurekstur á Íslandi og erlendis um árabil. Hafi raunin hinsvegar verið sú að viðskiptaáætlunin og forsendur hennar hafi verið einber tilbúningur; hafi viðskiptasambönd NAC-North Atlantic Computers ehf fráleitt verið með þeim hætti að viðskipta- og rekstraráætlunin gæfi rétta eða, eftir atvikum, líklega mynd af væntanlegum rekstrarárangri félagsins. Hafi sölulýsingin því verið villandi og röng og í engu samræmi við raunverulega stöðu félagsins. Þá hafi ekki verið gerð rétt grein fyrir raunverulegri skuldastöðu félagsins fyrir kaupin.  Hafi hin seldu hlutabréf  verið í reynd  verðlaus þar sem NAC-North Atlantic Computers ehf. hafi verið og sé eignalaust fyrirtæki.Eigi stefnandi skýlausan rétt til þess að rifta kaupsamningnum og fá kaupverðið endurgreitt.

Verði ekki fallist á framangreint er, í fjórða lagi, byggt á því að með hliðsjón af öllum atvikum skuli samningnum vikið til hliðar að öllu leyti á grundvelli 36. gr. l. 7/1936, þar sem ósanngjarnt sé að stefnandi sé við samninginn bundinn.

Verði ekki fallist á framangreint er, í fimmta lagi,  krafist þess að galli á hinu selda skuli veita stefnanda rétt til skaðabóta eða afsláttar úr hendi stefnda.

Tekið skal fram að stefnandi hefur aldrei fengið hina seldu hluti skráða á sitt nafn. Þeir hafa ætíð verið skráðir á nafn stefnda í hlutaskrá félagsins.

Um lagarök vísast til l. nr. 7/1936 sbr. síð.breyt., einkum 30 gr. og 36 gr. þ.l. Að auki vísast til l. nr. 50/2000, V.kafla. Um vexti vísast til vaxtalaga nr.38/2001.Um málskostnað vísast til 129.gr. og 130.gr. l. 91/1991.

 

2.          Aðalkröfu sína um sýknu byggir stefndi á eftirtöldum atriðum:

1.        Aðildaskortur. Telur stefndi óljóst með aðild stefnanda í málinu. Þó að stefnda væri kunnugt að stefnandi vildi eignast hlut í NAC á vildi hann ekki vera hinn formlegi eigandi og reiknaði stefndi alltaf með að félag yrði eigandi hlutarins þó svo að stefnandi væri ráðandi í því félagi með einum eða öðrum hætti. Ekkert liggur fyrir að stefnandi hafi síðar orðið sjálfur eigandi að hlutnum enda hafi hann ekki óskað eftir því að vera skráður fyrir honum heldur lýst því yfir að annar maður væri eigandi að hlutnum. Margt bendir því til að annar en stefnandi eigi hlutinn og því varhugavert að taka kröfu stefnanda til greina eins og málið liggur fyrir núna. Sömu sjónarmið eiga einnig við um frávísunarkröfuna.

2.        Stefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á að stefndi hafi samþykkt riftun sbr. dskj. nr. 7 (væntanlega vegna vanefnda hans) og því sé aðeins um endurgreiðslukröfu stefnanda að ræða á kaupverðinu sem greitt var. Því er mótmælt að stefndi hafi samþykkt riftun. Umræður sem fram fóru í júní 2002 snéru alfarið um kaup hans á hlutnum aftur enda engar riftunarheimildir fyrir hendi að mati stefnda. Ástæða þess var að stefndi taldi að honum sem meirihlutaeiganda væri skylt að kaupa hlutinn yrði þess krafist. Deilt var hins vegar um kaupverð þar sem stefndi vildi aðeins greiða það sem hann fékk fyrir hlutinn á sínum tíma en stefnandi vildi einnig fá þá fjárhæð sem kostaði hann að fá lánað fyrir hlutnum.

3.        Í öðru lagi byggir stefnandi á svikum með því að stefndi hafi vísvitandi haldið fram röngum upplýsingum í því skyni að fá stefnanda til að kaupa hlutinn í félaginu. Þessu mótmælir stefndi harðlega sem röngu og ósönnuðu. Viðskipta- og rekstraráætlun lá ekki fyrir þegar stefnandi sýndi áhuga á kaupunum. Hún var unnin í samvinnu við stefnanda og Kaupþing og tók nokkrum breytingum eftir því sem vinnan þróaðist og endalegan áætlun var gerð á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna sem lágu fyrir og stefnandi hafði aðgang að. Stefnanda var því kunnugt um hvaða samningar voru í höfn og hverjir ekki og hafði mikla þekkingu á því starfi sem unnið hafði verið, sbr. símbréf hans til Sparisjóðs Kópavogs sem hann sendi þann 6. desember 2001 á dskj. nr. 16 og sjá má á tölvupósti á dskj. nr. 19.

