Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Yfirmat


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. júní 2001.

Nr. 232/2001.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Jóhann Halldórsson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna. Yfirmat.

X var sakaður um kynferðisbrot gagnvart drengnum A. Krafðist X þess að fram færi yfirmat á niðurstöðum matsmanns, sem dómkvaddur hafði verið til að gera sálfræðirannsókn á A. Mótmælti Á dómkvaðningu yfirmatsmanna og hélt því fram að lagaskilyrðum fyrir henni væri ekki fullnægt. Talið var að 3. mgr. 65. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 64. gr. laga nr. 91/1991, heimilaði dómkvaðningu yfirmatsmanna og var því fallist á kröfu X.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2001, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að leggja mat á nánar tilgreind atriði í tengslum við mál sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um dómkvaðningu yfirmatsmanna verði hafnað.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2001.

Í beiðni um dómkvaðningu þessa dags. 20. febrúar sl., er vísað til 63. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.  Sú beiðni var lögð fram á dómþingi 23. febrúar sl. og samdægurs var Oddi Erlingsson, sálfræðingur, dómkvaddur til þess starfa.  Fyrir dómi í dag hefur hann staðfest matsgerð sína, sálfræðiskýrslu, sem dagsett er 10. apríl sl.

Um yfirmat varðandi mats- og skoðunargerðir skv. 63. laga nr. 19/1991 er ekki kveðið sérstaklega á um í þeim lögum, en samkvæmt 3. mgr. 65. gr. þeirra laga skal um mats- og skoðunargerðir farið eftir fyrirmælum laga um meðferð einkamála í héraði eftir því sem við getur átt.  Samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði getur aðili krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem áður hafi verið metin.  Ekki verður talið að ákvæði 74. gr. a laga nr. 19/1991 standi því í vegi að aðili geti neytt þessa réttar síns.  Ber því að fallast á að heimilt sé að krefjast yfirmats í málinu.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Fallist er á kröfu verjanda ákærða um að fram fari yfirmat á niðurstöðum matsmanns.