Hæstiréttur íslands
Mál nr. 566/2012
Lykilorð
- Manndráp
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 17. janúar 2013. |
|
Nr. 566/2012.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Hlífari Vatnari Stefánssyni (Bjarni Hauksson hrl.) (Björgvin Jónsson hrl. f.h. einkaréttarkröfuhafa) |
Manndráp. Skaðabætur.
H var ákærður fyrir manndráp með því að hafa á heimili sínu veist að A og veitt henni hnífsstungur með þeim afleiðingum að hún hlaut bana af. H játaði sakargiftir fyrir héraðsdómi, en krafðist refsimildunar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af áverkum á líki hinnar látnu og ummerkjum á vettvangi brotsins yrði ráðið að H hafi haft einbeittan ásetning til að ráða A bana. Hann hafi tilkynnt lögreglu fyrst um verknaðinn eftir að A hafði að öllum líkindum verið látin í þrjá daga af völdum áverkanna er hann veitti henni. Þótt mikil og langvarandi neysla H á fíkniefnum kynni að hafa verið meginorsök verknaðarins og þess, hversu seint hann gaf sig fram við lögreglu, hefði það ekki áhrif á ákvörðun refsingar fyrir brotið, sbr. 17. gr. og 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Yrði enda ekki ráðið af gögnum málsins að hann hafi iðrast gerða sinna. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu H og honum gert að sæta 16 ára fangelsi og greiða syni og foreldrum A skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. ágúst 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu og refsingu ákærða.
Ákærði krefst refsimildunar og að bótakröfur verði lækkaðar.
B krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 4.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar 2012 til 16. júní sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um bótakröfu sína. Þá krefst hann staðfestingar héraðsdóms um tildæmdan málskostnað í héraði auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
C krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til greiða sér 2.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. febrúar 2012 til 16. júní sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um miskabótakröfu sína. Þá krefst hann staðfestingar héraðsdóms um skaðabætur sér til handa vegna útfararkostnaðar, svo og um tildæmdan málskostnað í héraði auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
D krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 2.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. febrúar 2012 til 16. júní sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar hins áfrýjaða dóms um bótakröfu sína. Þá krefst hún staðfestingar héraðsdóms um tildæmdan málskostnað í héraði auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ákærði hefur játað fyrir dómi að hafa orðið A að bana á þann hátt sem í ákæru greinir. Hann var 23 ára að aldri þegar hann framdi brotið. Af áverkum á líki hinnar látnu og ummerkjum á vettvangi brotsins verður ráðið að ákærði hafi haft einbeittan ásetning til að ráða henni bana. Hann tilkynnti lögreglu fyrst um verknaðinn eftir að A hafði að öllum líkindum verið látin í þrjá daga af völdum áverkanna sem hann hafði veitt henni. Þótt mikil og langvarandi neysla ákærða á fíkniefnum kunni að hafa verið meginorsök verknaðarins og þess, hversu seint hann gaf sig fram við lögreglu, hefur það ekki áhrif á ákvörðun refsingar fyrir brotið, sbr. 17. gr. og 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður enda ekki ráðið af gögnum málsins að hann hafi iðrast gerða sinna. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða kröfuhöfum málskostnað fyrir Hæstarétti, svo og áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Hlífar Vatnar Stefánsson, greiði B, C og D, hverju um sig, 75.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Þá greiði ákærði allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, 597.831 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar, hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. júní 2012, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 30. apríl 2012 á hendur Hlífari Vatnari Stefánssyni, kt. [...], [...], fyrir manndráp, með því að hafa, á tímabilinu frá síðdegi fimmtudaginn 2. febrúar til hádegis föstudaginn 3. febrúar 2012, í svefnherbergi á heimili ákærða að [...], veist að A, fæddri [...], með hnífi og stungið hana ítrekað í andlit og líkama, en ein stungan gekk inn í vinstra lunga hennar, og skorið hana á háls, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut bana af.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.
Einkaréttarkröfur
Í málinu gerir B, kennitala [...], sonur hinnar látnu, kröfu þess efnis að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 4.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar 2012, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
C, kennitala [...], faðir hinnar látnu, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur vegna útfarar dóttur hans, að fjárhæð kr. 1.500.000, auk þess krefst hann miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar 2012, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
D, kennitala [...], móðir hinnar látnu, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar 2012, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Ákærði krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa og hafnaði alfarið bótakröfunum.