4.        Þá byggir stefnandi í þriðja lagi riftunar- og endurgreiðslukröfu sína á því að hið selda sé haldið göllum og hafi ekki þá áskildu kosti sem skyldi samkvæmt “söluyfirliti” stefnda, sbr. viðskipta- og rekstraráætlunina. Eins og fram hefur komið er rekstrar- og viðskiptaáætlunin gerð í samvinnu við stefnanda og kom hann að henni sem sérfræðingur og var innanhandar við gerð hennar. Hún var því engin sölulýsing enda stóð aldrei til að selja umræddan hlut fyrr en stefnandi þrýsti á um það. Það kemur skýrt fram í viðskipta- og rekstraráætluninni að áhætta er mikil en ef markmið og samningar nást er líka von um mikinn hagnað. Þessi áætlun er byggð á von manna eftir að hafa staðið í viðræðum um sölu víðsvegar um heim. Hins vegar lá alltaf fyrir að allir samningar voru ekki í höfn þótt væntingar væru miklar. Hvort þessar væntingar voru raunhæfar miðað við fyrirliggjandi gögn gat stefnandi helst metið sem kunnáttumaður á þessu sviði.

5.        Stefndi telur fráleitt að efnisatriði 36.gr. samningalaga eigi við í máli þessu. Í hlutabréfaviðskiptum er verið að taka áhættu. Kaupverð á hlut byggist að talsverðu leyti á væntingum. Stefnandi getur ekki borið fyrir sig 36.gr. samningalaga eða að hluturinn hafi verið gallaður þó svo að árangur félagsins hafi ekki staðið undir væntingum enn sem komið er, sérstaklega ekki þegar litið er til þess að stefnandi hefur þekkingu á þessu sviði umfram stefnda. Með sama hætti gæti seljanda hlutar ekki krafist ógildingar á sölu vegna þess að árangur varð meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þrautavarakröfu sína um sýknu að svo stöddu byggir stefnanda á að réttur stefnanda til endurgreiðslu er enn ekki orðinn til þar sem hann hefur ekki greitt af skuldabréfum þeim sem notuð voru til greiðslu á hlutnum. Eigandi bréfanna getur gengið að stefnda til greiðslu þeirra með aðför en slíkt innheimtuferli er þegar hafið, sbr. dskj. nr. 17. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að stefnandi hefur ekki sýnt fram á að réttindin séu hans. Um þrautavarakröfuna vísast til 2.mgr. 26.gr. laga nr. 91/1991.

Lagarök: Um lagarök að öðru leyti vísast til meginreglu samningalaga og IV. og V. kafla 1. r. 50/2000. Um málskostnað vísast til 129. og 130.gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

 

IV. Sönnunarfærsla.

             Aðilar máls þessa hafa gefið skýrslu fyrir dómi og vitni hafa borið Þorbjörn Tjörvi Stefánsson, kt. 160662-5819, Ljósheimum 16b, Reykjavík og Garðar Vilhjálmsson, kt. 210965-4839, Læjarsmára 86, Kópavogi.

