Hæstiréttur íslands

Mál nr. 317/2000


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Galli
  • Ábyrgðarskírteini
  • Gagnsök


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2001.

Nr. 317/2000.

Ellert Ólafsson

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Vélorku hf.

(Jónatan Sveinsson hrl.)

og gagnsök

                                     

Lausafjárkaup. Galli. Ábyrgðarskírteini. Gagnsök.

Í janúar 1997 keypti E vél af gerðinni Star Powr af V hf. í fiskibát E. Fljótlega komu í ljós bilanir á vélinni og varð hún á skömmum tíma ónothæf. Var ný vél sömu gerðar sett í bátinn í júlí 1997 á kostnað V hf., en hún bilaði einnig. Krafði E V hf. um skaðabætur á þeim grundvelli að V hf. bæri fulla skaðabótaábyrgð á öllu tjóni E án þeirra takmarkana á umfangi hennar, sem gerðar voru í ábyrgðarskírteini frá framleiðanda vélarinnar. Enginn skriflegur kaupsamningur var gerður með aðilum. V hf. gaf einungis út reikning til E vegna kaupanna 16. janúar 1997, en kaupverðið greiddi hann þannig að 500.000 krónur voru inntar af hendi um líkt leyti, en fyrir eftirstöðvunum gaf hann út skuldabréf. Umrædds ábyrgðarskírteinis var ekki getið í þessum gögnum. Það var ekki undirritað af E, þótt í stöðluðu formi þess sé beinlínis gert ráð fyrir að svo skuli vera, og V hf. mótmælti ekki að hann hefði sent það viðsemjanda sínum í pósti mörgum vikum eftir að kaupin voru gerð. Talið var að gegn mótmælum E hefði V hf. ekki tekist að sanna að hann hefði kynnt E áður en kaupin voru gerð í janúar 1997 að hann hygðist takmarka ábyrgð sína. V hf. hefði heldur ekki sýnt fram á að til væri viðskiptavenja, sem máli skipti um þetta efni. Var því ekki fallist á að ábyrgðarskilmálarnir væru hluti af samningi aðilanna og þannig bindandi fyrir aðaláfrýjanda. Gæti V hf. ekki borið fyrir sig takmörkun ábyrgðar samkvæmt þessum skilmálum, sem ganga lengra í að leysa hann undan ábyrgð en leiðir af ákvæðum laga nr. 39/1922. Var skaðabótakrafa E því tekin til greina. Jafnframt var hafnað kröfu V í gagnsök hans í héraði þess efnis að samningur aðilanna 2. apríl 1998 um riftun vélakaupanna yrði felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2000. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 3.387.222 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 500.000 krónum frá 13. janúar 1997 til 24. febrúar 1998, af 1.020.000 krónum frá þeim degi til 2. mars sama árs, af 1.331.830 krónum frá þeim degi til 30. júní sama árs, en af 3.387.222 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.130.000 krónum vegna innborgunar gagnáfrýjanda 2. apríl 1998. Aðaláfrýjandi krefst þess einnig að vísað verði frá héraðsdómi dómkröfum í gagnsök þeirri, sem gagnáfrýjandi þingfesti í héraði 15. apríl 1999. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 10. október 2000. Hann krefst þess að framangreindum kröfum aðaláfrýjanda verði hafnað og aðallega viðurkenndur réttur gagnáfrýjanda til að rifta samkomulagi við aðaláfrýjanda 2. apríl 1998 um að kaup aðaláfrýjanda á bátavél af gerðinni Star Powr gengju til baka og gagnáfrýjandi endurgreiddi kaupverð vélarinnar og kostnað af niðursetningu hennar, auk annars tilgreinds kostnaðar, samtals að fjárhæð 1.500.000 krónur. Þá verði aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 2.563.587 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 30. mars 1999 til greiðsludags, allt gegn afhendingu á fyrrgreindri Star Powr bátavél í því ástandi, sem hún nú er í á vélaverkstæðinu Ver ehf. að Hvaleyrarbraut 3 í Hafnarfirði. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að héraðsdómur verði staðfestur og aðaláfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur málsaðila er til kominn vegna kaupa aðaláfrýjanda á vél af gerðinni Star Powr af gagnáfrýjanda í fiskibát hins fyrrnefnda í janúar 1997. Vélin var sett í bátinn hjá vélaverkstæðinu Ver ehf. í Hafnarfirði og honum siglt í fyrsta sinn með hinni nýju vél 1. mars 1997. Komu fljótlega í ljós bilanir á vélinni og varð hún á skömmum tíma ónothæf. Var ný vél sömu gerðar sett í bátinn í júlí 1997 á kostnað gagnáfrýjanda, en hún bilaði einnig. Eru atvik málsins ítarlega rakin í héraðsdómi. Er þar jafnframt gerð grein fyrir efni fjögurra matsgerða, sem aðilar hafa aflað í málinu.

Eftir að fyrsta matsgerðin var fengin gerðu málsaðilar samkomulag 2. apríl 1998 um að kaupin gengju til baka og að gagnáfrýjandi greiddi aðaláfrýjanda 1.500.000 krónur. Áskildi hinn síðarnefndi sér jafnframt rétt til að krefjast frekari bóta í dómsmáli ef nauðsyn krefði. Telur gagnáfrýjandi þetta samkomulag ekki bindandi fyrir sig þar eð síðar hafi komið í ljós að niðurstaða matsmannanna stæðist ekki. Höfðaði hann gagnsök í héraði til að fá þessu samkomulagi hrundið. Kröfu aðaláfrýjanda um að gagnsökinni yrði vísað frá héraðsdómi var hafnað með úrskurði héraðsdómara 27. maí 1999. Hefur aðaláfrýjandi skotið þessum úrskurði til Hæstaréttar með dómi héraðsdóms í málinu og krefst þess að gagnsökinni verði vísað frá héraðsdómi, þar eð skilyrði til að höfða gagnsök hafi ekki verið uppfyllt.

 

 

II.

Í þremur áðurnefndra matsgerða er fjallað um ástæður þess að vélin í báti aðaláfrýjanda bilaði. Er gerð grein fyrir efni þeirra og niðurstöðum matsmanna í héraðsdómi. Engin ný sérfræðileg gögn hafa verið lögð fram við rekstur málsins fyrir Hæstarétti. Hefur gagnáfrýjandi ekki hnekkt þeirri niðurstöðu hinna sérfróðu meðdómsmanna í héraði að meginorsök bilananna verði ekki rakin til þess að miðstöð í bátnum var tengd við vélina, þótt þeir fallist á að það hafi haft einhver áhrif. Taldi héraðsdómur jafnframt að umræddar Star Powr vélar hafi gengið við of lágt hitastig og ekki verið búnar þeim kostum, sem ætlast mátti til. Var niðurstaða hans sú að gagnáfrýjandi bæri af þeim sökum skaðabótaábyrgð á tjóni aðaláfrýjanda. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi vísað til þess að bótaskylda gagnáfrýjanda vegna þeirra atvika, sem hér um ræðir, verði leidd af ákvæði 1. mgr., sbr. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Hefur sú tilvísun til lagaákvæða ekki sætt athugasemdum af hálfu gagnáfrýjanda. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um skaðabótaskyldu gagnáfrýjanda vegna umræddra vélarkaupa.

Þegar af þeirri ástæðu, sem að framan greinir, er brostinn grundvöllur fyrir höfðun gagnsakar til að fá hnekkt samkomulagi aðilanna 2. apríl 1998. Í því ljósi er heldur ekki ástæða til að fjalla frekar um kröfu aðaláfrýjanda um að gagnsökinni verði vísað frá héraðsdómi, sem að vísu var höfðuð löngu eftir að útrunninn var frestur til þess samkvæmt 3. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína á því að gagnáfrýjandi beri fulla skaðabótaábyrgð á öllu tjóni sínu án þeirra takmarkana á umfangi hennar, sem gerðar séu í ábyrgðarskírteini frá framleiðanda vélarinnar. Mótmælir hann því að umræddir skilmálar skoðist hluti af kaupsamningi hans við gagnáfrýjanda og telur að líta beri framhjá þeim. Þeir hafi hvorki verið kynntir honum áður en kaupin voru gerð né hafi gagnáfrýjandi þá látið uppi að hann hygðist takmarka ábyrgð sína eða framleiðandans með þeim hætti, sem greinir í skilmálunum, eða á annan veg. Þá hafi skírteinið ekki verið afhent sér við kaupin, heldur borist í pósti eftir 1. mars 1997. Gagnáfrýjandi heldur á hinn bóginn fram að hann hafi strax á fyrstu stigum kynnt aðaláfrýjanda efni ábyrgðarskilmálanna eins og lýst sé í héraðdómi. Honum hafi því verið fullkunnugt um skilmálana er kaupin voru ráðin. Hafi honum þá jafnframt verið kynnt að samkvæmt skilmálunum væri ábyrgðin takmörkuð við sex mánuði, en að gagnáfrýjandi ynni að því að fá framleiðandann til að fallast á tólf mánaða ábyrgðartíma, sem hafi síðan gengið eftir. Samkvæmt venju hafi ábyrgðarskírteinið hins vegar ekki verið sent aðaláfrýjanda fyrr en eftir að vélin hafði verið sett í bátinn og hún reynd.

Áðurnefnt ábyrgðarskírteini er á ensku og felur í sér margs konar takmarkanir á ábyrgð, svo sem rakið er í héraðsdómi. Hefur gagnáfrýjandi fyllt út nokkra þar til gerða reiti neðst á skjalinu. Er þannig skráð dagsetningin 1. mars 1997 við orðin „delivery date“, og við orðin „warranty period“ hefur hann ritað „12 months or 1000 hours“. Í reit fyrir undirritun seljanda er ritað nafn fulltrúa gagnáfrýjanda, en reitur fyrir undirritun kaupanda er auður.

Enginn skriflegur kaupsamningur var gerður með aðilum. Gagnáfrýjandi gaf einungis út reikning til aðaláfrýjanda vegna kaupanna 16. janúar 1997, en kaupverðið greiddi hann þannig að 500.000 krónur voru inntar af hendi um líkt leyti, en fyrir eftirstöðvunum gaf hann út skuldabréf. Umrædds ábyrgðarskírteinis var ekki getið í þessum gögnum. Það var ekki undirritað af aðaláfrýjanda, þótt í stöðluðu formi þess sé beinlínis gert ráð fyrir að svo skuli vera, og gagnáfrýjandi mótmælir ekki að hann hafi sent það viðsemjanda sínum í pósti mörgum vikum eftir að kaupin voru gerð. Gegn mótmælum aðaláfrýjanda hefur gagnáfrýjanda ekki tekist að sanna að hann hafi kynnt hinum fyrrnefnda áður en kaupin voru gerð í janúar 1997 að hann hygðist takmarka ábyrgð sína. Hann hefur heldur ekki sýnt fram á að til sé viðskiptavenja, sem máli skipti um þetta efni. Verður því ekki fallist á að ábyrgðarskilmálarnir séu hluti af samningi aðilanna og þannig bindandi fyrir aðaláfrýjanda. Getur gagnáfrýjandi ekki borið fyrir sig takmörkun ábyrgðar samkvæmt þessum skilmálum, sem ganga lengra í að leysa hann undan ábyrgð en leiðir af ákvæðum laga nr. 39/1922.