Bótakrefjendur kröfðust þess undir rekstri málsins að málflutningur færi fram fyrir luktum dyrum. Fór fram málflutningur vegna þeirrar kröfu og var henni hafnað með úrskurði þann 22. maí sl. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands 24. maí sl. í málinu 353/2012. Fór aðalmeðferð og skýrslutökur fram þann 22. júní sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.
I.
Samkvæmt lögregluskýrslu kom ákærði á lögreglustöðina í Hafnarfirði, mánudaginn 6. febrúar kl. 10.45. Var hann í annarlegu ástandi og sagði geimveru hafa ráðist á sig og stungið með hnífi á milli tíu og tuttugu sinnum. Hann hafi náð hnífnum af henni og náð að stinga hana og væri hún núna dauð í herbergi hans að [...] í Hafnarfirði. Var frásögn hans mjög óskýr vegna ástands hans og erfitt að átta sig á honum en engir áverkar voru á honum þegar hann kom. Í framhaldi fór lögregla á heimili ákærða þar sem látin manneskja fannst og var líkið stirðnað. Var ákærði handtekinn í framhaldi. Þegar lögregla kom á heimili ákærða var þar fyrir á efri hæð hússins faðir ákærða. Skýrði hann lögreglu svo frá að hann hefði ekki séð ákærða í nokkra daga en hann hafi kvöldinu áður, um kl. 22.00, farið að herbergi ákærða, sem hafi veri lokað, bankað á dyrnar og kallað til að kanna ástand ákærða. Hafi ákærði þá svarað með kalli á móti. [... ]ákærða kvaðst ekki hafa orðið var við nokkurn mann síðustu daga sem hafi verið með ákærða en fyrir um tveimur dögum hafi hann fundið einkennilega lykt í húsinu og hafi hann farið að kanna það og talið að það hafi verið skemmd matvæli að rotna. Við rannsókn kom í ljós að hin látna var A, fædd [...]. Hafði hún leigt herbergi í [...] í Reykjavík frá því í apríl 2011.
Undir rannsókn málsins kom í ljós að A hafði hringt í E, kt.[...], fimmtudaginn 2. febrúar sl., kl. 19.09, og óskað eftir því að hann aðstoðaði hana við að ná peningum til baka frá ákærða sem ákærði hefði stolið frá henni. Föstudaginn 3. febrúar sl. var hringt þrisvar úr síma A í F, kl. 11.24, 11.48 og 11.54. F upplýsti við rannsókn málsins að hann hefði um hádegisbil þann dag farið með um 6 grömm af hassi og sígarettupakka til ákærða. Ákærði greiddi honum 12.000 krónur í reiðufé fyrir þetta. Ákærði viðurkenndi við rannsókn málsins að hafa keypt tiltekin efni en það hafi verið eftir að hann varð A að bana. Laugardaginn 4. febrúar 2012 var hringt úr síma A í Dominos klukkan 14.31 og pöntuð pizza. Sendill fór með pizzuna að [...] þar sem ungur maður tók við henni og borgaði fyrir með reiðufé. Ákærði mundi ekki eftir þessu atviki þegar hann var inntur eftir því fyrir dóminum.
Þann 6. febrúar sl. fór fram réttarlæknisfræðileg skoðun á ákærða. Í lýsingu á ástandi hans við komu segir: „Sljólegur, heldur illa jafnvægi. Svarar treglega spurningum. Neitar neyslu síðustu daga en svarar ekki þegar spurður hvers hafði neytt síðast. Virðist á varðbergi og talar ekki af sér. Gerir kröfur varðandi fatnað en fylgir ekki eftir.“ Frásögn ákærða við sama tilefni er að hann hafi lent í átökum. Hann svarar ekki þegar hann er spurður hvernig þau hafi borið að en kveðst hafa orðið fyrir áverkum líkustum biti, bruna eða stungu. Áverkarnir myndu sjást við skoðun. Við skoðun kemur í ljós löng rispa á aftanverðum vinstri framhandlegg, u.þ.b. þriggja til fjögurra daga gömul. Lófamegin í vinstri litlafingri er sár og sprunga, ca einn cm, með smávegis blóðstorku í, sennilega tveggja til þriggja daga. Óhreinindi og hugsanlega blóð í naglaböndum nokkurra fingra beggja handa. Stunguför í báðum olnbogabótum, sennilega meira en vikugömul hægra megin en yngstu eins til tveggja daga gömul vinstra megin og þar í kring eru gulleitir marblettir. Blóð í naglaböndum beggja stóru táa. Ákærði var mjög fölur, óglatt og sagðist þurfa að æla.
