Hæstiréttur íslands
Mál nr. 442/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Miðvikudaginn 3. júlí 2013. |
|
Nr. 442/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2013, þar sem varnaraðila var gert að afplána 135 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. [...] [...]. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...]-[...], verði gert að afplána 135 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-[...]/[...], frá [...]. [...] [...], sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins 12. mars 2013.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...]. [...] [...] hafi kærði hlotið tíu mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar. Með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 12. mars 2013 hafi honum verið veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsingarinnar, 135 dögum.
Tekið er fram að krafan varði lögreglumál nr. 007-2013-[...], þ.e. fyrir ofbeldi gegn valdstjórninni, líkamsárás og fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu, með því að hafa, sunnudaginn 30. júní 2013, slegið lækni á slysadeild Landspítalans, Fossvogi, sem reynt hafi að róa kærða niður, en kærði hafi haft frammi ógnandi hegðun við starfsmenn slysadeildar. Þegar lögreglan hafi gefið kærða skipun um að leggjast á gólfið, hafi hann ekki gert það heldur haldið áfram ógnandi hegðun. Að lokum hafi lögregla þurft að beita varnarúða og kylfu á kærða til að koma honum í handjárn. Auk þessa hafi kærði játað hnupl í Vínbúðinni Kringlunni 6. júní sl. (Málsnr.: 007-2013-[...]) og sé sterklega grunaður um innbrot og þjófnað á veitingastað í austurborginni þann 25. júní sl. (Málsnr.: 007-2013-[...]).
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að öll lagaskilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé fullnægt, enda hafi kærði með ofangreindri háttsemi sinni rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Þá sé og ljóst að mati lögreglu að hann sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið afbrot er varðað get allt að sex ára fangelsi. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Í málinu liggja fyrir tvær skýrslur lögreglumanna sem bera um að kærði hafi slegið lækni, sem er opinber starfsmaður, hnefahöggi í andlitið. Þá ber lögreglumönnunum saman um að kærði hafi látið ófriðlega og hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu, auk annars sem nánar er lýst hér fyrr. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1940 varðar það allt að 6 ára fangelsi að veitast að opinberum starfsmanni með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi. Verður með vísan til framangreindra skýrslna lögreglumanna talið að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn framangreindri lagagrein. Þykir þegar af þeim ástæðum fullnægt skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um að kærði hafi á reynslutíma rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar.
Samkvæmt ofanrituðu eru uppfyllt skilyrði til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærða verði gert að afplána 135 daga eftirstöðvar refsinga sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar um reynslulausn 12. mars 2013.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...]-[...], skal afplána 135 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S[...]-/[...] frá [...]. [...] [...], sbr. reynslulausn sem kærða var veitt af Fangelsismálastofnun 12. mars 2013.