Gagnáfrýjandi heldur fram að sú málsástæða aðaláfrýjanda að skilmálarnir bindi hann ekki sé of seint fram komin, enda hafi hennar hvorki verið getið í stefnu í héraði né greinargerð aðaláfrýjanda í gagnsök þar. Varðandi þetta er til þess að líta að aðaláfrýjandi krafðist fullra skaðabóta í stefnu, en takmörkun á ábyrgð var liður í málsvörn gagnáfrýjanda, sem teflt var fram í greinargerð hans í héraði. Af því tilefni fékk aðaláfrýjandi bókuð mótmæli við þessari málsástæðu í þinghaldi 11. maí 1999, en að öðru leyti mun hann hafa lýst afstöðu sinni og mótmælum við aðalmeðferð málsins. Voru engin efni til þess af hans hálfu að bregðast við með öðrum hætti eða láta uppi afstöðu til gildis umræddra skilmála í gagnsök í héraði, sem laut að því hvort brostnar væru forsendur fyrir gildi samkomulags aðila 2. apríl 1998. Er því ekki hald í þeim mótmælum gagnáfrýjanda, sem að framan er getið.

IV.

Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi lækkað nokkuð kröfu sína. Nánar skýrir hann það svo að a. liður kröfugerðar í héraði lækki í 980.000 krónur. E. liður lækki um 13.391 krónu vegna endurgreidds virðisaukaskatts og fallið sé frá kröfu samkvæmt g. lið vegna vanskila- og lántökukostnaðar. Loks falli út sérstakur kröfuliður merktur d. vegna dómkvaddra matsmanna að fjárhæð 265.016 krónur. Ástæðan fyrir síðastnefndu breytingunni sé sú að hann telji að gagnáfrýjandi hafi með samningnum 2. apríl 1998 greitt sér mats- og lögmannskostnað, sem áður hafi verið stofnað til, með samtals 370.000 krónum. Greiðsla gagnáfrýjanda samkvæmt samningnum, 1.500.000 krónur, sem komi til frádráttar, lækki því um sömu fjárhæð eða í 1.130.000 krónur. Um heimild til að breyta kröfugerð með þessum hætti vísar aðaláfrýjandi til 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Er aðaláfrýjanda heimilt að gera framangreindar breytingar á kröfugerð sinni og er mótmælum gagnáfrýjanda við því hafnað.

Varðandi einstaka liði í kröfugerð aðaláfrýjanda verður fallist á a. og b. liði, sem teljast nægilega rökstuddir. Það á hins vegar ekki við um c. lið, sem hefur ekki verið skýrður nægjanlega til að unnt sé að taka hann til greina að neinu leyti. Hinu sama gegnir að miklu leyti einnig um e. lið, sem felur í sér kröfu um endurgreiðslu kostnaðar af ýmsum toga. Aðaláfrýjandi hefur þó stutt haldbærum rökum að af þessum kostnaði eigi hann að fá bætt útgjöld til Siglingastofnunar, 18.665 krónur, og kostnað við að flytja nýja vél til Bakkafjarðar, þar sem bátur hans lá vélarvana í byrjun árs 1998, 8.360 krónur. Krafa í f. lið vegna eigin vinnu aðaláfrýjanda, sem hann gerir að álitum, er ekki svo ljós að unnt sé að taka hana til greina, enda verður jafnframt að líta svo á að krafan felist í reynd að nokkru í i. lið kröfugerðar. Ekki verður fallist á að unnt sé að gera gagnáfrýjanda að endurgreiða útlagðan kostnað aðaláfrýjanda vegna sölu á báti hans samkvæmt h. lið kröfugerðar. Krafa samkvæmt i. lið um að fá bætt aflatjón er studd við matsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt. Verður þessi liður kröfugerðar tekinn til greina að fullu.

Samkvæmt öllu framanröktu verður krafa aðaláfrýjanda tekin til greina með 2.388.465 krónum. Með bréfi 13. mars 1998 krafði aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda fyrst um skaðabætur vegna kaupa þeirra og var sú krafa reist á matsgerð dómkvaddra manna. Geta dráttarvextir ekki fallið á skaðabótakröfu aðaláfrýjanda fyrr en í fyrsta lagi að liðnum mánuði frá þeim degi, sbr. 15. gr. vaxtalaga. Gagnáfrýjandi greiddi 1.130.000 krónur í skaðabætur 2. apríl 1998 og dregst því sú fjárhæð að fullu frá höfuðstól kröfu aðaláfrýjanda. Verður honum dæmdur mismunurinn, 1.258.465 krónur. Í dómkröfu aðaláfrýjanda er ráðgert að meginhluti höfuðstóls hennar beri fyrst dráttarvexti frá þingfestingardegi málsins í héraði, en þar er um að ræða hærri fjárhæð en honum er nú dæmd. Verður við það miðað við ákvörðun dráttarvaxta, eins og í dómsorði greinir.

Gagnáfrýjandi skal greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði, en við ákvörðun hans er meðal annars tekið tillit til útlagðs kostnaðar aðaláfrýjanda af rekstri málsins.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Vélorka ehf., greiði aðaláfrýjanda, Ellert Ólafssyni, 1.258.465 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. júní 1998 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2000.

         Mál þetta, sem dómtekið var 24. mars sl., er höfðað með stefnu þingfestri 30. júní 1998 af Ellert Ólafssyni, Sléttahrauni 34, Hafnarfirði gegn Vélorku hf., Grandagarði 3, Reykjavík.

         Með gagnstefnu þingfestri 15. apríl 1999 höfðaði Vélorka hf. gagnsök í málinu á hendur Ellert Ólafssyni.

 

Dómkröfur

Aðalsök

         Endanlegar dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 3.959.381 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af  500.000 krónum frá 13. janúar 1997 til 19. febrúar 1998, frá þeim degi af 765.016 krónum til 24. febrúar 1998, frá þeim degi af 1.285.016 krónum til 2. mars 1998, frá þeim degi af  1.596.846 krónum til þingfestingardags, en frá þeim degi af stefnufjárhæð til greiðsludags, allt að frádreginni 1.513.391 krónu vegna innborgunar stefnda, 1.500.000 krónur, og vegna virðisaukaskatts sem endurgreiðist stefnanda, 13.391 króna.

         Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.  Vakin er sérstök athygli dómsins á því að stefnandi hefur í greinargerð í gagnsök á dskj. 76 krafist álags á málskostnað úr hendi stefnda, með vísan til 1. og 2. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála.

 

         Af hálfu aðalstefnda er þess krafist að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda hæfilegan málskostnað að mati dómsins.

Gagnsök

         Dómkröfur gagnstefnanda eru eftirfarandi:

1.      Að viðurkenndur verði réttur gagnstefnanda til að rifta samkomulagi við gagnstefnda, dagsettu 2. apríl 1998, þess efnis að kaup gagnstefnda á bátavél af gerðinni Star Powr gengju til baka og gagnstefnandi endurgreiddi kaupverð vélarinnar og kostnað af niðursetningu hennar, auk annars tilgreinds kostnaðar, samtals að fjárhæð 1.500.000 krónur

2.      Að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda 2.563.578 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá því gagnsökin telst höfðuð í skilningi 93. gr. laga nr. 91/1991 til greiðsludags, allt gegn afhendingu á fyrrgreindri Star Powr bátavél í því ástandi sem hún nú er í á vélaverkstæðinu Ver ehf., Hvaleyrarbraut 3, Hafnarfirði.

3.          Að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda hæfilegan málskostnað í gagnsökinni að mati réttarins.

 

         Gagnstefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda í gagnsök.

         Fallist dómurinn á að gagnstefnandi eigi gagnkröfur á hendur gagnstefnda er þess til vara krafist að kröfur gagnstefnanda á hendur gagnstefnda verði stórlega lækkaðar.

         Í aðalkröfu krefst gagnstefndi málskostnaðar í gagnsök úr hendi gagnstefnanda, ásamt virðisaukaskatti á málskostnað.  Þá krefst hann álags á málskostnað, með vísan til 1. og 2. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála.  Í varakröfu krefst gagnstefndi þess að málskostnaður verði felldur niður í gagnsök.

 

Málavextir

         Aðalstefndi hefur um árabil selt vélar í smærri báta hér á landi, einkum fiskibáta undir 6 rúmlestum.  Undir árslok 1996 vakti aðalstefndi athygli eigenda slíkra fiskibáta hér á landi á nýrri bátavél af gerðinni Star Powr, 236 hestafla, V-byggðri 8 strokka bátavél, með forþjöppu og tölvustýrðu brennsluolíukerfi. Framleiðandi vélarinnar var Marine Corporation of America í Indíana í Bandaríkjunum, skammstafað MCA.  Kveður hann vél þessa hafa fengið góðar umsagnir í fagtímaritum þar vestra, einkum fyrir það hvað hún er fyrirferðarlítil vegna byggingarlags síns sem sjö lítra vél og þá ekki síður fyrir það, að olíuverk vélarinnar er tölvustýrt sem var nýlunda í bátavélum, en alþekkt þá orðið hér á landi og erlendis í landvélum og bifreiðum.

         Aðalstefndi tók að sér söluumboð á vél þessari hér á landi.  Kveðst hann hafa hugsað sér að fara hér varlega í sakirnar, bæði vegna framangreindra nýjunga í þessari vél, svo og fyrir það, að fyrir nokkrum árum hafi verið hér á markaðinum vél frá þessum sama framleiðanda sem reynst hafði misjafnlega.  Annar aðili hafi þá haft söluumboð hér á landi fyrir þær vélar.

         Í byrjun árs 1997 keypti aðalstefnandi eina slíka Star Powr vél af aðalstefnda í bát sinn Þyt HF 83 og var vélin gangsett í febrúar.  Aðalstefndi heldur því fram að starfs­­menn hans hafi gert aðalstefnanda sérstaka grein fyrir því að engin reynsla væri fengin af vélinni hér á landi og hann tæki við þær aðstæður vissa áhættu með kaupum á vélinni.  Jafnframt er því haldið fram að aðalstefnanda hafi verið kynntir ábyrgðarskilmálar vélarinnar þar sem ábyrgst hafi verið með venjubundnum og almennum hætti allar bilanir á vélinni á ábyrgðartímanum, sem rekja mætti til „efnis eða framleiðslugalla“ á vélinni en framleiðandinn hafi undanþegið sig allri bótaábyrgð af afleiddu tjóni, sem af vélabilun kynni að leiða, svo sem vegna „afnotamissis og tapaðs ágóða“, eins og greinir í ábyrgðarskírteininu.  Þá hafi verið fengin sérstök heimild hjá framleiðanda til þess að ábyrgðartíminn yrði tólf mánuðir í stað sex mánaða frá afhendingu vélanna, sem hafi verið hinn almenni ábyrgðartími vegna véla sem stóð til að nota í atvinnurekstri.

         Vélin var afhent aðalstefnanda í byrjun árs 1997 og samdi stefnandi sjálfur við vélaverkstæðið Ver ehf., Hvaleyrarbraut 3, Hafnarfirði, um niðursetningu vélarinnar.  Niðursetning og frágangur vélarinnar var ekki á vegum aðalstefnda.

         Niðursetningu vélarinnar lauk síðast í febrúar 1997.  Gangsetning vélarinnar og síðan reynslusigling fór fram 1. mars 1997 að viðstöddum starfsmönnum aðalstefnda og fulltrúa vélaframleiðandans, Johannes Tang að nafni.

         Viku eftir gangsetningu byrjaði vélin að reykja og upp frá því bilaði hún margsinnis og reyndist að lokum ónothæf.  Kveður aðalstefnandi bát sinn af þessum sökum hafa verið ósjófæran  stóran hluta grásleppuvertíðar fiskveiðiársins 1996 – 1997. 

         Aðalstefnandi tilkynnti aðalstefnda um bilun í vélinni í febrúar 1997 og var í stöðugu sambandi við starfsmenn aðalstefnda vegna þessara bilana.  Miklar bréfaskriftir fóru fram á þessum tíma á milli málsaðila og liggja þau gögn frammi í málinu. 