Við rannsókn á blóði og þvagi ákærða, sem tekið var 6. febrúar sl., fundust amfetamín og kannabínóíðar í þvagi. Tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 2,6 ng/ml en amfetamín var ekki mælanlegt í blóði.
Rannsókn á blóðsýnum, sem tekin voru á vettvangi af hnífi og fötum ákærða, leiddu í ljós að um var að ræða blóð úr hinni látnu.
Ákærði gekkst undir geðheilbrigðisrannsókn sem framkvæmd var af G geðlækni. Var matsmanni falið að kanna hvort ákærði væri sakhæfur í skilningi 15. gr. laga nr. 19/1940 eða eftir atvikum hvort ætla mætti að refsing gæti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Átti matsmaður samtals sex viðtöl við ákærða á tímabilinu 8. febrúar til 3. maí sl. Þá ræddi matsmaður við föður og móður ákærða ásamt fyrrverandi sambýliskonu föður.
Samkvæmt krufningarskýrslu hlaut A 27 mismunandi stungusár. Í niðurstöðum skýrslunnar segir að flest sárin hafi ekki leitt til lífshættulegra innri áverka heldur hafi þau flest að mestu leyti verið veitt af litlu afli og endað í fitu- eða mjúkvef. Aðeins sár nr. 5 (á hálsi) og nr. 9 (í lunga) hafi leitt til lífshættulegra innri áverka. Hvor áverki fyrir sig hefði nægt til að draga fórnarlambið til dauða. Fórnarlambið hafi raunar verið á lífi í einhvern tíma eftir árásina. Þetta sjáist á blæðingum í mjúkvefjum í kringum flest sárin og innönduðu blóði í lungum. Dánarorsök hefur verið stöðvun blóðrásar og öndunar í kjölfar ops á barka og áverka á efsta lungnablaði vinstra megin. Um sé að ræða ónáttúrulega dánarorsök.
II.
G geðlækni var falið af dómara að framkvæma geðrannsókn á ákærða hinn 7. febrúar sl. Var matsmanni falið að kanna hvort ákærði væri sakhæfur í skilningi 15. gr. laga nr. 19/1940 eða eftir atvikum hvort ætla mætti að refsing gæti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Átti matsmaður samtals sex viðtöl við ákærða á tímabilinu 8. febrúar til 3. maí sl. Þá ræddi matsmaður við föður og móður ákærða ásamt fyrrverandi sambýliskonu föður. Í samantekt geðskoðunar og viðtala segir að fram hafi komið einkenni fráhvarfa, þreytu og andfélagslegrar framkomu með vissum hroka og engin góð samvinna hafi verið í fyrstu og öðru viðtali. Andfélagsleg einkenni hafi verið viðvarandi alla geðskoðunardagana nema einn. Engar vísbendingar hafi verið um raunveruleg geðrofseinkenni frá upphafi geðskoðana. Ákærði sé að upplagi örugglega vel gefinn. Ákærði sé með örugga og mikla sögu um misnotkun fíkniefna í æð. Meðferð hafi aldrei skilað árangri. Hann segi þó ekki satt um þær meðferðir. Ákærði geri einnig lítið úr neyslu sinni og virðist fegra sig almennt eða vera í afneitun. Ákærði uppfylli skilmerki fyrir persónuleikaröskun, bæði andfélagslegri og með siðblindu. Erfitt sé að meta persónuleika hans fyrr en eiturlyfjaáhrif og áhrif fyrra lífernis hafi horfið en slíkt taki oft að lágmarki sex til tólf vikur hjá einstaklingum sem hafi verið í neyslu í mörg ár samfellt. Hjá sumum verði slíkt viðvarandi. Ákærði hafi forðast í upphafi að viðurkenna gerðir sínar, hann iðrist ekki sýnilega gerða sinna og hafi sýnt fá merki um sektarkennd allt frá upphafi til enda nær þriggja mánaða tímabils er geðskoðunin tók. Í ljós hafi komið að ákærði hafi áður hagrætt sannleikanum og hann reyni að gera það gagnvart matsmanni og einnig að spila með hann. Sé hann greinilega að reyna að búa til ákveðin