             Í skýrslu stefnanda kom fram að stuttur aðdragandi hafi verið að kaupum hans á hlutabréfum í einkahlutafélaginu Nac, sem sé að meginhluta í eign stefnda. Hann kveðst hafa þekkt stefnda, sem væri kaupmaður, sem væri m.a. með verlsunina Leonard og hafi verið með viðskipti í Íslandsbanka, útibúi, þar sem stefnandi var útibússtjóri og það þá aðstoðað stefnda við að fá endurfjármögnunarlán vegna eigna hans í Kringlunni. Hann kvað stefnda hafa komið til han, seinni hluta maímánaðar 2001 og vilja fá ábyrgðir vegna félaga sem hann átti á Ítalíu og Sviss og tengdust útflutningi þaðan til Hong Kong og Japan. Um hafi verið að ræða miklar ábyrgðir og  hann hafi lagt erindið fyrir lánafund í Sparisjóði Reykjavíkur og Nágrennis, þar sem hann var útibússtjóri en því verið hafnað. Hann kvað stefnda hafa svo fengið að stofna ávísanareikning í Sparisjóðnum vegna viðskipta Leonards. Í þessum samskiptum þeirra hafi komið fram að stefndi væri með einkahlutafélagið Nac og að til stæði að selja fáa hluti í félaginu og hafi stefndi spurt hann hvort hann hefði áhuga á að kaupa bréf í félaginu. Fram hefði komið að verið væri að ganga frá viðskiptaáætlum fyrir félagið og framtíð þess væri glæsileg og hafi verið fullyrt, að til stæði að selja fleiri hluti í félaginu eða 20-30% af hlutafé félagsins og stæði til að Kaupþing kæmi inn í félagið með því að kaupa þessa hluti eða sjá um sölu þeirra og þá myndi Nac ehf., hækka gríðarlega í verði. Stefnandi kvað stefnda hafa metið félagið á 160 milljónir og hafi byggt á 12 mánaða veltitölum í viðskiptaáætlun fyrir félagið. Stefnandi kvaðst hafa séð viðskiptaáætlun sem dagsett er 12. júní 2001, fengið hana í tölvupósti 21. ágúst 2001 en áður verið búinn að sjá hana á skrifstofu stenfda. Hann kvað engin gögn hafa fylgt viðskiptaáætluninni og honum ekki verið kynnt nein undirgögn og hafi það ekki gerst fyrr en eftir kaup hans að hlutabréfum í félaginu, að hann fór að sjá afrit af gögnum. Hann kvaðst hafa haft ástæðu til að ætla að Kaupþing væri búið að fara í gegnum viðskiptaáætlunina, en kaupréttarákvæði í kaupsamningi hans um bréfin um forgangsrétt til að selja bréf í félaginu hafi tengst innkomu Kaupþings í það.

Stefnandi hefur neitað því, að hafa komið nálægt fjármálum Nac ehf., og lánsumsókn félagsins til Sparisjóðs Kópavogs hafi það yfirfarið til að leiðrétta nafnavillur en hann hafi ekki samið það né ráðið neinu um efni þess. Hann hefur neitað því að hann hafi í upphafi sýnt bréfinu í Nac ehf., sérstakan áhuga, heldur hafi stefndi haldið þeim að honum og fengið hann til að kaupa eftir að hafa sýnt honum viðskiptaáætlun og sýnt honum fram á, að miklar hagnaðarspár og breytingar á félaginu, sem valda myndu hækkun á verði bréfanna, en stefnandi kvaðst hafa borið því við, að hann hefði ekki fjármagn til hlutabréfakaupanna og stefndi þá séð um að fá lán, sem hann ábyrgðist en stefnandi tók til kaupanna.

Hann neitaði því að hafa í upphafi unnið að markmiðum félagsins eða að hafa komið að gerð viðskiptaáætlananna, en stefnda hafi hlotið að vera ljóst að viðskiptaáætlun gat ekki gengið en stefnandi kvaðst hafa komist að því í janúar 2002, að viðskiptaáætlunin stóðst ekki og ekkert hafi staðið eftir að þargreindu fullyrðingum og hann hafi svo í febrúar – mars látið óánægju sína ákveðið í ljós og hefðu þá komið jákvæðar yfirlýsingar frá stefnda um að losa stefnanda út úr félaginu, en ekki hafi náðst samkomulag, sem tryggði að hann færi skaðlaus frá viðskiptunum.

             Stefndi Arnfinnur Sævar kvað það fráleitt að hann hafi fengið stefnanda til að kaupa hlutabréf í Nac ehf., með því að beita blekkingum. Til grundvallar verðmati á félaginu hafi legið samningur við Aco – Tæknival um kaup á tölvum o.fl. fyrir um kr. 250.000.000,- . og sé það þumalputtareglan í þessu sambandi, að með því að margfalda veltu félags með ákveðinni tölu komi fram verð á fyrirtæki og hafi verð á Nac miðast við saminginn við Aco–Tæknival en ekki hafi verið byggt á viðskiptaáætluninni við verðmatið. Hann kvað stefnanda hafa auk viðskiptáætlunar hafa fengið öll gögn sem hann hafi beðið um, en er kaupin hafi verið gerð, hafi engin viðskipti verið í hendi í U.S.A. eða annars staðar erlendis. Hann kvað viðskiptaáætlunina hafa verið vinnuskjal, sem tekið hafi breytingum. Hann kvað Kaupþing ekki hafa komið að viðskiptaáætluninni, heldur hafi starfsmaður Kaupþings aðstoðað við gerð hennar og hafi það verið vinargreiði, en Garðar Vilhjálmsson hafði samið hana í samráði við PriceWaterHouse-Coopers. Hann kvað áætlunargerðina sem dags. er í júni, dskj. nr. 15, hafa verið hugmyndir á pappír, sem hafi verið taldar geta gengið upp en verið óundirritað skjal.

