Hæstiréttur íslands
Mál nr. 132/2008
Lykilorð
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 22. janúar 2009. |
|
Nr. 132/2008. |
Byko hf. (Ásgeir Jónsson hrl.) gegn Margréti Sigríði Jónsdóttur (Herdís Hallmarsdóttir hrl.) |
Niðurfelling máls. Málskostnaður.
Mál B gegn M var fellt niður við munnlegan flutning þess fyrir Hæstarétti að kröfu B en með samþykki M. M krafðist greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar var vísað til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og með hliðsjón af umfangi málsins og að krafa um niðurfellingu málsins kom fram við lok munnlegs málflutnings fyrir Hæstarétti var M gert að greiða 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. mars 2008. Í áfrýjunarstefnu og greinargerð til Hæstaréttar krafðist hann þess að stefnda yrði dæmd til að greiða sér 800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. apríl 2007 til greiðsludags. Þá krafðist hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Í greinargerð krafðist stefnda aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Í báðum tilvikum krafðist hún greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti krafðist áfrýjandi þess að málið yrði fellt niður. Stefnda andmælti ekki kröfu, en hélt fast við kröfu um málskostnað fyrir Hæstarétti. Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 2. mgr. 164. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málið fellt niður fyrir Hæstarétti.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991, ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun um fjárhæð málskostnaðar er meðal annars litið til þess að krafa áfrýjanda um niðurfellingu málsins kom fram við lok munnlegs málflutnings fyrir Hæstarétti og að málið er viðamikið. Tekið er tillit til þess að hæstaréttarmálið nr. 133/2008 varðar ábyrgð á sömu kröfu og er um flest samkynja þessu máli, en sömu lögmenn flytja það mál.
Dómsorð:
Mál þetta er fellt niður.
Áfrýjandi, Byko hf., greiði stefndu, Margréti Sigríði Jónsdóttur, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2007.
Mál þetta, sem var dómtekið 28. nóvember sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Byko hf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi gegn Margréti Sigríði Jónsdóttur, Vallabraut 6, Hvolsvelli, með stefnu birtri 22. mars 2007. Mál þetta var upphaflega einnig höfðað gegn Sigurjóni Jónssyni, Hólmgarði 54, Reykjavík, en við aðalmeðferð málsins féll stefnandi frá öllum kröfum á hendur honum.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 800.000 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 17. apríl 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Stefnda krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda bæði í aðal- og varakröfu.
Málavextir.
Fyrirtækið Endurreisn verktakar ehf., hefur frá árinu 2003 verið í reikningi hjá Byko hf. Ágreiningslaust er í málinu að fyrirtækið tók út vörur og þjónustu hjá stefnanda frá desember 2005 til maí 2006 fyrir alls 4.565.024 kr.
Stefnandi hefur fengið þrjár tryggingar vegna úttekta Endurreisnar verktaka ehf. hjá stefnanda. Í fyrsta lagi var lögð fram ábyrgðaryfirlýsing, dagsett 27. júní 2003, þeirra stefndu, Margrétar Sigríðar Jónsdóttur og Sigurjóns Jónssonar, að fjárhæð 800.000 kr. er mál þetta fjallar um. Í apríl 2004 var útbúin ábyrgðaryfirlýsing, að fjárhæð 3.000.000 kr. sbr. dómsmálið nr. E-2547/2007, en það er rekið vegna þeirrar yfirlýsingar. Þá var útbúið tryggingabréf að fjárhæð 3.000.000 kr. en til tryggingar greiðslu var sett að veði, fasteignin að Brekkulæk 4 í Reykjavík, en veðsali er Hekla Jósepsdóttir, eiginkona Hallgríms Einars Hannessonar, annars eiganda Endurreisnar verktaka ehf. Framlagðar tryggingar vegna viðskipta Endurreisnar verktaka ehf. við stefnanda voru því að höfuðstóli 6.800.000 kr. Þann 17. apríl 2007 greiddi Hekla Jósepsdóttir 3.858.006 kr. inná kröfu stefnanda, en stefnandi veitti ennfremur afslátt af kröfunni að fjárhæð 445.576 kr.
Í mars 2006 tók Endurreisn verktakar ehf. að sér, sem undirverktaki, að setja upp innréttingar í eldhús, baðherbergi og svefnherbergi í fjölbýlishúsinu að Eskivöllum 1, Hafnarfirði. Stefnandi hefur ekki greitt fyrir það verk en ágreiningur er með aðilum vegna galla á verkinu.