einkenni eða ýja að þeim en bakki svo þegar hann sjái að hann geti ekki spilað á matsmanninn. Þá er það skoðun matsmannsins að ákærði sé örugglega sakhæfur. Ákærði hafi ekki haft nein merki geðrofs eða sturlunar frá upphafi skoðunartímans en eftir því sem hafi liðið á skoðunartímann hafi komið betur í ljós um hvað hafi verið að ræða. Þá segir að grunnpersónuleiki ákærða sé ekki auðmetinn vegna mikillar fíkniefnanotkunar. Hann sé örugglega með andfélagslega persónuleikaröskun og siðblinduþætti nú. Óljóst sé enn hversu mikið viðvarandi þetta verði í hegðun hans og hugarfari. Ákærði hafi nær örugglega á brotadegi verið undir miklum áhrifum örvandi fíkniefna og kannabis. Geðræn einkenni þau sem að ofan sé lýst leiði ekki til ósakhæfis samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga. Þau útiloki ekki fangelsisvist né að refsing komi að gagni. Í niðurlagi segir svo að mikilvægt sé að ákærði nái að nýta greind sína og gáfur og nái viðvarandi edrúmennsku en til þess þurfi þó gríðarlega afstöðubreytingu hjá ákærða sem virðist hafa spilað á umhverfi sitt til margra ára. Horfur hans séu því í lok geðrannsóknar ósljósar.
Matsmaður kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Kvað hann aðspurður vel geta staðist að ákærði muni ekki atburðinn vegna þeirrar miklu neyslu sem hann hafi verið í. Sé slíkt óminnisástand vel þekkt í áfengisneyslu en undanfarið hafi mörg dæmi komið fram um slíkt af völdum mikillar neyslu rítalíns í æð, en þá séu áhrifin miklu ofsafengnari en þegar það sé tekið í töfluformi, og því geti fylgt morðhugsanir. Séu menn oft á mörkunum með að deyja sjálfir af krampa eða slíku. Því sé hugsanlegt að hann hafi ekki neinar minningar um verknaðinn. Staðfesti matsmaðurinn að ákærði væri sakhæfur og að refsing hefði þýðingu.
Í krufningarskýrslunni kom fram við ytri rannsókn að um sé að ræða lík 36 ára konu sem að hluta til sé [...]. Ummerki sé um [...]. Líkið sé stirðnað og líkblettir ekki lengur finnanlegir. [...]. Vefjaskemmdir séu að mestu allt að eins sentimetra að lengd. Einstaka vefjaskemmdir séu við hægra brjóst allt að 0,4 sentimetra að lengd. [...]. Við hægra gagnauga sé þornuð húðspretta í hársverðinum með sléttum brúnum, 1,2 sentimetra lögn og 0,8 sentimetra djúp, [...]. [...]. [...]. [...]. [...] [...]. [...]. Á hálsi sé 14 sentimetra langt skurðsár [...]. Brjóstkassi sé jafn til beggja hliða og hreyfist ekki óeðlilega. Á brjóstkassa sé fjöldi sára með sléttum brúnum. Engin önnur ný sár á brjóstkassa og kviði. Á hægri fótlegg og á aftanverðum vinstri fótlegg séu sár með sléttum brúnum. Á hægri handlegg séu sár með sléttum brúnum.
Í kaflanum „Innri skoðun:“ segir [...]. Auk ofangreindra sára eru rakin fimm stungusár á vinstri brjóstkassa sem ýmist enda í mjúkvef eða fituvef. Þá eru stungusár rakin á fótleggjum með mikilli blæðingu í mjúkvef. Á hægri handlegg eru talin sjö stungusár mislöng eða breið auk sára á fingrum. Þá eru rakin tvö stungusár á vinstri handlegg. Þá segir um líffæri að [...]. Þá sé vitað um [...] fyrir andlátið.
Um ákvörðun dánartíma segir að sökum þess hve [...] hafi verið að hluta til langt komin hafi ekki lengur verið unnt að ákvarða dánartíma. Auk þess vegna þess hve [...] á efri og neðri hluta líkamans hafi verið mislangt komin, megi gera ráð fyrir að líkið hafi legið í að minnsta kosti tvo daga.