         Að samkomulagi varð að taka fyrri vélina úr bátnum og senda hana til framleiðandans til skoðunar og lagfæringar, að því marki sem þurfa þætti.  Vélaframleiðandinn sendi samskonar vél til landsins sem sett var niður í bátinn í byrjun júlí 1997.  Fljótlega sótti í sama horf með nýju vélina.  Hún var þó notuð fram á haust, þar til bátnum var lagt á Bakkafirði.  Vélin var síðan tekin úr bátnum í desember 1997 og flutt til Reykjavíkur að tilhlutan dómkvaddra matsmanna.  Eldri vélin hafði þá sætt skoðun og lagfæringum af hálfu framleiðandans, sem einkum fól í sér að fjarlægja kæli á loftinntaki.  Framleiðandinn sendi síðan vélina hingað til landsins.  Þegar til átti að taka hafnaði aðalstefnandi því boði framaleiðandans og aðalstefnda um að hin lagfærða vél yrði sett í bátinn að nýju, honum að kostnaðarlausu.  Þess í stað tók stefnandi þá ákvörðun að kaupa aðra vél í bátinn af Yanmar gerð og seldi hann síðan bátinn ásamt aflaheimildum í febrúar 1998.

         Hinn 8. desember 1997 voru, að beiðni aðalstefnanda, dómkvaddir matsmennirnir Ólafur K. Ármannsson og Ásgeir Guðnason til þess að meta hver væri ástæða bilunar í vélinni og hvort eðlilegt hafi verið að nota vélina í umræddan bát.  Þá var jafnframt spurt um það hverjar afleiðingar ástand vélarinnar gæti haft fyrir notendur bátsins.

         Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er dagsett 12. febrúar 1998.  Niðurstaða matsmanna var sú að ástæða bilunar væri ófullkominn bruni í strokkum vélarinnar sem stafaði af lágum hita í brunaholinu, sem aftur orsakaðist af of mikilli kælingu á lofti sem blásið sé inn á strokkinn.  Töldu þeir eðlilegt að diselvélar séu notaðar í bátum þeirrar gerðar sem bátur aðalstefnanda sé.  Vélina stæðist hins vegar ekki þær kröfur sem gerðar séu til véla í bátum af sömu gerða.  Litu þeir svo á að báturinn væri ekki haffær með vélina í því ástandi sem hún var þegar matsmenn skoðuðu hana.

         Í framhaldi af þessu krafðist aðalstefnandi riftunar á kaupunum og að aðalstefndi greiddi honum tjón sitt. 

         Með samkomulagi, dags. 2. apríl 1998, féllst aðalstefndi á að kaupin á vélinni gengju til baka á grundvelli meintra galla sem kaupandi taldi hafa komið fram á vélinni og hann telur að staðfestir hafi verið með matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 12. febrúar 1998.  Féllst aðalstefndi á að greiða aðalstefnanda 1.500.000 krónur sem sundurliðuðust þannig:  Kaupverð vélarinnar 980.000 krónur, niðursetningar­kostnaður 250.000 krónur, matskostnaður 265.016 krónur og lögmannsþóknun 104.984 krónur.  Samkvæmt samkomulaginu áskildi aðalstefnandi sér rétt til þess að höfða mál til frekari greiðslu bóta sem hann og gerði með málsókn þessari.

         Hvorki aðalstefndi né vélaframleiðandinn voru alls kostar sáttir við niðurstöður undir­matsmanna um ástæður bilananna í vélinni.  Með beiðni, dags. 14. ágúst 1998, fór aðalstefndi þess á leit að fá dómkvadda yfirmatsmenn til að endurskoða undirmat það sem fram hafði farið að tilhlutan aðalstefnanda.  Aðalstefnandi mótmælti því að yfirmatsmenn yrðu dómkvaddir og gekk úrskurður um ágreiningsefnið þann 25. september 1998, þar sem fallist var á kröfu stefnda um að yfirmatsmenn skyldu dómkvaddir.

         Á dómþingi þann 16. október 1998 voru dómkvaddir þrír yfirmatsmenn til þess að endurskoða undirmatsgerðina, þeir Magnús Þór Jónsson vélaverkfræðingur, Páll Valdimarsson vélaverkfræðingur og Þorsteinn Jónsson vélfræðingur. Yfirmatsgerð þeirra er dags. 29. desember 1998.  Í niðurstöðu yfirmatsmanna er í öllum meginatriðum staðfest niðurstaða undirmatsmanna.

         Með gagnstefnu, þingfestri 15. apríl 1999, höfðaði aðalstefndi gagnsök í málinu eins og áður segir.  Af hálfu aðalstefnanda og gagnstefnda var þess þá krafist að gagnsökinni yrði vísað frá dómi.  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 27. maí 1999, var þeirri kröfu hafnað.

         Um atvik að gagnsökinni segir m.a. í gagnstefnu að framleiðanda vélarinnar hafi á sínum tíma verið kynnt niðurstaða beggja matsgerðanna. Sama gegni um umboðsmenn vélanna í Hollandi, Noregi og Bretlandi.  Bilanasaga vélarinnar, en þó einkum niðurstöður hinna dómkvöddu matsmanna um ástæður bilananna, hafi vakið hjá þessum mönnum nokkra undrun og efasemdir um réttmæti niðurstaðna matsgerðanna.  Hafi þeir óskað eftir að fá að fylgjast með framvindu málsins hér.

         Um miðjan janúar sl. hafi það borið við að forsvarsmaður aðalstefnda, Úlfar Ármannsson, hafi setið fund með þessum mönnum í Englandi.  Bilanasaga vélarinnar og niðurstöður hinna dómkvöddu matsmanna hafi þar aftur borið á góma.  Enginn þessara aðila hafi þekkt dæmi um sambærilegar bilanir á vélum af þessari gerð af þeim ástæðum sem tilgreindar séu í niðurstöðum hinn dómkvöddu matsmanna.  Hins vegar hafi menn þekkt dæmi um áþekkar bilanir í vélum flutningabifreiða og skólabíla, sem notaðir hafi verið á köldum svæðum.  Við athugun þessara tilvika á sínum tíma hafi komið í ljós að sammerkt þeim öllum var að öflugar miðstöðvar í bifreiðunum höfðu verið tengdar inn á vatnskælikerfi vélanna og bifreiðarnar langtímum saman verið látnar ganga í lausagangi til að halda hita í farþegarýmum þeirra.  Þegar þetta hafi verið skoðað nánar hafi menn orðið sammála um að rekja mætti allar þessar bilanir til þess að tekinn hafði verið kælivökvi út af vélunum og hann keyrður í gegnum öflugt miðstöðvarkerfi bifreiðanna til upphitunar í farþegarými þeirra með þeim afleiðingum að vélarnar, sem langtímum saman höfðu verið látnar ganga í lausagangi, hafi ekki náð að halda uppi eðlilegum og æskilegum brunahita, og oft verið verulega fyrir neðan svokallaðan óskagildishita eða kjörhita fyrir vélarnar.  Þetta hafi leitt til þess að eldsneytið hafi ekki brunnið að fullu og hafi hluti þess fallið út sem eðja með sömu eða áþekkum afleiðingum og lýst er í matsgerðum hinna dómkvöddu matsmanna.

         Lyktir þessara umræðna hafi orðið þær að bæði sérfræðingar á vegum framleiðanda vélanna svo og greindir umboðsmenn, sem flestir séu sérfróðir um vélar og meðferð þeirra, hafi talið fulla ástæðu til að kanna hvort hér gæti ekki verið á ferðinni sama orsökin fyrir bilununum á vélum í bát aðalstefnanda og raunin var í fyrrlýstum tilvikum.

         Stuttu eftir heimkomuna hafi forsvarsmaður aðalstefnda fengið það staðfest, að öflugt miðstöðvarkerfi í vistarverum báts gagnstefnda hefði verið tengt við kælikerfi vélarinnar.  Hafi verið hlutast til um að þessi umbúnaður yrði skoðaður í bátnum á Bakkafirði, þar sem hann er nú gerður út.  Til þess hafi verið fenginn Steinar Hilmarsson, vélsmíðameistari á Bakkafirði.

         Báturinn sé nú búinn nýrri Yanmar vél af áþekkri stærð og Star Powr vélin.    Komið hafi í ljós að þetta sama miðstöðvarkerfi hafi verið tengt við nýju vélina.  Þá hafi enn fremur komið í ljós að þetta var önnur Yanmar vélin sem sett hafði verið niður í bátinn á því u.þ.b. eina ári frá því að seinni Star Powr vélin var tekin úr bátnum.  Bilanalýsingin í fyrri Yanmar vélinni hafi reynst áþekk og í Star Powr vélunum.  Síðari Yanmar vélin hafi verið svo til nýkomin í bátinn og hafði því lítið verið notuð.

         Mældur hafi verið vatnshiti í lausagangi frá vél í miðstöðvarkerfi og síðan við vél frá miðstöðvarkerfi.  Mælingar hafi verið endurteknar með stuttu millibili við mismunandi álag og loks á fullu álagi.  Þá hafi verið gerðar mælingar á vatnshita vélarinnar eftir að lokað hafði verið fyrir miðstöðvarkerfið.

         Mælingar hafi sýnt að þessi tenging inn á miðstöðvarlögnina hafi valdið verulegri truflun á hitastigi vatnsins í kælikerfi vélarinnar.  Þessi truflun hafi valdið því að í hægagangi eða undir litlu álagi nái vélin ekki nema 55°C hita í stað 75° - 80°, sem sé kjörhiti á vélinni í lausagangi við eðlilegar aðstæður.  Það sé ekki fyrr en eftir 15 mínútna keyrslu á fullu álagi sem vélin nái 90° vatnshita.  Hann falli síðan mjög fljótt niður undir 55° þegar slegið sé af vélinni og hún látin ganga í hægagangi.

         Sérfróðir menn sem hafi skoðað þessar mælingar séu á þeirri skoðun að í þessum truflunum á eðlilegum vatnshita vélarinnar af völdum miðstöðvarkerfisins í bátnum sé frekar að leita orsakanna fyrir of lágum hita í brunaholi vélarinnar en til þess að of kældu lofti hafi verið blásið inn í brunahol vélarinnar, sem hafi verið niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna.  Þetta mat styrkist enn frekar fyrir það að frá því um mánaðamótin febrúar/mars 1997 hafi fjórar nýjar vélar verið settar niður í bátinn, tvær af gerðinni Star Powr og tvær af gerðinni Yanmar.  Vélar þessar vinni allar í sama umhverfi og séu tengdar sömu miðstöðvarlögninni.  Þrjár þessara véla virðist hafa átt sömu eða áþekka bilanasögu að baki þegar þær voru teknar úr bátnum.  Fjórða vélin hafi verið sett niður í desember sl. og sé því lítil reynsla komin af henni.

         Hinum dómkvöddu yfirmatsmönnum hafi verið sendar þessar upplýsingar og leitað viðbragða þeirra í formi þriggja spurninga um hugsanleg áhrif þessara truflana frá miðstöðvar­lögninni á vatnshita vélarinnar við beitingu vélarinnar á mismunandi álagsstigum.  Yfirmatsmennirnir hafi veitt svör við þessum spurningum í bréfi, dags. 19. mars 1999,  þar sem eftirgreind meginatriði komi fram:

1.      Að hvorki skoðun á sjálfri vélinni, teikningar af vélinni sem matsmenn hafi haft undir höndum né upplýsingar aðila hafi beint athygli matsmanna að því að miðstöðvarkerfi bátsins hafi verið tengt vatnskælikerfi vélarinnar.  Af þeim ástæðum hafi truflun af þessu tagi ekki sætt sérstakri skoðun af hálfu matsmanna.

2.      Við matsstörfin hafi engar upplýsingar legið fyrir um að vélin hafi ekki náð kjörhita „óskagildishita“ í lausagangi eða undir litlu álagi.  Af þessu hafi leitt að orsakanna fyrir of lágum hita í brunaholi hafi ekki verið leitað í of lágum vatnshita í kælikerfi vélarinnar sökum tenginga þess við miðstöðvarlögn í vistarverum bátsins.