Hinn 28. apríl 2006 var stefndu sent innheimtubréf vegna skuldar samtals að fjárhæð 4.565.024 kr. auk vaxta og kostnaðar og tekið fram að til tryggingar skuldinni væru tryggingar samtals að fjárhæð 6.800.000 kr. Í ljósi þess að Endurreisn verktakar ehf. var með verk í vinnslu fyrir stefnanda urðu ekki frekari innheimtutilraunir að sinni.
Hinn 20. júní 2006 gerðu Endurreisn verktakar ehf. stefnanda reikning samtals að fjárhæð 10.768.386 kr. vegna uppsetninga á innréttingunum á Eskivöllum 1. Eindagi reikningsins var 30. júní 2006. Reikningurinn fór í athugun hjá stefnanda en var ekki greiddur en stefnandi telur að miklir gallar séu á verkinu. Reikningurinn var mun hærri en upphaflega var samið um og teljur stefnda að það sé vegna þess að íbúðirnar hafi ekki verið í umsömdu ástandi og hafi það kallað á ýmis aukaverk.
Hinn 13. september 2006 var stefnanda síðan sent innheimtubréf.
Hinn 27. september 2006 var Endurreisn verktakar ehf. teknir til gjaldþrotaskipta.
Hinn 15. desember 2006 sendi stefnandi kröfulýsingu vegna höfuðstólsins að fjárhæð 4.565.024 kr. og hinn 18. desember sama ár var send kröfulýsing vegna bótakröfu sem stefnandi telur sig eiga vegna tjóns er hann hafi orðið fyrir af hálfu Endurreisnar verktaka ehf. vegna verkefnisins að Eskivöllum.
Hinn 12. apríl 2007 var stefna málsins lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Hinn 17. apríl 2007 greiddi Hekla Jósepsdóttir stefnanda samtals 4.303.582 kr. vegna tryggingar sinnar.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að stefnda ásamt Sigurjóni Jónssyni hafi tekist á hendur sjálfskuldaábyrgð á öllum láns- og reikningsviðskiptum Endurreisnar verktakar ehf., alls að fjárhæð 800.000 kr. auk dráttarvaxta og alls innheimtukostnaðar, skv. ábyrgðaryfirlýsingu, dags. 27. júní 2003. Stefnt sé á grundvelli þessarar ábyrgðaryfirlýsingar þar sem skuld við stefnanda hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.
Stefnandi viðurkennir að hann hafi í mars 2006 samið við Endurreisn verktaka ehf. um uppsetningu á innréttingum í húsi við Eskivelli 1 í Hafnarfirði. Umsamið verð fyrir verkið hafi verið um það bil 2.900.000 kr. Vegna þessa verks hafi ekkert verið greitt, þar sem það hafi verið haldið verulegum göllum.
Stefnandi hafnar þeirri málsástæðu stefndu að til geti komið skuldajöfnun vegna hins ógreidda verks og þeirrar kröfu er hann hefur uppi í málinu, þar sem þrotabúið eigi kröfuna, en ekki stefndu. Því sé um aðildarskort að ræða.
Um lagarök vísar stefnandi meðal annars til laga um gjaldþrotaskipti og fleira nr. 21/1991, þ.e. 60. gr. 100. gr. 103.-105. gr., 116. gr. 122. gr. 124. gr. og 130. gr. Einnig er vísað til laga um meðferð einkamál nr. 91/1991 þ.e. 16. gr. 21. gr. 129-130. gr.
Málsástæða og lagarök stefndu.
Stefnda byggir á því að stefnandi eigi ekki kröfu á hendur henni. Krafa stefnanda vegna úttektanna sé greidd. Er það bæði með reikningi þeim er Endurreisn verktakar ehf. sendu stefnanda svo og greiðslu Heklu Jósefsdóttur hinn 17. apríl 2007. Í raun sé það stefnandi sem skuldi stefndu.
Stefnda telur að heimilt hafi verið að skuldajafna reikningi einkahlutafélagsins við úttektir einkahlutafélagsins og stefnda ábyrgðist með ábyrgðaryfirlýsingunni. Stefnda telur að samið hafi verið um skuldajöfnuðinn og munnlegt samkomulag sé skuldbindandi fyrir stefnanda. Þá hafi fyrirsvarsmenn einkahlutafélagsins margoft einhliða lýst yfir skuldajöfnuði frá útgáfu reikningsins og þar til bú félagsins hafi verið til gjaldþrotaskipta. Stefnda telur að einkahlutafélagið hafi fengið verkið á Eskivöllum hjá stefnanda til að vinna upp í skuld sína hjá stefnanda.
