Hæstiréttur íslands

Mál nr. 314/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Halldór Rósmundur Guðjónsson saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Með úrskurði héraðsdóms var X gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til 15. júní 2017. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að skilyrði gæsluvarðhalds væru uppfyllt, en stytti tímabil gæsluvarðhalds um u.þ.b. tvær vikur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. maí 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 15. júní 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þó þannig að því verði markaður sá tími sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. júní 2017 klukkan 16.                

 

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 18. maí 2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, fædd [...], [...] ríkisborgara, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 15. júní 2017, kl. 16:00.

  Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að borist hafi tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar skömmu eftir miðnætti 8. maí 2017, um að kærða hefði verið stöðvuð á tollhliði, vegna gruns um að hún kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum, í kjölfar komu hennar hingað til lands með flugi [...] frá [...].

Tekið hafi verið sýni úr botni ferðatösku kærðu sem hafi gefið jákvæða svörun á kókaín. Í framhaldinu hafi kærða verið handtekin og færð á lögreglustöðina við Hringbraut 130, Reykjanesbæ. Kærða hafi einnig gengist undir röntgenskoðun sem hafi sýnt að hún hafi ekki haft aðskotahluti innvortis.

Í viðræðum lögreglu við kærðu hafi hún greint m.a. frá því að hún væri [...] ríkisborgari en hefði búið lengi í [...]. Hún væri ekki eigandi töskunnar og að hún hafi komið hingað til lands í atvinnuleit. Hafi aðili að nafni A beðið hana um að taka töskuna með til Íslands. Niðurstaða tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi verið sú að í botni ferðatösku kærðu hafi verið samtals 296,94 g af kókaíni.

Framangreind fíkniefni hafi verið send Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands til frekari rannsóknar. Þá hafi lögregla aflað rannsóknarúrskurða frá Héraðsdómi Reykjaness vegna rannsóknar málsins. Einnig hafi lögregla sent fyrirspurnir til erlendra löggæsluyfirvalda vegna málsins.

Rannsókn málsins miði vel og hafi kærða verið yfirheyrð tvívegis vegna málsins. Við skýrslutökur hafi kærða að meginstefnu til haldið sig við þann framburð sem hún gaf lögreglu í kjölfar handtöku 8. maí s.l. Nánar tiltekið að aðili að nafni A sem hún hafi nýverið kynnst hafi boðið henni að fara til Íslands. Hann hafi séð um að bóka flug fyrir kærðu og jafnframt látið hana hafa ferðatösku til að fara með til Íslands. Sjálf hafi hún ekki gert neinar ráðstafanir varðandi gistingu hér á landi en A hafi tjáð henni að vinur hans hér á landi myndi taka á móti henni og sjá um hana á meðan hún dveldi hér á landi. Hún hafi hins vegar átt að láta þennan aðila hafa föt sem A hafi sett í ferðatöskuna áður en hann afhenti kærðu töskuna. Að sögn kærðu hafi hún ekki verið meðvituð um að ferðataskan innihélt fíkniefni.

Mál þetta snúist um innflutning á hættulegum ávana- og fíkniefnum í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Að mati lögreglustjóra er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst brotleg við ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varði allt að 12 ára fangelsi. Séu þannig uppfyllt skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að kærðu verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er til meðferðar.

Rannsóknin sé enn á viðkvæmu stigi og telur lögreglustjóri að enn sé hætta á að kærða kunni að torvelda rannsóknina gangi hún laus, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Þá telur lögregla einnig hættu á að kærða verði beitt þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hana, af hendi meintra samverkamanna hennar, gangi hún laus. Séu þannig uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Jafnframt megi telja að hætta sé á að kærða muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar verði henni ekki gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Kærða sé erlendur ríkisborgari og virðist ekki eiga nein tengsl við landið. Hún eigi hér hvorki fjölskyldu né stundi atvinnu, auk þess sem lögreglustjóri telur einsýnt að tilgangur ferðarinnar hingað til lands hafi ekki verið í þeim tilgangi að setjast hér að. Telur lögreglustjóri því jafnframt uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 til að kærðu verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Vísast í þessu skyni m.a. til dóma Hæstaréttar Íslands frá 10. nóvember 2011 í málinu nr. 595/2011 og í málinu frá 4. nóvember 2015 nr. 746/2015.

Kærða hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 8. maí s.l., og einangrun frá 8. maí til 15. maí s.l., og sé að mati lögreglustjóra ekki völ á vægari úrræðum. Tímalengd hins umkrafða gæsluvarðhalds sé þannig ekki úr hófi miðað við alvarleika brotsins, stöðu rannsóknarinnar og framgang hennar hjá lögreglu.

Með vísan til alls framangreinds, a- og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknar- og refsivörsluhagsmuni standa til að fallist verði á kröfuna og kærðu verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhald til fimmtudagsins 15. júní 2017, kl. 16:00.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærða undir rökstuddum grun um innflutning á 296,94 g af kókaíni. Kærða hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 8. maí sl. Rannsókn málsins er ekki lokið en ákæra mun verða gefin út innan skamms. Er fallist á að enn sé hætta á því að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hún laus. Þá virðist kærða ekki hafa nein tengsl við landið og má ætla að hún muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn gangi hún laus. Að þessu virtu og með vísan til a- og b- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 15. júní 2017, kl. 16:00.