3.      Um áhrif slíkra truflana frá miðstöðvarkerfi segi orðrétt í bréfinu;  „Ástæður bilunar að okkar mati er lágt hitastig í bruna, sem veldur því að bruni er ófullkominn, og óhreinindi setjast í útblásturskerfi.  Kæling af völdum miðstöðvar getur gert slík mál enn verri, og verið áhrifavaldur.“

         Þar sem engin sjálfstæð skoðun hafi farið fram af hálfu hinna dómkvöddu matsmanna á áhrifum tengingar miðstöðvarkerfisins við kælikerfi þeirra fjögurra nýrri véla sem settar hafi verið niður í bátinn á rúmlega hálfu öðru ári, þar af hafi þrjár þeirra hafa verið teknar úr bátnum vegna áþekkra bilana, þykir óhjákvæmilegt að fá dómkvadda sérfróða menn til að skoða þessi áhrif miðstöðvartengingarinnar við vatnskælikerfi vélanna og segja til um hvort þau áhrif séu líkleg til að vera orsök þeirra bilana í vélunum, sem lýst sé nánar í matsgjörðum hinn dómkvöddu matmanna. Af þeim ástæðum hafi gagnstefnandi ákveðið að beiðast dómkvaðningar tveggja matsmanna til að leggja mat á þessi álitaefni.

         Allar þessar nýju upplýsingar um hinar líklegu eða sennilegu orsakir fyrir bilununum í vélunum hafi ekki komið fram fyrr en stefndi hafi skilað greinargerð sinni í aðalsök þann 14. janúar 1999.  Gagnstefnandi telji sér því heimilt að höfða gagnsakarmál með vísan til ákvæðis 3. mgr., sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.

         Af hálfu aðalstefnanda og gagnstefnda eru gerðar þrjár athugasemdir við framangreinda málavaxtalýsingu aðalstefnda og gagnstefnanda.

1.         Aðalstefnandi kveður aðalstefnda hafa vitað mætavel um miðstöðina og áhrif hennar á hita kælivatns.  Með ólíkindum sé að lesa í málsatvikalýsingu gagnstefnu að forsvarsmaður aðalstefnda hafi fengið það staðfest „stuttu eftir heimkomuna“, eða í lok janúar sl. að „öflugt miðstöðvarkerfi í vistarverum báts aðalstefnda hefði verið tengt við kælikerfi vélarinnar.“  Forsvarsmenn aðalstefnda hafi að sjálfsögðu ætíð vitað af miðstöðinni og komi það berlega í ljós í greinargerð hans þar sem segi að gangsetning vélarinnar og síðar reynslusigling hafi farið fram 1. mars 1997 að viðstöddum starfsmönnum stefnda svo og fulltrúa vélarframleiðanda, Jóhannesi Tang.  Einnig megi lesa úr undirmatsgerð í málinu að fulltrúar aðalstefnda hafi verið viðstaddir reynslusiglingu Þyts mb. við skoðun undirmatsmanna á vélinni.  Í bæði þessi skipti hafi miðstöðin verið tengd við vélina.  Mikið þurfi til að sérfróðir menn eins og seljendur vélanna viti ekki að miðstöð sé tengd við vélina eftir tvær slíkar prufukeyrslur og annars konar skoðun á vélinni vegna máls þessa.

2.      Fráleitt sé að „nú sé komið í ljós“ að ástæður bilana megi rekja til miðstöðvar.  Aðalstefndi haldi því margsinnis fram í gagnstefnu að „nú sé komið í ljós...“ að ástæður bilananna séu aðrar en þær sem greini í undir- og yfirmatsgerð.  Staðhæfingar þessar séu að sjálfsögðu ekkert annað en hreinn tilbúningur og nánast hjákátlegar.

3.      Bilanalýsing í Yanmar vél sé ekki áþekk bilanalýsingum í Star Powr vélum.  Það sé alfarið rangt sem segi í gagnstefnu að bilanalýsing vegna Yanmar vélar sem sé í mb. Þyt og hafi verið sett þar fyrst, sé áþekk þeim bilanalýsingum sem eigi við um Star Powr vélar þær sem í málinu sé deilt um.  Vél sú sem nú sé í bátnum og tengd sé við þessa sömu miðstöð hafi ekki slegið feilpúst síðan hún var standsett.

 

Málsástæður aðalstefnanda í aðalsök

         Kröfur aðalstefnanda eru byggðar á sjónarmiðum um vangildisbætur, þ.e. að stefnandi eigi rétt á því að tjón hans verði bætt þannig að staða hans verði eins og hann hefði aldrei keypt vélina.  Kaup aðalstefnanda á nýrri bátsvél hafi verið gerð í þeirri trú að hann gæti notað vélina án teljandi vandræða.  Svo hafi ekki reynst vera.  Sé ekki ágreiningur milli aðila um að greiða beri aðalstefnanda skaðabætur vegna vélakaupanna.  Ágreiningur aðila snúist hins vegar um fjárhæð þeirra.  Aðalstefnandi telji að hann eigi rétt á því að fá greiddar bætur fyrir allt það tjón sem hann hafi hlotið af því að vélin var ekki búin þeim kostum sem eðlilegt sé að slík vél sé búin.

         Tjón aðalstefnanda skiptist í þrennt:  Í fyrsta lagi sé um að ræða tjón vegna aflataps í grásleppu- og þorskveiðum. Í öðru lagi vegna vinnu aðalstefnanda við niðursetningu véla, vegna bilana o.fl.  Í þriðja lagi vegna útlagðs kostnaðar, en hinn útlagði kostnaður komi til vegna vélarkaupanna, greiðslu reikninga fyrir niðursetningu véla o.fl., ásamt vanskila- og lántökukostnaði sem stefnandi hafi orðið fyrir þar sem atvinnurekstur hans hafi stöðvast vegna vélarbilana.

         Krafa aðalstefnanda, sem er að fjárhæð 3.959.381 krónur sundurliðast með eftirfarandi hætti:

a. Kaup á Star Powr vél, 1.076.599 krónur. 

         Vélin sem stefnandi keypti hafi kostað 980.000 krónur en með aukahlutum hafi hún  kostað 1.076.559 krónur.  Aðalstefnandi hafi greitt hana þannig að hinn 13. janúar 1997 hafi hann greitt 500.000 krónur, sbr. kvittun á dskj. nr. 31.  Afganginn hafi hann greitt með VISA raðgreiðslusamningi, sbr. dskj. nr. 31.  Reiknaður sé einungis höfuðstóll samningsins, 576.599 krónur.  Samtals sé krafan því 1.076.599 krónur.  Krafa þessi sé lægri en fram komi á yfirliti á dskj. nr. 51.  Dráttarvextir vegna skuldabréfs séu reiknaðir frá þingfestingardegi.

b. Vinna við niðursetningu Star Powr, 311.830 krónur.

         Reikningur frá Ver ehf. vegna niðursetningar á vélinni, sem aðalstefnandi hafi síðan skilað til stefnda samkvæmt samkomulagi, sé á dskj. nr. 23.  Sé reikningurinn greiddur hinn 2. mars 1998 og miðist dráttarvextir við þann tíma.  Sé fráleitt að aðalstefnandi þurfi að bera þann kostnað sjálfur.  Teljist niðursetningin beint tjón aðalstefnanda sem aðalstefnda beri að bæta.

c. Aukakostnaður vegna niðursetningar á  Yanmar vél á Bakkafirði, 168.948 krónur.

         Þegar síðari vél, sem aðalstefnanda var látin í té, bilaði hafi bátur aðalstefnanda verið á Bakkafirði.  Hann hafi keypt sér nýja vél af gerðinni Yanmar og hafi hann þurft að láta setja hana niður á Bakkafirði, enda erfitt að flytja bátinn til Reykjavíkur vélarlausan.  Kostnaður við niðursetningu vélarinnar hafi verið sýnu hærri en við upphaflega niðursetningu, eins og sjá megi á dskj. nr. 24 og nr. 25, og komi aukakostnaðurinn til vegna staðsetningar vélarinnar.  Fyrst hafi þurft að undirbúa niðursetningu í Reykjavík, svo hafi þurft að setja vélina niður á Bakkafirði.  Aðalstefnandi hefði flutt bát sinn til Reykjavíkur, ef mögulegt hefði verið, til að minnka kostnað við niðursetningu.  Slíkt hafi ekki verið mögulegt, sem sé bein afleiðing á vélarbilun.  Teljist tjónið því vera á ábyrgð stefnda.  Reikni aðalstefnandi kröfu sína þannig:  Kostnaður við niðursetningu fyrri vélar var 311.830 krónur, sbr. dskj. 23.  Kostnaður við niðursetningu Yanmar - vélarinnar hafi hins vegar verið 480.778 krónur, sbr. dskj. nr. 24 og nr. 25.  Munurinn á kostnaðinum sé  168.948 krónur.  Dráttarvextir miðist hér við þingfestingardag. 

d. Kostnaður vegna dómkvaddra matsmanna, 265.016 krónur.

         Aðalstefnandi hafi greitt reikning vegna dómkvaddra matsmanna hinn 19.02.1998, eins og dskj. nr. 22 beri með sér.  Sé einnig fráleitt að aðalstefnandi þurfi að bera kostnað vegna þessa, enda hafi aðalstefnanda verið nauðsynlegt að láta framkvæma hið dómkvadda mat til að staðfesta ástæður galla í vélinni, en aðalstefndi hafi ekki viljað viðurkenna að um galla væri að ræða. Hafi hann kennt notkun stefnanda á vélinni um ástand hennar.  Aðalstefndi hafi neitað að taka þátt í kostnaði vegna matsgerðarinnar, þrátt fyrir beiðni aðalstefnanda þar um.  Dráttarvextir miðist við greiðsludag, 19. febrúar 1998.

e. Ýmsir reikningar vegna vélakaupanna, 170.225 krónur.

         Ýmsa reikninga með og án vsk. hafi aðalstefnandi þurft að greiða vegna vélarkaupanna, viðgerða, kaupa á varahlutum, þar sem stefndi hafi ekki tekið þátt í varahlutakaupum, o.fl.  Séu reikningar þessir sundurliðaðir á dskj. nr. 32 og nr. 33.  Þá hafi einnig þurft að greiða Siglinga­mála­stofnun vegna skoðunar á vél, skráningarskírteinis o.fl., sbr. dskj. nr. 34.  Samtals séu reikningar án virðisaukaskatts 83.514 krónur, reikningar með virðisaukaskatti 68.046 krónur og kostnaður vegna Siglinga­málastofnunar 18.665 krónur, samtals 170.225 krónur.  Frá fjárhæð þessari dragist 13.391 krónur vegna virðisaukaskatts sem stefnandi fái endurgreiddan.  Dráttarvextir miðist við þingfestingar­dag.

f. Vinna aðalstefnanda vegna bilana og niðursetningar, 180.000 krónur.

         Aðalstefnandi hafi tekið mikinn þátt í niðursetningu vélanna og hann hafi einnig staðið mikið í viðgerðum á vélinni og hafi mikill tími farið í það hjá aðalstefnanda að reyna að gera við vélarnar. Þennan tíma hefði hann getað notað í öflun tekna á annan hátt.  Eigi  hann því rétt á greiðslu, sem hæfilega teljist metin 180.000 krónur.  Ekki sé það tekið fram í stefnu en dráttarvextir miðast við þingfestingardag. Aðalstefnandi sé líka að vinna við vélina þá daga sem ekki er hægt að fara á sjóinn vegna brælu.  Hann hefði þá getað verið að gera eitthvað annað, eða verið heima.  Fyrsta vélin hafi verið meira og minna stopp frá 18. mars, er hún hafi farið norður, og þar til í júlí.  Hann hefði náð 12 eða 13 róðrum á þessum tíma.  Þetta sé prímus tími fyrir fiskimenn.  Sjái hver maður hversu mikið stopp þetta er.  Nýja vélin stoppi í október eftir að hafa bilað.  Nokkrir róðrar hafi náðst fram í febrúar þegar ný vél komi.  Dráttarvextir miðist við þingfestingardag.

g. Vanskila - og lántökukostnaður, 197.153 krónur.