Hann kvað alltaf hafa verið ætlunina að selja Kaupþingi 20-30% í fyrirtækinu. Hann og starfsmaður Nac ehf., hafi verið í viðræðum við viðskiptaaðila bæði í U.S.A og Skandinavíu um sölu á tölvum en þær viðræður ekki gengið eftir eins og vonast var til né í Asíu og hafi vantað meira fjármagn til að koma þessum viðskiptum á en mörg ljón verið á veginum og eiginlega verið lokað fyrir viðskipti til Skandinavíu og helst opnast leið um viðskipti á tölvum til Suður-Ameríku, og séu nú væntingar um þau viðskipti. Hann kvað áætlun um sölu á 41 þúsund tölvum hafa verið óraunhæfa og reyndina hafa verið þá, að fyrirtækið hafa engar tölvur selt erlendis  en 300 tölvur hafi verið seldar innanlands á árinu 2002.

Hann kvað áætlunina um söluna hafa verið gerða eftir fundi með aðilum í U.S.A., Asíu og víðar og þetta verið framkvæmanlegt markmið og ekki verið rangt mat á þessum tíma, en ekkert hafi þá verið fast í hendi. Hann kvað meginskýringuna á því að viðskiptaáætlunin gekk ekki eftir, hafa verið þá, að ekki hafi gengið að selja innanlands eins og til stóð og erfitt hafi verið að fá greitt fyrir vöruna og vísar til vanefnda af hálfu Aco – Tæknivals og Pennans. Svo nefnt “Pre-paid” fyrirkomulag hafi ekki fengist viðurkennt á Íslandi en markaðurinn hér á landi sé of lítill til að koma því á og einnig hafi verið vandkvæði á að koma þessu fyrirkomulagi á erlendis.

             Vitnið Þorbjörn Tjörvi, sem er með meistargráðu í viðskiptafræðum kvaðst ekki hafa samið viðskiptaáætlun sem merkt er dskj. nr. 15 og dags. 12. júní 2001 en kvaðst hafa grun um að Garðar Vilhjálmsson hafi samið hann. Því var ekki kunnugt að Kaupþing né stefnandi hafi komið að gerð áætlunarinnar en þó heyrt að stefnandi hafi gert það, aðstoðað Garðar en það mundi ekki til þess, að það hafi rætt það við stefnanda. Mat þess á viðskiptaáætluninni var það, að hún væri þannig úr garði gerð, að enginn viðskiptafræðingur hefði samið hana. Þar séu notuð hástigs lýsingarorð um hver traustur grundvöllur viðskiptanna sé. Það sagði að ef það væri að gera svona áætlun, taki það saman í möppu gögn með öllum staðreyndum, sem hún byggi á, sem annar aðili geti þá samþykkt eða lagt mat á og það merkir sér þær m/v  að unnt sé að sannreyna forsendur  án mikillar fyrirhafnar, þ.e. hvort þetta sé uppspuni eða byggt á vísindalegum grunni. Það kvað alla sem gefi sig í að gera rekstraráætlanir, hljóti að vilja að það sé borin virðing fyrir vinnu þeirra og leggi þvi með áætluninni sem mest af gögnum svo að hún verði sem trúverðugust. Þá hljóti þeir að vilja að það sé svo opið, að það sé auðvelt fyrir aðra að sannreyna alla þætti.

Vitnið kannaðist við að hafa að beiðni stefnanda haft milligöngu um að finna lausn á ágreiningi stefnanda og stefnda, vegna kaupa stefnanda á hlutabréfum Nac ehf., og endurkaup félagsins á hlutnum og hafi það átt frumkvæði á lausn þeirra sem lýst er í dskj. nr. 7, en hún hafi ekki gengið. Það minntist þess ekki að stefnandi hafi talað um riftun á kaupunum. Það var ekki hrifið af því verðmati á fyrirtækinu, sem fundið er út með því að margfalda hugsanlegar framtíðartekjur.