Í niðurstöðum krufningar segir að 27 stungu-og skurðsár hafi verið á höfði, í andliti, á hálsi, á brjóstkassa og á báðum fót- og handleggjum. Vegna stunguáverka sé op á barka, arteria carotis hægra megin og greinum arteria varotis vinstra megin sem og áverki á efsta lungnablaði vinstra megin og blóðvökvi í vinstra brjóstholi. Blóðfylling í hægri lungnavef. Sár sem séu að hluta til blóðug og hlut til ekki blóðug. [...]. [...]. Eftir því sem næst verði komist séu innri líffæri blóðlaus. Ummerki um [...]. Í niðurstöðum veirufræðilegra rannsókna komi fram [...] og [...] og niðurstaða eiturefnafræðilegrar rannsóknar sýni [...] og [...].
Auk ofangreinds segir í niðurstöðum að ytri líkskoðun í tengslum við réttarkrufningu hafi leitt í ljós, auk [...], fjölda áverka sem hafi verið gefin númer frá 1 til 27. Í flestum tilvikum vísi númerin til einstakra áverka en í nokkrum tilvikum vísi númerin til nokkurra áverka í senn. Sökum [...] hafi möguleikar til líffærafræðilegrar rannsóknar verið takmarkaðir, en þó sé rétt að ganga út frá því að áverkarnir hafi verið veittir með beittu verkfæri með biti öðru megin, t.d. hníf. Áverkarnir, sem álitnir séu stungusár (allir nema nr. 5, skurður og nr. 21 (þornun)) séu ekki meira en 1,5 sentimetrar að breidd. Því sé gengið út frá því að skurðarblaðið hafi verið um það bil 1,5 sentimetra breitt. mat á lengd skurðarblaðsins sé takmörkunum háð þar sem flest sárin endi í fitu- eða mjúkvef og aðeins sár nr. 9 liggi inn í brjóstholið og hafi skaddað efsta lungnablaðið vinstra megin. Til að valda því sári hefði þurft u.þ.b. 7 sentimetra langt skurðblað, en blaðið geti vissulega hafa verið mun lengra. Undantekning frá þessu sé sár nr. 5. Þar sé að ræða skurðsár. Ekki sé unnt að greina skurðstefnuna heldur hafi aðeins verið hægt að staðfesta að sárið var dýpra hægra megin en vinstra megin. Áberandi sé að sárin séu einkum vinstra megin á búknum og að stungusárin lágu næstum öll í sömu stefnu (frá miðju og út til hliðar). Þetta bendi annars vegar til þess að miðað hafi verið á hjartasvæðið og hins vegar til þess að fórnarlambið hafi ekki lengur getað varist þegar þarna var komið sögu.
H réttarmeinafræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína.
III.
Ákærði kom fyrir dóminn og lýsti því sem hann kvaðst muna af aðdraganda og verknaðinum sjálfum. Kvaðst hann hafa verið í sambandi við A undanfarin ár, hún hafi verið góð vinkona hans, þau hafi oft hist og hann hafi átt samlíf með henni. Þau hafi þó ekki búið saman né verið par. Ákærði kvaðst hafa verið í sambandi við ákærðu síðustu daga fyrir verknaðinn og þau hafi verið í neyslu lyfja og fíkniefna. Umræddan dag, sem ákærði mundi ekki hvort var föstudagur eða laugardagur, hafi hin látna dregið hníf upp úr veski sínu, með rauðu skafti, og öskrað á hann að hún ætlaði að drepa hann. Ákærði kvaðst ekkert muna eftir það. Þá myndi hann ekki eftir því að sendill hafi komið með pizzu til hans á laugardeginum. Ákærði kvaðst eiga til að missa minnið sé honum ógnað eða ef hann er beittur ofbeldi og sé það óháð neyslu fíkniefna. Ákærði kvaðst aldrei hafa veist að A eða veitt henni áverka áður og hann hafi engan veginn ætlað að bana A. A hafi hins vegar oft verið erfið í samskiptum og hann þá yfirleitt getað róað hana niður. Ákærði hafnaði alfarið bótakröfum í málinu.