         Aðalstefnandi hafi orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna aflataps og vegna þess að hann hafði engar tekjur á því tímabili sem atvinnurekstur hans stöðvaðist.  Af þessum sökum hafi hann þurft að taka bankalán og greiða af þeim lántöku-, vanskila- og innheimtukostnað, þar sem hann hafi ekki verið í stakk búinn að greiða á réttum tíma. Kröfur undir þessum lið byggi á því að stefnandi eigi rétt á að fá bætt úr hendi aðalstefnda lántökukostnað, vanskila- og innheimtukostnað, sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna vélarkaupanna.  Aðalstefnandi hefði ekki þurft að taka lán þessi né greiða umræddan kostnað ef vélarnar hefðu verið í lagi.  Beri því aðalstefndi ábyrgð á tjóni hans.  Sundurliðist kröfur stefnanda undir þessum lið í kostnað vegna fimm lána, sbr. dskj. nr. 26-30.  Í fyrsta lagi vegna skuldabréfs í Íslandsbanka hf. nr. 010915, samtals að fjárhæð 60.386 krónur.  Í öðru lagi vegna víxils í Íslandsbanka nr. 152362, samtals að fjárhæð 86.251 krónur.  Í þriðja lagi vegna skuldabréfs í Íslandsbanka hf. nr. 010744, samtals að fjárhæð 15.407 krónur.  Í fjórða lagi vegna skuldabréfs í Íslandsbanka hf. nr. 068638, samtals að fjárhæð 14.290 krónur.  Í fimmta lagi vegna samnings nr. 1099202300 um eignarleigu við Landsbanka Íslands, samtals að fjárhæð 20.819 krónur.  Krafan sé því í heild 203.363 kr.  Dráttarvextir miðist við þingfestingardag.

h. Sölulaun vegna sölu Þyts HF, 520.000 kr.

         Aðalstefnandi hafi þurft að selja bát sinn Þyt HF vegna fjárhagserfiðleika.  hafi hann greitt sölulaun fyrir vikið, að fjárhæð 520.000 krónur.  Dráttarvextir miðist við greiðsludag.

i. Aflatap vegna grásleppu- og þorskveiða 1.069.610 kr.

         Bótakrafa aðalstefnanda vegna aflataps í þorskveiðum og grásleppuveiðum á árinu 1997 er 1.069.610 krónur, sem er niðurstaða dómkvadds matsmanns.  Í niðurstöðu matsmannsins sé tekið tillit til þess kostnaðar sem hljótist við að sækja og selja slíkan afla.  Þá sé í matinu tekið tillit til þess hluta sem aðalstefnandi hafi fengið afhentan af afla samstarfsaðila síns á smábátnum Elsu Rún, en að jafnaði hafi þeir skipt með sér afla sem fékkst af Þyt HF og Elsu Rún.  Sá afli sem aðalstefnandi fékk þannig afhentan af Elsu Rún komi í matinu til frádráttar tjóni hans. Matsgerð dómkvadds matsmanns, Ragnars Árnasonar, vegna aflatjóns hafi ekki verið hnekkt með yfirmati.  Dráttarvextir miðist við þingfestingardag.

         Samtals sé krafan því 3.959.381 króna, allt að frádreginni 1.513.391 krónu vegna innborgunar stefnda, 1.500.000 krónur og vegna virðisaukaskatts sem endurgreiðist aðalstefnanda, 13.391 króna.

         Kröfu um skaðabætur reisir aðalstefnandi á almennum skaðabótareglum.  Þá er vísað í almennar reglur samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga.  Kröfur um málskostnað eru studdar við 130. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 91/ 1991.

 

Málsástæður aðalstefnda í aðalsök

         Sýknukröfu sína byggir aðalstefndi á því að hann hafi þegar svarað til allrar þeirrar bótaábyrgðar gagnvart aðalstefnanda sem hann hafi tekist á hendur sem söluaðili vélarinnar og umboðsmaður vélaframleiðandans.  Vísar aðalstefndi í þeim efnum til ábyrgðarskírteinis sem hann hafi gefið út til aðalstefnanda vegna vélarinnar, dagsetts 1. mars 1997, eftir að vélin hafði verið sett niður í bát stefnanda í Hafnarfirði og síðan prufukeyrð og tekin út af fulltrúa framleiðandans.

         Á því er byggt að ábyrgðarskírteinið hafi ekki haft að geyma neinar þær takmarkanir á ábyrgð aðalstefnda sem seljanda vélarinnar að í bága gæti farið við þá réttarvernd, sem aðalstefnanda sé áskilin sem kaupanda í lögum nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sbr. 24. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.  Þá sé einnig vakin á því sérstök athygli að aðalstefnandi byggi ekki dómkröfur sínar á málsástæðum á borð við þær að ábyrgðarskilmálar ábyrgðarskírteinisins hafi í einhverjum tilteknum efnum verið óskuldbindandi fyrir aðalstefnanda með vísan til ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

         Samkvæmt ábyrgðarskírteininu, sem líta verði á sem hluta kaupsamningsins sem komst á með aðilum um vélarkaupin, hafi aðalstefndi tekist á hendur ábyrgð á bilunum á vélinni „... sem rekja má til efnis eða framleiðslugalla ... “, svo sem það sé orðað í ábyrgðarskírteininu.   Í skírteininu sé inntaki ábyrgðarinnar nánar lýst á þann veg að innifalið í ábyrgðinni séu, svo vitnað sé orðrétt til ábyrgðarskírteinisins:

         „l. Varahlutir og viðgerðarvinna á vél sem rekja má til bilana sem falla undir ábyrgðarskilmála þessa.

         2. Kostnaður við smurolíur, olíur, síur, belti, hosur, og aðrir hlutir sem ekki eru endurnýjanlegir vegna bilana.“

         Samkvæmt ábyrgðarskírteininu undanskilji aðalstefndi sig ábyrgð á tjónum vegna bilana á vélinni á nokkrum tilgreindum sviðum.  Hér sé einkum um að ræða svokölluð afleidd tjón sem nánar séu rakin í sex liðum í sjálfu ábyrgðarskírteininu.  Hér þyki sérstök ástæða að vekja athygli á 6. lið sem stefndi undanskilji sig ábyrgð á:

         „Kostnaður eiganda í tengslum við afnotamissi (downtime) tjón á farmi, og allur kostnaður eða tjón sem hlýst í atvinnurekstri vegna galla sem ábyrgðarskírteinið tekur til.“

         Sýknukrafan er á því byggð að aðalstefndi hafi svarað til allrar þeirrar ábyrgðar sem hann hafi tekist á hendur við sölu vélarinnar til aðalstefnanda.  Fyrir liggi gögn í málinu sem sýni fram á að aðalstefndi hafi greitt allan viðgerðar- og varahluta­kostnað sem af bilununum á vélinni leiddi.   Hann hafi gert gott betur þar sem hann hafi hlutast til um að framleiðandinn sendi aðra samskonar vél til landsins, sem sett hafi verið niður í bátinn, aðalstefnanda að kostnaðarlausu.  Þegar sú vél tók að bila, með sama hætti og sú fyrri, hafi aðalstefndi greitt allan viðgerðar- og varahlutakostnað vegna bilananna á þeirri vél.

         Eftir að undirmatið hafi leitt í ljós grunsemdir um að hér væri um bilanir að ræða sem rekja mætti til framleiðslugalla á vélinni hafi aðalstefndi gengist inn á að taka vélina til baka á grundvelli sérstaks samkomulags þar um við stefnanda.  Jafnframt hafi aðalstefndi fallist á að endurgreiða stefnanda kaupverð vélarinnar að fullu, 980.000 krónur, áætlaðan niðursetningarkostnað á vélinni, 150.000 krónur, kostnað vegna undirmatsins, 265.016 krónur, og 104.984 krónur upp í þóknun til lögmanns aðalstefnanda, eða samtals 1.500.000 krónur.

         Svo sem yfirlit á dskj. nr. 44 beri með sér hafi aðalstefndi þegar þurft að greiða vegna þessara viðskipta við aðalstefnanda og á grundvelli framanlýstrar ábyrgðar sinnar samtals 3.707.046 krónur eða sem nemi rúmlega fjórföldu verði vélarinnar.  Á því sé byggt að stefnukrafan, að frátöldum þessum 1.500.000 krónum, sem aðalstefndi hafi þegar greitt aðalstefnanda samkvæmt framansögðu, sé í öllum tilvikum tengd útgjaldaliðum eða atvikum sem alfarið falli utan við ábyrgð aðalstefnda samkvæmt ábyrgðarskilmálum ábyrgðarskjalsins.

         Til stuðnings framanlýstum málsástæðum er vísað til hinna óskráðu reglna skaðabóta­réttarins um bótaskyldu innan samninga og meginreglna samningaréttarins um að samningar skuli standa. Varðandi heimild til að undanskilja sig ábyrgð í viðskiptum með lausafjármuni, með þeim takmörkunum sem 24. gr. samkeppnislaga kveði á um, er vísað til 1. greinar kaupalaga nr. 39/1922 og að því er ábyrgðartíma varðar til 52.-54. greina sömu laga. Málskostnaðarkrafa aðalstefnda styðjist við 129. gr. og 130 gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Varakrafan um stórfellda lækkun á stefnukröfunni sé sett fram ef svo ólíklega vildi til að dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að aðalstefndi bæri ríkari bótaábyrgð gagnvart aðalstefnanda en hann hafi þegar svarað til samkvæmt framansögðu.

         Aðalstefnandi sundurliði stefnukröfu sína í 9 liðum, auðkenndum a-i.  Þegar þessir liðir séu skoðaðir nánar verði fljótlega ljóst að aðalstefnandi hafi ekki gætt hófs í kröfugerð sinni í skilningi þeirrar meginreglu skaðbótaréttarins að einungis skuli bætt það tjón sem tjónþoli hafi sannanlega orðið fyrir og ekkert fram yfir það.  Þá sé að sjálfsögðu gengið út frá því að ekki sé ágreiningur um sjálfa bótaskylduna en því sé ekki til að dreifa hér svo sem að framan sé rakið.  Á grundvelli þessara sjónarmiða,  séu hér á eftir settar fram eftirfarandi athugasemdir og mótmæli við einstaka bótaliði:

a.      Þessum lið er mótælt sem of háum.  Vélin sjálf hafi kostað 980.000 kr. og hafi þegar verið endurgreidd.  Mismunurinn, 186.647 krónur, sé ýmiss konar lántöku­kostnaður aðalstefnanda sem sé máli þessu óviðkomandi og komi viðskiptum þessum í raun ekkert við og sé mótælt sem slíkum.

b.      Þessum lið er mótælt sem allt of háum.  Samfara niðursetningu á vélinni hafi aðalstefnandi látið fara fram í vélarrúmi margskonar aðrar lagfæringar og viðgerðir sem gagnist honum áfram, hvað sem líði þessum vélaskiptum.  Hæfilegur niðursetningarkostnað vélarinnar að mati aðalstefnda sé 150.000 krónur og hafi sá kostnaður verið endurgreiddur aðalstefnanda.

         Þessum lið er mótmælt sem óviðkomandi máli þessu, enda verið að setja niður aðra vél en keypt hafi verið af stefnda.  Athygli sé vakin á því, að hér sé niðursetningakostnaður allt annar og lægri en greini hér að framan, sbr. athugasemdir í  b-lið.

d.      Þessi liður hafi þegar verið greiddur.