             Vitnið Garðar Vilhjálmsson staðfesti að það og stefndi hafi átt í samningaviðræðum m.a. í Skandinavíu um sölu á tölvum á vegum Nac ehf., en erfiðlega hafi reynst að komast inn á þann markað, mjög mörg ljón verið á veginum en þeir hafi þá snúið sér að Suður-Ameríku, þar sem von hafi verið á miklum viðskiptum, en fjármagn hafi vantað.

Það kvaðst hafa samið viðskiptaáætlanirnar og hafi verið haft samráð við stefnanda um samningu einhverra þeirra en þær hafi verið byggðar á samningaviðræðum og þeim samningi sem gerður hafði verið við Aco – Tæknival, en aðrir samningar hafi ekki verið í hendi og stefnandi vitað af því. Það kvað viðskiptaáætlunina engu að síður hafa verið nægilega trausta, en hún hafi fyrst verið vinnuskjal með fastmótaða forsíðu og hafi áætlunin verið að fullvinna þær fyrir Kaupþing til að fá þá til að koma að hlutafélaginu eða að kaupa hlutabréf í því. Það kvað eigið fé eða rekstrarfé félagsins hafa verið kr. 8.500.000 sem stefnandi hafði lagt í það og svo álíka upphæð sem stefndi hafði lagt í það en sala á 20-30% hlut á félaginu hafi átt að fara til Kaupþings, en þegar ljóst hafi verið í ágúst – september 2001, að af því yrði ekki hafi rekstrargrundvöllurinn brostið. Það kvað það ekki hafa verið lagt fyrir stefnanda, að grundvöllurinn fyrir því að viðskiptaáætlunin gegni upp væri fjármögnun Kaupþings.

 

V. Niðurstöður.

             Við mat á aðstæðum í máli þessu verður að hafa í huga, að stefnandi er reyndur bankamaður og hefur um áratuga skeið verið forstöðumaður bankastofnana og á hinn bóginn er stefndi reyndur kaupsýslumaður með mikil umsvif.

             Í gögnum málsins kemur fram, að stefndi var einn eigandi einkahlutafélagsins Nac og svo sem fram kemur viðskiptaáætlun dskj. nr. 3, hafði félagið náð milliliðalaust samningi við tölvuframleiðendurna, Olivetti, Gercom AG og I.P.C. Archtec AG, um sölu og dreifingu á almennum tölvubúnaði, fartölvum og flatskjám og var sölu og dreifingarsvæðið Skandinavía, Ameríka, Japan, Rússland og Eystrarsaltslöndin. Í framhaldi af þessu hafði félagið samið við Aco – Tæknival, um kaup á 1600 fartölvum og 200 flatskjám á tveggja ára tímabili.

Þetta lá fyrir er stefndi leitaði til stefnanda um lánafyrirgreiðslu en jafnframt hafði verið gerð viðskiptaáætlun, þar sem greint var frá viðræðum við fleiri bæði í Skandinavíu, U.S.A, Suður-Ameríku og Japan, auk þess sem þar er getið um að lokið hafi verið við samninga við Esknet í Tallin í Eistlandi upp á sölu að lágmarki á 300  fartölvum, 100 flatskjám og einnig við Innkeyp í Færeyjum upp á sölu á 300 einingum að lágmarki og að á lokastigi væri samningur við Pennann-Griffil um kaup á 1.200 einingum af IPC vörum að lágmarki. Þá kemur fram í rekstraráætlun að forsendur fyrir gerð áætlunarinnar voru að 3.500 einingar seljist á Íslandi, 250 Færeyjum, 1000 í Eystrarsaltsríkjunum, 15.000 í Skandínavíu og 23.850 á öðrum svæðum. Rekstraráætlunin var óundirrituð og samin að Garðari Vilhjálmssyni, starfsmanni Nac ehf., í samráði við starfsmann Kaupþings og Price WaaterHouse Coopers, en ósannað er að stefnandi hafi neitt komið að gerð áætlunarinnar, er hann gerði saming um kaup á 5% hlut í Nac ehf.. Hins vegar má telja víst að hann hafi séð viðskiptaáætlunina sem dags. er 12. júní 2001, fyrir kaupin en samkvæmt því sem fram er komið er hún gerð fyrir Kaupþing með það í huga að Kaupþing kaupi 20-30% hlut í félaginu eða útvegi kaupendur að þeim hlut.

             Ekki fer á milli mála af því sem upplýstst hefur við meðferð málsin, að stefnandi keypti bréfin sjálfur og eru ekki skilyrði til sýknu á grundvelli aðildarskorts né verður talið að þannig hafi verið gengið frá drögum að samomulagi aðila um kaup stefnda á hlut stefnanda í Nac ehf. að það sé bindandi samþykki um riftun.