Vitnið I, [...] ákærða, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu eftir að hafa hlustað á framburð ákærða í dómsalnum. Er trúverðugleiki vitnisburðar hans metinn í ljósi þess. Kvað vitnið ákærða hafa [...]. Kvaðst vitnið hafa hitt ákærða bæði á föstudeginum og laugardeginum. Hafi þeim oft sinnast vegna umgengni ákærða og slegist þegar vitnið hafi gert athugasemdir við umgengni hans. Þess vegna hefði vitnið ekki opnað inn til ákærða í umrætt sinn er það var að kanna hvort allt væri í lagi. Vitnið hafi ekki vitað til þess að A hafi verið í húsinu því A hafi vitað að hann myndi hringja á lögregluna, ef hún sæist þar, til að láta fjarlægja hana af heimili hans. A hafi verið bannað að koma á heimili vitnisins þar sem henni hafi ætíð fylgt mikil neysla lyfja og fíkniefna, óregla og læti. Vitnið kvaðst eitt sinn hafa beðið lögregluna um að fjarlægja hníf, sem A hafi verið með, um leið og hún hafi verið fjarlægð. Vitnið kvaðst hafa fundið sérkennilega lykt í húsinu um þessa helgi og haldið að þar væri um skemmd matvæli væri að ræða. Vitnið hafi komist að því seinna af hverju lyktin stafaði. Ákærði hefði fært sig milli herbergja um helgina og því hafi vitnið rætt við ákærða og skipað honum að fara í sitt herbergi aftur. Vitnið hafi þá ekki haft hugmynd um að A væri í húsinu. Vitnið kvaðst, aðspurt, margoft hafa gengið á milli A og ákærða í áflogum og oft séð A ráðast á hann. Hafi þau hegðað sér eins og stjórnlaus dýr þegar þau voru undir áhrifum lyfja.
Vitnið J, [...] A, kom fyrir dóminn og kvað A og ákærða hafa verið par. A hafi alltaf verið óörugg gagnvart ákærða og hafi vitnið séð A marða eftir ákærða og heyrt um fleiri atvik. Vitnið kvaðst ekki hafa viljað hitta A ef ákærði var með henni þar sem vitnið kvaðst hafa óttast ákærða. A hafi hringt í sig síðdegis fimmtudaginn 2. febrúar og beðið sig að aka henni og ákærða. Vitnið kvaðst hafa neitað henni þar sem hún hafi verið með ákærða. A hafi virst vera undir áhrifum einhverra efna, sennilega örvandi efna. Vitnið kvaðst hafa eftir A að þau hafi bæði brotið húsgögn og hluti á heimili A þegar þau hafi orðið reið.
Vitnið E, [...] A, kom fyrir dóminn og kvað A hafa hringt í sig fimmtudaginn 2. febrúar sl. og talað um að ákærði hafi haft af henni peninga og beðið vitnið um að hjálpa sér að ná þeim peningum til baka. A hafi hringt nokkrum sinnum og síðast þá um kvöldið. A hafi verið frekar æst vegna þessara peningamála. Vitnið hafi ekki getað sinnt henni eða veitt henni liðsinni vegna vinnu. Taldi vitnið að A hafi verið í [...] þegar hún hringdi þennan dag. Vitnið kvaðst hafa heyrt frásagnir af því að ákærði hafi veitt A áverka.
Vitnið K lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína um rannsókn á vettvangi. Staðfesti vitnið að hnífur, sem fannst á vettvangi, hafi verið notaður við verknaðinn en blóð úr hinni látnu hafi greinst á hnífnum. Fleiri hnífar hafi verið á vettvangi en ekki fundist blóð á þeim. Lýsti vitnið blóðbletti á vegg, sem væri mjög sérstakur blóðferill, en þar megi greina hreyfingu sem nefnist yfirfærslublettur. Sé það þegar blóðugur hlutur eða manneskja kemst í snertingu við hreinan flöt, í þessu tilviki vegg, þá megi sjá hreyfingu frá hægra horni upp eftir veggnum, viðkomandi hafi staðnæmst uppréttur, þar sé óregluleg blóðýring sem samsvari blóði í hári, þar hafi hún væntanlega verið sitjandi. Síðan færst einhverja sentimetra til hliðar og síðan fallið til vinstri í þá stellingu sem líkið hafi fundist í. Sjá megi blóðtauma á veggnum sem sýni að enn hafi blóð verið að renna. Á rúminu við fótgaflinn og undir rúminu megi sjá dökka blóðbletti sem séu dæmigerðir blettir fyrir útandað blóð sem þýði að annaðhvort sé hin látna í dauðateygjum eða að verið sé að færa líkið undir rúmið. Það sé mat lögreglu að við rúmgaflinn hafi henni verið veitt það sár á hálsi sem varð henni að bana. Hafi vitnið borið þessa greiningu sína undir einn færasta blóðferlafræðing í heimi sem hafi verið algjörlega sammála.