Stefnda heldur því fram að öll skilyrði skuldajafnaðar sé uppfyllt. Kröfurnar séu báðar um greiðslu peninga, þær séu gildar og hæfar til að mætast. Þá hafi Hekla Jósefsdóttir greitt stefnanda samtals 4.303.582 kr. Því telur stefnda ljóst að sú skuld sem ábyrgðaryfirlýsingin tekur til sé að fullu greidd. Ber því að sýkna stefndu af kröfu stefnanda.
Til vara krefst stefnda þess að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og er byggt á sömu málsástæðu og fyrir sýknukröfunni. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu er vaxtakröfu stefnanda einnig mótmælt. Samkvæmt orðalagi ábyrgðaryfirlýsingarinnar tekur hún til skuldar allt að fjárhæð 800.000 kr. Þá tekur hún einnig til lögleyfðra vaxta og dráttarvaxta af þeirri fjárhæð ef til innheimtu kemur. Í kröfu stefnanda er vöxtum bætt ofan á viðskiptaskuld félagsins við stefnanda og stöðu þeirrar skuldar. Kröfu stefnanda um að bæta megi ofan á ábyrgðarfjárhæðina greiðslu vaxta og dráttarvaxta af viðskiptareikningnum fram að þeim tíma er ábyrgðaryfirlýsingin fór í innheimtu er mótmælt. Verður einungis gerð krafa um lögleyfða dráttarvexti af ábyrgðarfjárhæð að því leyti sem dómstóllinn fellst á þá kröfu frá þeim tíma sem ábyrgðin fór í innheimtu.
Um lagarök fyrir sýknu er vísað til meginreglna verktakaréttar, kröfuréttar og gjaldþrotaréttar um rétt til skuldajöfnunar. Þá vísast til samningalaga nr. 7/1936 um réttar samningsefndir. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Forsendur og niðurstaða.
Ágreiningslaust er í málinu að Endurreisn verktakar ehf. tók út vörur og þjónustu hjá stefnanda fyrir alls 4.565.024 kr. á tímabilinu desember 2005 til maí 2006. Vegna viðskiptanna tókust stefnda ásamt Sigurjóni Jónssyni á hendur sjálfskuldaábyrgð að fjárhæð 800.000 kr. Endurreisn verktakar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 27. september 2006. Þá er ágreiningslaust að í mars 2006 samdi stefnandi við einkahlutafélagið um uppsetningu á innréttingum í íbúðir að Eskivöllum 1, Hafnarfirði. Ágreiningur er um endurgjald fyrir verkið en stefnandi taldi í upphafi að það hafi átt að vera um það bil 2.900.000 kr. (en nú 3.170.889) en stefnda telur að endurgjaldið hafi átt að vera rúmlega 3.800.000 kr. Fyrir liggur að stefnandi telur að verkið hafi verið gallað og hefur því sent skiptastjóra bótakröfu. Stefnda telur að íbúðirnar að Eskivöllum hafi ekki verið í umsömdu ástandi og hafi verkið því orðið mun dýrara. Eins og grundvöllur málsins er lagður í stefnu, þá er allur ágreiningur um ætlaða galla varðandi verkið að Eskivöllum 1 fyrir utan mál þetta. Þá er ágreiningslaust að stefnandi fékk reikning vegna vinnunnar að Eskivöllum í júní 2006.
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort skilyrði séu fyrir skuldajöfnuði svo sem stefnda heldur fram. Eins og að framan greinir greiddi Hekla Jósepsdóttir hluta kröfunnar hinn 17. apríl sl. Vegna verksins að Eskivöllum 1 telur stefnandi að honum hafi borið að greiða um það bil 2.900.000 kr. Það hefur ekki verið greitt þrátt fyrir að reikningur hafi verið sendur 20. júní 2006 og innheimtubréf 13. september 2006. Fyrir liggur að með verki þessu fyrir stefnanda myndi félagið vinna upp í skuld sína. Eins og mál þetta liggur fyrir er það mat dómsins að skilyrðum skuldajafnaðar sé fullnægt. Skuldajöfnuðurinn átti sér stað áður en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta. Þótt fyrir liggi að ágreiningur sé um hvort gallar séu á verkinu þá kemur það að mati dómsins ekki í veg fyrir það að kröfur stefnanda og Endurreisnar verktaka ehf. mættust. Með vísan til þessa var krafa stefnanda að höfuðstól 4.565.024 kr. að fullu greidd með því að Hekla Jósepsdóttir innti greiðslu sína af hendi 17. apríl sl. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Með vísan til 1. gr. 130. gr. sömu laga ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákvarðaður 150.000 kr. Ekki hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ásgeir Jónsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Herdís Hallmarsdóttir hdl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefnda, Margrét Sigríður Jónsdóttir, er sýkn af kröfu stefnanda, Byko hf.
Stefnandi greiði stefndu 150.000 kr. í málskostnað.