             Fram er komið í málinu og ljóst af kaupsamningi milli málsaðila að kaup stefnanda á 5% hlut í Nac ehf., miðast við  skammtímafjárfestingu og að stefnandi gerði ráð fyrir að geta selt hlutinn innan skamms tíma með hagnaði og forsenda kaupanna er að eftir gangi kaup Kaupþings eða annarra fjárfesta,en viðskiptaáætlunin er verulegt vilyrði um að það gangi eftir.

             Kemur þá til álita, hvort viðskiptaáætlunin sé þannig úr garði gerð, að hún hafi verið fallin til að valda blekkingum, sem höfðu áhrif á ákvörðun stefnanda um að kaupa hlutinn í félaginu.

             Ljóst er að viðskiptaáætlunin er mjög ótraust og í sumum atriðum röng.  Þannig kemur fram í áætluninni að gerðir hafi verið samningar við Esknet í Tallin, um sölu á 300 fartölvum og 100 flatskjám og á 300 einingum til Færeyja, en í málinu eru engin gögn um þessa samninga og virðist þetta vera tilhæfulaus fullyrðing. Einnig vantar gögn um samning á lokastigi við Pennann-Griffil, en af hálfu stefnda hafa þau gögn ekki verið lögð fram.  Þá eru viðræður þær sem vísað er til í áætluninni við danska dreifingaraðila ekki á því stigi að þær hafi gefið tilefni til að áætla um sölu á allt að 15.000 einingum til Danmörku, né verður séð að um nein loforð eða ádráttur hafi verið veittur félaginu um viðskipti í öðrum löndum.  Þá verður að telja að svonefnt Pre-paid fyrirkomulag sem boðið er upp á í viðskiptaáætluninni hafi ekki náð að festa sig þannig í sessi, svo að unnt hafi verið að lofa því sem gildandi við­skiptaháttum, enda kom í ljós að það stóðst ekki þegar á reyndi með viðskipti hér á landi og svipað virðist hafa gilt erlendis, samanber að síðar er talað um að fjármagn skorti og það sé dýrt að koma á viðskiptum þar, sem er gagnstætt því sem fram kemur í viðskiptaáætluninni. 

             Þegar litið er til alls þessa, er það mat réttarins að baki viðskiptaáætluninni hafi ekki legið það árangursríkar samningaviðræður og markaðskannanir að tilefni hafi verið til að setja fram áætlanir um líklega sölu upp á 40.100 tölvum, tölvubúnaði og flatskjám erlendis, enda reyndin að engin sala hefur komist á erlendis.  Það er því fallist á það að viðskiptaáætlunin hafi verið óraunhæf og ekki hafi verið marktækar tölur á bakvið hana, né þau viðskiptasambönd sem lofað var.  Það hljóti stefnda að hafa verið ljóst og einnig að stefnandi byggði á henni er hann tók ákvörðun um að kaupa hlut í Nac ehf.

             Í málinu þykir því vera nægilega í ljós leitt, að stefnandi hafi með svikum verið fenginn til að gera framangreindan kaupsamning um kaup á 5% hlut í Nac ehf.  Með vísun í 30. gr. samningalaga nr. 7/1936 er samningurinn úr gildi felldur og ber stefnda að endurgreiða stefnanda kaupverðið kr. 8.500.000 ásamt fjármögnunar­kostnaði, eða alls kr. 9.515.000. Þá er fallist á vaxtakröfu stefnanda, en þó með þeirri breytingu að upphafstími dráttarvaxta er 1. ágúst 2002, sbr. dskj. nr. 5.

             Krafa stefnda um sýknu að svo stöddu er ekki tekin til greina, en verði hann sem ábyrgðarmaður að greiða að hluta það lán sem stefnandi tók vegna hlutabréfakaupanna kemur það til lækkunar á ídæmdri kröfu, en komi til þess eftir að greitt hefur verið skv. dómnum á stefndi endurkröfurétt á hendur stefnanda.

             Eftir þessum úrslitum ber stefnda að greiða stefnanda kr. 500.000 í málskostnað.

             Um  tafir í málinu er vísað til bókunar í þinghaldi í dag.

             Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.

 

Dómsorð.

             Stefndi Arnfinnur Sævar Jónsson greiði stefnanda Birni Eysteinsssyni kr. 9.515.000 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. ágúst 2002 til greiðsludags.

             Stefndi greiði stefnanda kr. 500.000 í málskostnað.