IV.
Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa orðið A að bana eins og greinir í ákæru. Kvaðst ákærði hins vegar ekki muna eftir því, en áður hefði A dregið upp hníf úr veski sínu, verið ógnandi og öskrað á hann. Meira kvaðst ákærði ekki muna fyrr en hann kom á lögreglustöðina á mánudeginum. Er ekkert fram komið í málinu sem véfengir þá frásögn.
Með játningu ákærða, sem er í samræmi við framburð vitna og læknisfræðileg gögn í málinu, er sannað að ákærði veittist að A með hnífi og stakk hana ítrekað í líkamann eins og lýst er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Ákærði bar fyrir dóminum að hann hefði ekki haft ásetning til að verða A að bana og kvaðst ekkert muna frá því að hún dró hníf upp úr veski sínu og öskraði að honum. Lýsti hann hnífnum svo að hann væri með rauðu skafti. Samrýmist það lýsingu á hnífnum sem fannst á vettvangi með blóði á úr hinni látnu. Ákærði átti þá þegar möguleika á að forða sér en ekkert bendir til að hann hafi gert tilraun til þess. Þá voru engir varnaráverkar á ákærða sem bentu til að á hann hafi verið ráðist, enda bar hann því ekki við. Verður við það miðað að allavega þá hafi hjá ákærða myndast ásetningur um að veitast að A með hnífi. Ákærði stakk A ítrekað í líkamann. Meðal áverka voru stungur á vinstra brjósti sem sneru að hjarta og gekk ein stungan inn í lunga. Þá var A skorin á háls þannig að gat kom á barka. Hvor áverki fyrir sig var banvænn. Við krufningu kom í ljós að A hefur ekki verið látin þegar henni var veittur áverkinn á hálsi þar sem innöndun á blóði kom í ljós. Samrýmist það einnig blóðferlarannsókn sem sýndi að blóð á rúmbotni væri vegna útöndunar eða hósta. Auk þess sýndu blóðferlar á vegg, þar sem talið er sannað að A hafi verið upp við og síðan fallið í þá stöðu sem hún lést í, að hún hafi verið á lífi. Þá voru henni veitt stungusár eftir að hún lést. Allt þetta sýnir að ákærði hafi haft ásetning til að verða henni að bana. Af framburði réttarmeinafræðings og K blóðferlasérfræðings verður ekki annað ályktað en að ákærði hafi gengið ákveðið til verksins og beitt hnífnum af afli. Atlaga ákærða að A var hrottaleg.
Þá verður að líta til þess að ákærði átti þann möguleika að forða sér út úr íbúðinni eða kalla á hjálp hafi hann talið sér ógnað. Verður sú ógn sem hann taldi sér hafa stafað af A ekki metin honum til refsilækkunar. Með hliðsjón af þeim áverkum sem fundust á líkinu verður ekki önnur ályktun dregin en að verknaðurinn hafi verið unninn af ásetningi, einkum með hliðsjón af fjölda áverka, staðsetningu þeirra og afleiðinga.
Ákærði játaði brot sitt er hann kom á lögreglustöð þann 6. febrúar sl., en við mat á því verður að líta til þess að þá hafði A verið dáin í þrjá til fjóra daga í herbergi hans. Er játning ákærða í samræmi við gögn málsins og hefur ákærði gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru og varðar við 211. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þann verknað. Ákærði er sakhæfur og verður honum gerð refsing fyrir.
Ákærði er fæddur 1989 og var því rétt orðinn 23 ára gamall er hann framdi brotið. Ákærði hefur tvisvar áður hlotið refsingu svo skipti máli. Þann 23. júní 2011 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir þjófnað og nytjastuld o.fl. Þann 3. janúar 2012 var ákærði dæmdur í sjö mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir líkamsárás o.fl. Var honum þá gerður hegningarauki við fyrri refsingu. Með broti sínu nú rauf ákærði skilorð síðari dómsins. Við mat á refsingu telur dómurinn að ákærði eigi sér engar málsbætur þrátt fyrir ungan aldur og kemur ekki til álita að milda refsingu nema að því marki að skilorðsrofið bætist ekki við þá refsingu sem honum verður gerð fyrir þennan verknað. Telur dómurinn að 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 eigi ekki við til refsiþyngingar í máli þessu þar sem ósannað er, gegn mótmælum ákærða, að hin látna hafi verið nákomin ákærða í skilningi ákvæðisins. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1., 2., 3., 6., 7. og 8. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 16 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga kemur gæsluvarðhald, sem ákærði hefur sætt frá 6. febrúar 2012, til frádráttar refsingu.