         Lið þessum er mótmælt sem óviðkomandi máli þessu.  Hér er um viðhalds- og rekstrarliði sem fallið hefðu til hvað sem líði þeim ágreiningi sem hér sé til meðferðar.

f.       Lið þessum er mótmælt sem órökstuddum með öllu.

g.      Þessum lið er mótmælt sem máli þessu óviðkomandi.  Ekki hafi verið sýnt fram á að þessi útgjöld séu bein afleiðing af bilununum í vélunum né að aðalstefnandi hafi þá gert allt sem hann mátti til að takmarka tjón sitt.

h.      Liður þessi sé dæmigerður um hina óbilgjörnu kröfugerð aðalstefnanda.  Hann hafi selt bát sinn vorið 1998.  Ástæða sölunnar hafi fyrst og fremst verið mjög hátt verð á slíkum bátum og aflaheimildum sem þeim hafi fylgt en ekki ágreiningur máls þessa.  Margir eigendur slíkra báta hafi freistast til að selja báta sína á þessu háa verði.  Samkvæmt sölulaunareikningnum virðist aðalstefnandi hafa selt bát sinn á 26.000.000 króna með aflaheimildum.  Af því sé bátsverðið sjálft á bilinu 6-8 milljónir.  Þessum lið sé mótmælt sem óviðkomandi sakarefni málsins.

i.       Lið þessum er mótmælt sem órökstuddum og þar að auki allt of háum.  Hér sé gengið út frá því að aðalstefnandi hefði náð þessum afla ef báturinn hefði ekki bilað og hann þannig tafist frá veiðum.  Þessum forsendum sé mótmælt sem ósönnuðum og einnig þeirri fráleitu viðmiðun sem aðalstefnandi viðhafi til mörkunar á ætluðu aflatjóni sínu.  Aðalstefnandi gangi hér út frá að hann hefði aflað að jafnaði eins mikið og báturinn Elsa Rún HF-44.  Þetta sé bæði fráleit og óvenjuleg viðmiðun.  Lágmark væri að taka mið af 10-20 áþekkum bátum í sömu verstöð.  Vísað sé til dskj. nr. 54 og nr. 55 sem sýni að fjöldi krókabáta á þorskaflahámarki hafi ekki náð aflamarki sínu.  Aðalstefnandi skeri sig ekkert sérstaklega úr í þeim efnum.  Þá sé þessum lið mótmælt sem allt of háum.

 

Málsástæður gagnstefnanda í gagnsök

         Gagnstefnandi kveður ástæður þess að hann hafi gengið til gerðar umrædds samkomulags við gagnstefnda þann 2. apríl 1998 hafi verið sú að þá lá fyrir niðurstaða undirmatsmanna um ástæður bilananna í vélinni og jafnframt það álit matsmanna að vélin stæðist ekki þær kröfur sem gera yrði „til véla í bátum af sömu gerð“, svo vitnað sé orðrétt til matsgerðarinnar.  Framleiðanda vélarinnar hafi verið gerð grein fyrir þessum niðurstöðum og jafnframt því áliti gagnstefnanda að hyggilegast væri að ganga til samkomulags við gagnstefnda um að kaupin á vélinni gengju til baka vegna þessara meintu galla á vélinni.  Þá yrði til þess að líta að útilokað væri að markaðssetja vélina hér á landi meðan þessi ágreiningur við gagnstefnda væri óútkljáður enda hefði gagnstefndi haft uppi skefjalausan áróður hér á landi gegn vélinni og talið hana með öllu óbrúklega í fiskibáta af þessari stærð.

         Krafan um viðurkenningu á rétti gagnstefnanda til að rifta samkomulaginu byggi á því að nú sé komið í ljós að ástæður bilananna í vélunum í bátnum hafi verið aðrar en þær sem greini í niðurstöðum bæði undir- og yfirmatsmanna og samkomulagið hafi verið byggt á.  Komið hafi í ljós að umræddar bilanir í vélunum verði hvorki raktar til galla í sjálfum vélunum né annarra ástæðna sem gagnstefnandi sem seljandi vélanna beri fébótaábyrgð á.

         Af þessu leiði að meginforsenda gagnstefnanda fyrir gerð samkomulagsins sé þar með brostin þar sem komið hafi í ljós að ástæðurnar fyrir bilununum í vél þeirri sem hann keypti af gagnstefnanda séu ekki þær sem greini í niðurstöðum hinna dómkvöddu matsmanna.  Nú bendi allt til þess að bilanirnar á vélinni megi beinlínis rekja til þeirrar ákvörðunar gagnstefnda sjálfs að taka út af kælikerfi vélarinnar kælivökva til notkunar í miðstöðvarkerfi bátsins í vistarverum áhafnar með þeim afleiðingum að vélin hafi seint og illa náð upp kjörhita í brunaholi vélarinnar og með þeim afleiðingum sem lýst sé í matsgerðunum.  Þá verði ekki annað séð en skortur á eðlilegu eftirliti af hálfu gagnstefnda, með því að vélin hafi gengið langtímum saman við hitastig sem hafi legið verulega undir kjörhita vélarinnar, eigi einnig sinn þátt í því hvernig farið hafi með vélarnar.

         Gagnstefnandi hafi einvörðungu selt gagnstefnda sjálfa vélina og hafi hvergi komið nærri niðursetningu hennar né þeirri ákvörðun að taka út af vélinni kælivökva hennar til upphitunar í vistarverum bátsins.  Nú hafi komið í ljós að vélin sjálf hafi ekki verið gölluð heldur verði að rekja hinar tíðu bilanir í vélinni til þess að gagnstefndi hafi truflað kælikerfi hennar með framanlýstum aðgerðum sínum og með þeim afleiðingum sem í matsgerðunum sé lýst.

         Krafa gagnstefnanda um viðurkenningu á rétti til að rifta samkomulaginu sé því nánar til tekið byggð á eftirgreindum málsástæðum:

         Að forsendur fyrir gerð samkomulagsins séu með öllu brostnar eftir að ljóst sé orðið að bilanirnar á vélunum verði hvorki raktar til hönnunargalla á sjálfum vélunum né til þess að einstakir hlutar vélanna hafi verið gallaðir í skilningi kaupalaga. Gagnstefnanda sé þegar af þeirri ástæðu heimilt að rifta samkomulaginu á grundvelli ógildingarreglna samningaréttarins vegna forsendubrests.

         Þá sé riftunarkrafan enn fremur byggð á þeirri málsástæðu að gagnstefnanda sé rétt að rifta eða ógilda samkomulagið í heild sinni með vísan til heimilda í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, um breytingu á þeim lögum, þar sem nú liggi fyrir að bilanirnar á vélunum verði ekki raktar til neinskonar galla á sjálfum vélunum sem gagnstefnandi, og/eða framleiðandi vélanna, beri ábyrgð á, heldur til ákvarðana og aðgerða gagnstefnda sjálfs að því er varði tengingu miðstöðvar­kerfisins við vatnskælikerfi vélanna og síðan slælegs eftirlits af hans hálfu við beitingu vélarinnar við hinar margbreytilegu aðstæður.

         Af öllu þessu sé ljóst að gagnstefnandi hefði aldrei gengið að gerð samkomulagsins ef þá hefði legið fyrir vitneskja sem nú liggi fyrir um líklegar eða sennilegar orsakir hinna tíðu bilana í vélunum.

         Verði fallist á kröfu gagnstefnanda um riftun samkomulagsins við gagnstefnda leiði beinlínis af þeirri niðurstöðu að gagnstefnda verði gert að endurgreiða gagn­stefnanda samkomulagsfjárhæðina og auk þess allan þann varahluta- og viðgerðar­kostnað sem af bilununum leiddi sem gagnstefnandi hafi ýmist látið gagnstefnda í té án endurgjalds eða hann hafi aflað og greitt í sama skyni, allt á grundvelli þeirrar ábyrgðar sem hann hafi talið sig bera á vélinni fyrstu tólf mánuðina samkvæmt þeim ábyrgðar­skilmálum sem fylgt hafi vélinni.  Forsendurnar fyrir öllum þeim ákvörðunum séu að sama skapi brostnar eftir að leitt hafi verið í ljós hverjar hafi í raun verið orsakir bilananna á vélunum.

         Endurgreiðslu- og fjárkrafan á hendur gagnstefnda sundurliðast með svofelldum hætti með vísan til framlagðra skjala:

1.         Endurgreiðsla skv. samkomulagi á dskj. 45  1.500.000 kr.

2.      Söluverð fylgihl. með vél, sbr. dskj. 44         203.289 kr.

3.      Kostnaður við prufukeyrslu, sbr. dskj. 44                                             14.693 kr.

4.         Viðgerðakostn. á ventli ofl., sbr. dskj. 44 74.811 kr.

5.      Viðgerð á olíupönnu 15/5-3/6 1997, sbr. dskj. 44  61.505 kr.

6.      Viðgerð á olíupönnu 9/6-15/6 1997, sbr. dskj. 44  43.512 kr.

7.      Viðgerð á olíupönnu 16/6 1997, sbr. dskj. 44         43.095 kr.

8.      Flutningur og niðursetning á nýrri vél, sbr. dskj. 44 324.901 kr.

9.         Viðgerðarkostn. í okt. 1998, sbr. dskj. 44 60.772 kr.

10.    Kostn. vega matsfundar á Þórshöfn, sbr. dskj. 44  35.485 kr.

11.    Kostn. v. rannsókna Lloyds, sbr. dskj. 44     125.590 kr.

12.          Flutningskostn. á vél frá USA, sbr. dskj. 44         75.925 kr.

                                                                Samtals                                 2.563.578 kr.

 

         Vísað sé til viðkomandi dómskjala varðandi hvern kröfulið fyrir sig.  Krafist er dráttarvaxta af fjárhæðinni frá því að gagnsökin teljist höfðuð í skilningi 93. gr. laga nr. 91/1991 til greiðsludags, sbr. að öðru leyti III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum.  Krafan um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður gagnstefnda í gagnsök

         Gagnstefndi reisir sýknukröfu sína á því að samkvæmt samhljóða mati fimm dómkvaddra matsmanna séu gallar hrein sök gagnstefnanda.  Aðilar máls þessa hafi hvor um sig kallað til matsmenn til að meta ástæður þess að bátsvélarnar gengu ekki sem skyldi.  Gagnstefndi hafi fyrst kallað til tvo matsmenn og síðar hafi gagnstefnandi kallað til þrjá yfirmatsmenn.  Allir þessir aðilar séu sérfróðir og hafi komist að þeirri niðurstöðu að bilanirnar stafi af of köldu brunalofti sem myndi útfellingu sem setjist á lokalegg og stirðni þar þegar vélin sé ekki í gangi.  Þetta valdi því að ventlar standi á sér við næstu gangsetningu.  Matsmennirnir hafi allir talið að ástæðan fyrir of köldu brunalofti hafi verið að skolloftskælir vélarinnar hafi verið sjókældur og engin stýring á hita lofts hafi verið frá honum.

         Fráleitt sé að halda því fram að slíkir gallar á vélinni séu gagnstefnda að kenna, enda hafi því ekki verið haldið fram af gagnstefnanda.  Gagnstefnandi haldi því hins vegar fram að "komið hafi í ljós" að niðurstöður matsmanna hafi verið rangar. Skýringanna sé að leita annars staðar. Gagnstefnandi hafi í engu rökstutt þessar skoðanir sínar og hafi niðurstöðum undir- og yfirmatsmanna því ekki á nokkurn hátt verið hnekkt. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.

         Gagnstefndi telji í öðru lagi að það sé fjarri raunveruleikanum að brostnar forsendur séu fyrir samkomulagi aðila.  Þar sem engar brostnar forsendur séu fyrir samkomulaginu beri, þegar af þeim sökum, að sýkna gagnstefnda í gagnsök.  Hvar gefi annars að líta hinar brostnu forsendur?  Gagnstefnandi hafi ekki lagt eitt sönnunargagn því til stuðnings að einhverjar af forsendum hans fyrir samkomulaginu séu brostnar.  Ef litið sé á forsendur samkomulagsins sé ljóst að þær séu gallar í hinum seldu vélum.  Ekkert gefi að líta í gögnum gagnstefnanda um að því mati fimm sérfróðra manna hafi verið hnekkt.  Því beri af þessum sökum að sýkna gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.