V.
Ákærði hefur hafnað bótaskyldu gagnvart foreldrum A heitinnar og syni hennar.
Í málinu gerir B, kennitala [...], sonur hinnar látnu, kröfu þess efnis að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 4.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar 2012, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Er krafa bótakrefjanda reist á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ljóst er að með broti sínu hefur ákærði valdið syni A, sem er 18 ára gamall, ómældum þjáningum og miska vegna missis móður sinnar og á hann rétt á miskabótum vegna þess. Að þessu virtu þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 2.000.000 krónur. Fallist er á dráttarvaxtakröfu eins og hún er fram sett, en krafist er dráttarvaxta frá þeim tíma er mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var kynnt fyrir ákærða, sem var við birtingu fyrirkalls þann 16. maí 2012. Þá verður ákærði, með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, dæmdur til að greiða bótakrefjanda 250.000 krónur í málskostnað ásamt virðisaukaskatti skv. lögum nr. 50/1988.
C, kennitala [...], faðir hinnar látnu, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur vegna útfarar dóttur hans, að fjárhæð kr. 1.500.000, auk þess krefst hann miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar 2012, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Undir rekstri málsins lagði bótakrefjandi fram reikninga til stuðnings kröfunni um útfararkostnað. Er um að ræða reikning frá útfararþjónustu að fjárhæð 364.421 króna, auglýsingakostnað að fjárhæð 10.153 krónur og kostnað vegna legsteins að fjárhæð 561.877 krónur. Ákærði mótmælti sérstaklega kostnaði vegna legsteins og kvað engin fordæmi fyrir því að bótakrefjandi fengi greiddar bætur fyrir legstein. Bótakrefjandi kvað enga erfidrykkju hafa verið og því sé enginn kostnaður vegna hennar, sem venja væri fyrir að fá bættan. Verður að telja að útfararkostnaði sé stillt í hóf og verður ákærða gert að greiða 936.451 krónu í útfararkostnað ásamt dráttarvöxtum frá þeim degi er ákærða var kynnt bótakrafan eins og í dómsorði segir. Ekki þykja skilyrði til að taka kröfu bótakrefjanda um fatnað á son hinnar látnu til greina og verður að hafna þeirri kröfu.
Ákærði hefur valdið föður A miklu áfalli og langvarandi andlegri þjáningu og ber með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 að dæma ákærða til að greiða honum miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. febrúar 2012 þar til mánuður er liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan eins og segir nánar í dómsorði. Þá verður ákærði með vísan til 3. mgr 176. gr. laga nr. 88/2008 dæmdur til að greiða bótakrefjanda 250.000 krónur í málskostnað ásamt virðisaukaskatti skv. lögum nr. 50/1988.
D, kennitala [...], móðir hinnar látnu, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. febrúar 2012, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Með sömu rökum og að ofan greinir verður ákærði dæmdur til að greiða D 1.000.000 króna í miskabætur auk vaxta eins og segir nánar í dómsorði auk málskostnaðar, 250.000 króna, auk virðisaukaskatts.
VI.
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 skal dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, samtals 2.576.744 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 800.000 krónur auk ferðakostnaðar, 53.280 króna. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Hlífar Vatnar Stefánsson, skal sæta fangelsi í 16 ár. Til frádráttar refsingunni skal gæsluvarðhald frá 6. febrúar 2012 koma að fullri dagatölu.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 2.576.744 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 800.000 krónur, auk ferðakostnaðar, 53.280 króna.
Ákærði greiði B, 2.000.000 króna í miskabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. febrúar 2012 til 16. júní 2012, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B 250.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði C, 1.000.000 króna í miskabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. febrúar 2012 til 16. júní 2012 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði C 936.451 krónu í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. maí 2012 til 16. júní 2012 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði C 250.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði D, 1.000.000 króna í miskabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. febrúar 2012 til 16. júní 2012 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði D 250.000 krónur í málskostnað.