         Gagnstefndi veki á því athygli að þó sýnt verði fram á að miðstöð hafi verið aðalorsök þess að hin seigfljótandi eðja myndaðist í vélunum minnki það í engu ábyrgð gagnstefnanda á vélunum.  Gagnstefnandi hafi látið taka vélina út af sérstökum eftirlitsmanni og hafi sjálfur verið viðstaddur gangsetningu vélarinnar og sjósetningu bátsins með vél og miðstöð.  Miðstöðin hafi og verið sett niður eftir leiðbeiningum frá gagnstefnanda.  Gagnstefnandi hefði, sem sérfróður aðili, átt að gera athugasemdir sínar við tengingu vélanna við slíka miðstöð.  Ábyrgð gagnstefnanda sé því ótvíræð, án tillits til þess hvort niðurstaða undir- og yfirmatsmanna sé rétt eður ei.

         Því sé fráleitt að halda því fram að forsendur séu brostnar fyrir samkomulagi aðila frá 2. apríl 1998.

         Ómögulegt sé að afhenda gagnstefnda þá vél sem ljóst sé að afhenda þurfi ef riftun samkomulags aðila frá 2. apríl 1998 eigi fram að ganga.  Vélin sé, eins og viðurkennt sé í greinargerð stefnda í aðalsök og tiltekið sé einnig í yfirmatsgerð, töluvert breytt frá því sem var er gagnstefndi keypti hana.  Í greinargerð stefnda í aðalsök segi á bls. 4:

         "...Eldri vélin hafði þá sætt skoðun og lagfæringum af hálfu framleiðandans, sem einkum fólu í sér hækkun á hita í brunaholi vélarinnar m.a. með því að fjarlægja kæli á loftinntaki.... "

         Í yfirmatsgerð segi á bls. 2 um skoðun þriggja matsmanna á eldri vél sem komið hafði breytt frá USA:

         "... Við skoðun kom í ljós að skolloftskælir hafði verið tekinn af vélinni en við það fer skolloftið heitara inn á vélina.  Nýtt olíuþrýstikerfi fyrir aflstýri (SIC) var sett á hana, smursía var flutt og startari var samkvæmt hefðbundinni útfærslu þannig að hann snéri frá vélinni.  Ný túrbína var á vélinni og hafði hún minna umfang en sú gamla.  Að lokum má nefna að ný útfærsla var á aftöppun lofts úr hráolíukerfi... "

         Gagnstefnandi hafi aldrei undir rekstri þessa máls beðið um slíkar breytingar á vélinni og ekki hafi hann verið með í ráðum er vélinni var breytt.  Það sé meginregla um riftun að hvor aðila þurfi að geta verið eins settur eftir gjörning þann sem rift sé, og hann var áður en gjörningnum var rift.  Ekki sé hægt að krefjast þess að gagnstefndi þurfi að þola riftun á samkomulagi aðila frá 2. apríl 1998 ef gagnstefnandi geti ekki skilað hinum selda hlut aftur í sama ástandi og hann var við kaupin.

         Gagnstefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem rökstyðji kröfur hans í gagnsök, nema yfirlit á dskj. nr. 51.  Allar kvittanir vegna þessa meinta kostnaðar vanti.  Gagnstefnandi endurkrefji gagnstefnda til að mynda um kostnað við prufukeyrslu vélarinnar í febrúar 1997 er gagnstefndi keypti vélina!  Gagnstefndi sjái ekki að kostnaður þessi komi því við hvor aðila eigi sök á þeim bilunum sem urðu í vélunum.  Gagnstefnandi hafi a.m.k. ekki í neinu rökstutt kröfur þessar.

         Varðandi varakröfu sína veki gagnstefndi athygli á því að ekki liggi fyrir gögn svo hægt sé að mótmæla til lækkunar þeim kröfuliðum sem gagnstefnandi byggi kröfur sínar á í gagnsök.  Gagnstefndi vísi í 130. og 131. gr. eml. varðandi málskostnað og í lög 50/1988 varðandi virðisaukaskatt á málskostnað.  Gagnstefnandi hafi höfðað gagnstefnu að þarflausu og hafi engin sönnunargögn né rök fyrir kröfum sínum.  Beri honum því að greiða álag á málskostnað til handa gagnstefnda.

 

Niðurstaða

         Rétt þykir að fjalla um aðalsök og gagnsök í einu lagi.

         Óumdeilt er að bilun kom upp í báðum Star Powr vélunum sem settar voru í bát stefnanda Þyt HF 83.  Um það er hins vegar deilt hvort rekja megi bilanirnar til galla í vélunum sjálfum eða til notkunar á vélunum og þá aðallega hvort tenging miðstöðvar við vélarnar hafi verið orsök bilananna. 

         Í málinu liggja fyrir þrjár matsgerðir.  Samkvæmt matsgerð Ásgeirs Guðnasonar og Ólafs K. Ármannssonar telja þeir ástæðu bilunar í Star Powr vélunum hafa verið ófullkominn bruna í strokkum vélarinnar sem stafað hafi af of lágum hita í brunaholinu, sem aftur orsakist, líklega, af of mikilli kælingu á lofti sem blásið sé inn á strokkinn, með þeim afleiðingum að þyngstu efni brennsluolíunnar brenni ekki heldur myndi seigfljótandi eðju sem fari um brunaholið, útblástursgöngin, forþjöppuna og upp í soggöng í strokklokinu og storkni þegar vélin er stöðvuð og festi hreyfanlega hluti eins og forþjöppu og ventla þar sem eðjan sest á ventlaleggina.  Í matsgerð þeirra kemur einnig fram að þeir telji, samkvæmt þeim upplýsingum sem þeir hafi aflað, að bátnum Þyt HF 83 hafi ekki verið beitt á annan hátt en eðlilegt geti talist fyrir báta af sömu gerð .

         Í yfirmatsgerð dr. Magnúsar Þórs Jónssonar vélaverkfræðings, dr. Páls Valdimarssonar vélaverkfræðings og Þorsteins Jónssonar vélfræðings kemur fram að við athugun á sambærilegum bilunum í samskonar vélum hafi komið í ljós að ofkæling á lofti hafi valdið vandræðum hjá vélaframleiðendum miðað við það eldsneyti sem notað sé í dag.  Þegar hitastigið í brunaholinu sé lægra en óskagildi, myndi afgasið úrfellingu, það er glanshúð sem setjist meðal annars á lokaleggina.  Þegar vélin er stöðvuð valdi glanshúðin tregðu í ventlinum, síðan gerist það við gangsetningu að ventlarnir vinni ekki eðlilega, standi á sér.  Vökvaundirlyftan fylgi eftir og við það nái stimplar vélarinnar að slá undir ventlana þegar undirlyftan heldur við og þannig beygja eða jafnvel brjóta undirlyftustangirnar.  Jafnframt valdi þessi tregða erfiðleikum við gangsetningu vélarinnar.  Telja yfirmatsmenn þetta vera raunina með umræddar Star Powr vélar og er niðurstaða þeirra að bilanirnar stafi af of köldu brunalofti.  Staðfesta þeir þar með niðurstöðu undirmatsmanna.

         Í svarbréfi yfirmatsmanna til lögmanns aðalstefnda á dskj. nr. 65 segir að ýtarleg könnun hafi farið fram á sjó- og ferskvatnskælikerfi vélarinnar.  Hafi hvergi komið fram við þá könnun að við kerfið hefði verið tengd miðstöð.  Það sé ástæða þess að yfirmatsmenn hafi ekki kannað nein atriði sem varðað hafi miðstöð bátsins.

         Eins og áður greinir voru síðan dómkvaddir þeir Agnar Erlingsson verkfræðingur og Baldur Jónasson verkfræðingur til þess að skoða og meta eftirfarandi atriði:

l.       Að sannreyna með skoðun á umræddri Star Powr vél sem staðsett var þá á vélaverkstæði Vers ehf. með skoðun á vélbátnum Fagranesi NS-121, ex Þyt HF-83, sk. skr. nr. 6887, í höfn á Bakkafirði eða annars staðar, og með skoðun á teikningum af viðkomandi Star Powr vélum, að umrædd miðstöðvarlögn hafi verið tengd báðum Star Powr vélunum í bátnum.

2.      Að leggja mat á hvort miðstöðvartengingin í bátnum við Star Powr vélarnar hafi haft áþekk eða sömu áhrif á hitastig kælivatns vélanna og tenging miðstöðvar­lagnarinnar við Yanmar vélina hafði á þá vél á hinum ýmsu álagsstigum.

3.      Að leggja mat á hvort ætla megi að þessi tenging miðstöðvarkerfisins við kælikerfi Star Powr vélanna hafi valdið því að hiti í brunaholi vélanna hafi í lausagangi og við lítið álag legið undir kjörhita eða "óskagildishita" þeirra véla með þeim afleiðingum sem lýst sé í ofangreindum matsgerðum.

         Í niðurstöðu matsmanna varðandi lið 1 segir að þeir telji sannreynt að miðstöðvarlögn eins og hér um ræði hafi verið tengd Star Powr vélinni, sem skoðuð hafi verið í Hafnarfirði dagana 7. og 8. júlí 1999.  Staðfest hafi verið af öllum viðstöddum við skoðun vélarinnar að sama/samskonar miðstöð hafi verið tengd á sama hátt við fyrri Star Powr vélina og er ekkert sem bendir til annars en að svo hafi verið.  Skoðun á bátnum Fagranesi á Bakkafirði hafi einnig leitt í ljós að miðstöð var einnig tengd við Yanmar vélina á sama/samsvarandi hátt og gert hafði verið við Star Powr vélarnar.

         Varðandi lið 2 er talið fullvíst að miðstöðvartengingin við Star Powr vélarnar hafi haft tilsvarandi áhrif á kælivatn vélanna við hin ýmsu álagsstig eins og tenging við Yanmar.  Lagnir séu þær sömu eða á allan hátt mjög svipaðar.  Það sem sé mismunandi sé einhver stærðarmunur Star Powr og Yanmar vélanna. Miðað við upplýsingar gefnar í leiðbeiningabæklingi varðandi Star Powr vélarnar sé mismunandi hitastig sem vatnslás opni á. Samkvæmt upplýsingum í leiðbeiningum, skuli vatnslás Star Powr vélanna opna við um 82° C. Prufukeyrsla Yanmar vélarinnar á Bakkafirði 13. júlí 1999 hafi gefið til kynna að vatnslás opnaði við 70°-76° C. Þessi prufukeyrsla staðfesti annars í grófum dráttum niðurstöður mælinga á hitastigum kælivatns sem gerðar hafi verið 14. jan. 1999.  Star Powr vélarnar virðast þurfa að ganga heitari en Yanmar vélarnar.

         Varðandi lið 3 í niðurstöðu matsmanna kemur fram að í lausagangi 800-900 sn./mín sé ekki unnt að ná nema 55°- 60°C hita á bæði Yanmar og Star Powr vélar ef opið sé að miðstöð.  Með því að auka snúningshraða (um a.m.k. 50%) náist kjörhiti. Það sé greinilegt, að í lausagangi við lágan snúningshraða og opið inn á miðstöðvarlögn, náist ekki upp fullur hiti á vélunum og því alls ekki kjörhiti samkvæmt skilgreiningu leiðbeininga frá framleiðanda Star Powr vélanna.  Vélin nái ekki að hitna í meira en 55° - 60° C, en samkvæmt vélaframleiðanda Star Powr vélanna sé kjörhiti um 80° C.  Hiti í brunaholi vélarinnar virðist hér ekki vera meginatriði, eins og spurningin sé sett fram, enda sé kjörhiti í brunaholi ekki tilgreindur og hafi ekki verið mældur.  Þá segi einnig á bls. 3 í matsbeiðni að matsmenn skuli "sannreyna áhrif miðstöðvartengingarinnar á vatnskælikerfi vélanna og segja síðan til um, hvort þau áhrif séu líkleg eða sennileg orsök bilana í vélunum."  Matsmenn vilja túlka spurninguna þannig, að þeir eigi að leggja mat á hvort ætla megi að þessi tenging miðstöðvarkerfisins við kælikerfi Star Powr vélanna hafi valdið því að hiti vélanna hafi í lausagangi og við lítið álag legið undir kjörhita eða “óskagildishita” vélanna með þeim afleiðingum sem lýst sé í matsgerðum.  Þá segir í matsgerð:

“Yanmar vélin sem skoðuð var á Bakkafirði virðist þola miðstöðvartenginguna, en hún hefur verið keyrð 400 tíma. Ekki er lagt mat á hvort keyrsluvenjur hafi breyst, en eins og áður hefur komið fram er unnt að halda hærri hita á vél með hærri snúningshraða í lausagangi.  Ekki sést á gögnum að framleiðandi hafi gert athugasemdir við að vélin hafi verið tengd miðstöðinni og hefur tekið út vélina án athugasemda þar að lútandi.  Ekki kemur fram í gögnum að vélarframleiðandi og umboðsmaður hafi lagt á það áherslu við kaupanda strax við afhendingu vélar að hún skuli keyrð á sem næst kjörhita, en samkvæmt gögnum var niðursetning og tenging miðstöðvar gerð í samráði við vélaframleiðanda að öðru leyti en að farið var fram á meira loft að vél, en sú athugasemd hlýtur að teljast ótengd þeim vanda sem hér um ræðir.

Við metum það svo að vélarnar hafa verið keyrðar í hægum lausagangi og of kaldar við þær aðstæður.  Ekki bara brunaholið, heldur öll vélin, sem hefur margvísleg áhrif bæði á brennslu og blöndun brennsluolíu og óbrenndra efna við smurolíu og aðra vélarhluti.  Þetta hafi leitt til lýstra afleiðinga á Star Powr vélina.  Kæling á lofti til brennslu hefur ekki verið orsök til þessa, enda er loftið kælt eftir upphitun við þjöppun í túrbínu til að auka afköst vélarinnar. Hins vegar má hækka hitastig vélanna með stýrðri keyrslu, svo sem að auka snúningshraða í lausagangi og/eða að stýra vatnsflæði inn á miðstöð, og teljum við að nálgast megi kjörhita í lausagangi á þann hátt.

Samkvæmt ofangreindu er miðstöðvartengingin meginorsök lýstra afleiðinga á Star Powr vélina við hægagangskeyrslu.”

         Það er álit sérfróðra meðdómsmanna að sýnt hafi verið fram á, samkvæmt fyrirliggjandi matsgerðum, að umræddar vélar hafi unnið við of lágt hitastig.  Fyrir liggur og, eins og fram kemur í greinargerð aðalstefnda, að eftir að fyrri vélin hafði sætt skoðun framleiðanda vélarinnar voru gerðar á henni lagfæringar sem m.a. fólu í sér að fjarlægja kæli á loftinntaki til þess væntanlega að hækka hita í brunaholi vélarinnar.  Fyrir dómi bar matsmaðurinn, Agnar Erlingsson, að við matið hafi ekki legið fyrir upplýsingar um notkun á miðstöð bátsins.  Skoðað hafi verið hvernig miðstöðin var tengd og mat lagt á það hvort miðstöðvartengingin hefði áhrif á hitastig kælivatns.  Telja verður að þetta dragi nokkuð úr gildi matsgerðarinnar að þessu leyti einkum með hliðsjón af því að seinni vélin var notuð í bátnum að sumri til og ósannað að miðstöð hafi verið í notkun við seinni vélina, en bilanir virðast þær sömu og upp komu varðandi fyrri vélina.  Samkvæmt framansögðu þykir ekki sýnt fram á að meginorsök bilana verði rakin til miðstöðvar enda þótt notkun miðstöðvar sé einnig áhrifavaldur.

         Fyrir liggur og kemur fram í matsgerð Agnars Erlingssonar og Baldurs Jónssonar að miðstöðin var tengd við vélina strax við niðursetningu fyrstu Star Powr vélarinnar og var alltaf eins tengd að því best er vitað.  Þá liggur fyrir að fulltrúi framleiðanda vélarinnar, Johannes Tang, var viðstaddur prufukeyrslu vélarinnar og tók út vélina.  Gerði hann engar athugasemdir við tengingu miðstöðvar við vél.  Ósannað er að vélaframleiðandi eða umboðsmaður hans, aðalstefndi, hafi lagt á það áherslu við aðalstefnanda, er vélin var keypt, að hana skyldi keyra á sem næst kjörhita.  Þá liggur fyrir, samkvæmt framburði Kristjáns Hermannssonar, þáverandi þjónustufulltrúa aðalstefnda, að leitað var til framleiðanda vélanna um það hvernig standa ætti að tengingu miðstöðvar við vélina og upplýsingum frá framleiðanda þar að lútandi var komið áleiðis til Vers ehf. sem sá um niðursetningu vélarinnar og tengingu miðstöðvar.  Engar athugasemdir voru gerðar þá af hálfu framleiðanda við það að miðstöð væri tengd við vél.

         Eins og fram er komið var um nýja vél að ræða sem var ekki þekkt á hinum íslenska markaði.  Samkvæmt því sem fram er komið gat hvorki framleiðandi vélarinnar né seljandi gert sér grein fyrir því af hverju bilanir í henni stöfuðu og þá ekki aðalstefnandi sem telja verður að hafi brugðist við í samræmi við það sem búast mátti við af honum.  Ekkert hefur komið fram í málinu um það að notkun vélarinnar hafi verið óeðlileg og hafa vitni borið fyrir dómi að umgengni aðalstefnanda um bát og vél hafi verið til fyrirmyndar.

         Þegar allt framanritað er virt verður að telja að sýnt hafi verið fram á að umræddar Star Powr vélar hafi ekki verið búnar þeim kostum sem ætlast mátti til, en eins og að framan er rakið voru engar athugasemdir gerðar af hálfu framleiðanda eða seljanda við það að vélin væri tengd miðstöð eða gengi of hægt í hægagangi.  Með vísan til 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 telst aðalstefndi því bera bótaábyrgð á tjóni aðalstefnanda vegna þessa.

         Skriflegur kaupsamningur var ekki gerður um vélina.  Með vélinni fylgdi ábyrgðarskírteini frá framleiðanda sem undirritað er af umboðsaðila hans hér á landi, aðalstefnda í máli þessu.  Forsvarsmaður aðalstefnda bar fyrir dómi að þegar fulltrúi framleiðanda hafði tekið út vélina hafi aðalstefnanda verið sent ábyrgðarskírteinið í pósti.  Af hálfu aðalstefnanda hefur því ekki verið mótmælt að hann hafi fengið ábyrgðarskírteinið afhent.  Liggur ekki fyrir að hann hafi gert athugasemdir varðandi ábyrgðarskírteinið eða að hann hafi haldið því fram gagnvart aðalstefnda að þeir hafi samið um ríkari ábyrgð en þar greinir.  Þá fær þetta atriði enga umfjöllun af hálfu aðalstefnanda, hvorki í stefnu né greinargerð í gagnsök.  Ber því að líta svo á að um bótaábyrgð aðalstefnda fari samkvæmt ábyrgðarskírteini því sem fylgdi vélinni við kaupin.

         Í stórum dráttum tekur ábyrgðin til bilana á vél sem rekja má til efnis eða framleiðslugalla á ábyrgðartímanum.  Varahlutir og/eða samsettar einingar sem afhentar eru eða komið er fyrir samkvæmt ábyrgð þessari koma einnig undir ábyrgðarskilmálana á ábyrgðartíma.  Þá tekur ábyrgð til varahluta og viðgerðarvinnu á vél sem rekja má til bilana sem falla undir ábyrgðarskilmálana.  Jafnframt til kostnaðar við smurolíur, síur, belti, hosur og annarra hluta sem ekki eru endurnýtanlegir vegna bilana.

         Undanskilið ábyrgð eru allir hlutir sem krefjast venjulegs viðhalds, allir varahlutir sem ekki eru komnir frá framleiðanda vélarinnar eða allir aukahlutir sem tengdir eru við vélina, laun dráttarbáts eða annars flutningskostnaðar við viðgerðarstað, vinnulaun vegna úrtöku og niðursetningar á vél, kostnaður vegna bréfa, hótelkostnaðar ofl. svo og er undanþeginn kostnaður eiganda í tengslum við afnotamissi, tjón á farmi og allur kostnaður eða tjón sem hlýst í atvinnurekstri vegna galla sem ábyrgðarskírteinið tekur til.  Þá er tekið fram að undanþegin sé öll ábyrgð eða bótaskylda  fyrir allt óbeint, sérstakt eða afleitt tjón (meðtalið sé án takmarkana, allt tjón vegna afnotamissis eða tapaðs ágóða), hvort sem slíkt megi krefja með vísan til samninga, skaðabóta eða annars lagagrundvallar.

         Dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök eru í 9 liðum, merktum frá a. til i. 

         Þegar litið er til nefndra ábyrgðarskilmála þykir aðalstefnandi ekki hafa sýnt fram á að aðalsefndi beri bótaábyrgð á öðru samkvæmt a. lið en því sem nemur kaupverði vélarinnar sem var 980.000 krónur samkvæmt framlögðum reikningi.  Undanskilin er og ábyrgð á kostnaði við niðursetningu á vél og ber því þegar af þeim sökum að hafna kröfuliðum b. c. og e. Þá er kostnaður greiddur Siglingamálastofnun afleitt tjón sem aðalstefnandi verður að bera sjálfur.  Kostnaður vegna dómkvaddra matsmanna samkvæmt d. lið telst til málskostnaðar og kemur til skoðunar við ákvörðun hans.  Fallast ber á með aðalstefnda að kröfuliður f. sé með öllu órökstuddur og ber að hafna honum.  Kröfuliðir g., h. og i. taka allir til afleidds tjóns sem ekki er bótaskylt samkvæmt ábyrgðarskírteini því sem, samkvæmt framansögðu, telst gilda um bótaábyrgð aðalstefnda.

         Eins og fram er komið gerðu málsaðilar með sér samkomulag 2. apríl 1998 og liggur fyrir að aðalstefndi hefur þegar greitt aðalstefnanda bætur að fjárhæð 1.500.000 krónur.  Gerir aðalstefndi þá kröfu í gagnstefnu að þessu samkomulagi verði rift.  Með hliðsjón af því sem áður er rakið um bilanir í Star Powr vélunum og bótaábyrgð aðalstefnda þykir ekki sýnt fram á að forsendur hafi brostið fyrir nefndu samkomulagi.

         Eins og að framan greinir hefur aðalstefndi þegar greitt aðalstefnanda 1.500.000 krónur.  Þykir ekki sýnt fram á annað í máli þessu en hann hafi þar með bætt aðalstefnanda það tjón sem bótaskylt sé samkvæmt framansögðu

         Ber því að sýkna aðalstefnda af kröfum aðalstefnanda í máli þessu.  Samkvæmt framansögðu ber einnig að sýkna gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda.

         Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinni kostnað af málinu, bæði í aðalsök og gagnsök.

         Dóminn kvað upp Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Hafliða Loftssyni vélaverkfræðingi og Sigurði Brynjólfssyni prófessor.

D Ó M S O R Ð

         Aðalstefndi, Vélorka hf., skal vera sýkn af kröfum aðalstefnanda, Ellerts Ólafssonar.

         Gagnstefndi, Ellert Ólafsson, skal vera sýkn af kröfum gagnstefnanda, Vélorku hf.

         Málskostnaður í aðalsök og gagnsök fellur niður.